Stjórn og trúnaðarráð leggur til breytingar á reglugerðum

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar 15. nóvember var samþykkt að leggja til við aðalfund félagsins, sem væntanlega verður haldinn vorið 2024, að viðurlög gagnvart hugsanlegum brotum félagsmanna komi inn í reglugerðir sjúkrasjóðs og fræðslusjóðs félagsins. Ástæðan er einföld, því miður hefur verið að færast í vöxt að fólk hafi verið að falsa kvittanir og umsóknir er varðar ekki síst greiðslur úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum innan aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Fram að þessu hefur Framsýn ekki þurft að taka á svona svikum en félagið vill bregðast við hugsanlegum svikum með skýrum reglum um hvernig skuli tekið á slíkum málum komi þau upp. Vonandi kemur ekki til þess að þess þurfi. Breytingarnar sem eru lagðar til á reglugerðum sjóðanna eru svohljóðandi:   

Sjúkrasjóður:

Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá sjóðfélaga skal umsókn hans hafnað að svo stöddu. Sjóðfélagi sem gefur rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum, fyrirgerir rétti sínum til greiðslna úr sjúkrasjóði. Endurkrefja skal sjóðfélaga um allar greiðslur sem þannig eru fengnar, auk dráttarvaxta. Félagið áskilur sér til að kæra mál til lögreglu ef grunur er um eitthvað saknæmt.

Fræðslusjóður Framsýnar:

Berist ekki fullnægjandi gögn og upplýsingar frá félagsmanni skal umsókn hans hafnað að svo stöddu. Félagmaður sem gefur rangar eða villandi upplýsingar eða leynir upplýsingum, fyrirgerir rétti sínum til greiðslna úr Fræðslusjóði Framsýnar. Endurkrefja skal félagsmann um allar greiðslur sem þannig eru fengnar, auk dráttarvaxta. Félagið áskilur sér til að kæra mál til lögreglu ef grunur er um eitthvað saknæmt.

Deila á