Kallað eftir breyttu hugarfari og betri meðferð á starfsfólki

Framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins kallar eftir breyttu hugarfari og betri meðferð á erlendu starfsfólki, sérstaklega í ferðaþjónustu þar sem brotalömin sé mest. Sögur sem komi inn á borð sambandsins séu sumar hverjar með ólíkindum og aðrir í greininni, sem standa sig vel, eigi ekki að láta misbeitingu á starfsfólki líðast.
Tugir þúsunda starfsmanna af erlendu þjóðerni vinna í ferðaþjónustu hér á landi og er það sá hópur sem helst er órétti beittur að sögn Flosa Eiríkssonar framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. Ekki er borgað eftir kjarasamningum, starfsfólk er á jafnaðarkaupi, fær ekki greidda yfirvinnu og er jafnvel látið leigja óboðlegt húsnæði á staðnum á afarkjörum.

Oftar en ekki berast ábendingar nafnlaust. Starfsfólkið óttast að missa vinnuna ef það leitar réttar síns.

Flosi segist hafa heyrt afar vondar sögur um mannsal, vinnuþrælkun og aðra hluti. Starfsgreinasambandið, auk Alþýðusambandsins og fleiri aðila, hafa verið að safnaþeim saman á undanförnum árum.

„Okkur finnst ganga of hægt að útrýma slíku á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Flosi.

Hann segir að það sé meira um brot gagnvart starfsfólki hjá smáum fyrirtækjum en stórum.

„Það eru náttúrulega alls konar Lukku-riddarar í þessu eins og öllu öðru en það er ótrúlegt virðingarleysi sem vinnandi fólki er oft sýnt og það er eins og mönnum finnist að þeir megi koma fram við fólk sem fætt er annars staðar en hér með alveg ótrúlegum hætti og mann setur hljóðan eiginlega,“ segir Flosi.

„Við erum að glíma við núna menn sem eru fluttir hingað og  borgaður fyrir þá flugmiðinn og svo vinnurðu á einhverju hóteli og þú færð ekkert borgað svo, vikum og mánuðum saman. Við höfum verið að vinna með fólk sem hefur kannski verið á vakt 23 tíma á sólarhring. Ég hef séð fólk á hóteli sem hefur unnið yfir 300 tíma í mánuði. Sögurnar eru endalausar.“

Hann segist sakna þess að „hinir atvinnurekendurnir“ sem standa sig vel í þessum málum og koma vel fram við starfsfólk leggi Starfsgreinasambandinu lið.

„Að þeir skuli ekki standa með okkur og benda á þá sem borga ekki eftir kjarasamningum og koma illa fram við starfsfólk og verja þannig sína hagsmuni,“ segir Flosi Eiríksson. (ruv.is)

Deila á