Til hamingju með daginn

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti ávarp á hátíðarhöldunum á Húsavík í gær:

Ágætu félagar

Fyrir hönd stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum býð ykkur öll hjartanlega velkomin á þessa hátíðadagskrá stéttarfélaganna. Síðustu tvö árin hafa verið afar óvenjuleg og fólk um víða veröld upplifað ákaflega sérstakar aðstæður. Áhrif kórónuveirufaraldursins hafa alls staðar verið merkjanleg, hvort heldur er í  daglegu athöfnum fólks, heimilislífi, félagslífi eða atvinnulífi. Af þessum sökum hefur ekki verið hægt að koma saman með venjubundnum hætti á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins eins og víða hefur verið venja til. En hér erum við í dag og það er ákaflega gleðilegt að sjá ykkur öll hér samankomin og veiruskrattinn vonandi horfinn veg allrar veraldar.

Upphaf baráttudags verkalýðsins er rakið til þings Alþjóðasamtaka Sósíalista í París 1889, sem haldin var í tilefni þess að hundrað ár voru þá liðin frá frönsku byltingunni. Þar var samþykkt tillaga frá Frökkum um að 1. maí skyldi verða alþjóðlegur frídagur verkafólks og lagt til að verkafólk notaði daginn til fjöldafunda, til að fylgja eftir kröfum um 8 stunda vinnudag og aðrar umbætur á kjörum sínum.

Á þinginu í París var fræi var sáð og smátt og smátt fór verkafólk um allan heim að leggja niður vinnu þennan dag eða hluta hans. Það var þó ekki í sérstakri þökk atvinnurekenda til að byrja með og töldu sumir hverjir uppátækið ala á heimtufrekju vinnuhjúa.  Á endanum var þó látið undan kröfum verkalýðsins að viðurkenna þennan dag sem opinberan og lögbundin frídag. Á Íslandi var fyrsta kröfugangan á 1. maí gengin árið 1923 og hefur dagurinn verið löggiltur frídagur á Íslandi síðan 1966.

Baráttudagurinn okkar 1. maí gegnir enn veigamiklu hlutverki og við skulum ekki gleyma því að hann er  þannig tilkominn að bláfátækt verkafólk lagði niður vinnu þennan dag. Það gerði það ekki til að slaka á og „tjilla“,  heldur að krefjast styttri vinnudags og betri kjara.

Vissulega er vel við hæfi að halda hátíð þennan dag og ástæða til að minnast margra og mikilvægra sigra í baráttunni fyrir betri kjörum. Það hefur kostað fórnir að bæta kjörin og tryggja afkomu fólks, en við megum aldrei sofna á verðinum því þá mun allt sem hefur áunnist hefur verða af okkur tekið.

Á degi sem þessum er jafnframt mikilvægt að hvetja félagsmenn stéttarfélaga til að vera virkir í sínum verkalýðsfélögum, því styrkurinn til frekari sigra í réttindabaráttu verkafólks fellst í samstöðu okkar allra. Við búum við svo vel að eiga öflug stéttarfélög hérí Þingeyjarsýslum sem kappkosta að veita félagsmönnum góða þjónustu, auk þess að standa vörð um kjör og réttindi þeirra á vinnumarkaði.

Kæru gestir

Hér á eftir munu Þingeyskir listamenn koma fram og skemmta okkur auk þess sem formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, mun flytja hátíðarræðu dagsins. Stéttarfélögunum bárust óskir um að hátíðinni yrði streymt og við þeirri ósk verður orðið. Hátíðin verður auk þess aðgengileg á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is næstu tvær vikurnar. Með þessum orðum set ég hátíðarhöldin 1. maí. Góða skemmtun.

Takk fyrir.

 

 

“Hugsum fyrst um smáfuglana áður en við förum að fóðra ránfuglana”   

Hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum standa nú yfir. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá, tónlist og ræðuhöld. Í þessum skrifuðu orðum er formaður Framsýnar að flytja þrumuræðu þar sem hann tekur sérstaklega fyrir söluna á Íslandsbanka, deilurnar í Eflingu og komandi kjaraviðræður við Samstök atvinnulífsins. Sjá má ræðuna í heild sinni hér að neðan. Þá geta þeir sem eru ekki á hátíðinni farið inn á streymið  twitch.tv/hljodveridbruar.  Þar er hægt að horfa á beina útsendingu frá hátíðinni og síðan verður efnið aðgengilegt í tvær vikur á heimasíðu stéttarfélaganna:

Ágætu félagar

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!

Þrátt fyrir að 1. maí sé alþjóðlegur baráttudagur verkafólks er mikilvægt að hafa í huga að allir dagar eru baráttudagar, ekki bara 1. maí.

Við sem störfum í verkalýðshreyfingunni í umboði félagsmanna upplifum þetta í okkar daglegu störfum fyrir hreyfinguna. Baráttan er endalaus.

Nú þegar við fögnum vorinu er heldur þungbúið yfir landinu, það er óþefur í loftinu sem tengist peningalykt auk þess sem við höfum eignast nýja skilgreiningu á orðatiltækinu „þeir sem minna mega sín“.

Þegar ég var að alast upp hér á árum áður í sjávarplássi, þýddi orðið peningalykt að það væri verið að bræða loðnu, síld og annan fiskúrgang.

Peningalyktin var ávísun á gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið, tekjur sem í gegnum tíðina hafa verið notaðar m.a. til að byggja upp vegi, skóla, sjúkrahús og aðra innviði.

Peningalyktin sem ég upplifði á sínum tíma á ekkert skylt við peningalyktina sem svífur yfir Íslandsbankaturninnum í Kópavogi. Óþefurinn stafar af sölu „þjóðarinnar“ á hlutabréfum í bankanum sem er dapurlegur vitnisburður um vanhæfa seljendur. Um er að ræða göróttan gjörning í boði Bankasýslu ríkisins og stjórnvalda, hvert á vilja þjóðarinnar.

Svo vitnað sé áfram til fyrri tíma þá starfaði ég sem unglingur við fiskvinnslustörf með mér eldri körlum og konum sem höfðu flest fyrir fjölskyldum að sjá. Lífsbaráttan var virkilega hörð á þeim tíma. Dæmi voru um að verkamenn kæmu til vinnu, berfættir í stigvélum á köldum vetrardögum. Á þessum árum heyrði ég fyrst talað um „þá sem minna mega sín“ í þjóðfélaginu.

Ég skildi merkinguna vel, enda komandi frá alþýðuheimili og vinnandi með verkafólki sem þurfti að hafa töluvert fyrir lífinu til að komast af, vinnudagarnir voru oft langir.

Hefur eitthvað breyst? Þann tíma sem ég hef verið formaður í verkalýðsfélagi hef ég upplifað þessa tíma aftur og aftur. Það er algjör misskilningur, haldi menn að allir geti lagst á koddann á kvöldin áhyggjulaust. Fátækt er ekki liðin tíð.

Svo dæmi sé tekið þá hafði einstæð móðir á örorkubótum samband við mig um páskana og bað mig um að lána sér tvö þúsund krónur svo hún ætti fyrir mat. Svona er Ísland í dag, neyðin  er víða.

Í stað þess að stjórnvöld horfi til þess fjölmenna hóps sem býr við óboðlegar aðstæður í samfélaginu, halla þau sér upp að elítunni í fjármálageiranum. Til að innsigla vinskapinn telja þau viðeigandi að færa þeim eigur þjóðarinnar á silfurfati, það er til þeirra sem minna mega sín í merkingu stjórnvalda, kapítalistana sem ráða sér ekki fyrir græðgi.

Þessum gjörningi lýstu yfirmenn Bankasýslunnar og ráðherrar sem sérlega vel heppnaðri aðgerð enda verðlaunaðir með flugeldum, konfekti, gæða víni og dýrindis málsverðum, minna mátti það nú ekki vera.

Hlutur ríkisins var seldur á undirverði upp á nokkra milljarða króna til valins hóps kaupsýslumanna sem kættust mikið á leið sinni í bankann, tóku snúning fyrir fyrsta hanagal og seldu hlut sinn strax aftur með ofsa gróða. Á kantinum hlógu ráðgjafarnir og struku belg sinn, drjúgir með sitt, enda greiddum við þeim litlar 700 milljónir svo auðmennirnir gætu hagnast um milljarða á þessum viðskiptum.

Já þetta eru allt miklir menn, sem sannanlega standa vaktina fyrir sig og sína. Megi þeir sofa rótt.

Vaxandi ójöfnuður hefur enn og ný læst sig í íslenskt samfélag líkt og illgresi í akur.  Lærðum við eitthvað af hruninu 2008, NEI! Afleiðingarnar liggja fyrir; aukin misskipting, samþjöppun valds og auður hinna ríkustu vex og dafnar meðan lífskjör almennings standa í stað eða versna ekki síst barnafjölskyldna, öryrkja og þeirra sem minna mega sín.

Þetta er ekki ásættanleg staða í einu ríkasta landi heims. Við viljum samfélag þar sem allir eiga að geta lifað með reisn og hér á enginn að þurfa að hokra í fátækt hvað þá að elítunni séu færðir margir milljarðar á silfurfati til að gambla með, svo þeir verði ríkari og ríkari á kostnað okkar hinna sem tilheyrum alþýðu landsins.

Það er vinnandi fólki sem hlaut sérstaka blessun þáverandi forsætisráðherra í hruninu 2008: „Guð blessi Ísland“.

Vissulega er þetta forkastanleg vinnubrögð, en það stóð ekki á svari talsmanns ríkisstjórnarinnar þegar hann var spurður út í söluna á bréfunum í Íslandsbanka. Útboðið hefði vissulega klikkað en menn lærðu af þessu, hafið þið heyrt þetta áður? Hvað heyrðum við þetta ekki oft í bankahruninu og hver er niðurstaðan. Við höfum ekkert lært.

Það er engum vafa undirorpið að almenningi er stórkostlega misboðið vegna sölunnar á Íslandsbanka. Enn og aftur koma stjórnvöld og leggja út rauðan dregil fyrir yfirstéttarelítuna sem voru gerendur í hruninu með því að bjóða þeim að kaupa hlut í Íslandsbanka  á góðu undirverði.

Það er full ástæða til að velta því upp hvort meirihluti sé fyrir því á stjórnarheimilinu að takast á við spillinguna sem reglulega poppar upp á Íslandi. Í það minnsta eru þingmennirnir við Austurvöll alltaf jafn hissa þegar þessi mál koma upp aftur og aftur, sama hvaða stjórnmálaflokki þeir tilheyra. Það er umhugsun­ar­efni út af fyrir sig.

Sé raunverulegur vilji til þess að upp­ræta spill­ing­una þurfa allir stjórnmálaflokkar að byrja á því að líta í eigin barm í stað þess að benda á aðra.

Alþýða þessa lands mun ekki lýða annað en að flokkarnir setji skýrar reglur um fjármálamarkaðinn og sölufyrirkomulag ríkiseigna s.s. bankastofnana.

Það er okkar sem hér erum að standa vaktina og veita þeim sem við kjósum á þing á hverjum tíma fullt aðhald. Þannig vinnum við best gegn undirliggjandi spillingu í íslensku þjóðfélagi.

Ágæta samkoma

Væringar innan verkalýðshreyfingarinnar hafa undanfarið verið mikið til umræðu í fjölmiðlum. Athygli vekur að ákveðnir fjölmiðlar, í eigu fjársterkra aðila, hafa séð ástæðu til að fjalla mun meira um deilurnar í Eflingu, en brunaútsöluna á hlutabréfunum í Íslandsbanka, þar sem fimmtungur bankans „banka allra landsmanna“ var seldur á undirverði.

Menn þurfa ekki að hafa mikið á milli eyrnanna til að átta sig á því til hvers leikurinn er gerður. Það er að færa umræðuna frá braskinu og sjálftökuliðinu yfir í deilur innan Eflingar, þar sem tekist er á um persónur, stefnu og völd innan félagsins.

Svo það sé algjörlega á hreinu tel ég að lýðræðislega kjörin stjórn Eflingar hafi gert alvarleg mistök með því að ráðast í hópuppsagnir á skrifstofu félagsins. Fyrir liggur að verkalýðshreyfingin er almennt á móti hópuppsögnum. Að mínu mati hefði mátt með utanaðkomandi ráðgjöf, gera ásættanlegar breytingar á skrifstofunni í þágu stjórnar, starfsmanna og félagsmanna.

Forsendan fyrir öflugu starfi stéttarfélaga er góð samvinna stjórnar og starfsmanna. Það er síðan félagsmanna að veita stjórnendum og starfsmönnum aðhald á hverjum tíma. Umræðan um Eflingu hefur skaðað verkalýðshreyfinguna í heild sinni og það mun taka tíma að bæta úr þeim mikla skaða sem þegar er orðinn.

Hvað Eflingu varðar og formann félagsins, Sólveigu Önnu Jónsdóttur, snýst málið ekki bara um hópuppsagnirnar á skrifstofu félagsins, sem eru fyrst og fremst á ábyrgð stjórnarinnar. Málið er svo miklu stærra og  þarf að skoða í samhengi vegna alls þess sem á undan er gengið. Ég þekki ágætlega til í málefnum Eflingar og blöskrar oft umræðan um félagið út í samfélaginu.

Ákveðin hægri öfl í þjóðfélaginu hafa markvist unnið að því að koma Sólveigu frá sem endurspeglast í fjölmiðlaumræðunni og á samskiptamiðlum. Menn hræðast þessa konu sem komið hefur af miklum krafti inn í verkalýðshreyfinguna með nýja sýn, slagkraft og öðruvísi nálgun á kjarabaráttu en áður hefur þekkst. Slagkraft og málflutning sem hreyfinguna hefur lengi vantað. Vissulega er Sólveig Anna kjaftfor og talar hreint út, sem fellur ekki öllum vel í geð, en það þarf kjark, þor og vilja til að ná fram réttlæti og jöfnuði í þessu landi.

Svo það sé bara sagt hreint út, þá er betri bandamaður til að berjast fyrir bættum kjörum láglaunafólks vandfundinn innan íslenskrar verkalýðshreyfingar og mættu margir aðrir verkalýðsforingjar taka hana sér til fyrirmyndar.

Þá hafa öfl innan hreyfingarinnar lagt sitt að mörkum til að koma Sólveigu Önnu frá með því að bregða fyrir hana fæti, þrátt fyrir að hún sé formaður í lang fjölmennasta stéttarfélaginu af nítján aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands. Það á bæði við um forystumenn og starfsmenn innan hreyfingarinnar.

Ég nefni síðasta þing Starfsgreinasambands Íslands þar sem Sólveig Anna náði ekki kjöri í framkvæmdastjórn sambandsins, þrátt fyrir að Efling hafi haft um 45% atkvæðavægi á þinginu,  þar sem „góða fólkinu“ svokallaða tókst að koma í veg fyrir kjör hennar með samstilltu átaki.

Ég á mér þann draum að sættir náist innan Eflingar um leið og ég kalla eftir meiri virðingu almennt innan hreyfingarinnar hvað varðar skoðanir og málstað fólks burt séð frá kyni, búsetu eða kynþætti.

Í þessu máli berum við öll ábyrgð. Hættum þessum sandkassaleik, snúum okkur þess í stað að þeim krefjandi verkefnum sem framundan eru í réttindamálum verkafólks, öryrkja og aldraðra. Þar eru verkefnin óþrjótandi og markið að auknum jöfnuði er því miður ekki í sjónmáli. Höfum í huga að með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins mun okkur takast það markmið að byggja upp réttlátara samfélag umbjóðendum og samfélaginu öllu til heilla.

Ágæta samkoma

Tíminn líður hratt á gerfihnattaöld. Með haustinu falla Lífskjarasamningarnir  sem undirritaðir voru 2019 úr gildi. Að mínu mati eru Lífskjarasamningarnir merkilegustu kjarasamningar sem gerðir hafa verið allt frá undirritun Þjóðarsáttasamningana 2. febrúar 1990. Sérstaklega hvað varðar að jafna launakjör í landinu. Megininntak samningsins var að verja kaupmátt launa, vinna gegn verðbólgu og tryggja lægri vexti til frambúðar. Ég tel að megin markmiðin hafi náðst, þrátt fyrir að nokkuð skorti á að ríkistjórnin hafi staðið við gefin loforð s.s. um að setja skýrar reglur um févíti þegar fyrirtæki standa ekki við gerða kjarasamninga.

Yfirlýsing ríkistjórnarinnar sem fylgdi kjarasamningunum fólst í skattalækkunum, vaxtalækkunum, ákveðnum frystingum þjónustugjalda ríkis og sveitarfélaga, hækkun barnabóta, lengingu fæðingarorlofs, svo ekki sé talað um sértækar aðgerðir er sneru að húsnæðismálum ungs fólks.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að umfangi um 80 milljarðar á gildistímanum til að styðja við markmið um stöðugleika og bætt kjör launafólks.

Framsýn stéttarfélag kom að því að móta innihald Lífskjarasamninganna með öðrum aðildarfélögum ASÍ og stjórnvöldum sem lögðu sitt að mörkum svo hægt yrði að loka samningunum. Framsýn átti sérstaklega gott samstarf með Eflingu, VR og Verkalýðsfélagi Akraness. Þessi stéttarfélög voru drifkrafturinn í síðustu kjarasamningum ásamt Verkalýðsfélagi Grindavíkur.

Lífskjarasamningurinn byggði m.a. á krónutöluleið sem að mati Framsýnar er besta leiðin til að jafna lífskjörin í landinu. Aðrir hópar launafólks, sem búa við mannsæmandi kjör og rúmlega það verða að hafa skilning á viðleitni stéttarfélaga láglaunafólks að auka jöfnuð í landinu.  Það gera þeir best með því að taka heilshugar undir kröfuna um að allir eigi að geta séð sér farborða með sínu vinnuframlagi. Menn eiga ekki að þurfa að taka að sér aukavinnu til að geta framfleytt sér. Það eiga allir að geta lifað af 100% starfi. Annað er ekki í boði.

Sama á við um aldraða og öryrkja, þeir eiga skýlausan rétt á mannsæmandi framfærslu. Það á ekki að vera þannig að öryrkjar stelist til að vinna svart á kvöldin gegn vilja sínum svo þeir geti náð endum saman. Það er skömm fyrir íslenska þjóð, það er skömm fyrir íslenskt atvinnulíf, það er skömm fyrir íslenska velferðarkerfið.

Ég tel fulla ástæðu til að nefna þetta hér þar sem heyra má á talsmönnum stéttarfélaga sem gæta hagsmuna þeirra tekjuhærri að þeim þóknist ekki krónutöluleiðin. Þeir tala hins vegar fyrir %-leiðinni enda vitað að hún kemur betur út fyrir þá tekjuhærri. Í ljósi þessa kalla ég eftir þjóðarsátt um hækkun lægstu launa. Mín skilaboð eru skýr: Hugsum fyrst um smáfuglanna áður en við förum að fóðra ránfuglanna.

Hvað komandi kjaraviðræður varðar þá er undirbúningur hafinn hjá aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands.

Kunnuglegt væl heyrist frá Samtökum atvinnulífsins um að ekkert sé til skiptanna og því ekkert um að semja. Reyndar var þessum skilaboðum komið á framfæri við þjóðina fyrir útsöluna á Íslandsbanka. Þar mátti sjá góðkunningja Samtaka atvinnulífsins slást um að kaupa sem mest af hlutabréfum í bankanum. Sem dæmi má nefna að einstök sjávarútvegsfyrirtæki keyptu fyrir yfir milljarð.

Dettur einhverjum heilvita manni í hug að slík fyrirtæki geti ekki hækkað laun starfsmanna á lægstu launum. Viðhorf eigenda þeirra fyrirtækja sem eiga í hlut á ekki bara að snúast um að græða og græða heldur greiða mannsæmandi laun og virða þannig framlag starfsmanna á hverjum tíma til aukins hagvaxtar í landinu.

Vissulega er það ekki nýtt að atvinnurekendur og frjálshyggjuliðið hafi hátt í aðdraganda kjarasamninga. Fyrir síðustu samninga árið 2019 fór áróðursmaskínan gegn hækkun lægstu launa á yfirsnúning. Samtök atvinnulífsins vöruðu við uppsögnum, samdrætti og gjaldþrotum næðu kröfur stéttarfélaganna fram að ganga. Þá var stórbrotið að lesa í blöðum og öðrum miðlum að forystumönnum í verkalýðshreyfingunni væri líkt við hryðjuverkamenn. Fyrir mér er Pútín Rússlandsforseti hryðjuverkamaður en ekki við sem förum fyrir kjarabaráttu verkafólks.

Það er von mín og trú að samstaða náist um að framlengja Lífskjarasamninginn á svipuðum nótum og núverandi samningsforsendurnar byggja á. Samið verði um krónutöluleið og launakjör starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum verði hækkuð til jafns við opinberra starfsmenn sem búa í dag við miklu betri kjör en félagsmenn Starfsgreinasambands Íslands á almenna vinnumarkaðinum. Það á við um launakjör og önnur kjarasamningsbundin réttindi. Þá þurfa stjórnvöld að koma að samningnum með sambærilegum hætti og síðast.

Hvað það varðar er mikilvægt að landsbyggðarfélögin leggi aukna áherslu á aukin jöfnuð í búsetuskilyrðum burt séð frá búsetu. Sérstaklega er hér verið að tala um aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu og námi á framhalds- og háskólastigi svo ekki sé talað um þann mikla flutningskostnað sem fylgir því að búa á landsbyggðinni, fjarri Reykjavík. Reyndar er listinn langur. Stjórnvöld þurfa jafnframt að skapa leigjendum og íbúðarkaupendum á lágmarkskjörum öruggt íbúðarhúsnæði á viðráðanlegum kjörum, sem stillt verði af í samræmi við fjárhagslega getu þeirra á hverjum tíma. Öruggt og gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum er grundvallarþáttur í velferð launafólks.

Að lokum þetta!

Það hafa verið hörð átök innan verkalýðshreyfingarinnar sem ekki er séð fyrir endann á. Framsýn mun leggja sitt að mörkum til að aðildarfélög ASÍ komi sameinuð til næstu kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins íslensku launafólki og atvinnulífi til heilla. Annað er hreinlega ekki í boði.

Þá getur enginn setið hjá þegar horft er til hörmunganna í Úkraínu þar sem stríðsglæpamaður í byssuleik heldur heilli þjóð í heljargreipum með skelfilegum afleiðingum. Við verðum að gera allt til að aðstoða flóttafólkið frá Úkraínu um leið og hvetjum þjóðarleiðtoga heimsins til að stuðla að friði í heiminum með öllum tiltækum ráðum.

Hvað Framsýn varðar höfum við ekki setið hjá. Við höfum þegar komið á framfæri hörðum mótmælum við rússneska sendiráðið, við höfum samþykkt að leggja söfnun Rauða krossins á Íslandi til fjármagn til stuðnings flóttafólki frá Úkraínu auk þess sem við höfum samþykkt að leggja flóttafólki frá Úkraínu til íbúð á vegum Framsýnar í gegnum hjálparsamtök.

Það er stoltur formaður Framsýnar stéttarfélags sem stendur hér og tilkynnir að í dag munu mæðgur með lítið barn flytja inn í eina af íbúðum Framsýnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er sannarlega hjartnæmt að það skuli bera upp á daginn í dag, 1. maí, alþjóðlegan baráttudag verkafólks. Takk fyrir.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Hátíðarhöldunum á Húsavík streymt

Vegna fjölda áskorana verður hátíðarhöldunum á Húsavík í dag streymt. Ánægja er með þetta framtak, ekki síst frá þeim sem búa á hjúkrunarheimilum og dvelja á sjúkrahúsum og koma því ekki við að mæta á svæðið. Streymið er twitch.tv/hljodveridbruar. Hægt verður að horfa á beina útsendingu en svo verður efnið aðgengilegt í tvær vikur á heimasíðu stéttarfélaganna. Þrátt fyrir að hátíðarhöldunum verði streymt kemur ekkert í staðinn fyrir það að mæta á svæðið og upplifa stemninguna sem verður án efa frábær.

 

Fjölmennum í höllina

Þá er allt orðið klárt fyrir hátíðarhöld stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem hefjast kl. 14:00 á morgun, 1. maí í Íþróttahöllinni á Húsavík. Stéttarfélögin hvetja landsmenn alla til að fjölmenna á hátíðarhöldin á Húsavík. Í boði eru frábærar ræður og tónlistaratriði. Sjáumst hress á morgun í baráttustuði.

Baráttudagur verkalýðsins í skugga verðbólgu og dýrtíðar

Dýrtíð er skollin á um alla Evrópu og við förum ekki varhluta af því. Verðbólgan mælist nú 7,2% og höfum við ekki séð slíkar tölur um árabil. Að stærstum hluta er verðbólgan innflutt, vegna Covid-kreppunnar og stríðsins í Úkraínu, sem hefur haft þau áhrif að verðlagið hefur hækkað, ekki síst á mat og eldsneyti. Í löndum þar sem kynnt er með olíu eða gasi hafa húshitunarreikningar hækkað verulega með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning.  Stjórnvöld sumra ríkja hafa brugðið á það ráð að greiða niður orku til að koma í veg fyrir heilsufarsvandamál og ótímabær dauðsföll.. Sem betur fer búum við í lokuðu orkukerfi með lágan orkukostnað en það er sama sagan hér og alls staðar annars staðar: Verðhækkanir á á grunnnauðsynjum koma verst niður á þeim sem síst skyldi því heimili sem hafa lítið umleikis greiða stærri hluta tekna í nauðsynjar. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur tæpt á þeim möguleika að fella niður eða lækka virðisaukaskatt á matvæli á meðan á dýrtíðinni stendur. Loksins sést lífsmark með ríkisstjórn Íslands en við í verkalýðshreyfingunni höfum kallað eftir neyðaraðgerðum fyrir heimilin um nokkurt skeið þegar var ljóst í hvað stefndi. Ég brýni stjórnvöld til verka til að minnka áhrif dýrtíðar á heimilin og þá sérstaklega á lægri tekjuhópa.

Þótt hluti verðbólgunnar sé innfluttur þá er nokkur hluti hennar heimatilbúinn. Húsnæðisverð hefur hækkað upp úr öllu valdi og þar hefur skort samhæfingu Seðlabankans og stjórnvalda. Vaxtalækkanir hafa ekki haldist í hendur við aukið framboð á húsnæði og almennilega langtímastefnumótun í húsnæðismálum. Seðlabankinn nýtti ekki sín varúðartæki til að draga úr spennu á húsnæðismarkaði og þrátt fyrir að auðvelt sé að spá fyrir um aukna þörf á húsnæði hafa stjórnvöld dregið lappirnar. Nú sjáum við fram á  aukna þörf á húsnæði hér á landi, bæði vegna flóttafólks frá Úkraínu og þess að fleiri innflytjendur munu leggja hönd á plóg í atvinnulífinu. Okkur vantar húsnæði á viðráðanlegum kjörum, svo einfalt er það. Því eiga húsnæðismál að vera þungamiðjan í sveitastjórnarkosningunum sem fram fara í næsta mánuði. Það er stærsta lífskjaramálið og sveitarfélögin eru lykilaðili til lausnar.

Á sunnudaginn er 1. maí – baráttudagur verkalýðsins, þar sem við komum í fyrsta sinn saman síðan árið 2019 og brýnum okkur áfram til góðra verka. Sjaldan hefur verið mikilvægara að efla samstöðuna. Verkalýðshreyfingin á stóran þátt í þeim lífsgæðum sem við búum við á Íslandi og sú barátta verður að halda áfram. Nú þarf að sýna að í verkalýðshreyfingunni er fólk tilbúið til verka. Sjáumst í baráttunni um allt land!

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/almennar-frettir/hatidarhold-a-1-mai-2022/

 

Góða helgi,

Drífa

SGS hefur áhyggjur af verðbólgunni

Eftirfarandi ályktun var samþykkt í gær á  framkvæmdastjórnarfundi í  Starfsgreinasambandi Íslands:

„Framkvæmdastjórn lýsir yfir þungum áhyggjum af vaxandi verðbólgu sem bitnar hvað harðast á láglaunafólki. Útlit er fyrir að húsnæðisverð og hækkun hrávöruverðs muni hafa áframhaldandi áhrif á hækkandi verðlag. Að mati Starfsgreinasambandsins hafa stjórnvöld misst tökin á húsnæðismarkaðinum sem meðal annars hefur orðið til þess að verðbólga fer áfram vaxandi og mælist nú 7,2%. Húsaleiga og húsnæðiskuldir heimilanna í landinu hafa hækkað gríðarlega sem og matarverð.

Afar mikilvægt er að stjórnvöld bregðist við með hagsmuni launafólks í huga. Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins skorar á stjórnvöld að beita sér fyrir því að afleiðingar af breyttum ytri aðstæðum bitni ekki harðast á láglaunafólki í landinu og kjörum þess.“

Aðalsteinn Árni ræðumaður á Akureyri

Stefna félag vinstri manna á Akureyri stendur fyrir morgunfundi 1. maí að Stuðlabergi, Hótel KEA kl. 11:00. Ræðumaður dagsins verður formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson. Boðið verður upp á frekari dagskrá sem er mjög áhugaverð. Að sjálfsögðu eiga menn að fjölmenna á svona fund, það er á baráttudegi verkafólks.

 

ASÍ-UNG fundar í Hvalfirði

Nú stendur yfir Fræðslu- og tengsladagar á vegum ASÍ-UNG  á Icelandair Hótel Hamri, í Borgarfirði. Málefni ungs fólks í verkalýðshreyfingunni verða til umræðu þessa tvo daga það er 28. – 29. apríl. Framsýn á frábæra fulltrúa á fundinum, þetta eru þær Sunna Torfadóttir og Guðmunda Steina Jósefsdóttir sem báðar eru stjórnarmenn í Framsýn-ung. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar þær fóru suður á fundinn í gærmorgun frá Skrifstofu stéttarfélaganna.

 

Það er töff að vera í öflugu stéttarfélagi

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman í morgun til að úthluta styrkjum úr sjóðnum til félagsmanna fyrir aprílmánuð. Samtals bárust tæplega 150 umsóknir frá félagsmönnum um styrki fyrir mánuðinn.  Um er að ræða styrki vegna m.a. sjúkradagpeninga, fæðingarstyrks, sálfræðiaðstoðar, sjúkraþjálfunar, heilsurækt og vegna kaupa á heyrnatækjum og gleraugum. Samtals er upphæðin upp á 8.000.000,-. Já það borgar sig að vera í einu öflugasta stéttarfélagi landsins.

Framsýn gerir áfram vel við félagsmenn varðandi námsstyrki

Stjórnir sjóðanna Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar hafa samþykkt að framlengja 90% endurgreiðslu vegna styrkveitinga til 30. september 2022 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru/byrja innan þessa sama tímaramma.

Breytingar á úthlutunarreglum voru eftirfarandi:

Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, voru hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Sveitamennt og Ríkismennt veita 100% styrki til stofnana sveitarfélaga og ríkisstofnana.

Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur.  Hlutfalli endurgreiðslu var hins vegar breytt og er 90% í stað 75% af kostnaði við námið.

Tómstundstyrkir sem voru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári eru í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið.

Framsýn stéttarfélag er aðili að þessum sjóðum í gegnum kjarasamninga fyrir sína félagsmenn. Um er að ræða góða kjarabót fyrir félagsmenn að hafa aðgengi að öflugum fræðslusjóðum.

Góður fundur með starfsmönnum Nettó

Formaður Framsýnar gerði sér ferð á dögunum til að funda með starfsmönnum Nettó á Húsavík. Fundurinn var málefnalegur og góður. Umræður urðu um starfsumhverfi starfsmanna almennt í verslunum og álagið sem verið hefur á starfsmönnum á Covid tímum. Á krefjandi tímum hafa starfsmenn gert sitt besta til að þjóna viðskiptavinnum um leið og þeir hafa þurft að fara varlega vegna heimsfaraldursins til að verja sig og viðskiptavini. Vissulega hafa starfsmenn þurft að takast á við alls konar aðstæður sem vonandi séð fyrir endann á nú þegar Covid er á undanhaldi sem betur fer. Síðan er að sjálfsögðu mikilvægt að viðskiptavinir verslana almennt, sýni starfsmönnum sjálfsagða kurteisi.

Gestur á fundi Framsóknar sem ætlar sér stóra hluti í vor

Framsókn ætlar sér stóra hluti í næstu sveitarstjórnarkosningum í Norðurþingi. Líkt og önnur framboð í sveitarfélaginu hafa framsóknarmenn unnið að því að setja saman stefnuskrá flokksins fyrir næsta kjörtímabil. Að þeirra sögn hefur vinnan við stefnuskránna gengið mjög vel. Liður í gagnaöflun var að bjóða formanni Framsýnar á fund til að ræða atvinnumál, velferðarmál  og það sem betur má fara í samfélaginu. Hvað það varðar var víða komið við enda hefur formaður sterkar skoðanir á málefnum sveitarfélagsins. Fundurinn var bæði málefnalegur og gagnlegur fyrir fundarmenn. Það er til mikillar fyrirmyndar þegar stjórnmálaflokkar leita til Framsýnar eftir samræðum um málefni sveitarfélagsins. Að sjálfsögðu er í boði að senda fulltrúa frá Framsyn á fundi hjá öðrum stjórnmálaöflum sem bjóða fram í Norðurþingi verði eftir því leitað.

Framleiða rafeldsneyti á Bakka

Vetni og ammóníak eru lausn á loftslagsvanda heimsins segir Sigurður Ólason í frétt í Morgunblaðinu/mbl.is.

Í ljósi mark­miða rík­is­stjórn­ar­inn­ar um kol­efn­is­hlut­laust Ísland óháð jarðefna­eldsneyti árið 2040 verður að hraða und­ir­bún­ingi að fram­leiðslu ra­feldsneyt­is eins og vetn­is og ammoní­aks að mati Sig­urðar Ólason­ar, fram­kvæmda­stjóra Green Fuel. Slíkt eldsneyti sé lyk­il­atriði í orku­skipt­un­um. Fyr­ir­tækið stefn­ir að bygg­ingu fyrstu stórskala ra­feldsneytis­verk­smiðju lands­ins á Bakka við Húsa­vík.

Mik­ill meðbyr

Sig­urður seg­ist í sam­tali við Morg­un­blaðið finna fyr­ir mikl­um áhuga og meðbyr. „Green Fuel mun fram­leiða vetni og amm­óní­ak, sem bæði eru al­ger­lega kol­efn­is­laus í fram­leiðslu og notk­un. Þess­ar tvær teg­und­ir ra­feldsneyt­is eru því lausn á lofts­lags­vanda heims­ins og munu stuðla að því að Ísland upp­fylli ákvæði Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins varðandi minnk­un kol­efn­isút­blást­urs. Til dæm­is væri það mik­ill kost­ur ef kaup­skipa- og fiski­skipa­flot­inn næði að skipta úr díselol­íu yfir í ra­feldsneyti,“ seg­ir Sig­urður.

Amm­óní­akið sem Green Fuel hyggst fram­leiða myndi duga til að knýja þriðjung ís­lenska fiski­skipa­flot­ans að sögn Sig­urðar. Auk þess mun Green Fuel fram­leiða vetni í fljót­andi formi sem er álit­leg­ur orku­gjafi fyr­ir þunga­flutn­inga og inn­an­lands­flug á Íslandi.

(Þessi áhugaverða frétt er tekin af vefnum mbl.is)

Gott atvinnuástand á svæðinu

Um þessar mundir er mjög gott atvinnuástand á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið um atvinnuauglýsingar enda mikil vöntun á starfsfólki í mismundandi störf. Samkvæmt heimildum heimasíðunnar er vel undir 100 manns á atvinnuleysisbótum frá Bakkafirði að Vaðlaheiði sem eru virkilega góðar fréttir. Vinnumálastofnun hefur ekki gefið út nýjustu tölur um atvinnuleysi en með því að fara inn á vef stofnunarinnar vmst.is er hægt að sjá hvernig atvinnuleysið hefur þróast og skiptist milli sveitarfélaga og landshluta samkvæmt  upplýsingum frá þeim.

Viðræður um stofnanasamning halda áfram

Á morgun þriðjudag munu fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði og Þjóðgarðinum á Þingvöllum halda áfram viðræðum um gerð stofnanasamnings skv. 11. kafla kjarasamnings fjármála og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsgreinasambands Íslands sem undirritaður var 6. mars 2020. Fundurinn fer fram í Reykjavík. Formaður Framsýnar tekur þátt í þessum viðræðum enda hópur félagsmanna sem fellur undir þennan stofnanasamning. Mikill vilji er til þess meðal samningsaðila að klára gerð samningsins á næstu vikum. Vonandi tekst það.

Launahækkanir 1. apríl – nýjar launatöflur

Búið er að uppfæra flestar launatöflur á heimasíðu stéttarfélaganna fyrir félagsmenn aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Verkið verður endanlega klárað strax eftir páska en unnið er að því að klára uppfærsluna sem tekur mið af hagvaxtaraukanum sem kom til 1. apríl og leggst við gildandi launatöflur. Afar mikilvægt er að félagsmenn stéttarfélaganna fylgist vel með því að hagvaxtaraukinn skili sér til þeirra við næstu útborgun. Launatöflur hækkuðu um 10.500 kr. og almenn laun um 7.875 kr. frá 1. apríl og koma til greiðslu 1. maí.

Ársreikningur Lsj. Stapa 2021 liggur fyrir

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur staðfest ársreikning sjóðsins fyrir árið 2021. Um síðustu áramót var hrein eign til greiðslu lífeyris um 358 milljarður króna og hækkaði um u.þ.b. 62 milljarða króna frá fyrra ári.

Ávöxtun eigna Stapa árið 2021 var ein sú besta í sögu sjóðsins í núverandi mynd eða sem nemur 13% raunávöxtun. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ár er um 7,6%.

Greiddir voru um 7,9 milljarðar króna í lífeyri úr tryggingadeild sjóðsins til um 11.588 lífeyrisþega. Voru þetta um 10,8% hærri greiðslur en árið á undan en á sama tíma fjölgaði lífeyrisþegum um 5,7%.

Alls greiddu tæplega 21.000 sjóðfélagar hjá rúmlega 3.500 launagreiðendum iðgjöld til tryggingadeildar á árinu en iðgjöld námu um 13,8 milljörðum króna og hækkuðu um 10,7% á milli ára. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem greiddu iðgjöld í mánuði hverjum var um 15.000.

Hrein eign séreignardeildar var 8.420 milljónir króna og hækkaði um 16,9% frá fyrra ári. Séreignardeildin býður upp þrjú ávöxtunarsöfn, Innlána safnið, Varfærna safnið og Áræðna safnið og nam hrein raunávöxtun safnanna -4,8%, 9,4% og 13,3% á árinu. Hrein eign tilgreindrar séreignardeildar nam 472 milljónum króna í lok árs.

Hér má sjá ársreikninginn í heild sinni.

 

Hátíðardagskrá 1. maí 2022 – allir í höllina

Að venju standa stéttarfélögin fyrir veglegri hátíðardagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík sunnudaginn 1. maí kl. 14:00 þar sem þingeyskir listamenn verða í aðalhlutverki. Boðið verður upp heimsins bestu vöfflur með kaffinu, meðan á dagskránni stendur.

Dagskrá:

Ávarp: Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags

Hátíðarræða: Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags

Söngur og grín: Stefán Jakobsson tekur lagið og grínast með eins og honum einum er lagið

Tónlistaratriði: Einar Óli tekur frumsamin og þekkt lög eftir aðra listamenn

Tónlistaratriði: Jónas Þór og Arnþór verða á léttu nótunum og taka nokkur lög og reita af sér brandara

Tónlistaratriði: Tónasmiðjan býður til veislu. Hópur flytjenda á ýmsum aldri, spila og syngja lög sem fylgt hafa okkur í gegnum tíðina og notið mikilla vinsælda

 

Systkinin Elísabet Helgadóttir og Kristján Helgason flytja Maístjörnuna í upphafi hátíðarinnar.

Þingeyingar og landsmenn allir, fjölmennum í höllina og drögum fána að hún á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí 2022. Samtakamátturinn hefur aldrei skipt meira máli en um þessar mundir.

Framsýn stéttarfélag – Þingiðn – Starfsmannafélag Húsavíkur

Málefnalegt þing SGS

Því miður hefur lítið farið fyrir helstu ályktunum 8. Þings Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri í síðasta mánuði. Fjölmiðlar virtust bara áhuga fyrir kosningum til trúnaðarstarfa innan sambandsins.  Hægt er að nálgast ályktanir þingsins inn á vef sambandsins sgs.is undir Þing. Við birtum hér eina góða ályktun þingsins sem fjallar um áherslur sambandsins í atvinnumálum:

Ályktun um atvinnumál

Góð störf og örugg atvinna er forsenda mannlífs og byggðar um land allt. Áhrif breyttra atvinnuhátta eru misjöfn um byggðir landsins. Störfum fækkar verulega í landbúnaði og fiskvinnslu ásamt því að færast á færri svæði. Ný störf í ferðaþjónustu og fiskeldi vinna gegn þessari þróun. Vanfjárfesting í innviðum vinnur gegn uppbyggingu byggðar, atvinnulífs og iðnaðar á landsbyggðinni. Innviðir samfélagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verða að vera í fremstu röð um land allt og styðja við byggðafestu og atvinnusköpun. Nýsköpun verði stórefld með áherslu á sjálfbær, græn störf og skapandi greinar með það að markmiði að fjölga burðarásum atvinnulífsins. Dregið hefur úr atvinnuleysi tengdu heimsfaraldri. Þó eru enn yfir tíu þúsund einstaklingar án atvinnu. Starfsgreinasamband Ísland leggst eindregið gegn styttingu bótatímabils atvinnuleysisbóta. Efla þarf þjónustu við atvinnuleitendur og aðgengi atvinnuleitenda að úrræðum sem styrkja stöðu á vinnumarkaði. Fyrirséð er að ferðaþjónustan mun sækja í sig veðrið að nýju nú þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs á heimshagkerfið. Þó áhrif þessa séu jákvæð á vinnumarkaði þekkir verkalýðshreyfingin of vel hvernig uppgangur ýtir undir launaþjófnað og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið krefst þess að viðurlög við launaþjófnaði verði lögfest og að vinnustaðaeftirlit og heimildir stjórnvalda í samstarfi við stéttarfélög til upplýsinga frá atvinnurekendum séu skýrar og hafnar yfir allan vafa. Annað kemur einfaldlega ekki til greina.

  1. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið á Akureyri 23-25. mars 2022 krefst þess:
  • Að innviðafjárfesting verði stórefld og innviðir samfélagsþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verði í fremstu röð um land allt og styðji við atvinnusköpun.
  • Að horfið verði frá niðurskurði í heilbrigðis- og skólamálum á landsbyggðinni sem vinnur gegn því að atvinna og mannlíf geti þrifist utan höfuðborgarsvæðisins.
  • Að hvatar verði innleiddir til að fyrirtæki staðsetji starfsemi, nýsköpun og framleiðslu á landsbyggðinni, t.d. með breytingu á tryggingargjaldi, flutningskostnaði eða félagslegum tilfærslum eftir svæðum.
  • Að unnið verði að því að fjölga grænum, sjálfbærum störfum þar sem verðmætasköpun byggir á markmiðum um sjálfbærni.
  • Að grunnbætur atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar í 95% af tekjutryggingu, úr 85% eins og reglur kveða á um í dag.
  • Að tekjutenging taki gildi frá fyrsta degi atvinnuleysis og gildi í 6 mánuði.
  • Að bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði ekki stytt.
  • Að þjónusta við atvinnuleitendur verði markvisst aukin og einstaklingsmiðuð til að draga úr atvinnuleysi.
  • Að viðurlög við launaþjófnaði verði lögfest. • Styrkja þarf stöðu fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði.