Opið hús – Hraunholt 26-28

Framsýn og Þingiðn verða með opið hús í Hraunholti 26-28 sunnudaginn 27. október frá kl. 14:00 til 16:00. Boðið verður upp á kaffi og kleinur. Áhugasömum gefst kostur á að skoða tvær glæsilegar orlofsíbúðir sem þegar hafa verið teknar í notkun fyrir félagsmenn. Sjáumst hress og glöð í hjarta yfir þessum glæsilega áfanga.

Framsýn stéttarfélag
Þingiðn, félag iðnaðarmanna

Fallegasta fólkið á þinginu

Síðar í dag klárast reglulegt þing Alþýðusambands Íslands en það hófst síðasta miðvikudag. Þing ASÍ eru haldinn á tveggja ára fresti. Á meðfylgjandi mynd má sjá fulltrúa Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar á þinginu. Þetta eru þau Aneta Potrykus, Guðný I. Grímsdóttir, Ósk Helgadóttir, Aðalsteinn Árni Baldursson, Jónas Kristjánsson, María Jónsdóttir og Torfi Aðalsteinsson.

Uppsetning á nýrri hurð

Nú er unnið að því að setja upp nýja útihurð á Skrifstofu stéttarfélaganna. Eldri hurðin var orðin ansi léleg enda yfir 40 ára gömul. Næstkomandi mánudag koma viðskiptavinir stéttarfélaganna, Sjóvá og Sparisjóðs S- Þingeyinga til með að geta gengið um nýju rafmagnshurðina.

Sameinast um þjónustuskrifstofu

Sjóvá og Sparisjóður Suður-Þingeyinga hafa sameinast um þjónustuskrifstofu að Garðarsbraut 26 á Húsavík, það er í húsnæði stéttarfélaganna. Sparisjóðurinn var þar áður en nú hefur Sjóvá jafnframt fengið aðgengi að húsnæðinu. Á þessum tímamótum var rýmið allt tekið í gegn og er nú orðið allt hið glæsilegasta. Starfsmenn segjast afar ánægðir með breytingarnar um leið og þeir bjóða Þingeyinga sem og aðra velkomna í viðskipti.

Framkvæmdir hafnar á Húsavík á vegum Bjargs – opnað fyrir umsóknir

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum í júní 2019 á höfuðborgarsvæðinu. Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg komi að því að byggja leiguhúsnæði fyrir tekjulága á Húsavík og víðar á félagssvæðinu enda sé grundvöllur fyrir því. Það er í fullu samstarfi við sveitarfélgin og verkalýðsfélögin í Þingeyjarsýslum. Nú ber svo við að hafnar eru framkvæmdir við sex íbúða raðhús á Húsavík að Lyngholti 42-52. Um er að ræða sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Allar íbúðirnar eru 4ra herbergja (3 svefnherbergi). Reiknað er með að íbúðirnar verði tilbúnar í apríl 2025. Íbúðirnar eru ætlaðar fyrir félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur sem eru á leigumarkaði og standast þær reglur sem gilda um úthlutun íbúðana. Þá hafa félagsmenn innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem búa utan félagssvæðið stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum einnig aðgengi að íbúðunum. Full ástæða er til að fagna þessum áfanga. Norðurþing kemur að þessu verkefni með Bjargi íbúðafélagi. Hér er hægt að lesa frekar um starfsemi Bjargs íbúafélags: https://www.bjargibudafelag.is/. Opnað var fyrir umsóknir 14. október 2024 og úthlutun hefst 15. nóvember 2024. Hér má sjá staðsetningu íbúðanna. 

Málefnalegt þing BSRB

47. þing BSRB var haldið á Hilton Hótel Nordica í byrjun október. Um 220 þingfulltrúar frá öllum aðildarfélögum höfðu seturétt á þinginu. Þing BSRB eru haldin þriðja hvert ár og fara þau með æðsta vald í öllum málum bandalagsins. Þingið tekur til umfjöllunar öll þýðingarmikil málefni og mótar stefnu BSRB. Þá er kosið í helstu embætti bandalagsins á þingum þess. Starfsmannafélag Húsavíkur átti tvo góða fulltrúa á þinginu, það er Hermínu Hreiðars og Bergljótu Friðbjörns. Þær voru ánægðar með þingið.

Dagskrá þingsins og aðrar upplýsingar má finna á þingvef BSRB

Fóru í kynnisferð til Egilsstaða

Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna fór til Egilsstaða í gær í náms- og kynnisferð. Tilgangur ferðarinnar var að skoða orlofshús STH á Eiðum sem tekið var í gegn í sumar, heimsækja lögmenn félagsins sem starfa hjá Sókn lögmannstofu og Héraðsprent sem sér um að prenta bæklinga, dagatöl og Fréttabréf stéttarfélaganna. Heimsóknin tókst í alla staði mjög vel og móttökur heimamanna voru frábærar.  

Fréttatilkynning Landsmenntar varðandi ráðningu á nýjum starfsmanni

Fræðslusjóðurinn Landsmennt hefur ráðið Solveigu Ólöfu Magnúsdóttur til starfa hjá sjóðnum. Hún tók við starfinu 1. október 2024.

Solveig hefur viðtæka reynslu af menntamálum og hefur starfað sem kennari frá árinu 1993, það er á Siglufirði og í Varmárskóla í Mosfellsbæ. Þar hefur hún lengst af verið deildarstjóri miðstigs með kennslu.

Þegar Solveig bjó á Siglufirði kom hún m.a. að því að halda utan um komu flóttamanna til Siglufjarðar sem verkefnastjóri. Auk þess starfaði hún á sínum yngri árum við almenn störf á bæjarskrifstofu Siglufjarðar, blaðamennsku, verslunarstörf, heimilisþrif, fiskvinnslu og við símsvörun á leigubílastöð.

Solveig hefur því víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og góða tengingu við landsbyggðina sem kemur til með að gagnast henni vel á nýjum starfsvettvangi.

Samhliða því að vera í krefjandi störfum hefur Solveig verið virk í félagsmálum og starfað m.a. fyrir sitt stéttarfélag. Hún var um tíma trúnaðarmaður og formaður Skólastjórafélags Reykjaness, auk þess að sitja í fræðslunefnd félagsins.

Stjórn Landsmenntar býður Solveigu Ólöfu velkomna til starfa og væntir mikils af hennar störfum í þágu Landsmenntar og þeirra fræðslusjóða sem eru með þjónustusamning við sjóðinn, Ríkismennt, Sveitamennt og Sjómennt.

Solveig hefur fengið netfangið solveig@landsmennt.is.

Frekari upplýsingar um ráðninguna gefur, Aðalsteinn Árni Baldursson, stjórnarformaður Landsmenntar.


Reykjavík 2. október 2024

Stjórn Landsmenntar

AN styrkir Kvennaathvarfið

Á 38. þingi Alþýðusambands Norðurlands sem fram fór fyrir helgina var samþykkt samhljóða að færa Kvennaathvarfinu á Akureyri kr. 500.000 til starfseminnar.

Hvatning til sveitarfélaga

Sveitarfélögin á Norðurlandi eystra voru um leið hvött til að tryggja samtökunum öruggt húsnæði sem mætir þörfum þeirra. Það á enginn að þurfa að efast um mikilvægi starfsemi kvennaathvarfsins og brýna nauðsyn þess að tryggja aðgengi að þjónustu þess.

Starfssvæði Alþýðusamband Norðurlands er Norðurland og er hlutverk þess að vinna að alhliða hagsmunum aðildarfélaga og félagsmanna þeirra. Aðildarfélög Alþýðusambands Norðurlands eru eftirtalin ellefu stéttarfélög: 

Framsýn, stéttarfélag 

Þingiðn, félag iðnaðarmanna

Aldan, stéttarfélag 

Eining-Iðja 

Byggiðn, Félag byggingamanna 

Félag málmiðnaðarmanna Akureyri 

Félag verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni 

Samstaða 

Sjómannafélag Eyjafjarðar 

Sjómannafélag Ólafsfjarðar 

Verkalýðsfélag Þórshafnar 

Ályktað um heilbrigðismál og Ósk nýr formaður AN

38. þing Alþýðusambands Norðurlands fór fram í gær og í dag á Illugastöðum í Fnjóskadal. Mörg fróðleg erindi voru flutt á þinginu auk þess sem ályktað var um heilbrigðismál. Þá var samþykkt að færa Kvennaathvarfiu á Akureyri kr. 500.000,- frá sambandinu um leið og þingið beinir þeim tilmælum til annarra félagasamtaka, sveitarfélaga og einstaklinga að styðja við bakið á þessari mikilvægu starfsemi. Þá var ný stjórn kjörin. Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags hlut rússnenska kosningu þar sem hún var kjörin formaður sambandsins til næstu tveggja ára.

Ályktun um heilbrigðismál

„38. þing Alþýðusambands Norðurlands krefst þess að stjórnvöld tryggi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn, óháð búsetu, aldri eða efnahag. Hver vill ekki hafa aðgengi að lækni og öðru heilbrigðisstarfsfólki í sinni heimabyggð? Öflug heilbrigðisþjónusta eru sjálfsögð mannréttindi.

Stjórnvöld hafa lengi talað fyrir hagræðingu í heilbrigðiskerfinu en þar hafa hljóð og mynd ekki farið saman. Hagræðingartillögur stjórnvalda hafa miðast við að draga úr útgjöldum ríkissjóðs við almenna heilbrigðisþjónustu á kostnað almennings í landinu.

Áhrifin sjást einna best á landsbyggðinni þar sem dregið hefur verið markvisst úr sérfræðiþjónustu og skurðstofum sem og fæðingardeildum lokað og læknaskortur er viðvarandi á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins. Afleiðingarnar eru að sjúklingar og aðstandendur þeirra þurfa að ferðast langar vegalengdir, oft við erfiðar aðstæður, með óheyrilegum kostnaði og óþægindum. Þetta á ekki síst við um barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra sem í mörgum tilfellum þurfa að flytjast  búferlum milli landshluta þar sem sérhæfð fæðingaraðstoð er ekki til staðar nema á fáeinum stöðum á landinu. Slík staða er einfaldlega ekki boðleg.

Hagræðing og aukin samþjöppun heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni má ekki felast í því að kostnaður sé færður yfir á sjúklinga, aðstandendur og stéttarfélög meðan ríkið losar sig undan ábyrgð. Að mati AN kemur ekkert annað til greina en að bæta úr þessari stöðu, enda markmið laga um heilbrigðisþjónustu að allir landsmenn eigi kost á fullkomnustu þjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.

Á sama tíma og heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað stendur þjóðin frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðismálum. Lífaldur lengist, lýðheilsuvandamál breytast, vaxandi þörf er á öflugri geðheilbrigðisþjónustu, sálfræðiþjónustu og forvörnum. Þá kallar breytt samsetning íbúa með fjölgun innflytjenda og vaxandi ferðamannastraumur á nýja nálgun í þjónustu. Forgangsraða þarf opinberu fé til að tryggja að heilbrigðiskerfið standi undir þessum áskorunum.

38. þing Alþýðusamband Norðurlands krefst þess að stjórnvöld fylgi eftir markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu og bæti þegar í stað aðgengi allra þegna landsins að viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggi þannig jafnan aðgang að heilsugæslu, sérfræðingum, hjúkrunarheimilum og nauðsynlegum lyfjum í heimabyggð. Til dæmis með því að auka verulega rekstrarfé til Sjúkrahússins á Akureyri og annarra heilbrigðis- og hjúkrunarheimila á Norðulandi. Auk þess verði greiðsluþáttökukerfið endurskoðað, þar með talið kostnaður sjúklinga og aðstandenda, vegna vinnutaps, ferðalaga og dvalar í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma.

Alþýðusamband Norðurlands er reiðubúið til að koma að þessari vinnu með stjórnvöldum, enda um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir félagsfólk, ekki síst í hinum dreifðu byggðum landsins.“

Kalla eftir afstöðu þingmanna til áætlunarflugs til Húsavíkur

Í morgun fór bréf frá Framsýn til þingmanna Norðausturskjördæmis þar sem kallað er eftir stuðningi við að koma aftur á áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Líkt og er með nokkra aðra áfangastaði á Íslandi er kallað eftir ríkisstuðningi við flugið sem er forsendan fyrir því að hægt verði að hefja aftur flug til Húsavíkur, sjá bréfið:

Ágætu þingmenn

Framsýn hefur lengi barist fyrir áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur, því miður lagðist flugið af 1. apríl 2024 þar sem ríkisstyrkur var ekki lengur til staðar sem er forsendan fyrir því að hægt sé að halda úti flugi milli þessara áfangastaða líkt  og er með nokkra aðra áfangastaði á Íslandi sem flogið er til. Áður hafði Flugfélagið Ernir verið í góðu samstarfi við heimamenn um að halda úti flugsamgöngum milli þessara áætlunarstaða frá árinu 2012.  Fyrr á þessu ári bauð Vegagerðin út flug til Húsavíkur, tilboðið gerir ráð fyrir flugi til Húsavíkur í aðeins þrjá mánuði á ári í þrjú ár, des-jan-feb. Þrátt fyrir útboðið hefur ekki verið gengið frá samningi við það flugfélag sem bauð í leiðina, Reykjavík-Húsavík-Reykjavík. Hvað tefur er ekki vitað og veldur áhyggjum heimamanna. Forsvarsmenn Framsýnar og sveitarfélagsins Norðurþings funduðu á dögunum með innviðaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur sem tók gestunum vel frá Húsavík. Sagði hún málið til skoðunar í ráðuneytinu, hjá Vegagerðinni og þá væru fjárlögin til umræðu á þingi sem mörkuðu í hvað peningarnir færu. Á fundinum með Svandísi var farið yfir mikilvægi þess að flugsamgöngum til Húsavíkur verði komið á aftur. Horft væri til þess að stuðningurinn verði á ársgrundvelli eða að  lágmarki í sex mánuði enda verði flugið rekið á rekstrarlegum forsendum yfir sumarmánuðina. Í ljósi þess hvað málið er mikilvægt fyrir íbúa í Þingeyjarsýslum, það er allt frá Raufarhöfn, biðlar Framsýn til þingmanna kjördæmisins um að koma að verkefninu að fullum krafti. Reyndar er það forsendan fyrir því að hægt verði að tryggja flug til Húsavíkur á ársgrundvelli. Ekki skemmir fyrir að formaður Fjárlaganefndar Alþingis er þingmaður Norðausturkjördæmis. Forsvarsmenn Framsýnar eru reiðubúnir að mæta á fundi með þingmönnum kjördæmisins til að ræða málið frekar, þá eru þingmennirnir ávallt velkomnir í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.  Framsýn kallar eftir afstöðu þingmanna kjördæmisins til málsins. Vinsamlegast hafið samband vanti ykkur frekari upplýsingar.

Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson

Sameiginleg yfirlýsing ASÍ og SA í baráttunni gegn vinnumansali

Undanfarin misseri hafa komið upp á yfirborðið nokkur mál á íslenskum vinnumarkaði sem sýna að vinnumansal þrífst í íslensku samfélagi. ASÍ og SA lýsa sameiginlega yfir áhyggjum sínum af því að slíkt geti þrifist hér á landi og finna til ábyrgðar sinnar um að gera allt sem er á þeirra valdi til að vinna gegn vinnumansali.

Íslenskur vinnumarkaður er að mestu leyti vel skipulagður enda hafa aðilar vinnumarkaðarins viðhaft mikið og virkt samtal um allt það sem lýtur að sameiginlegum hagsmunum. Stjórnvöld verða svo eðli málsins samkvæmt einnig að axla ábyrgð á samstarfinu sem þar með verður þríhliða sem er sérlega mikilvægt hvað varðar baráttuna gegn brotastarfsemi og markmiðið um að hér á landi þrífist ekki vinnumansal.

Vinnumansal er að mati ASÍ og SA ólíðandi og nauðsynlegt að allt sé skoðað með það að markmiði að uppræta slíka háttsemi.

Áhyggjur ASÍ og SA lúta ekki síst að stöðu erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði enda sýna dæmin bæði hérlendis og erlendis að einstaklingar í viðkvæmri stöðu sem hafa lagt mikið á sig og flutt um langan veg í leit að betra lífi eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir vinnumansali. Sameiginlegir hagsmunir allra eru að tryggja heilbrigðan vinnumarkað sem tekur vel á móti því fólki sem hingað kemur til að vinna.

Með vísan í allt framangreint skora ASÍ og SA á stjórnvöld að grípa svo fljótt sem verða megi til eftirfarandi almennra aðgerða:

  • Tryggð verði aðgerðaáætlun sem tekur sérstaklega til vinnumansals, þá sérstaklega viðbragðs- og eftirlitskerfis enda til lítils að sinna eftirliti ef niðurstaða fyrir þolendur er jafn slæm eða verri en var meðan á vinnumansalinu stóð.
  • Þolendum vinnumansals verði tryggð nauðsynleg félagsleg úrræði, eftir atvikum.
  • Koma þarf upp sérstöku ferli til að bera kennsl á þolendur vinnumansals.
  • Tryggja þarf fullnægjandi þekkingu á málaflokknum í réttarkerfinu og forgangsraða fræðslunni til að geta betur sinnt málaflokknum. Enda eru slík mál alla jafna flókin og viðkvæm bæði í rannsókn og saksókn.
  • Lög um atvinnuréttindi útlendinga verði endurskoðuð og eftir atvikum lögum um útlendinga í því augnamiði að takmarka líkur á vinnumansali.

ASÍ og SA lýsa því yfir að auk þess að vinna sameiginlega að framgangi framangreinds munu þau vinna að
markvissum aðgerðum á borð við;

  • Hvetja fyrirtæki til þess að taka ábyrgð á virðiskeðjunni í rekstri sínum. Aðilar munu m.a. útbúa fræðsluefni um hvernig best sé að gera það.
  • Búa til fræðsluefni um einkenni vinnumansals í samstarfi við önnur samtök fyrir almenning og atvinnurekendur.

26. september 2024
Harpa, Rvk

Formaður Framsýnar fundaði um flugmál með innviðaráðherra

Formaður Framsýnar í umboði stjórnar félagsins hefur undanfarið gengið milli ráðamanna til að kanna vilja þeirra til að beita sér fyrir því að áætlunarflug hefjist aftur til Húsavíkur og verði ríkisstyrkt með sambærilegum hætti og er í dag til nokkurra áfangastaða á Íslandi. Í gær átti hann fund með innviðaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur auk starfsmanna úr ráðuneytinu. Með á fundinum var sveitarstjóri Norðurþings, Katrín Sigurjónsdóttir. Lögðu þau bæði áherslu á aðkomu stjórnvalda að áætlunarflugi til Húsavíkur. Ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins tóku erindinu vel og eru tilbúin að skoða málið frekar með hlutaðeigandi aðilum innan stjórnkerfisins. Á næstu dögum mun formaður Framsýnar einnig setja sig í samband við þingmenn kjördæmisins og formann Fjárlaganefndar þingsins með von um stuðning við verkefnið. Nánar um það síðar.  

Fullt hús á kynningarfundi Framsýnar og Íslandsbanka um starfslok á vinnumarkaði

Íslandsbanki í samstarfi við Framsýn stóð fyrir opnum fræðslufundi um mikilvægi þess að hafa allt á hreinu við undirbúning starfsloka. Meðal þess sem tekið var til umræðu var: Hvenær og hvernig er best að sækja lífeyri og séreignarsparnað, skattamál, skipting lífeyris með maka og greiðslur og skerðingar. Frummælendur á fundinum voru Magnea Gísladóttir, lífeyrisráðgjafi hjá Íslandsbanka og Haraldur Gunnarsson, viðskiptastjóri fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka. Mætingin var rosalega góð, fullur salur af fólki og góðar umræður.

Færðu Styrktarfélagi HSN veglega gjöf

Framsýn stéttarfélag færði Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum kr. 15.000.000,- að gjöf til kaupa á tækjum og búnaði fyrir stofnunina og Hvamm heimili aldraðra. Þar munar mestu um kaup á hjartaómtæki sem gerir HSN kleift að hafa hjartalækni í hlutastarfi hjá stofnuninni. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður félagsins fylgdi gjöfinni eftir en hún var afhent við hátíðlega athöfn í gær. Búnaðurinn samanstendur af fullkomnu hjartaómtæki, göngubretti, sturtustól-setdýnu, stólavog, eyrnaskoðunartæki,meðgöngumonitor, rannsóknartæki D-dimer og vökvadælu.

Daníel Borgþórsson formaður Styrktarfélags HSN og Bergur Elías Ágústsson stjórnarformaður Dvalarheimilisins Hvamms þökkuðu Framsýn fyrir höfðingja gjöf. Undir það tóku læknar og annað hjúkrunarfólk sem gerðu gestunum grein fyrir notagildi tækjana. Þar fór fremstur, Ásgeir Böðvarsson yfirlæknir á sjúkrahúsinu. Í máli þeirra kom fram mikil ánægja með velvild Framsýnar í garð Hvamms og HSN. Meðfylgjandi er ávarp formanns sem hann flutti við afhendinguna.

Ágætu gestir, verið velkomin

Við erum stödd á aðalfundi Verkakvennafélagsins Vonar, nú Framsýnar stéttarfélags, þann 20. febrúar 1959. Fyrir fundinum liggur tillaga frá félagskonum sem hlaut brautargengi:

„Fundurinn samþykkir að Verkakvennafélagið Von taki þátt í fjárframlögum til kaupa á sótthreinsunartæki fyrir Sjúkrahús Húsavíkur og leggi fram kr. 3.500“.

Á félagsfundi í Von tæpu ári síðar, eða 20. janúar 1960, kemur fram að tekist hafi að gera við gömlu sótthreinsitækin á  Sjúkrahúsinu og því ekki þörf á fjárframlagi frá félaginu til kaupa á nýju tæki.

Þess í stað væri unnið að því að kaupa tæki til að taka hjartalínurit og mörg félög í bænum hefðu lagt fram fé til þeirra kaupa. Lagði þáverandi formaður Vonar, Þorgerður Þórðardóttir til, að áðurnefnt fé, að viðbættum 1.500 krónum gengi til kaupa á hjartalínutæki, svo félagið gæfi Sjúkrahúsinu í heildina kr. 5.000 til þessara kaupa. Tillagan var samþykkt.

Af hverju nefni ég þetta hér?

Jú, stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum hefur frá fyrstu tíð verið umhugað um sitt nærsamfélag.

Liður í því hefur verið að koma að góðum málefnum sem miða að því að styrkja samfélagið og bæta búsetuskilyrði á félagssvæðinu, sem nær frá Raufarhöfn í austri að Vaðlaheiðargöngum í vestri. Í dag eru rúmlega þrjú þúsund félagsmenn í Framsýn stéttarfélagi.

Allt frá fyrstu tíð höfðu bæði Verkamannafélag Húsavíkur og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaup- og réttindamálum félagsmanna. En þeim var jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, s.s. með samtryggingarsjóðum, öflugri heilbrigðisþjónustu, hagkvæmri verslun, samhjálpar- og menningarstarfi og afskiptum af málefnum bæjarfélagsins varðandi ekki síst gjaldskrár. Á slíkt lögðu félögin engu síðri áherslu en sjálfa kaupgjaldsbaráttuna. 

Við sem höldum um keflið í dag, höfum gert okkar besta, til að fylgja þessum göfugu markmiðum eftir. Þeirra sem mörkuðu sporin á sínum tíma í þágu íbúa í Þingeyjarsýslum.

Það má vel vera að við séum öðruvísi en önnur stéttarfélög sem er hið besta mál, enda fjölbreytileikinn af hinu góða.

Samhliða því að gera betur við okkar félagsmenn en almennt þekkist meðal sambærilega stéttarfélaga innan ASÍ, hvað þjónustu og styrki varðar, er okkur ekki síst mjög umhugað um okkar samfélag.

Það staðfestir gjöfin sem við ætlum að afhenda hér í dag til Styrktarfélags HSN í Þingeyjarsýslum sem er sú lang veglegasta sem við höfum gefið fram að þessu. Þá má nefna málinu til stuðnings, hvað varðar starfsemi félagsins, að í vikunni munu forsvarsmenn Framsýnar eiga fund með innviðaráðherra varðandi stuðning stjórnvalda við áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Sá róður er vissulega þungur en við munum halda áfram að berjast fyrir betri samgöngum við Reykjavík á landi og í lofti.

Þá er á borðinu hjá okkur að Íbúðafélagið Bjarg, sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar, byggi sex íbúða raðhús á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Um er að ræða óhagnaðardrifnar leiguíbúðir fyrir tekjulága. Það mun ekki gerast nema Framsýn fylgi málinu eftir að fullu með stuðningi sveitarstjórnar Norðurþings sem liggur þegar fyrir enda sameiginlegt baráttumál.

Við megum aldrei missa sjónar að því að gera allt sem við getum til að efla okkar samfélag á öllum sviðum og benda á það sem betur má fara. Við sem þekkjum heilbrigðiskerfið, reyndar höfum við öll þurft á því að halda, vitum að það skiptir gríðarlega miklu máli takist okkur að bætta grunnþjónustuna í heimabyggð. Það eykur okkar öryggi, sparar peninga, dregur úr vinnutapi svo ekki sé talað um ferðakostnað sem er orðin óheyrilegur fyrir okkur á landsbyggðinni.

Á dögunum þurfti ég að fara suður til sérfræðings. Eftir stuttan akstur frá Húsavík var ég myndaður í Vaðlaheiðargöngum enda gert að greiða í göngin, stuttu síðar mæti mér önnur myndavél á Akureyrarflugvelli sem myndaði mig enda gert að greiða fyrir að geyma bílinn á flugvellinum meðan ég sinnti erindum í Reykjavík. Eftir 100.000,- króna flug til Reykjavíkur (reyndar fram og til baka) beið myndavél á Reykjavíkurflugvelli eftir því að ég yfirgæfi bílastæðið við völlinn á bíl sem ég hafði fengið lánaðan yfir daginn. Að sjálfsögðu slapp ég ekki við að greiða fyrir bílastæðið. Mér hefur reyndar aldrei leiðst að láta taka myndir af mér en þetta er nú „too much” fyrir mig, það er að vera myndaður átta sinnum sama daginn, bara fyrir það eitt að ferðast milli landshluta eftir þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.

Þegar komið  var að heilbrigðisstofnuinni sem ég var að heimsækja í Reykjavík var mér boðið upp á að sækja app í símann svo ég gæti nú greitt fyrir bílastæðið meðan ég sótti þjónustuna, ég held að ég hafi sloppið við myndatöku en er samt ekki alveg viss. Töluverðar upphæðir fóru út af kortinu hjá mér þennan daginn, það er við að sækja sérfræðiþjónustu til Reykjavíkur.

Til viðbótar öllum þessum álögum/sköttum sem eru að stórum hluta bundnar þeim sem búa á landsbyggðinni og þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu til Reykjavíkur er ætlun stjórnvalda að bæta heldur á álögur hjá okkur, með því að taka upp aukna skatta um næstu ármót, en þá verður sérstakt kíló­metra­gjald lagt á bif­reiðar. 

Er þetta nú ekki að verða svolítið galin skattheimta?

Ég efast ekki um að framlag Framsýnar til kaupa á tækjum og búnaði fyrir HSN/Hvamm fyrir 15. milljónir á eftir að draga úr þessum óheyrilega kostnaði heimamanna og bæta um leið búsetu- og lífsskilyrði fólks í Þingeyjarsýslum. Við höfum lagt á það sérstaka áherslu að búnaðinum verði komið fyrir á starfsstöðum HSN á Húsavík, Raufarhöfn, Kópaskeri, Mývatnssveit og Reykjadal sem er okkar félagssvæði.

Okkar frábæra starfsfólk á HSN/Hvammi munu gera frekari grein fyrir þeim tækjum og búnaði sem ákveðið hefur verið að kaupa fyrir gjafaféð. Þar munar mestu um kaup á hjartaómtæki sem gerir HSN kleift að hafa hjartalækni í hlutastarfi hjá stofnuninni. Þá fengum við á dögunum fallega kveðju frá sjúkraþjálfurum á Hvammi sem sögðust afar ánægðir með nýja hlaupabrettið sem kæmi að góðum notum við endurhæfingu sjúklinga. Nánar um þetta hér á eftir en til viðbótar má geta þess að Framsýn mun niðurgreiða kostnað félagsmanna sem fara í skoðun í nýja hjartaómtækið.

Á aðalfundi Framsýnar þann 3. maí 2024 var eftirfarandi bókun gerð:

“Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags samþykkir að færa Styrktarfélagi HSN í Þingeyjarsýslum að gjöf kr. 15.000.000,- til kaupa á tækjum og búnaði til að efla starfsemina enn frekar. HSN og Hvammur hafa á að skipa frábæru fagfólki í öllum stöðum. Svo starfsemin megi þrífast áfram um ókomna tíð er mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk hafi aðgengi að fullkomnustu tækjum á hverjum tíma til lækninga og þjálfunar. Með gjöfinni vill Framsýn stéttarfélag undirstrika mikilvægi þess, að íbúar í Þingeyjarsýslum og aðrir þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu að halda á hverjum tíma, hafi aðgengi að öflugum heilbrigðisstofnunum. Þannig byggjum við upp sterkt samfélag öllum til hagsbóta.”

Ég vil biðja Daníel Borgþórsson, formann Styrktarfélags HSN í Þingeyjarsýslum og Berg Elías Ágústsson stjórnarformann Hvamms að koma hér upp og veita gjöfinni viðtöku um leið og ég óska okkur öllum til hamingju með tækin og búnaðinn, sem verður til staðar fyrir okkur til þæginda og öryggis um leið og starfsumhverfi okkar fagfólks verður miklu betra. Takk fyrir.

Fjár­mál við starfs­lok – Húsa­vík (áhugavert)

Opinn fræðslufundur um það sem mikilvægast er að hafa á hreinu við undirbúning starfsloka.

Meðal þess sem rætt verður um er:

  • Hvenær og hvernig er best að sækja lífeyri og séreignarsparnað?
  • Skattamál
  • Skipting lífeyris með maka
  • Greiðslur og skerðingar

Erindi flytja Magnea Gísladóttir, lífeyrisráðgjafi hjá Íslandsbanka og Haraldur Gunnarsson, viðskiptastjóri fyrirtækja og fjárfesta hjá Íslandsbanka.

Fundurinn sem er samstarfsverkefni Framsýnar sem er öllum opin verður haldinn fimmtudaginn 19. september kl. 16:00 til 17:30 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík.

https://www.islandsbanki.is/is/vidburdur/fjarmal-vid-starfslok-husavik-19.09.2024

Framsýn stéttarfélag

Fundur framundan hjá stjórn og trúnaðarráði Framsýnar

Boðað hefur verið til fundar í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar þriðjudaginn 17. september kl. 17:00. Stjórn Framsýnar-ung er einnig boðuð á fundinn.  Fundurinn verður í fundarsal stéttarfélaganna.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Afhending gjafar til HSN
  4. Fundur með Innviðaráðherra um flugsamgöngur
  5. Bréf frá ASÍ varðandi lagabreytingar
  6. Kvennaráðstefna ASÍ á AK
  7. Framkvæmdir í Furulundi
  8. Breytingar á húsnæði stéttarfélaganna
  9. Hraunholt 26-28
  10. Jólafundur félagsins
  11. Bjarg íbúðafélag
  12. Málefni ÞÞ
  13. Kosning fulltrúa á þing
  14. Formannafundur SSÍ
  15. Önnur mál

Á fundinum verður  gengið frá fulltrúm á þing sem eru framundan á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Hafi almennir félagsmenn áhuga á að sitja neðangreind þing eru þeir vinsamlegast beðnir um að senda einkaskilaboð á netfangið kuti@framsyn.is: Framsýn greiðir vinnutap, fæði, hótel og ferðakostnað fyrir þá sem fara á þingin á vegum félagsins.

Þing ASÍ verður haldið 16. til 18. október í Reykjavík. Framsýn á rétt á fjórum fulltrúm í gegnum Starfsgreinasamband Íslands og einum fulltrúa í gegnum Landsamband ísl. verslunarmanna. Samtals eru þetta því 5 fulltrúar og 5 til vara. Gæta þarf að kynjakvóta við val á fulltrúum á þingið.

Þing AN verður haldið á Illugastöðum 3-4. október. Gist verður á Illugastöðum. Framsýn á rétt 14 fulltrúum.  

Kveður eftir rúmlega 20 ára stjórnarformennsku

Framhaldsaðalfundur Þekkingarnets Þingeyinga fór fram í morgun. Þau tíðindi urðu að Aðalsteinn Árni sem jafnframt er formaður Framsýnar gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnunarstarfa fyrir Þekkingarnetið en hann hefur lengi setið í stjórn setursins fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum.

Aðalsteinn hefur verið formaður stjórnar ÞÞ frá stofnun þess árið 2003, áður var hann í stjórn Fræðslumiðstöðvar Þingeyinga. Hann var leystur út með gjöfum um leið og honum voru þökkuð vel unninn störf í þágu Þekkingarnets Þingeyinga af stjórnarmönnum og forstöðumanni Óla Halldórssyni. Aðalsteinn þakkaði fyrir sig og óskaði ÞÞ velfarnaðar í störfum sínum í þágu samfélagsins.

Þekkingarnet Þingeyinga er símenntunar-, háskólanáms- og rannsóknasetur sem starfar á grunni tveggja stofnana er sameinaðar voru árið 2006. Annars vegar er um að ræða símenntunarmiðstöðina Fræðslumiðstöð Þingeyinga og hins vegar háskólanáms- og rannsóknasetur sem starfaði undir nafni Þekkingarseturs Þingeyinga fram að sameiningunni. Símenntunarstarfsemin hófst árið 1999 um svipað leyti og aðrar símenntunarstöðvar á landinu hófu starfsemi. Háskólanáms- og rannsóknahlutinn fór hins vegar af stað árið 2003 samhliða Náttúrustofu Norðausturlands, sem starfar undir sama þaki og höfuðstöðvar Þekkingarnetsins á Húsavík við höfnina.

Ánægjuleg stund í starfi Framsýnar

Í síðustu viku komu fyrstu gestir í íbúð Framsýnar að Hraunholti 26 á Húsavík. Fyrstur til að taka íbúðina var Dawid Jan Grzyb sem starfar hjá PCC á Bakka. Við það tækifæri færði formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, honum blóm og konfekt frá félaginu. Hann var í búðinni ásamt foreldum og systur sem komu til hans í heimsókn til Íslands. Þau voru afar ánægð með íbúðina sem stendur nú félagsmönnum til boða. Þá er íbúð Þingiðnar að verða klár, það er um næstu helgi.