Ályktanir 33. þings SSÍ um kjara- og atvinnumál sjómanna

Tveggja daga þing Sjómannasambands Íslands fór fram í Reykjavík í síðustu viku. Framsýn átti tvo fulltrúa á þinginu, þá Jakob Gunnar Hjaltalín og Börk Kjartansson. Að venju voru fjölmörg mál á dagskrá þingsins og þingið taldi fulla ástæðu til að senda frá sér fjölmargar ályktanir sem eru meðfylgjandi þessari frétt.

33. þing Sjómannasambands Íslands beinir því til Alþingis að sjá til þess að viðskipti með fisk milli útgerðar og fiskvinnslu verði gagnsæ og uppfylli skilyrði um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti. Einnig krefst þingið þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi verði gert skylt að skila öllum upplýsingum um framleiddar afurðir og söluverð þeirra til Hagstofu Íslands.

Í því sambandi má minna á bráðabirgðniðurstöðu 25. Auðlindarinnar okkar, um rafræna skráningu á rekjanleika afla í allri virðiskeðjunni, frá veiðum til neytenda. Með því móti er hægt að treysta því mun betur að mælingar á breytingum afurðaverðs séu réttar á hverjum tíma.

33. þing Sjómannasambands Íslands mótmælir því harðlega að sjómenn fái aðeins uppgert úr 20% af andvirði VS afla eins og segir í lögum um stjórn fiskveiða. Það er svívirða að Alþingi skyldi sjómenn til að inna af hendi vinnu við frágang á aflanum en heimili síðan útgerðinni að skerða laun sjómanna um 80% af því sem segir í kjarasamningi að greiða eigi fyrir þá vinnu. VS afla var ætlað að koma í veg fyrir brottkast á fiski. Þingið telur að reglur um VS afla hafi ekkert með brottkast að gera, heldur noti útgerðir heimildir til að landa VS afla í öðrum tilgangi en að koma í veg fyrir brottkast. Þingið krefst þess að sjómenn fái fullan hlut skv. kjarasamningi fyrir þá vinnu sem þeir leggja á sig við að ganga frá afla um borð í skipi.

33. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að útgerðir og skipstjórnarmenn virði lögbundinn rétt sjómanna til hvíldar og fari eftir þeim lögum og reglum sem gilda um lágmarks hvíldartíma sjómanna. Einnig krefst þingið þess að mönnun fiskiskipa sé ætíð í samræmi við þá vinnu sem fram fer um borð. Með það að leiðarljósi ætti að skilgreina í sjómannalögum hve marga menn í áhöfn þarf til að sinna þeirri vinnu sem fram fer um borð.

33. þing Sjómannasambands Íslands skorar á íslenska útgerðarmenn að bæta samskipti sín við sjómenn og samtök þeirra. Vantraust hefur farið vaxandi milli sjómanna og útgerðarmanna undanfarin misseri og ár. Í sumum tilfellum er um algeran trúnaðarbrest að ræða. Skapa þarf nýtt  traust milli aðila þannig að sjómenn og útgerðarmenn þessa lands geti talað saman á mannlegum nótum með það að leiðarljósi að báðir aðilar komi með reisn frá þeim samskiptum. Jafnframt minnir þingið útgerðarmenn á að fara að kjarasamningum varðandi upplýsingar sem eiga að fylgja uppgjörum um stærðarflokkun og verðmæti þess afla sem landað er þannig að sjómenn geti sannreynt að rétt sé gert upp við þá.

33. þing Sjómannasambands Íslands krefst þess að vigtunarreglur verði endurskoðaðar. Afli verði full vigtaður á löggiltri hafnarvog þar sem ísprósenta er ákveðin og endurvigtunarleyfi verði afnumin. Einnig krefst þingið þess að vigtunarreglur uppsjávarfisks verði samræmdar.

33. þing Sjómannasambands Íslands  hvetur útgerðir til að gera átak í starfsmenntun sjómanna í samstarfi við Sjómennt og stéttarfélög sjómanna. Einnig hvetur þingið útgerðir til að styðja við menntun sjómanna með því að greiða gjald í starfsmenntasjóð eins og aðrir atvinnurekendur. Það er skömm frá að segja að útgerðin í landinu greiði ekki til endurmenntunar sjómanna sinna, heldur er gjaldið greitt úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

33. þing Sjómannasambands Íslands hvetur stjórnvöld til að auka verulega framlög til hafrannsókna. Fyrirsjáanlegar eru miklar breytingar á umhverfi hafsins á norðurslóðum á næstu árum og áratugum. Vegna mikilvægis sjávarútvegsins fyrir efnahag Íslendinga er að mati þingsins nauðsynlegt að efla haf- og fiskirannsóknir umhverfis landið til að hægt sé að meta áhrif umhverfisbreytinganna á  fiskistofna við Ísland.

33. þing Sjómannasambands Íslands hvetur til varkárni þegar rafrænt eftirlit er stundað um borð í skipum. Augljóslega er rafrænt eftirlit til bóta þegar öryggi skipverja og skips á í hlut. Skilja verður algerlega milli vinnu og friðhelgi einkalífs skipverja. Skipið er bæði vinnustaður og heimili sjómannsins. Þingið er sammála því að aukið rafrænt eftirlit verði haft með brottkasti og löndun úr íslenskum skipum til að koma í veg fyrir löndun fram hjá vigt. Þingið fer fram á að útgerðarmenn fari að persónuverndarlögum í þessum efnum.

33. þing Sjómannasambands Íslands ætlast til þess að samtök útgerðarmanna ásamt sjómönnum skoði fjarskiptamál sjómanna með það að markmiði að lækka kostnað þeirra vegna fjarskipta þannig að hann verði sambærilegur við fjarskiptakostnað annara

landsmanna. Kostnaðurinn í dag er almennt alltof hár.

33. þing Sjómannasambands Íslands varar mjög sterklega við því að sjómenn láti hafa sig í að taka að sér gerviverktöku til sjós. Enda er það kolólöglegt og vinna til sjós er ekki verktakavinna.

33. þing Sjómannasambands Íslands skorar á aðildarfélög SSÍ að hefja nú þegar undirbúning aðgerða til að knýja á um lausn í kjaradeilunni milli SSÍ og SFS náist ekki kjarasamningar fljótlega.

33. þing Sjómannasambands Íslands hafnar frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi til breytinga á ýmsum lögum sem banna hvalveiðar. Sjómannasamband Íslands styður eindregið sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda sem og annara auðlinda. Sjálfbærni auðlinda er meginþáttur í velmegun okkar sem þjóðar til langframa. Hvalveiðar eru þar síst undantekning. Veiðarnar byggja á vísindalegri ráðgjöf og að lögum um velferð dýra sé framfylgt.

Hvalveiðar okkar eru einungis stundaðar úr stórum stofnum sem eru í mjög góðu ástandi. Eins er lítið vitað um afrán hvalastofna úr öðrum nytjastofnum almennt, s.s. loðnu, sem leiðir til að rannsaka þarf orsakasamhengið þar á milli mun betur m.a. með veiðum og rannsóknum á hvölum. Þess vegna telur Sjómannasamband Íslands að hvalveiðar séu nauðsynlegar fyrir utan að skapa hér vel launaða atvinnu til sjós og lands. Sjómannasamband Íslands telur mjög mikilvægt að hugað sé að jafnvægi lífríkisins þegar ákvörðun um nýtingu stofna við Íslandsstrendur eru teknar.

33. þing Sjómannasambands Íslands tekur heilshugar undir með þeim sem krefjast afnáms húsnæðisliðar úr útreikningi vísitölu neysluverðs. Vaxtakostnaður heimilanna er orðinn alltof þungur. Sjómenn reka líka heimili eins og aðrir landsmenn.

33. þing Sjómannasambands Íslands tekur heilshugar undir ályktun 9. Þings SGS um að fá óháða aðila til að skoða kosti og galla íslensku krónunnar sem og kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil. Í því ljósi má minna á að stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins gera upp í erlendum gjaldmiðlum. Starfsfólk þessara fyrirtækja ætti því alveg eins að fá laun sín greidd í þeim gjaldmiðli sem viðkomandi fyrirtæki selur sínar afurðir á.

33. þing SSÍ tekur undir að að skoðað verði hvort hagkvæmt sé að Landsbanki Íslands verði samfélagsbanki, launafólki til heilla.

33. þing Sjómannasambands Íslands skorar á stjórnvöld að fylgja eftir markmiðum laga um heilbrigðisþjónustu með því að bæta þegar í stað aðgengi ALLRA þegna landsins að viðunandi heilbrigðisþjónustu og tryggja þannig jafnan aðgang að heilsugæslu, sérfræðingum og nauðsynlegum lyfjum í heimabyggð. Því samhliða verði greiðsluþáttökukerfið er varðar vinnutap, ferða- og dvalarkostnað sjúklinga endurskoðað í takt við útgjöld þeirra á hverjum tíma.

33. þing SSÍ minnir stjórnvöld á að sjómenn nýta heilbrigðis- og aðra opinbera þjónustu minna en aðrir landsmenn vegna fjarveru sinnar til sjós. Stjórnvöld verða að taka það inn í myndina þegar skattar eru ákveðnir á þegnana. Með þessum rökum krefst þingið þess að stjórnvöld taki upp viðræður við sjómannasamtökin um skattaafslátt til handa sjómönnum.

33. þing Sjómannasambands Íslands tekur undir áherslur 9. þings SGS um lífeyrrismál.

• Lífeyristökualdur erfiðisvinnustétta frá TR miðist áfram við 67 ára aldur.

• Ríkið dragi úr skerðingum á lífeyrisgreiðslum úr almannatryggingakerfinu, fyrsta skref sé lækkun úr 45% í 30% skerðingu.

• Frítekjumark almannatrygginga vegna lífeyristekna verði með sama hætti og vegna  atvinnutekna.

• Ríkið jafni að fullu örorkubyrði sjóðanna.

• Lífeyrissjóðir beiti sér gegn óraunhæfum starfskjörum og hvers konar ofurlaunum.

• Lífeyrissjóðir séu virkir eigendur í fyrirtækjum.

Lífeyrissjóðir leggi meiri þunga í að koma réttindum fólks er flyst erlendis til skila.

33. þing SSÍ krefst þess að útgerðin greiði laun fyrir þegar sjómenn ferðast á milli staða í þágu útgerðar.

33. þing SSÍ fer fram á að sjómenn hætti yfirísun þegar afli fer erlendis í gámum, að því gefnu að fiskurinn sé seldur áður en hann kemur á áfangastað. Enda er það ekki markmið núverandi kjarasamnings að ísað sé yfir afla sem fer ekki á uppboðsmarkað erlendis.

Samþykkt samhljóða

Deila á