Sumarferð stéttarfélaganna

Sumarferð stéttarfélaganna í ár verður farin um miðjan ágúst. Að þessu sinni verður boðið upp á  göngu- og sögu ferð í Bárðardal. Farið verður með rútu frá Húsavík og er um að ræða ferð að Skjálfandafljóti undir leiðsögn Guðrúnar Tryggvadóttur. Gengið verður frá bílastæði skammt innan við Stórutungu og þaðan rölt eftir þægilegri slóð út í  Aldey, eftir henni upp að Aldeyjarfossi og Ingvararfossum. Farið til baka merkta leið sem liggur eftir gömlum, vel grónum farvegi fljótsins og  er einstaklega falleg. Sannkölluð ævintýraferð um sérstæða náttúruperlu, þar sem farið verður til að njóta. Að venju verður grillað í lok ferðar. Um er að ræða fremur auðvelda gönguleið sem ætti að vera við flestra hæfi. Þátttökugjaldið verður kr. 5000,- fyrir félagsmenn og gesti þeirra. Ferðin verður nánar auglýst síðar.

Orlofsíbúð í boði á Spáni

Félagsmönnum Framsýnar, Þingiðnar og STH stendur til boða tveggja herbergja íbúð í Alicante á Spáni. Um er að ræða íbúð á neðri hæð í litlu fjölbýli með nokkuð stóru útisvæði sem tilheyrir þessari íbúð eingöngu. Auk svefnherbergis er baðherbergi, rúmgóð stofa, eldhús og þvottahús með þvottavél. Í heildina eru svefnstæði fyrir fjóra í tvíbreiðu rúmi í herbergi og svefnsófa í stofunni. Í húsinu eru rúmföt og tuskur. Íbúðin er í lokuðum íbúðarkjarna með sér sundlaug og útisvæði. Frá flugvellinum í Alicante er um 40 km að íbúðinni. Auðvelt er að komast að henni frá flugvellinum með rútu, leigubíl eða bílaleigubíl.

Margvísleg afþreying er á svæðinu, svo sem bátsferðir, skemmtisiglingar og fleira. Þá er í göngufæri verslunarkjarni þar sem finna má úrval verslana s.s. Primark og H&M. Einnig er stutt í matvöruverslanir s.s. Carrefour. Nokkur flugfélög hafa verið að fljúga frá Keflavík til Alicante.

Vetrartími frá 1. október – 31. mars, vikuleiga kr. 42.000,- og hver dagur eftir það á kr. 5.000,-. Frá þessu verði dragast til viðbótar sérkjör félagsmanna kr. 1.500 per. dag sem gist er í íbúðinni.

Félagsmenn geta fengið íbúðina leigða í allt að 14 daga enda sé hún laus. Ekki er vitlaust að miða tímabil dvalar við hvenær ódýrast er að fljúga til Alicante.

Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið linda@framsyn.is