Orlofshús og -íbúðir

Líkt og undanfarin ár bjóða félögin upp orlofshús og íbúðir. Ákveðið hefur verið að leigugjald fyrir orlofshús og íbúðir verði kr. 32.000 á viku í sumar og leigugjald fyrir orlofsíbúðirnar verði kr. 7.000 fyrir nóttina. Almennir skiptidagar eru föstudagar.  Á umsóknareyðublaði sem fylgir fréttabréfinu kemur fram hvaða vikur orlofshúsin eru í boði.  Í sumar standa félagsmönnum til boða eftirtalin orlofshús og íbúðir.

Umsóknarfrestur og úthlutun

Umsóknum skal skila til Skrifstofu stéttarfélaganna í síðasta lagi 10. apríl nk. Úthlutun fer svo fram næstu daga þar á eftir.

Veruleg niðurgreiðsla

Þess má geta að félögin taka á leigu orlofshús víða um land til að koma til móts við þarfir félagsmanna. Leiguverðið í sumar til félagsmanna verður kr. 32.000. Félagsmenn greiða aðeins hluta að því sem það kostar að hafa húsin á leigu hjá ferðaþjónustu aðilum. Þannig niðurgreiða stéttarfélögin hverja viku niður fyrir félagsmenn um tugi þúsunda kr. per. viku.

Orlofshús fyrir félagsmenn

Rétt er að vekja athygli á því að orlofshús stéttarfélaganna eru aðeins fyrir félagsmenn og fjölskyldur þeirra. Það þýðir að félagsmönnum er óheimilt með öllu að taka á leigu hús fyrir aðra en þá sjálfa.

Bjarkarsel – Flúðum

Orlofshúsið er staðsett í Ásabyggð á Flúðum, ca 100 km frá Reykjavík. Húsið sem er 52 fm skiptist í forstofu, 2 svefnherbergi með sængum og koddum og baðherbergi með sturtu. Svefnpláss fyrir fjóra í tveimur tvíbreiðum rúmum.  Stofan er með sjónvarpi, dvd og útvarpi og fullbúið eldhús. Stór sólpallur er við húsið og þar er heitur pottur í góðu skjóli með gasgrilli.

Mikill trjágróður er umhverfis með útiverusvæði fyrir börnin. Mikið er af merktum gönguleiðum í nágrenningu. Stutt er í hraðbanka, verslun, golfvelli, sundlaug, veitingastaði og fleira. Skammt frá Flúðum er Gullfoss, Geysir, Háifoss, Gjáin og Þjórsárdalur svo eitthvað sé nefnt. Nánari upplýsingar: www.bustadur.is. Þetta orlofshús er einungis í boði yfir sumartímann.

Bláskógar 12, Svínadal

Bústaðurinn er staðsettur í Svarfhólsskógi, 44 m2 með tveimur svefnherbergjum og svefnlofti. Hjónarúm eru í báðum svefnherbergjum auk barnarúms. Á svefnlofti eru aukadýnur. Sængur og koddar eru fyrir átta manns.

Vorið 2008 var endurnýjuð eldhúsinnrétting og gólfefni á neðri hæð endurnýjuð 2020. Baðherbergi endurnýjað vor 2019.
Góður pallur er í kringum bústaðinn, heitur pottur, gasgrill og garðhúsgögn. Þetta orlofshús er einungis í boði yfir sumartímann.

Flókalundur – Barðaströnd

Húsið sem er 42 fm. stendur í Orlofsbyggðinni í Flókalundi sem er rómað svæði fyrir fegurð og stórbrotið landslag enda á Vestfjörðum. Húsið er með 2 svefnherbergjum, stofu og borðstofu með eldhúskrók. Svefnpláss og sængur eru fyrir 6 manns og hægt er að fá lánaða dýnu hjá umsjónarmanni. Þetta orlofshús er einungis í boði yfir sumartímann.

Sundlaug með heitum pottum er í orlofshúsabyggðinni og er hún einungis til afnota fyrir gesti sem dveljast þar. Sundlaugin var byggð 1994. Hún er 6×12 metrar að stærð og öll jafn djúp, 90 cm. Við laugina er heitur pottur og krakkapottur. Við Hótel Flókalund, sem er steinsnar frá byggðinni, er verslun með brýnustu nauðsynjar. 

Orlofshús Kjarnaskógi: Árssel nr. 3

Í Kjarnaskógi við Akureyri er boðið upp á vel búið 53 m2 orlofshús. Í húsinu er þrjú svefnherbergi, eitt með hjónarúmi og tveim aukadýnum og hin tvö með koju. Við húsið er góð verönd og heitur pottur. Þetta orlofshús er einungis í boði yfir sumartímann.

Hægt er að fá leigt lín (sængur- og koddaver, lak og handklæði) fyrir 2.500 kr settið. Einnig er hægt að fá keypt þrif að lokinni dvöl fyrir 18.600 kr.

Orlofshús Illugastöðum

Í boði er nýlegt 48 m2 orlofshús í orlofsbyggðinni Illugastöðum í Fnjóskadal. Byggðin er staðsett á milli Húsavíkur og Akureyrar. Í húsinu er tvö svefnherbergi, annað með hjónarúmi og hitt með tveim kojum. Í stofu er svefnsófi. Við húsið er góð verönd með nýjum heitum potti. Á Illugastöðum er gott leiksvæði fyrir alla fjölskylduna og sundlaug með heitum pottum.

Orlofshús Öxarfirði

Í Dranghólaskógi við Lund bjóða félögin upp á orlofshús allan ársins hring. Húsið er vel búið með þrem svefnherberjum, einu með hjónarúmi og hinum með kojum. Í húsinu eru tvær aukadýnur.

Húsið verður í leiguskiptum sumarið 2024.

Orlofshús Eiðum

Í orlofsbyggðinni Eiðum, sem er 14 km norðan við Egilsstaði, er boðið upp á 54 m2 orlofshús með tveimur svefnherbergjum. Í öðru herberginu er hjónarúm og koja en tvö rúm í hinu. Miklar endurbætur hafa verið unnar á húsinu og í nágrenni þess.  Aðgengi að húsinu hefur verið bætt verulega. Húsið stendur við Eiðavatn og fylgir því aðgangur að árabát.

Orlofshúsið Mörk Grímsnesi

Orlofshúsið er um 52 m2 að stærð með þremur svefnherberjum. Í einu þeirra er hjónarúm og efri koja en í hinum eru kojur. Við húsið er góð verönd og heitur pottur. Húsið er vel staðsett um 15 km frá Selfossi, vestarlega í Grímsnesinu við Sogið.

Orlofshúsið Mörk stendur í hverfinu Skjólborgum við götuna Fljótsbakka 20. Þetta orlofshús er einungis í boði yfir sumartímann.

Orlofshús Svignaskarði: Hús no. 5

Húsið er með þremur svefnherbergjum, stofu, eldhúsi, baðherbergi og geymslu. Svefnpláss er fyrir 6 – 8 manns í rúmum, leirtau og búnaður fyrir að minnsta kosti tíu manns. Heitur pottur er við húsið og gasgrill fylgir.

Gestum er heimilt að koma í húsið frá kl. 16:00 á komudegi og skila þeim hreingerðum fyrir kl. 12:00 á brottfarardegi. Föstudagar eru skiptidagar. Þetta orlofshús er einungis í boði yfir sumartímann.

Orlofshús á Einarsstöðum

Sumarhúsin að Einarsstöðum eru í um 11 kílómetra fjarlægð frá Egilsstöðum en þar er hægt að sækja alla almenna þjónustu, sundlaug, heita potta, matvöruverslanir, flugsamgöngur, lyfjaverslun o.fl. Heitur pottur er við bústaðinn. Stærð bústaðarins er 45 fm sem skiptast í þrjú svefnherbergi, stofu, eldhús og baðherbergi með sturtu.

Svefnaðstaða er fyrir 7 manns. Í tveimur herbergjum eru kojur en í þriðja herberginu er tvíbreitt rúm með koju yfir. Búnaður: Borðbúnaður fyrir átta manns, pottar, pönnur, sængur og koddar fyrir sjö manns fylgja. Lín fylgir ekki en hægt er að fá það leigt fyrir kr. 1200 kr. á rúmið og kr. 400 fyrir baðhandklæði, (sækja og greiða þarf línið hjá umsjónarmanni, hægt er að panta fyrir fram á einarsstadir@simnet.is). Þetta orlofshús er einungis í boði yfir sumartímann fyrir félagsmenn stéttarfélaganna.

Reykingar og húsdýr

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að banna reykingar í sumarhúsum og orlofsíbúðum á vegum félaganna. Þetta var gert til að verða við óskum fjölda félagsmanna sem reykja ekki og kæra sig illa við að vera í tóbaksreyk. Félagsmenn eru hvattir til að virða þetta bann. Húsdýr eru ekki leyfð í orlofshúsum og íbúðum.

Deila á