Við erum rúmlega 380 þúsund

Íbúar lands­ins urðu í fyrsta sinn rúm­lega 380 þúsund í sum­ar­byrj­un. Þeim hef­ur fjölgað um ríf­lega 4.700 frá ára­mót­um, eða á við íbúa­fjölda Seltjarn­ar­ness, og eru íbú­ar lands­ins nú um 381 þúsund.

Þörf er á aðfluttu vinnu­afli og gæti það, ásamt nátt­úru­legri íbúa­fjölg­un, haft í för með sér að íbúa­fjöld­inn verði kom­inn í 385 þúsund um ára­mót­in.

Nærri íbúa­fjöldi Hafn­ar­fjarðar

Gangi það eft­ir yrði það fjölg­un um 29 þúsund íbúa frá des­em­ber­byrj­un 2018 sem jafn­ast næst­um á við íbúa­fjölda Hafn­ar­fjarðar.

Flest­ir inn­flytj­end­ur á Íslandi koma frá Evr­ópu. Hagþróun í Evr­ópu, ekki síst á evru­svæðinu, gæti því haft áhrif á aðflutn­ing­inn.

Það gæti því ýtt und­ir aðflutn­ing til lands­ins að horf­ur á evru­svæðinu á síðari hluta árs hafa versnað og að staða efna­hags­mála er betri hér.

Christ­ine Lag­ar­de, banka­stjóri evr­ópska seðlabank­ans, ræddi efna­hags­horf­urn­ar er hún gerði grein fyr­ir 0,5% vaxta­hækk­un bank­ans, þeirri fyrstu í ell­efu ár, í gær.

Lag­ar­de gaf til kynna að vext­ir hækki meira í haust en hún sagði hækk­andi orku­verð, í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í Úkraínu, hafa ásamt öðru ýtt und­ir verðbólgu í álf­unni.

Þá boðaði hún stuðningsaðgerðir til handa þeim ríkj­um evru­svæðis­ins sem höllust­um fæti standa en Ítal­ía, eitt stærsta hag­kerfi álf­unn­ar, glím­ir nú við stjórn­ar­kreppu og íþyngj­andi rík­is­skuld­ir.

(Þessi áhugaverða frétt er tekin af mbl.is, nán­ar má lesa um málið í Morg­un­blaðinu)

Deila á