Félagsmenn Framsýnar beðnir um að svara könnun um stöðu þeirra á vinnumarkaði

Félagsmenn góðir, nú þurfum við á ykkar aðstoð að halda til að geta metið ykkar stöðu á vinnumarkaði. Við viljum biðja ykkur að taka þátt í stuttri skoðanakönnun um stöðu ykkar. Það tekur stuttan tíma og allir sem svara komast í pott og geta unnið 30.000 króna gjafakort.

Könnunin er á vegum Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem var stofnuð af ASÍ og BSRB árið 2020. Könnunin er mikilvægur liður í upplýsingaöflun um stöðuna á vinnumarkaði, sér í lagi varðandi fjárhagsstöðu, stöðu á húsnæðismarkaði, heilsu og áhrifa heimsfaraldursins. Niðurstöður hennar munu hjálpa okkur við að greina stöðu launafólks á Íslandi.

Það tekur aðeins um 10 mínútur að svara könnuninni. Spurt er um húsnæði, fjárhagsstöðu, líðan, heilsufar, heilbrigðisþjónustu, sumarfrístöku, áhrifa heimsfaraldursins í starfi sem og á einkalíf.

Könnunina finnið þið hér: : https://www.research.net/r/stadalaunafolks2021

Framkvæmd könnunarinnar er alfarið í höndum Vörðu, sem sér um hönnun spurninga, uppsetningu, framkvæmd og mun sjá um úrvinnslu á niðurstöðum.

  • Könnunin verður opin í tvær vikur og hægt er að svara henni í síma, spjaldtölvu eða í tölvu.
  • Könnunin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.
  • Þrír þátttakendur vinna 30.000 kr. gjafakort fyrir þátttökuna.
  • Könnunin opnar miðvikudaginn 24. nóvember og verður lokað þriðjudaginn 8. desember.

Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt í könnuninni, enda afar mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra til að niðurstöðurnar nýtist sem best við að móta og styðja við kröfur verkalýðshreyfingarinnar.

Framsýn stéttarfélag

Sorry félagar við Eyjafjörð

Að gefnu tilefni vegna fréttar í Vikublaðinu í gær varðandi samstarf Einingar-Iðju og Félags verslunar- og skrifstofufólks um flutning réttinda félagsmanna þessara tveggja félaga milli félaganna er rétt að taka skýrt fram:

Í fréttinni kemur fram að stéttarfélögin við Eyjafjörð hafi gert með sér samstarfssamning um nýtingu réttinda fari félagsmenn þessara tveggja félaga milli félaganna. Um er að ræða samkomulag til eins árs sem verði þá endurskoðað í ljósi reynslunnar. Ekki sé betur vitað en að þessi tvö stéttarfélög séu fyrst aðildarfélaga innan ASÍ til að gera samning af þessu tagi. Með honum sé stórt skref stigið í að tryggja að réttindi fólks detti ekki niður færi það sig milli félaga. Það er full ástæða til að hrósa stéttarfélögunum við Eyjafjörð fyrir þessa ákvörðun þar sem vinnandi fólk sem færir sig milli félaga tapar oftast sínum réttindum við millifærsluna. Reglur ASÍ taka á þessu að hluta enda færist félagsmenn til innan aðildarfélaga sambandsins. Eftir að viðkomandi aðili hefur greitt til nýja félagsins í mánuð eftir að hann hætti að greiða í fyrra félagið innan ASÍ flytur hann sín grunnréttindi yfir í nýja félagið samkvæmt þeim reglum sem gilda hjá því stéttarfélagi sem gengið er í.

Framsýn stéttarfélag og Þingiðn félag iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum, sem reka saman skrifstofu á Húsavík, gengu frá samkomulagi um flutning réttinda milli félaga fyrir svo mörgum árum að elstu menn er löngu búnir að gleyma því hvaða ár það var. Þó er vitað að það var nokkuð snemma á síðustu öld. Samkomulagið byggir á því að félagsmenn þessara tveggja félaga fá réttindi sín að fullu metin strax við flutning fari þeir milli þessara tveggja stéttarfélaga sem bæði eru innan Alþýðusambands Íslands. Það að önnur stéttarfélög á Norðurlandi ætli sér að feta í fótspor stéttarfélaganna við Skjálfanda er að sjálfsögðu mikið gleðiefni sem ber að fagna. Jafnvel er ástæða til að skjóta upp flugeldum ef það er ekki bannað.

Félagsmenn í Starfsmannafélagi Húsavíkur eru beðnir um að svara könnun um stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Félagsmenn góðir, nú þurfum við á ykkar aðstoð að halda til að geta metið ykkar stöðu á vinnumarkaði. Við viljum biðja ykkur að taka þátt í stuttri skoðanakönnun um stöðu ykkar. Það tekur stuttan tíma og allir sem svara komast í pott og geta unnið 30.000 króna gjafakort.

Könnunin er á vegum Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, sem var stofnuð af ASÍ og BSRB árið 2020. Könnunin er mikilvægur liður í upplýsingaöflun um stöðuna á vinnumarkaði, sér í lagi varðandi fjárhagsstöðu, stöðu á húsnæðismarkaði, heilsu og áhrifa heimsfaraldursins. Niðurstöður hennar munu hjálpa okkur við að greina stöðu launafólks á Íslandi.

Það tekur aðeins um 10 mínútur að svara könnuninni. Spurt er um húsnæði, fjárhagsstöðu, líðan, heilsufar, heilbrigðisþjónustu, sumarfrístöku, áhrifa heimsfaraldursins í starfi sem og á einkalíf.

Könnunina finnið þið hér: : https://www.research.net/r/stadalaunafolks2021

Framkvæmd könnunarinnar er alfarið í höndum Vörðu, sem sér um hönnun spurninga, uppsetningu, framkvæmd og mun sjá um úrvinnslu á niðurstöðum.

  • Könnunin verður opin í tvær vikur og hægt er að svara henni í síma, spjaldtölvu eða í tölvu.
  • Könnunin er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.
  • Þrír þátttakendur vinna 30.000 kr. gjafakort fyrir þátttökuna.
  • Könnunin opnar miðvikudaginn 24. nóvember og verður lokað þriðjudaginn 8. desember.

Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt í könnuninni, enda afar mikilvægt að fá sjónarmið sem flestra til að niðurstöðurnar nýtist sem best við að móta og styðja við kröfur verkalýðshreyfingarinnar.

Starfsmannafélag Húsavíkur

Fundað með BYKÓ

Framsýn stéttarfélag hefur fengið mikla hvatningu úr samfélaginu um að berjast gegn því að Húsasmiðjan loki verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót. Það er ekki síst frá verktökum, sveitarstjórnarfólki og íbúum á svæðinu. Hvað það varðar hefur Framsýn fundað með talsmönnum Húsasmiðjunnar auk þess að vera í góðu sambandi við starfsmenn fyrirtækisins sem eðlilega hafa miklar áhyggjur af lokuninni.

Því miður hefur Húsasmiðjan ekki fallist á að endurskoða fyrri ákvörðun um að loka á gamlársdag. Þeir hafa hins vegar opnað á að vera með söluskrifstofu á Húsavík eftir áramótin.

Í ljósi þess að Húsasmiðjan stefnir að því að loka verslun fyrirtækisins um næstu áramót hafa heimaaðilar, þar á meðal Framsýn, sett sig í samband við aðra aðila sem eru stórir á þessum markaði á Íslandi með það að markmiði að kanna hvort til greina komi að þeir setji upp byggingavöruverslun á Húsavík. Fyrir síðustu helgi var fundað með stjórnendum BYKÓ sem hafa tekið heimamönnum mjög vel enda alvöru fyrirtæki. Þeir eru með málið til skoðunar. Fram hefur komið að þeir eru afar ánægðir með þá miklu hvatningu sem þeir hafa fengið frá heimamönnum um að opna verslun á Húsavík komi til þess að Húsasmiðjan loki verslun fyrirtækisins á Húsavík um áramótin sem flesti bendir til, því miður.

Undirbúningur að hefjast vegna komandi kjaraviðræðna

Starfsgreinasamband Íslands er um þessar mundir að hefja undirbúning vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins þrátt fyrir að kjarasamningar sambandsins og Samtaka atvinnulífsins séu ekki lausir fyrr en 1. nóvember 2022.  Á morgun, miðvikudag, mun hópur á vegum sambandsins setjast yfir bókanir í kjarasamningi SA og SGS er viðkemur ferðaþjónustusamningnum. Formaður Framsýnar mun koma að þessari vinnu fyrir sambandið. Í kjölfarið, væntanlega í byrjun desember, verður síðan fundað með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins. Það er um bókanirnar og framgang þeirra og hvernig fara skuli með þær en bókanirnar eru hluti af gildandi kjarasamningi aðila.  

Hallar verulega á almennt verkafólk sem starfar eftir kjarasamningi SGS og SA

Það er ekki alltaf auðvelt á átta sig á yfirlýsingum BSRB um mikilvægi þess að launamunur milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins verði jafnaður. Þá hefur því verið haldið fram af sambandinu að launakannanir hafi sýnt að launamunur á milli markaða sé orðin um það bil 17%, opinberum starfsmönnum í óhag. Vel má vera að BSRB sé að horfa til tekjuhærri hópana á íslenskum vinnumarkaði. Þessar fullyrðingar eiga ekki við um tekjulægsta fólkið sem er innan aðildarfélaga ASÍ sem er mjög svo fjölmennur hópur. Hvað þá kjarasamninginn sjálfan þar sem réttindi eru almennt miklu betri hjá opinberum starfsmönnum en í kjarasamningum starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum, ekki síst veikindarétturinn.

Tökum dæmi:

Starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum:

Flestir hópar innan Starfsgreinasambands Íslands(SGS) raðast í launaflokka 4 til 11 í launatöflu sambandsins og Samtaka atvinnulífsins sem sjá má á heimasíðu Framsýnar. Hér er að finna starfsfólk m.a. í ferðaþjónustu, fiskvinnslu, kjötvinnslu, ræstingum og byggingavinnu. Dæmi eru um að bílstjórar raðist í launaflokk 17, hærra fara menn ekki. Í þessum atvinnugreinum er almennt verið að nota þessa launaflokka. Ferðaþjónustan hefur mikið verið til umræðu, þar eru notaðir þrír lægstu flokkarnir, 4-5-6. Væntanlega er þetta fjölmennasta stéttin innan Starfsgreinasambandsins á almenna vinnumarkaðinum.

Grunnlaunin hjá flestum eru á bilinu kr. 331.735 upp í kr. 351.749 á mánuði. (Launaflokkar 4 til 11).

Fjölmennir hópar á almenna vinnumarkaðinum hafa þurft að taka að sér aukavinnu umfram fulla vinnuskyldu til að geta framfleytt sér, hugsanlega er það að villa fyrir launakönnunum BSRB.

Starfsfólk sveitarfélaga sem starfar eftir kjarasamningum SGS og aðildarfélaga BSRB:

Þar er það þannig að flestir hópar innan Starfsgreinasambands Íslands starfa eftir launaflokkum 120 til 130. Einhverjir eru fyrir neðan og einhverjir eru fyrir ofan þetta viðmið samkvæmt starfsmati.  

Á hvaða bili eru grunnlaun þessara starfsmanna? Þau eru á bilinu kr. 371.956 upp í kr. 472.634. (Launaflokkar 120-130).

Hluti félagsmanna innan starfsmannafélaga BSRB raðast einnig í þessa flokka, flestir þeirra raðast þó hærra en þessar tölur sýna enda raðast þeirra hærra samkvæmt starfsmati.

Tökum þetta saman, lægstu launin sem heimilt er að greiða samkvæmt launatöflu SGS og BSRB vegna starfsmanna sveitarfélaga eru svipuð þeim sem menn geta mest fengið samkvæmt launatöflu SGS og SA, það er bílstjórar sem raðast í launaflokk 17 enda séu þeir með full réttindi til að vinna sem slíkir.

Væntanlega er BSRB ekki að tala um lækka laun félagsmanna til samræmis við starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum þegar BSRB talar um að samræma þurfi launakjörin milli starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum og á opinbera markaðinum? Í það minnsta þurfa menn að kynna sér stöðuna áður en menn tala fyrir samræmingu kjara milli hópa á íslenskum vinnumarkaði.

Ég sem formaður í almennu stéttarfélagi með fjölmenna hópa félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum og á almenna markaðinum mun fara með þessar upplýsingar á fyrsta undirbúningsfund vegna komandi kjaraviðræðna við SA og krefjast þess að launakjör félagsmanna á almenna vinnumarkaðinum verði jöfnuð við launakjör starfsmanna sveitarfélaga sem starfa eftir kjarasamningum SGS og BSRB.

Það þarf ekki flóknar launakannanir til að sjá það mikla misrétti sem er í launakjörum félagsmanna hjá sveitarfélögum annars vegar og á almenna vinnumarkaðinum hins vegar. Að sjálfsögðu þarf að bæta frekar launakjör félagsmanna BSRB og SGS sem starfa hjá sveitarfélögum en þörfin er greinilega miklu meiri á almenna vinnumarkaðinum samkvæmt fyrirliggjandi launatöflum sem hér eru hafðar til samanburðar þegar þessum athugasemdum er komið á framfæri. Í það minnsta er ekki endalaust hægt að hlusta á áróður þess efnis að opinberir starfsmenn í láglaunastörfum séu ver settir en starfsmenn í láglaunastörfum samkvæmt kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Það er einfaldlega ekki rétt. Það má vel vera að það eigi við um betur setta starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum sem starfa ekki eftir kjarasamningum SA og SGS. Það er að þeir hafi betri kjör en opinberir starfsmenn, þá eiga menn að leggja fram gögn þess efnis í stað þess að alhæfa að það eigi við um alla starfsmenn á almenna vinnumarkaðinum. Höldum okkur við staðreyndir, takk fyrir.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Formannaráð BSRB vill aukið fé til almannaþjónustunnar

Auka þarf verulega fjárveitingar til almannaþjónustunnar til að koma íslensku samfélagi út úr heimsfaraldrinum. Fjármagna má aukin útgjöld með því að leggja hækka álögur á þá sem mest eiga í samfélaginu auk þess að auka veiðigjöld verulega, að mati BSRB.

Í ályktun formannaráðs bandalagsins er bent á að starfsfólk almannaþjónustunnar hafi verið undir gríðarlegu álagi undanfarið og undirmönnun sé víða vandamál. Það sé pólitísk ákvörðun að tryggja ekki nægt fjármagn til að standa undir þjónustu við almenning og það dragi úr velsæld og möguleikum til verðmætasköpunar.

„Frá því heimsfaraldurinn skall á hafa eignir heimilanna aukist um á þriðja hundrað milljarða króna og langmest af þeirri aukningu fór til þeirra allra ríkustu,“ segir meðal annars í ályktun formannaráðsins, sem samþykkt var á fundi þess í gær. Þar er kallað eftir því að auðlegðarskattur verði lagður á stóreignafólk og að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður.

Arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna hafa aldrei verið hærri en á síðasta ári þegar eigendurnir tóku um 21,5 milljarða króna í arð. Á sama tíma greiddu fyrirtækin innan við fjórðung af þeirri upphæð í ríkissjóð fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Formannaráð BSRB kallar því eftir því að veiðigjöldin verði aukin verulega og að tekjur af þeirri aukningu verði notaðar til að auka almenna velsæld í landinu.

Ályktun formannaráðs má finna hér.

Ásrún ráðin áfram hjá Vinnumálastofnun

Fyrir rúmlega ári síðan var Ásrún Ásmundsdóttir ráðin til starfa hjá Vinnumálastofnun með starfstöð á Húsavík. Áður hafði Framsýn lagt mikla áherslu á að Vinnumálastofnun kæmi sér upp starfsstöð á Húsavík í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu og vaxandi atvinnuleysis á félagssvæði Framsýnar vegna lokunar PCC og samdráttar í atvinnulífinu, ekki síst í ferðaþjónustu. Ráðning Ásrúnar var til eins árs sem síðan var framlengd fram að næstu áramótum. Vinnumálastofnun hefur nú ákveðið að bjóða henni áframhaldandi ráðningu. Ásrún verður áfram með aðstöðu á Skrifstofu stéttarfélaganna þá daga sem hún verður á Húsavík við störf, það er frá áramótum sem ráðgjafi hjá stofnuninni.  Við það breytist hennar starf og opnunartími skrifstofunnar á Húsavík. Framvegis verður opið á Húsavík frá kl. 09:00-13:00 á mánudögum og á föstudögum frá kl. 09:00-12:00. Aðra daga verður hún við störf á skrifstofu Vinnumálastofnunnar á Akureyri. Að sjálfsögðu er það fagnaðarefni að Vinnumálastofnun hafi ákveðið að fastráða Ásrúnu.

Almenn lögfræðþjónusta í boði fyrir félagsmenn

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum; Framsýn, Þingiðn og STH eru með samkomulag við PACTA lögmenn um almenna þjónustu við félagsmenn sem þurfa á lögfræðiþjónustu að halda er varðar þeirra einkamál.

Samkomulag stéttarfélaganna við PACTA lögmenn byggir á því að félagsmenn geta leitað til þeirra með þjónustu. Ekki þarf að greiða fyrir fyrsta tímann sem er gjaldfrjáls. Komi til þess að lögmenn PACTA þurfi að vinna frekar í málum fyrir félagsmenn fá þeir 15% afslátt frá fullu gjaldi.

Til fróðleiks má geta þess að PACTA býður upp á alla almenna lögfræðiþjónustu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir.

Félagsmenn sem vilja nýta sér þessa þjónustu er bent á að hafa samband við Hallgrím Jónsson, hallgrimur@pacta.is eða við Ásgeir Örn Blöndal lögmann asgeirorn@pacta.is.

Heimasíða PACTA, lögmanna er pacta.is og símanúmerið er 4407900.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum 

Aðalsteinn Árni áfram í stjórn Fiskifélagsins

Aðalfundur Fiskifélags Íslands fór fram í vikunni en hann var haldinn á Grand Hótel Reykjavík þriðjudaginn 16. nóvember. Eftir fundinn stóð Fiskifélagið fyrir málþingi með yfirskriftina. „Fiskur og Covid.“Báðir fundirnir fóru vel fram. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var kjörinn í stjórn sem annar af tveimur fulltrúum Starfsgreinasambands Íslands en nokkur samtök sem tengjast sjávarútvegi á Íslandi tilnefna í níu manna stjórn félagsins.  Aðalseinn Árni var auk þess fundarstjóri á aðalfundinum. Þá var Kristján Þórarinsson kjörin formaður Fiskifélagsins en hann var fulltrúi á fundinum fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi, SFS.

Til fróðleiks má geta þess að Fiskifélagið eru elstu samtök í sjávarútvegi landsmanna og má rekja stofnun félagsins til þess að á síðari hluta 19. aldar jókst áhugi manna mjög á eflingu sjávarútvegs í landinu. Markmið Fiskifélags Íslands hefur frá upphafi verið að efla hag og hvers konar framfarir í íslenskum sjávarútvegi og veita hinu opinbera umbeðna þjónustu. Starfsemin er aðallega tvíþætt, félagsmálastörf og þjónusta við hið opinbera, útveg og fiskvinnslu.

Undirbúningur hafinn vegna komandi kjaraviðræðna

Starfsgreinasamband Íslands hefur þegar ákveðið að hefja undirbúning vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Hvað það varðar hafa verið skipaðir tveir starfshópar innan sambandsins til að yfirfara bókanir/yfirlýsingar í kjarasamningum og gildi þeirra. Um er að ræða bókanir sem varða tvo kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, það er á almenna vinnumarkaðinum annars vegar og í ferðaþjónustunni hins vegar. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar leiðir þann hóp sem á að fara yfir Ferðaþjónustusamninginn og Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða fer fyrir þeim hópi sem á að yfirfara Almenna samninginn. Starfshóparnir munu hefja vinnu á næstu dögum. Í kjölfarið er síðan ráðgert að funda með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins í desember um bókanirnar og hvernig þeim verður fylgt eftir.

Gréta Stefánsdóttir og Flosi Eiríksson frá Starfsgreinasambandi Íslands og formennirnir Finnbogi og Aðalsteinn Árni hittust á teams fundi í morgun til að undirbúa vinnu sem er framundan og tengist kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Það er að yfirfara bókanir og yfirlýsingar þeim tengdum.

Dagatöl í boði

Félagsmönnum sem og öðrum áhugasömum stendur til boða að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og fá gefins dagatöl vegna ársins 2022. Að þessu sinni eru myndirnar sem prýða dagatölin eftir áhugaljósmyndarana Gauk Hjartarson og Hafþór Hreiðarsson. Minnisbækurnar eru ekki komnar í hús en þær eru væntanlegar um næstu mánaðamót.

Kalla eftir endanlegum svörum

Eins og fram hefur komið hefur Framsýn átt í viðræðum við Húsasmiðjuna um ákvörðun fyrirtækisins um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót. Megn óánægja er meðal bæjarbúa, verktaka og íbúa í nærliggjandi sveitarfélögum með lokunina. Forsvarsmenn Framsýnar hafa komið þessum skilaboðum vel á framfæri við stjórnendur Húsasmiðjunnar auk þess að vera í góðu sambandi við starfsmenn fyrirtækisins á Húsavík sem horfa fram á atvinnumissi um áramótin. Framsýn hefur formlega skorað á Húsasmiðjuna að endurskoðaða fyrri ákvörðun um að loka versluninni um næstu áramót. Slík orðsending fór frá félaginu í síðustu viku. Beðið er eftir endanlegu svari. Húsasmiðjan hefur vissulega gefið út í fjölmiðlum að verslun fyrirtækisins á Húsavík verði lokað um næstu áramót en hugsanlega verði sölumaður áfram á þeirra vegum með aðstöðu á Húsavík. Reyndar er óljóst hvaða form verður á þeirri þjónustu verði hún að veruleika. Slík þjónusta kemur ekki í staðinn fyrir verslun á svæðinu.

Miðað við alla þá uppbyggingu sem er í gangi og framundan er í Þingeyjarsýslum verður ekki séð hvernig menn ætla að framkvæma hlutina verandi ekki með byggingavöruverslun á svæðinu, það er á einu heitasta svæði landsins fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Fram að þessu hefur verið góður grundvöllur fyrir því að reka byggingavöruverslun á Húsavík.

Á undanförum árum hefur verið töluverð þensla í Þingeyjarsýslum. Í því sambandi má nefna byggingu PCC á Bakka, jarðgöng við Húsavík, íbúðabyggingar á Húsavík, hótelbyggingar í Þingeyjarsýslum og byggingu orkuvers á vegum Landsvirkjunar á Þeistareykjum.

Frekari uppbygging í Öxarfirði er framundan upp á nokkra milljarða er tengist fiskeldi, bygging hjúkrunarheimilis á Húsavík er að hefjast með 60 rýmum. Í viðmiðum er gert ráð fyrir að hámarki 65 fermetra brúttórými fyrir hvert hjúkrunarrými. Heildarstærð 60 rýma hjúkrunarheimilis verður því að hámarki 3 900 m2 auk viðbótarrýma sveitarfélagsins.

Grænir iðngarðar á Bakka eru til skoðunar sem og bygging á Þaraverksmiðju sem er í burðarliðnum. Reyndar er um að ræða sögulegar framkvæmdir enda verði þær að veruleika en þeim er ætlað að veita hundruðum starfsmanna atvinnu. Gangi þessar framkvæmdir eftir verður mikil þörf fyrir alls konar nýbyggingar s.s. íbúðarhúsnæði á komandi árum.

Til að gera langa sögu stutta, þá er ekki annað að sjá en að umtalsverðar framkvæmdir séu framundan á svæðinu á næstu árum fyrir utan frekari uppbyggingu í ferðaþjónustu þegar hún nær vopnum sínum eftir Covid sem kallar án efa á öfluga byggingavöruverslun í héraðinu. Þá má ekki gleyma endalausri framkvæmdagleði íbúa á svæðinu sem fram að þessu hafa verið fastir viðskiptavinir Húsasmiðjunnar á Húsavík.

Verktakar hafa kallað eftir því að Framsýn boði til fundar með verktökum á svæðinu til að ræða málin, það er hvernig best verði að bregðast við, hætti Húsasmiðjan alfarið rekstri á Húsavík um áramótin. Slíkur fundur er í skoðun. Þá hefur fjöldi fólks á svæðinu einnig hvatt félagið til að berjast fyrir því að hér verði áfram rekin byggingavöruverslun. Eftir þeirri áætlun er unnið þessa dagana og vikurnar.

Okkar fólk með miðið í lagi

Rosa Millán Roldán sem kemur frá Spáni starfar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Hún ásamt  Kristjáni Arnarsyni, fengu boð í byrjun september um að koma og taka þátt í úrtökumóti í riffilskotfimi með 22LR riffli í Lissabon í Portúgal. Keppt var um þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fer fram 2022. 

Þeim Rosu og Kristjáni var boðið í ljósi árangurs þeirra í mótum á Íslandi en þau hafa unnið til verðlauna í yfir 30 skipti á árinu 2021 í ýmsum riffilgreinum. Rosa og Kristján eru í tveimur efstu sætunum hér heima í þessari grein í tveimur flokkum og Íslandsmeistarar í greininni 2021. 

Á mótinu í Portúgal var verið að keppa um rétt til þátttöku í heimsmeistaramótinu sem fer fram í Frakklandi í september 2022. 

Rosa og Kristján þáðu boðið og skelltu sér til Barcelona þann 24. september og keyrðu þaðan  þvert yfir Spán og yfir til Lissabon. Þegar þangað var komið voru nokkrar æfingar teknar á skotvellinum með skyttum frá öðrum löndum. Mótið hófst síðan 26. september. Meðal þátttakanda var m.a. ríkjandi heimsmeistari í greininni Pedro Serralheiro ásamt öllum öðrum toppskyttum Portúgals.

Bæði Rosa og Kristján stóðu sig afar vel á mótinu og gáfu öðrum skyttum á mótinu ekkert eftir. Í stuttu samtali við heimasíðuna sögðust þau hiklaust geta borið sig saman við keppendur frá öðrum þjóðum í þessari grein og því geta borið höfuðið hátt. Þau hafa nú þegar skráð sig  á heimsmeistaramótið í Frakklandi 2022 og hafið undirbúning fyrir World Cup í Tékklandi 2023.

Samstarfsfólk Rosu á Skrifstofu stéttarfélaganna óska henni og Kristjáni til hamingju með árangurinn.

Narfastaðir til fyrirmyndar

Það er alltaf ánægjulegt að koma í Narfastaði í Reykjadal. Þar er rekin myndarleg ferðaþjónusta og ekki skemmir fyrir að þar er metnaðarfullt starfsfólk sem leggur mikið upp úr því að skapa góða umgjörð og stemningu á staðnum. Þegar tíðindamaður heimasíðunnar bar að garði um síðustu helgi voru Unnsteinn, Heiðbjört, Ásgeir, Berglind og Rósa Ösp að störfum enda mikið að gera, nánast fullt hús af gestum.

Allir skápar fullir af kexi

Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands skrifaði grein inn á heimasíðu sambandsins er varðar mikilvægi starfsmanna á skrifstofum stéttarfélaga. Ekki er ólíklegt að skrifin séu tilkomin vegna þeirrar umræðu sem verið hefur um starfsmenn Eflingar. Því miður hafa fyrrverandi stjórnendur félagsins talið ástæðu til að ráðast ansi harkalega að starfsheiðri starfsmanna. Hér má lesa greinina eftir Flosa Eiríksson:

Hugsjónafólk í starfi

Undanfarin tæplega 3 ár hef ég verið svo gæfusamur að starfa hjá Starfsgreinasambandinu. Á þeim tíma hefur verið gengið frá aðalkjarasamningi á almennum vinnumarkaði, kjarasamning við Ríkið og samtök sveitarfélaga og sérkjarasamningum. SGS hefur einnig haldið þing sitt á þessum árum, fræðsludaga starfsfólks og fleira svo fátt eitt sé nefnt af verkefnunum.

Í þessu starfi hef ég átt mikil samskipti og samstarf við starfsfólk aðildarfélaga SGS um land allt, en hjá félögunum 19 starfa að jafnaði 80 til 100 manns ef allt er talið. Mín reynsla af þessu fólki er að það brennur fyrir starfi sínu og baráttumálum hreyfingarinnar. Þetta fólk er í daglegum samskiptum við félagsmenn, hvort það er á skrifstofum félagsins, í eftirlitsferðum á vinnustöðum eða bara í sundi, hvert í sinni heimabyggð. Þau leggja sig fram um að aðstoða og liðsinna okkar félagsmönnum, hjálpa þeim að sækja rétt sinn og verja kjör þeirra og aðbúnað.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi er stórt og kraftmikið afl sem starfar í þágu launafólks. Það er auðvelt að missa sjónar á því, en hreyfingin varð það alls ekki sjálfkrafa. Um það ber rúmlega aldargömul saga um átök og baráttu ríkulegt vitni. Það er gott og heilbrigt að það sé í gangi lífleg umræða um starfið í verkalýðshreyfingunni, stefnu hennar og starfshætti. Hún er lifandi hreyfing sem á að vera óhrædd við að ræða leiðir til að efla og bæta lífskjör í landinu. Um það eiga forystu- og félagsmenn að takast á um á félagslegum vettvangi.

Starfsfólk hreyfingarinnar um land allt, hvort sem það er hjá aðildarfélögum SGS eða öðrum stéttarfélögum eiga ekki skilið að gert sé lítið úr þeirra mikilvægu og góðu störfum, nóg er nú að okkur sótt þótt við tökum ekki þátt í því sjálf.

Skrifstofur aðildarfélaga SGS eru mannaðar af fólki sem leggur sig fram um að þjónusta sína félagsmenn af kostgæfni og gæta þeirra réttinda, alla daga, allt árið um kring. Sú þjónusta er eitt þeim hlutverkum sem félagsmenn kunna best að meta og sækja mikið í. Við eigum að tala þessa þjónustu upp, vekja á henni athygli og hvetja fólk til að sækja það sem þau þurfa til sinna félaga og taka þátt í starfi þeirra.

Flosi Eiríksson

Taktu þátt í mótun kröfugerðar Framsýnar

Á næstu mánuðum mun Framsýn hefja vinnu við mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins, sveitarfélögin og ríkið. Samningar eru lausir haustið 2022 en viðræður við Samtök atvinnulífsins munu væntanlega hefjast á vormánuðum 2022. Stjórn Framsýnar sér ekki ástæðu til að bíða eftir kallinu heldur hefur ákveðið að hefja vinnu við mótun kröfugerðar sem verði lokið í mars á næsta ári hvað varðar kröfugerðina fyrir almenna félagsmenn innan Framsýnar. Við hvetjum félagsmenn til að koma sínum skoðunum á framfæri við félagið sem fyrst. Kröfur almennra félagsmanna verður grunnurinn að kröfugerð félagsins og lögð fyrir Samtök atvinnulífsins til frekari umræðu. Ykkar skoðanir skipta öllu máli, komið þeim á framfæri við félagið á netfangið kuti@framsyn.is. Koma svo félagar, það er okkar að berjast fyrir betri kjörum!

Stjórn Framsýnar stéttarfélags

Er ekki bara best að vera í Framsýn?

Við bjóðum félagsmönnum upp á fjölmarga styrki, það er starfsmenntastyrki og aðra styrki sem miða að því efla heilsufar félagsmanna og takast á við tekjutap vegna veikinda með greiðslu sjúkradagpeninga eftir að veikindarétti lýkur hjá viðkomandi fyrirtæki:

  • Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga eiga fullgildir félagsmenn rétt á kr. 130.000,- námsstyrk á ári. Geymdur 3 ára réttur félagsmanna getur numið allt að kr. 490.000,- með viðbótarframlagi frá Framsýn.
  • Fullgildir félagsmenn eiga rétt á kr. 150.000,- í fæðingarstyrk frá félaginu.
  • Fullgildir félagsmenn eiga rétt á kr. 150.000,- vegna tæknifrjóvgunar.  Greitt er fyrir tvær meðferðir.
  • Félagsmenn eiga rétt á sjúkradagpeningum í allt að fjóra mánuði vegna eigin veikinda eftir að kjarasamningsbundnum veikindarétti lýkur hjá viðkomandi fyrirtæki.
  • Félagsmenn eiga rétt á sjúkradagpeningum í allt að þrjá mánuði enda verði þeir fyrir tekjutapi vegna alvarlegra veikinda maka.
  • Félagsmenn eiga rétt á sjúkradagpeningum í allt að þrjá mánuði vegna alvarlegra veikinda barna eftir að kjarasamningsbundnum veikindarétti vegna veikinda barna lýkur hjá viðkomandi fyrirtæki.

-Það þarf ekki að koma á óvart að Framsýn er eitt eftirsóttasta stéttarfélag landsins-