Ungt fólk á uppleið

Það var ánægjulegt að fá tvo unga og efnilega frambjóðendur í heimsókn frá S – listanum, lista Samfylkingarinnar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Norðurþingi. Þetta voru þau Rebekka Ásgeirsdóttir sem skipar annað sætið og Reynir Ingi Reinhardsson sem skipar þriðja sætið á listanum sem komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þau áttu gott samtal við formann Framsýnar um helstu málefni Norðurþings í dag og á komandi kjörtímabili. Atvinnumál, velferðarmál og húsnæðismál voru þeim ofarlega í huga og þá komu nýlegar uppsagnir ræstingarfólks á HSN á Húsavík einnig til umræðu, enda vakið mikla athygli í samfélaginu. Formaður Framsýnar talaði fyrir góðu samstarfi eftir kosningarnar enda hagsmunir stéttarfélaganna og Norðurþings að mestu sameiginlegir. Það er alltaf ánægjulegt þegar ungt fólk gefur kost á sér til starfa fyrir samfélagið. Rebekka og Reynir Ingi eiga örugglega framtíðina fyrir sér á þeim vettvangi.

Deila á