Kröfugerð Framsýnar samþykkt

Mikil vinna hefur farið fram innan Samninganefndar Framsýnar að móta kröfugerð félagsins vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Félagið hefur þegar samþykkt að veita Starfsgreinasambandi Íslands og Landssambandi ísl. Verslunarmanna umboð til að semja fyrir hönd félagsins. Því fylgir að formaður Framsýnar verði virkur í kjaraviðræðunum og gæti hagsmuna félagsmanna. Undirbúningur vegna mótunar kröfugerðarinnar fór þannig fram að auglýst var eftir áherslum félagsmanna, trúnaðarmenn á vinnustöðum voru virkjaðir og þá hefur Samninganefnd félagsins haldið nokkra undirbúnings fundi. Á fundi samninganefndarinnar í gær var eftirfarandi kröfugerð samþykkt samhljóða:

Formáli:

Að mati Samninganefndar Framsýnar stéttarfélags eru Lífskjarasamningarnir einir merkilegustu kjarasamningar sem gerðir hafa verið allt frá undirritun Þjóðarsáttasamningana 2. febrúar 1990. Sérstaklega hvað varðar að jafna launakjör í landinu. Megininntak samningsins var að verja kaupmátt launa, vinna gegn verðbólgu og tryggja lægri vexti til frambúðar.

Að mati Framsýnar náðust þessi markmið að mestu leiti, þrátt fyrir að nokkuð skorti á að ríkisstjórnin hafi staðið við gefin loforð s.s. um að setja skýrar reglur um févíti þegar fyrirtæki standa ekki við gerða kjarasamninga.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem fylgdi kjarasamningunum fólst í skattalækkunum, vaxtalækkunum, ákveðnum frystingum þjónustugjalda ríkis og sveitarfélaga, hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er sneru að húsnæðismálum ungs fólks.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að umfangi um 80 milljarðar á gildistímanum til að styðja við markmið um stöðugleika og bætt kjör launafólks.

Lífskjarasamningurinn byggði á svokallaðri krónutöluleið sem að mati Samninganefndar Framsýnar er besta leiðin til að jafna lífskjörin í landinu. Aðrir hópar launafólks, sem búa við mannsæmandi kjör og rúmlega það verða að hafa skilning á viðleitni stéttarfélaga láglaunafólks að auka jöfnuð í landinu.  Það gera þeir best með því að taka heilshugar undir kröfuna um að allir eigi að geta séð sér farborða með sínu vinnuframlagi. Menn eiga ekki að þurfa að taka að sér aukavinnu til að geta framfleytt sér. Það eiga allir að geta lifað af fullu starfi sem og af örorku- og lífeyrisgreiðslum. Að mati Samninganefndar Framsýnar er ekki annað boðlegt.

Sem áður er mikilvægt að samningsaðilar í samráði við stjórnvöld vinni áfram að því að verja kaupmátt launa, vinni gegn verðbólgu og tryggi lægri vexti til frambúðar.

 

Áherslur Samninganefndar Framsýnar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins:

 1. Öll aðildarfélög SGS standi saman að mótun kröfugerðar sambandsins og fari sameinuð í kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins.
 2. Samstaða náist um að framlengja Lífskjarasamninginn á svipuðum nótum og núverandi samningsforsendur byggja á. Það er með aðkomu stjórnvalda/sveitarfélaga og markmiðið verði að tryggja kaupmátt launa.
 3. Samið verði um hagvaxtarauka.
 4. Samið verði um krónutöluhækkun og launakjör starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum verði hækkuð að lágmarki til jafns við opinbera starfsmenn sem gegna sambærilegum störfum og félagsmenn aðildarfélaga SGS á almenna vinnumarkaðinum.
 5. Samið verði um raunverulega vinnutímastyttingu líkt og LÍV samdi um í síðustu kjarasamningum. Sala á neysluhléum er ekki vinnutímastytting, stytta þarf raun vinnutíma.
 6. Tekin verði upp ný launatafla enda núverandi launatafla óvirk.
 7. Almenn kjör í kjarasamningi SA og SGS verði jöfnuð við kjarasamninga opinberra starfsmanna s.s. veikinda- og orlofsréttur. Öllum verði tryggður 30 daga orlofsréttur. Opnað verði á frekari veikindarétt starfsmanna vegna maka/foreldra.
 8. Hvað varðar aðkomu stjórnvalda að kjarasamningunum er mikilvægt að áhersla verði lögð á að auka jöfnuð í búsetuskilyrðum burt séð frá búsetu. Sérstaklega er hér verið að tala um aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og námi á framhalds- og háskólastigi svo ekki sé talað um þann mikla flutningskostnað sem fylgir því að búa á landsbyggðinni, fjarri Reykjavík.
 9. Stjórnvöld komi að því með verkalýðshreyfingunni að skapa leigjendum og íbúðarkaupendum á lágmarkskjörum öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum, sem stillt verði af í samræmi við fjárhagslega getu þeirra á hverjum tíma. Öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvallarþáttur í velferð launafólks um land allt.
 10. Samið verði um hærri framlög fyrirtækja í Fræðslusjóðinn Landsmennt. Greiðslur fyrirtækja til Landsmenntar eru mun lægri en greiðslur ríkis og sveitarfélaga í Sveitamennt og Ríkismennt. (Framlag í dag: Landsmennt 0,3% – Sveitamennt 0,82% – Ríkismennt 0,82%).
 11. Samninganefnd Framsýnar áskilur sér rétt til að koma með tillögur við einstakar greinar í þeim kjarasamningum sem eru undir í þeim viðræðum sem eru framundan við SA.
 12. Þess er vænst að búið verði að ganga frá nýjum kjarasamningum fyrir 1. nóvember 2022, það er þegar núgildandi kjarasamningar renna út. Ef ekki gildi kjarasamningurinn frá þeim tíma.
 13. Framsýn stéttarfélag mun leggja sitt að mörkum til að þau metnaðarfullu markmið sem tiltekin eru í kröfugerð félagsins nái fram að ganga gagnvart aðildarfyrirtækjum SA og stjórnvöldum, það er ríki og sveitarfélögum.

Þannig samþykkt á fundi Samninganefndar Framsýnar stéttarfélags þriðjudaginn 17. maí 2022.

 

Deila á