Kærleikskveðja til íbúa á Blönduósi

Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í gær var samþykkt að senda svohljóðandi kveðju til félaga okkar í Stéttarfélaginu Samstöðu og íbúa á Blönduósi:

„Framsýn stéttarfélag sendir félagsmönnum Stéttarfélagsins Samstöðu og íbúum Blönduóss, Húnabyggðar og öllum þeim sem eiga um sárt að binda hlýjar hugsanir, kærleik og styrk eftir þá voveiflegu atburði sem áttu sér stað á Blönduósi um síðustu helgi. Hugur félagsmanna Framsýnar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.“

Leit við í kaffispjall

Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings leit við í kaffi hjá formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna Baldurssyni. Katrín tók nýlega við sem sveitarstjóri en hún er fyrrum sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Sölku-fiskmiðlunar hf. auk þess að hafa verið kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar. Á fundinum kom fram fullur vilji aðila til að vinna saman að framfaramálum í sveitarfélaginu.

 

Kjaftforir leiðtogar

Það vakti eðlilega mikla athygli á dögunum þegar Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands sagði af sér sem forseti sambandsins. Í fjölmiðlum hefur hún borið því við að hún hafi átt mjög erfitt með að vinna með ákveðnum verkalýðsforingjum, ekki síst þeim sem leiða tvö langstærstu stéttarfélög landsins, auk formanns Verkalýðsfélags Akraness. Drífa hefur reyndar í viðtölum nefnt fleiri formenn s.s. þann sem þetta skrifar. Hún hefur meðal annars kvartað yfir því að menn væru kjaftforir og yfirlýsingaglaðir og því erfitt að vinna með þeim.

Sú hin sama Drífa virðist alveg hafa gleymt því þegar hún kvaddi VG með miklum hávaða á sínum tíma, er flokkurinn fór í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Hún líkti því við ofbeldissamband og sagði það eins og að éta skít í heilt kjörtímabil. Er von að spurt sé í hvað fráfarandi forseti ASÍ sé að vísa þegar hún talar um kjaftfora verkalýðsforingja? Er það orðið skammaryrði að tjá skoðanir sínar opinberlega í þágu verkafólks?

Það sem vekur jafnframt athygli og er reyndar full ástæða til að gagnrýna er að kjörinn forseti ASÍ skyldi ekki sitja út kjörtímabilið, því verkalýðshreyfingin er jú fjöldahreyfing sem byggir á virku lýðræði og skoðanaskiptum þeirra sem mynda hreyfinguna á hverjum tíma.

Auðvitað er fullkomlega eðlilegt að menn séu ekki alltaf sammála búandi við skoðanafrelsi. Drífa hefði hins vegar getað sent frá sér yfirlýsingu um að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi starfa fyrir Alþýðusambandið eftir þing sambandsins í haust. Það er til að búa menn undir breytingar. Fyrir liggur að hún nýtur ekki stuðnings öflugra og fjölmennra stéttarfélaga innan Alþýðusambandsins til áframhaldandi starfa sem forseti. Að mínu mati varð það forsetanum að falli að hafa ekki lagt meira upp úr því að sameina ólíkar skoðanir innan hreyfingarinnar til góðra verka. Þá hefur verið ákveðin tilhneiging til að þagga niður viðkvæm mál innan hreyfingarinnar, sem eiga að sjálfsögðu að vera upp á borðinu í stærstu fjöldahreyfingu samtaka launafólks. Burtséð frá því hef ég átt ágætt samstarf við Drífu og óska henni velfarnaðar á nýjum vettvangi. Vitaskuld höfum við stundum tekist á og ekki alltaf verið sammála um málefni verkalýðshreyfingarinnar, sem er afar eðlilegt í jafn fjölmennri hreyfingu. Það má Drífa eiga að hún hefur hingað til talað kraftmikla íslensku og fylgt skoðunum sínum og málefnum ASÍ eftir af einurð. Hún hefur jafnvel verið kjaftfor á tímum í umræðunni, það er á sama tíma og hún hefur gagnrýnt ákveðna verkalýðsforingja fyrir það sama og talið það ekki vera þeim til framdráttar.

Réttur fólks til að tjá sig er eðlilegur hluti þess að búa í frjálsu samfélagi, en það hefur hins vegar ekki alltaf verið vinsælt innan hreyfingarinnar að menn tjái skoðanir sínar tæpitungulaust. Þar hafa þeir valdasjúku talað fyrir því að best sé að hafa einn talsmann sem tali fyrir hönd hreyfingarinnar út á við í anda Salek. Þannig vilja þeir tryggja að talað sé einni röddu, það er svo hinn róttækari armur komi ekki skoðunum sínum á framfæri enda lengi verið í minnihluta í hreyfingunni. Vissulega minnir þetta nokkuð á stjórnskipulagið í Norður Kóreu þar sem leitast er við að viðhalda þröngu hugmyndafræðilegu aðhaldi.

Ummæli ákveðinna formanna innan valdablokkarinnar í fjölmiðlum undanfarið í garð „félaga“ sinna innan hreyfingarinnar hafa verið á verulega lágu plani svo ekki sé meira sagt. Þau halda því fram að ofbeldismenning hafi tekið yfir verkalýðshreyfinguna og hópur fólks hafi komist til valda innan hreyfingarinnar með offorsi, ærumeiðingum og ein­eltis­til­burðum. Er ekki allt í lagi hjá þessu blessaða fólki?  Þeir sem tóku þátt í jaðarsetningu annarra óttast nú að verða jaðarsett sjálf í beinni útsendingu.

Það er löngu tímabært að taka upp róttækari verkalýðsbaráttu á Íslandi með hagsmuni verkafólks að leiðarljósi. Róttæk barátta kallar á umskipti í forystusveit Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins í haust. Það er ekki nýtt að kallað sé eftir róttækari verkalýðsbaráttu. Þegar saga Alþýðusambandsins er skoðuð má sjá að andstæðar fylkingar tókust iðulega á um stefnu Alþýðusambandsins á fyrrihluta síðustu aldar og oft urðu illvígar deilur milli þeirra. Án efa verður áfram tekist á um helstu málefni sambandsins um ókomna tíð. Þá hefur sagan jafnframt kennt okkur að róttækar hugmyndir og byltingar eru alltaf ógn við ríkjandi valdakerfi, þannig hefur það alltaf verið og víða í heiminum er fólk drepið eða fangelsað fyrir hugmyndir sem ganga gegn valdhöfum.

Hvað sem öðru líður er núverandi staða innan hreyfingarinnar með öllu ólíðandi. Við berum þar öll ábyrgð sem störfum í hreyfingunni og það er ekki í boði að sitja hjá. Ég hef talað fyrir því að menn legðu stríðshanskana á hilluna. Því miður virðist vera afar lítill áhugi fyrir því miðað við síðustu ummæli forystumanna í hreyfingunni sem tala um að ofbeldismenning viðgangist innan hennar. Þau eru ekki saklaus frekar en aðrir sem hafa tjáð sig um stöðuna í verkalýðshreyfingunni. Meðan menn átta sig ekki á sameiginlegri ábyrgð heldur áfram að molna undan verkalýðshreyfingunni, því miður.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar

 

 

 

 

 

 

Telja Húsavíkurflugvöll koma til greina sem millilandaflugvöllur

Í ályktun sem stjórn Framsýnar sendi frá sér í dag beinir félagið þeim tilmælum til stjórnvalda að fram fari faglegt mat á nýjum millilandaflugvelli á landsbyggðinni sem ætlað verði að vera til hliðar við Keflavíkurflugvöll. Félagið telur Húsavíkurflugvöll koma vel til greina sem millilandaflugvöllur. Hagkvæmnissjónarmið verði látin ráða, ekki vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir. Sjá ályktun:

 Ályktun
-Um millilandaflugvöll-

 „Framsýn stéttarfélag telur í ljósi stóraukinna jarðhræringa  og eldsumbrota á Reykjanesskaganum, að full ástæða sé til að taka upp til umræðu staðsetningu flugvalla á Íslandi með tilliti til millilandaflugs.

Komið hafa fram sjónarmið um mikilvægi þess að treysta í sessi öflugan millilandaflugvöll utan höfuðborgarsvæðisins svo hægt verði að bregðast við komi til þess að Keflavíkurflugvöllur lokist. Þannig væri einnig hægt að dreifa aukinni flugumferð og viðkomu erlendra ferðamanna um landið.

Að mati Framsýnar hentar Húsavíkurflugvöllur vel sem millilandaflugvöllur, með tilliti til aðflugs og veðurfars og þá er til staðar gott framboð af gistirými á Norðurlandi. Þessir þrír þættir skipta verulega miklu máli við val á millilandaflugvelli. Þá þarf ekki að tíunda allar þær náttúruperlur sem eru víðs vegar í Þingeyjarsýslum og draga að sér tugþúsundir ferðamanna árlega.

Framsýn stéttarfélag beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að fram fari faglegt mat á nýjum millilandaflugvelli á landsbyggðinni sem ætlað verði að vera til hliðar við Keflavíkurflugvöll. Hagkvæmnissjónarmið verði látin ráða, ekki vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir.“  

 

Vetrarstarfið að hefjast hjá Framsýn

Vetrarstarf Framsýnar stéttarfélags hefst næsta mánudag, 22. ágúst, með fundi í fundarsal stéttarfélaganna. Stjórn félagsins, trúnaðarráð, samninganefnd félagsins og stjórn Framsýnar ung hafa fengið fundarboð. Kjaramál og komandi kjaraviðræður verða ráðandi á fundinum auk þess sem reikna má með miklum umræðum um stöðuna í hreyfingunni nú þegar þing ASÍ er framundan. Annars er dagskráin nokkuð löng enda fylgir öflugu starfi á vegum félagsins að þurfa að taka mörg mál fyrir.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Kjaramál
  4. Málefni ASÍ
    1. Afsögn forseta sambandsins
    2. Umræða um starfsemi sambandsins
    3. Komandi þing sambandsins
  5. Kjör fulltrúa á þing ASÍ
  6. Kjör fulltrúa á þing AN
  7. Þing Sjómannasambands Íslands
  8. Ungliðaráð Framsýnar
  9. Tækjabúnaður í fundarsal stéttarfélaganna
  10. Húsnæðismál starfsmanna í ferðaþjónustu
  11. Framganga SFS varðandi launakjör fiskvinnslufólks
  12. PCC-bónusmál
  13. Sumarferð stéttarfélaganna
  14. Vinnustaðaeftirlit
  15. Lagfæringar á fundarsal
  16. Heimsókn frá SSNE
  17. Ályktanir milli funda
  18. Önnur mál

Að venju getur dagskrá fundarins tekið breytingum fram að fundi.

 

Fundur og kjör trúnaðarmanns hjá Norðursiglingu

Starfsmenn Norðursiglingar komu saman til fundar í gærkvöldi til að kynna sér sérkjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna við hvalaskoðun. Fulltrúar frá Framsýn fóru yfir samninginn og svöruðu fyrirspurnum starfsmanna. Mikil ánægja var með fundinn. Í lok fundar hófst kosning á trúnaðarmanni fyrir starfsmenn. Kosningu lýkur kl. 16:00 á morgun. Starfsmenn Norðursiglingar sem náðu ekki að kjósa í gær er velkomið að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og kjósa í dag og á morgun.

Mótmæla slæmum malarvegum í Þingeyjarsveit

Stjórn Framsýnar samþykkti í dag að senda frá sér ályktun um vegamál í Þingeyjarsveit. Að mati félagsins er afar mikilvægt að þegar í stað verði ráðist í lagfæringar á malarvegum í sveitinni sem sumir hverjir eru beinlínis hættulegir að mati Framsýnar. Félagið skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá þegar í stað. Sjá ályktun:

Ályktun-um ástand malarvega í Þingeyjarsveit-

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi malarvega í Þingeyjarsveit.

Víða í Þingeyjarsýslum hefur verið unnið að endurbótum og slitlagsviðgerðum á þjóðvegum með bundnu slitlagi. Að sama skapi hefur ríkisvaldið ekki lagt nægjanlegt fjármagn í uppbyggingu malarvega á svæðinu sem margir hverjir bera töluverða umferð. Vegi sem teljast ekki lengur boðlegir, hvorki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem margir hverjir aka um þá daglega til að sækja vinnu og/eða aðra þjónustu, né heldur stóraukna umferð ferðamanna sem þekkja ekki til íslenskra malarvega.

Margir þessara vega eru slysagildrur og hreinlega tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af ástandi þeirra. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Þó endurbætur og viðhald vega með bundnu slitlagi séu af hinu góða má ekki gleymast að sinna viðhaldi malarvega meðan þeir eru til staðar, þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og tryggt öryggi vegfarenda.  Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja að þessir vegir sem aðrir séu boðlegir fólki sem um þá ekur. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir verulegt eignatjón sem vegfarendur hafa orðið fyrir og þurft að bera sjálfir.

Framsýn stéttarfélag skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá.“

 

Stendur vaktina um helgar

Óhætt er að segja að heimasíða stéttarfélaganna standi vaktina um helgar meðan hefðbundinn starfsemi félaganna liggur niðri. Samkvæmt vefmælingu fóru 829 gestir inn á heimasíðuna síðasta laugardag til að leita upplýsa og/eða skoða fréttir á síðunni sem er töluverður fjöldi. Heldur færri fóru inn á hana í gær, sunnudag. Í heildina fóru vel yfir 1000 manns inn á síðuna um helgina. Heimasíðan var nýlega tekin í gegn og hvað varðar hefðbundnar upplýsingar um réttindi og skyldur félagsmanna stéttarfélaganna eru þær orðnar mjög aðgengilegar almennum félagsmönnum og atvinnurekendum reyndar líka. Hafi félagsmenn ábendingar varðandi heimasíðuna er þeim velkomið að senda þær á netfangið kuti@framsyn.is

Snýst um völd og ekkert annað

Sama hvar komið er á fólk ekki til orð yfir ummælum tveggja formanna stéttarfélaga í fjölmiðlum síðustu daga í garð annarra forystumanna innan hreyfingarinnar, það er Bárunnar á Selfossi og Öldunnar á Sauðarkróki. Formennirnir sem ekki eru beint þekktir fyrir mikla sigra í réttindabaráttu verkafólks hafa hins vegar skotist fram á sjónarsviðið með skítkast í garð félaga sinna innan hreyfingarinnar. Þeim hefur tekist að koma sínum svívirðingum vel á framfæri sem andstæðingar verkalýðshreyfingarinnar kunna að sjálfsögðu vel að meta og hafa hampað þeim í fjölmiðlum. Eðlilega er mörgum formönnum innan Alþýðusambands Íslands brugðið við lýsingar sem þessar, það er að ofbeldismenning hafi tekið yfir verkalýðshreyfinguna og hópur fólks hafi komist til valda innan hreyfingarinnar með of­forsi og ein­eltis­til­burðum. Gárungarnir halda því fram að formennirnir tveir rauli saman lagið með Bubba Morthens; „Ekki benda á mig.“ Að sjálfsögðu ættu viðkomandi formenn að hafa vit á því að skammast sínn fyrir ummæli sem þessi í garð annarra forystumanna innan hreyfingarinnar. Verkafólk á Íslandi þarf ekki á svona umræðu að halda í aðdraganda kjarasamninga. Til viðbótar má geta þess að í Fréttablaðinu í dag vísar Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, á bug ásökunum Halldóru Sveinsdóttur, formanns Bárunnar stéttarfélags og 2. varaforseta ASÍ, um of beldi og einelti innan verkalýðshreyfingarinnar af hans hálfu og formanna VR og Eflingar. „Hún hefur verið hluti valdaklíkunnar sem hefur stýrt ASÍ langa hríð og reynt að þagga niður alla umræðu. Við höfum verið á öndverðum meiði um lífeyrissjóðakerfið, verðtrygginguna og SALEK,“ segir Vilhjálmur. Hann segir eðlilegt að tekist sé á um markmið og leiðir innan verkalýðshreyfingarinnar. Í 100 ára sögu hreyfingarinnar sé hefð fyrir slíkum átökum. „Ég hét því þegar ég var kjörinn formaður Starfsgreinasambandsins að lítil lokuð klíka skyldi ekki fá að ráða öllu áfram,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að ástæðan fyrir upphlaupi Halldóru nú sé að valdahlutföllin í verkalýðshreyfingunni séu að breytast. Vilhjálmur frábiður sér ávirðingar hennar um of beldi og einelti og rifjar upp hótanir um að slökkt yrði á hljóðnema hans þegar hann gerði grein fyrir tillögum í ræðustól á ASÍ-þingi fyrir nokkrum árum. Vilhjálmur gefur lítið fyrir gagnrýni Halldóru á að í viðtali á Bylgjunni í kjölfar afsagnar Drífu Snædal hafi hann ekki haft umboð til að tala í nafni Starfsgreinasambandsins. Hann hafi vitaskuld verið að tala sem einstaklingur, líka þegar hann nefndi þau Ragnar Þór og Sólveigu Önnu sem möguleg í embætti forseta ASÍ. „Halldóra Sveinsdóttir barðist gegn kjöri mínu sem formanns Starfsgreinasambandsins. Niðurstaða lýðræðislegrar kosningar var hins vegar skýr og ég mun sitja sem formaður á meðan ég hef lýðræðislegt umboð til þess,“ segir Vilhjálmur Birgisson og bætir því við að það skjóti skökku við að Halldóra, sem áður hafi sagt opinberun ágreinings innan verkalýðshreyfingarinnar vera vatn á myllu andstæðinga hennar, standi nú sjálf fyrir upphlaupum og svívirðingum í sinn garð og fleiri. „Þetta snýst um völd og ekkert annað. Hún hefur óhikað tekið þátt í jaðarsetningu annarra en óttast nú að verða jaðarsett sjálf.“

Gott samstarf innsiglað

Formenn og varaformenn Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar funduðu á dögunum á Þórshöfn um áframhaldandi samstarf að verkalýðsmálum sem verið hefur til mikillar fyrirmyndar. Fundurinn fór vel fram. Mikill áhugi er innan beggja  félaga að viðhalda því góða samstarfi sem verið hefur meðal félaganna undanfarin ár. Til fróðleiks má geta þess að Aneta Potrykus var kosin formaður VÞ á aðalfundi félagsins í vor. Aneta, sem er pólsk að uppruna, hefur búið ásamt fjölskyldu minni á Íslandi í 14 ár og er í dag búsett á Þórshöfn ásamt eiginmanni sínum og sex börnum. Aneta tók að fullu við rekstri skrifstofu Verkalýðsfélags Þórshafnar í júní 2019. Hún er BS-próf í stjórnmálafræði og opinberri stjórnsýslu frá háskólanum í Lodz í Póllandi. Aneta starfaði áður hjá Sparisjóði Þórshafnar og hjá Landsbankanum á Þórshöfn en hún hefur einnig unnið við ýmis afgreiðslustörf í gegnum tíðina. Með henni á myndinni eru Aðalsteinn Árni og Ósk Helgadóttir frá Framsýn og Svala Sævarsdóttir frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar.

Segir afsögn Drífu hafa komið honum á óvart

Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við formann Framsýnar, Aðalstein Árna Baldursson, vegna afsagnar forseta ASÍ. Hann segir tíðindin hafa komið á óvart. „Hins vegar hefur legið fyrir að Drífa hefur ekki notið trausts hjá hluta hreyfingarinnar og hjá stóru félögunum. Hún tapaði klefanum. Þarna er verið að tala um einhverjar blokkamyndanir en menn hefðu kannski mátt vinna í því að reyna að sameina þessar blokkir,“ segir Aðalsteinn.

Kveður hann nokkuð hafa skort á átak á þeim vettvangi enda þekki hann söguna vel. „Gegnum tíðina hafa verið alls konar víg fram og til baka, ég kannast vel við það sjálfur, þessi armur sem er að gefa eftir núna hefur sótt á mann gegnum tíðina svo þetta er ekkert nýtt,“ heldur formaðurinn áfram.

„Það þarf að laga til í hreyfingunni og það þarf að koma á kraftmeiri og betri verkalýðshreyfingu. Við skulum ekki gleyma því að einir merkilegustu samningar sem hafa verið gerðir síðan þjóðarsáttarsamningarnir 1990 voru lífskjarasamningarnir síðast þar sem verkalýðshreyfingin, Samtök atvinnulífsins, Seðlabankinn og stjórnvöld settust við sama hringborðið og töluðu sig niður á niðurstöðu. Þeir samningar fleyttu okkur býsna vel áfram fram til dagsins í dag. Ef þessir aðilar setjast niður aftur og semja er ég ekkert að óttast að ekki verði samið um framhald á lífskjarasamningunum öllum til hagsbóta,“ segir Aðalsteinn og bætir því við að brýnt sé að þjóðin beiti þeim tækjum sem hún hafi til að tryggja kaupmátt launa og berjast gegn verðbólgu. „Við eigum bara að nota þessi tæki. Það er bara brandari að tala um að það sé ekki svigrúm þegar við sjáum methagnað úti um allt í þjóðfélaginu,“ segir formaður Framsýnar að lokum.

 

Yfirlýsing frá forseta ASÍ

Ég hef ákveðið að segja af mér embætti forseta Alþýðusambands Íslands og þeim trúnaðarstöðum sem ég hef gegnt sem forseti. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Þing ASÍ er í byrjun október og ég þurfti að gera það upp við mig hvort ég gæfi áfram kost á mér. Þegar ég hugsaði málið varð niðurstaða mín sú að ég treysti mér ekki til að starfa áfram yrði ég til þess kjörin og af því leiddi að það væri skynsamlegt í ljósi kjaraviðræðna og undirbúning þingsins að hætta sem fyrst. Ég veit að ég nýt mikils stuðnings félaga og í samfélaginu og fyrir það er ég þakklát. Það eru hins vegar samskipti við ýmsa kjörna fulltrúa innan sambandsins og sú blokkamyndun sem þar hefur átt sér stað sem gera mér það ókleift að starfa áfram sem forseti ASÍ.

Ég hef ekki vílað fyrir mér að taka slaginn fyrir launafólk gagnvart stjórnvöldum eða atvinnurekendum enda er það hluti af því að vera í verkalýðsbaráttu. Átök innan ASÍ hafa hins vegar verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda. Þegar við bætast ákvarðanir og áherslur einstakra stéttarfélaga sem fara þvert gegn minni sannfæringu er ljóst að mér er ekki til setunnar boðið. Ég treysti mér ekki til að vinna með fólki sem ég á ekki samleið með í baráttunni. Og ég hef sem forseti verið í þeirri stöðu sem ég ætlaði mér aldrei; að telja mig ekki eiga annars kost en að gagnrýna stjórnarákvarðanir og formenn stærstu stéttarfélaga innan ASÍ. Þegar stjórn Eflingar stóð fyrir hópuppsögn á skrifstofu félagsins sá ég mig knúna til að mótmæla þeim, enda hefur verkalýðshreyfingin barist gegn hópuppsögnum í tímans rás. Ég þurfti einnig að bregðast við linnulausri, en óljósri gagnrýni formanns VR á mín störf. Dæmin eru fleiri og það sem fólk leyfir sér í samskiptum hvert við annað innan hreyfingarinnar er henni ekki til framdráttar og félögum ekki til hagsbóta.

Verkalýðshreyfingin er ein merkilegasta mannréttindahreyfing heims og hjarta mitt hefur slegið þar og mun gera það áfram. Ég get hins vegar ekki sinnt störfum mínum lengur sem forseti ASÍ. Þá er hreinlegast að segja þetta gott. Og til að taka af allan vafa er þetta ekki hluti af einhverri stærri fléttu, ég einfaldlega hverf af þessum vettvangi án þess að hyggja á endurkomu.

Stuðningsfólki mínu þakka ég af öllu hjarta og bið um skilning á þessari ákvörðun.

Drífa Snædal
10. ágúst 2022

Viltu komast á þing kæri félagi?

Þing Alþýðusambands Norðurlands verður haldið að Illugastöðum í Fnjóskadal 29. og 30. september 2022 (fimmtudagur til föstudags). Gert er ráð fyrir að á þinginu fari fram umræður um samvinnu og samstarf Alþýðusambands Norðurlands við Orlofsbyggðina á Illugastöðum auk annarra málefna sem snerta félagsmenn aðildarfélaganna á vinnumarkaði. Framsýn á rétt á 16 fulltrúum á þingið en samtals hafa 100 fulltrúar frá aðildafélögum sambandsins á Norðurlandi seturétt á þinginu.

Hafi félagsmenn Framsýnar á vinnumarkaði áhuga fyrir því að vera fulltrúar félagsins á þinginu eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við formann Framsýnar. Netfangið er kuti@framsyn.is. Boðið verður upp á fría gistingu og ferðir á þingstað. Verði menn fyrir vinnutapi greiðir Framsýn viðkomandi þingfulltrúa vinnutapið.

Við leitum að ungu fólki til starfa!

Innan Framsýnar stéttarfélags er starfandi ungliðaráð sem skipað er til eins árs í senn. Skipun í ráðið fer fram á fundi stjórnar- og trúnaðarráðs félagsins í október á hverju ári.

Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Núverandi formaður er Guðmunda Steina Jósefsdóttir.

Ungliðaráðið starfar innan Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG.

Ungliðaráðið starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar. Þá er ungliðaráðið jafnframt tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ og landssambanda þeirra á hverjum tíma. Um er að ræða lifandi og fræðandi starf fyrir ungt og áhugasamt fólk sem vill leggja sitt að mörkum til að gera heiminn betri fyrir komandi kynslóðir. Þeir sem eru tilbúnir að taka þátt í þessu gefandi starfi er bent á að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is.

SSNE óskar eftir góðu samstarfi

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir nýráðin framkvæmdastjóri SSNE leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir helgina. Tilefnið var að funda óformlega með formanni Framsýnar um málefni Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, skammstafað SSNE. Samtökin urðu til við sameiningu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og Eyþings. Eins og kunnugt er gerði Framsýn alvarlegar athugasemdir við sameininguna sem félagið taldi ekki vera til hagsbóta fyrir Þingeyinga. Sú afstaða hefur ekki breyst enda var starfsemi Atvinnuþrónarfélags Þingeyinga öflug fyrir sameininguna. Á fundinum kom fram fullur vilji til að vinna saman að hagmunamálum svæðisins er tengist atvinnu- og byggðamálum. Nokkrar hugmyndir þess efnis voru til umræðu sem ákveðið var að þróa frekar.

Frumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þann 15. júní samþykkti Alþingi frumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingar lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Alþingi lögfesti að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs fari úr 12% í 15,5% til samræmis við hækkun í samningi ASÍ og SA frá í janúar 2016. Samhliða hækkun lágmarksiðgjalds er hækkun lágmarkstryggingaverndar lögfest að hún verði 72% meðalævitekna miðað við 40 ára inngreiðslutíma fyrir þá sem leggja allan skyldusparnað í samtryggingu. Meðfram hækkun iðgjalds 2016 var samkomulag um að sjóðsfélögum byðist að leggja 3,5% hækkun iðgjalds í séreign kallaða tilgreind séreign. Með samþykkt frumvarpsins eru ákvæði um tilgreinda séreign einnig lögfest.

Samþykkt frumvarpsins skýrir og tekur á misjöfnu samspili lífeyrissparnaðarforma gagnvart almannatryggingum. Skýrt er nú kveðið á um í lögum að litið er til allra tegunda lífeyrissparnaðar við útreikning greiðslna almannatrygginga annarra en 4% viðbótarlífeyrissparnaðar launamanns og 2% mótframlags launagreiðanda.
Þá fylgir lagasetningunni breyting á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð þannig að nýta má tilgreinda séreign til kaupa á fyrstu fasteign að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Stóru aðilar vinnumarkaðarins, Alþýðusamband Íslands og Samtök Atvinnulífsins, lögðu áherslu á að þær breytingar á lögum sem fælust í frumvarpinu yrðu að lögum. Birtist það í því að samtökin skiluðu sameiginlegum umsögnum bæði við drög þess í samráðsgátt stjórnvalda og við frumvarpið til Alþingis. Um drögin sögðu samtökin þau vera tímabæran áfanga í framkvæmd og efndum á yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við Lífskjarasamninginn. Þá kom fram að efni þeirrar yfirlýsingar, útfærð í frumvarpsdrögunum, væru nauðsynlegur liður í því að ljúka samræmingu lífeyrisréttinda á öllum vinnumarkaðnum. Samningsaðilar, ASÍ og SA, treystu á að stjórnvöld veittu mikilvægustu þáttum kjarasamnings aðila um lífeyrismál frá 2016 lagastoð, einkum ákvæðum um lágmarksiðgjald og aukinn sveigjanleika, en það hefur dregist úr hófi fram.

Í frumvarpinu lagt fyrir Alþingi voru breytingar sem voru viðbrögð stjórnvalda við athugasemdum við fyrri drög að frumvarpi frá aðstandendum lífeyrissjóða utan samningssviðs ASÍ og SA. Í umsögn ASÍ og SA sagði að sú málamiðlun sem í breytingunum fælist gengi mjög langt og vonuðust samtökin til þannig væri tryggður víðtækur stuðning við frumvarpið. Samtökin áréttuðu mikilvægi þess að frumvarpið yrði að lögum með því að standa sameiginlega að baki frumvarpinu og hvöttu Alþingi eindregið til þess að frumvarpið yrði að lögum.

Enn eiga mörg stéttarfélög ósamið og eiga því ekki aðild að samkomulaginu.

Hilmar Harðarson,

Formaður Samiðnar og lífeyrisnefndar ASÍ

PCC hefur hlotið jafnlaunavottun Jafnréttisstofu

PCC BakkiSilicon hefur hlotið jafnlaunavottun Jafnréttisstofu og samhliða því innleitt jafnlaunakerfi sem nær til allra starfsmanna og inniheldur jafnréttisáætlun sem jafnlaunastefnan byggist á. Tilgangur PCC BakkiSilicon með jafnlaunakerfinu er að tryggja jafnrétti og jafna stöðu starfsfólks óháð kyni innan fyrirtækisins. Markmiðið er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundinn mismunur eigi sér stað. Með jafnréttisáætluninni eru stjórnendur og aðrir starfsmenn jafnframt minntir á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs og stöðu að öðru leiti og að nýta beri til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum fólks óháð kyni.

Yfirklór SFS – Fiskvinnslufólk á ofurlaunum

Það þarf ekki að koma á óvart að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) grípi til varna þegar við horfum enn og aftur upp á frekari samþjöppun í sjávarútvegi nú þegar Síldarvinnslan hefur eignast sjávarútvegsfyrirtækið Vísi hf. í Grindavík, sem áður hafði komist yfir nokkur öflug sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni. Fyrirtæki sem voru máttarstólpar í viðkomandi byggðarlögum, ég nefni Húsavík, Þingeyri og Djúpavog. Loforð Vísismanna um að efla staðina með kaupum á aflaheimildum og vinnslum dugðu skammt og eru efni í aðra grein, enda mikil sorgarsaga. Því miður á þetta ekki bara við um sjávarútvegsfyrirtækið Vísi hf. í Grindavík. Önnur stór sjávarútvegsfyrirtæki hafa leikið þennan sama leik í gegnum tíðina í skjóli stjórnmálamanna og aðgengis að óheftu fjármagni í bankakerfinu, afleiðingarnar liggja fyrir með tilheyrandi byggðaröskun víða um land. Rétt er að taka fram að samkvæmt fréttum eru kaupin á Vísi gerð með fyr­ir­vara um samþykkt hlut­hafa Síld­ar­vinnsl­unn­ar og Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins.

Þegar Vísir hf. komst yfir Fiskiðjusamlag Húsavíkur á sínum tíma var unnið þar úr um 3.000 tonnum af bolfiski og 8.000 tonnum af rækju. Veiðiheimildir voru um 2.000 þorskígildistonn.  Starfsmenn voru um 120 fyrir utan tengda starfsemi. Útgerð og vinnslu á þessum þremur stöðum á vegum Vísis hf. var nokkrum árum síðar hætt sbr. Húsavík og kvótinn fluttur suður til Grindavíkur árið 2014. Starfsfólkinu var boðið að fylgja með, sem fjölmargir þáðu enda beið þeirra flestra ekkert annað en atvinnuleysi. Boðið var upp á sætaferðir og húsnæði í Grindavík. Á Alþingi var talað um stórkostlegustu hreppaflutninga síðari tíma þar sem stjórnarandstaðan mótmælti þessum gjörningi hástöfum.

Upp í hugann koma líka átökin sem urðu fyrir nokkrum árum innan bæjarstjórnar Grindavíkur við söluna á línuveiðibátnum Sandfelli SU 75 ásamt sölu á veiðiheimildum frá Grindavík til Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Einn af eigendum Vísis hf. sem þá var bæjarfulltrúi í Grindavík og jafnframt þingmaður Framsóknar fór mjög hörðum orðum um söluna á aflaheimildum úr plássinu. Í fréttum kom fram að það hefði soðið upp úr á fundinum og bæjarfulltrúinn hefði sakað aðra bæjarfulltrúa um ábyrgðar- og dómgreindarleysi, störf myndu tapast og fólk væri farið að tala um að flytja úr bænum.  Á þessum tíma deildi ég þessum áhyggjum með bæjarfulltrúanum enda alltaf slæmt að missa veiðiheimildir úr byggðarlögum, ekki síst þar sem atvinnulífið er frekar einhæft fyrir. Bæjarfulltrúinn hafði hins vegar engar áhyggjur af þeim byggðarlögum sem urðu af fiskiveiðiheimildum vegna ákvörðunar Vísis hf. um að leggja niður starfsemina og flytja heimildirnar til Grindavíkur. Hann virðist heldur ekki hafa miklar áhyggjur af stöðunni í Grindavík nú þegar fyrirtæki í hans eigu hefur selt reksturinn og þar með veiðiheimildirnar úr bænum austur á firði. Getur verið að milljarðarnir sem renna í vasa hans við söluna á fjölskyldufyrirtækinu Vísi hf. orsaki þetta skoðanaleysi?

Vonandi fer ekki svo að útgerð og fiskvinnsla í Grindavík beri skarðan hlut frá borði við þessi vistaskipti á veiðiheimilum frá útgerðarbænum austur á firði. Ég geri hins vegar ekkert með yfirlýsingar framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar sem hefur lofað því að áfram verði rekinn öflugur sjávarútvegur frá Grindavík á vegum fyrirtækisins. Rifjum upp frétt frá árinu 1997 úr því ágæta blaði Bæjarins besta á Ísafirði; „Ísfirðingar og Vestfirðingar virðast þó ekki þurfa að óttast að Guðbjörgin hverfi til nýrra lendna því bæði Samherjamenn og Hrannarmenn hafa keppst við að lýsa yfir að Guðbjörg verði áfram gerð út frá Ísafirði og með sömu áhöfn“.  Hvernig fór, er Guggan gul í dag?

Vissulega er fólki um land allt misboðið hvernig fámennur en valdamikill hópur í þjóðfélaginu getur ráðskast með fiskveiðikvótann sem er þjóðareign. Því miður er ekki að sjá að stjórnmálamenn hafi burði eða kjark til að takast á við þetta stóra mein í íslensku samfélagi þar sem margir þeirra eru flæktir í málið með einum eða öðrum hætti sem er miður. Hugsanlega er málið hreinlega tapað.

Í upphafi greinarinnar vitna ég í viðbrögð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi við umræðunni um söluna á Vísi hf. Framkvæmdastjóri SFS taldi sig knúna til að bregðast við umræðunni á dögunum með grein sem ber yfirskriftina; „Yfirráð í sjávarútvegi – hver er reglan?“. Þar er komið inn á söluna og umræðuna um yfirráð og tengsl aðila í sjávarútvegi auk þess sem fjallað er um ávinninginn af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Því miður eins og oft áður er sannleikurinn ekki alltaf hafður með í skríninu þegar forsvarsmenn sjávarútvegsins ryðjast fram á ritvöllinn með sinn gegndarlausa áróður. Í greininni er fullyrt að laun í fiskvinnslu á Íslandi séu hærri en meðallaun í landinu og þau hæstu í heiminum. Sem fyrrverandi fiskvinnslumaður og núverandi talsmaður þeirra sem formaður í stéttarfélagi verkafólks verður manni hreinlega misboðið að sitja undir svona áróðri, þrátt fyrir að vera vanur ýmsu frá þessum samtökum.  Reiknimeistarar SFS þurfa greinilega á endurmenntunarnámskeiði að halda varðandi útreikning á kjörum fiskvinnslufólks. Ég hef þegar óskað eftir því að samtökin leggi fram gögn máli sínu til stuðnings. Bæði hvað varðar samanburðartölur um launakjör á Íslandi og eins á launakjörum fiskvinnslufólks milli landa þar sem SFS fullyrðir að launakjör fiskvinnslufólks á Íslandi séu þau bestu í heimi. Ég sem formaður í stéttarfélagi ætti að gleðjast yfir því enda væri fullyrðingin um ofurlaun fiskvinnslufólks byggð á rökum. En þar sem hún er byggð á sandi er ekki yfir neinu að gleðjast.

Þegar rýnt er í tölfræði Hagstofunnar, sem heldur utan um þessar upplýsingar, má sjá það rétta í málinu. Laun í fiskvinnslu eru ekki hærri en meðallaun á Íslandi. Á árinu 2021, voru meðallaun fullvinnandi í fiskvinnslu kr. 611.000,- ef miðað er við heildarlaun. Meðal heildarlaun á vinnumarkaði voru á sama tímabili kr. 823.000,-. Fyrir almenna vinnumarkaðinn er meðaltalið kr. 808.000,- á mánuði en hæst hjá ríkisstarfsmönnum þar sem það er kr. 903.000,-. Með heildarlaunum er átt við öll laun einstaklinga, þ.m.t. regluleg laun, auk álags, bónusa og yfirvinnu ásamt óreglulegum greiðslum s.s. orlofs- og desemberuppbót, eingreiðslur, ákvæðisgreiður og uppgjörs vegna uppmælinga. Hafa ber í huga að á bak við laun fiskvinnslufólks eru fleiri vinnustundir en gengur og gerist á vinnumarkaði. Greiddar stundir voru þannig 195 að meðaltali á mánuði hjá fiskvinnslufólki borið saman við 177 stundir að jafnaði á vinnumarkaði. Munurinn er því meiri ef skoðað er meðaltímakaup.

Það stendur ekki á mér að eiga gott samtal við forsvarsmenn SFS í komandi kjaraviðræðum  um að tryggja fiskvinnslufólki á Íslandi bestu launakjör sem þekkjast í þessari atvinnugrein í heiminum og að kjör fiskvinnslufólks komist yfir meðallaun á Íslandi. Ég efast ekki um að samtökin vilji standa við stóru orðin um að þetta sé raunveruleikinn sem við búum við í dag. Það sem styrkir okkur í þeirri trú að þetta geti gengið eftir, eru fullyrðingar SFS um að sjávarútvegur á Íslandi sé sá arðsamasti í heimi sem ber að gleðjast yfir. Í ljósi þess, látum verkin tala og tryggjum fiskvinnslufólki mannsæmandi laun. Til fróðleiks má geta þess að föst mánaðarlaun hjá fiskvinnslufólki á Íslandi eru á bilinu kr. 370.000 upp í kr. 387.000,- samkvæmt gildandi launatöflum aðila vinnumarkaðarins. Launatöflurnar eru aðgengilegar á netinu. Skyldu reiknimeistarar SFS vita af því?

Höfundur er formaður Framsýnar stéttarfélags

 

 

 

Hinsegin vinnumarkaður

Föstudaginn 5. ágúst kl. 14:30 standa heildarsamtök launafólks að viðburði í Veröld – Húsi Vigdísar þar sem rannsókn á kjörum hinsegin fólks á íslenskum vinnumarkaði verður kynnt. Rannsóknin er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og er viðburðurinn hluti af dagskrá hinsegin daga, en þeim lýkur með gleðigöngu á laugardag. Áherslur verkalýðshreyfingarinnar verða kynntar auk þess sem niðurstöðurnar verða ræddar í pallborði. Hægt verður að fylgjast með viðburðinum í streymi á visi.is. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum s.s. Framsýn hvetja sem flest til þess að mæta og taka þátt eða fylgjast með steyminu á visi.is.