Heiðurshjón á faraldsfæti

Heiðurshjónin, Jón Þórir Óskarsson og Hlíf Guðmundsdóttir sem séð hafa um orlofsbyggð stéttarfélaganna á Illugastöðum fyrir eigendur orlofshúsanna létu formlega af störfum í gær eftir tæplega 50 ára störf fyrir stéttarfélögin. Það er fyrir eigendur þeirra orlofshúsa sem stéttarfélögin víða um land eiga á Illugastöðum. Auk orlofshúsanna er meðal annars sundlaug og lítil verslun í þjónustumiðstöðinni auk leikvallar með skemmtilegum leiktækjum. Svæðið allt er vel búið og vel hugsað um þá sem heimsækja byggðina á hverjum tíma. Ekki  þarf að tíunda að hjónin hafa unnið mikið og farsælt starf fyrir stéttarfélögin og verið gestum og gangandi mikill styrkur. Þá hafa þau einnig verið mjög virk í félagsmálum í sveitinni en þau hafa búið á Illugastöðum en munu nú flytja af svæðinu á þessum tímamótum.

Orlofsbyggðin hefur ráðið nýjan umsjónarmann, það er Þórólf Egilsson sem hefur starfað  með Jóni og Hlíf síðastliðin ár. Hann mun flytja á Illugastaði ásamt konu sinni Sigrúnu Kristbjörnsdóttur sem verður í hálfu starfi hjá Orlofsbyggðinni. Einnig hefur stjórn byggðarinnar ráðið Sindra Heiðmann sem aðstoðarmann umsjónarmanns. Sindri hefur unnið á Illugastöðum undanfarin sumur og þekkir þar alla staðhætti mjög vel. Þrátt fyrir breytingar á mannahaldi verður öll starfsemi eins og verið hefur nema  ekki gert ráð fyrir að verslun verði opin á staðnum.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, gerði sér ferð á Illugastaði í gær til að kveðja Jón og Hlíf og þakka þeim jafnframt fyrir vel unninn störf og gott samstarf á liðnum áratugum. Meðfylgjandi mynd er tekin þegar þau Jón og Hlíf voru að ljúka formlegum störfum fyrir orlofsbyggðina í gær.

 

Deila á