Ársfundur Lsj. Stapa fór fram í Hofi á Akureyri í dag. Að venju var kosið í stjórn sjóðsins. Framsýn samþykkti að tilnefna Guðnýju Hrund Karlsdóttir í stjórn sjóðsins til tveggja ára fh. sjóðfélaga í Þingeyjarsýslum. Guðný Hrund er félagsmaður í Framsýn stéttarfélagi.
Guðný Hrund Karlsdóttir er viðskiptafræðingur (Cand. Oecon) að mennt með viðbótar MA gráðu í fjölmiðla- og boðskiptafræðum. Hún hefur fjölbreytta reynslu frá einkageiranum og hinu opinbera.
Guðný Hrund er stofnandi og framkvæmdastjóri bókhalds- og ráðgjafafyrirtækisins Tvíhliða bókhald ehf. og situr í stjórn Íslandspósts. Hún var sveitarstjóri á Raufarhöfn 2002-2006 og í Húnaþingi Vestra 2014-2019. Áður starfaði hún hjá Streng hf., Maritech og WiseDynamics í Reykjavík, Akureyri, Noregi og Kanada sem viðskipta- og verkefnastjóri við innleiðingu viðskiptahugbúnaðar viðskiptavina í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum.
Guðný Hrund hefur sinnt fjölmörgum trúnaðar- og ábyrgðastöðum m.a. í stjórn Hafnarsambands Íslands, Eignarhaldafélags Brunabótafélags Íslands, Fallorku, Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins og sem formaður stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa.
Faðir Guðnýjar Hrundar er Karl Steinar Guðnason fyrrverandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur í um tvo áratugi og varaformaður Verkamannasambands Íslands. Móðir Guðnýjar er Þórdís Þormóðsdóttir félagsráðgjafi.