Aðhald í reksti forsendan fyrir góðri þjónustu og stuðningi við félagsmenn

Rekstur og starfsemi Framsýnar hefur vakið mikla athygli á landsvísu, aðhald í rekstri tryggir félagsmönnum frábæra þjónustu og betri styrki úr sjóðum félagsins en almennt gerist hjá sambærilegum félögum og rúmlega það. Þá er skrifstofa félagsins opin alla virka daga í  8 tíma eða lengur en flestar ef ekki allar skrifstofur annara stéttarfélaga.

Á aðalfundi félagsins í síðustu viku kom fram að fjárhagsleg afkoma félagsins var góð á árinu 2021 og félagsmönnum fjölgaði.

Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins.

Rekstrartekjur félagsins námu kr. 288 milljónum sem er hækkun um 13% milli ára.  Þessi hækkun skýrist fyrst og fremst af hærri iðgjaldatekjum. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 241 milljónum 2021 á móti kr. 215 milljónum á árinu 2020 sem er hækkun upp á um 12%.

Rekstrargjöld lækka um 7% á milli ára en þau námu kr. 185 milljónum 2022. Þessi lækkun er einkum tilkomin vegna greiðslna úr sjúkrasjóði sem eru stærsti einstaki útgjaldaliður Framsýnar fyrir utan laun og launatengd gjöld. Greiðslur úr sjúkrasjóði lækkuðu um 7 milljónir samanborið við 2020 .

Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 48 milljónum. Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur greiddu saman tæpar kr. 6 milljónir til rekstursins.

Fjármagnstekjur námu kr. 71 milljón en voru 62 milljónir á síðasta ári.

Í árslok 2021 var tekjuafgangur félagsins kr. 167 milljónir en var kr. 112 milljónir árið 2020.

Heildareignir félagsins námu kr. 2.434 milljónum í árslok 2021 samanborið við kr. 2.269 milljónir í árslok 2020.

Það er full ástæða til að óska félagsmönnum Framsýnar með glæsilegan rekstur á árinu 2021. Vilji stjórnar Framsýnar er að feta þennan veg áfram í þágu félagsmanna.

Deila á