Fagna uppbyggingu húsnæðis fyrir tekjulága

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti á fundi sínum 15. nóvember að fagna ákvörðun Bjargs íbúðafélags um að hefja byggingu íbúða á Húsavík í samstarfi við HMS og Norðurþing sem er mikið gleðiefni enda sáu fundarmenn ástæðu til að klappa fyrir ákvörðun Bjargs. Þess má geta að Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg, sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar, hæfi uppbyggingu á Húsavík.:

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fagnar sérstaklega ákvörðun Bjargs íbúðafélags um að hefja byggingu íbúða á Húsavík í samstarfi við HMS og Norðurþing sem samþykkt hafa umsókn íbúðafélagsins um stofnframlög.

Lóðinni Lyngholti 42-52 hefur verið úthlutað til verkefnisins og er þar gert ráð fyrir sex íbúða raðhúsi samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Bjarg er húsnæðissjálfseignastofnun rekin án hagnaðarmarkmiða.  Félagið sem er í eigu Alþýðusambands Íslands og BRSB er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði.  

Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg kæmi að því að byggja upp húsnæði á Húsavík fyrir tekjulágar fjölskyldur. Þess vegna ekki síst er afar gleðilegt að draumsýn félagsins sé að verða að veruleika eftir töluverða baráttu.“ 

Deila á