Fundað með Samkeppniseftirlitinu um flugmál

Framsýn óskaði nýlega eftir fundi með Samkeppniseftirlitinu vegna stuðnings stjórnvalda við áætlunarflug innanlands sem að mati félagsins kallar á einokun í flugi á Íslandi. Fundurinn fór fram í Reykjavík síðasta þriðjudag. Fulltrúar frá Flugfélaginu Erni tóku einnig þátt í fundinum að beiðni Framsýnar. Eins og fram hefur komið í fréttum og Framsýn hefur vakið athygli á, er allt áætlunarflug á Íslandi með stuðning í formi ríkisstyrkja eða nýtur ríkisábyrgðar nema áætlunarflugið milli Reykjavíkur og Húsavíkur. https://www.ruv.is/frett/2021/08/30/hver-flugmidi-nidurgreiddur-um-106-thusund-kronur?fbclid=IwAR09lSxfUh6M2K22y4hAOLdBL30kH9E8Mykt1hrgw0HTwmUpkKF_mBSHL8w

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins um frumvörp sem voru samþykkt á Alþingi haustið 2020 og varða ríkisaðstoð til handa Icelandair er skýrt tekið fram að á þeim mörkuðum sem félagið og dótturfélög þess starfa, hafi eftirlitið verulegar áhyggjur af áhrifum ríkisaðstoðarinnar á samkeppni á viðkomandi mörkuðum. Þar kemur einnig fram að Air Iceland Connect(nú Icelandair) njóti mikilla yfirburða í innanlandsflugi. Það er á stærstu flugleiðum innanlands frá Reykjavík til Akureyrar, Egilsstaða og Ísafjarðar. Flugfélagið hafi nánast haft einokunarstöðu á flugi innanlands allt frá árinu 2000 þegar Íslandsflug hætti samkeppnisflugi á leiðunum. Ljóst sé að ríkisaðstoð sem styddi við rekstur Air Iceland Connect/Icelandair myndi hafa skaðleg áhrif á fyrirtæki á borð við Flugfélagið Erni í innanlandsflugi segir jafnframt í umsögninni.

Ljóst er að Þingeyingar hafa miklar áhyggjur af stöðu áætlunarflugs til Húsavíkur svo vitnað sé í yfirlýsingar frá hagsmunaaðilum, ekki síst frá stéttarfélögum og ferðaþjónustuaðilum á svæðinu. Svo virðist sem unnið sé að því að koma Flugfélaginu Erni útaf markaðinum með ýmsum brögðum sem Framsýn hefur þegar komið á framfæri við stjórnvöld og nú við Samkeppniseftirlitið þar sem stefnir í algjöra einokun á áætlunarflugi á Íslandi. Vísbendingar eru um að Flugfélagið Ernir eigi ekki auðvelt með að mæta þeim mikla mótbyr sem flugfélagið býr við um þessar mundir þar sem flugfélagið situr ekki við sama borð og Icelandair er viðkemur styrkjum eða annarri fyrirgreiðslu frá ríkinu.

Á fundinum með Samkeppniseftirlitinu var þessum skoðunum komið vel á framfæri. Í kjölfarið urðu góðar umræður um málið og umsögn eftirlitsins við ríkisaðstoðina til handa Icelandair. Samkeppniseftirlitið þakkaði sérstaklega fyrir þær upplýsingar sem lagðar voru fram á fundinum og fulltrúar þess sögðust taka þær til skoðunar innanhúss.  

Ítrekun á aðalfundi STH

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur (STH) verður haldinn mánudaginn 6. september 2021 kl. 20:00 í fundasal stéttarfélaganna. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi félagsins í hádeginu í dag.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
f) Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein
g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd

2. Önnur mál

Hægt er að nálgast tillögur stjórnar sem liggja fyrir fundinum á Skrifstofu stéttarfélaga að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Skorað er á félagsmenn til að mæta á fundinn og taka þátt í störfum félagsins. Boðið verður upp á kaffi, meðlæti og skemmtiatriði. Koma svo!

Stjórn STH

Verslun í heimabyggð – vandi og sóknarfæri matvöruverslana í dreifbýli

Í febrúar síðastliðnum gaf Emil B. Karlsson út skýrslu, styrkt af Byggðarannsóknasjóði sem ber heitið „Verslun í heimabyggð – greining á sóknarfærum dreifbýlisverslana“. Í skýrslunni er sameiginlegur rekstrarvandi dreifbýlisverslana greindur og tillögur settar fram fyrir stjórnvöld byggðamála og sveitastjórnir um æskilegar stuðningsaðgerðir. Rannsóknin byggir meðal annars á upplýsingum frá 22 litlum dreifbýlisverslunum um allt land og greiningu á reynslu þeirra. Þar kemur m.a. fram að helsti vandi dreifbýlisverslana felist í óhagkvæmum innkaupum, háum flutningskostnaði, samkeppni við lágvöruverðsverslanir og áhættufórn eigenda, þ.e. í einhverjum tilfellum hefur endurreisn verslunar verið með aðkomu íbúanna sjálfra og hugsjónastarfi þeirra, frekar en að vera rekin í hagnaðarskyni.

Eins og gefur að skilja er gríðarlega mikilvægt að halda úti verslun og þjónustu í brothættum byggðum en tilvist verslunar getur skipt sköpum um lífvænleika fámennra byggðalaga. Vítahringurinn er hins vegar sá að við fækkun íbúa þrengir að rekstrargrundvellinum. Þannig eru íbúar háðir því að hafa aðgengi að verslun en á sama tíma er verslunin háð því að íbúafjöldi nægi til að halda uppi rekstrinum.

Samkvæmt skýrsluhöfundi eiga verslanir sem starfræktar eru í minnstu byggðalögunum í mjög ójafnri samkeppni við stóru verslunarkeðjurnar á dagvörumarkaði hvað varðar innkaupsverð frá birgjum, sem leiðir til hærra vöruverðs til neytenda. Þetta leiðir til ójafnra skilyrða fyrir íbúa eftir búsetu og hvetur íbúa til þess að gera innkaup utan heimabyggðar þó óskir þeirra standi til þess að viðhalda verslun í heimabyggð.

Meðal helstu tillagna skýrsluhöfundar um aðgerðir til að efla rekstur dreifbýlisverslana er að koma á nánara samstarfi við stóru verslunarkeðjurnar með það fyrir augum að heimamenn í smærri byggðum reki sínar verslanir en hafi aðgang að innkaupum á sama eða svipuðu verði og lágvöruverðsverslanirnar. Þannig er reksturinn áfram í höndum eigenda verslunar í heimabyggð og verslunarkeðjan nýtur góðs af aukinni sölu. Þetta fyrirkomulag hefur verið viðhaft í nágrannalöndum okkar um langt skeið og hefur gefist vel.

Önnur tillaga miðar að því að dreifbýlisverslanir gætu sótt um opinberan fjárstuðning, annars vegar með veltutengdum styrkveitingum og hins vegar með niðurgreiðslu flutningskostnaðar með hliðsjón af umfangi vörukaupa og fjarlægð verslunar frá Reykjavík.

Einnig væri hægt að bjóða upp á sérsniðna ráðgjöf fyrir eigendur dreifbýlisverslana ásamt kynningum, fræðslu og bókhaldsþjónustu en kostnaður minnstu dreifbýlisverslananna við bókhald og uppgjörsmál er verulega íþyngjandi fyrir reksturinn.

Skýrslu Emils má nálgast með því að smella á hlekkinn. https://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/BRS/brs-2020-12-lokaskyrsla-emil.pdf   

Skýrslan byggir m.a. á upplýsingum og reynslu dreifbýlisverslana sem og á gögnum úr verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var á landsbyggðinni. Hér má nálgast verðkönnun ASÍ í stórmörkuðum um land allt og í minni verslunum á landsbyggðinni frá árinu 2020. 

https://www.asi.is/frettir-og-utgafa/frettir/verdlagsfrettir/verdkonnun-mikil-hreyfing-a-matvorumarkadi/

Hálfur milljarður úr ríkis­sjóði til innan­lands­flugs í fyrra

Innan­lands­flug hlaut styrk úr ríkis­sjóði upp á tæp­lega hálfan milljarð í fyrra, eða um 485 milljónir króna, en um er að ræða rúm­lega 25 milljóna króna aukningu frá árinu 2019. Á sama tíma fækkaði far­þegum tölu­vert milli ára og því um að ræða rúmlega 100 þúsund króna niðurgreiðslu á hvern farþega.

Þetta kemur fram í skrif­legu svari sam­göngu- og sveita­stjórnar­ráð­herra við spurningu Önnu Kol­brúnar Árna­dóttur, þing­manni Mið­flokksins, frá því í júní en RÚV greindi fyrst frá.

Ríkið niður­greiddi mest flug á Bíldu­dal og Gjögur árið 2020, eða upp á tæp­lega 215 milljónir króna, sem er hækkun um tæp­lega 68 milljónir króna milli ára. Þá var einnig flug niður­greitt á Vopna­firði, Þórs­höfn og Gríms­ey um tæp­lega 126 milljónir og Höfn um rúm­lega 144 milljónir króna, sem er lækkun milli ára.

Far­þega­fjöldi fyrir Bíldu­dal í fyrra var 1.917, 99 fyrir Gjögur, 863 fyrir Gríms­ey, 524 fyrir Vopna­fjörð, 455 fyrir Þórs­höfn, og 5.822 fyrir Höfn. Um er að ræða tölu­verða fækkun far­þega á öllum stöðum, fyrir utan Gjögur, milli ára.

Í heildina er flogið til 12 flug­valla um allt land af þremur flug­fé­lögum, Icelandair, Nor­landair, og Erni, en öll fé­lögin eiga það sam­eigin­legt að fljúga í gegnum Reykja­víkur­flug­völl.

Á­ætlunar­flug eru rekin á markaðs­legum for­sendum til fimm á­fanga­staða, Akur­eyri, Egils­staða, Ísa­fjarðar, Vest­manna­eyja og Húsa­vík. Vegna heims­far­aldurs Co­vid-19 voru þó flug­leiðir til Ísa­fjarðar og Egils­staða styrktar tíma­bundið.

Svarið í heild sinni má finna hér.

Þessi frétt er tekin úr Fréttablaðinu og fjallar um mál sem Framsýn hefur gert athugasemdir við. Það er að allt áætlunarflug á Íslandi sé ríkisstyrkt eða með ríkisábyrgð nema flugið til Húsavíkur. Forsvarsmenn Framsýnar munu funda með Samkeppniseftirlitinu í dag kl 14:00 og fara yfir málið þar sem félagið telur verulega halla á áætlunarflug til Húsavíkur, enda ekk ríkisstyrkt. Flugfélagið Ernir hefur séð um áætlunarflugið til Húsavíkur á markaðslegum forsendum.

Skoðunum Framsýnar komið á framfæri við stjórnmálamenn

Svo skrifar forseti ASÍ:

Á síðustu vikum hef ég, ásamt fleirum í forystu ASÍ, haldið ótal fundi með stjórnum aðildarfélaga ASÍ um allt land. Atvinnumál á hverjum stað og lífsgæði fólks almennt hafa verið stóru málin og mjög víða ríkir bjartsýni og uppgangur. Þó er áberandi hversu misjafnlega niðursveiflan kom niður á svæðum og enn eru sum svæði sem glíma við alvarlegar afleiðingar.

Samtalið við fjölda fulltrúa, stjórnarmanna og trúnaðarmanna færðu mér heim sanninn um að þær áherslur sem ASÍ lagði upp með í vor í aðdraganda þingkosninganna væru réttar: Húsnæðismálin eru ekki bara einn stærsti áhrifavaldur varðandi öryggi og afkomu fólks, heldur stendur húsnæðisskortur atvinnulífinu fyrir þrifum víða um land. Þar sem tilfinnanlegur skortur er á húsnæði fæst ekki fólk til starfa. Húsnæðismálin eru og verða eitt stærsta viðfangsefnið og það er skýlaus krafa að nálgast þau með félagslegum hætti þannig að öllum sé tryggt gott húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

Heilbrigðismálin voru líka ofarlega á baugi víða um land. Ekki bara öldrunarþjónustan og aðgengi að heilsugæslu, heldur einnig fæðingarþjónusta og langtíma meðferðir. Það er himinn og haf á milli þjónustu við dreifbýlið annars vegar og þéttbýlið hins vegar. Utan þéttbýlla svæða þarf fólk að nýta veikindadaga, orlof og á köflum launalaust leyfi til að dvelja langdvölum í Reykjavík eða á Akureyri til meðferðar og ef von er á barni. Þetta er bein kjaraskerðing við fólk eftir búsetu og bætist við þá fjölmörgu þætti sem þarf að endurskoða varðandi heilbrigðiskerfið okkar til að það þjóni öllum óháð efnahag eða búsetu. Fjölmörg önnur mál voru til umræðu en það er ljóst að áhrif tæknibreytinga á einstaka byggðir hafa verið og verða verulegar. Það beinir sjónum að því hvernig hægt er að tryggja að framleiðniaukningin og fækkun starfsfólks sem verður með tæknibreytingum skili sér raunverulega inn í samfélög og í auknum lífsgæðum, í gegnum hærri laun eða styttri vinnutíma. Þar ber að nýta hugmyndafræði réttlátra umskipta.

Takk kærlega fyrir frábærar móttökur kæru félagar!

Góða helgi,
Drífa

ASÍ þingi aflýst vegna Covid

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands tók þá ákvörðun á fundi sínum 18. ágúst að aflýsa málefnahluta þings sambandsins sem fara átti fram 8. og 9. september næstkomandi vegna samkomutakmarkanna og fjölda smita í samfélaginu.

44. þing Alþýðusambands Íslands var sett rafrænt 21. október sl. en vegna samkomutakmarkana sökum heimsfaraldurs var málefnavinnu frestað til framhaldsþings. Til stóð að halda framhaldsþingið í maí sl. en aftur var það ekki mögulegt vegna samkomutakmarkanna og var þinginu enn frestað til 8.–9. september nk. Enn eru í gildi samkomutakmarkanir og því ekki hægt að halda framhaldsþingið með venjubundnu sniði og þeirri nálægð og samvinnu sem málefnaþing krefst. Þótt notast yrði við sóttvarnahólf og ítrustu sóttvarnaráðstafna gætt, væri eftir sem áður umtalsverð hætta á að þingfulltrúar gætu þurft að sæta sóttkví eftir þingið og einnig mögulegt að sýkingar breiddust út. Þá yrði félagslíf í kringum þingið af mjög skornum skammti.

Af þessum sökum telur miðstjórn ASÍ ekki forsvaranlegt að halda þingstörfum til streitu og ákvað því á fundi sínum 18. ágúst að frekari þingstörfum verði aflýst og þinginu slitið.

Það borgar sig að vera í öflugu stéttarfélagi

Mikill metnaður er innan Framsýnar að gera vel við félagsmenn og veita þeim góða almenna þjónustu. Ekki síst aðhald í rekstri gerir það að verkum að Framsýn gerir almennt betur við sína félagsmenn en önnur sambærileg stéttarfélög gera á landsvísu. Sem dæmi má nefna að félagið greiðir félagsmönnum kr. 100.000,- auka námsstyrki fari þeir í nám eða sæki námskeið sem tengist þeirra störfum á vinnumarkaði. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga geta félagsmenn stéttarfélaga innan SGS fengið allt að kr. 390.000,- í námsstyrki. Það sama á við um félagsmenn Framsýnar enda innan SGS (Starfsgreinasamband Íslands) sem til viðbótar eiga rétt á viðbótarstyrk frá félaginu kr. 100.000,-. Að sjálfsögðu eru félagsmenn Framsýnar ánægðir með þennan rétt sem hefur komið þeim að góðum notum í kostnaðarsömu námi.

Á dögunum kom félagsmaður í heimsókn á skrifstofu Framsýnar til að þakka fyrir styrk sem þau hjónin höfðu fengið vegna tæknifrjóvgunar. Þau sögðu hann mun hærri en hjá öðrum almennum stéttarfélögum og fyrir það bæri að þakka enda afar kostnaðarsamt að fari í tæknifrjóvgun. Þau hefðu komist að þessu eftir samræður við fólk í öðrum félögum sem væru í sömu erindagjörðum og þau að vilja eignast börn með aðkomu heilbrigðisstétta. Eðlilega veltur verkafólk því fyrir sér hvaða styrkir eru í boði hjá þeim stéttarfélögum sem þau greiða til víða um land. Þar skorar Framsýn mjög hátt og því er mikil ásókn í félagið.

Heimasíðan tók sig til og skoðaði hvað önnur stéttarfélög innan SGS væru að gera varðandi stuðning við félagsmenn sem fara í glasa-, tæknifrjóvgun eða ættleiða börn.  Hér koma dæmi um þrjú stéttarfélög sem öll eru fjölmennari en Framsýn í samanburði við félagið. Samanburðurinn er því mjög góður.

Upplýsingarnar eru teknar af heimasíðum félaganna, stéttarfélögin eru ekki nafngreind en fá nöfnin Stéttarfélag 1-2-3, fyrir utan Framsýn:

Framsýn stéttarfélag:
Styrkur vegna glasa-, tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar greiðist samkvæmt reikningi að hámarki kr. 150.000, fyrir tvö skipti. Eigi báðir foreldrar rétt samkvæmt þessari grein greiðast tveir styrkir, í heildina allt að kr. 600.000,-.

Stéttarfélag 1:
Styrkur vegna glasa-, tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar greiðist samkvæmt reikningi að hámarki kr. 100.000, þó aðeins í eitt sinn. Eigi báðir foreldrar rétt samkvæmt þessari grein greiðast tveir styrkir.

Stéttarfélag 2:
Glasa-, tæknifrjóvgun. Styrkur er veittur tvisvar. Greitt er allt að kr. 100.000,- í fyrsta skipti og kr. 50.000 í síðara skiptið en þó að hámarki 50% af kostnaði.

Stéttarfélag 3:
Glasa-, tæknifrjóvgun. Kr. 60.000, þó aldrei hærra en 50% af reikningi, á þriggja ára fresti.

Atvinnuleysið á niðurleið

Um síðustu mánaðarmót voru 93 á atvinnuleysisskrá á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og hefur atvinnuástandið lagast verulega frá því í vetur. Hluti þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru á bótum á móti skertu starfshlutfalli. Það sem af er ágústmánuði hefur atvinnuleysið haldið áfram að fara niður á við sem eru gleðilegar fréttir og rúmlega það. Til viðbótar má geta þess að dæmi eru um að fyrirtæki hafi ekki getað haldið úti reglulegri starfsemi vegna vöntunar á starfsfólki, þannig að framboð á vinnu hefur verið töluvert á svæðinu.

Atvinnuleysið skiptist þannig milli sveitarfélaga:

Norðurþing                        51

Tjörneshreppur                1

Þingeyjarsveit                   19

Skútustaðahreppur        6

Langanesbyggð                16

Svalbarðshreppur           0

Aðalfundur STH

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur (STH) verður haldinn mánudaginn 6. september 2021 kl. 20:00 í fundasal stéttarfélaganna. Þetta var ákveðið á stjórnarfundi félagsins í hádeginu í dag.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár
b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár
c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna
d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund
e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein
f) Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein
g) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
h) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd

2. Önnur mál

Hægt er að nálgast tillögur stjórnar sem liggja fyrir fundinum á Skrifstofu stéttarfélaga að Garðarsbraut 26, Húsavík.

Skorað er á félagsmenn til að mæta á fundinn og taka þátt í störfum félagsins. Boðið verður upp á kaffi, meðlæti og skemmtiatriði. Koma svo!

Stjórn STH

Hugmyndir um heimavarnarlið

Barátta Framsýnar fyrir því að halda innviðum samfélagsins gangandi hefur vakið athygli fólks á félagssvæðinu sem lætur sig varða samfélagsmál. Málið var til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi félagsins í vikunni. Fram kom að félagið hefði fengið miklar þakkir fyrir að vekja athygli á málum eins og markaðsstöðu flugfélagsins Ernis, málefnum Húsasmiðjunar og starfsemi SSNE sem varð til við samruna Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Eyþings og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar sem því miður voru alvarleg mistök svo ekki sé meira sagt fyrir Þingeyinga. Í samtölum við íbúa á svæðinu hefur komið sterkt fram hvort ekki sé löngu tímabært að stofna sérstakt heimavarnarlið sem hefði það að markmiði að berjast fyrir stöðu íbúa á svæðinu. Vissulega er um að ræða mjög áhugaverða hugmynd sem full ástæða er til að skoða frekar.                         

Raulað í blíðunni

Að mála er ekki það skemmtilegasta sem ég geri, en það fylgir víst venjubundnu viðhaldi á eignum að taka sér pensil í hönd með það í huga að betrumbæta umhverfið. Í blíðunni hér á dögunum tók ég á mig rögg og klifraði upp á þak í þeim tilgangi að mála það. Þar barðist ég ber á ofan við málningarvinnuna, hlustandi á Rolling Stones. Væntanlega ekki falleg sjón.

Þar sem ég stóð niðursokkinn við vinnu mína, raulandi með tónlistinni heyrði ég  kallað frá næstu lóð, hvort ég væri ekki klár að koma í kirkjukórinn. Þá var mér hugsað til nágranna minna, sem eru heimsins bestu nágrannar, en þau hjónin hafa lengi tekið þátt í kórastarfi og sungið með kirkjukór Húsavíkurkirkju.

Ég hef alla tíð borið mikla virðingu fyrir fólki sem eftir langan vinnudag er tilbúið að gefa kost á sér í félagsstarf. Það á einnig við um þá sem hættir eru á vinnumarkaði en halda áfram sínu göfuga starfi með því að leggja samfélaginu lið með sjálfboðastarfi. Það er nefnilega ekki sjálfgefið að menn geri slíkt. Samfélag sem býr svo vel að hafa aðgang að slíku fólki er ekki á flæðiskeri statt.

Ég svaraði kalli nágranna minna og sagðist sem satt er, vera laglaus með öllu. Ég væri ekki tækur í kirkjukór þrátt fyrir mikinn vilja. Aftur var kallað: „ það geta allir sungið eða lært að syngja“. Ég svaraði um hæl að ég væri undantekningin, ég gæti bara ekki haldið lagi. Við það fjaraði umræðan út yfir söng meistara Jagger.

Ég hélt áfram að mála þakið og upp í hugann kom atvik þegar ég stundaði búfræðinám við Hvanneyri hér á árum áður. Innan skólans var mikið lagt upp úr öflugu kórastarfi sem þekktur kórstjóri í Borgarfirðinum fór fyrir. Öllum nemendum var gert að fara í áheyrnarpróf. Ég neitaði og sagðist laglaus, en kórstjórinn sagðist ekki hlusta á svona rugl. Ég væri Þingeyingur og hann hefði aldrei á sinni löngu æfi kynnst Þingeyingi sem ekki gæti haldið lagi. Það var sem sé ekki í boði að sniðgagna áheyrnarprófið, en það tók ekki langan tíma. Fljótlega eftir að ég byrjaði að syngja, ef söng skyldi kalla, var ég góðfúslega beðinn um að hætta strax. Kórstjórinn stundi upp úr sér: „takk þú reyndir, en söngur liggur greinilega ekki fyrir þér þrátt fyrir að þú sért Þingeyingur. Þú ert undantekningin sem ég taldi að væri ekki til“. 

Glaður hélt ég áfram að mála. Ég hafði ekki verið að skorast undan því að taka þátt í starfi kirkjukórsins. Laglaus maður með vottorð upp á að hann geti ekki sungið á ekki heima í kirkjukór þrátt fyrir mikinn vilja.

Aðalsteinn Árni Baldursson

Stjórnmál til umræðu

Frambjóðendur Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningarnar, þær  Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir alþingismaður og Jódís Skúladóttir lögfræðingur og sveitarstjórnarfulltrúi VG í Múlaþingi komu við hjá formanni Framsýnar í vikunni. Tilefnið var að taka stöðuna og hlusta eftir helstu áherslum félagsins í landsmálunum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, kom skilaboðum félagsins vel á framfæri við gestina sem stefna á þing fyrir VG. Framsýn leggur mikið upp úr góðu samstarfi við frambjóðendur til Alþingis og skorar á þá að koma við og meðtaka skilaboð félagsins til verðandi þingmanna. Hvað það varðar hefur Framsýn sterkar skoðanir á málefnum líðandi stundar sem betur mega fara á hverjum tíma.

Tímabundnar ráðningar undantekningin

Starfsfólk ríkis eða sveitarfélaga er almennt ráðið til starfa á mánaðarlaunum. Mismunandi getur verið hvort starfshlutfall sé 100 prósent eða lægra, eða hvort um tímabundna eða ótímabundna ráðningu sé að ræða. Almennt má segja að ótímabundin ráðning sé meginreglan og að tímabundnar ráðningar séu eins konar undantekning frá því að fastráða starfsfólk.

Um réttindi tímabundið ráðinna starfsmanna gilda sérstök lög sem tryggja að þeir njóti hvorki hlutfallslega lakari kjara né sæta lakari meðferð en starfsfólk með ótímabundna ráðningu. Þegar starfsfólk er ráðið í tímavinnu er hins vegar staðan önnur, og eru kjör þeirra almennt lakari en starfsfólks sem ráðið er til starfa á mánaðarlaunum. Engin sérstök lög hér á landi tryggja réttindi tímavinnustarfsmanna en um réttindi þeirra er fjallað í kjarasamningum.

Í kjarasamningum BSRB við ríkið og sveitarfélög er fjallað um það hvenær heimilt sé að ráða starfsfólk í tímavinnu. Í kjarasamningi við ríkið er það í eftirfarandi tilvikum:

  1. Nemendum við störf í námshléum.
  2. Starfsmönnum sem ráðnir eru til skamms tíma vegna sérstakra árvissra álagstíma ýmissa stofnana þó ekki lengur en 2 mánuði.
  3. Starfsmönnum sem ráðnir eru til að vinna að sérhæfðum, afmörkuðum verkefnum.
  4. Starfsmönnum sem starfa óreglubundið um lengri eða skemmri tíma þó aðeins í algjörum undantekningartilvikum.
  5. Lífeyrisþegum sem vinna hluta úr starfi.

Í kjarasamningi við sveitarfélög kemur fram sú regla að sé reglubundin vinnuskylda starfsmanns 20 prósent eða meiri á mánuði skuli ráða hann á mánaðarlaun. Sé reglubundin vinnuskylda hans minni eða vinnuskil óregluleg sé heimilt að ráða hann í tímavinnu og einnig ef uppi eru sömu aðstæður og nefndar eru hér að ofan og gilda um ríkisstarfsmenn. Samkvæmt vef Kjara- og mannauðssýslu ríkisins er litið svo á að ráða skuli starfsmann á föst mánaðarlaun þegar hann sinnir að minnsta kosti 1/3 hluta af fullu starfi.

En hvað þýðir það nákvæmlega að vera ráðinn í tímavinnu? Hér verður reynt að svara því í stuttu máli. Í raun má segja að réttindi séu að vissu leyti frábrugðin starfsmönnum sem ráðnir eru á mánaðarlaunum. Þannig er til dæmis veikindaréttur og réttur til uppsagnarfrests lakari en tímakaup er almennt hærra.

Veikindaréttur
Í kjarasamningum BSRB segir að starfsmaður sem ráðinn er til starfa á mánaðarlaunum haldi launum svo lengi sem veikindadagar hans verða ekki fleiri á 12 mánuðum en eftirfarandi:

  • 0 til 3 mánuðir í starfi: 14 dagar
  • Næstu 3 mánuði í starfi: 35 dagar
  • Eftir 6 mánuði í starfi: 119 dagar
  • Eftir 1 ár í starfi: 133 dagar
  • Eftir 7 ár í starfi: 175 dagar
  • Eftir 12 ár í starfi: 273 dagar
  • Eftir 18 ár í starfi: 360 dagar

Tímavinnufólk á styttri veikindarétt en þeir sem eru ráðnir til starfa á mánaðarlaunum og er veikindaréttur þeirra eftirfarandi:

  • Á 1. mánuði í starfi: 2 dagar
  • Á 2. mánuði í starfi: 4 dagar
  • Á 3. mánuði í starfi: 6 dagar
  • Eftir 3 mánuði í starfi: 14 dagar
  • Eftir 6 mánuði í starfi: 30 dagar

Þannig er réttur tímavinnustarfsmanna til veikindalauna mun lakari en annarra, og til dæmis er hægt að horfa til starfsmanns sem hefur verið í starfi í 6 mánuði. Ef hann er ráðinn á mánaðarlaun á hann rétt til veikindalauna í 119 daga en einungis 30 daga ef hann er ráðinn í tímavinnu. Þess ber að geta að allir dagar eru taldir, ekki einungis virkir dagar, og starfsmaður í tímavinnu fær einungis greidd veikindi vegna þeirra daga sem hann átti að mæta til starfa á tímabili veikinda, sem getur að hámarki verið 30 dagar.

Uppsagnarfrestur
Almennur uppsagnarfrestur hjá ríki og sveitarfélögum, að loknum reynslutíma, er þrír mánuðir. Hafi starfsmaður unnið að minnsta kosti 10 ára samfellt starf hjá sömu stofnun er uppsagnarfresturinn hins vegar fjórir til sex mánuðir, sé starfsmaðurinn á aldrinum 55 eða eldri. Starfsmaður getur þó sjálfur sagt upp starfi með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Starfsmenn ríkis og sveitarfélaga njóta almennt þeirra réttinda að óheimilt sé að segja þeim upp án málefnalegra ástæðna og séu ástæður uppsagnar vegna atriða er varða starfsmanninn sjálfan þá ber almennt að veita honum áminningu áður en til uppsagnar kemur.

Tímavinnufólk hefur mun lakari rétt þegar til uppsagnar kemur. Almennt má segja að gagnkvæmur uppsagnarfrestur tímavinnumanna á fyrstu 3 mánuðum starfstímans sé ein vika miðað við vikuskipti, en vikuskipti miðast við föstudag. Eftir þriggja mánaða samfellt starf er gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður. Þá þarf vinnuveitandi ekki að gefa upp sérstakar ástæður fyrir uppsögn eða fylgja áminningarferli þegar um tímavinnufólk er að ræða.

Orlofsréttur
Samkvæmt kjarasamningum eiga allir starfsmenn rétt til 30 orlofsdaga á ári hverju, miðað við fullt starf. Starfsmaður sem hefur unnið hluta af fullu starfi eða hluta úr ári skal fá orlof 20 vinnuskyldustundir fyrir fullt mánaðarstarf. Tímavinnufólk hefur í raun sama rétt og aðrir til orlofs samkvæmt kjarasamningum, en almennt er orlof þeirra greitt út mánaðarlega samhliða launum. Tímavinnufólk ávinnur sér því orlofslaun en þarf sjálft að sjá til þess að orlofslaunin séu varðveitt og til ráðstöfunar fyrir sig yfir sumartímann þegar það tekur sitt orlof.

Stytting vinnuvikunnar
Þau gæði sem felast í styttri vinnuviku og betri vinnutíma eiga ekki við um tímavinnufólk, enda ekki um fasta mánaðarlega vinnuskyldu að ræða í þeirra tilfelli eða starfshlutfall. Tímavinnufólk hefur þó eins og áður segir hærra tímakaup en starfsfólk sem sinnir sömu störfum í starfshlutfalli, eins og nefnt var hér að ofan.

Af hverju tímavinna?
Það geta verið margvísleg rök fyrir því að ráða starfsfólk í tímavinnu og er tiltekið sérstaklega í kjarasamningi hvenær slíkt er heimilt. Af lestri kjarasamninga er þó augljóst að þetta fyrirkomulag ráðningar er undantekning frá þeirri meginreglu að ráða fólk í fast starfshlutfall og ótímabundið. Það ætti því ekki að vera ráðandi fyrirkomulag við ráðningar hjá ríki eða sveitarfélög í tiltekin störf heldur heyra til undantekninga. Upp hafa komið tilvik þar sem augljóslega er litið á tímavinnufólk eins og það sé ekki sett að jöfnu við starfsfólk með hefðbundið ráðningarfyrirkomulag. Nýlega þurfti stéttarfélag að fara fyrir Félagsdóm til þess að fá viðurkennt að tímavinnufólk ætti sama rétt til eingreiðslu vegna seinkunar á gerð kjarasamninga til að tryggja þeim sömu kjarasamningsbundnu hækkanir og aðrir starfsmenn nutu.

Starfsfólk sem ráðið er sem tímavinnufólk en hefur jafnvel unnið um árabil í slíku ráðningarformi og sinnt hærra starfshlutfalli en fjallað er um hér að ofan án þess að gera sér grein fyrir því hvað felst nákvæmlega í fyrirkomulaginu ætti að taka samtalið við sinn vinnuveitanda varðandi það hvort ekki sé tímabært að taka fyrirkomulagið til endurskoðunar og fá fasta ráðningu á mánaðarlaun.

Þessi umfjöllun er tekin af heimasíðu BSRB en Starfsmannafélag Húsavíkur á aðild að sambandinu.

Kjör tímavinnustarfsfólks eru almennt lakari en annars starfsfólks ríkis og sveitarfélaga.

Húsin í Flatey

Þegar komið er út í Flatey á Skjálfanda er afar ánægjulegt að sjá hvað flestum eignum er vel við haldið, flest húsin hafa verið gerð upp og eru í dag notuð sem sumarhús auk þess sem mikið er lagt upp úr því að varðveita umhverfið og menninguna en mikil saga er tengt eyjunni eins og meðfylgjandi upplýsingar staðfesta og myndir sem teknar voru í ferð stéttarfélaganna út í Flatey um síðustu helgi.

Flatey er eyja á Skjálfanda um 2,5 kílómetra frá landi utan við Flateyjardal. Hún er um 2,62 ferkílómetrar að flatarmáli og rís hæst 22 metra yfir sjó.

Byggð var í eyjunni frá 12. öld fram til 1967 þegar hún lagðist af vegna einangrunar og skorts á endurnýjun fólks. Náði íbúafjöldi mest að vera 120 manns um 1943. Fiskveiðar voru aðalatvinnuvegur eyjaskeggja auk kvikfjárræktar en hlunnindi voru einnig nokkur af rekaviði, fuglavarpi og sel. Frá upphafi 20. aldar var í eyjunni starfrækt kaupfélag og barnaskóli sem m.a. íbúar á Flateyjardal sóttu þjónustu til enda hafnaraðstaða í eyjunni mun betri en í landi. Á móti kom að eyjaskeggjar sóttu kirkju að Brettingsstöðum á Flateyjardal allt þar til byggð í dalnum lagðist af (1953) og kirkjan var flutt út í Flatey (vígð að nýju 1960).

Í eyjunni standa enn nokkur myndarleg hús sem haldið er við af afkomendum íbúa.

Frábær sumarferð í Flatey

Stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur stóðu fyrir sumarferð síðasta laugardag út í Flatey á Skjálfanda. Forsvarsmenn Gentle Giants skipulögðu ferðina með starfsmönnum stéttarfélaganna. Uppselt var í ferðina sem tókst í alla staði mjög vel, gott var í sjóinn og það var fallegt og gefandi að ganga um eyjuna undir leiðsögn Guðmundar A. Hólmgeirssonar og Gísla Jónatanssonar sem var staddur í eyjunni og aðstoðaði Guðmund, eða Alla Hólmgeirs eins og hann er oftast kallaður, við að fræða gestina um söguna, búsetu og atvinnulífið í Flatey á fyrri tímum. Guðni Sigþórsson skipstjóri stóð í brúnni og sá til þess að vel færi um gestina þegar siglt var yfir í Flatey frá Húsavík og heim aftur. Með honum í áhöfn var Vittoria Sesani sem er frá Ítalíu. Auk þess að fræðast um eyjuna var boðið upp á grill og léttar veitingar í boði stéttarfélaganna. Ósk, Jónas, Linda og Jónína stóðu vaktina við grillið og sáu til þess að enginn færi svangur heim. Full ástæða er til að þakka Gentle Giants og gestum stéttarfélaganna fyrir ánægjulega ferð sem í alla staði var til mikillar fyrirmyndar. Meðfylgjandi eru myndir úr ferðinni.

Heiðurshjón, takk fyrir frábærar móttökur í Flatey.

Námstefna í samningagerð á Húsavík

Ríkissáttasemjari mun standa fyrir námstefnum í samningagerð fyrir alla sem eiga sæti í samninganefndum og vinna að kjarasamningsgerð í landinu. Með þeim er markmiðið að bæta vinnubrögð við kjarasamningsgerð, læra nýjustu aðferðir, deila reynslu og efla marksækni og fagmennsku við samningaborðið.

Hver námstefna stendur í þrjá daga og geta þátttakendur valið tímasetningu og staðsetningu sem hentar þeim. Að námskeiði loknu munu þátttakendur hafa öðlast þekkingu á lögum og leikreglum í kjarasamningsgerðinni og þekkingu á þáttum sem stuðla að virðingu, trausti, fagmennsku og bestu niðurstöðum í samningagerð. Þá munu þeir hafa öðlast þekkingu á efnahagslegu samhengi og þjóðhagslegu mikilvægi kjarasamninga, leikni til að takast á við hindranir í viðræðum, leikni í samskiptum og undirbúningi viðræðna. Einnig munu þátttakendur einnig læra að skipuleggja og vinna með heildarferli kjarasamninga, frá samningi til samnings, og hvernig á að semja vel og stuðla að gagnkvæmum ávinningi í kjarasamningsgerð.

Skipulagðar hafa verið fimm námstefnur sem haldnar verða í flestum landshlutum:

  • 15. til 17. nóvember 2021, staðsetning: Norðurland (Fosshótel Húsavík)
  • 14. til 16. mars 2022, staðsetning: Suðvesturland (B59 hótel á Borgarnesi)
  • 16. til 18. maí 2022, staðsetning: Vesturlandi (Hótel Ísafjörður)
  • 19. til 21. september 2022, staðsetning: Austurland (Hérað)
  • 7. til 9 nóvember 2022, staðsetning: Vesturland (Fosshótel Stykkishólmur)

Opnað verður fyrir skráningu á vef ríkissáttasemjara þann 20. ágúst 2021 klukkan 9:00.

Námstefnurnar munu auka færni þátttakenda í samningagerð.

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

Samkvæmt kjarasamningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa fimm eða fleiri starfsmenn. Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við viðkomandi stéttarfélag, Framsýn, Þingiðn eða Starfsmannafélag Húsavíkur. Eftir kosningu fær trúnaðarmaður og atvinnurekandi senda staðfestingu á kjöri. 

Ef enginn trúnaðarmaður er á þínum vinnustað, viljum við biðja þig um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna 4646600 eða með því að senda tölvupóst á kuti@framsyn.is varðandi frekari upplýsingar og aðstoð við kjör á trúnaðarmanni.

Til viðbótar má geta þess að stéttarfélögin standa reglulega fyrir trúnaðarmannanámskeiðum.

Vinna barna og unglinga

Íslensk ungmenni byrja snemma að vinna, mörg hver með námi, og í ýmsum starfsgreinum, t.d. í matvöruverslunum, á skyndibitastöðum og við blaðaútburð. Nokkuð er um að unga fólkið vinni langan vinnutíma og taki á sig ábyrgð umfram það sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til en ljóst er að því fylgir óhjákvæmilega álag.

Ungu fólki er hættara en hinum eldri við að lenda í vinnuslysum og óhöppum (heimild: Eurostat og vinnuslysaskrá Vinnueftirlitsins) en slíkt má rekja til skorts á þjálfun og starfsreynslu og vanþekkingar á mikilvægum þáttum er varða öryggi og heilbrigði við vinnu. Ungt fólk er ennfremur áhættusæknara en hið eldra og því hættara við að lenda í slysum og óhöppum.

Ljóst er að hátt hlutfall vinnuslysa, óhappa og áreitni meðal ungs fólks má að einhverju leyti rekja til þess að þessi hópur vinnur oft við slæmar aðstæður og óhentugt vinnuskipulag. Mikilvægt er að kenna ungu fólki hvernig verjast megi slysum, álagsmeinum og áreitni og stuðla þannig að vellíðan þessa hóps í vinnu bæði nú og síðar á starfsævinni.

Ýmis hollráð:

Hollráð fyrir verkstjóra
Hollráð fyrir foreldra
Öryggi ungs starfsfólks á vinnustað
Rétturinn til heilbrigðis og öryggis á vinnustað

 
Að greina hættur á vinnustað

Atvinnuleysi á niðurleið

Samkvæmt  upplýsingum frá Vinnumálastofnun var skráð at­vinnu­leysi í júlí 6,1% og minnkaði tals­vert frá júní þegar það mæld­ist 7,4%, að því er fram kem­ur í skýrslu Vinnumála­stofn­un­ar fyr­ir júlí­mánuð. Alls fækkaði at­vinnu­laus­um að meðaltali um 2.005 sem nem­ur 14% fækk­un frá júní­mánuði.

At­vinnu­leysi hef­ur farið minnk­andi síðustu mánuði en það var 9,1% í maí, 10,4% í apríl, 11,0% í mars og 11,4% í fe­brú­ar 2021.

„At­vinnu­laus­ir voru alls 12.537 í lok júlí, 6.562 karl­ar og 5.975 kon­ur og fækkaði at­vinnu­laus­um körl­um um 966 frá júnílok­um og at­vinnu­laus­um kon­um fækkaði um 813,“

Á Norðurlandi eystra lækkaði atvinnuleysið úr 4,4% í 3,9%.

Sjá nánar: https://vinnumalastofnun.is/media/3172/juli-2021-skyrsla.pdf