Nýlega auglýstu stéttarfélögin eftir þjónustufulltrúa á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Gleðilegt er til þess að vita að alls bárust 21 umsókn um starfið sem sýnir vel áhuga fólks á því að starfa fyrir félagsmenn aðildarfélaga skrifstofunnar. Um er að ræða mjög áhugaverðar og góðar umsóknir sem flestar standast kröfur stéttarfélaganna um starfið.
Félögin hafa komist að þeirri niðurstöðu að ráða Kristján Inga Jónsson í starfið en hann er fæddur árið 1973. Kristján Ingi hefur starfað við Öxarfjarðarskóla í rúmlega 20 ár við kennslu og leiðsögn auk þess að vera trúnaðarmaður starfsmanna skólans til fjölda ára enda áhugamaður um verkalýðsmál. Þá hefur hann haft yfirumsjón með tölvu- og kerfisstjórn skólans. Áður en Kristján Ingi hóf störf í Öxarfjarðarskóla starfaði hann við krefjandi verslunar- og þjónustustörf auk þess að starfa m.a. hjá Geflu á Kópaskeri, Landssímanum og Silfurstjörnunni. Þá hefur hann komið að kennslu fyrir Þekkingarnet Þingeyinga er varðar almenna tölvunotkun. Hann hefur því viðtæka reynslu af vinnumarkaðinum og komið víða við.
Kristján Ingi hefur góða tölvu- og tungumálakunnáttu sem á eftir að reynast honum vel í starfi enda fjölgar erlendum starfsmönnum hratt sem koma til vinnu á félagssvæði stéttarfélaganna. Þá hefur Kristinn Ingi verið mjög virkur í félagsstarfi sem er mikill kostur. Sem dæmi má nefna að hann er formaður björgunarsveitarinnar Núpa og sat í stjórn Öxarfjarðardeildar Rauða kross Íslands til margra ári. Í dag situr hann í Neyðarvarnanefnd Rauða krossins í Þingeyjarsýslum auk þess að vera á útkallsskrá hjá slökkviliði Norðurþings. Kristján Ingi útskrifaðist á sínum tíma frá Menntaskólanum á Akureyri sem stúdent af félagsfræðabraut. Síðar stundaði hann nám við Iðnskólann í Reykjavík og við Kennaraháskóla Íslands auk þess sem hann kláraði grunnnám í sjúkraflutningum frá Sjúkraflutningaskólanum árið 2018. Stéttarfélögin bjóða Kristinn Inga velkominn til starfa um leið og þau þakka öllum þeim fjölmörgu sem skiluðu inn starfsumsóknum til félaganna fyrir áhuga þeirra að starfa fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum.