Það er afar vinsælt hjá ferðamönnum að heimsækja Þingeyjarsýslurnar enda margir fallegir og heillandi staðir á þessu fallega landshorni. Þessi mynd var tekin við Goðafoss í morgun þar sem ferðamenn röltu um og skoðuðu einn fallegasta foss landsins.

Það er afar vinsælt hjá ferðamönnum að heimsækja Þingeyjarsýslurnar enda margir fallegir og heillandi staðir á þessu fallega landshorni. Þessi mynd var tekin við Goðafoss í morgun þar sem ferðamenn röltu um og skoðuðu einn fallegasta foss landsins.
Hefð er fyrir því að Framsýn bjóði íbúum Raufarhafnar og nágrennis í kaffi og meðlæti föstudaginn fyrir Sjómannadaginn. Síðasta föstudag var komið að því að bjóða til veislu sem gekk afar vel þar sem tæplega hundrað manns þáðu boðið. Á staðnum voru formaður Framsýnar og stjórnarmenn sem tóku vel á móti fólkinu og spjölluðu við það auk þess að þjóna þeim til borðs.
Heiðrun sjómanna fór fram í dag í félagsaðstöðu Eldri borgara á Húsavík. Að þessu sinni voru sjómennirnir Hreinn Jónsson og Aðalsteinn Ólafsson heiðraðir fyrir áratuga sjómennsku auk þess sem eiginkonur þeirra fengu blómvönd að gjöf frá Sjómannadeild Framsýnar sem sá um heiðrunina. Það var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sem flutti ávarp við heiðrunina og gerði samkomunni grein fyrir lífshlaupi þeirra félaga til sjós. Hér má lesa ávarp Aðalsteins Árna en auk hans kom formaður Sjómannadeildar Framsýnar að heiðruninni, Jakob Gunnar Hjaltalín, samkoman í dag var fjölmenn:
Ágæta samkoma!
Ég vil byrja á því að óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn og reyndar okkur öllum þar sem við flest tengjumst sjómennskunni á einn eða annan hátt.
Hefð er fyrir því hér á Húsavík að halda Sjómannadaginn hátíðlegan og heiðra húsvíska sjómenn fyrir vel unnin störf. Sjómannadeild Framsýnar hefur séð um heiðrunina undanfarin ár. Með mér hér í dag er Jakob Gunnar Hjaltalín formaður deildarinnar.
Því miður hefur heiðrunin fallið niður síðustu tvö ár sem tengist heimsfaraldri og ástæðulaust er að nefna hér frekar og flestir vilja gleyma.
Hetjur hafsins sem við ætlum að heiðra hér í dag eiga það sameiginlegt að hafa helgað sig sjómennskunni frá unglingsárum, nánast út æviskeiðið. Þeir byrjuðu báðir ungir að árum að upplifa stemninguna neðan við Bakkann sem var einstök á þeim tíma. Þar iðaði allt af lífi. Beitt var í flestum skúrum, ef menn voru ekki að beita voru þeir að fella net eða stokka upp bjóð. Það hjálpuðust allir að í þá daga, bæði ungir sem aldnir. Það var ekki í boði að sitja hjá.
Þetta eru félagarnir, Aðalsteinn Ólafsson og Hreinn Jónsson sem eru vel að því komnir að vera heiðraðir hér í dag.
Hreinn Jónsson:
Hreinn Jónsson eða Dilli eins og hann er oftast kallaður er fæddur á Húsavík 16. desember 1946, nánar tiltekið á Torginu. Foreldrar hans voru Álfheiður Eðvaldsdóttir og Eysteinn Gunnarsson, sem gekk honum í föðurstað.
Hreinn er kominn af mikilli sjómannafjölskyldu. Það kom því ekki á óvart að hann byrjaði ungur að árum að sniglast í beitningaskúrunum neðan við Bakkann. Á sínum langa sjómannsferli hefur Hreinn stundað sjómennsku og útgerð, auk þess að stýra fiskvinnslu í landi.
Á þessum tíma, þegar Hreinn var mjög ungur, átti faðir hans ásamt öðrum Hrönnina TH 36 sem þótti nokkuð mikill bátur á þeim tíma, enda um 15 tonn.
Þetta voru þeir Siggi Stísi og Aggi í Skuld. Það var stíft róið á Hrönn og einhverjar ákúrur fengu þeir fyrir að virða ekki daga sem öðrum þóttu heilagir. Allar vinnandi hendur komu að góðum notum og þar brást Hreinn ekki. Hann byrjaði á því að vinna í landi við bátinn þegar færi gafst til þess, þar til hann þótti gjaldgengur til sjós á sumarvertíð. Þórarinn Vigfússon eða Tóti í Jörfa var þá með bátinn.
Hreinn vildi skoða sig aðeins um og fór til Norðfjarðar um tíma þegar hann var 16 ára gamall. Þar byrjaði hann að vinna í landi í fiski áður en hann réði sig á Stefán Ben NK, sem var um 150 tonna bátur gerður út á línu, þorskanet og síld.
En hugurinn leitaði aftur heim. Hann réði sig hjá Kalla í Höfða á Sæborgina ÞH 55 sem gerð var út á snurvoð, áður en hann réði sig á Pétur Jónsson ÞH 50 sem gerður var út frá Sandgerði yfir vetrarvertíðina. Í brúnni stóð Tóti í Jörva. Hreinn var einnig á Pétri Jónssyni ÞH á síldarvertíð yfir sumarið.
Eftir um ársveru á Pétri Jónssyni ÞH hélt Hreinn yfir til Vestmannaeyja, þar sem hann munstraði sig á Eyjabergið VE 130, sem var tæplega 100 tonna stálbátur gerður út á net og fiskitroll.
Hreinn hefur verið heppinn til sjós í gegnum tíðina, samt sem áður var hann um borð í Eyjaberginu þegar báturinn strandaði á Faxaskerinu við Vestmannaeyjar árið 1966, mannbjörg varð en báturinn eyðilagðist. Hreinn var þá tvítugur að aldri.
Nú skyldi haldið heim til Húsavíkur, þangað sem Hreinn fór og réði sig hjá Útgerðarfélaginu Vísi. Þar átti hann góða tíma í nokkur ár á bátum Vísis, þeim Svani ÞH 100 og Sigþóri ÞH 100 með Ingvari Hólmgeirssyni skipstjóra og Hörður Þórhallsson stóð vaktina í landi. Hreinn var ekki bara á sjó heldur beitti hann í landi auk þess að taka til hendinni í fiskverkun sem Vísir rak um tíma.
Hreinn stundaði um tíma útgerð frá Húsavík annars vegar með þeim bræðrum Viðari og Guðmundi Eiríkssonum sem gerðu út bátinn Eirík ÞH, sem var 12 tonna bátur og hins vegar með Kristjáni bróður sínum og Eymundi Kristjánssyni sem gerðu út trilluna Sjóbirting ÞH. Bátarnir voru gerðir út á línu og handfæri.
Þegar þarna var komið ákvað Hreinn að flytja suður og að sjálfsögðu réði hann sig á bát, reyndar urðu þeir nokkrir auk þess sem hann beitti einnig í landi. Þetta voru bátarnir Ægir Jóhannsson ÞH, Sigrún GK og Snæfari ÞH.
Það má Hreinn eiga, að hann hefur sem betur fer, alltaf skilað sér aftur heim eftir að hafa farið á vertíðir víða um land. Eftir nokkra ára dvöl á höfuðborgarsvæðinu flutti Hreinn aftur heim til Húsavíkur og réði sig hjá Ugga fiskverkun ehf. sem var með útgerð og fiskvinnslu, það er hjá Ólafi Sigurðssyni. Hann byrjaði á því að sjá um fiskvinnsluna í landi áður en hann fór aftur á sjó á báta í eigu útgerðarinnar, nú síðast var hann á Haferninum ÞH 26 sem er skráður um 30 tonna stálbátur. Bátarnir í eigu Ugga voru aðallega gerðir út á snurvoð, net, línu og rækjutroll. Þegar Hreinn varð sjötugur fyrir nokkrum árum, batt hann Haförninn ÞH í síðasta sinn við bryggju og gekk stoltur frá borði eftir áratuga veru til sjós.
Eins og fram hefur komið á Hreinn farsælan og giftusamlegan ferill sem sjómaður við Íslandsstrendur, sem ber að virða.
Hreinn er giftur Svanhildi Þorleifsdóttur og búa þau á Húsavík. Saman eiga þau fimm börn, en þau voru bæði gift áður.
Hreinn, hafðu bestu þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina.
Aðalsteinn Ólafsson:
Aðalsteinn Ólafsson eða Alli eins og hann er oftast kallaður er fæddur á Húsavík 31. mars 1953. Foreldrar hans voru Ásgerður Júlíusdóttir og Ólafur Jón Aðalsteinsson. Aðalsteinn er giftur Huldu Sigríði Ingadóttir og eru þau búsett á Húsavík. Þau eiga fjögur börn.
Aðalsteinn stóð vart fram úr hnefa þegar hann byrjaði að venja komur sínar niður á bryggju. Alli bjó sem barn í Brún á Höfðaveginum og því var mjög stutt að fara niður í fjöru. Reyndar ber mörgum saman um að fjaran hafi verið, hér á árum áður, helsta leiksvæði barna og unglinga á Húsavík.
Faðir Aðalsteins var sjómaður og útgerðarmaður um tíma, en síðar starfaði hann sem hafnarvörður. Þegar Alli var um sjö ára gamall byrjaði hann að fara í róðra með föður sínum á Sæborginni ÞH 55 sem hann gerði út ásamt félögum sínum. Fyrir fermingu var Alli byrjaður að stokka upp bjóð en fljótlega upp úr því fór hann að beita, þrátt fyrir að hugur hans leitaði frekar út á sjó.
Draumurinn varð að veruleika haustið 1969 en þá réði hann sig sem háseta á Sæborgina ÞH með Aðalsteini frænda sínum Karlssyni skipstjóra, þá 15 ára gamall. Gert var út á línu og þorskanet.
Alli var þar í nokkur ár þar til hann fór á Svaninn ÞH 100 frá Húsavík með skipstjóranum Ingvari Hólmgeirssyni. Þar var hann í þrjú ár eða til ársins 1976. Svanur ÞH stundaði línu og þorskanet.
Alli söðlaði um og réði sig á togarann Júlíus Havsteen ÞH 1 við komu hans til Húsavíkur, fyrsta skuttogara Húsvíkinga sem var smíðaður á Akranesi og afhentur Útgerðarfyrirtækinu Höfða árið 1976. Togarinn var tæplega 300 brúttórúmlestir að stærð. Reyndur skipstjóri frá Akureyri, Benjamín S. Antonsson, var fenginn til að vera með skipið.
Um borð í Júlíusi var Alli bæði háseti og bátsmaður. Hann stökk á milli togara í eigu Höfða hf. þegar nýr togari í eigu útgerðarfyrirtækisins kom til Húsavíkur vorið 1981, smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri. Togarinn sem var um 430 brúttórúmlestir fékk nafnið Kolbeinsey ÞH 10. Flestir úr áhöfn Júlíusar Havsteen fylgdu Alla yfir á nýja togarann þar sem hann hélt sínu starfi sem háseti og bátsmaður. Bæði Júlíus og Kolbeinsey voru gerð út á fiskitroll.
Eftir góða tíma á Kolbeinsey ÞH fór hann aftur um borð í Júlíus Havsteen ÞH, það er eftir að skipinu var breytt í frystitogara. Skipstjóri var Jóhann Gunnarsson sem Alli kunni vel að meta. Togarinn var gerður út á rækjutroll og frysti aflann um borð.
Árið 1989 var kominn tími á breytingar, Alli fór suður til Reykjavíkur og réði sig á fjölveiðiskipið Helgu RE 49 með skipstjóranum Geir Garðarssyni. Þar var hann í þrettán ár á fjórum skipum með sama nafni í eigu sömu útgerðar sem háseti og bátsmaður.
Áður en hann kom aftur heim til Húsavíkur réði hann sig um tíma á Röstina SK 17 sem gerð var út á rækju frá Sauðárkróki. Þingeyingurinn Jón Árni Jónsson var í brúnni.
Eftir stutta veru á Krók var kominn tími á breytingar. Alli hélt heim til Húsavíkur og réði sig hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants árið 2005 og síðar Norðursiglingu þar sem hann starfar í dag sem skipstjóri, en þar hefur hann reyndar verið allt frá því að hann réði sig á hvalaskoðunarbáta frá Húsavík.
Í stað þess að halda út á Skjálfandann á fiskiskipum í aflaleit stendur Alli nú keikur í brúnni á hvalaskoðunarbát. Hann leysir landfestar og tekur stefnuna út á Skjálfandann flesta daga með drekkhlaðinn bát af áhugasömum ferðamönnum frá flestum heimsálfum í leit að ævintýrum þar sem sjófuglar fljúga yfir bátnum og hvalir af öllum stæðum og gerðum heilsa með blæstri, auk þess að leika listir sínar við bátana við mikinn fögnuð gestanna. Vissulega er það ólýsanleg upplifun fyrir karlinn í brúnni að líða um hafflötinn við heimskautsbaug, um borð í fallegum íslenskum eikarbát, umkringdur hvölum, fuglalífi og ægifagurri náttúru. Ekki skemmir fyrir að um borð eru ferðamenn sem eiga ekki til orð til að lýsa upplifuninni og fegurðinni á Skjálfanda, þökk sé mönnum eins og Aðalsteini Ólafssyni sem átt hefur farsælan feril til sjós hvort heldur á fiskiskipum eða hvalaskoðunarbátum.
Aðalsteinn hafðu líkt og Hreinn bestu þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina. Ykkar framlag er ómetanlegt.
Heiðursmenn, viljið þið koma hér ásamt eiginkonum Svanhildi og Huldu Sigríði og taka við örlítilli viðurkenningu fyrir ykkar frábæra starf í gegnum tíðina í þágu lands og þjóðar. Með mér er Jakob Gunnar Hjaltalín formaður Sjómannadeildar Framsýnar sem mun veita ykkur viðurkenningarnar.
Jóhannes Sigurjónsson ritstjóri frá Húsavík lést á Landspítalanum við Hringbraut 9. júní, 68 ára að aldri.
Jóhannes var fæddur í Bolungarvík 16. febrúar 1954 en flutti til Húsavíkur 1957 þar sem hann bjó að mestu til æviloka.
Hann var sonur hjónanna Herdísar Guðmundsdóttur og Sigurjóns Jóhannessonar, næstelstur í hópi sex systkina.
Jóhannes lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörn 1974 og stundaði nám í ensku og íslensku við HÍ 1974–1978. Hann starfaði sem blaðamaður og ritstjóri á Húsavík samfellt frá 1979 þar til hann lét af störfum 2020. Hann var einn af stofnendum Víkurblaðsins á Húsavík sem hóf göngu sína 1979 og kom út samfellt til 1996. Hann var um skeið blaðamaður á Degi þar til hann tók við ritstjórn Skarps 2002. Jóhannes sat í stjórn Samtaka bæjar- og héraðsfréttablaða 1991–1992 og var virkur í starfi félagsins um langt skeið.
Eftir Jóhannes hafa komið út þrjú kver af Sönnum þingeyskum lygasögum auk ljóðabókarinnar Æpt varlega. Þá skrifaði hann nokkur leikrit, söngtexta, greinar og viðtöl í ýmis tímarit og bækur. Jóhannes lætur eftir sig fimm börn.
Útför Jóhannesar fer fram frá Húsavíkurkirkju 20. júní kl. 11.00.
Mynd: Aðalsteinn Árni Baldursson
Umfjöllun: Fréttablaðið
Sjómannadeild Framsýnar óskar sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með sjómannadaginn.
Að venju sér Sjómannadeild Framsýnar um heiðrun sjómanna á Sjómannadaginn á Húsavík sem er á morgun sunnudag. Í ár verða tvær hetjur hafsins heiðraðir fyrir vel unnin störf til fjölda ára til sjós. Heiðrunin fer fram í sjómannadagskaffinu í Hlyn, það er í félagsaðstöðu eldri borgara að Garðarsbraut 44. Heiðrunin sjálf fer fram kl. 15:00 en húsið opnar kl. 14:00 fyrir kaffiveitingar, sjá frekar auglýsingu í Skránni.
Nú er lokaspretturinn á Alþingi fyrir sumarfrí og þrefað og samið um hvaða mál ná framgangi og hver ekki. Það er áhugavert að fylgjast með því, þar sem þetta eru síðustu þinglok á þessu kjarasamningstímabili og því síðustu forvöð að gera þær lagabreytingar sem lýst var yfir að ætti að gera í tengslum við kjarasamningana 2019.
Förum aðeins yfir þetta:
Frumvarp sem kemur í veg fyrir kennitöluflakk hefur ekki enn fengist samþykkt þó enginn hafi í raun lýst andstöðu við það og það er ekki einu sinni til umræðu núna. Hvar tregðan liggur er óskiljanlegt en frumvarpið hefur dagað uppi trekk í trekk.
Frumvarp um ný starfskjaralög var lagt fram núna en verður ekki afgreitt. Þó margt sé til bóta í því frumvarpi er ljóst að mörg aðildarfélög innan ASÍ hafa fært rök fyrir því að frumvarpið taki ekki á launaþjófnaði eins og lofað var og því hefur ASÍ ekki þrýst á að frumvarpið nái fram að ganga.
Frumvarp um lífeyrismál sem lofað hefur verið síðan 2016 er loksins komið á lokametrana eftir miklar umræður en þar eru loksins lögfest 15,5% iðgjöld í lífeyrissjóði á almenna markaðnum eins og á hinum opinbera. Það er ekkert launungarmál að það hafa verið töluverð átök um frumvarpið innan verkalýðshreyfingarinnar. Einhverjir vilja sérhagsmuni og sértryggingu, á meðan aðrir vilja félagslega nálgun og samtryggingu. Niðurstaðan er tilgreind séreign, þar sem farið er bil beggja og í raun vísað til lífeyrissjóðanna að útfæra hvernig farið verður með tilgreinda séreign. Það er augljóst að búið er að finna málamiðlun og nauðsynlegt er að klára málið. Það gengur einfaldlega ekki að lífeyrisréttindi launafólks á almenna markaðnum eigi sér ekki lagastoð, að bara launafólk á hinum opinbera markaði búi að slíkum réttindum.
Frumvarp um húsaleigulög gengur allt of skammt, en er samt liður í þeirri vegferð að koma böndum á leigumarkaðinn. Skilyrði fyrir því er að skrá leigusamninga í gagnagrunn og það er lagt til í frumvarpinu. Að auki er búið að lofa enn frekari lagabótum í haust eftir nýlegt samráð í húsnæðismálum. Það er því afar mikilvægt að þetta frumvarp nái fram að ganga.
Frumvarp um vexti og verðtryggingu hefur dagað uppi í þinginu og þótti mörgum það ekki ganga nógu langt í þá átt að afnema svokölluð 40 ára lán. Frumvarpið er ekki til umræðu núna og því ekki í pakkanum sem verið er að semja um.
Þó tíundaðir séu hér nokkrir veigamiklir málaflokkar sem hafa orðið hornreka eftir síðustu kjarasamninga þá er líka vert að hafa það í huga að ýmislegt fleira hefur vissulega áunnist á tímabilinu: Breytingar á skattkerfinu, fæðingarorlof, bætt í tilfærslukerfin eins og barnabætur og fleira. Það er hins vegar ljóst að gengið verður til kjarasamninga með töluvert magn af óuppfylltum loforðum enn og aftur. Vonandi verður sá listi styttri en stefnir í núna og vona ég innilega að það náist að klára lífeyrisfrumvarpið og frumvarp um ný húsaleigulög. Svo skrifar forseti ASÍ.
Mikil gleði og hamingja fylgir því þegar nýtt barn kemur í heiminn. Það að sækja um fæðingarorlof getur þó verið stjarnfræðilega flókið fyrir marga verðandi foreldra. Ferlið er stundum ruglingslegt og það er óþarfa hausverkur fyrir verðandi foreldra sem hafa í nógu að snúast. Núna er hægt að sækja um fæðingarorlof á netinu.
Verðandi foreldrar, sem eru á vinnumarkaði og sjálfstætt starfandi, geta nú sótt um fæðingarorlof á einfaldan hátt. Umsóknarferlið fer í gegnum island.is. Ný stafræn umsókn um fæðingarorlof hefur síðustu misseri verið í vinnslu í samstarfi við Vinnumálastofnun og er enn í stöðugri þróun. Ferlið sækir sjálfkrafa öll þau gögn sem þurfa að fylgja umsókninni og sendir sjálfkrafa áfram til maka og atvinnurekanda til samþykktar. Enn er unnið að þróun umsóknar fyrir aðra hópa, einstaklinga sem hafa verið á atvinnuleysisbótum eða eru að koma úr fæðingarorlofi.
Hverjir hafa rétt til fæðingarorlofs?
Foreldri sem er í meira en 25% starfshlutfalli á rétt á launuðu fæðingarorlofi í sex mánuði. Greiðslur frá fæðingarorlofssjóði eru tekjutengdar og fær fólk 80% af meðaltali heildarlauna síðustu 12 mánuði. Þessu 12 mánaða tímabili lýkur sex mánuðum áður en barnið kemur í heiminn.
Fólk sem á von á barni, til dæmis 17. ágúst 2022, þarf að gefa upp tekjur á tímabilinu 17. mars 2021 til 17. mars 2022. Meðaltal launa fólks á þessu tímabili gilda í reikningi til orlofs.
Samkvæmt heimasíðu fæðingarorlofssjóðs eru lægstu greiðslur úr fæðingarorlofssjóði fæðingarstyrkir. Fæðingastyrkir eru fyrir foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í námi.
Fólk utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi á rétt á 87.062 kr. á mánuði í fæðingarstyrk. Ef fólk er í 75-100% námi fær það 199.522 kr. á mánuði í fæðingastyrk.
Fæðingarorlof foreldris í fullu orlofi eru 80% af meðaltali heildarlauna. Þó aldrei hærri en 600.000 kr. á mánuði. Tölurnar miðast við 2022 og er barnshafandi foreldrum bent á að klára stafræna umsókn á undan maka sínum.
Heimild mbl.is
Aðalfundur Þingiðar verður haldinn þriðjudaginn 14. júní kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn.
Dagskrá:
1.Venjuleg aðalfundarstörf
3. Réttindi félagsmanna við starfslok
4. Önnur mál
Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.
Stjórn Þingiðnar
Í tilefni af Sjómannadeginum um næstu helgi stendur Framsýn fyrir kaffiboði í Kaupfélaginu á Raufarhöfn föstudaginn 10. júní. Kaffi og tertur í boði frá Kvenfélagi Raufarhafnar. Opið hús verður frá kl. 16:00 til 18:00. Allir velkomnir og rúmlega það. Sjáumst í stuði á föstudaginn. Fulltrúar frá Framsýn verða á staðnum hressir að vanda.
Framsýn stéttarfélag
Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn mánudaginn 13. júní kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík.
Dagskrá:
Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn.
Stjórn STH
Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í gær, miðvikudaginn 1. júní, í Menningarhúsinu Hofi. Mæting á fundinn var góð en sjóðfélögum var einnig gefinn kostur á að fylgjast með fundinum í vefútsendingu. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf. Fundarstjóri var formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson.
Tryggvi Jóhannsson stjórnarformaður flutti skýrslu stjórnar og Jóhann Steinar Jóhannsson framkvæmastjóri fór yfir ársreikning og áritanir ásamt því að gera grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu. Jóhann Steinar fór einnig yfir fjárfestingarstefnu og hluthafastefnu sjóðsins í fjarveru fjárfestingastjóra.
Á fundinum voru lagðar fram fjórar tillögur að breytingum á samþykktum sjóðsins. Einar Ingimundarson lögmaður og Jóna Finndís Jónsdóttir forstöðumaður réttindasviðs, gerðu grein fyrir þeim breytingum og voru þær allar samþykktar.
Farið var yfir starfskjarastefnu sjóðsins sem er óbreytt frá fyrra ári og var hún samþykkt samhljóða. Þá var einnig samþykkt tillaga að KPMG sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins og tillaga að breytingu stjórnarlauna frá fyrra ári, í samræmi við hækkun á launavísitölu.
Stjórnarkjöri var lýst en stjórn sjóðsins var kosin á fulltrúaráðsfundi sjóðsins þann 4. maí sl. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:
Frá launamönnum:
Tryggvi Jóhannsson (varaformaður), Guðný Hrund Karlsdóttir, Oddný María Gunnarsdóttir og Sverrir Mar Albertsson.
Varamenn: Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.
Frá launagreiðendum:
Erla Jónsdóttir (formaður), Dagmar Ýr Stefánsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Halldórsson.
Varamenn: Guðrún Ingólfsdóttir og Páll Snorrason.
Þá var í samþykkt samhljóða nefnd um laun stjórnar. Í nefndinni sitja stjórnarformaður Stapa, Jens Garðar Helgason, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Þórarinn G. Sverrisson.
Gögn frá ársfundinum:
Ársfundur Lsj. Stapa fór fram í Hofi á Akureyri í dag. Að venju var kosið í stjórn sjóðsins. Framsýn samþykkti að tilnefna Guðnýju Hrund Karlsdóttir í stjórn sjóðsins til tveggja ára fh. sjóðfélaga í Þingeyjarsýslum. Guðný Hrund er félagsmaður í Framsýn stéttarfélagi.
Guðný Hrund Karlsdóttir er viðskiptafræðingur (Cand. Oecon) að mennt með viðbótar MA gráðu í fjölmiðla- og boðskiptafræðum. Hún hefur fjölbreytta reynslu frá einkageiranum og hinu opinbera.
Guðný Hrund er stofnandi og framkvæmdastjóri bókhalds- og ráðgjafafyrirtækisins Tvíhliða bókhald ehf. og situr í stjórn Íslandspósts. Hún var sveitarstjóri á Raufarhöfn 2002-2006 og í Húnaþingi Vestra 2014-2019. Áður starfaði hún hjá Streng hf., Maritech og WiseDynamics í Reykjavík, Akureyri, Noregi og Kanada sem viðskipta- og verkefnastjóri við innleiðingu viðskiptahugbúnaðar viðskiptavina í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum.
Guðný Hrund hefur sinnt fjölmörgum trúnaðar- og ábyrgðastöðum m.a. í stjórn Hafnarsambands Íslands, Eignarhaldafélags Brunabótafélags Íslands, Fallorku, Nýsköpunarsjóð Atvinnulífsins og sem formaður stjórnar Ábyrgðarsjóðs launa.
Faðir Guðnýjar Hrundar er Karl Steinar Guðnason fyrrverandi formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur í um tvo áratugi og varaformaður Verkamannasambands Íslands. Móðir Guðnýjar er Þórdís Þormóðsdóttir félagsráðgjafi.
Félagsmenn Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur skulu reikna með aðalfundum félaganna um miðjan júní. Reiknað er með að endurskoðendur félaganna skili bókhaldinu af sér í lok þessar viku og þá verði hægt að tímasetja fundina. Sjá frekari upplýsingar um endanlegar tímasetningar inn á heimasíðunni eftir helgina.
Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn miðvikudaginn 15. júní kl. 20:00 í fundarsal félagsins að Garðarsbraut 26, Húsavík.
Dagskrá:
Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.
Félagsmenn geta nálgast tillögur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar sem liggja fyrir fundinum á Skrifstofu stéttarfélaganna.
Húsavík 31. maí 2022
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar
Framsýn svaraði kalli Heilbrigðisstofnunar Norðurlands með að halda kynninu á kjarasamningum og lögum er tengjast kjörum starfsmanna HSN á Húsavík. Aðalsteinn J. Halldórsson tók að sér að sjá um kynninguna fyrir Framsýn en hún var ætluð nýliðum sem eru um þessar mundir að hefja störf hjá stofnuninni.
Landssamband ísl. verslunarmanna stóð fyrir formannafundi í Reykjavík í gær um mótun kröfugerðar vegna komandi kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins. Mjög gott hljóð var í fundarmönnum og mikill samhljómur var meðal þeirra. Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar á aðild að LÍV og fulltrúi frá félaginu tók þátt í fundinum. Mótuð voru drög að kröfugerð sem verður til frekari skoðunar hjá aðildarfélögum LÍV áður en gengið verður frá henni endanlega. Félögin hafa tíma til 3. júní til að koma frekari athugasemdum/ábendingum á framfæri varðandi endanlega kröfugerð. Fullur vilji er til þess að kröfugerð VR/LÍV verði sameiginleg, það er að aðildarfélög LÍV fari sameiginlega fram í kjaraviðræðurnar við Samtök atvinnulífsins sem hefjast á næstu vikum og mánuðum.
Um 80 börn og starfsmenn Leikskólans Grænuvalla á Húsavík gerðu sér ferð í Grobbholt í vikunni. Um er að ræða árvissa heimsókn á hverju vori. Í Grobbholti er haldinn smá dýragarður; Kindur, endur, hænur, dúfur og kanínur. Að sjálfsögðu var mikil gleði hjá unga fólkinu sem leit við í vikunni enda sauðburður í gangi og mikið að skoða. Á hverju vori hefur verið vinsælt hjá börnum á leikskólaaldri og reyndar á grunnskólaaldi líka að líta við í Grobbholti og skoða dýrin enda alltaf allir velkomnir í heimsókn. Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru úr heimsókn leikskólabarna í Grobbholt og eldri barna á grunnskólaaldri sem voru á ferðinni á sama tíma.
Því miður hafa stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Norðurlands ekki séð ástæðu til að svara erindi Framsýnar frá 10. maí 2022 varðandi beiðni um upplýsingar er varða sparnaðartillögur til að bregðast við fjárhagsvandanum hjá HSN.
Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar 17. maí kom fram hörð gagnrýni á vinnubrögð HSN varðandi útboð á þrifum. Samþykkt var að ítreka fyrra bréf og álykta um málið. Þá hefur Framsýn falið Hagdeild ASÍ að yfirfara útreikninga stofnunarinnar sem kynntir voru á starfsmannafundi með starfsfólki við ræstingar. Þar kom fram að töluverður sparnaður væri fólginn í því að bjóða þrifin út. Framsýn dregur verulega í efa að útreikningarnir séu réttir. Vitað er að starfsfólk við þrif og ræstingar hefur auk þess komið að öðrum störfum s.s. í bítibúrinu og þrifum utan stofnunar HSN.
Hagdeild ASÍ er tilbúin að yfirfara útreikningana fyrir Framsýn enda fái hagdeildin aðgengi að útboðsgögnunum. Það er í hverju útboðið var fólgið er snýr að starfsemi HSN á Húsavík og hvort allir þeir verkþættir sem ræstingarfólkið hefur séð um fram að þessu hafi verið með í útboðinu eða eitthvað undanskilið. Til viðbótar má geta þess, samkvæmt heimildum Framsýnar eru þessi kaup HSN á þrifaþjónustu virðisaukaskyld sem felur í sér aukakostnað fyrir stofnunina þar sem hún fær hann ekki endurgreiddan.
Hér má lesa ályktun fundarins:
Ályktun
-Um útboð HSN á ræstingum-
„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fordæmir þá ákvörðun Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) að bjóða út ræstingar á vegum stofnunarinnar á Norðurlandi. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er um að ræða viðbrögð stjórnenda við fjárhagsvanda HSN.
Hvað það varðar er athyglisvert að verða vitni að því að stjórnendur HSN hyggist taka á hallarekstrinum með því að setja krumlurnar í vasa þeirra lægst launuðu hjá stofnuninni. Þannig verði hægt að halda úti eðlilegri heilbrigðisþjónustu fyrir skjólstæðinga stofnunarinnar, það er með því að segja ræstingafólkinu upp störfum.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar dregur verulega í efa að útreikningur HSN sé réttur hvað varðar sparnað stofnunarinnar við að bjóða ræstingarnar út. Félagið hefur þegar óskað eftir upplýsingum frá HSN um útboðið og jafnframt falið Hagdeild ASÍ að yfirfara gögnin. Þess er vænst að Framsýn fái aðgang að gögnunum til að sannreyna framkomnar upplýsingar frá HSN um sparnað og upplýsingar um hvort/hvaða frekari sparnaðartillögur eru fyrirhugaðar.“
Okkur Fagraneskots fjölskyldunni langar til að bjóða ykkur velkomin heim til okkar í fjárhúsin, sunnudaginn 22. Maí 2022. Við ætlum að opna dyrnar og taka á móti öllum frá kl.11:00 til 15:00 sem áhuga hafa að sjá sauðburðar lífið og bjóða upp á kleinur og kakó. Við eflum til styrktar dags vegna þess að nú er að verða liðið hálft ár frá því Rán og fjölskyldunni hennar bárust þær erfiðu fréttir um slæmt ástand tvíburana þeirra. Móðir náttúra var ekki sanngjörn og annar tvíburinn bjó við lífshættulegar aðstæður í móðurkviði og var frá upphafi ekki hugað líf og þar af leiðandi var bróðirinn einnig í lífshættu. Rán er Pollýanna að eðlisfari og hefur alltaf reynt að vera hörð í gegnum allt sem lífið á hana kastar, hún hefur sýnt svo mikla þrautseigju og þolinmæði þrátt fyrir að alltaf blæs vindurinn á móti. En nú þarf hún á aðstoð okkar að halda.
24 . Mars 2022 voru drengirnir tveir sóttir með keisaraskurði á 29 viku meðgöngu og hafa barist hetjulega fyrir lífi sínu á vökudeild síðan og koma öllum á landspítalanum stanslaust á óvart.
Þetta er búið að vera langt ferli sem ekki sér fyrir endann á, þau Rán og Shay verða að meta alltaf einn dag í einu og hafa gert meira og minna allt þetta ár. Þau búa í lítilli sjúkraíbúð í Reykjavík og fengu hann Atlas loksins til sín um Páskana eftir langan aðskilnað. Það er ekki vitað en hvenær þau snúa heim aftur, en vonandi hafa tvíburarnir fljótlega heilsu til að verða fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri þá kæmist fjölskyldan allavega aðeins nær heimahögunum.
Það hafa fylgt þessu margar áskoranir á meðgöngunni, eins og t.d. Sjúkraferðir til Svíþjóðar, mörg flug til að sækja læknisþjónustu, flutningur til Reykjavíkur, atvinnu tap, röskun á heimilislífi svo ekki sé talað um áföllin sem fylgja því að vita ekki hvort börnin þín lifa eða deyja
Það er nógu erfitt líkamlega og andlega að standa í svona baráttu og okkur finnst að ekki ætti að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á allt saman. Því langar okkur að biðla til ykkar hvort þið séuð í stakk búin að veita litla fjárhagsaðstoð henni Rán og fjölskyldunni litlu.
Við munum vera með söfnunarbauk í fjárhúsunum sem hægt verður að setja pening í á staðnum en einnig höfum við opnað styrktarreikning til að safna inn á fyrir þau.
Reikningsnúmer: 1110 – 05 – 250441
Kennitala: 240594 – 4129
Frekari upplýsingar er hægt að afla hjá Patrycju Mariu í símanúmer 8645652.