Staðan tekin – forsvarsmenn KN og Framsýnar funduðu

Framsýn óskaði nýlega eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska vegna sameiningar fyrirtækisins við KS. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Stjórnendur KN urðu við ákalli Framsýnar um fund og funduðu með formanni félagssins í gær. Þar skiptust menn á skoðunum um sameininguna og framtíðaráform fyrirtækisins. Ekki var annað að heyra en að starfstöð fyrirtækisins á Húsavík stæði sterk við sameininguna.

Krefjast fundar með stjórnendum KN þegar í stað

Framsýn óskaði í gærkvöldi eftir fundi með stjórnendum Kjarnafæðis Norðlenska þegar í stað. Þess er vænst fundurinn geti farið fram í vikunni. Fram hefur komið í fjölmiðlum að hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska, stærsta kjötvinnslufyrirtækis landsins, hafa samþykkt tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á fyrirtækinu. Kaupin eru möguleg vegna breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í vor þar sem kjötafurðastöðvar voru undanþegnar samkeppnislögum og fengu heimild til að sameinast. Hópur félagsmanna Framsýnar starfar hjá KN. Hafa þeir snúið sér til félagsins enda hafa þeir töluverðar áhyggjur af stöðunni og sínu starfsöryggi. Þá er það ámælisvert að starfsmenn skuli fyrst frétta af kaupum Kaupfélags Skagfirðinga á fyrirtækinu í fjölmiðlum. Til skoðunar er einnig að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Kaupfélags Skagfirðinga enda um að ræða mikið hagmunamál fyrir félagsmenn Framsýnar, bændur  og samfélagið allt í Þingeyjarsýslum.

Góður fundur með ráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra leit við hjá formanni Framsýnar í gær en hún var á ferðinni hér fyrir norðan. Aðalsteinn Árni var mjög ánægður með heimsóknina og sagði að þau hefðu skipst á skoðunum um þjóðmálin og málefni er tengjast vinnumarkaðinum. Hann sagði að það væri full ástæða til að hæla Áslaugu Örnu fyrir að gefa sér tíma til að líta við en heimsóknin var að hennar frumkvæði.

Félagsmenn Framsýnar samþykktu kjarasamninginn við ríkið 2024-2028

Atkvæðagreiðslu er lokið hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands, vegna nýs kjarasamnings SGS og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs sem undirritaður var 25. júní síðastliðinn. Rafræn atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna stóð yfir dagana 1.-8. júlí.

Á kjörskrá voru 1.309 manns og var kjörsókn 22,84%. Já sögðu 87,96%, nei sögðu 7,69% og 4,35% tóku ekki afstöðu.

Samningurinn var því samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta hjá þeim 18 aðildarfélögum sem eiga aðild að honum, þar á meðal hjá félagsmönnum Framsýnar sem starfa hjá ríkinu. Félagar, innilega til hamingju með nýjan kjarasamning!

Kjarasamningur SGS og ríkisins 2024-2028

Framsýn – Atkvæðagreiðsla hafin um kjarasamning starfsmanna sveitarfélaga

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefst í dag kl. 12:00.  Með því að fara inn á þessa kosningslóð geta félagsmenn Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum greitt atkvæði. Miðað er við þá sem voru í vinnu hjá sveitarfélögunum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp í apríl/maí.

Kosningaslóðin: https://kjosa.vottun.is/home/vote/501?lang=IS

Hægt er nálgast allar helstu upplýsingar um samninginn á upplýsingasíðu um samninginn sem nú er komin í loftið: https://www.sgs.is/kjaramal/kjarasamningar/kjarasamningur-vid-sveitarfelogin-2024-2028/

Rafræna atkvæðagreiðslan stendur til kl. 09:00 mánudaginn 15. júlí og verða niðurstöðurnar kynntar sama dag. Um er að ræða sameiginlega kosningu meðal aðildarfélaga SGS, það er þeirra félaga sem skrifuðu undir kjarasamninginn við Samband ísl. sveitarfélaga.

Kjarasamningur við Landsvirkjun samþykktur

Atkvæðagreiðslu er lokið um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Landsvirkjunar sem undirritaður var 25. júní síðastliðinn. Samningurinn nær til félagsmanna innan aðildarfélaga SGS, þar á meðal félagsmanna Framsýnar, sem starfa hjá Landsvirkjun vítt og breitt um landið og vinna við rekstur, viðhald og aðra þjónustu í dreifikerfum og aflstöðvum sem eru í rekstri.

Á kjörskrá voru 16 manns. Atkvæði greiddu 9, eða 56,25%, og var samningurinn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum. Nýjan samning má nálgast hér.

Framsýn – Kosning hafin um kjarasamning ríkisstarfsmanna

Rafræn atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands  og ríkisins sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn hófst kl. 12:00 í dag. Meðfylgjandi er kosningaslóðin sem viðkomandi félagsmenn geta notað til að kjósa.

Kosningaslóðin: https://kjosa.vottun.is/home/vote/500?lang=IS

Hér er hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um samninginn á upplýsingasíðu um samninginn.

Rafræna atkvæðagreiðslan stendur til kl. 09:00 mánudaginn 8. júlí. Afar mikilvægt er að félagsmenn Framsýnar kjósi um samninginn.

Fréttabréfið kom út í morgun

Fréttabréf stéttarfélaganna kom út í morgun fullt af efni og því verulega efnismikið. Fjallað er um starfsemi stéttarfélaganna og þá er viðtal við formann Framsýnar sem fagnar um þessar mundir 30 ára formennsku í Framsýn. Auk þess hefur hann verið forstöðumaður Skrifstofu stéttarfélaganna í þrjá áratugi. Blaðið er komið í allar helstu verslanir á Húsavík, eftir helgina verður það aðgengilegt í verslunum utan Húsavíkur og á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Starfsmenn Landsvirkjunar – atkvæðagreiðsla hafin

Sameiginleg rafræn atkvæðagreiðsla félagsmanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands sem starfa skv. kjarasamningi Landsvirkjunar og aðildarfélaga, þar á meðal Framsýnar, hófst kl 12:00 þann 28. júní og lýkur 4. júlí kl. 09:00. Afar mikilvægt er að félagsmenn Framsýnar sem starfa hjá Landsvirkjun kjósi um samninginn en þeir starfa við Laxárvirkjun, Þeistareykjavirkjun og  Kröflu.

Félagsmenn kjósa hér:

https://kjosa.vottun.is/home/vote/499?lang=IS

Atkvæðagreiðsla að hefjast um ríkissamninginn

Eins og fram hefur komið hefur Starfsgreinasamband Íslands gengið frá kjarasamningi við ríkið fyrir aðildarfélög sambandsins, þar á meðal Framsýn stéttarfélag. Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og hefst kl. 12:00 mánudaginn 1. júlí – rétt áður en opnað verður fyrir kosningu mun kosningaslóðin birtast á heimasíðu Framsýnar. Slóðin verður einnig aðgengileg á upplýsingasíðu á sgs.is. Atkvæðagreiðslu lýkur kl. 09:00 mánudaginn 8. júlí. Niðurstaðan ætti að liggja fyrir í síðasta lagi um hádegi sama dag.

Kynningarefni:

Framsýn skorar á félagsmenn að taka þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn en hún hefst kl. 12:00 mánudaginn 1. júlí

Framsýn skrifar undir kjarasamning við ríkið

Starfsgreinasamband Íslands hefur undirritað kjarasamning við Fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs. Skrifað var undir í gær, þriðjudag. Kjarasamningurinn nær til aðildarfélaga sambandsins, þar á meðal Framsýnar stéttarfélags. Innan sambandsins eru 1.306 félagsmenn á kjörskrá, þar af eru 139 á kjörskrá hjá Framsýn. Félagsmennirnir starfa m.a. hjá HSN, Skógræktinni, Vegagerðini, þjóðgörðunum og í framhaldsskólunum í Þingeyjarsýslum. Núgildandi kjarasamningur aðila, framlengist frá 1. apríl 2024 til 31. mars 2028 með þeim breytingum og fyrirvörum sem felast í samkomulaginu og fellur þá úr gildi án frekari fyrirvara. Unnið er því að taka saman kynningarefni og frekari upplýsingar um samninginn. Félagsmönnum Framsýnar stendur til boða að greiða atkvæði með rafrænum hætti. Nánari upplýsingar hvað það varðar verða aðgengilegar á heimasíðunni um leið og þær liggja fyrir.

Félagsmenn STH halda áfram að samþykkja kjarasamninga

Rétt í þessu var að klárast rafræn atkvæðagreiðsla um kjarasamning Starfsmannafélags Húsavíkur og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Innan Starfsmannafélags Húsavíkur voru 49 á kjörskrá. Þar af kusu 24 eða samtals 49% félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningnum.

Niðurstöður:

Já = 23 eða samtals 95,83%

Nei = 1 eða samtals 4,17%

Tek ekki afstöðu = 0 eða samtals ,0%

Sjá myndrænar niðurstöður:

SGS vísar kjaradeilu við sveitarfélögin til ríkissáttasemjara

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) telur einsýnt að ekki verði komist lengra í viðræðum við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna endurnýjunar kjarasamnings sem rann út 31. mars 2024. Samningsaðilar hafa átt fjölmarga fundi á undanförnum vikum og mánuðum þar sem SGS hefur komið kröfum sínum málefnalega á framfæri við samninganefnd sveitarfélaganna, en því miður hafa þau fundahöld ekki skilað niðurstöðu sem SGS getur sætt sig við.

Starfsgreinasamband Íslands var og hefur verið leiðandi í mótun á launastefnu í yfirstandandi kjarasamningslotu og leggur sambandið mikla áherslu á að sú launastefna sem mótuð var við undirritun kjarasamninga á almennum vinnumarkaði 7. mars sl. haldi sér.

Í ljósi þess hversu langt er á milli aðila lítur SGS svo á að ekkert annað sé í stöðunni en að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. SGS bindur vonir við að ríkissáttasemjari boði til fundar eins fljótt og auðið er, enda óásættanlegt að launafólk bíði mánuðum saman eftir sanngjörnum kjarabótum. Eins og staðan er í dag er allt í hnút. Framsýn á aðild að kjarasamningi SGS fh. félagsmanna sem starfa hjá Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppi.

Skrifað undir kjarasamning við Landsvirkjun

Rétt í þessu undirrituðu aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands og Landsvirkjun undir nýjan kjarasamning. Gengið var frá samningnum á Teamsfundi og tók formaður Framsýnar þátt í viðræðunum fh SGS. Gildistími samnings er frá 1. febrúar 2024 til 1. febrúar 2028 og fellur hann þá úr gildi án sérstakrar uppsagnar. Hann felur í sér breytingar og viðbætur við kjarasamning Landsvirkjunar og Starfsgreinasambands Íslands. Framsýn á aðild að samningnum fh. félagsmanna sem starfa hjá Kröflu, Laxárvirkjum og Þeistareykjavirkjun.

Félagsmenn STH samþykktu kjarasamninginn

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning Starfsmannafélags Húsavíkur og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisjóðs er lokið.  Á kjörskrá voru 27. Þar af kusu 10 eða samtals 37% félagsmanna sem starfa eftir kjarasamningnum.

Niðurstöður:
Já = 8 eða samtals 80%
Nei = 1 eða samtals  10%
Tek ekki afstöðu = 1 eða samtals 10%

Sjá frekar myndrænar niðurstöður:

Fullt af nýju fólki

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær, um var að ræða fyrsta stjórnar- og trúnaðarráðsfundinn eftir aðalfund félagsins í maí. Það er ánægjulegt til þess að vita að mikill áhugi er fyrir því meðal félagsmanna að taka þátt í öflugu starfi félagsins. Á meðfylgjandi mynd má sjá nýja fulltrúa í stjórn og trúnaðarráði sem skipað er 28 félagsmönnum. Þetta eru þau Stefán Stefánsson, Sólveig Mikaelsdóttir, Sigfús Hilmir Jónsson, Fanný S Cloé Goupil Thiercelin, Rúnar Þór Jóhannsson, Önundur Kristjánsson, Arnór Elí Víðirsson og Ingimar Knútsson. Auk þeirra eru Birta G. Amlin og Jónas Sævarsson ný í stjórnunarstörfum fyrir Framsýn en þau komust ekki á fundinn að þessu sinni.

Baráttan um flugið heldur áfram

Framsýn stéttarfélag mun halda áfram að berjast fyrir flugsamgöngum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Því miður hafa samtöl við þingmenn kjördæmisins skilað litlum árangri, reyndar virðast þeir vera gjörsamlega áhugalausir. Vegagerðin hefur þó hlustað og nú stendur til að bjóða út flugleiðina Reykjavík – Húsavík – Reykjavík eftir því sem best er vitað í þrjá mánuði á ári í þrjú ár. Það er yfir vetrarmánuðina, des-jan-feb. Vegagerðin hefur gefið út að skila þurfi inn tilboðum rafrænt í þessa flugleið fyrir kl. 14:00 þriðjudaginn 2. júlí 2024 og að útboðið verði auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu. Framsýn hefur þegar sett sig í samband við Innviðaráðuneytið og óskað eftir fundi með ráðherra um málið með það að markmiði að tryggja flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Jafnframt hefur Framsýn verið í góðu sambandi við forsvarsmenn Norðurþings um aðkomu þeirra að málinu. Þeir hafa tekið því mjög vel og stefna að sameiginlegum fundi um málið með ráðherra.

Sumarferð aflýst

Sumarferð stéttarfélaganna um komandi helgi á Langanesið er hér með aflýst þar sem þátttakan var ekki nægjanlega góð auk þess sem veðurspáin er ekki spennandi fyrir helgina. Við reynum bara síðar að gera eitthvað skemmtilegt saman.

Félagar í STH – munið að kjósa

Eins og fram hefur komið á heimasíðunni standa yfir rafrænar kosningar um kjarasamninga Starfsmannafélags Húsavíkur við ríkið og sveitarfélögin. Hér má nálgast upplýsingar um innihald kjarasamningana. Sjá slóðir hér að neðan:

Kjarasamningur Starfsmannafélags Húsavíkur við Ríkissjóðs
Slóð: https://kannanir.is/kosning/vidhengi/starfshusariki2024.pdf

Kjarasamningur Starfsmannafélags Húsavíkur við Samband íslenskra sveitarfélaga
Slóð: https://kannanir.is/kosning/vidhengi/sishus2024.pdf