Megn óánægja með útboð HSN á ræstingum

Því miður hafa stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands ekki séð ástæðu til að svara erindi Framsýnar frá 10. maí 2022 varðandi beiðni um upplýsingar er varða sparnaðartillögur til að bregðast við fjárhagsvandanum hjá HSN.

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar 17. maí kom fram hörð gagnrýni á vinnubrögð HSN varðandi útboð á þrifum. Samþykkt var að ítreka fyrra bréf og álykta um málið. Þá hefur Framsýn falið Hagdeild ASÍ að yfirfara útreikninga stofnunarinnar sem kynntir voru á starfsmannafundi með starfsfólki við ræstingar. Þar kom fram að töluverður sparnaður væri fólginn í því að bjóða þrifin út. Framsýn dregur verulega í efa að útreikningarnir séu réttir. Vitað er að starfsfólk við þrif og ræstingar hefur auk þess komið að öðrum störfum s.s. í bítibúrinu og þrifum utan stofnunar HSN.

Hagdeild ASÍ er tilbúin að yfirfara útreikningana fyrir Framsýn enda fái hagdeildin aðgengi að útboðsgögnunum. Það er í hverju útboðið var fólgið er snýr að starfsemi HSN á Húsavík og hvort allir þeir verkþættir sem ræstingarfólkið hefur séð um fram að þessu hafi verið með í útboðinu eða eitthvað undanskilið. Til viðbótar má geta þess, samkvæmt heimildum Framsýnar eru þessi kaup HSN á þrifaþjónustu virðisaukaskyld sem felur í sér aukakostnað fyrir stofnunina þar sem hún fær hann ekki endurgreiddan.

Hér má lesa ályktun fundarins:

Ályktun

-Um útboð HSN á ræstingum-

 „Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fordæmir þá ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) að bjóða út ræstingar á vegum stofnunarinnar á Norðurlandi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er um að ræða viðbrögð stjórnenda við fjárhagsvanda HSN.

 Hvað það varðar er athyglisvert að verða vitni að því að stjórnendur HSN hyggist taka á hallarekstrinum með því að setja krumlurnar í vasa þeirra lægst launuðu hjá stofnuninni. Þannig verði hægt að halda úti eðlilegri heilbrigðisþjónustu fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar, það er með því að segja ræstingafólkinu upp störfum.

 Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar dregur verulega í efa að útreikningur HSN sé réttur hvað varðar sparnað stofnunarinnar við að bjóða ræstingarnar út. Félagið hefur þegar óskað eftir upplýsingum frá HSN um útboðið og jafnframt falið Hagdeild ASÍ að yfirfara gögnin. Þess er vænst að Framsýn fái aðgang að gögnunum til að sannreyna framkomnar upplýsingar frá HSN um sparnað og upplýsingar um hvort/hvaða frekari sparnaðartillögur eru fyrirhugaðar.“

 

 

Deila á