Tvær góðar

Þegar komið er inn í menningarhúsið Hof á Akureyri ætti ekki fram hjá neinum skúlptúr úr timbri eftir listakonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur, af glæsilegri konu á íslenskum búning. Konan, sem er í  fullri líkamsstærð tyllir sér á bekk og við hlið hennar er eins konar kjörkassi. Listaverk Aðalheiðar er af Vilhelmínu Lever (1802-1879), en hún var fyrst íslenskra kvenna til að kjósa í bæjarstjórnarkosningum árið 1863. Vilhelmína rak verslun og veitingasölu á Akureyri og var sögð afbragðskona, velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra og dugleg til ýmiss konar framkvæmda og athafna. Hún var fylgin sér og lét ekki hlut sinn svo glatt.

Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi árið 1862 og samkvæmt nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Í þýðingu reglugerðarinnar sem var þýdd og staðfærð úr  dönsku, kom fram að allir fullmyndugir menn, („alle fuldmyndige Mænd“) sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borgað tvo ríkisdali í gjöld, hefðu kosningarétt. Vilhelmína taldi sig réttilega falla undir öll þessi ákvæði, dreif sig á kjörstað og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Í danska textanum átti orðið „Mænd“ örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð „menn“ en ekki „karlar“ fékk Vilhelmína að kjósa. Það hefur því líklega verið þýðingarvilla sem varð til þess að hún fékk sínu framgengt, en málið er enn hin mesta ráðgáta. Nítján árum síðar samþykkti Alþingi Íslendinga að veita takmörkuðum hópi kvenna kosningarétt.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti að færa bæjarbúum listaverk Aðalheiðar að gjöf, til að heiðra minningu Madame Vilhelmínu Lever, í  tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna til Alþingis árið 2015.

Kjörkassinn við hlið Vilhelmíu er í senn tákrænn og notaður sem hugmyndabanki. Geta gestir sett í hann skrifuð skilaboð með hugmyndum um skapandi verkefni sem gætu orðið konum til hagsbóta eða framdráttar með einhverjum hætti. Með henni á myndinni er María Jónsdóttir sem tók nýlega þátt í þingi Starfsgreinasambands Íslands sem fram fór í Hofi.

 

 

Deila á