Viðræður við PCC að hefjast

Eftir helgina hefjast viðræður við PCC um endurskoðun á gildandi kjarasamningi aðila, reyndar rann kjarasamningurinn út 31. janúar sl. Þess er vænst að kjaraviðræðurnar klárist í næstu viku eða í síðasta lagi fyrir næstu mánaðamót. Á meðfylgjandi mynd, sem var tekin í dag, er formaður Framsýnar að ganga endanlega frá kröfugerð félagsins með trúnaðarmanni starfsmanna Ingimari Knútssyni. Á myndina vantar Tomasz Mayewski sem tók þátt í undirbúningsfundinum en hann er líkt og Ingimar trúnaðarmaður starfsmanna. Kröfugerð starfsmanna er klár.

Aðalfundur Þingiðnar

Aðalfundur Þingiðnar verður haldinn mánudaginn 29. apríl kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Auk almennra fundarstarfa verða umræður um nýtt félagsmerki, það er hvort taka eigi upp nýtt merki fyrir félagið. Áríðandi er að félagsmenn fjölmenni á fundinn. Boðið verður upp á hefðbundnar veitingar.

Dagskrá:

 1. Venjuleg aðalfundarstörf
 2. Kjör á starfsmönnum fundarins
 3. Skýrsla stjórnar
 4. Ársreikningar
 5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
 6. Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
 7. Lagabreytingar
 8. Ákvörðun árgjalda
 9. Laun stjórnar, annara stjórna og nefnda
 10. Kosning löggilts endurskoðanda
 • Hækkanir á styrkjum úr sjúkrasjóði
 • Nýtt félagsmerki
 • Önnur mál

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Þingiðn, félag iðnaðarmanna

Framsýn styrkir starf Sólseturskórsins

Kór eldri borgara á Húsavík „ Sólseturskórinn „  leitaði nýlega til Framsýnar með beiðni um stuðning. Kórinn hefur starfað um langt árabil og starfsemi hans verið mörgum kórfélögum mikils virði og gefið margar ánægjustundir. Kórfélagar eru flestir úr Norðurþingi en einnig eru þó nokkrir félagar úr Þingeyjarsveit. Vissulega reyndist Covid kórnum erfitt. Núverandi markmið forsvarsmanna kórsins er að efla kórinn. Meðal annars með því að taka þátt í kóramóti eldri borgara í vor auk fleiri viðburða sem eru til skoðunar. Framsýn hefur ákveðið að styrkja kórinn um kr. 100.000,- um leið og félagið skorar á fyrirtæki, stofnanir og önnur félagasamtök að styðja við bakið á þessu merkilega starfi.

Þingeyjarsveit lækkar gjaldskrár frá 1. apríl

Vegna áskorunar Sambands íslenskra sveitarfélaga um að gjaldskrár er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu hækki ekki umfram 3,5% á þessu ári voru gjaldskrárlækkanir samþykktar á fundi sveitarstjórnar þann 21. mars. Gjaldskrár sveitarfélagsins hækkuðu um 7.5% um áramót en sveitarstjórn gaf það út í janúar að hún væri reiðubúin að endurskoða og lækka gjaldskrár og styðja þannig við þjóðarsátt, sjá hér.

Bókun sveitarstjórnar frá 21. mars:

„Sveitarstjórn fagnar nýgerðum kjarasamningum og samþykkir tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga um lækkun gjaldskráa sem varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Eftirtaldar gjaldskrár verða lækkaðar: Gjaldskrá leikskóla Þingeyjarsveitar, tónlistarskóla, heimaþjónustu og hádegisverður eldri borgara.
Rétt er að geta þess að í Þingeyjarsveit eru skólamáltíðir í leik- og grunnskóla gjaldfrjálsar og verða það áfram. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra og sviðsstjóra fjármála- og stjórnsýslusviðs að uppfæra áðurnefndar gjaldskrár í samræmi við tillögu Sambands íslenskra sveitarfélaga og taka nýjar gjaldskrár gildi þann 1. apríl nk.“

Þessir flokkar hafa nú verið lækkaðir svo hækkunin nemur 3.5% frá fyrra ári, ekki 7.5%.

Framsýn fagnar þessu framtaki Þingeyjarsveitar sem er í anda félagsins sem áður hafði farið þess á leit við Þingeyjarsveit og önnur sveitarfélög í Þingeyjarsveitum að endurskoða gjaldskrárhækkanirnar.

Vilt þú fara á ársfund Lsj. Stapa?

Ársfundur Lsj. Stapa verður haldinn í Menningarhúsinu Hofi fimmtudaginn 2. maí kl. 14:00. Framsýn stéttarfélag á rétt á 15 fulltrúum á fundinn. Framsýn leitar að fulltrúum til að fara á fundinn. Skilyrði er að viðkomandi sé félagsmaður í Framsýn og sjóðfélagi í Lsj. Stapa. Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við formann Framsýnar Aðalstein Árna fyrir kl. 17:00, mánudaginn 15. apríl sem veitir jafnframt frekari upplýsingar.

Trúnaðarráð Framsýnar fundar næstkomandi mánudag

Trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar mánudaginn 15. apríl kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Að venju eru fjölmörg mál á dagskrá fundarins s.s. kjaramál, hátíðarhöldin 1. maí og aðalfundur félagsins sem væntanlega verður haldinn fösstudaginn 3. maí nk. Dagskráin er eftirfarandi:

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Aðalfundur félagsins

    a) Tímasetning

    b) Tillögur fundarins

    c) Styrkur til HSN/Hvamms

    d) Hækkun styrkja til félagsmanna

    e) Veitingar á fundinum

4. Flugsamgöngur Hús-Rvk

5. Hátíðarhöldin 1. maí

6. Kjarasamningur um hvalaskoðun (afgreiðsla)

9. Staða kjaraviðræðna við PCC

10. Erindi til ríkissáttasemjara

11. Náms- og kynnisferð trúnaðarráðs

12. Ársfundur Lsj. Stapa

13. Búvörusamningurinn

14. Sumarferð stéttarfélaganna

15. Önnur mál

NORÐURÞING OG ÁÆTLUNARFLUGIÐ

Byggðaráð Norðurþings væntir þess að útboð Vegagerðarinnar á áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur feli í sér þann sveiganleika að framlag Vegagerðarinnar verði sex mánuðir yfir vetrartímann.  Vegagerðin hefur ákveðið að einungis verði flogið á þessari leið yfir vetrarmánuðina, frá desember til loka febrúar.

,,Fyrir byggðarráði liggur áskorun vegna ákvörðunar Vegagerðarinnar um að flug til Húsavíkur verði boðið út fyrir næsta vetur en þá aðeins yfir vetrarmánuðina, frá desember til febrúarloka.

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sat fundinn undir þessum lið.

Byggðarráð þakkar Aðalsteini Árna fyrir komuna á fundinn.

„Fyrir liggur að Vegagerð ríkisins hyggst ekki endurnýja samning um framlag til innanlandsflugs til Húsavíkur til eins mánaðar. Einnig liggur fyrir að flugfélagið Ernir hyggst skila inn flugrektrarleyfi sínu.

Í bókun byggðaráðs kemur fram að unnið sé að útboði á flugi til Húsavíkur yfir erfiðustu vetrarmánuðina. Ráðið væntir þess að útboðið feli í sér þann sveigjanleika að framlag Vegagerðarinnar verði sex mánuðir yfir vetrartímann. Innviðaráðuneyti og Vegagerð var í samtali við heimafólk um tíðni áætlunarflugs sem nyti framlags hins opinbera en tilkynnir einhliða að áætlunarflug verði aðeins styrkt yfir erfiðustu mánuðina eða í þrjá mánuði, desember, janúar og febrúar. Til að mæta forsendum áætlunarflug á markaðslegum forsendum yfir sumartímann þarf að lengja það tímabil sem um ræðir. Sömuleiðis hvetur ráðið flugrekstraraðila til að halda áætlunarflugi yfir sumartímann.

Byggðarráð fól sveitarstjóra að óska eftir fundi með innviðaráðherra um málið hið fyrsta.

Sögulegur dagur í dag – 60 ár frá stofnun VH

Í dag, 5. apríl 2024 eru 60 ár liðin frá stofnun Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags. Verkalýðsfélagið varð til þegar Verka­manna­fé­lag Húsa­vík­ur og Verkakvennafélagið Von sam­einuðust vorið 1964. Fyrsti formaður fé­lags­ins var Sveinn Júlí­us­son. Fé­lags­svæði þess í dag er Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppur.

Framsýn er aðili að Starfs­grein­sam­bandi Íslands, Landssambandi ísl. Verslunarmanna, Sjó­manna­sam­bandi Íslands, Alþýðusam­bandi Norður­lands og Alþýðusam­bandi Íslands. Þá starfar fé­lagið í nánu sam­starfi við önn­ur stétt­ar­fé­lög í Þing­eyj­ar­sýsl­um sem reka m.a. öfl­uga þjón­ustu á Skrif­stofu stétt­ar­fé­lag­anna á Húsa­vík.

Við stofn­un fé­lags­ins voru tæp­lega þrjú hundruð fé­lags­menn í fé­lag­inu en nú eru þeir á fjórða þúsund. Nú­ver­andi formaður fé­lags­ins er Aðal­steinn Á. Bald­urs­son.

Fé­lagið mun að venju standa fyr­ir veg­leg­um hátíðar­höld­um 1. maí á Fosshótel Húsavík þar sem boðið verður upp á veglegt afmælisboð í sam­starfi við önn­ur stétt­ar­fé­lög á svæðinu, þar sem þess­um tíma­mót­um verður jafn­framt gerð góð skil. Þá verður aðalfundur félagsins með glæsilegasta móti en hann verður væntanlega haldinn föstudaginn 3. maí. Sá fundur verður auglýstur nánar síðar.

Staða félagsfólks Framsýnar almennt betri en annars launafólks

Varða – Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins framkvæmir árlega kannanir meðal launafólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB með það að markmiði að varpa ljósi á lífskjör launafólks á Íslandi þar með talið fjárhagsstöðu og heilsu. Könnunin var lögð fyrir nú í janúar og óskaði Framsýn eftir að staða félagsfólks þeirra yrði greind sérstaklega.

Samkvæmt könnuninni er fjárhagsstaða félagsfólks Framsýnar á heildina litið betri en annars félagsfólks í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Hærra hlutfall félaga í Framsýn eiga mjög auðvelt, auðvelt eða nokkuð auðvelt með að ná endum saman (66% á móti 57%), geta mætt óvæntum 80.000 kr. útgjöldum án þess að stofna til skuldar (67% á móti 51%) og metur fjárhagsstöðu sína nokkuð eða mun betri en fyrir ári síðan (42% á móti 24%). Einnig er lægra hlutfall félagsfólks Framsýnar sem býr við efnislegan eða verulegan efnislegan skort sem mælir fátækt en það á við um 5% félagsfólks (á móti 11%) og einnig hafði lægra hlutfall þurft fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi eða hjálparsamtökum.

Talsvert mikill munur kom fram á aðstöðu foreldra innan Framsýnar í samanburði við foreldra í öðrum stéttarfélögum. Foreldrar voru spurðir hvort að fjárskortur á síðastliðnu ári hefði komið í veg fyrir að þeir gætu greitt fyrir grunnþætti fyrir börnin sín. Niðurstöður könnunarinnar sýna að lægra hlutfall foreldra í Framsýn en foreldra í öðrum stéttarfélögum innan ASÍ og BSRB höfðu ekki efni á að greiða kostnað vegna viðburða tengdu skólastarfi (5% á móti 7%), félagslífs barna (5% á móti 16%), nauðsynlegan fatnað (6% á móti 15%) og næringarríkan mat fyrir börnin sín (5% á móti 15%).

Auk þess sem fjárhagsstaða félagsfólks Framsýnar mælist almennt betri leiddi könnunin auk þess í ljós að lægra hlutfall Framsýnarfólk býr við slæma andlega heilsu (27% á móti 35%). Mjög ólíkt mynstur kom fram þegar líkamleg heilsa var skoðuð en nokkuð hærra hlutfall félagsfólks Framsýnar metur líkamlegt heilsufar sitt frekar eða mjög slæmt (27% á móti 18%).

Samantekt þessa gerði Kristín Heba Gísladóttir framkvæmdastjóri  Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Hér er hægt að skoða skýrsluna:

Hér er heimasíða Vörðu.

Hátíðarhöld í vinnslu

Í fyrra stóðu stéttarfélögin fyrir hátíðarhöldum á Fosshótel Húsavík sem tókust í alla staði mjög vel. Boðið var upp á veglega dagskrá og kaffihlaðborð af bestu gerð. Ákveðið hefur verið að endurtaka leikinn í ár og er undirbúningur í fullum gangi. Dagskráin verður auglýst nánar eftir páska.

Formaður kallaður fyrir Byggðaráð Norðurþings

Byggðaráð Norðurþings óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í morgun til að ræða stöðuna og framtíðina er viðkemur áætlunarflugi til Húsavíkur. Eins og fram hefur komið hefur Vegagerðin boðað að ríkistuðningi við flug til Húsavíkur verði hætt um næstu mánaðamót. Fyrir liggur að það þarf kraftaverk til að svo verði ekki.

Fulltrúar Framsýnar og Norðurþings hafa fundað undanfarið með stjórnendum Flugfélagsins Ernis sem haldið hefur uppi flugi til Húsavíkur með miklum ágætum frá árinu 2012, ekki síst í samstarfi við aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Vissulega kom það heimamönnum töluvert á óvart að staða flugfélagsins væri með þeim hætti sem mbl.is greindi frá í gærkvöldi. Þar er haft eftir Einari Bjarka Leifssyni fjármálastjóra Ernis að flugfélagið glím­i við rekstarörðugleika og ætlunin sé að skila inn flugrekst­ar­leyfi flugfélagsins. Þá kemur einnig fram að flugfélagið sé meðal ann­ars með háar líf­eyr­is­sjóðs- og skatt­skuld­bind­ing­ar sem ekki hafi verið staðið skil á um nokk­urt skeið. Rekstur­inn sé þungur og fyrirtækið þurfi því að grípa til þessara aðgerða.

Á fundi byggðaráðs með formanni Framsýnar í morgun urðu miklar umræður um stöðuna og næstu skref. Nokkrum kostum var varpað upp sem verða teknir til frekari skoðunar. Kanna þarf t.d. betur aðkomu Vegagerðarinnar að áframhaldandi áætlunarflugi til Húsavíkur en Vegagerðin hefur talað fyrir þriggja mánaða útboði um jól og áramót sem er reyndar ekki boðlegt þar sem tímabilið þarf að vera töluvert lengra svo það verði áhugavert fyrir flugrekstraraðila að bjóða í áætlunina. Þá er ekki síður mikilvægt að tryggja að flugvellinum verði viðhaldið og hann verði áfram opinn fyrir sjúkraflug.

Síðast en ekki síst þarf að tryggja fjármagn svo hægt verði að ráðast í endurbætur á flugvellinum og mannvirkjum á vallarsvæðinu. Eitt er víst að málinu er ekki lokið, áfram skal barist fyrir áætlunar- og sjúkraflugi til Húsavíkur.  

Bændur verðlaunaðir og ályktað um samgöngumál

Aðalfundur Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga fór fram síðasta mánudag í Félagsheimilinu Heiðarbæ. Auk venjulegra aðalfundarstarfa voru haldin fróðleg erindi auk þess sem bændur á félagssvæðinu voru verðlaunaðir fyrir góðan árangur í búfjárrækt. Erindi fluttu Vigdís Häsler framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sem fjallaði um starfsemi samtakanna. Ágúst Torfi Hauksson framkvæmdastjóri Norðlenska fjallaði um tollvernd, breytingar á búvörulögum og sameiningu afurðarstöðva og Jóhannes Sveinbjörnsson dósent við LBHÍ  var fenginn til að fjalla um áhrif kögglunar á grasi og öðru gróffóðri á fóðrunarvirði. Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar tók að sér fundarstjórn sem fór vel fram og óhætt er að segja að líflegar umræður hafi farið fram á fundinum auk þess sem fundarmenn töldu mikilvægt að álykta um samgöngumál á svæðinu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða í lok fundarins.

„Aðalfundur Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga lýsir áhyggjur yfir ástandi brúar yfir Skjálfandaflót á þjóðvegi 85 og skorar á Vegagerðina að flýta framkvæmdum sem mest má. Mikill kostnaður er á svæðinu vegna lokunnar brúarinnar og fyrirsjáanlegt að aukist enn“.

Samningur undirritaður um hvalaskoðun

Í dag var undirritaður nýr samningur milli Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins um kaup og kjör starfsmanna við hvalaskoðun á Húsavík. Samningurinn byggir á kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Gildistími samningsins er frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028. Hægt er að nálgast helstu atriði samningsins hér að neðan:

SAMNINGUR
milli
Framsýnar, stéttarfélags
og
Samtaka atvinnulífsins
um breytingar á kjarasamningi um störf á farþegabátum í ferðaþjónustu

1
. gr.

  Almennir kjarasamningar Framsýnar, stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins voru framlengdir með kjarasamningum SA og SGS 7. mars 2024. Kjarasamningarnir gilda frá 1. febrúar 2024 til 1. febrúar 2028. Samningur þessi felur í sér nánara samkomulag um framkvæmd þeirra samninga fyrir félagsfólk Framsýnar sem starfar á farþegabátum í ferðaþjónustu og breytingu á gildandi kjarasamningi aðila vegna þessara starfa.

  2. gr.

  Launabreytingar og kauptaxtar

  Um almenna hækkun launa og orlofs- og desemberuppbót fer skv. aðalkjarasamningi SA og Framsýnar.

  Kauptaxtar verða sem hér segir á samningstímabilinu:

  1.2.20241.1.20251.1.20261.1.2027
  Byrjunarlaun475.820501.598527.087552.526
  Eftir 1 ár í starfsgrein483.750508.500533.250558.000
  Eftir 3 ár í starfsgrein494.225517.975541.725565.475

  Starfsmaður sem starfað hefur tvær vertíðir við hvalaskoðun skal eftir það ekki taka lægri laun en m.v. 1 ár í starfsgrein. Með vertíð er átt við a.m.k. 500 unnar stundir.

  3. gr.

  Við grein 5.1.1. bætist:

  Heimilt er að greiða fæðisgjald fyrir hverja ferð og skal það þá að lágmarki vera kr. 450 pr. ferð.


  Húsavík og Reykjavík, 26. mars 2024

  F.h. Framsýnar, stéttarfélags                                                 F.h. Samtaka atvinnulífsins

  Bókun

  Ef starfsmaður er sendur af atvinnurekanda, sem hann er í ráðningarsambandi við, til að sinna störfum hjá öðrum lögaðila, teljast unnar stundir þar sem hluti vinnuskyldu hjá atvinnurekanda, óháð því hver greiðandi launa er.

  Bókun

  Fyrirtækin sem starfa við hvalaskoðun á Húsavík leggja mikla áherslu á að öllum öryggisreglum sé fylgt er snúa að áhöfn og farþegum. Fyrirbyggjandi öryggisfræðsla er lykilþáttur í starfseminni og hnökralaus framkvæmd er mikilvæg til að tryggja gott orðspor atvinnugreinarinnar.

  Reynsla lykilstarfsfólks getur bætt enn frekar öryggisvitund um borð. Til að miðla þeirri reynslu með markvissari hætti munu fyrirtækin auka tíðni samstarfsfunda stjórnenda og fulltrúa starfsfólks.

  Bókun

  Skv. kjarasamningi skulu neysluhlé vera sem svara 5 mín. fyrir hvern unninn klukkutíma. Þessi hlé eru tekin milli ferða eftir nánara samkomulagi starfsfólks og stjórnanda. Við skipulag ferða skal tryggt að starfsfólk fái þessi samningsbundnu neysluhlé.

  Ert þú búin að panta orlofshús fyrir sumarið 2024?

  Stéttarfélögin hafa opnað fyrir umsóknir um orlofshús og íbúðir sumarið 2024. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar og umsóknareyðublað hér á heimasíðunni. Frestur til að sækja um orlofskosti á vegum félaganna er til 10. apríl 2024. Strax í kjölfarið verður húsunum  úthlutað til félagsmanna. Þá liggur frammi Fréttabréf á Skrifstofu stéttarfélaganna og í öllum helstu verslunum á svæðinu með upplýsingum um orlofskosti stéttarfélaganna, það er allt frá Mývatnssveit til Þórshafnar. Félögin hafa jafnframt áveðið að standa fyrir sumarferð á Langanes um miðjan júní. Ferðin verður auglýst nánar síðar.

  Flugi hætt til Húsavíkur – Fréttatilkynning 24. mars 2024

  Vegagerðin hefur tekið ákvörðun um að samningar við Mýflug/Flugfélagið Erni um flug frá Reykjavík til Húsavíkur og Vestmannaeyja verði ekki framlengdir. 

  Félögin munu fljúga sitt síðasta flug til Húsavíkur þann  1. apríl nk. Ernir hóf áætlunarflug á milli Reykjavíkur og Húsavíkur vorið 2012 og hefur félagið þannig haldið þessari loftbrú gangandi í tæp 12 á, síðustu mánuðina með stuðningi frá Vegagerðinni.  

  Mýflug fékk einnig stuttan samning um flug á milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja sem lýkur jafnframt í lok mars.  

  Eina áætlunarleið félaganna eftir þann tíma verður því á milli Reykjavíkur og Hafnar í Hornafirði en sá samningur er til 31. ágúst 2024. Á næstu vikum verður sú flugleið boðin út, samkvæmt ákvörðun Vegagerðarinnar. 

  Mýflug og Ernir vilja nota tækifærið og þakka samfélaginu öllu fyrir norðan fyrir frábært samstarf og ánægjuleg viðskipti en þó sérstaklega Stéttarfélaginu Framsýn sem stutt hefur við þessa loftbrú með fyrirmyndar hætti síðustu árin. 

  Sömu kveðjur senda félögin einnig til allra viðskiptavina sinna og bæjaryfirvalda í Vestmannaeyjum.  

  Það er dapurlegt að skortur á fjármagni komi í veg fyrir áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur og Vestmannaeyja. Flug til dreifðari byggða landsins verður því miður ekki starfrækt á markaðslegum forsendum. Þar þarf ríkið að koma að málum með því að líta á flugsamgöngur sem hluta af samgönguinnviðum, líkt og vegi og ferjur.

  Eftir því sem best er vitað hyggst Vegagerðin bjóða út áætlunarflug til Húsavíkur og Vestmannaeyja til næstu ára, þrjá mánuði á ári yfir vetrartímann.

  Flugrekendur sem hafa haldið uppi þjónustu á grundvelli samninga við Vegagerðina hafa lengi bent á að slíkir samningar þurfi að vera til langs tíma, að lágmarki fimm ára, og leiða þannig til fyrirsjáanleika hjá notendum og samningsaðilum. Aðeins þannig er hægt að veita íbúum landsbyggðarinnar áreiðanlega þjónustu ásamt því að tryggja flugrekendum eðlilega arðsemi úr sínum rekstri.

  Nánari upplýsingar veitir 

  G. Ómar Pétursson, rekstrarstjóri

  sími 860 6700 

  omar@ernir.is 

  Félagsmenn Framsýnar samþykktu kjarasamninginn- mikil ánægja með samninginn

  Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning 18 aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með 82,72% atkvæða. Nei sögðu 12,85% og 4,43% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru samtals 23.677 félagsmenn hjá öllum 18 aðildarfélögum SGS. Atkvæði greiddu 4.156 manns eða 17.55%. Atkvæðagreiðsla um samningin stóð yfir dagana 13. til 20. mars. Framsýn á aðild að þessum samningi fyrir félagsmenn á almenna vinnumarkaðinum. Samkvæmt þessari niðurstöðu er mikil ánægja með samninginn.

  https://www.sgs.is/frettir/frettir/kjarasamningur-sgs-og-sa-samthykktur-med-miklum-meirihluta/

  Félagar í Þingiðn samþykktu kjarasamning SA og Samiðnar

  Atkvæðagreiðslum um kjarasamninga Samiðnar við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaðir voru í Karphúsinu 7. mars síðastliðinn, er lokið. Þingiðn á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Atkvæðagreiðslur stóðu yfir frá 12.-19. mars 2024. Samningarnir voru samþykktir með miklum meirihluta í öllum tilvikum og taka gildi frá 1. febrúar sl. Niðurstöður ólíkra samninga á vegum Samiðnar má sjá hér:

  MOTTUMARS -Látum fylgjast með okkur-

  Ár hvert er marsmánuður tileinkaður baráttunni gegn krabbameinum í körlum. Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbamein hjá körlum á Íslandi. Árlega greinast að meðaltali um 214 karlar.

  Framsýn hvetur félagsmenn til að fara í skoðun og reglulegt eftirlit sem bjargað hefur mörgum mannslífum þar sem krabbamein í blöðruhálskirtli hefur greinst á byrjunarstigi.

  Framsýn styrkir fullgilda félagsmenn vegna krabbameinsleitar svo sem í ristli og/eða blöðruhálsi um allt að kr. 40.000,- á ári.

  Framsýn stéttarfélag

  Introdution and voting on the collective  agreement between SGS and SA

  Framsýn encourages members to familiarise themselves with the collective agreement between SGS and SA. Voting has begun and runs until 9:00 am on Wednesday, 20th March . By entering the framsyn.is, members can vote on the contract. It contains all the key information about the agreement. Representatives of the union are ready to visit the workplaces and present the new contract. Further information are available at the trade union office.

  Framsýn trade union

  Kynning og kosning um kjarasamning SGS og SA

  Framsýn hvetur félagsmenn til að kynna sér vel innihald kjarasamnings SGS og SA sem félagið á aðild að fyrir sína félagsmenn. Atkvæðagreiðsla er hafin og stendur til kl. 10:00 miðvikudaginn 20. mars. Með því að fara inn á framsyn.is geta félagsmenn kosið um samninginn. Þar eru líka allar helstu upplýsingar um samninginn. Fulltrúar félagsins eru tilbúnir að mæta með kynningu inn á vinnustaði á félagssvæðinu verði eftir því óskað. Þá eru frekari upplýsingar einnig í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

  Framsýn stéttarfélag