Samningar hafa náðst milli Flugfélagsins Ernis og Vegagerðarinnar, um áframhaldandi flug til Húsavíkur næstu 3-4 mánuðina. Búið er að opna fyrir sölu á flugi til loka febrúar, hið minnsta. Flogið verður fimm sinnum í viku. Ljóst er að full þörf er á þessum samgöngumáta inn á svæðið hvort sem er fyrir almenning, fyrirtæki, stofnanir eða ferðaþjónustu. Flugfélagið Ernir vill koma því á framfæri að fólk getur séð flugáætlunina og jafnframt bókað sig í flug á ernir.is. Á næstu vikum og mánuðum mun svo koma í ljós hvort að þjónustustigið verði tryggt til lengri tíma. Framsýn hefur barist fyrir því að fluginu verði viðhaldið milli Reykjavíkur og Húsavíkur, svo verður áfram að sögn formanns félagsins Aðalsteins Árna Baldurssonar.