Forsvarsmenn Framsýnar og Blakdeildar Völsungs hafa undirritað samning um stuðning félagsins við blakdeildina til tveggja ára. Blakdeildin hefur haldið úti öflugu íþróttastarfi fyrir fólk á öllum aldri. Deildin ætlar sér stóra hluti á komandi mánuðum og árum. Hvað það varðar hefur Tihomir Paunovski frá Norður Makedoníu verið ráðin sem þjálfari, hann mun sjá um þjálfun meistaraflokka félagsins auk þess að hafa yfirumsjón með þjálfun yngri flokka deildarinnar. Meistaraflokkur kvenna mun spila í úrvalsdeildinni í vetur. Þá munu karlarnir spila í fyrstu deild. Bæði liðin eru mjög ung og efnileg lið. Liðin munu einnig taka þátt í bikarkeppni. Yngri flokkar Völsungs í blaki taka þátt í Íslands og héraðsmótum. Í dag eru um 70 iðkendur í blaki en reiknað er með að þeim fari fjölgandi í vetur enda starfið mjög öflugt. Það er afar ánægjulegt fyrir Framsýn að koma að þessu frábæra starfi á vegum Blakdeildar Völsungs með fjárstuðningi.