Ný og betri verslun

Miklar breytingar hafa orðið á verslun og þjónustu á undanförnum árum, það er, verslunum og þjónustuaðilum í hinum dreifðu byggðum hefur fækkað verulega. Á móti hefur verslunarstarfsemi í stærri byggðakjörnum s.s. á Akureyri og í Reykjavík verið að eflast. Til viðbótar má geta þess að almenn verslun hefur í auknum mæli verið að færast yfir á netið.

Þrátt fyrir þessa þróun er ánægjulegt að vita af þeim mikla metnaði sem er hjá verslunareigendum á Húsavík að svara samkeppninni með því að spýta í lófana. Sem dæmi má nefna verslunina Garðarshólma á Húsavík en eigendur búðarinnar réðust í miklar breytingar í vetur á búðinni og er hún nú orðin öll hin glæsilegasta. Við litum við í Garðarshólma á dögunum. Birgitta Bjarney Svavarsdóttir tók vel á móti formanni Framsýnar og sagðist ánægð með breytingarnar og viðtökurnar sem hefðu verið með miklum ágætum. Við skorum á fólk að líta við hjá Birgittu og skoða vöruúrvalið  enda tekur hún vel á móti öllum sem leggja leið sína í Garðarshólma, það er með bros á vör.

Í Garðarshólma er gott vöruúrval og hægt að gera góð kaup.

Framsýn við eldgosið í Geldingadölum

Sá mikli höfðingi, Gísli Sigurðsson, sem starfaði og bjó á Húsavík um tíma lagði leið sína að gosstöðvunum á Reykjanesinu á dögunum. Gísli var verslunarstjóri hjá Samkaup hf. þegar hann starfaði hér norðan heiða. Að sjálfsögðu tók hann Framsýnar húfu með sér enda bestu og hlýjustu húfur sem sögur fara af og rúmlega það.

Vinaleg heimsókn í Stórutjarnir

Fulltrúar Framsýnar voru beðnir um að vera með kynningu fyrir nemendur Stórutjarnaskóla í gær, það er kynningu á starfsemi stéttarfélaga og helstu réttindum ungs fólks sem er að hefja sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Kynningin náði til nemenda í níunda og tíunda bekk skólans. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni og formaður Framsýnar-ung, Guðmunda Steina sáu um kynninguna sem gekk afar vel enda nemendurnir afar fróðleiksfúsir. Nemendurnir fengu smá gjöf frá Þingiðn, það er handklæði eins og þau gerast best. Með þessari frétt eru nokkrar myndir sem teknar voru í heimsókninni.  

Drottningarnar þrjár, Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar, Herðubreið og Guðmunda Steina Jósefsdóttir formaður Framsýnar- ung. Ósk er starfsmaður Stórutjarnaskóla en hún aðstoðaði Aðalstein Árna og Guðmundu Steinu við kyningunna.

Framsýn hefur í gegnum tíðina átt mjög gott samstarf við skólastjóra Stórutjarnaskóla, Ólaf Arngrímsson, varðandi fræðslumál er viðkemur nemendum skólands og snýr að réttindum ungs fólks á vinnumarkaði. Sama á við um starfsmannamálin enda flestir almennir starfsmenn skólans í Framsýn, það er fyrir utan kennara og þeirra sem ráðnir eru til skólans á forsendum menntunar. Ólafur hefur tilkynnt að hann muni hætta sem skólastjóri Stórutjarnaskóla í sumar.  Hann hefur verið starfandi kennari og skólastjóri í samtals 40 ár og þar af 38 ár sem skólastjóri.  Hann er með lengstan starfsaldur allra skólastjóra grunnskóla á Íslandi, sem nú eru við störf. Ólafur byrjaði sem kennari við Skútustaðaskóla í Mývatnssveit 1978. Framsýn vill nota tækifærið og þakka Ólafi fyrir samstarfið í gegnum tíðina sem hefur verið með miklum ágætum.

Útskrift úr Félagsliðabrú

Þekkingarnet Þingeyinga útskrifaði nýlega 12 nemendur úr Félagsliðabrú við hátíðlega athöfn á Fosshótel Húsavík. Athöfnin var aðeins minni í sniðum en upphaflega var áætlað til að tryggja að farið yrði eftir fjöldatakmörkunum. Hver nemandi mátti því aðeins bjóða einum gesti með sér. Úr varð mjög skemmtileg og þægileg stund þar sem nemendur, fjölskyldumeðlimir, starfsfólk Þekkingarnetsins og nokkrir af kennurum komu saman og fögnuðu þessum flotta áfanga. Flestir sem luku náminu eru félagsmenn í Framsýn og Starfsmannafélagi Húsavíkur.

Félagsliðabrúar námið er sniðið að þörfum fólks sem starfar við umönnun aldraðra, sjúkra, fatlaðra og/eða við heimaþjónustu. Það er einingabært og kennt samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla. Námið skiptist niður á fjórar annir og stendur því yfir í tvö ár.

Stéttarfélögin óska útskriftarnemendum innilega til hamingju með áfangann um leið og þau hvetja félagsmenn til að kynna sér námsframboðið sem er í boði hjá Þekkingarneti Þingeyinga á hverjum tíma. Þá minna stéttarfélögin félagsmenn á námsstyrki sem eru í boði hjá stéttarfélögunum. Um er að ræða veglega styrki. Frétt þessi byggir á heimildum sem fram koma á heimasíðu Þekkingarnets Þingeyinga sem jafnframt lánaði okkur meðfylgjandi mynd af útskriftarhópnum.

Glæsilegur útskriftarhópur. Standandi f.h. Kristín Ragnarsdóttir, Svanhvít Jóhannesdóttir, Anita Hólm Sigurðardóttir, Einar Víðir Einarsson, Erla Rögnvaldsdóttir. Sitjandi f.h. Hólmfríður Sveinbjörnsdóttir, Ásta Petrína Benediktsdóttir, Bergljót Friðbjarnardóttir, Lilja Sigurðardóttir, Rannveig Þórðardóttir. Á myndina vantar Valgerði Friðriksdóttur og Anítu Dröfn Reimarsdóttir.

Til hamingju með glæsilegan árangur

Völsungur varð á dögunum Íslandsmeistari í 1. deild kvenna í blaki eftir öruggan sigur á BF. Framsýn stéttarfélag er einn af stoltum styrktaraðilum Blakdeildar Völsungs.

(Hafþór Hreiðarsson lánaði okkur myndirnar sem fylgja með þessari frétt)

Martröðin sem ekki er talað um

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur komið hvað harðast út úr Covid-19 faraldrinum.

Ýmis teikn eru á lofti um að viðspyrna ferðaþjónustunnar geti hafist fyrir alvöru um mitt sumar ef áætlanir um bólusetningar ganga eftir. Sú kynning sem Húsavík hefur aflað ferðaþjónustunni í gegnum Óskarsævintýrið verðu eflaust eins og eldflaugareldsneyti á þá viðspyrnu þegar gáttirnar ljúkast upp; sem og eldsumbrotin á suðvesturhorninu. Það eru margir sem eiga allt sitt undir, um allt land.

Enda er útlit fyrir það að ferðamenn muni streyma til landsins þegar aðstæður leyfa, sérstaklega frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Norðurlöndum. Áhugi á Íslandi er gríðarlegur um þessar mundir og ég leyfi mér að fullyrða að ferðaþjónustan muni blómstra fyrr frekar en síðar.

Eigendur fyrirtækjanna og stjórnvöld munu eflaust anda léttar svo ekki sé fastar að orði kveðið þegar ferðamannastraumurinn kemst á skrið um Leifsstöð. Það er þó annar hópur fólks sem liggur líklega á bæn um þessar mundir í von um að erlendir ferðamenn muni verða í meirihluta þetta sumarið. Það er starfsfólkið á gólfinu. Sérstakleg þau sem vinna við afgreiðslu og þjónustustörf. Á bak við bænirnar eru ekki aðeins hugtök eins og atvinnuleysi og hlutabótarleið. Nei, þetta starfsfólk óttast ekkert meira íslenskt ferðasumar.

Grátandi starfsfólk

Ferðasumrinu 2020 var bjargað af ferðaþyrstum Íslendingum sem tilneyddir þurftu að ferðast innanlands með peningana sem annars hefðu farið í hanastél á Tene; en mikill fjöldi Íslendinga ferðaðist um Norðurland. Eigendur veitinga og gististaða sögðust enda ánægðir með afkomuna miðað við ástandið.

Undir niðri kraumaði þó sannleikur sem enginn þorði að segja upphátt. Sannleikur sem nú nærir ótta þjónustufólks. Svo virðist nefnilega vera sem of stór hluti Íslendinga gleymi öllum mannasiðum um leið og það setur niður í ferðatösku. Starfsfólkið sem hafði það hlutverk að þjónusta þurftafreka Íslendinga hefur aldrei kynnst öðru eins álagi eins og síðasta sumar. Það er með ólíkindum framkoma sumra íslenskar ferðamanna. Yfirmenn hótela og veitingastaða þurftu ítrekað að veita grátandi starfsfólki sínu áfallahjálp eftir vaktir, sérstaklega um helgar. Verst var framkoman í garð erlends starfsfólks. Dæmi voru um að Íslendingar hreiðruðu um sig á hótellobbíum með sínar eigin áfengisbyrgðir, djömmuðu fram í roða; og virtu að vettugi öll tilmæli starfsfólks.

Meira að segja á bensínstöðvum og bakaríum þurfti starfsfólk að taka við skömmum frá frekum íslenskum ferðamönnum ef þjónusta sem þeir óskuðu eftir var ekki í boði. Og auðvitað máttu útlendingar þola niðurlægingu fyrir að kunna ekki fullkomna íslensku.

Það að greiða fyrir þjónustu gefur ekki frípassa á að haga sér eins og fífl. Virðing og kurteisi kostar ekkert en hagnaðurinn er ómetanlegur. Verum góð við hvor annað.

Gleðilegt ferðasumar.

Egill Páll Egilsson

(Þessi leiðari úr Vikublaðinu er birtur með leyfi blaðamannsins.)

Óvænt uppákoma á trúnaðarráðsfundi

Óvæntar uppákomur geta verið bráðskemmtilegar og komið fólki í opna skjöldu. Slíkt gerðist  á fundi stjórnar, trúnaðarráðs og Framsýnar – ung sem haldinn var nú í vikunni, en nokkuð er um liðið síðan allur hópurinn hefur komið saman á hefðbundnum snertifundi. 

Mæting á fundinn var mjög góð. Var ástæða þess ekki eingöngu bundin samviskusemi fundargesta og eldheitum áhuga þeirra á verkalýðsmálum, heldur voru þeir sérstaklega spenntir yfir máli sem afgreiða átti áður en formleg dagskrá fundarins hæfist. Var það sérstaka mál  boðað var til allra nema  formanns félagsins, en ástæða þessa laumugangs  var sú að undir lok síðasta árs  fagnaði  Aðalsteinn Árni  60. ára afmæli og félagar hans í stjórn, trúnaðarráði og Framsýn – ung vildu gleðja hann sérstaklega í tilefni tímamótanna.

Þegar formaður Framsýnar mætti til fundarins brá honum við, því hans biðu veitingar sem galdraðar höfðu verið fram af félögum hans. Honum var afhentur krans hnýttur úr jurtum úr þingeyskum lyngmóum, ásamt annarri mjög persónulegri gjöf. Höfðu félagar Aðalsteins Árna í stjórn, trúnaðarráði og Framsýn – ung farið í stúdíó Borgars frá Brúum og tekið upp myndband þar sem þau sungu fyrir formann sinn og hvöttu hann til þess að fara  í frí. Gjöfinni  fylgdu nokkur orð frá varaformanni Framsýnar Ósk Helgadóttur þar sem hún sagði m.a:  „ Við gefum þér gjöf sem erfitt er að meta til fjár, gefa þér eitthvað sem er persónulegt og lifandi, einhverja ögn af okkur sjálfum og gjöfin okkar verður ævinlega tengd þessum ágæta hópi. Þetta erum við, við erum misjafnlega lagvillt en öll að góðum vilja gerð til að gleðja þig… og hvað sem þér finnst, þá situr þú upp með okkur eins og við erum. Gjöfin okkar er ekki með skiptimiða, en hún er svo margfalt meira virði en nokkur efnislegur auður. Þetta er okkar leið til að segja þér hversu mikils við metum þig, fyrir óeigingjörn störf þín í okkar þágu, fyrir fólkið í landinu, en fyrst of fremst metum við þig sem vin okkar og félaga. Við höfum gert okkar besta til að gera þér þennan áfanga eftirminnilegan og þegar menn gera eins og þeir geta, mega þeir gana stoltir frá verki“.

Það eru afar fá dæmi þess að formaður Framsýnar verði orðlaus og þekkjast varla nokkur slík en við þessa óvæntu og skemmtilegu uppákomu gerðist það þó og mun það verða fært í heimildir.

Meðfylgjandi eru myndir af stjórnar- og trúaðarráðsmönnum sem teknar voru þegar stúdíó Borgars á Brúum í Aðaldal.

 

Framsýn fordæmir árásir Ísraelsmanna

Verkalýðshreyfingin er alþjóðleg hreyfing og við fyllumst skelfingu yfir því ofbeldi sem ísraelski herinn beitir almenna borgara í Palestínu enn og aftur og verður einungis lýst sem tilraun til þjóðernishreinsana. Systursamtök ASÍ í Palestínu er PGFTU og góður félagi í þeim samtökum Dr. Ashraf Al-A’war var handtekinn af Ísraelsher þann 8. maí síðastliðinn, yfirheyrður um stéttafélagaþátttöku sína og hefur verið bannað að taka þátt í stjórnmálum eða verkalýðsmálum í einn mánuð. Þetta er dæmi um hið hversdagslega ofbeldi sem Palestínumenn mega sæta til viðbótar við hreinar loftárásir, landnám, aðskilnaðarstefnu, fangelsanir, morð og brottflutninga. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin fordæmir þetta og það hef ég einnig gert við sendiherra Ísraela.  

Svo skrifar forseti ASÍ í vikulegum pistli inn á heimasíðu sambandsins í dag.  Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir þessi ummæli en formanni félagsins, Aðalsteini Árna, var boðið að kynna sér aðstæður í Palestínu fyrir tæpum tveimur árum. Honum var verulega brugðið yfir þeim mannréttindabrotum Ísarelsmanna sem líðast í skjóli alþjóðasamfélagsins, ekki síst Bandaríkjanna.  

Formaður Framsýnar segir að það hafi tekið verulega á að hlusta á talsmenn verkalýðsfélaganna í Palestínu tala um ofbeldið sem Ísraelsmenn beita Palestínumönnum daglega. Hann hefði ekki getað trúað því að slík mannvonska væri til, fréttir síðustu taka frá átakasvæðinu veki með honum mikinn hroll.   

Lífið er lax og aftur lax

Forsvarsmenn Framsýnar fóru í góða ferð á dögunum í fiskeldi Samherja í Öxarfirði. Fundað var með starfsmönnum um starfsemi Framsýnar og tekið við fyrirspurnum frá þeim sem voru almennt áhugasamir um félagið sitt. Auk þess gafst fulltrúum Framsýnar tækifæri á að fræðast um starfsemi fyrirtækisins en Arnar Freyr Jónsson rekstrarstjóri  gaf þeim góða innsýn inn í rekstur fyrirtækisins sem er eitt stærsta landeldisframleiðandi á laxi í heiminum. Árið 2020 var eitt besta árið í sögu fyrirtækisins er framleiðslu varðar, en þá var slátrað um 1700 tonnum af laxi. Stefnt er að því auka framleiðsluna á næstu árum.  Eldisstöðin í Öxarfirði hefur nokkra sérstöðu þar sem töluverður jarðhiti er á svæðinu og hægt er að ala laxinn í 10-11 gráðu heitu ísöltu vatni.  Laxinn er alinn á hágæða fóðri og fer öll framleiðslan fram í samræmi við ströngustu kröfur kaupenda. Mest af framleiðslunni fer til Bandaríkjanna. Þess má geta að fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á laxi en er með eldi á klakfiski í klakfiskastöð að Sigtúnum í Öxarfirði. Þaðan fara bleikjuhrognin í frekara eldi í stöðvar Samherja á Reykjanesi. Tæplega 30 starfsmenn starfa hjá Samherja – Fiskeldi ehf. í Öxarfirði sem flestir eru í Framsýn stéttarfélagi. Verði af frekari framkvæmdum á vegum fyrirtækisins á næstu árum mun þeim fjölga enn frekar.  

Olga Gísladóttir hefur langa starfsreynslu hjá fiskieldi Samherja í Öxarfirði. Öflugt lið starfsmanna starfar hjá fyrirtækinu við framleiðslu á hágæða afurðum úr laxi.

Hvað er að gerast í Norðurþingi?

Egill Páll blaðamaður á Vikublaðinu hefur skrifað leiðara sem vakið hafa töluverða athygli og umræður. Við birtum hér leiðara sem kemur inn á starf Framsýnar og því við hæfi að birta hann. Annar leiðari eftir Egil Pál mun svo birtast á morgun er nefnist „Martröðin sem ekki er talað um“ og fjallar um framkomu ferðamanna í garð starfsfólks í ferðaþjónustu. Hvað það varðar hefur Framsýn orðið að skipta sér að slíkum málum á félagssvæðinu þar sem starfsmenn í ferðaþjónustu hafa sett sig í samband við félagið vegna slíkra mála.  

Hvað er að gerast í Norðurþingi?

Sagt er að góðir hlutir gerist hægt en svo raungerast aðrir hlutir alls ekki neitt. Hvort hið fyrrnefnda eða síðarnefnda eigi við um stjórnsýsluna í Norðurþingi er ekki gott að fullyrða nokkuð um.

Ég hef um nokkurt skeið fylgst vel með fundargerðum frá fastanefndum sveitarstjórnar Norðurþings. Ekki er óalgengt að inn á borð nefndanna og sveitarstjórnar berist mál sem kannski er ekki beint á könnu sveitarfélaga yfir höfuð. Slík mál geta engu síður verið gríðarleg hagsmunamál fyrir íbúa og þar af leiðandi æskilegt að sveitarfélagið beiti sér af fullum þunga fyrir því að slík mál komist í jákvæðan farveg. Oft sér maður að þessi mál eru afgreidd í bókun eitthvað á þann veg að fylgst verði með gangi mála.

Þar má nefna mál eins og brýna viðhaldsþörf Húsavíkurkirkju. Sveitarstjórn tók málið til umræðu og kallaði í kjölfarið fulltrúa frá sóknarnefnd á fund byggðarráðs. Þar var bókað að aðkoma Norðurþings yrði reifuð. Síðan hefur ekkert heyrst frá kjörnum fulltrúum.

Nú er raunveruleg hætta á því að Húsasmiðjan hverfi frá Húsavík og þar með myndi þjónustustig lækka í bænum, bæði fyrir íbúa en ekki síður iðnaðarmenn. Hefur sveitarstjórn gert eitthvað til að reyna liðka fyrir því að þessi þjónusta haldist innan bæjarmarkanna?

Hvernig er með stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur. Nú er ekkert launungamál að flugfélagið Ernir sem haldið hefur úti þessari flugleið berst í bökkum og hafa margir áhyggjur af því að það sé einungis tímaspursmál hvenær áætlunarflug til Húsavíkur leggst af. Þetta er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál, fyrir íbúa og ferðaþjónustuaðila. Hvað er sveitarstjórn að gera í málinu?

Hefur sveitarstjóri átt fund með ráðherra samgöngumála? Hefur einhver úr sveitarstjórn bent ráðherra á bjagað samkeppnisumhverfi í innanlandsflugi og að flugleiðin Húsavík-Reykjavík er eina flugleiðin í áætlunarflugi án ríkisábyrgðar. Hefur einhver innan Norðurþings haldið því á lofti við ráðherra að samkeppniseftirlitið lýsti áhyggjum af áhrifum ríkisaðstoðar Icelandair á flugfélagið Erni?

Þetta hefur hinsvegar stéttarfélagið Framsýn gert. Fyrir utan það að styðja við flugfélagið sem sinnir Húsavíkurfluginu með því að niðurgreiða fargjöldin fyrir félagsmenn sína; þá er félagið að vinna að því hörðum höndum að þrýsta á rétt stjórnvöld að tryggja það áætlunarflug til Húsavíkur leggist ekki af.

Það hefur verið, og má í sjálfu sér gagnrýna það að stéttarfélag sé að eyða púðri í það að hugsa um áætlunarflug; en ekki er sveitarstjórn að gera neitt í málinu. Þetta telst kannski ekki til mikilvægra hagsmuna fyrir íbúa, eða hvað?

Egill P. Egilsson

(Leiðarinn er birtur með leyfi blaðamannsins)

Tæplega þriðjungur fólks á vinnualdri fær ekki fullt orlof í sumar

Ný skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Alþýðusambandið sýnir að tæplega þriðjungur fólks á vinnualdri (20-65) á ekki rétt á fullu orlofi í sumar. Fullt orlof telst 24 greiddir frídagar eða meira. Þegar spurt var um ástæðu þess að viðkomandi fái ekki fullt orlof nefndu 55% að þeir hefðu ekki verið í starfi sl. 12 mánuði og rúmlega 8% sögðust sjálfstætt starfandi.

Athygli vekur að aðeins 5,8% fá ekki fullt orlof vegna skerts starfshlutfalls vegna hlutabótaleiðar en þá ber að hafa í huga að þeim sem nýttu þá leið fækkaði mikið eftir 1. maí í fyrra. Tæplega 1% sögðust hafa nýtt orlof vegna sóttkvíar og 2,7% nefndu aðrar ástæður þar á meðal að hafa nýtt orlof vegna lokunar grunn- eða leikskóla.

Konur og yngra fólk er líklegra til að eiga ekki rétt á fullu orlof í sumar og það sama má segja um fólk með lægri tekjur og þá sem eru starfandi á almenna vinnumarkaðnum.

Markmið þessarar könnunarinnar var að kanna sumarfrí og orlofsrétt launafólks í Covid-19.

Um netkönnun var að ræða sem var gerð 30. apríl til 10. maí 2021. Úrtakið var 1604 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 51,4% eða 824 manns. (ASI.IS)

Fréttir af ársfundi Ljs. Stapa

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn miðvikudaginn 5. maí. Vegna gildandi sóttvarnarreglna var fundurinn haldinn rafrænt en honum var einnig streymt á vefsíðu sjóðsins. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf og var þátttaka góð.

Í ávarpi stjórnarformanns, Erlu Jónsdóttur, kom fram að árið 2020 verði vafalaust lengi í minnum enda atburðarrás þess nokkuð sem enginn sá fyrir. Á fyrsta ársfjórðungi varð ljóst að skæður heimsfaraldur hafði brotist út og vegna áhrifa hans var ávöxtun eigna sjóðsins mjög sveiflukennd innan ársins.

Á fyrsta ársfjórðungi lækkuðu hlutabréf í eignasafni sjóðsins töluvert en lágt áhættustig og dreifð eignasamsetning drógu úr áhrifum þessa á eignasafnið í heild.

Í kjölfar vaxtalækkana og annarra örvandi aðgerða opinberra aðila til að stemma stigu við áhrifum Covid-19 tóku verðbréfamarkaðir við sér á ný og nam raunávöxtun eigna Stapa árið 2020 ríflega 9%. Sú góða ávöxtun kemur í kjölfarið á tæplega 10% raunávöxtun ársins 2019 og hafa undanfarin ár því verið meðal bestu ára sjóðsins hvað varðar ávöxtun. Ávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% raunávöxtun en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,5%.

Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris vex áfram hröðum skrefum, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. Í árslok 2020 nam hún 295.868 milljónum króna og hækkaði um 39.735 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 288.345 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 7.523 milljónum.

Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 7.140 milljónum króna og hækkuðu um 11,4% frá fyrra ári. Stærstan hluta lífeyrisgreiðslna má rekja til eftirlauna, eða sem nemur 71%, örorkulífeyrir nam 24% af lífeyrisgreiðslum sjóðsins og barna- og makalífeyrir 5%. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.966 og fjölgaði um 705 frá fyrra ári. 

Stjórnarformaður fór einnig yfir áherslur Stapa í eignastýringu þar sem meðal annars kom fram að á undanförnum misserum hafa svokölluð UFS málefni (umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir) fengið meira vægi í eignastýringu sjóðins. Á árinu 2020 undirritaði sjóðurinn „Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar“. Þá hefur stjórn sett sjóðnum það markmið til lengri tíma að hlutfall erlendra eigna í eignasafni verði allt að 40%. 

Stjórnarformaður gerði jafnframt að umtalsefni vilja stjórnvalda til að framkvæma heildarendurskoðun á lífeyrismálum hér á landi með útgáfu svokallaðrar grænbókar. Hún telur að framsækið réttindakerfi Stapa sem sjóðurinn tók upp árið 2016 gæti verið sniðmát fyrir einfaldað lífeyriskerfi og aukið gagnsæi og mun sjóðurinn koma því á framfæri við vinnslu grænbókarinnar.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, fór því næst yfir ársreikning sjóðsins og helstu lykiltölur deilda sjóðsins. Hann gerði einnig grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu sem er jákvæð um 1,5%, en var neikvæð um 0,4% í lok árs 2019. Jákvæða tryggingafræðilega afkomu má rekja til góðrar ávöxtunar á sl. ári auk þess sem samþykktabreytingar sem samþykktar voru á ársfundi sjóðsins 2020 bættu stöðuna um 2.777 millj.kr. Jóhann Steínar fór einnig yfir áhrif og viðbrögð sjóðsins við Covid-19.

Þá fór Brynjar Þór Hreinsson, fjárfestingarstjóri, yfir fjárfestingarstefnu sjóðsins og ávöxtun það sem af er árinu 2021. Hann fór einnig yfir hluthafastefnu Stapa.

Á fundinum voru lagðar fram tillögur að breytingum á samþykktum sjóðsins. Einar Ingimundarson og Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttndasviðs, gerðu grein fyrir þeim breytingum og voru þær allar samþykktar. Þá var einnig samþykkt tillaga að KPMG sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins.

Stjórnarformaður gerði því næst grein fyrir starfskjarastefnu og var hún samþykkt. Þá var tillaga nefndar um laun stjórnar einnig samþykkt en í henni felst að laun stjórnarmanna hækki í takti við breytingar launavísitölu sl. 12 mánaða og að launin verði tvískipt, annars vegar greidd föst laun og hins vegar greitt fyrir mætingu á hvern fund.

Stjórnarkjöri var lýst en stjórn sjóðsins var kosin á fulltrúaráðsfundi sjóðsins þann 30. mars sl. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:

Frá launamönnum:
Tryggvi Jóhannsson (formaður), Jónína Hermannsdóttir, Oddný María Gunnarsdóttir og Sverrir Mar Albertsson.

Varamenn: Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.

Frá launagreiðendum:
Erla Jónsdóttir (varaformaður), Kristín Halldórsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Halldórsson.

Varamenn: Guðrún Ingólfsdóttir og Páll Snorrason.

Þá var í samþykkt samhljóða nefnd um laun stjórnar. Í nefndinni sitja stjórnarformaður Stapa, Borghildur Freyja Rúnarsdóttir, Jens Garðar Helgason og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir 

Gögn frá ársfundinum:

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fundar – aðalfundur framundan

Stjórnar og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags kemur saman til fundar á morgun, miðvikudaginn 12. maí kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Að venju tekur stjórn Framsýnar-ung þátt í fundinum. Mörg mál eru á dagskrá fundarins. Reiknað er með að aðalfundur félagsins verði haldinn í byrjun júní nú þegar heimilt er að halda 50 manna „snertifundi.“ Ekki er áhugi fyrir því innan Framsýnar að halda rafrænan aðalfund þess vegna hefur verið beðið með að halda fundinn þar til heimilt verður að halda „snerti“ aðalfund sem  nú liggur fyrir.

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Aðalfundur félagsins

4. Lagabreytingar

5. Heimild til að afskrifa skuldir

6. Ársfundur Lsj. Stapa

7. Trúnaðarmannanámskeið

8. Málefni Þorrasala

9. Áætlunarflug Hús-Rvk

10. Orlofsmál 2021

11. Vinnutímabreytingar hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga

12. Formannafundur SGS

13. Fyrirspurn um stöðu atvinnuleitenda tekin fyrir

14. Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum

15. Vinnustaðaheimsóknir/heimsóknir í skóla

15. Önnur mál

Kalla eftir aðkomu SSNE

Með bréfi til Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) sem varð til á síðasta ári við sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings kallar Framsýn stéttarfélag eftir aðkomu SSNE að framtíð áætlunarflugs til Húsavíkur. Bréfið fór frá Framsýn í morgun.

Undanfarið hefur Framsýn vakið athygli á því hvað er að gerast í áætlunarflugi á Íslandi. Félagið hefur sérstakar áhyggjur af því, að svo virðist sem unnið sé að því að koma Flugfélaginu Erni út af markaðinum. Ernir hefur m.a. haldið úti áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur.

Það var mikið gæfuspor þegar Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur vorið 2012 í góðu samstarfi við heimamenn, enda hafa Þingeyingar aldrei efast um mikilvægi þess að búa við góðar samgöngur. Áður höfðu önnur flugfélög séð um áætlunarflug til Húsavíkur, með hléum. Þar á meðal var Flugfélag Íslands sem lagði af  flug til Húsavíkur og beindi farþegum þess í stað í gegnum Akureyri, þyrftu þeir á flugsamgöngum að halda við Reykjavík. Eðlilega voru menn ekki ánægðir með þessa ákvörðun flugfélagsins á sínum tíma enda um mikla þjónustuskerðingu að ræða fyrir flugfarþega um Húsavíkurflugvöll.

Nú er svo komið að nánast allt áætlunarflug innanlands er ríkisstyrkt með beinum eða óbeinum hætti nú þegar ákveðið hef­ur verið að samþætta rekst­ur Air Ice­land Conn­ect og Icelanda­ir. Starf­semi flugfé­lag­anna tveggja hefur verið sam­einuð, svo sem flugrekstr­ar­svið, sölu- og markaðsmál. Sameinað félag er með eignarhlut í Norlandair sem hægt og bítandi hefur verið að ná flestum ríkisstyrktum áfangastöðum á landsbyggðinni.

Vitað er að stjórnvöld hafa verið með beina ríkisstyrki varðandi ákveðnar flugleiðir; Þórshöfn, Vopnafjörður, Grímsey, Gjögur, Bíldudalur, Höfn og Vestmannaeyjar auk þess að koma myndarlega að stuðningi við Icelandair með ríkisábyrgð upp á um 16 milljarða, sem er eftir samþættingu við dótturfélagið Air Ice­land Conn­ect með áætlunarferðir til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Vestmannaeyja.

Eftir því sem best verður séð, er eina áætlunarflugið sem ekki er ríkisstyrkt eða nýtur ríkisábyrgðar, flugleiðin Reykjavík-Húsavík með Flugfélaginu Erni sem skekkir verulega samkeppnisstöðuna.

Því miður virðist sem ábendingar Samkeppniseftirlitsins sem fram koma í umsögn eftirlitsins við frumvörp er varða ríkisaðstoð til handa Icelandair séu að raungerast.

Í umsögninni kemur skýrt fram að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni. Áhyggjur Samkeppniseftirlitsins eru þegar komnar fram nú þegar Icelandair og Air Iceland Connect hafa sameinað krafta sína auk þess sem Norlandair er hluti af samsteypunni þar sem Flugfélag Íslands ehf. á eignarhlut í Norlandair svo vitnað sé í ársreikninga félagsins 2019.

• Innanlandsflug. Air Iceland Connect nýtur mikilla yfirburða í innanlandsflugi. Á stærstu flugleiðum innanlands, þ.e. á milli Reykjavíkur og Akureyrar, Reykjavíkur og Egilsstaða og Reykjavíkur og Ísafjarðar hefur Air Iceland Connect því sem næst notið einokunarstöðu allt frá árinu 2000 þegar Íslandsflug hætti samkeppnisflugi á leiðunum. Aðrir keppinautar í áætlunarflugi innanlands sinna að mestu leyti öðrum leiðum sem eru mun minni að umfangi. Ljóst er að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni eða aðra sem hygðust hasla sér völl í innanlandsflugi.

Flugfélagið Ernir á því miður ekki lengur roð í þennan sameinaða risa sem drottnar nú nánast yfir öllu áætlunarflugi á Íslandi með ríkisstyrkjum og/eða ríkisábyrgð í boði stjórnvalda.

Staðan er augljós, með útspili stjórnvalda hefur verið þrengt verulega að rekstri Flugfélagsins Ernis sem haldið hefur úti áætlunarflugi á markaðslegum forsendum til Húsavíkur.

Eins og áður hefur komið fram í þessu bréfi stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi, þar sem vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir eigi ekki auðvelt með að mæta þeirri andstöðu sem flugfélagið býr við um þessar mundir. Það er þrátt fyrir farsæla sögu frá stofnun þess árið 1970 er viðkemur leiguflugi, áætlunarflugi og sjúkraflugi.

Hvað það varðar hafa forsvarsmenn Framsýnar þegar fundað með forsætisráðherra og Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi áhyggjur félagsins á fákeppni í áætlunarflugi á Íslandi auk þess að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart. Ráðherrarnir tóku heilshugar undir áhyggjur Framsýnar varðandi fákeppnina sem væri að myndast í innanlandsfluginu.

Framsýn stéttarfélag telur eðlilegt að SSNE komi að málinu af fullum þunga og beiti sér fyrir því að stuðningur við flug til Húsavíkur verði með sambærilegum hætti og er til allra annara flugvalla á Íslandi þar sem haldið er úti reglubundnu áætlunarflugi. Ekki þarf að fara mörgum orðum yfir mikilvægi þess fyrir atvinnulífið í Þingeyjarsýslum að flugsamgöngur haldist áfram milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Ekki síst þess vegna er aðkoma SSNE að málinu afar mikilvæg segir í bréfi Framsýnar til SSNE.

Til viðbótar má geta þess að Framsýn gagnrýndi harðlega á sínum tíma ákvörðun sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum að sameina Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Eyþingi undir heitinu SSNE. Framsýn hafði ákveðnar áhyggjur af því að ákveðinn slagkraftur færi úr héraðinu við sameininguna. Nú verður forvitnilegt að sjá hvernig SSNE bregst við áhyggjum Framsýnar varðandi framtíð áætlunarflugs milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Vitað er að ákveðin öfl hafa talað fyrir því að áætlunarflugi til Húsavíkur verði hætt. Við því þarf að bregðast af fullum krafti.

Ánægðir með nýja skipið Jökul ÞH

Formaður Framsýnar leit við í Hafnarfjarðarhöfn þegar Jökull ÞH var við það að fara í sína fyrstu veiðiferð fyrir GPG-Fiskverkun fyrir helgina. Aðalsteini Árna var boðið að skoða skipið sem er allt hið glæsilegasta. Gunnlaugur Karl eigandi GPG var að sjálfsögðu ánægður með skipið sem og aðrir í áhöfninni. Reiknað er með að Jökull landi á Húsavík eftir nokkra daga. Framsýn óskar GPG til hamingju með glæsilegt skip en fyrirtækið er með starfsemi á Húsavík og Raufarhöfn á félagssvæði Framsýnar og veitir fjölda fólks atvinnu í landi og á sjó.   

Útgerðarmenn ræða málin. Gunnlaugur Karl eigandi GPG og Aðalsteinn Ómar Ásgerirsson útgerðarmaður á Ísafirði.

Þórður skipstjóri var mjög ánægður með nýja skipið og sá því fulla ástæðu til að brosa.

Kokkurinn var klár í slaginn og stóð vaktina í matsalnum.

Jökull ÞH hélt til veiða fyrir helgina og er væntanlegur til Húsavíkur á næstu dögum eftir vonandi velheppnaða veiðiferð.

Stjórn Húsavíkurstofu tekur heilshugar undir með Framsýn

Húsavíkurstofa sem er samráðsvettvangur fyrirtækja og þjónustuaðila á Húsavík og nágrenni og hefur það markmið að stuðla að eflingu atvinnulífs með aukinni samvinnu hagsmunaaðila í ferðaþjónustu tekur heilshugar undir með Framsýn varðandi mikilvægi þess að flugsamgöngur haldist milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Stjórn Húsavíkurstofu lítur málið alvarlegum augum og bendir á að gríðarlega mikilvægt sé að halda í þessar góðu flugsamgöngur, þær séu mikil þjónustubót og skipti Húsavík miklu máli. Áhugi er innan stjórnar Húsavíkurstofu að fylgja málinu eftir og funda með formanni Framsýnar og Flugfélagsins Ernis um málið. Þegar þetta er skrifað hafa fulltrúar stjórnar Húsavíkurstofu þegar fundað með formanni Framsýnar um málið, en félagið hefur eins og fram hefur komið í fjölmiðum og greinarskrifum um málið, komið sínum áhyggjum skýrt á framfæri enda eina áætlunarflugið til áfangastaða sem ekki er ríkisstyrkt á Íslandi. Það er flugið með Flugfélaginu Erni til Húsavíkur.  

Baráttan fyrir jöfnuði heldur áfram

Alþjóðlegur baráttudagur hinna vinnandi stétta er að renna upp. Þann 1. maí ber verkafólk um heim allan fram kröfur um aukin jöfnuð og jafnrétti um leið og mótmælt er  þeirri miklu misskiptingu sem þrífst víða um heim. Horfir jafnframt um öxl og minnist þeirra sigra sem áunnist hafa, en það sem mestu máli skiptir er að líta til framtíðar.  Saga verkalýðsbaráttunnar er orðin löng, en sagt er að hún  hafi þróast samhliða fyrstu iðnbyltingunni á síðari hluta átjándu aldar og verið andsvar verkalýðsins við verksmiðjuþrælkun og uppgangi kapítalisma í Evrópu. Fyrstu stéttarfélögin voru stofnuð af iðnaðarmönnum á Bretlandi er verkafólk var án nokkurra réttinda á vinnumarkaði og algjörlega háð framboði á markaði og eftirspurn atvinnurekenda. Hugmyndin um starfsemi stéttarfélaga féll í grýttan jarðveg hjá atvinnurekendum, enda braut hún í bága við grundvallarkenningar frjálsrar samkeppni og stóð í vegi fyrir frjálsri verðmyndun. Starfsemi verkalýðshreyfingarinnar þróaðist síðan sem sjálfstætt afl sem gætir réttinda launafólks um heim allan og hafa aðgerðir hreyfingarinnar frá fyrstu tíð haft mikið að segja um þróun og mótun samfélaga.

Mikilvægi stéttarfélaga
Undir lok 19. aldar voru fyrstu stéttarfélögin stofnuð hér á landi. Sum þeirra entust stutt, en önnur döfnuðu og með vaxandi meðvitund íslenskrar alþýðu um sín bágu kjör efldist hreyfingin. Stéttarfélög eru einn af máttarstólpum íslensks atvinnulífs og hafa í gegnum tíðina barist fyrir bættum kjörum og aðbúnaði launafólks. Í blámóðu fortíðar getum við greint sárafátækt fólk reyna að létta af sér þrældómsokinu og heygja baráttu gegn arðráni og kúgun. Þeirra barátta var knúin áfram af neyð. Við sem á eftir komum njótum afraksturs fórna þeirra, en erum kannski ekkert sérstaklega að velta okkur upp úr því hvernig þessi réttindi eru til komin, eða með hvaða hætti þau hafa ávaxtað sig. Aðstæður á vinnumarkaði hafa tekið miklum breytingum frá upphafsárum hreyfingarinnar, en fyrstu áratugi tuttugustu aldarinnar litaðist íslensk verkalýðsbarátta af átökum á vinnumarkaði og róstusömum aðgerðum, þar sem kné var gjarnan látið fylgja kviði. Nokkur annar háttur er hafður á samningaviðræðum í dag. Segja má að viðræður aðila vinnumarkaðarins einkennist í stórum dráttum af faglegum vinnubrögðum, reyndar með undantekingum þar sem leitað er málamiðlana. Hlutverk stéttarfélaga hefur því breyst í samræmi við þróun samfélagsins, en mikilvægi þeirra fyrir réttindagæslu og hagsmunabaráttu félagsmanna er og verður hið sama og áður. Kannski hefur einmitt aldrei verið mikilvægara en nú að launafólk eigi sér sterka málsvara.

Fjórða iðnbyltingin mál málanna                                                                                                             
Flestir telja fjórðu iðnbyltinguna muni færa okkur nýja veröld. Rauði þráðurinn í gegnum fyrri þrjár iðnbyltingar hefur verið sjálfvirknivæðing. Þar sem vélarafl hefur leyst vöðvaafl manna og dýra af hólmi, eða allt frá því að gufuvélin markaði þáttaskil í fyrstu iðnbyltingunni og var upphafið af iðnaði eins og við þekkjum í dag. Það má segja að þriðja iðnbyltingin hafi kortlagt líf okkar á nýjan hátt. Farsímar, tölvur og upplýsingatækni hafa breytt öllum siðum okkar og venjum á undra skömmum tíma. Fjórða iðnbyltingin sem þegar hefur umvafið líf okkar viðheldur þeirri þróun áfram, en gengur mikið lengra. Hennar helstu einkenni munu verða gervigreind, róbótatækni, Internet hlutanna og sjálfvirknivæðing. Þó við séum almennt ekki farin að sjá sjálfkeyrandi bíla á þjóðvegum landsins, þá er áhrifa byltingarinnar þegar farið að gæta í vinnu og framleiðslu á mörgum sviðum atvinnulífsins. Tækniframfarir hafa kollvarpað og stóreflt alla vinnslu í sjávarútveginum og margfaldað þar með útflutningsverðmæti afurða, í verslunum hafa sjálfsafgreiðslukassar rutt sér til rúms á örfáum árum, hraðbankar hafa komið í stað þjónustufulltrúa bankana og róbótar sjá um mjaltir á mörgum kúabúum á landsbyggðinni. Og hér er einungis fátt eitt talið.

Launafólk þarf  sterka málsvara
Þær gríðarlegu breytingar sem áunnist hafa með tækniþróun síðustu 250 ára og ítrekað hafa umbylt samfélögum um víða veröld, hafa sannarlega átt sinn þátt í því að leggja grunn að betri lífskjörum manna. Það er engum manni fært að spá fyrir um það á þessari stundu hvort tækniframfarir fjórðu iðnbyltingarinnar muni koma til með fækka störfum og ógna þar með lífsafkomu fólks, eða hvort þær muni skapa ný og betri störf. Við vitum þó nú þegar, að með aukinni sjálfvirknivæðingu minnkar þörfin fyrir vinnandi hendur og æ fleiri starfsstéttir eru að úreldast. Sífellt fækkar störfum sem ekki krefjast  einhverskonar sérþekkingar, þjálfunar eða menntunar. Þeir sem missa störfin við þessar aðstæður hlaupa ekki svo auðveldlega í aðra vinnu. Má þar sérstaklega nefna fólk með litla formlega menntun, en sá hópur er um fjórðungur fólks á vinnumarkaði. Vel þarf að undirbúa bæði launafólk og atvinnulífið fyrir þessar breytingar með aukinni fræðslu og menntun.

Kapitalískt umhverfi
En þá erum við kannski að komast að kjarna málsins. Kapítalískt hugmyndakerfi hefur frá fyrstu tíð beint fólki í þá átt að græða sem mest af peningum án tillits til annara þátta. Það hefur ekkert breyst. Ástæður tækniþróunar fyrirtækja eru því ekki hvað síst tilkomnar af viðleitni eigenda þeirra til að auka hagnað sinn og arðsemi með því að lækka framleiðslukostnað. Afrakstur vinnunnar skilar sér áfram í fárra manna hendur með tilheyrandi misskiptingu. Fyrir það mun verkafólk framtíðarinnar þurfa að verja sinn rétt, eins og forverar þeirra gerðu í árdaga hreyfingarinnar. Samhliða öðrum breytingum á vinnumarkaði hefur það gerst víða erlendis að verkalýðshreyfingin hefur veikst og laun ekki þróast í samræmi við aukna framleiðni og verðmætasköpun. Verði þróunin hér á landi sú sama mun það umhverfi sem blasir við kynslóðinni sem er að hefja störf á vinnumarkaði í dag verða allt annað en það sem kynslóðin sem á undan tókst á við. Hætt er við að aukin áhersla verði á ýmis form skammtímaráðninga, lausamennsku eða jafnvel í formi verktakaráðninga þar sem fyrirtæki koma sér undan því að axla ábyrgð á viðkomandi launamanni. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu, framtíð verkalýðshreyfingarinnar byggir á því að hún haldi vöku sinni. Að hún sé sífellt á varðbergi og reiðubúin að ganga í takt við komandi breytingar í atvinnulífinu. Stærsta áskorun hreyfingarinnar um þessar mundir er að undirbúa bæði launafólk og atvinnulífið fyrir þær miklu breytingar sem eru í vændum á vinnumarkaði. Horfa þarf til þess hver staða stéttarfélaga er og verður gagnvart aukinni tækniþróun og hvaða áhrif framvinda tækninnar mun hafa á störf og samfélagið allt í nánustu framtíð. Stéttarfélögin þurfa því ekki einungis að gæta hagsmuna og mæta væntingum núverandi félagsmanna, heldur þurfa þau einnig að horfa til framtíðar með hagsmuni félagsmanna sinna að leiðarljósi.

Samtakamátturinn skiptir máli
Hér á landi er aðild fólks að stéttarfélögum sú mesta sem þekkist, sem styrkir stöðu launafólks og þar með kjarasamningsumhverfið. Stéttarfélög hafa líklega aldrei haft mikilvægari hlutverki að gegna en einmitt í dag, þar sem sífellt eru gerðar auknar kröfur um þjónustu og öflugt starf að kjara- og réttindamálum. Breyttir atvinnuhættir kalla á nýjar áherslur og vinnubrögð til framtíðar og fela í sér áskoranir, en einnig tækifæri til að brjóta niður múra og tileinka sér nýja hugsun. Sagan segir okkur að stéttarfélögin sem áður voru litlar einingar í öllum landsfjórðungum hafi sameinist í stærri fylkingar. Með sameiningu félaganna hafa þau eflst og sjóðir þeirra styrkst, s.s. sjúkra-, orlofs- og starfsmenntasjóðir. Haldi þessi þróun áfram munu félögin fá aukna burði til að auka hagræðingu í rekstri og öðlast meiri slagkraft, félagsmönnum til hagsbóta. Stærð félagsins má samt aldrei verða til þess að félagsmaðurinn fjarlægist sitt stéttarfélag.

Góðir félagar. Stéttarfélögin munu hér eftir sem hingað til byggja á samtakamætti fólksins sem í þeim er á hverjum tíma. Höfum það í huga nú þegar við höldum hátíðlegan alþjóðlegan baráttudag launafólks. Gleymum okkur samt ekki í gleðinni og verum minnug þess að „allir dagar eru baráttudagar.”

Ósk Helgadóttir,
varaformaður Framsýnar

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar

Baráttusamkoma í Sjónvarpinu 1. Maí

Annað árið í röð og í annað skiptið síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Líkt og í fyrra er brugðist við þessari stöðu með útsendingu frá sérstakri skemmti-og baráttusamkomu sem verður sjónvarpað á RÚV að kvöldi 1. maí (kl. 21:00).

Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hugleiðingar launafólks víða af á landinu einkenna þáttinn. Meðal listamanna sem koma fram eru Emilíana Torrini og vinir, Margrét Rán og félagar, Fjallabræður, Skoffín, Moses Hightower, Jakob Birgisson uppistandari og Öreigarnir (blásarasveit Samma og Co).

Það er nóg til er yfirskrift 1. maí að þessu sinni. „Það er nóg til“ er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er þrátt fyrir allt með því besta sem þekkist í sögunni. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum – bæði af hendi náttúrunnar og mannauði. Með góðum vilja og réttum ákvörðunum getum við öll notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi.

Það er nóg til! Þar sem engar verða kröfugöngurnar verður hægt að búa til sitt eigið kröfuspjald á Facebook og sýna stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmyndina sína 1. maí. Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á Rúv um kvöldið.

Að dagskránni í Sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.

Kyrrseta er mikil heilsuvá

Á undanförnum áratugum hafa vinnustaðir tekið breytingum og vinna starfsmenn störf sín í meira mæli við tölvu og þá almennt í sitjandi stöðu. Þeir sem sinna slíkum störfum þekkja margir hverjir þær afleiðingar sem langvarandi seta getur haft á heilsu fólks án þess þó að bregðast sérstaklega við því. Algengustu einkennin eru verkir í fótleggjum eða mjóbaki, en einnig getur langverandi seta stuðlað að alvarlegri einkennum. Þó finna alls ekki allir fyrir líkamlegum einkennum.

Undanfarið hefur umræða um kyrrsetu náð eyrum fólks og fólk því orðið meðvitaðra um rétta líkamsbeitingu í sínum störfum. Hreyfing og virkni í frítíma hefur einnig mikil áhrif á það hvort langvarandi seta á vinnutíma bitni mikið eða lítið á viðkomandi.

Í nýlegri könnun sem tók til 45.000 vinnustaða í 33 Evrópuríkjum töldu 61 prósent svarenda langvarandi setu vera áhættuþátt í störfum starfsmanna sinna. Of mikil kyrrseta er talin vera sérstaklega mikið vandamál á vinnustöðum þar sem meirihluti starfsmanna vinnur skrifstofustörf og lítill hluti starfsins krefst líkamlegs erfiðis. Kyrrseta til lengri tíma er talin hafa slæm áhrif á stoðkerfi líkamans og talin geta leitt til vandamála eða verkja tengdum stoðkerfinu.

Athygli vekur að kyrrseta er talinn meiri áhættuþáttur samkvæmt sömu könnun heldur en störf sem felast í að lyfta eða hreyfa fólk og lyfta þungum hlutum. Þannig töldu 54 prósent svarenda það vera áhættuþátt í störfum starfsmanna sinna. Þar getur rétt líkamsbreyting skipt sköpum, rétt eins og þegar kemur að langvarandi kyrrsetu.

Aðbúnaður starfsmanna getur verið mismunandi góður en almennt er talið að góður skrifborðsstóll og skrifborð sem hægt er að hækka sé gulls í gildi. Þannig getur starfsfólk sinnt störfum sínum, sem unnið er við tölvu eða borð, standandi og komið í veg fyrir of mikla kyrrsetu í sínum störfum. (Heimild bsrb.is)