Stjórn Framsýnar ályktar um gjaldskrárhækkanir

 Á stjórnarfundi Framsýnar í gær urðu umræður um gjaldskrárhækkanir sem komið hafa til og eru í farvatninu hjá stofnunum ríkisins og sveitarfélaga. Höfðu fundarmenn miklar áhyggjur af stöðunni. Eftir miklar umræður samþykkti stjórnin að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

„Framsýn stéttarfélag skorar á ríki og sveitarfélög að gæta hófs í hækkunum  á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Eins ber að nefna gjaldskrárhækkanir eins og hækkanir á fasteignagjöldum, sem vega almennt mjög þungt í vasa þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Heimilin í landinu hafa þegar tekið á sig miklar verðhækkanir s.s. á eldsneyti, flutninga, matvöru í skugga stríðs og heimsfaraldurs, svo ekki sé talað um hækkanir stýrivaxta sem hafa bein áhrif á leigugreiðslur og lánaafborganir.

Það hjálpar ekki við gerð yfirstandandi kjarasamninga þar sem lagt er að verkalýðshreyfingunni að leggja fram hófstilltar launakröfur, haldi opinberir aðilar ekki að sér höndum varðandi hækkanir á gjaldskrám og íþyngjandi sköttum. Slíkt er olía á eldinn.  Verkafólk á Íslandi getur ekki eitt haldið samfélaginu gangandi, það kallar því eftir sanngirni og jöfnuði í þjóðfélaginu.

Að mati Framsýnar stéttarfélags er mikill ábyrgðarhluti að ganga frá endurnýjuðum kjarasamningum á vinnumarkaði nema fyrir liggi skýr afstaða opinberra aðila að þeir ætli sér að halda niðri öllum kostnaðarliðum sem áhrif hafa á afkomu heimilanna í landinu. Aðeins þannig er hægt að tryggja sátt á íslenskum vinnumarkaði á komandi árum enda séu Samtök atvinnulífsins jafnframt tilbúin að koma til móts við verkalýðshreyfinguna um sanngjarnar launahækkanir til handa verkafólki.“   

 

 

Deila á