Hvað þýðir verkbann?

Stjórn Sam­taka at­vinnu­lífs­ins (SA) hef­ur samþykkt ein­róma að leggja það til við aðild­ar fyr­ir­tæki sín að setja alls­herj­ar­verk­bann á Efl­ingu og hefst at­kvæðagreiðsla um til­lög­una í dag. Verði hún staðfest tek­ur verk­bannið gildi viku síðar, en þá mega eng­ir þeirra liðlega 20 þúsund manna, sem starfa eft­ir kjara­samn­ing­um Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á al­menn­um vinnu­markaði, sækja vinnu og þeir þiggja ekki laun eða önnur rétt­indi meðan á því stend­ur. Þetta eru viðbrögð SA við því að upp úr samningaviðræðum slitnaði við stétt­ar­fé­lagið Efl­ingu í gær, en frest­uð verk­föll Efl­ing­ar hóf­ust að nýju á miðnætti. 

Fyrirspurnir hafa borist til Framsýnar í dag hvernig svona verkbann virki. Á vef ASÍ er fjallað nokkuð ítarlega um verkbönn, þar segir meðal annars:

„Um framkvæmd verkbanns gilda að flestu leyti sömu sjónarmið og um framkvæmd verkfalls. Meginskyldur aðila samkvæmt ráðningarsamningi falla niður þann tíma sem verkbann varir og rakna við þegar því líkur. Vinna er ekki innt af hendi og laun eru ekki greidd.

Spyrja má að því hvernig fari með fyrirframgreidd laun, hafi verkbann verið boðað, og hvort atvinnurekandi geti þannig komið sér undan samningsbundnum launagreiðslum með verkbannsboðun. Úr þessu deiluefni var skorið í Félagsdómi 12/1984(IX:95). Málsatvik voru þau að Félag bókagerðarmanna hafði verið í þriggja vikna löngu verkfalli þegar Nútíminn boðaði verkbann á blaðamenn sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Skyldi verkbann hefjast þann 4. október. Samkvæmt kjarasamningum Blaðamannafélags Íslands eru laun greidd fyrirfram fyrsta hvers mánaðar. Þegar verkbann hafði verið boðað greiddi fyrirtækið einungis laun vegna fyrstu þriggja daga mánaðarins. Félagið höfðaði mál gegn fyrirtækinu og krafðist þess að þessi framkvæmd yrði dæmd ólögmæt. Niðurstaða dómsins var sú að fallist var á það með fyrirtækinu að samningsákvæðið um fyrirframgreiðslu launa eigi ekki að skýra svo bókstaflega að það hafi átt að tryggja félagsmönnum BÍ launagreiðslur fyrir tímabil, sem þeir fyrirsjáanlega yrðu í verkbanni. Var Nútíminn því sýknaður af kröfu félagsins.

Það er á valdi þess aðila sem fyrirskipar verkbann að ákveða hversu víðtækt það skuli vera. Hann getur ákveðið að það skuli koma til framkvæmda í áföngum eða eftir atvikum að það skuli einungis taka til tiltekinna verkþátta eða starfsgreina. Verkbann getur þó aldrei orðið víðtækara en upphaflega var ákveðið.

Ágreiningur getur komið upp um það atriði hverjir megi vinna í verkbanni eins og er með verkföll.

Í samþykktum Samtaka atvinnulífsins (SA) er m.a. fjallað um það hvernig félagsmenn þess skuli bregðast við í vinnustöðvun.

Í 47. gr. samþykktanna segir að enginn félagsmaður megi ráða til sín launþega, sem eru í verkbanni eða verkfalli hjá öðrum félagsmönnum. Greinin kveður líka á um að sama skuli gilda viðvíkjandi verkbanni eða verkfalli erlendis. Þegar verkfall eða verkbann verður hjá félaga innan SA skal hlutaðeigandi, ef hann telur ástæðu til eða framkvæmdastjóri óskar, senda skrifstofu samtakanna skrá yfir launþega þá sem hlut eiga að máli. Er þá heimilt að kynna það þeim félögum sem ástæða þykir til hverjir þátttakendur séu í verkfallinu.

Þá er í 48. gr. kveðið á um að þegar vinnustöðvun standi yfir hjá einhverjum félagsmanni megi enginn félagi í samtökunum vinna gegn hagsmunum hans, t.d. með því að taka að sér, án samkomulags við hlutaðeiganda sjálfan eða stjórn viðkomandi aðildarfélags, framkvæmd á verki, sölu á vöru eða þjónustu sem hlutaðeigandi atvinnurekandi hefur tekið að sér eða á annan hátt nota sér aðstöðuna til þess að rýra viðskipti hans eða starfssvið.

Þá getur framkvæmdastjórn SA, þegar vinnustöðvun stendur yfir eða er yfirvofandi, bannað atvinnurekendum í samtökunum að hafa viðskipti við tiltekin fyrirtæki eða á sérstaklega ákveðnum sviðum, svo sem að selja tilgreinda vörutegund, og gert aðrar slíkar ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegar vegna deilunnar.

Ófélagsbundnir atvinnurekendur hafa sjálfstæðan rétt til að fyrirskipa verkbann og félag eða samband sem stendur að verkbanni getur ekki hindrað að slíkir atvinnurekendur haldi áfram starfsemi sinni. Samþykktir SA taka þó á þessu í 48. gr. Þar segir að ef einhver utan samtakanna vinnur beinlínis gegn hagsmunum félagsmanna sem eiga í vinnustöðvun er öðrum félagsmönnum óheimilt að eiga viðskipti við hann meðan á vinnustöðvuninni stendur. Framkvæmdastjórn SA getur samþykkt að sama skuli einnig gilda eftir að vinnustöðvun er lokið, annað hvort um tiltekinn tíma eða þar til framkvæmdastjórnin afléttir slíku viðskiptabanni.

Þá getur stjórnin ákveðið tilsvarandi aðgerðir í deilumálum sem hafa eigi leitt til vinnustöðvunar.“

Deila á