Þessar þrjár!

Síðasta mánudag, 5. september, boðaði Starfsgreinasambandið til formannaundar á Hótel Reykjavík Natura. Um var að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins voru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Mætingin var til fyrirmyndar og dagskráin þétt, en meðal þeirra mála sem voru á dagskrá fundarins má nefna stöðu efnahagsmála, innri mál hreyfingarinnar og undirbúningur vegna komandi kjarasamninga. Þá fengu fundargestir stutta kynningu frá nýráðnum framkvæmdastjóra SGS, Björgu Bjarnadóttur. Meðal þeirra sem voru á fundinum voru Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og  Aneta Potrykus formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar. Þær eru allar miklar baráttukonur.

Kröfugerð SGS sem þegar hefur verið lögð fram við Samtök atvinnulífsins má sjá í heild sinni hér.

Þingeyjarsveit tekur heilshugar undir ályktun Framsýnar

Ályktun Framsýnar um vegamál var til umræðu í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þann 17.08.2022. Sveitarstjórnin tók heilshugar undir hana sbr. eftirfarandi bókun:

  1. Ályktun Framsýnar um Vegamál – 2208036

Framsýn stéttarfélag hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun um vegamál í Þingeyjarsveit: ,,Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi malarvega í Þingeyjarsveit.

Víða í Þingeyjarsýslum hefur verið unnið að endurbótum og slitlagsviðgerðum á þjóðvegum með bundnu slitlagi. Að sama skapi hefur ríkisvaldið ekki lagt nægjanlegt fjármagn í uppbyggingu malarvega á svæðinu sem margir hverjir bera töluverða umferð. Vegi sem teljast ekki lengur boðlegir, hvorki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem margir hverjir aka um þá daglega til að sækja vinnu og/eða aðra þjónustu, né heldur stóraukna umferð ferðamanna sem þekkja ekki til íslenskra malarvega.

Margir þessara vega eru slysagildrur og hreinlega tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af ástandi þeirra. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Þó endurbætur og viðhald vega með bundnu slitlagi séu af hinu góða má ekki gleymast að sinna viðhaldi malarvega meðan þeir eru til staðar, þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og tryggt öryggi vegfarenda. Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja að þessir vegir sem aðrir séu boðlegir fólki sem um þá ekur. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir verulegt eignatjón sem vegfarendur hafa orðið fyrir og þurft að bera sjálfir.

Framsýn stéttarfélag skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá“.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tekur heilshugar undir ályktun stjórnar Framsýnar og skorar á innviðaráðherra að beita sér fyrir löngu tímabærum úrbótum í vegahaldi í sveitarfélaginu. Samþykkt samhljóða.

 

Ritari Heimssambands verkafólks á Húsavík

Christina Milcher ritari Heimssambands verkafólks fundaði með formanni Framsýnar í morgun á Húsavík en hún óskaði eftir fundi með honum. Eðlilega snerist umræðan um stöðu verkafólks víða um heim og á Íslandi en fjöldi erlendra starfsmanna hafa leitað til Íslands í leit að vinnu og betra lífi. Þá fór Aðalsteinn Árni yfir áherslur Framsýnar hvað varðar að koma til móts við erlenda félagsmenn með aukinni fræðslu og aðgengi að þjónustu félagsins. Hvað það varðar hefur erlendum trúnaðarmönnum verið fjölgað á félagssvæði Framsýnar auk þess sem félagið hefur gefið út upplýsinga bæklinga á nokkrum tungumálum. Þá er heimasíða félagsins á mörgum tungumálum. Einn af þeim erlendu trúnaðarmönnum sem eru á félagssvæðinu tók þátt í fundinum í morgun, hann kemur frá Spáni og ber nafnið Alberto Delmalo. Alberto starfar hjá Norðursiglingu á Húsavík. Aðilar fundarins voru ánægðir með fundinn í morgun sem var að ljúka rétt í þessu.

Gestur nýr forstjóri PCC, sér fyrir sér gott samstarf við Framsýn

Gestur Pétursson nýr forstjóri PCC BakkiSilicon hefur þegar sett sig í samband við formann Framsýnar og óskað eftir góðu samstarfi við félagið um málefni fyrirtækisins og starfsmanna. Fundur aðila er fyrirhugaður á næstu vikum þar sem samstarfið verður þróað frekar. Gestur tekur við starfinu af Rúnari Sigurpálssyni sem mun halda áfram störfum fyrir PCC samstæðuna og einbeita sér að þróunarverkefnum á Íslandi. Um leið og  Framsýn býður Gest velkominn til starfa vill félagið nota tækifærið og þakka fráfarandi forstjóra fyrir samstarfið, Rúnar Sigurpálssyni.

Heiðurshjón á faraldsfæti

Heiðurshjónin, Jón Þórir Óskarsson og Hlíf Guðmundsdóttir sem séð hafa um orlofsbyggð stéttarfélaganna á Illugastöðum fyrir eigendur orlofshúsanna létu formlega af störfum í gær eftir tæplega 50 ára störf fyrir stéttarfélögin. Það er fyrir eigendur þeirra orlofshúsa sem stéttarfélögin víða um land eiga á Illugastöðum. Auk orlofshúsanna er meðal annars sundlaug og lítil verslun í þjónustumiðstöðinni auk leikvallar með skemmtilegum leiktækjum. Svæðið allt er vel búið og vel hugsað um þá sem heimsækja byggðina á hverjum tíma. Ekki  þarf að tíunda að hjónin hafa unnið mikið og farsælt starf fyrir stéttarfélögin og verið gestum og gangandi mikill styrkur. Þá hafa þau einnig verið mjög virk í félagsmálum í sveitinni en þau hafa búið á Illugastöðum en munu nú flytja af svæðinu á þessum tímamótum.

Orlofsbyggðin hefur ráðið nýjan umsjónarmann, það er Þórólf Egilsson sem hefur starfað  með Jóni og Hlíf síðastliðin ár. Hann mun flytja á Illugastaði ásamt konu sinni Sigrúnu Kristbjörnsdóttur sem verður í hálfu starfi hjá Orlofsbyggðinni. Einnig hefur stjórn byggðarinnar ráðið Sindra Heiðmann sem aðstoðarmann umsjónarmanns. Sindri hefur unnið á Illugastöðum undanfarin sumur og þekkir þar alla staðhætti mjög vel. Þrátt fyrir breytingar á mannahaldi verður öll starfsemi eins og verið hefur nema  ekki gert ráð fyrir að verslun verði opin á staðnum.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, gerði sér ferð á Illugastaði í gær til að kveðja Jón og Hlíf og þakka þeim jafnframt fyrir vel unninn störf og gott samstarf á liðnum áratugum. Meðfylgjandi mynd er tekin þegar þau Jón og Hlíf voru að ljúka formlegum störfum fyrir orlofsbyggðina í gær.

 

Framsýn styrkir Blakdeild Völsungs

Forsvarsmenn Framsýnar og Blakdeildar Völsungs hafa undirritað samning um stuðning félagsins við blakdeildina til tveggja ára. Blakdeildin hefur haldið úti öflugu íþróttastarfi fyrir fólk á öllum aldri. Deildin ætlar sér stóra hluti á komandi mánuðum og árum. Hvað það varðar hefur Tihomir Paunovski frá Norður Makedoníu verið ráðin sem þjálfari, hann mun sjá um þjálfun meistaraflokka félagsins auk þess að hafa yfirumsjón með þjálfun yngri flokka deildarinnar. Meistaraflokkur kvenna mun spila í úrvalsdeildinni í vetur. Þá munu karlarnir spila í fyrstu deild. Bæði liðin eru mjög ung og efnileg lið. Liðin munu einnig taka þátt í bikarkeppni. Yngri flokkar Völsungs í blaki taka þátt í Íslands og héraðsmótum. Í dag eru um 70 iðkendur í blaki en reiknað er með að þeim fari fjölgandi í vetur enda starfið mjög öflugt. Það er afar ánægjulegt fyrir Framsýn að koma að þessu frábæra starfi á vegum Blakdeildar Völsungs með fjárstuðningi.

Góðar samræður um byggða- og atvinnumál

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar sem jafnframt er fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis ásamt Albertínu F. Elíasdóttir framkvæmdastjóra SSNE funduðu með formanni Framsýnar á dögunum. Ekki þarf að koma á óvart að byggða- og atvinnumál í Þingeyjarsýslum voru sérstaklega til umræðu. Þá var komið inn á komandi kjaraviðræður aðila vinnumarkaðarins.  Fram kom í máli Ingibjargar að hún óskar eftir góðu samstarfi við Framsýn er viðkemur öllum framfaramálum á svæðinu. Það á reyndar líka við um SSNE.

Fundað með forsvarsmönnum Samiðnar

Formaður og framkvæmdastjóri Samiðnar komu norður til Húsavíkur fyrir helgina og funduðu með stjórnarmönnum í Þingiðn. Jónas Kristjánsson, Þórður Aðalsteinsson og Jónas Hallgrímsson tóku þátt í fundinum frá Þingiðn og Hilmar Harðarson og Guðfinnur Þór Newman frá Samiðn. Framkvæmdastjóri Þingiðnar, Aðalsteinn Árni tók einnig þátt í fundinum.

Fulltrúar frá Samiðn hafa verið á ferðinni um landið og fundað með forsvarsmönnum aðildarfélaga Samiðnar. Formaður Samiðnar, Hilmar Harðarson fór nokkrum orðum yfir komandi kjaraviðræður, kröfugerð sambandsins sem er í mótun, væntanlegt þing ASÍ og deilurnar innan Alþýðusambandsins. Guðfinnur Þór framkvæmdastjóri sambandsins kom einnig inn í umræðuna og gerði grein fyrir viðhorfskönnun sem gerð var meðal þriggja aðildarfélaga Samiðnar vegna komandi kjaraviðræðna.

Því næst fóru stjórnarmenn innan Þingiðnar yfir áherslur félagsins í komandi kjaraviðræðum. Þessar eru helstar:

  • Gamla launataflan verði endurvakin með þreppa hækkunum m.v. starfsaldur
  • Kaupmáttur launa verði aukinn.
  • Yfirvinna I og II verði að einum taxta, yfirvinna I falli út.
  • Samningsbundin ávinnsla réttinda fylgi starfsmanni milli fyrirtækja.
  • Nýr kjarasamningur taki gildi um leið og sá gamli fellur út gildi.
  • Vinnutímastyttingin verði endurskoðuð, það er framkvæmdin.
  • Orlofsréttur iðnaðarmanna verði aukin.

Þá töldu stjórnarmenn Þingiðnar jafnframt mikilvægt að samið yrði um sérstakt framlag atvinnurekanda í fræðslusjóð með sambærilegum hætti og er hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands. Þar geta einstaklingar sótt um einstaklingsstyrki stundi þeir nám á eigin forsendum.  Þeir gerðu einnig að umræðuefni þann mikla aðstöðumun sem íbúar á landsbyggðinni búa við varðandi heilbrigðisþjónustu og framhalds- og háskólanámi m.v. íbúa höfuðborgarsvæðisins. Töldu þeir mikilvægt að það yrði tekið upp við stjórnvöld í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Ekki væri að sjá að hægt yrði að ganga frá kjarasamningum nema með aðkomu stjórnvalda er varðaði þessi mál og húsnæðis- og vaxtamál.

Mjög góðar umræður urðu um áherslur Þingiðnar og sýn Samiðnar á komandi kjaraviðræður. Í máli formanns Samiðnar kom fram að Þingiðn verður boðið að koma sínum kröfum á framfæri við sambandið á næstu vikum. Samiðn hefur ekki gengið frá kröfugerð sambandsins, það verður gert í næsta mánuði.

Til viðbótar má geta þess að umræður urðu um löggildingu starfa í iðnaði, framboð á námi er tengist fagnámi í iðngreinum. Þá kom formaður Þingiðnar því á framfæri að Samiðn væri velkomið að halda formannafund, samningafund eða þing sambandsins á Húsavík. Hér væri öll aðstaða til þess með besta móti. Fulltrúar Samiðnar þökkuðu fyrir boðið og sögðust taka það til skoðunar.

 

Vinnustaðaeftirlitið gengið vel

Undanfarið hafa stéttarfélögin í samstarfi við Vinnueftirlitið staðið fyrir vinnustaðaeftirliti á félagssvæðinu. Því miður er það alltaf þannig að of margir atvinnurekendur fara ekki eftir lögum og reglum, sérstaklega í ferðaþjónustunni. Ástandið hefur reyndar lagast töluvert á síðustu árum, þar kemur án efa til vinnustaðaeftirlitið sem er greinilega að skila góðum árangri. Á meðfylgjandi mynd sem tekin var á Raufarhöfn á dögunum má sjá Aðalstein J. Halldórsson sem tók að sér að sjá um vinnustaðaeftirlitið fyrir stéttarfélögin í sumar. Hann var þar á ferð með fulltrúa frá Vinnueftirlitinu. Auk þess hafa þeir heimsótt fyrirtæki í Kelduhverfi, Öxarfirði, Húsavík og í suður sýslunni. Til greina kemur að ráða mann í verkefnið í haust með öðrum störfum fyrir stéttarfélögin.

Þau ábyrgu og við hin

„Óveð­urs­skýin hrann­ast upp á vinnu­mark­aði þessa dag­ana. Þó svo kjara­við­ræður séu ekki hafnar eru strax komnar fram hót­anir um verk­fallsá­tök og kröfur um viða­miklar aðgerðir rík­is­stjórnar til að forða átök­um.“ Svo mælir fyrrum fram­kvæmda­stjóri Sam­taka atvinnu­lífs­ins, Þorsteinn Víglundsson, í grein sem hann nefnir „Vinnumarkaður í úlfakreppu” og bætir síðan við: „Þegar fífl­unum fjölgar um of í kringum okkur er stundum gott að líta í speg­il. “ Þorsteinn segir ennfremur að sorglegt sé að sjá hina nýju forystu verkalýðshreyfingarinnar gera hverja þá tilraun sem gerð er til umbóta á vinnumarkaði að sérstöku skotmarki sínu.“

Þvílíkur hroki og lítilsvirðing í garð kjörinna fulltrúa verkafólks á Íslandi sem eru að fylgja eftir áherslum félagsmanna í kjaramálum. Svo það sé sagt, þá er afar mikilvægt fyrir Þorstein og skoðanabræður hans að hafa það í huga að ef Seðlabankinn, fyrirtæki, stjórnvöld og verslunareigendur halda áfram að varpa öllum kostnaðarhækkunum yfir á launafólk, heimili og neytendur þá verður verkalýðshreyfingin og launafólk að bregðast við því með viðeigandi hætti. Annað er ekki í boði. Það er heldur ekki í boði að taka upp norræna samningamótelið á Íslandi sem fylgjendur auðvaldsins hafa talað fyrir til að draga vígtennurnar úr verkalýðshreyfingunni. Nær væri fyrir frændur vora á Norðurlöndunum að horfa til Íslands þar sem félagsaðild að stéttarfélögum er sú mesta í heiminum. Fyrirkomulagið á íslenskum vinnumarkaði er útflutningsvara sem ætti að vera öðrum þjóðum góð fyrirmynd.

Því miður virðist sem menn eins og Þorsteinn hafi skammtímaminni og kalli því úlfur, úlfur um leið og fulltrúar láglaunalaunafólks tala fyrir kjarabótum fyrir hönd sinna umbjóðenda. Margir eru á því að Lífskjarasamningarnir sem gerðir voru árið 2019, hafi verið með þeim merkilegri sem gerðir hafa verið í áratugi. Hinir róttæku sem Þorsteinn óttast svo mikið fóru fyrir þeim samningum. Þar á meðal sá sem þetta skrifar. Reyndar er það löngu hætt að koma á óvart að þeir sem mæla hvað harðast gegn kjarabótum séu þeir sem hæst hafa launin og búa við mestu velmegunina. Þessir sömu menn sjá ekki ástæðu til að setjast niður og skrifa greinar um ójöfnuð í þjóðfélaginu, arðgreiðslur og ofurlaun elítunar sem er án efa krabbameinið í íslensku samfélagi.

Afleiðingarnar liggja fyrir. Vaxandi ójöfnuður hefur læst sig í íslenskt samfélag líkt og illgresi í akur.  Aukin misskipting, samþjöppun valds og auður hinna ríkustu vex og dafnar meðan lífskjör almennings standa í stað eða versna, ekki síst barnafjölskyldna, láglaunafólks og þeirra sem minna mega sín. Hvernig er hægt að leggjast gegn því að allir þegnar þessa lands geti lifað með reisn? Það á enginn að þurfa að hokra í fátækt í okkar ríka landi. Vissulega eru sterk fjármálaöfl í þjóðfélaginu sem skauta fram hjá jöfnuði, öfl sem dásömuðu stjórnvöld þegar þau seldu nýlega hlut ríkisins í Íslandsbanka á undirverði upp á nokkra milljarða króna til valins hóps kaupsýslumanna. Þeir kættust á leið sinni í bankann, tóku snúning fyrir fyrsta hanagal og seldu hlut sinn strax aftur með ofsa gróða. Á kantinum hlógu ráðgjafarnir og struku belginn, drjúgir með sitt, enda greiddum við þeim litlar 700 milljónir svo auðmennirnir útvöldu gætu hagnast um milljarða á þessum viðskiptum.  Annað gott dæmi um birtingarmynd spillingarinnar sem þrífst í samfélaginu eru þeir sem sjá ekkert að því að raka að sér peningum sem eru ekki þeirra. Ég vísa hér til  viðskipta kvótagreifana svokölluðu, sem reglulega leysa til sín milljarða arðgreiðslur af sölu aflaheimilda í eigu þjóðarinnar. Já, það er sannarlega rétt hjá Þorsteini, þeir sem sjá ekki þessa græðgisvæðingu er hollt að líta í spegil, hugsanlega leynast fíflin þar.

Markmið síðustu Lífskjarasamninga sem byggðu á krónutöluleið var meðal annars að auka jöfnuð og vinna gegn spillingu á Íslandi með sérstaka áherslu á að verja kaupmátt launa, vinna gegn verðbólgu og tryggja lægri vexti til frambúðar. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem fylgdi kjarasamningunum fólst í skattalækkunum, vaxtalækkunum, ákveðnum frystingum þjónustugjalda ríkis og sveitarfélaga, hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er sneru að húsnæðismálum ungs fólks. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að umfangi um 80 milljarðar á gildistímanum til að styðja við markmið um stöðugleika og bætt kjör launafólks. Yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar gengu að mestu leiti eftir en verða endurskoðaðar í komandi kjaraviðræðum.

Aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands hafa þegar lagt fram sína kröfugerð. Ekki þarf að koma á óvart að sambandið leggur megin áherslu á áframhaldandi hækkun lægstu launa og að tryggja kaupmátt launafólks. Við gerð síðustu kjarasamninga var horft til þess að samningarnir leiddu af sér lækkun vaxta, sú krafa stendur áfram. Sambandið mun ekki una því að vaxandi verðbólgu vegna aðgerðaleysis stjórnvalda í húsnæðismálum, og erlendra hækkana verði sett á herðar verkafólks. Nú eru uppi þær aðstæður í samfélaginu að aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum mun skipta miklu máli við gerð þeirra. Stóraukin verðbólga, miklar verðhækkanir og mikill vandi á húsnæðismarkaði kalla á að stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins taki höndum saman með samtökum launafólks að tryggja kaupmátt, húsnæði fyrir alla og öfluga grunnþjónustu um land allt.

Um þessar mundir heyrist gamalkunnuglegt væl frá Samtökum atvinnulífsins og reyndar stjórnvöldum líka um að ekkert sé til skiptanna og því ekkert um að semja í komandi kjaraviðræðum í haust. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að þeir hinir sömu séu staddir á allt öðrum stað í tilverunni og gefi sér ekki tíma til að lesa fréttir fjölmiðla þar sem sjá má þessar nýlegu fyrirsagnir:

  • Bankarnir þrír högnuðust um 17,9 milljarða
  • Sjávarútvegurinn greiddi sér 21,5 milljarða króna í arð í fyrra
  • Rekstur áliðnaðarins hérlendis hefur aldrei gengið eins vel og nú
  • Kvika hagnast um 1,7 milljarða
  • Mesti hagnaður KS frá upphafi
  • Methagnaður hjá N1, Krónunni og ELKO
  • Methagnaður hjá Skeljungi
  • Methagnaðar útgerðarfyrirtækja
  • Best launuðu hagsmunaverðirnir með hátt í fjórar milljónir króna á mánuði í fyrra
  • Mánaðartekjur framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins hærri en árslaun þeirra lægst launuðu

Dettur einhverjum heilvita manni í hug að slík fyrirtæki geti ekki hækkað laun starfsmanna á lægstu launum. Viðhorf eigenda þeirra fyrirtækja sem eiga í hlut á ekki bara að snúast um að græða og græða heldur greiða mannsæmandi laun og virða þannig framlag starfsmanna á hverjum tíma til aukins hagvaxtar í landinu.

Vissulega er það ekki nýtt að atvinnurekendur og frjálshyggjuliðið hafi hátt í aðdraganda kjarasamninga. Fyrir síðustu samninga árið 2019 fór áróðursmaskínan gegn hækkun lægstu launa á yfirsnúning. Samtök atvinnulífsins vöruðu við uppsögnum, samdrætti og gjaldþrotum næðu kröfur stéttarfélaganna fram að ganga. Ekkert af þessu gekk eftir. Þá var stórbrotið að lesa í blöðum og öðrum miðlum að forystumönnum í verkalýðshreyfingunni væri líkt við hryðjuverkamenn. Fyrir mér er Pútín Rússlandsforseti hryðjuverkamaður, en ekki við sem förum fyrir kjarabaráttu verkafólks.

Nýja forystan svokallaða eða hinir róttæku sem fóru fyrir síðustu Lífskjarasamningum eru ekki að kalla eftir átökum vinnumarkaði. Þau hafna hins vegar brauðmolavæðingu elítunar, nú skal skipt jafnt, við þurfum jú öll að borða. Sé tekið mið af fyrirsögnum fjölmiðla er nóg til skiptanna fyrir alla um þessar mundir og rúmlega það. Það er von mín og trú að samstaða náist um að framlengja Lífskjarasamninginn á svipuðum nótum og núverandi samningsforsendurnar byggja á. Þannig getum við stuðlað að sátt í samfélaginu. Láglaunafólk á ekki eitt að bera ábyrgð á því að halda uppi hagvexti í landinu, ekki síst á tímum  þegar háar arðgreiðslur fljóta út úr fyrirtækjum til hluthafa þeirra líkt og aurskriður af verstu gerð.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags

Kærleikskveðja til íbúa á Blönduósi

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í gær var samþykkt að senda svohljóðandi kveðju til félaga okkar í Stéttarfélaginu Samstöðu og íbúa á Blönduósi:

„Framsýn stéttarfélag sendir félagsmönnum Stéttarfélagsins Samstöðu og íbúum Blönduóss, Húnabyggðar og öllum þeim sem eiga um sárt að binda hlýjar hugsanir, kærleik og styrk eftir þá voveiflegu atburði sem áttu sér stað á Blönduósi um síðustu helgi. Hugur félagsmanna Framsýnar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.“

Leit við í kaffispjall

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings leit við í kaffi hjá formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna Baldurssyni. Katrín tók nýlega við sem sveitarstjóri en hún er fyrrum sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Sölku-fiskmiðlunar hf. auk þess að hafa verið kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar. Á fundinum kom fram fullur vilji aðila til að vinna saman að framfaramálum í sveitarfélaginu.

 

Kjaftforir leiðtogar

Það vakti eðlilega mikla athygli á dögunum þegar Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands sagði af sér sem forseti sambandsins. Í fjölmiðlum hefur hún borið því við að hún hafi átt mjög erfitt með að vinna með ákveðnum verkalýðsforingjum, ekki síst þeim sem leiða tvö langstærstu stéttarfélög landsins, auk formanns Verkalýðsfélags Akraness. Drífa hefur reyndar í viðtölum nefnt fleiri formenn s.s. þann sem þetta skrifar. Hún hefur meðal annars kvartað yfir því að menn væru kjaftforir og yfirlýsingaglaðir og því erfitt að vinna með þeim.

Sú hin sama Drífa virðist alveg hafa gleymt því þegar hún kvaddi VG með miklum hávaða á sínum tíma, er flokkurinn fór í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Hún líkti því við ofbeldissamband og sagði það eins og að éta skít í heilt kjörtímabil. Er von að spurt sé í hvað fráfarandi forseti ASÍ sé að vísa þegar hún talar um kjaftfora verkalýðsforingja? Er það orðið skammaryrði að tjá skoðanir sínar opinberlega í þágu verkafólks?

Það sem vekur jafnframt athygli og er reyndar full ástæða til að gagnrýna er að kjörinn forseti ASÍ skyldi ekki sitja út kjörtímabilið, því verkalýðshreyfingin er jú fjöldahreyfing sem byggir á virku lýðræði og skoðanaskiptum þeirra sem mynda hreyfinguna á hverjum tíma.

Auðvitað er fullkomlega eðlilegt að menn séu ekki alltaf sammála búandi við skoðanafrelsi. Drífa hefði hins vegar getað sent frá sér yfirlýsingu um að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir Alþýðusambandið eftir þing sambandsins í haust. Það er til að búa menn undir breytingar. Fyrir liggur að hún nýtur ekki stuðnings öflugra og fjölmennra stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins til áframhaldandi starfa sem forseti. Að mínu mati varð það forsetanum að falli að hafa ekki lagt meira upp úr því að sameina ólíkar skoðanir innan hreyfingarinnar til góðra verka. Þá hefur verið ákveðin tilhneiging til að þagga niður viðkvæm mál innan hreyfingarinnar, sem eiga að sjálfsögðu að vera upp á borðinu í stærstu fjöldahreyfingu samtaka launafólks. Burtséð frá því hef ég átt ágætt samstarf við Drífu og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Vitaskuld höfum við stundum tekist á og ekki alltaf verið sammála um málefni verkalýðshreyfingarinnar, sem er afar eðlilegt í jafn fjölmennri hreyfingu. Það má Drífa eiga að hún hefur hingað til talað kraftmikla íslensku og fylgt skoðunum sínum og málefnum ASÍ eftir af einurð. Hún hefur jafnvel verið kjaftfor á tímum í umræðunni, það er á sama tíma og hún hefur gagnrýnt ákveðna verkalýðsforingja fyrir það sama og talið það ekki vera þeim til framdráttar.

Réttur fólks til að tjá sig er eðlilegur hluti þess að búa í frjálsu samfélagi, en það hefur hins vegar ekki alltaf verið vinsælt innan hreyfingarinnar að menn tjái skoðanir sínar tæpitungulaust. Þar hafa þeir valdasjúku talað fyrir því að best sé að hafa einn talsmann sem tali fyrir hönd hreyfingarinnar út á við í anda Salek. Þannig vilja þeir tryggja að talað sé einni röddu, það er svo hinn róttækari armur komi ekki skoðunum sínum á framfæri enda lengi verið í minnihluta í hreyfingunni. Vissulega minnir þetta nokkuð á stjórnskipulagið í Norður Kóreu þar sem leitast er við að viðhalda þröngu hugmyndafræðilegu aðhaldi.

Ummæli ákveðinna formanna innan valdablokkarinnar í fjölmiðlum undanfarið í garð „félaga“ sinna innan hreyfingarinnar hafa verið á verulega lágu plani svo ekki sé meira sagt. Þau halda því fram að ofbeldismenning hafi tekið yfir verkalýðshreyfinguna og hópur fólks hafi komist til valda innan hreyfingarinnar með offorsi, ærumeiðingum og ein­eltis­til­burðum. Er ekki allt í lagi hjá þessu blessaða fólki?  Þeir sem tóku þátt í jaðarsetningu annarra óttast nú að verða jaðarsett sjálf í beinni útsendingu.

Það er löngu tímabært að taka upp róttækari verkalýðsbaráttu á Íslandi með hagsmuni verkafólks að leiðarljósi. Róttæk barátta kallar á umskipti í forystusveit Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins í haust. Það er ekki nýtt að kallað sé eftir róttækari verkalýðsbaráttu. Þegar saga Alþýðusambandsins er skoðuð má sjá að andstæðar fylkingar tókust iðulega á um stefnu Alþýðusambandsins á fyrrihluta síðustu aldar og oft urðu illvígar deilur milli þeirra. Án efa verður áfram tekist á um helstu málefni sambandsins um ókomna tíð. Þá hefur sagan jafnframt kennt okkur að róttækar hugmyndir og byltingar eru alltaf ógn við ríkjandi valdakerfi, þannig hefur það alltaf verið og víða í heiminum er fólk drepið eða fangelsað fyrir hugmyndir sem ganga gegn valdhöfum.

Hvað sem öðru líður er núverandi staða innan hreyfingarinnar með öllu ólíðandi. Við berum þar öll ábyrgð sem störfum í hreyfingunni og það er ekki í boði að sitja hjá. Ég hef talað fyrir því að menn legðu stríðshanskana á hilluna. Því miður virðist vera afar lítill áhugi fyrir því miðað við síðustu ummæli forystumanna í hreyfingunni sem tala um að ofbeldismenning viðgangist innan hennar. Þau eru ekki saklaus frekar en aðrir sem hafa tjáð sig um stöðuna í verkalýðshreyfingunni. Meðan menn átta sig ekki á sameiginlegri ábyrgð heldur áfram að molna undan verkalýðshreyfingunni, því miður.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar

 

 

 

 

 

 

Telja Húsavíkurflugvöll koma til greina sem millilandaflugvöllur

Í ályktun sem stjórn Framsýnar sendi frá sér í dag beinir félagið þeim tilmælum til stjórnvalda að fram fari faglegt mat á nýjum millilandaflugvelli á landsbyggðinni sem ætlað verði að vera til hliðar við Keflavíkurflugvöll. Félagið telur Húsavíkurflugvöll koma vel til greina sem millilandaflugvöllur. Hagkvæmnissjónarmið verði látin ráða, ekki vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir. Sjá ályktun:

 Ályktun
-Um millilandaflugvöll-

 „Framsýn stéttarfélag telur í ljósi stóraukinna jarðhræringa  og eldsumbrota á Reykjanesskaganum, að full ástæða sé til að taka upp til umræðu staðsetningu flugvalla á Íslandi með tilliti til millilandaflugs.

Komið hafa fram sjónarmið um mikilvægi þess að treysta í sessi öflugan millilandaflugvöll utan höfuðborgarsvæðisins svo hægt verði að bregðast við komi til þess að Keflavíkurflugvöllur lokist. Þannig væri einnig hægt að dreifa aukinni flugumferð og viðkomu erlendra ferðamanna um landið.

Að mati Framsýnar hentar Húsavíkurflugvöllur vel sem millilandaflugvöllur, með tilliti til aðflugs og veðurfars og þá er til staðar gott framboð af gistirými á Norðurlandi. Þessir þrír þættir skipta verulega miklu máli við val á millilandaflugvelli. Þá þarf ekki að tíunda allar þær náttúruperlur sem eru víðs vegar í Þingeyjarsýslum og draga að sér tugþúsundir ferðamanna árlega.

Framsýn stéttarfélag beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að fram fari faglegt mat á nýjum millilandaflugvelli á landsbyggðinni sem ætlað verði að vera til hliðar við Keflavíkurflugvöll. Hagkvæmnissjónarmið verði látin ráða, ekki vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir.“  

 

Vetrarstarfið að hefjast hjá Framsýn

Vetrarstarf Framsýnar stéttarfélags hefst næsta mánudag, 22. ágúst, með fundi í fundarsal stéttarfélaganna. Stjórn félagsins, trúnaðarráð, samninganefnd félagsins og stjórn Framsýnar ung hafa fengið fundarboð. Kjaramál og komandi kjaraviðræður verða ráðandi á fundinum auk þess sem reikna má með miklum umræðum um stöðuna í hreyfingunni nú þegar þing ASÍ er framundan. Annars er dagskráin nokkuð löng enda fylgir öflugu starfi á vegum félagsins að þurfa að taka mörg mál fyrir.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Kjaramál
  4. Málefni ASÍ
    1. Afsögn forseta sambandsins
    2. Umræða um starfsemi sambandsins
    3. Komandi þing sambandsins
  5. Kjör fulltrúa á þing ASÍ
  6. Kjör fulltrúa á þing AN
  7. Þing Sjómannasambands Íslands
  8. Ungliðaráð Framsýnar
  9. Tækjabúnaður í fundarsal stéttarfélaganna
  10. Húsnæðismál starfsmanna í ferðaþjónustu
  11. Framganga SFS varðandi launakjör fiskvinnslufólks
  12. PCC-bónusmál
  13. Sumarferð stéttarfélaganna
  14. Vinnustaðaeftirlit
  15. Lagfæringar á fundarsal
  16. Heimsókn frá SSNE
  17. Ályktanir milli funda
  18. Önnur mál

Að venju getur dagskrá fundarins tekið breytingum fram að fundi.

 

Fundur og kjör trúnaðarmanns hjá Norðursiglingu

Starfsmenn Norðursiglingar komu saman til fundar í gærkvöldi til að kynna sér sérkjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna við hvalaskoðun. Fulltrúar frá Framsýn fóru yfir samninginn og svöruðu fyrirspurnum starfsmanna. Mikil ánægja var með fundinn. Í lok fundar hófst kosning á trúnaðarmanni fyrir starfsmenn. Kosningu lýkur kl. 16:00 á morgun. Starfsmenn Norðursiglingar sem náðu ekki að kjósa í gær er velkomið að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og kjósa í dag og á morgun.

Mótmæla slæmum malarvegum í Þingeyjarsveit

Stjórn Framsýnar samþykkti í dag að senda frá sér ályktun um vegamál í Þingeyjarsveit. Að mati félagsins er afar mikilvægt að þegar í stað verði ráðist í lagfæringar á malarvegum í sveitinni sem sumir hverjir eru beinlínis hættulegir að mati Framsýnar. Félagið skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá þegar í stað. Sjá ályktun:

Ályktun-um ástand malarvega í Þingeyjarsveit-

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi malarvega í Þingeyjarsveit.

Víða í Þingeyjarsýslum hefur verið unnið að endurbótum og slitlagsviðgerðum á þjóðvegum með bundnu slitlagi. Að sama skapi hefur ríkisvaldið ekki lagt nægjanlegt fjármagn í uppbyggingu malarvega á svæðinu sem margir hverjir bera töluverða umferð. Vegi sem teljast ekki lengur boðlegir, hvorki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem margir hverjir aka um þá daglega til að sækja vinnu og/eða aðra þjónustu, né heldur stóraukna umferð ferðamanna sem þekkja ekki til íslenskra malarvega.

Margir þessara vega eru slysagildrur og hreinlega tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af ástandi þeirra. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Þó endurbætur og viðhald vega með bundnu slitlagi séu af hinu góða má ekki gleymast að sinna viðhaldi malarvega meðan þeir eru til staðar, þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og tryggt öryggi vegfarenda.  Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja að þessir vegir sem aðrir séu boðlegir fólki sem um þá ekur. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir verulegt eignatjón sem vegfarendur hafa orðið fyrir og þurft að bera sjálfir.

Framsýn stéttarfélag skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá.“

 

Stendur vaktina um helgar

Óhætt er að segja að heimasíða stéttarfélaganna standi vaktina um helgar meðan hefðbundinn starfsemi félaganna liggur niðri. Samkvæmt vefmælingu fóru 829 gestir inn á heimasíðuna síðasta laugardag til að leita upplýsa og/eða skoða fréttir á síðunni sem er töluverður fjöldi. Heldur færri fóru inn á hana í gær, sunnudag. Í heildina fóru vel yfir 1000 manns inn á síðuna um helgina. Heimasíðan var nýlega tekin í gegn og hvað varðar hefðbundnar upplýsingar um réttindi og skyldur félagsmanna stéttarfélaganna eru þær orðnar mjög aðgengilegar almennum félagsmönnum og atvinnurekendum reyndar líka. Hafi félagsmenn ábendingar varðandi heimasíðuna er þeim velkomið að senda þær á netfangið kuti@framsyn.is