Snúningur tekin á SA

Formaður Framsýnar fundaði með fulltrúm Samtaka atvinnulífsins fyrir síðustu helgi um sérmál ákveðinna hópa innan ferðaþjónustunnar. Viðræðurnar fóru vel fram og frekari viðræður eru fyrirhugaðar eftir páskana.

Opið fyrir skráningu hjá NTV skólanum, námskeið í apríl

Opnað hefur verið fyrir skráningar á námskeiðin á slóðinni: http://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags 

Frekari upplýsingar um námskeiðin má finna á eftirfarandi slóð: http://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

Félagsmönnum aðildarfélaga Landsmenntar, Sveitamenntar, Ríkismenntar og Sjómenntar bjóðast þessi námskeið sér að kostnaðarlausu.

Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna

Námskeiðin sem um ræðir eru:

NámskeiðDagsetningarVikur
Bókhald Grunnur  21. apríl til 10. júní8 vikur
Digital Marketing  21. apríl til 26. maí5 vikur
Frá hugmynd að eigin rekstri(Gerð viðskiptaáætlunar)  21. apríl til 26. maí5 vikur

Öll námskeiðin (námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti) eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá NTV skólanum eða þínu stéttarfélagi og einnig hægt að leita upplýsinga hjá Huldu eða Kristínu á skrifstofu fræðslusjóðanna (s:599-1450).

Opnað fyrir umsóknir um orlofshús

Stéttarfélögin hafa opnað fyrir umsóknir um orlofshús/íbúðir sumarið 2021. Hægt er að nálgast allar upplýsingar og umsóknareyðublað á heimasíðunni. Umsóknareyðublöðin má nálgast hér. Umsóknarfresturinn er til 21. apríl. Í næstu viku er svo væntanlegt Fréttabréf til félagsmanna með sömu upplýsingum varðandi þá kosti sem verða í boði sumarið 2021, sumarhús, íbúðir og íbúð á Spáni. Þá verður einnig komið inn á  aðra afþreyingarkosti en framboðið verður óvenju mikið fyrir félagsmenn í sumar.

Ákveðið að fella niður formleg hátíðarhöld 1. maí

Vegna sóttvarnarreglna hafa stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum ákveðið að fella niður formleg hátíðarhöld 1. maí í Íþróttahöllinni á Húsavík, það er á  baráttudegi verkafólks. Þetta var ákveðið á sameiginlegum fundi félaganna í gær. Þess í stað skora stéttarfélögin á félagsmenn að njóta dagsins í faðmi fjölskyldunnar um leið og menn hafi það í huga að þau réttindi sem við búum við í dag komu ekki af sjálfu sér. Fyrir þeim börðust forfeður okkar sem við stöndum í þakkarskuld við. Að sjálfsögðu er svo skorað á alla sem það geta að flagga 1. maí.

Orlofshús á Spáni til leigu fyrir félagsmenn

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa aðgengi fyrir félagsmenn að tveggja herbergja íbúð í Alicante á Spáni. Um er að ræða íbúð á neðri hæð í litlu fjölbýli með nokkuð stóru útisvæði sem tilheyrir þessari íbúð eingöngu. Auk svefnherbergis er baðherbergi, rúmgóð stofa, eldhús og þvottahús með þvottavél. Í heildina eru svefnstæði fyrir fjóra í tvíbreiðu rúmi í herbergi og svefnsófa í stofunni. Í húsinu eru rúmföt og tuskur. Íbúðin er í lokuðum íbúðarkjarna með sér sundlaug og útisvæði. Frá flugvellinum í Alicante er um 40 km að íbúðinni. Auðvelt er að komast að henni frá flugvellinum með rútu, leigubíl eða bílaleigubíl. Margvísleg afþreying er á svæðinu, svo sem bátsferðir, skemmtisiglingar og fleira. Þá er í göngufæri verslunarkjarni þar sem finna má úrval verslana s.s. Primark og H&M. Einnig er stutt í matvöruverslanir s.s. Carrefour.

Verð á íbúð:
Sumartími frá 1. apríl – 30. september, vikuleiga kr. 56.000,- og hver dagur eftir það á kr. 7.000,-.
Vetrartími frá 1. október – 31. mars, vikuleiga kr. 42.000,- og hver dagur eftir það á kr. 5.000,-.

Frá þessu verði dragast til viðbótar sérkjör félagsmanna, kr. 1.500 per. dag sem gist er í íbúðinni. Félagsmenn geta fengið íbúðina leigða í allt að 14 daga enda sé hún laus. Ekki er vitlaust að miða tímabil dvalar við hvenær ódýrast er að fljúga til Alicante. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna og á skrifstofu Verkalýðsfélags Þórshafnar.

spann2012 105

Áskorun frá Árgangi 60 – söfnum fyrir endurbótum á Húsavíkurkirkju

Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu er löngu tímabært að ráðast í verulegar endurbætur á Húsavíkurkirkju.  Ekki hefur verið gerð ítarleg verk- og kostnaðaráætlun en gróf kostnaðaráætlun vegna viðgerða á turni er um 10 milljónir.  Síðan þarf að halda áfram kostnaðarsömum viðgerðum á öðrum hlutum kirkjunnar. Fyrirliggjandi er að kostnaður við heildar framkvæmdir mun hlaupa á einhverjum tugum milljóna.  Kirkjan á hins vegar enga sjóði til að standa undir viðgerðum sem  þessum og þeir opinberu sjóðir sem hægt er að leita til vegna framkvæmda af þessu tagi eru févana. Því hafa verið stofnuð Hollvinasamtök Húsavíkurkirkju til að leggja þessu máli lið og afla fjár til hvers konar viðhalds og endurbóta á Húsavíkurkirkju.

Árgangur 1960 frá Húsavík hefur ákveðið að leggja þessari mikilvægu söfnun til 266.000 króna framlag um leið og skorað er á aðra árganga frá Húsavík að gera slíkt hið sama, það er að leggja söfnunarátakinu lið með fjárframlagi.

Frekari upplýsingar um verkefnið veitir stjórn Hollvinasamtaka Húsavíkurkirkju, hana skipa:

Heiðar Hrafn Halldórsson, sími: 866-7100, netfang: hezman10@gmail.com

Jóna Matthíasdóttir, sími: 866-1848, netfang: jonamatta@gmail.com

Sólveig Mikaelsdóttir, sími: 895-0466, netfang: solveigmikaels@gmail.com

Færðu gestunum glaðning úr heimahéraði

Þegar forsetar ASÍ voru á ferðinni á Húsavík í vikunni færði Framsýn þeim landbúnaðarvörur að gjöf úr héraðinu, það er frá Fjallalambi og Hveravöllum í Reykjahverfi. Með gjöfinni fylgdi hvatning til Alþýðusambandsins að standa vörð um íslenskan landbúnað, ekki síst þar sem fjöldi félagsmanna aðildarfélaga sambandsins starfar við landbúnað á Íslandi.

Ragnar Þór endurkjörinn formaður VR

Ragnar Þór Ingólfsson kom ásamt forsetateymi ASÍ til fundar við stjórnir Þingiðnar og Framsýnar á þriðjudaginn. Við það tækifæri færði formaður Framsýnar Ragnari Þór blómvönd frá félaginu en hann var nýlega endurkjörinn sem formaður VR til næstu tveggja ára eftir harða kosningabaráttu við Helgu Guðrúnu Jónasdóttir. Svo fór að Ragnar sigraði með miklum yfirburðum. Eftir að Ragnar Þór tók við VR fyrir nokkrum árum hafa félögin, Framsýn og VR, átt mjög gott samstarf um málefni launafólks og störfuðu m.a. þétt saman í síðustu kjarasamningum þegar svonefndur Lífskjarasamningur var gerður.

Sköpum 7000 störf strax!

Ríkisstjórnin kynnti þann 12. mars 2021 atvinnuátak undir yfirskriftinni „Hefjum störf“. Markmiðið er að með átakinu verði til allt að 7.000 tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ráðgert er að verja um 4.500 – 5.000 milljónum króna til þessara aðgerða.

Sjá nánar á þessari vefsíðu Vinnumálastofnunar

Lítil og meðalstór fyrirtæki
Nú er auðveldara fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að ráða fólk og búa sig undir bjartari framtíð en fyrirtæki sem hafa færri en 70 starfsmenn geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur með ríflegum stuðningi. Hverjum nýjum starfsmanni fylgir allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð, í allt að sex mánuði og getur fyrirtækið ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til heildar starfsmannafjöldi hefur náð 70. Ráðningartímabilið er sex mánuðir á tímabilinu frá apríl til desember 2021.

Ráðningarstyrkir fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum Þá geta fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum nýtt sér ráðningarstyrki sem auðvelda atvinnurekendum að ráða starfsfólk og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án atvinnu. Með ráðningarstyrk getur atvinnurekandi fengið fullar grunnatvinnuleysisbætur með hverjum atvinnuleitanda sem hefur verið án vinnu í 30 daga eða lengur í allt að sex mánuði með hverjum nýjum starfsmanni, eða 307.430 krónur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ekkert þak er á fjölda starfsmanna sem fyrirtæki geta ráðið með þessu úrræði.

Sveitarfélög og opinberar stofnanir
Til að koma til móts við þann hóp sem er við það að fullnýta bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur ekki fengið atvinnu við lok bótatímabilsins verður farið í sérstakar aðgerðir til að aðstoða einstaklinga í þessum hópi við að komast aftur inn á vinnumarkað. Þannig greiðir Vinnumálastofnun ráðningastyrk í allt að sex mánuði, og er heimilt að lengja um aðra sex fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, vegna ráðningu einstaklinga sem eru við það að ljúka bótarétti. Er stofnuninni heimilt að greiða ráðningarstyrki sem nema fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Skilyrði er að ráðinn sé einstaklingur sem á sex mánuði eða minna eftir af bótarétti.

Þá er sveitarfélögum einnig heimilt að ráða til sín einstaklinga sem fullnýttu bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingarkerfisins á tímabilinu 1. október. til 31. desember 2020.

Félagasamtök
Félagasamtök, sem rekin eru til almannaheilla og án hagnaðarsjónarmiða, er gert kleift að stofna til tímabundinna átaksverkefna í vor og sumar með ráðningarstyrk sem nemur fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki kr. 472.835 á mánuði sem er hámark tekjutengdra bóta auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð. Þá verður greitt 25% álag til þess að standa straum af kostnaði við verkefnin, svo sem við landvernd, viðhald göngustíga, landhreinsun, gróðursetningu, íþróttir og afþreyingu fyrir börn og unglinga og svo framvegis. Skilyrði fyrir ráðningarstyrk er að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur.

Sumarstörf fyrir námsmenn
Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og verður það kynnt síðar í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneytið og aðra hagsmunaaðila.

Forsetateymi ASÍ fundaði á Húsavík

Það var öflugt lið sem kom til móts við stjórnir Framsýnar og Þingiðnar á fundi á Húsavík í gær. Stjórn Framsýnar-ung tók einnig þátt í fundinum. Forsetateymi ASÍ ásamt framkvæmdastjóra sambandsins Höllu Gunnarsdóttur litu við en þau eru á hringferð um landið. Tilgangur ferðarinnar er að funda með stjórnum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og heyra í þeim hljóðið og hvað brennur helst á þeim varðandi það sem betur má fara í starfi sambandsins. Á fundinum í gær skiptumst fundarmenn á skoðunum um málefni Alþýðusambandsins og verkalýðshreyfingarinnar almennt auk þess sem starfsemi stéttarfélaga var til umræðu sem og atvinnuástandið sem er verulega slæmt um þessar mundir.

Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar kölluðu eftir meiri skilningi á stöðu félagsmanna innan stéttarfélaga á landsbyggðinni. Eðlilegt væri að ASÍ beitti sér fyrir meiri jöfnuði burt séð frá búsetu. Meðal annars var komið inn á þann mikla kostnað fólks sem fylgir því að sækja sér læknishjálp eða menntun fjarri heimabyggð, ekki síst fyrir láglaunafólk á landsbyggðinni.

Þá kom fram gagnrýni á Bjarg sem er íbúðafélag stofnað af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma. Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar komu þeim skilaboðum á framfæri að þeir vildu sjá Bjarg koma til móts við þarfir fólks sem víðast um landið, ekki bara nánast á höfuðborgarsvæðinu. Meðan svo væri stæði Bjarg ekki undir nafni sem kostur fyrir tekjulágar fjölskyldur að eignast öruggt húsaskjól.

Kallað var eftir því að öll störf á vegum ASÍ væru auglýst laus til umsóknar en óánægju hefur gætt innan hreyfingarinnar með að svo hafi ekki verið í öllum tilvikum.

Umræður urðu um síðasta þing ASÍ þar sem sú breyting varð á að ekki var lengur pláss fyrir forseta af landsbyggðinni eins og sátt hefur verið um fram að þessu. Núverandi forsetar ASÍ koma allir af höfuðborgarsvæðinu en þeim var fjölgað um einn á síðasta þingi sambandsins, það er varaforsetum sem eftir samþykktar breytingar eru þrír. Framsýn hefur haldið því fram að það sé óásættanlegt með öllu, sjónarmmið launþega á landsbyggðinni verði þar með undir í umræðunni, ekki síst varðandi stefnumótun ASÍ í stórum og þýðingarmiklum málum.

Þá töldu fulltrúar Framsýnar rétt að taka upp umræðu um launakjör annars vegar hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga og hins vegar á almenna vinnumarkaðinum. Fyrir liggur að launakjör fólks á almenna vinnumarkaðinum hafa dregist verulega aftur úr launakjörum starfsmanna hjá hinu opinbera. Fulltrúar Framsýnar komu þeim ábendingum á framfæri við forsetateymið að þetta væri varhugaverð þróun. Mikilvægt væri að gera átak í að bæta kjör starfsmanna á almenna vinnumarkaðinum.  

Fulltrúar Framsýnar komu því skýrt á framfæri við forsetateymið að félagið legðist alfarið gegn því að endurvekja SALEK-samkomulagið í formi Grænbókar sem stjórnvöld hafa lagt mikið upp úr að nái fram að ganga. Nefnd um gerð grænbókar um kjarasamninga og vinnumarkaðsmál var sett á laggirnar í nóvember í fyrra og ætlað að skila tillögum sínum til forsætisráðherra í apríl. Framsýn hefur verið afar gagnrýnin á SALEK-samkomulagið. SALEK er norrænt vinnumarkaðsmódel og er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Verði SALEK að veruleika dregur það úr vægi félagsmanna stéttarfélaga að hafa áhrif á sín mál er viðkemur kjarabaráttu sem er andstætt þeim reglum sem hafa gilt á íslenskum vinnumarkaði fram að þessu. Eðlilega hugnast Framsýn ekki þess vegferð í nafni SALEK að draga úr vægi launamanna að hafa áhrif á sín mál, reyndar eru skiptar skoðanir um málið innan hreyfingarinnar.

Í heildina var fundurinn góður og þess er vænst að forsetateymið fylgi eftir þeim áherslum sem fram komu á fundinum.

Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ er hér með forsetunum; Kristján Þórður Snæbjarnarson, Drífa Snædal, Sólveig Anna Jónsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson.

Forsetateymi ASÍ fundaði með stjórnum Þingiðnar, Framsýnar og Framsýnar-ung í gærkvöldi. Fundurinn fór vel fram og skiptust menn á skoðunum um málefni verkalýðshreyfingarinnar.

Guðmunda formaður Framsýnar-ung og Halla Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri ASÍ hugsandi yfir ræðu formanns Framsýnar sem væntanlega hefur ekki verið gáfuleg.

Bifreið stéttarfélaganna endurnýjuð

Stéttarfélgin hafa skipt um bifreið með kaupum á Toyota Rav4 árgerð 2015. Líkt og með fyrri bifreið verður hún notuð við vinnustaðaeftirlit og önnur störf á vegum stéttarfélaga á hverjum tíma. Félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum er um 18% af landinu og því þurfa starfsmenn félaganna oft að ferðast um langan veg til að sinna félagsmönnum.

Endursamið við Íslandsbanka

Stéttarfélögin hafa undanfarið unnið að því að endurskoða vaxtakjör á fjármunum félaganna hjá þeim fjármálastofnunum sem stéttarfélögin hafa verið í viðskiptum við, það er hjá Íslandsbanka og Sparisjóði Suður Þingeyinga. Á dögunum var undirritaður samningur við Íslandsbanka um áframhaldandi viðskipti og þá eru viðræður við Sparisjóðinn komnar langt á veg. Ekki er ólíklegt að aðilar skrifi undir samning í næstu viku en viðræður hafa gengið vel og eru á lokastigi. Margrétt Hólm Valsdóttir útibústjóri Íslandsbanka á Húsavík er hér með fjármálastjóra stéttarfélaganna Elísabetu og Aðalsteini Árna formanni Framsýnar og forstöðumanni stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna eftir undirskrift samningsins í gær.

Viðræður við stjórnendur Sparisjóðs Suður Þingeyinga hafa farið fram í gegnum teams sem hafa gengið vel.

Samkomulag um átaksverkefni endurnýjað

Norðurþing og Framsýn stéttarfélag hafa endurnýjað samkomulag sem aðilar gerðu með sér síðasta sumar og varðar launakjör unglinga á aldrinum 16 til 17 ára sem verða þátttakendur í sérstöku átaksverkefni á vegum Norðurþings í sumar. Þá er um það samið að Framsýn komi að því að fræða starfsmenn um réttindi og þeirra skyldur á vinnumarkaði. Samkomulags þess efnis var undirritað í vikunni og gildir sumarið 2021.

Örtröð og leiðinda veður

Veðrið hefur ekki leikið við Norðlendinga undanfarið. Þessi mynd er tekin við Skrifstofu stéttarfélaganna í morgun og endurspeglar veðrið og ásókn félagsmanna í þjónustu á vegum stéttarfélaganna. Öll bílastæði full. Reyndar ber að geta þess að nú stendur yfir nýliðafræðsla á vegum PCC í fundarsal stéttarfélaganna og því er mikið líf og fjör í húsnæðinu.

Ásókn í störf á Bakka – Nýliðafræðsla í gangi

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefst framleiðsla á ný hjá PCC á Bakka með vorinu sem eru mikil gleðitíðindi enda PCC með stærri vinnustöðum á svæðinu svo ekki sé talað um hliðarstarfsemi  sem tengist starfsemi fyrirtækisins á Bakka en mörg fyrirtæki á svæðinu hafa mikilla hagsmuni að því að starfsemin á Bakka gangi vel. Fyrir framleiðslustopp síðasta haust störfuðu um 150 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Eftir það fækkaði þeim verulega eða niður í um 50 starfsmenn. Fyrirtækið auglýsti nýlega eftir starfsmönnum í um 60 stöðugildi. Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa þar sem yfir hundrað manns hafa haft samband við forsvarsmenn verksmiðjunnar í leit að vinnu hjá fyrirtækinu.

Miðað við þessa miklu ásókn verður ekki erfitt fyrir fyrirtækið að manna þær stöður sem til stendur að ráða í áður en verksmiðjan fer af stað aftur. Samhliða ráðningarferlinu er hafin nýliðafræðsla á vegum PCC en mikið er lagt upp úr því að fræða starfsmenn um starfsemina og helstu öryggisreglur sem gilda almennt á vinnustöðum. Þá hafa fulltrúar stéttarfélaganna verið beðnir um að kynna réttindi og skyldur starfsmanna á vinnumarkaði. Stéttarfélögin hafa samið við Þekkingarnet Þingeyinga um að sjá um þann hluta af námskeiðinu fyrir hönd stéttarfélaganna. Forsvarsmenn stéttarfélaganna og PCC á Bakka hafa átt gott samstarf um málefni starfsmanna er viðkemur aðbúnaði, öryggismálum og launakjörum enda vænlegast til árangurs fyrir báða aðila með hagsmuni starfsmanna og fyrirtækisins að leiðarljósi.

Vöfflur í boði og unga fólkið heiðrað

Eins og fjallað hefur verið um á heimasíðunni kom stjórn og trúnaðarráð Framsýnar saman til fundar síðasta mánudag ásamt stjórn Framsýnar-ung. Í tilefni af því að fundir á vegum stjórnar og trúnaðarráðs hafa legið niðri síðan í september 2020, það er „snertifundir“ var ákveðið að bjóða upp á kaffi og vöfflur enda voru menn almennt ánægðir með að fá að hittast aftur eftir langt hlé sem tengist Covid. Að sjálfsögðu urðu líflegar umræður á fundinum. Til gamans má geta þess að tvær ungar konur, þær Sunna og Elva, sem báðar sitja í stjórn Framsýnar-ung fengu smá gjöf frá Framsýn í tilefni af því að þær eignuðust nýlega börn. Þær létu það ekki aftra sér og mættu galvaskar á fundinn.

Greiðslur úr Félagsmannasjóði SGS sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn

Félagsmenn aðildarfélaga SGS sem starfa hjá sveitarfélögum fá í samræmi við síðustu kjarasamninga greitt 1,5% af launum sínum í Félagsmannasjóð SGS. Þetta á við um félagsmenn Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum.

Greitt var úr sjóðnum í fyrsta sinn 1. febrúar síðastliðinn og hafa nú verið greiddar rúmar 218 milljónir króna til tæplega 5.000 félagsmanna.

Félagsmönnum aðildarfélaga SGS, sem starfa hjá sveitarfélögum, og ekki hafa fengið greitt úr sjóðnum er bent á að fylla út þetta form.

Greitt verður úr sjóðnum með reglubundum hætti næstu mánuði.

Framsýn ályktar um vanda lágtekjufólks

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær ásamt stjórn Framsýnar- ung. Dagskrá fundarins var löng en tæplega 30 mál voru tekin til umræðu og afgreiðslu á fundinum. Eftir umræður um stöðu lágtekjufólks samþykkti fundurinn samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðuna sem að mati fundarmanna væri langt frá því að vera boðleg.

Ályktun um vanda lágtekjufólks
-Framsýn kallar eftir aðgerðum-

„Framsýn stéttarfélag krefst þess að stjórnvöld grípi þegar í stað til tímabundinna aðgerða til að bæta kjör atvinnuleitenda, jafnframt því að auka stuðning við lágtekjufólk til lengri tíma.

Verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir auknum stuðningi við atvinnuleitendur og að komið verði til móts við lágtekjufólk í landinu með sértækum aðgerðum, bæði karla og konur. Í dag eru lægstu laun samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands kr. 331.735,- á mánuði, sem er langt undir öllum framfærsluviðmiðum.

Að mati Framsýnar á það að vera eitt af forgangsmálum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að bæta stöðu þessa hóps s.s. með hækkun lægstu launa og hækkunum á barnabótum, vaxtabótum og húsnæðisbótum. Þá verði tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið lengt og grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar.

Framsýn kallar jafnframt eftir auknum framlögum til byggingar leiguhúsnæðis í almenna íbúðakerfinu og að Bjarg íbúðafélag horfi til þess að byggja eða fjárfesta í íbúðum sem víðast um landið í stað þess að horfa nær eingöngu á suðvesturhornið.  

Þörfin fyrir ódýrt og öruggt íbúðarhúsnæði er til staðar víða um land. Við því þarf að bregðast með aðkomu stjórnvalda, fjármálastofnanna og verkalýðshreyfingarinnar í gegnum  Bjarg íbúðarfélag, sem ætlað er að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu, án hagnaðarmarkmiða.“ 

Öflugt trúnaðarmannakerfi hjá Framsýn

Framsýn leggur mikið upp úr því að vera með öfluga trúnaðarmenn á vinnustöðum og í dag eru starfandi á fjórða tug trúnaðarmanna á vinnustöðum á félagssvæðinu. Á stjórnarfundi Framsýnar í gær var gengið frá tveimur nýjum trúnaðarmönnum, annars vegar fyrir starfsmenn Olís á Húsavík og hins vegar fyrir áhöfnina á Pálínu Þórunni GK 49. Á vinnustöðum þar sem starfandi eru fleiri en fimm starfsmenn ber að kjósa trúnaðarmann. Rétt er að hvetja þá vinnustaði sem ekki hafa þegar kjörið sér trúnaðarmann að gera það og tilkynna það síðan til Skrifstofu stéttarfélaganna. Til að efla trúnaðarmenn í starfi stendur þeim til boða að fara á trúnaðarmannanámskeið. Næsta námskeið, sem er tveggja daga námskeið, verður haldið 19 til 20. apríl. Námskeiðið er trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu auk þess sem þeir halda launum meðan þeir sitja námskeiðið. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

(Meðfylgjandi mynd er tekin af heimasíðu Nesfisks) 

Samstarfssamningur endurnýjaður við VÞ

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík og Verkalýðsfélag Þórshafnar hafa endurnýjað samstarfssamning um þjónustu við félagsmenn Verkalýðsfélags Þórshafnar. Aðilar hafa um margra ára skeið átt mjög gott samstarf um sameiginleg mál er varða starfsemi og rekstur stéttarfélaga og endurspeglast í endurnýjuðum samningi. Í samningnum er m.a. kveðið á um að samningsaðilar séu sammála um að vinna sameiginlega að málefnum félagsmanna, atvinnulífs og byggðarlagsins í heild sinni með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Samningurinn miðast við að félagsmenn, fyrirtæki og stofnanir á félagssvæði Verkalýðsfélags Þórshafnar leiti til skrifstofu félagsins á Þórshöfn varðandi sín mál er tengjast starfsemi stéttarfélaga. Það er, áður en leitað er til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík eftir frekari þjónustu. Í þeim tilvikum sem félagsmenn eða starfsmenn VÞ leita til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík skulu starfsmenn stéttarfélaganna leitast við að veita viðkomandi aðilum viðunandi þjónustu. Það sama á við um fyrirtæki og stofnanir á félagssvæði VÞ sem leita til Skrifstofu stéttarfélaganna enda tengist fyrirspurnirnar starfsemi VÞ.

Með samningnum fá félagsmenn Verkalýðsfélag Þórshafnar aðgengi að lögmanni Framsýnar sem og kjörum félagsmanna Framsýnar á flugmiðum með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Reykjavík-Húsavík. Sama á við um önnur kjör s.s. vegna hótelgistinga/skoðunargjalda bifreiða sem Framsýn kann að semja um fyrir sína félagsmenn á hverjum tíma enda verði hægt að heimfæra slík kjör á félagsmenn VÞ. Þá skulu félagsmenn Verkalýðsfélags Þórshafnar hafa aðgengi að orlofshúsum/íbúðum til jafns við félagsmenn aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna á orlofstímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst ár hvert. Utan hefðbundins orlofstíma (1. júní til 31. ágúst) skulu félagsmenn VÞ hafa aðgengi að orlofsíbúðum stéttarfélaganna Framsýnar/Þingiðnar í Reykjavík/Kópavogi, næst á eftir félagsmönnum Framsýnar/Þingiðnar. Sömuleiðis skulu aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa aðgang að orlofshúsum VÞ í Kjarnaskógi, næst á eftir félagsmönnum þeirra.

Þá er um það samið að Verkalýðsfélag Þórshafnar hafi aðgengi að vinnustaðaeftirliti aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Samstarfssamningurinn hefur tekið gildi og greiðir Verkalýðsfélag Þórshafnar ákveðna þóknun fyrir veitta þjónustu til Skrifstofu stéttarfélaganna.