Fræðsludagur hjá 10 bekk Borgarhólsskóla

Nemendur í 10 bekk Borgarhólsskóla ásamt fylgdarliði komu í heimsókn í morgun á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þar fengu þeir innsýn inn í starfsemi stéttarfélaga og hvað þau þurfa að hafa í huga þegar þau hefja störf á vinnumarkaði. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, gerði þeim grein fyrir helstu atriðum og svaraði fjölmörgum spurningum frá mjög svo áhugasömum nemendum.

STH – Katla félagsmannasjóður hefur greitt út

Katla félagsmannasjóður greiddi út til sjóðsfélaga þann 3. febrúar fyrir umliðið ár. Breyting er á reglum sjóðsins þannig að nú er greitt út miðað við innborgun til Kötlu félagsmannasjóðs á tímabilinu 1. janúar til 31. desember árið 2024 frá vinnuveitendum. Dregin er af staðgreiðsla skatta sem er 31,49% en hægt er að leggja fram námskostnað á móti hafi félagsmenn ekki fengið það greitt frá Fræðslusjóði. Að öðrum kosti er um kaupauka að ræða.  Sjá reglur um skattaleg skil á innri vef sjóðsins og á rsk.is

Þeir sem eiga eftir að skila inn upplýsingum til sjóðsins geta gert það áfram en þurfa að klára að fylla út umsókn og verður greitt út við næstu útborgun. Félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur sem starfa hjá sveitarfélögum eiga rétt á greiðslum úr sjóðnum enda hafi þeir verið við störf hjá sveitarfélögum á árinu 2024.

Sjá heimsíðu sjóðsins

Starfsmenn sveitarfélaga – okkur vantar reikningsupplýsingar

Um síðustu mánaðamót greiddi Framsýn samtals 466 félagsmönnum sem starfa hjá Þingeyjarsveit og Norðurþingi samtals kr. 35.979.927,-. Reyndar tókst ekki að greiða þeim öllum út þar sem reikningsupplýsingar vantar fyrir 66 einstaklinga. Hafi starfsmenn sveitarfélaga, sem eru félagsmenn Framsýnar, ekki fengið greiðslu um mánaðamótin er líklegasta skýringin að bankaupplýsingar vanti fyrir viðkomandi aðila. Endilega komið þeim þegar í stað til Skrifstofu stéttarfélaganna svo hægt verði að gera upp við þá. Hægt er að senda upplýsingarnar á netfangið nina@framsyn.is

Hvaða greiðsla er þetta? Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga starfsmanna sveitarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn tilheyrir greiða sveitarfélögin ákveðna greiðslu í Félagsmannasjóð sem Framsýn heldur utan um fyrir starfsmenn sveitarfélaga innan raða félagsins. Þann 1. febrúar ár hvert ber félaginu síðan að greiða upphæðina út til viðkomandi aðila, það er upphæðina sem hefur safnast upp fyrir árið á undan.

Framsýn styrkir Ungmennafélagið Bjarma

Umf. Bjarmi í Fnjóskadal hefur fjárfest í skíðagönguspora ásamt beltabúnaði og tönn. Hefur Land og Skógur, sem hefur yfirumsjón með Vaglaskógi tekið að sér að sjá um sporann, troða brautir, grisja og huga að öðru sem tryggir að allar aðstæður verði til fyrirmyndar. Nýi búnaðurinn mun  gjörbreyta aðstöðu fyrir skíðagöngufólk og annað útivistarfólk  sem sækja skóginn heim yfir vetrartímann. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti nýverið að leggja verkefninu til kr. 200.000,-. Þannig vill félagið koma að því að efla starfsemi Ungmennafélagsins Bjarma sem gegnir líkt og önnur ungmennafélög mikilvægu hlutverki í sínu byggðarlagi. Búnaðurinn kostar nokkrar milljónir og hafa einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki lagt verkefninu lið með fjárframlögum. Það var Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar sem afhendi Úllu Árdal gjöfina frá félaginu.

Aukið framboð á orlofshúsum sumarið 2025

Sameiginleg orlofsnefnd stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hefur ákveðið að bæta við tveimur orlofshúsum/íbúðum sumarið 2024 fyrir félagsmenn. Annars vegar íbúð í Hraunholtinu á Húsavík og síðan nýju orlofshúsi við Stykkishólm, þannig vilja félögin bæta enn frekar aðgengi félagsmanna að orlofshúsum. Reiknað er með að í febrúar verði orlofskostirnir auglýstir á heimasíðunni. Í kjölfarið verði síðan gefið út fréttabréf með helstu upplýsingum um orlofskostina og jafnvel sumarferð sem er verið að skipuleggja. Hún á eftir að koma á óvart. Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta af orlofsnefndinni við störf á fundi sem haldinn var fyrir helgina. Framsýn, Þingiðn, STH og Verkalýðsfélag Þórshafnar eiga aðild að sameiginlegri orlofsnefnd stéttarfélaganna.

Nýtt og betra flokkunarkerfi í Furulundi

Um þessar mundir er verið að ganga frá tunnuskýli við íbúð Framsýnar í Furulundi á Akureyri. Framvegis verður gestum félagsins gert að flokka ruslið sem fellur til við dvöl í orlofsíbúðinni. Búið er að koma fyrir þremur tunnum í sérstöku tunnuskýli. Þess er vænst að gestir verði duglegir að flokka, ef ekki, fá menn ekki frekari aðgang að íbúðinni enda gerir Akureyrarbær miklar kröfur um að íbúar og gestir þeirra á Akureyri kappkosti að flokka ruslið. Gestir Framsýnar virða það að sjálfsögðu náttúrusinnar upp til hópa.

Komu karlpeningnum á óvart á Bóndadaginn

Í tilefni af bóndadeginum héldu samstarfskonur körlum sem starfa með þeim að Garðarsbraut 26 í húsnæði stéttarfélaganna veislu í morgun. Á myndina vantar Ágúst Óskarsson, Benedikt Jóhannsson og Aðalstein Árna en þeir voru einnig á staðnum og nutu veitinga eins og þær gerast bestar en náðust ekki á mynd. Sagan segir að Gunnhildur Gunnsteinsdóttir hafi farið fyrir hópnum en hún var að afgreiða viðskiptavini þegar myndin var tekin en hún er þekkt fyrir sínar hnallþórur. Emilía Aðalsteinsdóttir mun einnig hafa komið að veisluborðinu enda glæsilegt í alla staði. Það er eins gott að karlpeningurinn standi sig á konudaginn með veglegri veislu sem svar við þessu frábæra veisluborði.

Til fróðleiks má geta þess að Bóndadagur nefnist fyrsti dagur Þorra. Takmarkaðar heimildir eru til um þennan dag og siði honum tengdum og því erfitt að ráða í aldur hans og hverju hann tengdist. Af þeim fáu heimildum sem til eru þá er þó ljóst af frásögnum af siðum honum tengdum að hér hafi verið um alþýðutyllidag en ekki hátíðisdag og því alls óvíst hvort hann hafi verið mjög útbreiddur eða hvaða tilstand hafi tíðkast þar sem hann var haldinn.

Núna hefur sú hefð komist á að konur gefi bónda sínum blóm á þessum degi líkt og að menn gefa konu sinni blóm á Konudaginn fyrsta dag Góu. Er þessi siður ekki ýkja gamall og má rekja upphaf hans til þess að Þórður Þorsteinsson blómasali á Sæbóli í Kópavogi auglýsti í útvarpi skömmu fyrir 1980 og hvatti konur til þess að gefa bændum sínum blóm í tilefni dagsins. Nefna má einnig að Þórður þessi var sá sem fyrstur blómasala auglýsti Konudagsblóm og því upphafsmaður að báðum þessum ekki svo ýkja gömlu siðum. Aðrir blómasalar og framleiðendur fylgdu fljótlega í kjölfarið.

Þorrasalir – íbúðir málaðar

Um þessar mundir er unnið að því að mála allar íbúðir Framsýnar og Þingiðnar í Þorrasölum, áætlað er að verkinu verði lokið í byrjun febrúar. Markmið félaganna er að hafa íbúðirnar ávallt í góðu standi félagsmönnum og fjölskyldum þeirra til yndisauka. Félögin eiga 5 íbúðir í Þorrasölum.

Það er gott að búa í Kópavogi, sérstaklega í Þorrasölum.

Vilja halda sig austan Vaðlaheiðar – félagsmönnum best borgið þannig

Framsýn stéttarfélag hefur tekið til umfjöllunar hugmyndir Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri um sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi í eitt 18 þúsund manna stéttarfélag. Hugmyndirnar eru settar fram í bréfi til aðildarfélaga Alþýðusambands Norðurlands þann 4. nóvember 2024. Framsýn hefur fjallað ítarlega um erindið á fundum í félaginu, nú síðast á stjórnar og trúnaðarráðsfundi 21. janúar 2025. Fulltrúum frá Framsýn-ung var einnig boðið að sitja fundinn og hafa áhrif á afstöðu félagsins til sameiningar stéttarfélaga á Norðurlandi.

Niðurstaða Framsýnar er að það sé ekki tímabært að sameinast öðrum stéttarfélögum en þeim sem þegar eru í góðu samstarfi við félagið í dag. Það eru stéttarfélögin Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar sem öll eiga aðild að sameiginlegri skrifstofu á Húsavík, auk þess að vera í góðu samstarfi um málefni er varða starfsemi stéttarfélaga s.s. hvað varðar orlofskosti fyrir félagsmenn. Framsýn er opið fyrir því að hefja viðræður um sameiningu þessara félaga enda sé gagnkvæmur áhugi fyrir slíkum viðræðum, það er stéttarfélaga sem starfa í Þingeyjarsýslum.

Framsýn er félagslega- og fjárhagslega mjög sterkt stéttarfélag sem hefur í gegnum tíðina haft burði til að veita félagsmönnum góða þjónustu og gott aðgengi að styrkjum s.s. náms- og styrkjum vegna veikinda og fyrirbyggjandi aðgerða í formi sjúkradagpeninga. Aðhald í rekstri hefur skilað þessum árangri. Þá hefur félagið látið sig byggða- og atvinnumál varða með það að markmiði að efla svæðið enn frekar félagsmönnum og öðrum íbúum til hagsbóta. Hvað það varðar, verið leiðandi í ákveðnum málum er snúa að atvinnu- og velferðarmálum.

Greinilegt er að félagsmenn kunna mjög vel að meta starfsemi félagsins sem skoðanakannanir sem og ásókn í félagið staðfesta. Fyrir liggur að félagsmönnum Framsýnar hugnast ekki að tapa sjálfstæði félagsins og því sem það stendur fyrir í dag. Hafa þeir komið þessum skilaboðum skýrt á framfæri við forsvarsmenn félagsins, ekki síst eftir fréttaumfjöllun um málið á dögunum. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar vill feta þessa leið áfram félagsmönnum og samfélaginu öllu til góða, það er að fylgja eftir skoðunum félagsmanna á hverjum tíma.

Setið yfir hugmyndum um sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi. Fundarmenn þungir á svip en myndin er tekin þegar málið var til umræðu innan Framsýnar í vikunni.

Félagsmönnum Framsýnar gafst kostur á að hafa skoðanir á hugsanlegri sameiningu stéttarfélaga á Norðurlandi, ekki stóð á svörum frá almennum félagsmönnum, hér eru nokkur dæmi um viðbrögðin en þau voru fjölmörg:

Nei takk, Finnst engin ástæða til að breyta því sem gengur vel, Nei takk, Alls ekki hætta með það sem virkar vel hér heima annars endar þetta á AK, Sé engan ávinning í því, Nei takk, Það má aldrei verða!, Nei, Já Akureyri gleypur, Nei nei alls ekki að sameinast neitt!, Engin ástæða að breyta því sem gengur vel!, Nei bara alls ekki neina sameiningu, Glórulaust verður þá ekki miklu meira mál að fá íbúðir þegar allur þessi fjöldi er kominn í einn pakka?, Ææ helst ekki, Nei takk, Alls ekki takk, Nei takk, Finnst engin ástæða til að breyta því sem gengur vel.

Öll svörin sem bárust voru neikvæð sem þarf ekki að koma á óvart enda mikil ánægja með starfsemi félagsins.

Á fundum Framsýnar er ávallt notast við nýjustu tækni til að auðvelda félagsmönnum utan Húsavíkur að taka þátt í umræðu um starfsemi félagsins s.s. hugsanlega sameiningu við önnur stéttarfélög. Félagssvæði Framsýnar nær yfir um 18% af landinu.

Starfsmenn sveitarfélaga innan Framsýnar – Félagsmannasjóður

Allir félagsmenn Framsýnar stéttarfélags sem störfuðu hjá sveitarfélögum á árinu 2024 eiga rétt á greiðslu úr Félagsmannasjóði 1. febrúar. Iðgjald í sjóðinn er 2,2% af heildarlaunum starfsmanna sem sveitarfélögin standa skil á til Framsýnar sem síðan greiðir starfsmönnum út sinn hluta einu sinni á ári, það er 1. febrúar ár hvert. Um er að ræða greiðslu sem tengist kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands ísl. sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá Norðurþingi, Tjörneshrepp og Þingeyjarsveit. Starfsmenn sveitarfélaga innan Framsýnar eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins berist þeim ekki greiðslurnar í byrjun febrúar.

Vilji til að breyta aðalfundi deildarinnar

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í gær fimmtudaginn 9. janúar. Aðalsteinn J. Halldórsson formaður deildarinnar fór yfir störf deildarinnar milli aðalfunda.

Hann sagði skýrslunni vera ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2024. 

Fjöldi félagsmanna:
Varðandi fjölda félagsmanna þá greiddu 444 einstaklingar til deildarinnar á árinu 2024. Um er að ræða töluverða fjölgun milli ára þar sem 334 greiddu til deildarinnar árið 2023.  Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar alls 488.

Kjaramál:
Þann 13. mars 2024 skrifuðu SA og LÍV undir nýjan kjarasamning til loka janúar árið 2028. Í kjölfarið var samningurinn kynntur fyrir félagsmönnum Framsýnar innan deildarinnar. Markmið samningsins er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þá er markmiðið jafnframt að auka kaupmátt launafólks, skapa fyrirsjáanleika í efnahagslífinu, draga úr verðbólguvæntingum og styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Samningurinn var samþykktur í sameiginlegri atkvæðagreiðslu aðildarfélaga LÍV með 79,50% atkvæða. Nei sögðu 18,06% og 2,44% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru samtals 44.457 félagsmenn aðildarfélaga LÍV. Atkvæði greiddu 8.038 eða 18,08%. Atkvæðagreiðsla um samningin stóð yfir dagana 18. til 21. mars. Þátttaka félagsmanna Framsýnar var með ágætum sé tekið mið af þátttöku félagsmanna annarra stéttarfélaga innan LÍV þar sem við náðum 29,57% kosningaþátttöku, sem þýðir þriðja sætið. Vonandi verður friður á vinnumarkaði á samningstímanum öllum til hagsbóta.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð starfsárið 2024: Aðalsteinn J. Halldórsson formaður, Elva Héðinsdóttir varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir. Varaformaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þá á varaformaður einnig sæti í stjórn Framsýnar-ung. Deildin hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins auk þess sem formaður deildarinnar starfar á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Verslun- og þjónusta:
Á síðasta aðalfundi deildarinnar sem var haldinn í janúar 2024 kom fram megn óánægja með Nettóbúðina á Húsavík, en heimamenn hafa lengi kallað eftir bættri verslunarþjónustu fyrirtækisins, það er bæði á Húsavík og í Mývatnssveit. Óskað var eftir því að  forsvarsmenn Framsýnar myndu beita sér í málinu. Hvað það varðar hefur formaður félagsins fundað með forstjóra Samkaupa í tvígang auk þess að eiga samskipti við forsvarsmenn Samkaupa og Norðurþings um málið í gegnum síma og eins með tölvupóstum, nú síðast í desember.  Formaður deildarinnar hefur einnig verið þátttakandi í þessum viðræðum. Forsvarsmenn Samkaupa hafa verið hvattir til þess að hefja framkvæmdir við nýja Nettó verslun Samkaupa á Húsavík sem fyrst auk þess að huga að því að bæta verslunina í Mývatnssveit. Þá hefur jafnframt verið skorað á Norðurþing að klára skipulagsmálin svo þau standi ekki í vegi fyrir uppbyggingu á verslunarhúsnæði á Húsavík. Bæði Samkaup og Norðurþing hafa haldið því fram að unnið sé að framgangi málsins sem vonandi gengur eftir enda afar mikilvægt að hér rísi öflugur stórmarkaður á allra næstu árum. Það er full ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af verslun og þjónustu á svæðinu. Bakaríið á Húsavík lokaði í september og þá hefur komið fram í máli verslunareigenda að staðan sé ekki alltof góð á félagssvæðinu. Vonandi tekst að snúa þessari þróun við. Það getum við gert m.a. með því að versla sem mest í heimabyggð. Vissulega var það gleðilegt þegar Icewear opnaði glæsilega verslun á Húsavík á árinu 2024 sem styrkir án efa verslunarrekstur á Húsavík.

Þing og ráðstefnur:
Fulltrúar deildarinnar hafa sótt fundi á vegum LÍV, þing og ráðstefnur sem haldnar hafa verið frá síðasta aðalfundi sem varða hagsmuni verslunar- og skrifstofufólks.

Fræðslumál:
Fálagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum kjarasamningsbundnum fræðslusjóði, það er Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Þá hafa þeir einnig aðkomu að Fræðslusjóði Framsýnar sem niðurgreiðir einnig nám til félagsmanna, séu þeir í kostnaðarsömu námi og hafi fullnýtt sinn rétt hjá Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Árið 2024 voru veittir 48 námsstyrkir samtals kr. 2.859.640, það er 36 styrkir til kvenna og 12 styrkir til karla.

Kaup á orlofsíbúð:
Framsýn tók í notkun eina orlofsíbúð að Hraunholti 26 á Húsavík haustið 2024. Um er að ræða 4 herbergja íbúð á einni hæð í tvíbýli. Íbúðin sjálf er 105,7 m2 að stærð auk þess sem um 12 m2 garðskúr fylgir íbúðinni. Kaupverð er kr. 69.350.000,-. Með þessum kaupum vill félagið auka enn frekar þjónustu við almenna félagsmenn. Frá því að íbúðin var tekin í notkun í haust hefur verið mjög góð nýting á íbúðinni. Til skoðunar er að nota íbúðina í skiptum, hluta úr ári, fyrir önnur orlofshús í eigu annarra stéttarfélaga víða um land. Slík skipti opna á nýja og áhugaverða möguleika fyrir félagsmenn, þannig fengju þér aðgengi að orlofshúsum s.s. á Vestfjörðum, Vesturlandi og á Suðurlandinu í staðin fyrir orlofsíbúðirnar á Húsavík, sérstaklega yfir sumartímann.  

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Þá eru fimm starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2024, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hátíðarhöldin 1. maí gengu afar vel og þá tók félagið í notkun nýja orlofsíbúð í Hraunholtinu á Húsavík eins og fram hefur komið í skýrslunni. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum. Sérstaklega ber að þakka Karli Hreiðarssyni fyrir samstarfið en hann gefur ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir félagið enda ekki lengur félagsmaður.

Eftir að formaður hafði farið yfir skýrslu stjórnar urðu umræður um málefni félagsmanna innan deildarinnar. Aðalsteinn J. sagði að til viðbótar mæti geta þess að hann hefði verið boðið að vera gestur á tveimur fundum með Félagi eldri borgara á starfsárinu. Umræðuefnið hefði verið lífeyrismál annars vegar og réttindi þeirra sem hætta á vinnumarkaði hins vegar. Fundirnir hefðu verið mjög áhugaverðir og gefandi. Þá sagði Aðalsteinn Árni frá því að til stæði að selja orlofsíbúð félagsins í Asparfelli og kaupa þess í stað eina íbúð til viðbótar í Þorrasölum. Kauptilboð væri komið í íbúðina í Asparfelli upp á 46, 1 milljón.  

Eftir góðar umræður var komið að stjórnarkjöri. Fyrirliggjandi tillaga um stjórn deildarinnar, starfsárið 2025, var samþykkt samhljóða:

Aðalsteinn J. Halldórsson formaður
Elva Héðinsdóttir varaformaður
Harpa Stefánsdóttir ritari
Anna Brynjarsdóttir meðstjórnandi
Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir meðstjórnandi

Í lok fundar var borin upp tillaga varðandi form aðalfunda deildarinnar sem var samþykkt samhljóða og felst í því að leggja niður formlega aðalfundi, þess í stað verði gert grein fyrir starfsemi deildarinnar á aðalfundi Framsýnar á hverju ári. Tillagan sem var samþykkt er eftirfarandi:

„Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags beinir þeim tilmælum til stjórnar og trúnaðarráðs félagsins að skoðað verði hvort tilefni sé til þess að breyta formi aðalfunda frá því sem nú er samkvæmt starfsreglum deildarinnar. Það er að formlegir aðalfundir falli niður. Þess í stað verði gert grein fyrir starfsemi og kosið í stjórn deildarinnar á aðalfundi Framsýnar ár hvert.“

Aðalsteinn J. sem hér er í heimsókn hjá PCC á Bakka var endurskjörinn sem formaður deildarinnar á aðalfundinum sem fram fór í gær. (Myndir með þessari frétt eru úr myndasafni Framsýnar)

SVEIT – Kastið inn handklæðinu

Um áramótin skrifaði formaður Framsýnar grein inn á Vísi.is um þá sérstöku ákvörðun fyrirtækja innan SVEIT að stofna með sér gervi stéttarfélag sem fengið hefur nafnið „Virðing“. Vissulega er það nokkuð sérkennilegt að hópur veitingamanna á Íslandi telji það vera einu færu leiðina til að halda úti starfsemi, að sniðganga umsamin lágmarkskjör og ákveða launakjör starfsfólks eftir eigin geðþótta. Veitingamenn svöruðu greininni sem kallaði á viðbrögð frá greinarhöfundi, Aðalsteini Árna. Hér má lesa greinina sem birtist í morgun á Visi.is. https://www.visir.is/g/20252672967d/sveit-kastid-inn-handklaedinu

Skrifstofa í Hrunabúð laus til leigu

Góð skrifstofa í Hrunabúð  var að losna. Skrifstofan er fyrir ofan Skrifstofu stéttarfélaga að Garðarsbraut 26, það er á annarri hæð. Hægt er að fá hana leigða í skemmri eða lengri tíma, allt opið hvað það varðar. Frekari upplýsingar gefur Aðalsteinn Árni Baldursson kuti@framsyn.is

Trúnaðarmannanámskeið í boði 20. – 21. mars

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum standa fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði í mars. Námskeiðið verður haldið í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík.

Dagar og tími:  

Fimmtudagur 20. mars 09:00-15:00; Samningatækni. Leiðbeinandi Bergþóra Guðjónsdóttir.

Föstudagur 21. mars 09:00-15:00; Túlkun talna og hagfræði. Leiðbeinandi kemur frá ASÍ.

Á námskeiðinu er farið yfir helstu hugtök í samningatækni.

• Lögð er áhersla á eðli og markmið samninga, grunnatriði samningagerðar og hvernig hún er notuð í daglegu lífi við úrlausn mála sem koma inn á borð trúnaðarmanna.

• Megináhersla er lögð á helstu hagfræðihugtök í daglegu lífi og í kjarasamningagerð, s.s. kaupmátt launa, mun á hlutfallslegri hækkun eða krónutöluhækkun.

• Einnig áhrif verðbólgu á hag launamanna og verðlag.

Nemendur þurfa að skrá sig inn á innri vef Félagsmálaskólans, www.felagsmalaskoli.is. Stofna aðgang með netfangi og lykilorði. Búið er að opna fyrir skráningu. Þar sækja nemendur þau námsgögn sem notuð eru fyrir hvern námsþátt. Á innri vef fara fram samskipti nemenda og leiðbeinenda. Nemendur munu geta fylgst með námsframvindu sinni inni á innri vef skólans. Þar munu þeir einnig fylla út námsmat og sækja viðurkenningarskjölin að námskeiði loknu. Munið að nauðsynlegt er fyrir nemendur að hafa meðferðis fartölvu, ipad eða símann sinn á námskeiðin, þar sem námsefni er meira eða minna rafrænt.

Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga eiga trúnaðarmenn rétt á að sækja trúnaðarmannanámskeið og halda launum. Þá greiða stéttarfélögin ferðakostnað og gistingu í þeim tilvikum sem trúnaðarmenn búa utan Húsavíkur.

Vanti trúnaðarmönnum frekari upplýsingar eða ef þeir þurfa aðstoð við að skrá sig er þeim velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Morgunverðarfundur

Formaður Framsýnar gerði sér ferð í morgun í Stórutjarnaskóla, tilgangurinn með heimsókninni var að spjalla við starfsmenn almennt um lífið og tilveruna auk þess sem kjaramál og starfsemi Framsýnar voru að sjálfsögðu til umræðu. Á Stórutjörnum er rekið metnaðarfullt skólastarf. Reyndar gleymdist að taka mynd af fundarmönnum sem voru hressir að vanda. Þess í stað notum við eina gamla og góða mynd sem tekin var þegar formaður Framsýnar gerði sér ferð til að ræða við starfsmenn um kjaramál hér á árum áður.

Laun hækka hjá verslunar- og skrifstofufólki 1. janúar 2025

Þann 1. janúar 2025 hækkuðu laun hjá verslunar- og skrifstofufólki um 3,50%. Launataxtar samkvæmt meðfylgjandi launatöflu taka hins vegar öðrum hækkunum sem er blanda að krónutölu og 5 hækkun.

https://www.vr.is/media/erqf2rce/launatafla-vr-og-sa-2025.pdf

Almenn hækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf, í flestum tilvikum á þetta við um þá sem eru á persónubundnum launum sem eru fyrir ofan gildandi launatöflu.

1. janúar 2025: Laun hækka um 3,50% eða 23.750 kr. að lágmarki

1. janúar 2026: Laun hækka um 3,50% eða 23.750 kr. að lágmarki

1. janúar 2027: Laun hækka um 3,50% eða 23.750 kr. að lágmarki

Launahækkun á almennum vinnumarkaði 1. janúar

Samkvæmt núgildandi kjarasamningi SGS og SA sem Framsýn á aðild að hækka laun þann 1. janúar 2025. Kauptaxtar hækka þá um 5,6% en 23.750 kr. að lágmarki en laun þeirra sem ekki eru á taxtalaunum, heldur almennum mánaðarlaunum, hækka um 3,5% en þó að lágmarki um 23.750 kr. 

Til nánari útskýringar þá hækka mánaðarlaun sem eru yfir 678.586 kr. um 3,5%, en laun sem eru undir 678.586 kr., en yfir lágmarkstaxta kjarasamnings, hækka um 23.750 kr. á mánuði. Þess þarf þó að gæta að laun séu eftir breytinguna að lágmarki jafngóð og skv. kauptaxta kjarasamnings. Með almennum mánaðarlaunum er átt við föst mánaðarlaun fyrir dagvinnu.

Þá hækka kjaratengdir liðir samningsins um 3,5% frá sömu dagsetningu.

Starfsgreinasambandið hefur gefið út nýja kauptaxta vegna starfa á almennum vinnumarkaði þar sem hægt er að sjá hvernig mismunandi launaliðir hækka út frá launaflokkum og starfsaldri.

Kauptaxtar SGS fyrir starfsfólk á almennum vinnumarkaði

Kauptaxtar SGS fyrir starfsfólk í veitinga-, gisti- og þjónustustarfsemi

SGS vill hvetja félagsmenn að fylgjast vel með að umsamdar launahækkanir skili sér inn á launareikninga og birtist með réttum hætti á launaseðli janúarmánaðar. Jafnframt eru félagsmenn hvattir til að ganga úr skugga um hvort desemberuppbót hafi skilað sér til þeirra með réttum hætti, en hana átti að greiða út í síðasta lagi 15. desember síðastliðinn. Ef einhverjar spurningar vakna eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við sitt stéttarfélag.

Einnig er vert að benda á reiknivél þar sem sjá má yfirlit yfir launahækkanir á samningstímanum, bæði út frá kauptöxtum og almennum launum.

Launaækkanir 2024-2027

Þá vill sambandið minna á að samkvæmt kjarasamningi SGS og SA þá á starfsfólk rétt á viðtali við yfirmann einu sinni á ári um störf sín, þ.m.t. frammistöðu og markmið og hugsanlegar breytingar á starfskjörum. Óski starfsmaður eftir viðtali skal það veitt innan tveggja mánaða og liggi niðurstaða þess fyrir innan mánaðar.

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks

Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar verður haldinn fimmtudaginn 9. janúar 2025 kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf

  • Kosning starfsmanna fundarins
  • Skýrsla stjórnar
  • Stjórnarkjör

2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn deildarinnar sem falla undir deildina að mæta á fundinn og taka þátt í líflegum umræðum, ekki síst um kjaramál. Það er félagsmenn Framsýnar sem starfa við verslun, þjónustu og skrifstofustörf.

Stjórn deildarinnar

(Ítrekun á fundarboði frá 29. nóvember 2024)

Fjörugur aðalfundur sjómanna

Þann 27. desember var aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar haldinn í fundarsal stéttarfélaganna. Fundurinn var að venju líflegur og málefnalegur. Formaður deildarinnar fór yfir skýrslu stjórnar og þá var kosið í stjórn deildarinnar fyrir starfsárið 2025. Kosningu hlutu: Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur.

Á fundinum urðu jafnframt umræður um kvótamál, kjaramál sjómanna, strandveiðikerfið og síðustu Alþingiskosningar. Þá var tekin fyrir tillaga sem var til afgreiðslu á fundinum um að breyta formi aðalfunda deildarinnar, það er að hætta með sérstaka aðalfundi. Þess í stað verði gert grein fyrir starfsemi deildarinnar á reglulegum aðalfundi Framsýnar sem haldinn er í apríl/maí ár hvert. Tillagan var ekki tekin til afgreiðslu þar sem fundarmenn vildu halda í núverandi fyrirkomulag, það er að funda sérstaklega um sín mál.

Hér að neðan má lesa það helsta sem fram kom í skýrslu stjórnar sem formaður deildarinnar, Jakob G. Hjaltalín, gerði grein fyrir:

Ágætu sjómenn! Ég vil fyrir hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra farsældar á árinu 2025.  Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2024, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma og málefnum sjómanna. 

Fjöldi sjómanna í deildinni:
Varðandi fjölda sjómanna innan deildarinnar er ekki auðvelt að gefa upp nákvæma tölu um félagafjölda. Áætlaður fjöldi um þessar mundir með gjaldfrjálsum sjómönnum er um 90 sjómenn. Inn í þeirri tölu eru sjómenn sem starfa við hvalaskoðun enda tryggðir eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og SFS. Auk þess sem grunnlaun sjómanna um borð í hvalaskoðunarbátum hafa tekið mið af kaupgjaldsská samtaka sjómanna og þeirra viðsemjenda. Þegar talað er um gjaldfrjálsa sjómenn er verið að tala um sjómenn sem hætt hafa störfum til sjós vegna aldurs eða örorku.

Kjaramál:
Þann 6. febrúar 2024 skrifuðu SFS og Sjómannasabandið undir kjarasamning en samningar sjómanna höfðu þá verið lausir í nokkur ár. Gildistími samningsins er 10 ár en með uppsagnarákvæði eftir 5 ár og öðru eftir 7 ár. Með samningnum eru lífeyrisréttindi sjómanna 15,5% eins og annarra landsmanna, veikindaréttur er styrktur og taka ákvæði veikindaréttar nú í fyrsta sinn fullt tillit til mismunandi launakerfa sjómanna – s.s. mismunandi  skiptimannakerfa.  Er þá sjómönnum í skiptimannakerfi með 50% hlut á móti makker,  tryggð óbreytt laun í allt að 4 mánuði í veikinda-og slysatilfellum.  Í flestum tilfellum hingað til hafa menn fengið 50% laun í tvo mánuði og síðan kauptryggingu. Sjómenn fá eftirleiðis desemberuppbót eins og aðrir launþegar.  Við undirritun samningsins fengu sjómenn eingreiðslu að upphæð 400.000 kr. og er það „fyrirframgreidd desemberuppbót“ næstu fjögurra ára því desemberuppbót verður fyrst greidd 2028 og svo eftirleiðis. Á kjörskrá um kjarasamninginn voru 1.104 sjómenn innan aðildarfélaga SSÍ. Atkvæði greiddu 592 eða 54% þeirra sem voru á kjörskrá.  Af þeim sem kusu sögðu 367 já eða 62%, 217 sögðu nei eða 37% og auðir og ógildir seðlar voru 8 eða 1%. Af þeim sem tóku afstöðu sögðu 62,84% já og 37,16% sögðu nei. Samningurinn var því samþykktur, sem þýðir að vonandi verður friður á vinnumarkaði hvað sjómenn varðar næstu árin.

Hvalaskoðun – kjarasamningar:
Sjómannadeild Framsýnar kláraði viðræður við Samtök atvinnulífsins 26. mars 2024 með undirskrift kjarasamnings fyrir starfsmenn hvalaskoðunarbáta. Um er að ræða langtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.

Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Börkur Kjartansson varaformaður, Gunnar Sævarsson ritari og Sigdór Jósefsson og Héðinn Jónasson meðstjórnendur. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem og varaformaður deildarinnar sem fundar reglulega. Þar hafa þeir fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við aðalstjórn félagsins. Formaður deildarinnar hefur verið virkur í starfi Sjómannasambandsins á árinu og tekið þátt í fundum á vegum sambandsins.

Formannafundur SSÍ:
Sjómannasamband Íslands stóð fyrir formannafundi á Hótel Stykkishólmi í byrjun nóvember, það er frá 1. til 2. nóvember. Jakob Gunnar Hjaltalín og Börkur Kjartansson voru fulltrúar deildarinnar á fundinum. Aðal málefni fundarins voru kjaramál, skýrsla um meðallaun sjómanna og skipulagsmál.

Fræðslumál:
Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Á árinu sem er að líða fengu 13 félagsmenn innan deildarinnar greiddar kr. 1.003.134,- í námsstyrki. Um er að ræða verulega hækkun á styrkjum til félagsmanna milli ára en árið 2023 voru greiddar út kr. 194.173,- í styrki vegna starfsmenntunar.

Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess í gegnum tíðina komið að því að styðja aukalega við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi.

Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru fimm starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins.

Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árinu 2024, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum. Hátíðarhöldin 1. maí gengu afar vel og þá tók félagið í notkun nýja orlofsíbúð í Hraunholtinu á Húsavík. Glæsileg íbúð sem þegar er komin í útleigu. Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma. Hvað Fréttabréfið og heimasíðuna varðar væri áhugavert að sjómenn sendi inn myndir og jafnvel fréttir af lífinu um borð til birtingar í miðlum Framsýnar. Það yrði vel þegið. Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.