Framtaksemi Birnu til mikillar fyrirmyndar

Góður og reglulegur göngutúr er býsna gott markmið, en það má segja að göngutúr með það að markmiði að tína upp það rusl sem á vegi manns verður sé jafnvel enn betri. Það er góð leið til að  sameina áhuga á útiveru og umhverfismeðvitund, ánægjan af því að fara út og hreyfa sig verður margfalt meiri með því að gera það með þessum hætti.

Birna Friðriksdóttir býr og starfar í Stórtjarnaskóla.Hún setti sér það markmið fyrr í sumar að ganga í áföngum frá Stórutjarnaskóla til Grenivíkur og tína rusl meðfram þjóðveginum. Birna hefur nú lokið verkinu. Gönguferðirnar í kringum ruslatínsluna urðu 11 talsins og magnið sem hún safnaði af rusli umtalstalsvert.

Það eru 40 km. frá Stórutjarnaskóla til Grenivíkur. Birna segir mesta ruslið hafa verið meðfram þjóðvegi 1 um  Ljósavatnsskarð. Þar hafi hún tínt mikið magn af alls konar dóti í vegköntunum, aðallega þó flöskur og dósir. Hún hafi hins vegar ekki haft mikið upp úr krafsinu eftir að hún beygði inn á veg 835, Fnjóskadalsveg eystri og til Grenivíkur, annað en burtfoknar vegstikur, sem margar hefðu tapað upprunalegu gildi sínu, beyglaðar og brotnar úti í móum eftir sjóþyngsli síðustu vetra. Stikunum safnaði Birna saman og hyggst færa hluteigandi aðila, þ.e.a.s Vegagerðinni á Akureyri.

Það er full ástæða til þess að hrósa fyrir það sem vel er gert og framtaksemi Birnu er til mikillar fyrirmyndar. Alltof víða safnast upp rusl á víðavangi, það er augljóst lýti á umhverfinu, en það liggur ekki endilega í augum uppi í hvers verkahring það er að fjarlægja það. En víst er að varla er til betri leið til að sameina útiveru og hreyfingu, sem og sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki.

 

Deila á