Hressir krakkar komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna

Frjálsíþróttakrakkar innan HSÞ komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna en þau stefna að því að fara á Gautaborgarleikana sem fram fara í Svíþjóð í júlí 2024. Þau hafa undanfarið verið að leita að styrkjum vegna ferðarinna, hvað það varðar ætla þau að standa fyrir aðventugöngu á íþróttavellinum á Laugum fimmtudaginn 7. desember. Markmiðið er að ganga 100 km. Þeir sem vilja heita á þessa frábæru  krakka geta það með því að senda tölvupóst á netfangið frjalsar.hsth@gmail.com Að sjálfsögðu koma stéttarfélögin að því að styrkja verkefnið með áheitum.  

Vilt þú starfa fyrir Þingiðn?

Þingiðn hefur tilnefnd eftirtalda í kjörnefnd félagsins, Gunnólf Sveinsson, Davíð Þórólfsson og Kristján Gíslason. Gunnólfur er formaður nefndarinnar. Gengið var frá tilnefningunni á fundi innan félagsins fimmtudaginn 30. nóvember 2023.

„Í 21. gr. laga félagsins kemur fram að í nóvember ár hvert, skuli á félagsfundi kjósa kjörnefnd fyrir félagið. Þrír félagar skulu eiga sæti í kjörnefnd. Kjörnefnd gerir tillögur um félagsmenn í allar trúnaðarstöður félagsins fyrir næsta starfsár. Kjörnefnd er heimilt að láta fara fram könnun meðal félagsmanna, um hverjir eigi að gegna trúnaðarstöðum fyrir næsta starfsár. Könnunin skal vera skrifleg. Kjörnefnd skal hafa lokið störfum í síðasta lagi 31. janúar ár hvert. Tillögur kjörnefndar skulu vera félagsmönnum til sýnis á skrifstofu félagsins til 28. febrúar.

Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna. Skylt er að koma breytingartillögum til skrifstofu félagsins fyrir 1. mars.“

Skorað er á félagsmenn Þingiðnar að gefa kost á sér í trúnaðarstörf fyrir félagið. Áhugasömum er bent á að hafa samband við formann kjörnefndar Gunnólf Sveinsson. Jafnframt er hægt að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Nýtt sjóðfélagayfirlit – félagsmenn lesið vel

Framsýn og Þingiðn eru aðilar að Lsj. Stapa í gegnum kjarasamninga fyrir sína félagsmenn. Afar mikilvægt er að félagsmenn fylgist vel með sínum málum er varðar ávinnslu lífeyris.

Sjóðfélagayfirlit með upplýsingum um iðgjaldahreyfingar frá útsendingu síðasta yfirlits eru nú aðgengileg á sjóðfélagavef en yfirlitin birtast einnig í stafrænu pósthólfi á Ísland.is.

Yfirlitið mun á næstu dögum berast til þeirra sem hafa óskað eftir að fá það sent í almennum bréfapósti.

Stapi brýnir fyrir sjóðfélögum að bera iðgjaldagreiðslur saman við launaseðla. Ef upplýsingar um iðgjöld vantar á yfirlitið er áríðandi að tilkynna það til sjóðsins innan 60 daga frá dagsetningu yfirlitsins.

Mikilvægt er að yfirfara hvort launagreiðandi skili inn mótframlagi í samræmi við kjarasamning. Hlutfallstala iðgjalds og mótframlags birtist fyrir aftan nafn launagreiðanda á yfirlitunum. Ef sjóðfélagi er ekki viss um hvert mótframlagið á að vera er rétt að hafa samband við viðeigandi stéttarfélag.

Í spurt og svarað höfum við tekið saman helstu spurningar og svör.

Stapi gaf út nýtt fréttabréf á dögunum en í því er meðal annars fjallað um breytingar á útsendingu yfirlita, réttindakerfi Stapa, kostnað vörsluaðila séreignarsparnaðar, ávöxtun o.fl.

Vinsamlega hafið samband við sjóðinn ef frekari upplýsinga er óskað. Hægt er að senda beiðni á stapi@stapi.is eða hafa samband við okkur í síma 460-4500 til að fá aðstoð.

Lægri tekjur og minna atvinnuöryggi hjá hinsegin fólki

Atvinnutekjur hinsegin karla eru 30% lægri en gagnkynhneigðra karla á ársgrundvelli en hverfandi munur mælist hjá hinsegin konum. Aðeins um helmingur hinsegin fólks á vinnumarkaði er að fullu opið með hinseginleika sinn á vinnustöðum og tæplega 60% segir að almennt halli á kjör þeirra og réttindi á vinnumarkaði.

Sterkt ákall er um aukna umfjöllun um málefni hinsegin fólks á vinnumarkaði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Hagfræðistofnunar um hinsegin vinnumarkað sem unnin var fyrir ASÍ, BHM og BSRB og könnun BHM um hinsegin vinnumarkaðHelstu niðurstöður hafa verið teknar saman í stutt yfirlit sem má sjá hér.

Nálgast má gögnin hér:

Stjórn Þingiðnar fundar á fimmtudaginn

Stjórn Þingiðnar kemur saman til fundar næsta fimmtudag í fundarsal félagsins. Dagskrá fundarins er meðfylgjandi þessari frétt. Nokkur stórmál eru á dagskrá fundarins s.s. komandi kjaraviðræður við SA, íbúðakaup og flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Þá þarf að kjósa kjörnefnd félagsins sem ætlað er að stilla upp í trúnaðarstöður í félaginu til næstu tveggja ára frá dagsetningu næsta aðalfundar að telja sem væntanlega verður haldinn í apríl/maí 2024. Hér með er skorað á áhugasama félagsmenn að gefa kost á sér í trúnaðarstöður innan Þingiðnar.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Hrunabúð
  4. Íbúðakaup
  5. Flugmál Hús-Rvk
  6. Kjarasamningar
  7. Lagabreytingar félagsins
  8. Starfsemi Virk
  9. Heimsókn á Bessastaði
  10. Grindavík-húsnæðiskortur
  11.  Kjörnefnd félagsins
  12.  Önnur mál

Flogið áfram til Húsavíkur 

Samningar hafa náðst milli Flugfélagsins Ernis og Vegagerðarinnar, um áframhaldandi flug til Húsavíkur næstu 3-4 mánuðina. Búið er að opna fyrir sölu á flugi til loka febrúar, hið minnsta. Flogið verður fimm sinnum í viku. Ljóst er að full þörf er á þessum samgöngumáta inn á svæðið hvort sem er fyrir almenning, fyrirtæki, stofnanir eða ferðaþjónustu. Flugfélagið Ernir vill koma því á framfæri að fólk getur séð flugáætlunina og jafnframt bókað sig í flug á ernir.is. Á næstu vikum og mánuðum mun svo koma í ljós hvort að þjónustustigið verði tryggt til lengri tíma. Framsýn hefur barist fyrir því að fluginu verði viðhaldið milli Reykjavíkur og Húsavíkur, svo verður áfram að sögn formanns félagsins Aðalsteins Árna Baldurssonar.

Ályktað um yfirtöku SÍS á starfsmatinu

Landsfundur bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB fór fram í Keflavík fyrir helgina. Hermína Hreiðarsdóttir, Fanney Hreinsdóttir og Berglind Erlingsdóttir voru fulltrúar STH á landsfundinum sem eru á meðfylgjandi mynd, reyndar vantar Hermínu á myndina. Á fundinum var meðal annars rætt um reynsluna af kjarasamningaviðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) síðastliðið vor, sameiginlegu verkfalli og niðurstöðu samninganna. Rætt var um hvað gekk vel í þeirri baráttu og hvað mætti læra af fenginni reynslu. Einnig voru innri mál rædd eins og umhverfi Kötlu-félagsmannasjóðs og farið yfir stöðu mannauðssjóða félaganna.

Sérstaklegar var fjallað um starfsmatskerfið SAMSTARF sem bæjarstarfsmannafélögin ásamt Sameyki eru aðilar að. Starfmatskerfið er nýtt til að tryggja eftir bestu getu jafnræði í launasetningu og meta virði starfa til launa. Talsverð óánægja er meðal bæjarstarfsmannafélaganna vegna framgöngu SÍS innan starfsmatskerfisins.

Ljóst er að í komandi kjarasamningum munu stéttarfélögin leggja áherslu á að sameiginleg stjórn verði sett yfir kerfið, þar sem samtök launafólks annars vegar og Reykjavíkurborg og SÍS hins vegar ættu sína fulltrúa í jöfnu hlutfalli. Fundurinn samþykkti ályktun þar að lútandi sem sjá má hér.

Góðar fréttir

Flest bendir til þess að flugi til Húsavíkur verði viðhaldið eftir næstu mánaðamót með stuðningi frá ríkinu. Nánar um það hér á heimasíðunni um helgina eða strax eftir helgina. Góða helgi kæru lesendur nær og fjær.

Tekið hús á nýjum trúnaðarmanni

Á ferð sinni um Öxarfjörð í dag komu starfsmenn Framsýnar, þau Aðalsteinn og Agnieszka við hjá nýjum trúnaðarmanni starfsmanna hjá fiskeldi Samherja auk þess að heilsa upp á aðra starfsmenn sem voru við störf. Trúnaðarmaðurinn heitir Ivana Kohútová sem sagðist mjög ánægð með kjörið, markmiðið væri að gera sitt besta. Við óskum henni til hamingju með stöðuna.

Bræður í stuði

Björn Víkingur og Björn Guðmundur Björnssynir eiga margt sameinginlegt enda bræður og drengir góðir. Forsvarsmenn Framsýnar fóru í vinnustaðaheimsóknir í Öxarfjörð í dag og hittu þá fyrir í Skerjakollu sem er lang, lang besta verslunin á Kópaskeri auk þess að vera veitingastaður sem kemur sér vel enda töluvert um uppbyggingu á svæðinu er tengist fiskeldi á landi. Þá er byrjað að byggja íbúðarhúsnæði á Kópaskeri eftir langt hlé sem eru jákvæð tíðindi.

Kjaramál og kaup á orlofsíbúðum til umræðu

Framsýn og Þingiðn stóðu fyrir sameiginlegum félagsfundi í gær um kjaramál, flugsamgöngur og íbúðakaup fyrir félagsmenn. Eins og áður hefur komið fram hafa stéttarfélögin í samráði við aðildarsambönd ASÍ unnið að því að ganga frá kröfugerð gagnvart Samtökum atvinnulífsins, ríkinu, sveitarfélögum og fjármálastofnunum. Að mati verkalýðshreyfingarinnar þurfa allir þessi hagsmunaaðilar að sameinast um að tryggja hér viðunandi ástand í efnahagslífinu með ásættanlegum kjarasamningi, helst langtíma samningi. Góðar umræður urðu um kjaramál og stöðuna en kjarasamningar félagsmanna Þingiðnar og Framsýnar á almenna vinnumarkaðinum falla úr gildi 31. janúar 2024.

Þá urðu umræður um flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Flugfélagið Ernir hefur boðað að hætta flugi um næstu mánaðamót milli þessara áfangastaða. Formaður Framsýnar sem á í viðræðum við flugfélagið ásamt stjórnendum Norðurþings sagðist nokkuð bjartsýn á það að ríkið kæmi með ríkisstyrk svo hægt yrði að viðhalda fluginu áfram. Það myndi væntanlega skýrast í vikunni, en aðilar það er fulltrúar flugfélagsins, Framsýnar og sveitarfélaganna á svæðinu funduðu um málið í gær og ætla að vera í frekara sambandi næstu daga.  

Umræður urðu um kaup félaganna á tveimur orlofsíbúðum sem eru í byggingu í Hraunholtinu á Húsavík, það er í parhúsi. Félögin hafa haft til skoðunar að auka framboð á orlofshúsum fyrir félagsmenn. Að mati félaganna er hagstæðast að fjárfesta í íbúðum á Húsavík en um 60% félagsmanna Framsýnar búa utan Húsavíkur. Þá er kjörið að nota húsin í skiptum fyrir önnur orlofshús sem eru í eigu félaga innan ASÍ og BSRB. Þannig væri hægt, yfir sumarið, að auka möguleika félagsmanna stéttarfélaganna á því að dvelja í orlofshúsum víða um land. Fundarmenn samþykktu samhljóða að fela formönnum Framsýnar og Þingiðnar að ganga til viðræðna við verktaka sem er að byggja parhús í Hraunholti 22 um kaup á íbúðunum enda standist þær kröfur stéttarfélaganna. Um er að ræða 118 m2 íbúðir með útigeymslu.

Dagatölin klár

Dagatöl stéttarfélaganna eru komin úr prentun. Þau eru í boði fyrir alla þá sem vilja. Viðkomandi er velkomið að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og þiggja dagatal.

Til móts við eldri borgara og öryrkja

Framsýn telur að verkalýðshreyfingin verði í næstu kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og ríkið að leggja sérstaka áherslu á málefni eldri borgara og öryrkja. Félagið hefur þegar komið sínum tillögum á framfæri við Starfsgreinasamband Íslands sem fer með umboð félagsins í komandi kjaraviðræðum og í viðræðum við stjórnvöld um aðkomu þeirra að kjarasamningunum.

  • Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við þá kröfu Landssambands eldri borgara að grunnlífeyrir frá TR verði sambærilegur lægsta taxta SGS.
  • Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við þá kröfu Landssambands eldri borgara að frítekjumark vegna lífeyristekna verði hækkað verulega en það hefur verið óbreytt til margra ára.
  • Framsýn telur afar óeðlilegt að mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð falli niður við 70 ára aldur fólks á vinnumarkaði.
  • Framsýn kallar eftir leiðréttingum á framfærsluviðmiðum til að tryggja eldri borgurum mannsæmandi lífsviðurværi.
  • Framsýn telur eðlilegt að tekið verði tillit til þess við ákvörðun lífeyris að lífslíkur sjóðfélaga eru mismunandi. Horft verði til breytinga sem verið er að gera í Danmörku á almannatryggingakerfinu til að mæta misjöfnum lífslíkum.
  • Framsýn telur eðlilegt að séreign verði gerð skattfrjáls.
  • Ríkið jafni að fullu örorkubyrgði lífeyrissjóðanna.

Kalla eftir upplýsingum um breytingar á gjaldskrám

Á síðasta fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar var samþykkt að kalla eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum á félagssvæðinu; Þingeyjarsveit, Norðurþingi og Tjörneshrepp varðandi boðaðar/áætlaðar hækkanir á gjaldskrám sveitarfélaganna milli ára 2023-24.

Um þessar mundir vinnur Framsýn að því að móta kröfugerð félagsins vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins, Samband ísl. sveitarfélaga og ríkið. Vissulega hafa hækkanir sveitarfélaga á gjaldskrám og öðrum þjónustugjöldum áhrif á kröfugerðina þar sem almennir félagsmenn þurfa að hafa burði til að mæta slíkum hækkunum. Þess vegna ekki síst er afar mikilvægt að sveitarfélögin stilli sínum hækkunum í hóf.

Desemberuppbót 2023

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Um er að ræða fasta krónutölu sem tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Áunnar uppbætur skal gera upp samhliða starfslokum.

Almennur vinnumarkaður og iðnaðarmenn:
Desemberuppbót er 103.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist eigi síðar en 15. desember. Þeir sem eru í starfi fyrstu vikuna í desember eða hafa verið samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum eiga rétt á uppbót. Fullt ársstarf miðast við 45 vikur eða 1.800 klst. á tímabilinu 1. janúar til 31. desember.

Ríkið:
Desemberuppbót (persónuuppbót) er 103.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. desember. Þeir sem eru við störf fyrstu viku nóvember eða hafa starfað í 13 vikur samfellt á árinu skulu fá greidda desemberuppbót. Full uppbót miðast við fullt starf tímabilið 1. janúar til 31. október.

Sveitarfélög:
Desemberuppbót (persónuuppbót) er 131.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. desember. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag.

PCC:

Desemberuppbót er 230.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. desember. Greitt skal hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma síðustu 12 mánuði fyrir greiðsludag.

Sjá nánar í kjarasamningum viðkomandi aðila.

Fagna uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulága

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti á fundi sínum 15. nóvember að fagna ákvörðun Bjargs íbúðafélags um að hefja byggingu íbúða á Húsavík í samstarfi við HMS og Norðurþing sem er mikið gleðiefni enda sáu fundarmenn ástæðu til að klappa fyrir ákvörðun Bjargs. Þess má geta að Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg, sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar, hæfi uppbyggingu á Húsavík.:

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fagnar sérstaklega ákvörðun Bjargs íbúðafélags um að hefja byggingu íbúða á Húsavík í samstarfi við HMS og Norðurþing sem samþykkt hafa umsókn íbúðafélagsins um stofnframlög.

Lóðinni Lyngholti 42-52 hefur verið úthlutað til verkefnisins og er þar gert ráð fyrir sex íbúða raðhúsi samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Bjarg er húsnæðissjálfseignastofnun rekin án hagnaðarmarkmiða.  Félagið sem er í eigu Alþýðusambands Íslands og BRSB er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði.  

Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg kæmi að því að byggja upp húsnæði á Húsavík fyrir tekjulágar fjölskyldur. Þess vegna ekki síst er afar gleðilegt að draumsýn félagsins sé að verða að veruleika eftir töluverða baráttu.“ 

Framsýn sendir íbúum Grindavíkur hlýjar kveðjur

Formaður Framsýnar færði formanni Verkalýðsfélags Grindavíkur bréf í gær frá stjórn og trúnaðarráði félagsins en þeir hittust í Reykjavík. Í bréfinu kemur m.a. fram að félagið sendi verkafólki og öðrum íbúum Grindavíkur hlýjar kveðjur á þessum erfiðu tímum  þegar ekkert er vitað um stöðuna varðandi frekari jarðhræringar og hugsanlegt eldgos á Reykjanesinu. Hugurinn sé hjá íbúum Grindavíkur. Sjá bréfið:

Verkalýðsfélag Grindavíkur
Hörður Guðbrandsson
Víkurbraut 46
240 Grindavík

Kæru félagar í Verkalýðsfélagi Grindvíkur!

Framsýn stéttarfélag sendir verkafólki og öðrum íbúum Grindavíkur hlýjar kveðjur á þessum erfiðu tímum  þegar ekkert er vitað um stöðuna varðandi frekari jarðhræringar og hugsanlegt eldgos á Reykjanesinu. Hugur okkar, líkt og landsmanna allra, er hjá ykkur.

Félagið færir jafnframt viðbragðsaðilum,  sem lagt hafa nótt við dag við krefjandi aðstæður, þakkir fyrir sín góðu störf og óskar þeim góðs gengis í verkefnunum sem framundan eru.  

Það er von Framsýnar að jarðhræringarnar valdi sem minnstum skaða og daglegt líf íbúa í Grindavík komist sem fyrst  í eðlilegt horf.

Þannig samþykkt á stjórnar og trúnaðarráðsfundi félagsins 15. nóvember 2023.

Húsavík 15. nóvember 2023

Virðingarfyllst

Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson

Sameiginlegur fundur Þingiðnar og Framsýnar

Framsýn og Þingiðn standa fyrir sameiginlegum félagsfundi þriðjudaginn 21. nóvember kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Umræðuefni fundarins eru komandi kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins, en kjarasamningar félaganna eru lausir í lok janúar 2024 og kaup á nýjum orlofsíbúðum fyrir félagsmenn.

Stjórn og trúnaðarráð leggur til breytingar á reglugerðum

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar 15. nóvember var samþykkt að leggja til við aðalfund félagsins, sem væntanlega verður haldinn vorið 2024, að viðurlög gagnvart hugsanlegum brotum félagsmanna komi inn í reglugerðir sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs félagsins. Ástæðan er einföld, því miður hefur verið að færast í vöxt að fólk hafi verið að falsa kvittanir og umsóknir er varðar ekki síst greiðslur úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum innan aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Fram að þessu hefur Framsýn ekki þurft að taka á svona svikum en félagið vill bregðast við hugsanlegum svikum með skýrum reglum um hvernig skuli tekið á slíkum málum komi þau upp. Vonandi kemur ekki til þess að þess þurfi. Breytingarnar sem eru lagðar til á reglugerðum sjóðanna eru svohljóðandi:   

Sjúkrasjóður:

Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga skal umsókn hans hafnað að svo stöddu. Sjóðfélagi sem gefur rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum, fyrirgerir rétti sínum til greiðslna úr sjúkrasjóði. Endurkrefja skal sjóðfélaga um allar greiðslur sem þannig eru fengnar, auk dráttarvaxta. Félagið áskilur sér til að kæra mál til lögreglu ef grunur er um eitthvað saknæmt.

Fræðslusjóður Framsýnar:

Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá félagsmanni skal umsókn hans hafnað að svo stöddu. Félagmaður sem gefur rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum, fyrirgerir rétti sínum til greiðslna úr Fræðslusjóði Framsýnar. Endurkrefja skal félagsmann um allar greiðslur sem þannig eru fengnar, auk dráttarvaxta. Félagið áskilur sér til að kæra mál til lögreglu ef grunur er um eitthvað saknæmt.

Dear comrades in Verkalýðsfélag Grindavíkur! 

Framsýn labour union its companions and other inhabitants of Grindavík it´s best regards in these dire times when nothing is clear about future earthquakes and possible eruption in Reykjanes. Our thoughts are with you, as are the thoughts of all our fellow citizens. 

Framsýn would also like to thank all responders for their work, having had to work day and night in the most demanding of circumstances and also wish them good luck in future tasks. 

Hopefully the tremors will cause as little damage as possible and people´s daily routine in Grindavík will restart. 

Agreed by Framsýn´s board on the 15th of November 2023. 

On the behalf of Framsýn labour union 

Aðalsteinn Árni Baldursson