Tæpar 20 milljónir í fræðslustyrki til félagsmanna

Framsýn er mjög umhugað um starfsmenntun félagsmanna. Á árinu 2020 fengu 306 félagsmenn greiddar kr. 19.583.452,- í einstaklingsstyrki frá fræðslusjóðum sem Framsýn á aðild að í gegnum kjarasamninga vegna náms eða námskeiða. Sambærileg tala fyrir árið 2019 var kr. 18.024.508,-. Fræðslusjóðirnir eru fjármagnaðir með framlögum frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og ríkisstofnunum sbr. ákvæði þar um í kjarasamningum. Það á þó ekki við um Fræðslusjóð Framsýnar sem hefur ekki fastan tekjustofn.

Aðhald í rekstri vatn á myllu félagsmanna

Fjárhagsleg afkoma Framsýnar var góð á árinu 2020 þrátt fyrir erfitt rekstrarár og fækkun félagsmanna milli ára úr 3.320 iðgjaldagreiðendum í 2.644. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins. Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins nema Fræðslusjóði. Rekstrartekjur félagsins námu kr. 255 milljónum  sem er lækkun um 8,4% milli ára.  Þessi lækkun skýrist fyrst og fremst af lægri iðgjaldatekjum. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 215 milljónum 2020 á móti kr. 233 milljónum á árinu 2019 sem er lækkun upp á um 7,8%. Rekstrargjöld lækka að sama skapi um 8% á milli ára en þau námu kr. 198 milljónum. Þessi lækkun er einkum tilkomin vegna greiðslna úr sjúkrasjóði og minni umsvifa við fundi, ráðstefnur og námskeið. Greiðslur úr sjúkrasjóði lækkuðu um 9 milljónir samanborið við 2019 en hlutfallslega minna en tekjur sjóðsins. Greiðslurnar eru enn töluvert hærri en árin þar á undan og eru stærsti einstaki útgjaldaliður Framsýnar fyrir utan laun og launatengd gjöld. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam  kr. 58 milljónir. Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur greiddu rúmar kr. 5 milljónir til rekstursins. Í árslok 2020 var tekjuafgangur félagsins kr. 111 milljónir en var kr. 114 milljónir árið 2019. Heildareignir félagsins námu kr. 2.269 milljónum í árslok 2020 samanborið við kr. 2.146 milljónir í árslok 2019. Í lok síðasta árs var samið við Motus um að sjá um innheimtu gagnvart þeim sem ekki standa í skilum við félagið. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að stéttarfélög sýni aðhald í rekstri til að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og gott aðgengi að styrkjum úr sjúkra,- orlofs- og starfsmenntasjóðum.

Aðalfundur STH

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn fimmtudaginn 26. ágúst 2021 kl. 20:00 í fundasal stéttarfélaganna.


Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
f) Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein
g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd

2. Önnur mál

Skorað er á félagsmenn til að mæta á fundinn og taka þátt í störfum félagsins. Boðið verður upp á kaffi, meðlæti og skemmtiatriði. Koma svo!

Stjórn STH

Ort til nafna

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari var gestur á formannafundi Starfsgreinasambands Íslands sem haldinn var í Mývatnssveit í lok maí. Hann kastaði þessari vísu á nafna sinn, Aðalstein Árna Baldursson formann Framsýnar.

„Enginn tekur eftir þér

auðmjúki nafni minn

Hógvær, hlýðinn eins og smér

hófsami drengurinn“

Skrifstofuhaldið gekk vel

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Þá eru 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá stéttarfélögunum við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði auk þess sem einn starfsmaður er í hlutastarfi á Raufarhöfn. Huld Aðalbjarnardóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum á síðasta ári og eru henni þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins. Í hennar stað var Elísabet Gunnarsdóttir ráðin sem fjármálastjóri. Þá hætti Aðalsteinn J. Halldórsson störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta ár og eru honum sömuleiðis þökkuð vel unnin störf í þágu félagsins. Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni.

Félagslögin endurskoðuð

Laganefnd Framsýnar lagði til töluverðar breytingar á félagslögum á aðalfundi félagsins. Að mati Laganefndarinnar var löngu tímabært að ráðast í breytingar á lögunum. Markmið breytinganna er að færa lögin nær nútímanum og þeim breytingum sem orðið hafa á starfsemi félagsins og stéttarfélaga á undangengnum árum auk þess að skýra betur einstakar greinar. Eftir góðar umræður á aðalfundinum voru lagabreytingarnar bornar upp í einu lagi og samþykktar samhljóða. Lagabreytingarnar taka ekki gildi fyrr en Alþýðusamband Íslands hefur fjallað um þær og tekið afstöðu til þeirra.

Geggjuð félagsferð í boði- Flatey á Skjálfanda

Stéttarfélögin standa fyrir félagsferð til Flateyjar á Skjálfanda í sumar. Farið verður laugardaginn 14. ágúst og er um að ræða dagsferð fyrir félagsmenn og gesti. Farið verður frá Húsavík kl. 13:00 og komið aftur heim um kvöldið.  Eins og kunnugt er þá er Flatey stærsta eyjan á Skjálfandaflóa við norðurstönd Íslands. Eyjan liggur aðeins um 2,5 kílómetra frá landi við Flateyjardal. Í Flatey er mikið fuglalíf og góð fiskimið eru allt í kringum eyjuna. Flatey er tilvalinn staður fyrir fuglaáhugafólk og ævintýri líkast að koma þangað á sumrin. Byggð er sunnan á eynni og auk íbúðarhúsa eru þar samkomuhús, skóli, viti og kirkja. Árið 1942 bjuggu 120 manns í Flatey en síðan 1967 hefur engin verið með fasta búsetu í eynni.

Félagsmönnum stéttarfélaganna stendur til boða að upplifa paradís Skjálfandaflóa í allri sinni dýrð, með einstakri náttúru og ríku fuglalífi.  Boðið verður upp á skoðunarferð um eyjuna undir leiðsögn auk þess sem grillað verður fyrir gestina í boði stéttarfélaganna.

Hægt verður að bóka sig í ferðina á Skrifstofu stéttarfélaganna til 28. júlí. Verðið er kr. 8.000,- per einstakling sem greiðist við skráningu eða í síðasta lagi 15. júlí. Innifalið er sjóferðin, grill og skoðunarferð um eyjuna. Lágmarksþátttaka í ferðina er 25 manns. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Vinnuskólinn kom í heimsókn

Nemendur í Vinnuskóla Húsavíkur komu í heimsókn í morgun til að fræðast um starfsemi stéttarfélaga og helstu réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði. Hópurinn var mjög fjörugur og líflegur.  Ekkert skorti á spurningar enda nemendur vinnuskólans fróðleiksfúsir.

Demantshringurinn kallar – sumarferð stéttarfélaganna

Stéttarfélögin bjóða félagsmönnum og gestum þeirra upp á  magnaða sumarferð 2021. Sumarferðir stéttarfélaganna hafa fram að þessu notið töluverðra vinsælda. Nú er komið að því að fara Demantshringinn með rútu frá Húsavík. Farið verður í ferðina laugardaginn 28. ágúst. Um er að ræða dagsferð þar sem náttúruperlur eins og Mývatn, Dettifoss, Selfoss, Hafragilsfoss, Hólmatungur, Vesturdalur/Hljóðaklettar og Ásbyrgi verða skoðaðar undir leiðsögn staðkunnugra. Jafnvel verður gengið á Eyjuna gefist tími til þess. Þá verður boðið upp á veitingar á leiðinni og grillað ef veður leyfir á einhverjum góðum áningarstað.  Hægt verður að bóka sig í ferðina á Skrifstofu stéttarfélaganna til 15. júlí. Verðið er kr. 5.000,- per félagsmann og gesti sem greiðist við skráningu eða í síðasta lagi 15. júlí. Innifalið er rútuferðin, grill og leiðsögn. Lágmarksþátttaka er 20 manns. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Laun stjórnar og lágmarksfélagsgjald

Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt að félagsgjaldið verði óbreytt eins og verið hefur í nokkra áratugi eða 1% af launum félagsmanna. Þá var samþykkt að taka aftur upp lágmarksgjald. Til að öðlast full félagsréttindi þarf viðkomandi launamaður að greiða mánaðarlegt félagsgjald, nú 1% af heildarlaunum. Lágmarksfélagsgjaldið til að teljast félagsmaður  tekur mið af byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma. Skal það vera 0,3% af þessum launaflokki. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði. Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.

Laun fyrir trúnaðarstörf
Fyrir nokkrum árum var tekinn upp sú regla að þeir sem gegna trúnaðarstörfum fyrir Framsýn fái greiðslur fyrir fundarsetu, það er í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum félagsins. Miðað er við tímakaup fiskvinnslufólks. Á aðalfundinum var samþykkt að viðhalda þessari reglu enda mikilvægt að almennir félagsmenn sem leggja á sig vinnu fyrir félagið fái smá umbun fyrir það.

Við hæfi að mæra ykkur í drasl

Mig langar að kalla til fólkið á bak við tjöldin og fá að þakka þeim sérstaklega, svo mælti varaformaður Framsýnar í lok aðalfundar Framsýnar sem haldinn var á dögunum:

Góða fólk. Það hefur mikið mætt á ykkur undanfarin ár. Fyrst í öllu brjálæðinu í kringum uppbygginguna á Þeistareykjum og Bakka og svo í öldurótinu vegna heimsfaraldursins. Ég hugsa að ykkar starfslýsing sé nokkuð víðfeðm og þið þurfið oft að hugsa út fyrir rammann. Störf ykkar krefjast sífellt meiri sérfræðiþekkingar og sérhæfingar og ég held að það sé rétt sem sagt var í mín eyru á dögunum, að til þess að geta svarað í símann á skrifstofu stéttarfélags í dag, þurfi fólk helst að vera löglært. Við erum heppin með starfsfólk. Þið eruð burðarásinn í allri okkar starfi,  látið hlutina ganga frá degi til dags og haldið utan um ótrúlega viðamikla starfsemi. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum á í dag. Þó að það sé ekki fært sérstaklega inn í ársskýrsluna, þá getum við lesið það á milli línanna að mesti auður félagsins að eiga ykkur að. Án ykkar værum við ekkert. Mig langar að færa ykkur örlítinn þakklætisvott frá stjórn Framsýnar, trúnaðarráði og Framsýn – ung til að þakka ykkur fyrir ykkar framlag að öflugu starfi félagsins. Mér fannst ekki við hæfi að mæra ykkur í drasl og gefa ykkur svo afskorin blóm sem þegar hafa hafið rotnunarferli. Því fáið þið lifandi plöntur sem sinnið örugglega af bestu samvisku, rétt eins og störfum ykkar hér. Að sjálfsögðu þökkuðu starfsmenn vel fyrir sig og hlý orð í þeirra garð.

Kolefnisjafnað með táknrænum hætti – Framsýn sýnir frumkvæði

Ekki er vitað til þess að stéttarfélag hafi áður kolefnisjafnað starfið en aðalfundargestir fengu að gjöf 50 plöntur til að gróðursetja sem samkvæmt útreikningum þurfti til að kolefnisjafna starf Framsýnar á síðasta ári, það er á móti akstri starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust á vegum félagsins á síðasta ári, það er keyrandi. Í tilefni af því flutti varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir, ávarp þar sem hún kom inn á ákvörðun félagsins að kolefnisjafna fundinn um leið og þess væri minnst að rúmlega öld er liðin frá því að Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað, nú Framsýn stéttarfélag, við gefum Ósk orðið:

Húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín þann 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur.

Á þeim tíma var atvinnuöryggi verkafólks takmarkað og afkomuöryggi enn minna. Fólk var oftast ráðið frá degi til dags og tilfallandi atvinna í boði var líkamleg erfiðisvinna. Við nútímafólk eigum erfitt með að setja okkur í spor fólks sem byggði landið á þessum tíma. Við vitum þó að kjör alþýðufólks voru kröpp, það bjó við lélegan húsakost og aðbúnaður verkafólks á vinnustöðum var slæmur.   

Með tilkomu stéttarfélaga vinnandi fólks hófst skipulögð barátta verkafólks fyrir mannsæmandi lífi. Ætli Íslensk alþýða á þeim tíma hafi horft til framtíðar? Jú, það gerði hún með því að berjast fyrir bættum kjörum og verja síðan það sem áunnist hefur með kjafti og klóm. Hús reis upp aftur og aftur, náði fram mörgum sigrum og tryggði launafólki aukið starfsöryggi, bættar vinnuaðstæður og velferð. Sótti skref fyrir skref þau lögboðnu réttindi sem okkur þykja sjálfsögð í dag. 

Stærsta áskorun samtímans eru loftslagsmálin
Verkalýðshreyfingin er baráttuafl rétt eins og hún var fyrir 110 árum, þótt áskoranir sem koma inn á hennar borð í dag séu margar með öðrum hætti. Eitt af stóru málum hreyfingarinnar í dag og jafnframt stærsta áskorun samtímans eru loftslagsbreytingar sem komnar eru til af mannavöldum. Þær hafa þegar haft víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf þjóða og þar með lífskjör og afkomu almennings um allan heim. Við sjáum afleiðingar þessara breytinga á jörðinni. Jöklar bráðna, yfirborð sjávar hækkar, vistkerfi raskast og öfgar í veðurfari aukast. Auk þess verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu.  

Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur þróað ramma utan um samfélagsbreytingar næstu ára undir yfirskriftinni „réttlát umskipti“. Grunnstefið í réttlátum umskiptum er að breytingarnar þurfi að vera réttlátar gagnvart launafólki, ekki síst í þeim atvinnugreinum sem munu gjörbreytast eða jafnvel hverfa í tengslum við tækniþróun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Samhliða því er tekist á við áhrif nýrrar tækni, gervigreindar og sjálfvirknivæðingar. 

Það væri óskandi að ráðamönnum þjóðarinnar muni auðnist að stíga fram í sama takti og verkalýðshreyfingin og að „réttlát umskipti“ komi til með að þýða það í raun. Þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til þegar ráðist er í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum mega ekki verða til  þess að auka á hlut hinna fáu í verðmætum samfélagsins. Í því sambandi hefur ASÍ  bent á að grænir skattar eins og til að mynda kolefnisskattur bitni  helst á lágtekjuhópum sem hafa ekki möguleika á að skipta yfir í rafbíla, á meðan efri tekjuhópar nýta sér frekar skattaafslætti sem ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki fela í sér. 

Þjóðin lifði á því sem landið gaf
En aftur að frumkvöðlunum. Þegar Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað  áttu náttúra og samfélag ennþá í tiltölulega heilbrigðu sambandi og þjóðin lifði aðeins á því sem náttúran gaf. Í þann tíma ferðuðust Íslendingar almennt fótgangandi, fóru ríðandi eða jafnvel sjóleiðis á milli landshluta. Ekki var í boði að fara í vinnuna eða skreppa á milli bæja á einkabílnum, taka strætó, eða fljúga á milli áfangastaða innanlands sem utan eins og tíðkast í dag. Tengsl manns og náttúru voru sterk. Jörðin, samfélagið, fólkið og menning þess var samofin eining, mótuð í samspili við náttúruöflin. 

Við vitum svo sem ekkert um hvað skrafað var yfir yfir kaffibollanum á vinnustöðum verkafólks, væri slíkur munaður í boði. En nokkuð örugglega hafa hugtök eins og gróðurhúsalofttegundir, kolefnisbinding og hamfarahlýnun ekki verið þeirra kynslóð töm á tungu. 

Við greiðum skuldina við landið
Það fer vel á því að heiðra minningu stofnenda Verkamannafélags Húsavíkur með því að afhenda ykkur fundarmenn góðir, íslenska birkiplöntu sem við biðjum ykkur að gróðursetja og hlúa að svo hún vaxi og dafni. Með þessum táknræna hætti kolefnisjafnar Framsýn líklega fyrst stéttarfélaga hér á landi akstur sinn. Samkvæmt útreikningum þarf 50 plöntur til að kolefnisjafna allan akstur starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust akandi í þágu félagsins á síðasta ári.  Við getum kallað það að greiða skuldina við landið. 

Öll þurfum við að axla ábyrgð gagnvart því sem er að gerast í náttúrunni og við verðum að bregðast strax við, eigi komandi kynslóðir að geta átt sér framtíð og búið áfram á þessari jörð. Jafnframt því þurfum við sem verkalýðshreyfing, sem aldrei fyrr að standa fast í fætur og verja hag þeirra sem minnst mega sín. 

Félagsmenn fengu greiddar 68 milljónir í sjúkrastyrki

Á árinu 2020 voru 1085 styrkir greiddir úr sjúkrasjóði félagsins en voru 1.427 árið 2019.  Samtals námu greiðslur vegna sjúkradagpeninga, annarra bóta og styrkja kr. 68.530.811,-. Sama upphæð fyrir árið á undan var kr. 77.257.643,-. Samkvæmt þessari niðurstöðu er þó nokkur lækkun á greiðslum úr sjúkrasjóði milli ára eða sem nemur um 11,3 %.

Auglýsing um starf við þrif og ræstingar/Job available

Stéttarfélögin leita að góðum samstarfsfélaga til að sjá um þrif og ræstingar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Þrifin skulu framkvæmd eftir kl. 16:00 virka daga, ekki er þrifið á fimmtudögum. Ráðningarkjör fara eftir ákvæðum kjarasamnings Framsýnar/SGS og Samtaka atvinnulífsins. Umsóknarfresturinn er til 6. júlí 2021. Frekari upplýsingar um starfið eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Job available

The unions are looking for a good coworker to work as a cleaning technician in the unions office in Húsavík. Job hours are after 16:00 on week days, except no cleaning is needed on Thursdays. Terms of employment are according to the collective agreement between Framsýn/SGS and SA. The application deadline is 6th of July 2021. Further information about the job is available in the unions office.

Framsýn stéttarfélag

Þingiðn, félag iðnaðarmanna

Starfsmannafélag Húsavíkur

Rúmlega hálfur milljarður í atvinnuleysisbætur

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum fengu 444 félagsmenn innan Framsýnar greiddar kr. 579.133.508,- í atvinnuleysisbætur á síðasta ári. Greiðslurnar koma úr Atvinnuleysistryggingasjóði.  Eins og kunnugt hefur atvinnuleysið á Íslandi verið í sögulegu hámarki er tengist Covid faraldrinum. Að meðaltali hafa um 300 til 400 einstaklingar verið án atvinnu í Þingeyjarsýslum undanfarna mánuði. Því er spáð að atvinnuleysið lagist verulega þegar líður á árið.

Fyrstur kemur fyrstur fær

Rétt í þessu var að losna bústaður á vegum Framsýnar á Illugastöðum frá og með næsta föstudegi í viku. Spáð er frábæru veðri hér norðan heiða svo það er tilvalið fyrir fólk að drífa sig í sumarhús. Fyrstur kemur, fyrstur fær, koma svo!

Í fréttum er þetta helst…..

Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum fór fram þann 14. júní í fundarsal stéttarfélaganna. Hér má lesa nokkur fréttaskot frá fundinum.

Jafnvægi í fjölda félagsmanna
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2020 voru 128, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins.  Greiðandi félagsmenn voru 116 á árinu 2020. Þess utan voru gjaldfrjálsir félagsmenn 12 á síðasta ári. Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á Bakka og á Þeistareykjum. Félagsmönnum fjölgaði verulega meðan á framkvæmdunum stóð en hefur heldur fækkað frá þeim tíma sem á sínar eðlilegu skýringar enda framkvæmdum að mestu lokið í dag. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á svæðinu undanfarið sem hefur tryggt gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna.

Rekstur félagsins til fyrirmyndar
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2020 námu kr. 15.284.402 sem er 0,3% hækkun frá fyrra ári. Heildartekjur námu kr. 17.279.307 og lækkuðu um tæp 3%. Rekstrargjöld voru kr. 13.514.834 og lækkuðu um 21% frá síðasta ári. Þar ræður mestu bætur og styrkir sem lækkuðu umtalsvert á milli ára. Á árinu 2020 námu þeir kr. 3.402.697, þar af úr sjúkrasjóði kr. 2.440.157, sem er um 58% lækkun frá 2019 og skýrist að mestu af lægri greiðslum sjúkradagpeninga til félagsmanna. Á árinu 2020 fengu samtals 41 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Árið áður fengu 67 félagsmenn greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 9.863.323. Heildareignir í árslok voru kr. 260.216.669 og eigið fé nam kr. 250.424.524 og hefur það aukist um 4,0% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.563.200. Farið var í átak í innheimtu félagsgjalda og skilgreina í lok árs 2020 og hluti af því var að fara í  samstarf um innheimtu við Motus. Þess má þó geta að almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

Vöntun á iðnaðarmönnum
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið  í gangi á svæðinu. Það sama verður því miður ekki sagt um aðrar atvinnugreinar á svæðinu þar sem Covid- 19 hefur haft veruleg áhrif á starfsemi s.s. ferðaþjónustuaðila. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu viðunandi og rúmlega það er varðar iðnaðarmenn.

Landslið iðnaðarmanna í stjórn félagsins
Þessi snillingar skipa stjórn Þingiðnar, kjörtímabil þeirra er frá 2020 til 2022.

Jónas Kristjánsson                         Formaður                      Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Vigfús Þór Leifsson                         Varaformaður                Norðurvík ehf.
Hólmgeir Rúnar Hreinsson          Ritari                             Trésmiðjan Rein ehf.
Þórður Aðalsteinsson                    Gjaldkeri                        Trésmiðjan Rein ehf.
Jónas Hallgrímsson                       Meðstjórnandi               Trésmiðjan Rein ehf.

Fundurinn kolefnisjafnaður
Eftir því sem best er vitað varð Framsýn fyrst stéttarfélaga á Íslandi til að kolefnisjafna aðalfund félagsins sem haldinn var í byrjun júní og sagt er frá undir annarri frétt í Fréttabréfinu. Ákveðið var að aðalfundur Þingiðnar gerði það einnig og fengu allir fundarmenn gefins plöntu, íslenskt birki til að gróðursetja. Um er að ræða lofsvert framtak. Sælir og glaðir fundarmenn fóru heim með plöntu til að gróðursetja.  

Takk Lísa
Undir umræðum um skýrslu stjórnar og reikninga urðu umræður um starfsemi félagsins. Formaður Þingiðnar sá ástæðu til að þakka fjármálastjóra félagsins Elísabetu Gunnarsdóttur sérstaklega fyrir hennar vinnu við gerð ársreikningsins en hún kom til starfa á miðju síðasta ári og hefur unnið mjög gott starf hjá aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna er viðkemur bókhaldi og fjármálum félaganna. Hann bað fundarmenn um að klappa fyrir henni sem þeir og gerðu. Elísabet þakkaði fyrir sig. Jónas sagði jafnframt að aðrir starfsmenn stéttarfélaganna ættu mikið hrós skilið fyrir störf þeirra í þágu félagsmanna Þingiðnar.

Félagsgjaldið verður óbreytt
Samþykkt var að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum. Framlag félagsmanna í Starfsmenntasjóð félagsins verði einnig óbreytt eða 0,3% af launum. Til viðbótar var samþykkt að taka upp lágmarksfélagsgjald fyrir þá sem koma tímabundið inn á félagssvæði Þingiðnar samkvæmt ákveðnum reglum.

Viðræður í gangi um Hvalaskoðunarsamning

Fulltrúar frá Framsýn og Samtökum atvinnulífsins hafa setið á samningafundi í dag með það að markmiði að ganga frá nýjum sérkjarasamningi fyrir starfmenn sem starfa við hvala- og fuglaskoðun frá Húsavík. Þess er vænst að viðræðurnar klárist í næstu viku.

ASÍ ályktar um tilraunir til niðurbrots á verkalýðshreyfingunni

Formannafundur ASÍ sem haldinn var í Reykjavík í gær fordæmir með öllu tilraunir til niðurbrots á skipulagðri verkalýðshreyfingu á Íslandi og varar sterklega við uppgangi gulra stéttarfélaga. Einkenni slíkra félaga er að þau eru undir áhrifavaldi atvinnurekenda, ýmist beint eða óbeint, sækja sér ekki styrk til heildarsamtaka launafólks heldur standa utan þeirra og gera aldrei ágreining í kjaradeilum. Slík félög eru þekkt fyrir að gera lakari kjarasamninga en frjáls og skipulögð verkalýðshreyfing og grafa þannig undan almennum launakjörum í landinu. Gríðarlegur munur er á lífskjörum almennings í löndum þar sem skipulögð verkalýðshreyfing hefur verið brotin á bak aftur annars vegar og í löndum þar sem verkalýðshreyfingin stendur styrkum fótum hins vegar. Alþýðusamband Íslands og aðildarfélög þess munu standa hart gegn hvers konar tilraunum til að brjóta á bak skipulagða verkalýðshreyfingu, enda á verkalýðshreyfingin ríkan þátt í þeim lífsgæðum sem almenningur nýtur á Íslandi. Það er fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar að vinnandi fólk á rétt til launaðs sumarleyfis og þorri almennings hefur aðgengi að bæði heilbrigðisþjónustu og menntun.

Nýjasta dæmið um tilraunir til að fara gegn skipulagðri verkalýðshreyfingu eru samningar milli Play og hins Íslenska flugstéttarfélags sem ætlað er að móta ramma utan um kjör flugfreyja- og flugþjóna hjá flugfélaginu Play. Samningarnir kveða á um lakari kjör og réttindi en hafa þekkst á íslenskum vinnumarkaði og enn er á huldu hvort þeir hafa verið samþykktir af vinnandi fólki sem á allt sitt undir þeim, líkt og lög og leikreglur á vinnumarkaði gera ráð fyrir. Formannafundur ASÍ kallar einnig eftir því að Samtök atvinnulífsins og Samtök aðila í ferðaþjónustu fordæmi framgöngu Play og sendi út skýr skilaboð um að þessi háttsemi verði ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði.

Krafan er skýr: að Play gangi til kjarasamninga við það launafólk sem á að vinna samkvæmt þessum kjarasamningum, sá samningur verði lagður í dóm starfsfólks og þar með verði leikreglur á íslenskum vinnumarkaði virtar. 

Mývatnssveitin er æði

Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir útvíkkuðum  formannafundi í Mývatnssveit upp úr miðjum maí. Innan sambandsins eru 19 aðildarfélög úr öllum landsfjórðungum. Fundinn sóttu tæplega 40 manns, sem dvöldu  á  Sel Hótel Mývatn í tvo daga við góðan viðurgjörning. Það var í höndum Framsýnar að sjá um kynningu á nærsvæðinu. Var það gert með þeim hætti að fundargestum var boðið í rútuferð umhverfis Mývatn og staldrað við á nokkrum völdum stöðum. Akstur gestanna var í öruggum höndum Þórarins Pálma bílstjóra frá Fjallasýn og leiðsögumaðurinn var heldur ekki af verri endanum. Það var Stefán Jakobsson söngvari með meiru sem tók að sér að lóðsa gestina um sveitina fögru. Fyrst var komið við á Geiteyjarströnd þar sem Helgi Héðinsson og hans fjölskylda tóku á móti hópnum. Buðu þau upp á reyktan silung en reykhúsið á Geiteyjarströnd er löngu landsþekkt fyrir góða vöru. Helgi sagði frá starfseminni á bænum. Þar er ekki eingöngu lifað af reykhúsinu og því sem vatnið gefur, heldur er þar einnig rekin ferðaþjónusta. Helgi situr í sveitarstjórn Mývatnssveitar og fræddi hann gestina um stöðuna  í sveitarfélaginu, en fór einnig í stuttu máli yfir sögu Sparisjóðs Suður- Þingeyinga og stöðu sjóðsins í dag. Helgi er stjórnarformaður sjóðsins.

 Eftir fróðlegt og skemmtilegt innlit á Geiteyjarströnd var haldið í Bjarnarflag, sem er jarðhitasvæði skammt austan Reykjahlíðar við Mývatn. Þar beið Yngvi Ragnar hótelhaldari á Sel Hótel og bauð gestunum upp á nýbakað rúgbrauð með þykku smjöri og reyktum silungi. Mývetningar hafa þróað aðferð til að baka brauð í hverunum í Bjarnarflagi. Greinilegt var að Yngvi Ragnar var enginn nýgræðingur í faginu þar sem hann seildist eftir heljarlöngu bökunarformi að því er virtist úr iðrum jarðar. 

 Næsti viðkomustaður var á bænum Hellu, sem stendur við hinn margumtalaða Ytri – Flóa Mývatns. Ábúendur á Hellu eru hjónin Birgir Valdimar Hauksson og Steinunn Ósk Stefánsdóttir. Þau eru sauðfjárbændur og fullvinna afurðir sínar sem þau selja „Beint frá býli“ og hafa verið í samtökum frá stofnun þeirra.  Salan fer fram á netinu en einnig í  Litlu sveitabúðinni sem þau reka á staðnum. Þar er  hægt að versla kjöt af sauðkindinni í ýmsu formi. Þau selja einnig gæða silung, sem reyktur er með sama hætti og gert hefur verið á bökkum Mývatns um aldir. Steinunn tók vel á móti gestunum og sagði frá því hvernig það kom til að þau hjónin fóru að selja sína eigin framleiðslu. Bauð hún gestunum að smakka á afurðunum, sem runnu auðvitað ljúflega niður. 

Síðasti viðkomustaðurinn í Mývatnshringnum var Fuglasafn Sigurgeirs á Ytri- Neslöndum, sem er stærsta einkasafn uppstoppaðra fugla á Íslandi. Eftir greinagóða fræðslu hjá Stefaníu Halldóru Stefánsdóttur staðarhaldara, skoðuðu gestirnir safnið sem er einstök perla og staðsett í einni helstu fuglaparadís veraldar. Er fuglasafnið ábúendum á Ytri-Neslöndum  og Mývetningum öllum til mikils sóma. Eftir fróðlegan og bráðskemmtilegan Mývatnsrúnt skiluðu þeir félagar, Þórarinn Pálmi og Stefán fólkinu aftur heim á hótel, en í  ferðalok færði Framsýn gestunum reyktan Mývatnssilung og taðreykta sperðla úr sveitinni í sérsaumuðum pokum frá Gilhaga í Öxarfirði. Óhætt er að segja að hópurinn hafi fengið mjög góða kynningu á atvinnu- og mannlífinu í Mývatnssveit, þó viðkomustaðirnir að þessu sinni væru aðeins brot af þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fer fram í sveitarfélaginu. Um kvöldið bauð Starfsgreinasambandið fundargestum upp á hátíðarkvöldverð sem hótelhaldarar á Sel Hótel, þau Yngvi Ragnar og Ásdís höfðu  tendrað fram af miklum myndarskap, ásamt sínu frábæra starfsfólki. Þar skemmti Stefán Jakobsson gestunum með stórskemmtilegu uppistandi fram eftir kvöldi. Fundarstörfum var síðan fram haldið morguninn eftir, en það voru ánægðir fundargestir sem héldu heimleiðis að áliðnum degi eftir vel heppnaðan formannafund.  Það er líka víst að engu er logið þegar sagt er:  „Mývatnssveitin er æði“  eins og kemur fram í vinsælum dægurlagatexta.