Málefnalegt þing SGS

Því miður hefur lítið farið fyrir helstu ályktunum 8. Þings Starfsgreinasambands Íslands sem haldið var á Akureyri í síðasta mánuði. Fjölmiðlar virtust bara áhuga fyrir kosningum til trúnaðarstarfa innan sambandsins.  Hægt er að nálgast ályktanir þingsins inn á vef sambandsins sgs.is undir Þing. Við birtum hér eina góða ályktun þingsins sem fjallar um áherslur sambandsins í atvinnumálum:

Ályktun um atvinnumál

Góð störf og örugg atvinna er forsenda mannlífs og byggðar um land allt. Áhrif breyttra atvinnuhátta eru misjöfn um byggðir landsins. Störfum fækkar verulega í landbúnaði og fiskvinnslu ásamt því að færast á færri svæði. Ný störf í ferðaþjónustu og fiskeldi vinna gegn þessari þróun. Vanfjárfesting í innviðum vinnur gegn uppbyggingu byggðar, atvinnulífs og iðnaðar á landsbyggðinni. Innviðir samfélagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verða að vera í fremstu röð um land allt og styðja við byggðafestu og atvinnusköpun. Nýsköpun verði stórefld með áherslu á sjálfbær, græn störf og skapandi greinar með það að markmiði að fjölga burðarásum atvinnulífsins. Dregið hefur úr atvinnuleysi tengdu heimsfaraldri. Þó eru enn yfir tíu þúsund einstaklingar án atvinnu. Starfsgreinasamband Ísland leggst eindregið gegn styttingu bótatímabils atvinnuleysisbóta. Efla þarf þjónustu við atvinnuleitendur og aðgengi atvinnuleitenda að úrræðum sem styrkja stöðu á vinnumarkaði. Fyrirséð er að ferðaþjónustan mun sækja í sig veðrið að nýju nú þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldurs á heimshagkerfið. Þó áhrif þessa séu jákvæð á vinnumarkaði þekkir verkalýðshreyfingin of vel hvernig uppgangur ýtir undir launaþjófnað og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Starfsgreinasambandið krefst þess að viðurlög við launaþjófnaði verði lögfest og að vinnustaðaeftirlit og heimildir stjórnvalda í samstarfi við stéttarfélög til upplýsinga frá atvinnurekendum séu skýrar og hafnar yfir allan vafa. Annað kemur einfaldlega ekki til greina.

  1. þing Starfsgreinasambands Íslands haldið á Akureyri 23-25. mars 2022 krefst þess:
  • Að innviðafjárfesting verði stórefld og innviðir samfélagsþjónustu, samgangna, fjarskipta og raforku verði í fremstu röð um land allt og styðji við atvinnusköpun.
  • Að horfið verði frá niðurskurði í heilbrigðis- og skólamálum á landsbyggðinni sem vinnur gegn því að atvinna og mannlíf geti þrifist utan höfuðborgarsvæðisins.
  • Að hvatar verði innleiddir til að fyrirtæki staðsetji starfsemi, nýsköpun og framleiðslu á landsbyggðinni, t.d. með breytingu á tryggingargjaldi, flutningskostnaði eða félagslegum tilfærslum eftir svæðum.
  • Að unnið verði að því að fjölga grænum, sjálfbærum störfum þar sem verðmætasköpun byggir á markmiðum um sjálfbærni.
  • Að grunnbætur atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar í 95% af tekjutryggingu, úr 85% eins og reglur kveða á um í dag.
  • Að tekjutenging taki gildi frá fyrsta degi atvinnuleysis og gildi í 6 mánuði.
  • Að bótatímabil atvinnuleysistrygginga verði ekki stytt.
  • Að þjónusta við atvinnuleitendur verði markvisst aukin og einstaklingsmiðuð til að draga úr atvinnuleysi.
  • Að viðurlög við launaþjófnaði verði lögfest. • Styrkja þarf stöðu fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði.
Deila á