Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins sem skipa þrjú efstu sætin á lista flokksins vegna komandi sveitarstjórnarkostninga í Norðurþingi á laugardaginn komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í hádeginu í dag. Þetta voru þau Hafrún Olgeirsdóttir, Helena Eydís Ingólfsdóttir og Kristinn Jóhann Lund. Umræða var tekin um málefni sveitarfélagsins, atvinnumál, ódýr kosningaloforð, Öskjureitinn, flugsamgöngur og mikilvægi þess að setja aukinn kraft í húsbyggingar í sveitarfélaginu. Menn voru sammála um að húsnæðisskortur stæði sveitarfélaginu fyrir þrifum. Þá kom fram hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins ánægja með fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fráfarandi meirihluta hefði tekist vel til í fjármálastjórnun Norðurþings sem væri afar mikilvægur þáttur í starfsemi sveitarfélagsins. Formaður Framsýnar notaði tækifærið og óskaði eftir góðu samstarfi við verðandi sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins á komandi kjörtímabili líkt og hann hefur komið á framfæri við frambjóðendur annarra framboða sem litið hafa við á Skrifstofu stéttarfélaganna síðustu dagana.