Það er töff að vera í öflugu stéttarfélagi

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman í morgun til að úthluta styrkjum úr sjóðnum til félagsmanna fyrir aprílmánuð. Samtals bárust tæplega 150 umsóknir frá félagsmönnum um styrki fyrir mánuðinn.  Um er að ræða styrki vegna m.a. sjúkradagpeninga, fæðingarstyrks, sálfræðiaðstoðar, sjúkraþjálfunar, heilsurækt og vegna kaupa á heyrnatækjum og gleraugum. Samtals er upphæðin upp á 8.000.000,-. Já það borgar sig að vera í einu öflugasta stéttarfélagi landsins.

Framsýn gerir áfram vel við félagsmenn varðandi námsstyrki

Stjórnir sjóðanna Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar hafa samþykkt að framlengja 90% endurgreiðslu vegna styrkveitinga til 30. september 2022 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru/byrja innan þessa sama tímaramma.

Breytingar á úthlutunarreglum voru eftirfarandi:

Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, voru hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Sveitamennt og Ríkismennt veita 100% styrki til stofnana sveitarfélaga og ríkisstofnana.

Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur.  Hlutfalli endurgreiðslu var hins vegar breytt og er 90% í stað 75% af kostnaði við námið.

Tómstundstyrkir sem voru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári eru í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið.

Framsýn stéttarfélag er aðili að þessum sjóðum í gegnum kjarasamninga fyrir sína félagsmenn. Um er að ræða góða kjarabót fyrir félagsmenn að hafa aðgengi að öflugum fræðslusjóðum.

Góður fundur með starfsmönnum Nettó

Formaður Framsýnar gerði sér ferð á dögunum til að funda með starfsmönnum Nettó á Húsavík. Fundurinn var málefnalegur og góður. Umræður urðu um starfsumhverfi starfsmanna almennt í verslunum og álagið sem verið hefur á starfsmönnum á Covid tímum. Á krefjandi tímum hafa starfsmenn gert sitt besta til að þjóna viðskiptavinnum um leið og þeir hafa þurft að fara varlega vegna heimsfaraldursins til að verja sig og viðskiptavini. Vissulega hafa starfsmenn þurft að takast á við alls konar aðstæður sem vonandi séð fyrir endann á nú þegar Covid er á undanhaldi sem betur fer. Síðan er að sjálfsögðu mikilvægt að viðskiptavinir verslana almennt, sýni starfsmönnum sjálfsagða kurteisi.

Gestur á fundi Framsóknar sem ætlar sér stóra hluti í vor

Framsókn ætlar sér stóra hluti í næstu sveitarstjórnarkosningum í Norðurþingi. Líkt og önnur framboð í sveitarfélaginu hafa framsóknarmenn unnið að því að setja saman stefnuskrá flokksins fyrir næsta kjörtímabil. Að þeirra sögn hefur vinnan við stefnuskránna gengið mjög vel. Liður í gagnaöflun var að bjóða formanni Framsýnar á fund til að ræða atvinnumál, velferðarmál  og það sem betur má fara í samfélaginu. Hvað það varðar var víða komið við enda hefur formaður sterkar skoðanir á málefnum sveitarfélagsins. Fundurinn var bæði málefnalegur og gagnlegur fyrir fundarmenn. Það er til mikillar fyrirmyndar þegar stjórnmálaflokkar leita til Framsýnar eftir samræðum um málefni sveitarfélagsins. Að sjálfsögðu er í boði að senda fulltrúa frá Framsyn á fundi hjá öðrum stjórnmálaöflum sem bjóða fram í Norðurþingi verði eftir því leitað.

Framleiða rafeldsneyti á Bakka

Vetni og ammóníak eru lausn á loftslagsvanda heimsins segir Sigurður Ólason í frétt í Morgunblaðinu/mbl.is.

Í ljósi mark­miða rík­is­stjórn­ar­inn­ar um kol­efn­is­hlut­laust Ísland óháð jarðefna­eldsneyti árið 2040 verður að hraða und­ir­bún­ingi að fram­leiðslu ra­feldsneyt­is eins og vetn­is og ammoní­aks að mati Sig­urðar Ólason­ar, fram­kvæmda­stjóra Green Fuel. Slíkt eldsneyti sé lyk­il­atriði í orku­skipt­un­um. Fyr­ir­tækið stefn­ir að bygg­ingu fyrstu stórskala ra­feldsneytis­verk­smiðju lands­ins á Bakka við Húsa­vík.

Mik­ill meðbyr

Sig­urður seg­ist í sam­tali við Morg­un­blaðið finna fyr­ir mikl­um áhuga og meðbyr. „Green Fuel mun fram­leiða vetni og amm­óní­ak, sem bæði eru al­ger­lega kol­efn­is­laus í fram­leiðslu og notk­un. Þess­ar tvær teg­und­ir ra­feldsneyt­is eru því lausn á lofts­lags­vanda heims­ins og munu stuðla að því að Ísland upp­fylli ákvæði Par­ís­ar­sam­komu­lags­ins varðandi minnk­un kol­efn­isút­blást­urs. Til dæm­is væri það mik­ill kost­ur ef kaup­skipa- og fiski­skipa­flot­inn næði að skipta úr díselol­íu yfir í ra­feldsneyti,“ seg­ir Sig­urður.

Amm­óní­akið sem Green Fuel hyggst fram­leiða myndi duga til að knýja þriðjung ís­lenska fiski­skipa­flot­ans að sögn Sig­urðar. Auk þess mun Green Fuel fram­leiða vetni í fljót­andi formi sem er álit­leg­ur orku­gjafi fyr­ir þunga­flutn­inga og inn­an­lands­flug á Íslandi.

(Þessi áhugaverða frétt er tekin af vefnum mbl.is)

Gott atvinnuástand á svæðinu

Um þessar mundir er mjög gott atvinnuástand á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Mikið hefur verið um atvinnuauglýsingar enda mikil vöntun á starfsfólki í mismundandi störf. Samkvæmt heimildum heimasíðunnar er vel undir 100 manns á atvinnuleysisbótum frá Bakkafirði að Vaðlaheiði sem eru virkilega góðar fréttir. Vinnumálastofnun hefur ekki gefið út nýjustu tölur um atvinnuleysi en með því að fara inn á vef stofnunarinnar vmst.is er hægt að sjá hvernig atvinnuleysið hefur þróast og skiptist milli sveitarfélaga og landshluta samkvæmt  upplýsingum frá þeim.

Viðræður um stofnanasamning halda áfram

Á morgun þriðjudag munu fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Umhverfisstofnun, Vatnajökulsþjóðgarði og Þjóðgarðinum á Þingvöllum halda áfram viðræðum um gerð stofnanasamnings skv. 11. kafla kjarasamnings fjármála og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs og Starfsgreinasambands Íslands sem undirritaður var 6. mars 2020. Fundurinn fer fram í Reykjavík. Formaður Framsýnar tekur þátt í þessum viðræðum enda hópur félagsmanna sem fellur undir þennan stofnanasamning. Mikill vilji er til þess meðal samningsaðila að klára gerð samningsins á næstu vikum. Vonandi tekst það.

Launahækkanir 1. apríl – nýjar launatöflur

Búið er að uppfæra flestar launatöflur á heimasíðu stéttarfélaganna fyrir félagsmenn aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Verkið verður endanlega klárað strax eftir páska en unnið er að því að klára uppfærsluna sem tekur mið af hagvaxtaraukanum sem kom til 1. apríl og leggst við gildandi launatöflur. Afar mikilvægt er að félagsmenn stéttarfélaganna fylgist vel með því að hagvaxtaraukinn skili sér til þeirra við næstu útborgun. Launatöflur hækkuðu um 10.500 kr. og almenn laun um 7.875 kr. frá 1. apríl og koma til greiðslu 1. maí.

Ársreikningur Lsj. Stapa 2021 liggur fyrir

Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur staðfest ársreikning sjóðsins fyrir árið 2021. Um síðustu áramót var hrein eign til greiðslu lífeyris um 358 milljarður króna og hækkaði um u.þ.b. 62 milljarða króna frá fyrra ári.

Ávöxtun eigna Stapa árið 2021 var ein sú besta í sögu sjóðsins í núverandi mynd eða sem nemur 13% raunávöxtun. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ár er um 7,6%.

Greiddir voru um 7,9 milljarðar króna í lífeyri úr tryggingadeild sjóðsins til um 11.588 lífeyrisþega. Voru þetta um 10,8% hærri greiðslur en árið á undan en á sama tíma fjölgaði lífeyrisþegum um 5,7%.

Alls greiddu tæplega 21.000 sjóðfélagar hjá rúmlega 3.500 launagreiðendum iðgjöld til tryggingadeildar á árinu en iðgjöld námu um 13,8 milljörðum króna og hækkuðu um 10,7% á milli ára. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem greiddu iðgjöld í mánuði hverjum var um 15.000.

Hrein eign séreignardeildar var 8.420 milljónir króna og hækkaði um 16,9% frá fyrra ári. Séreignardeildin býður upp þrjú ávöxtunarsöfn, Innlána safnið, Varfærna safnið og Áræðna safnið og nam hrein raunávöxtun safnanna -4,8%, 9,4% og 13,3% á árinu. Hrein eign tilgreindrar séreignardeildar nam 472 milljónum króna í lok árs.

Hér má sjá ársreikninginn í heild sinni.

 

Hátíðardagskrá 1. maí 2022 – allir í höllina

Að venju standa stéttarfélögin fyrir veglegri hátíðardagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík sunnudaginn 1. maí kl. 14:00 þar sem þingeyskir listamenn verða í aðalhlutverki. Boðið verður upp heimsins bestu vöfflur með kaffinu, meðan á dagskránni stendur.

Dagskrá:

Ávarp: Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags

Hátíðarræða: Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags

Söngur og grín: Stefán Jakobsson tekur lagið og grínast með eins og honum einum er lagið

Tónlistaratriði: Einar Óli tekur frumsamin og þekkt lög eftir aðra listamenn

Tónlistaratriði: Jónas Þór og Arnþór verða á léttu nótunum og taka nokkur lög og reita af sér brandara

Tónlistaratriði: Tónasmiðjan býður til veislu. Hópur flytjenda á ýmsum aldri, spila og syngja lög sem fylgt hafa okkur í gegnum tíðina og notið mikilla vinsælda

 

Systkinin Elísabet Helgadóttir og Kristján Helgason flytja Maístjörnuna í upphafi hátíðarinnar.

Þingeyingar og landsmenn allir, fjölmennum í höllina og drögum fána að hún á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí 2022. Samtakamátturinn hefur aldrei skipt meira máli en um þessar mundir.

Framsýn stéttarfélag – Þingiðn – Starfsmannafélag Húsavíkur

Málefnalegt þing SGS

Því miður hefur lítið farið fyrir helstu ályktunum 8. Þings Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri í síðasta mánuði. Fjölmiðlar virtust bara áhuga fyrir kosningum til trúnaðarstarfa innan sambandsins.  Hægt er að nálgast ályktanir þingsins inn á vef sambandsins sgs.is undir Þing. Við birtum hér eina góða ályktun þingsins sem fjallar um áherslur sambandsins í atvinnumálum:

Ályktun um atvinnumál

Góð störf og örugg atvinna er forsenda mannlífs og byggðar um land allt. Áhrif breyttra atvinnuhátta eru misjöfn um byggðir landsins. Störfum fækkar verulega í landbúnaði og fiskvinnslu ásamt því að færast á færri svæði. Ný störf í ferðaþjónustu og fiskeldi vinna gegn þessari þróun. Vanfjárfesting í innviðum vinnur gegn uppbyggingu byggðar, atvinnulífs og iðnaðar á landsbyggðinni. Innviðir samfélagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verða að vera í fremstu röð um land allt og styðja við byggðafestu og atvinnusköpun. Nýsköpun verði stórefld með áherslu á sjálfbær, græn störf og skapandi greinar með það að markmiði að fjölga burðarásum atvinnulífsins. Dregið hefur úr atvinnuleysi tengdu heimsfaraldri. Þó eru enn yfir tíu þúsund einstaklingar án atvinnu. Starfsgreinasamband Ísland leggst eindregið gegn styttingu bótatímabils atvinnuleysisbóta. Efla þarf þjónustu við atvinnuleitendur og aðgengi atvinnuleitenda að úrræðum sem styrkja stöðu á vinnumarkaði. Fyrirséð er að ferðaþjónustan mun sækja í sig veðrið að nýju nú þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs á heimshagkerfið. Þó áhrif þessa séu jákvæð á vinnumarkaði þekkir verkalýðshreyfingin of vel hvernig uppgangur ýtir undir launaþjófnað og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið krefst þess að viðurlög við launaþjófnaði verði lögfest og að vinnustaðaeftirlit og heimildir stjórnvalda í samstarfi við stéttarfélög til upplýsinga frá atvinnurekendum séu skýrar og hafnar yfir allan vafa. Annað kemur einfaldlega ekki til greina.

  1. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið á Akureyri 23-25. mars 2022 krefst þess:
  • Að innviðafjárfesting verði stórefld og innviðir samfélagsþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verði í fremstu röð um land allt og styðji við atvinnusköpun.
  • Að horfið verði frá niðurskurði í heilbrigðis- og skólamálum á landsbyggðinni sem vinnur gegn því að atvinna og mannlíf geti þrifist utan höfuðborgarsvæðisins.
  • Að hvatar verði innleiddir til að fyrirtæki staðsetji starfsemi, nýsköpun og framleiðslu á landsbyggðinni, t.d. með breytingu á tryggingargjaldi, flutningskostnaði eða félagslegum tilfærslum eftir svæðum.
  • Að unnið verði að því að fjölga grænum, sjálfbærum störfum þar sem verðmætasköpun byggir á markmiðum um sjálfbærni.
  • Að grunnbætur atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar í 95% af tekjutryggingu, úr 85% eins og reglur kveða á um í dag.
  • Að tekjutenging taki gildi frá fyrsta degi atvinnuleysis og gildi í 6 mánuði.
  • Að bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði ekki stytt.
  • Að þjónusta við atvinnuleitendur verði markvisst aukin og einstaklingsmiðuð til að draga úr atvinnuleysi.
  • Að viðurlög við launaþjófnaði verði lögfest. • Styrkja þarf stöðu fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði.

Seðlabankinn svarar Framsýn

Framsýn gerði á dögunum athugasemdir við  framkvæmd hæfismats fjármálaeftirlitsins á stjórnarmönnum lífeyrissjóða m.a. hvað varðar munnleg hæfismöt og hertar kröfur til hæfis stjórnarmanna. Fjallað var um málið á heimasíðu Framsýnar og í framhaldi af því fjölluðu fjölmiðlar um málið, sem vakti töluverða athygli. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð eftirlitsins, sem virðist gera allt til að útiloka almenna sjóðfélaga til að taka þátt í stjórnum lífeyrissjóða. Hvað það varðar er orðið mjög erfitt að fá fólk til að taka að sér stjónarstörf fyrir lífeyrissjóði. Fjölmargir hafa séð ástæðu til að þakka Framsýn fyrir að taka málið  upp til umræðu s.s. stjórnarmenn í lífeyrissjóðum, lögfræðingar og atvinnurekendur. Þá hefur framkvæmdarstjórn Starfsgreinasambandsins ályktað um málið, auk þess sem forseti ASÍ hefur látið sig málið varða.  Fjármálaeftirlitið hefur nú svarað bréfi Framsýnar og ber þar af sér allar sakir og segja eingöngu um eðlileg vinnubrögð að ræða við hæfismat á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóða.

 

Hvernig gefa á ríku fólki meiri peninga

Einu sinni var sagt að það væri erfitt að eiga peninga á Íslandi. Tilefni ummælanna var að upp komst að þáverandi forsætisráðherra átti sér eitt aflandsfélag til að geyma auð sinn, einhvers staðar verða aurarnir jú að vera. Fleiri eru í þessum vandræðum með peningana sína, koma þeim fyrir í skíðakofum sem kosta milljarða, nýta þá til að arðræna fátækar þjóðir, geyma þá í pósthólfum með fyrirtækjanöfnum á eyjum í karabíska hafinu eða kaupa sér banka.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika sem fylgja því að eiga peninga (nokkuð sem flest vinnandi fólk á erfitt með að skilja að fullu) þá skal aldrei vanmeta hugmyndaauðgina við að gefa þeim sem eiga pening meiri peninga. Lykillinn að því er að komast til pólitískra valda, eiga pólitíska fulltrúa sem geta tekið ákvarðanir fyrir ríki og sveitarfélög og gera sem flesta í stjórnmálum samseka með gjörningum.  Þegar komist er til valda þá er mikilvægt að vinna grunnvinnuna. Ef ætlunin er til dæmis að gefa ríku fólki meiri peninga í gegnum einkavæðingu á velferðarkerfinu er mikilvægt að fjársvelta það kerfi í nokkur ár fyrst þannig að fólk sem reiðir sig á kerfið kalli sjálft eftir breytingum sem gætu hugsanlega orðið til að bæta kerfið og auka þar með lífsgæði. Breytingar fela síðan í sér að  velviljaður kapítalisti býðst til að reka sjoppuna fyrir miklu minni pening en bara á miklu betri hátt, með skilvirknina í fyrirrúmi. Fórnarkostnaðinn ber starfsfólk í gegnum kjararýrnun, skattgreiðendur þar sem kostnaðurinn við milliliðina fer alltaf á endanum upp úr öllu valdi og að lokum notendur þjónustunnar sem þurfa að sætta sig við lakari þjónustu og meiri gjaldtöku.

Ef ætlunin er að gefa ríku fólki meiri peninga í gegnum sölu á bönkum eða öðrum arðbærum einingum þarf að byrja á því að koma þeirri hugmynd í kollinn á sem flestum að það sé óheppilegt að almenningur eigi fjármálastofnanir. Næsta skref er svo að bjóða öllum sem geta að kaupa eitthvert smotterí í bankanum og tryggja að þau kaup skili sér í gróða strax næsta dag. Þessi millileikur að gefa almenningi kost á að kaupa hlutabréf er auðvitað sýndarmennska því þessi hlutabréf rata fyrr eða síðar í „réttar hendur“. Þetta þekkjum við mjög vel á undanförnum áratugum. Það þarf því engan að reka í rogastans við að sjá listann yfir kaupendur í Íslandsbanka. Þetta er fólkið sem á að eiga banka á Íslandi, hér eftir alveg eins og áður. Þetta er hluti af því að gera ríkt fólk ríkara. Því þótt það sé „erfitt að eiga peninga á Íslandi“ er hópur fólks sem er alltaf  til í að leggja það á sig.

 

Góða helgi,

Drífa

 

Tvær góðar

Þegar komið er inn í menningarhúsið Hof á Akureyri ætti ekki fram hjá neinum skúlptúr úr timbri eftir listakonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur, af glæsilegri konu á íslenskum búning. Konan, sem er í  fullri líkamsstærð tyllir sér á bekk og við hlið hennar er eins konar kjörkassi. Listaverk Aðalheiðar er af Vilhelmínu Lever (1802-1879), en hún var fyrst íslenskra kvenna til að kjósa í bæjarstjórnarkosningum árið 1863. Vilhelmína rak verslun og veitingasölu á Akureyri og var sögð afbragðskona, velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra og dugleg til ýmiss konar framkvæmda og athafna. Hún var fylgin sér og lét ekki hlut sinn svo glatt.

Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi árið 1862 og samkvæmt nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Í þýðingu reglugerðarinnar sem var þýdd og staðfærð úr  dönsku, kom fram að allir fullmyndugir menn, („alle fuldmyndige Mænd“) sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borgað tvo ríkisdali í gjöld, hefðu kosningarétt. Vilhelmína taldi sig réttilega falla undir öll þessi ákvæði, dreif sig á kjörstað og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Í danska textanum átti orðið „Mænd“ örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð „menn“ en ekki „karlar“ fékk Vilhelmína að kjósa. Það hefur því líklega verið þýðingarvilla sem varð til þess að hún fékk sínu framgengt, en málið er enn hin mesta ráðgáta. Nítján árum síðar samþykkti Alþingi Íslendinga að veita takmörkuðum hópi kvenna kosningarétt.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti að færa bæjarbúum listaverk Aðalheiðar að gjöf, til að heiðra minningu Madame Vilhelmínu Lever, í  tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna til Alþingis árið 2015.

Kjörkassinn við hlið Vilhelmíu er í senn tákrænn og notaður sem hugmyndabanki. Geta gestir sett í hann skrifuð skilaboð með hugmyndum um skapandi verkefni sem gætu orðið konum til hagsbóta eða framdráttar með einhverjum hætti. Með henni á myndinni er María Jónsdóttir sem tók nýlega þátt í þingi Starfsgreinasambands Íslands sem fram fór í Hofi.

 

 

FÍA fordæmir viðskipti ríkisstjórnarinnar við Bláfugl

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) fordæmir að íslenska utanríkisráðuneytið hafi ráðið flugfélagið Bláfugl, Bluebird Nordic, til þess að annast flutning á varningi, þ.á.m. hergögnum, vegna stríðsins í Úkraínu.

FÍA hefur ítrekað bent á það hvernig Bláfugl, sem starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og lýtur þannig íslenskum lögum, hefur brotið gegn íslenskri vinnulöggjöf með félagslegum undirboðum og gerviverktöku, og sniðgengið kjarasamning sinn við FÍA.

Bláfugl hefur auk þess alfarið hundsað niðurstöðu Félagsdóms sem féll þann 16. september síðastliðinn og með því gert alvarlega atlögu að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi.

Það hlýtur að vera krafa okkar allra að íslensk fyrirtæki virði gildandi lög, kjarasamninga og niðurstöður dómstóla.

Það er því með öllu óásættanlegt að það fái að viðgangast að íslenska ríkið, í umboði skattgreiðenda, eigi viðskipti við félag á borð við Bláfugl.

FÍA hefur áður skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða og tryggja að Bláfugl fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla.

Sjá hér: https://www.fia.is/frettir-fundagerdir/frettir/aetla-sa-og-blafugl-ad-snidganga-kjarasamninga-og-doma/

Mikilvægt að skoða yfirlit og launaseðla

Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gær urðu m.a. umræður um launaseðla sem í flestum tilvikum eru orðnir rafrænir og yfirlit um séreignasparnað félagsmanna sömuleiðis. Því miður hefur borið á því að launaseðlar séu rangir, atvinnurekendur gleymi t.d. að nýta persónuafslátt viðkomandi starfsmanna og launin séu jafnvel ekki reiknuð rétt út samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Þá hefur einnig borið á því að kjarasamningsbundinn séreignasparnaður sé ekki að skila sér til vörsluaðila sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir og/eða fjármálastofnanir. Því var ákveðið á fundinum að minna félagsmenn á mikilvægi þess að þeir fylgist vel með sínum málum er varðar kjör þeirra og önnur réttindi.