Fyrir helgina gengu stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn formlega frá sérstöku Hæfniálagi 2 og bónussamningi við PCC BakkiSilicon. Áður var búið að semja um Hæfniálag 1 fyrir starfmenn fyrirtækisins sem falla undir sérkjarasamning aðila frá árinu 2019. Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar frá PCC og Framsýn. Með þeim eru trúnaðarmenn starfsmanna, þau Sigrún og Ingimar.
Samkvæmt samkomulaginu greiðist Hæfniálag 2 fyrir verk sem að krefjast aukinnar þjálfunar og kunnáttu. Hæfniálagið færir almennum starfsmönnum allt að 7,5% launahækkun og í ákveðnum tilvikum getur álagið farið upp í 15% á grunnlaun.
Þá er ljóst að nýja bónuskerfið sem stuðst hefur verið við síðustu mánuði til reynslu hefur verið að koma vel út. Því er ætlað að færa starfsmönnum töluverðar launahækkanir til viðbótar föstum mánaðarlaunum. Áfram verður unnið að því að þróa kerfið til hagsbóta fyrir fyrirtækið og starfsfólk. Þrátt fyrir að bónuskerfið taki mið af ákveðnum þáttum s.s. orkunotkun, framleiðslumagni og fínefnahlutfalli er áhugavert til þess að vita að bónuskerfið er einnig tengt EBITDU fyrirtækisins á hverjum tíma. Það er, gangi rekstur fyrirtækisins vel munu starfsmenn fá sérstaka greiðslu einu sinni á ári, það er eftir að endurskoðaðir ársreikningar fyrirtækisins liggja fyrir á hverjum tíma.
Til viðbótar má geta þess að viðræður aðila um endurskoðun á gildandi sérkjarasamningi aðila munu væntanlega hefjast á næstu vikum en núverandi samningur rann út um síðustu mánaðamót líkt og aðrir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum.