Fundað með forsvarsmönnum Samiðnar

Formaður og framkvæmdastjóri Samiðnar komu norður til Húsavíkur fyrir helgina og funduðu með stjórnarmönnum í Þingiðn. Jónas Kristjánsson, Þórður Aðalsteinsson og Jónas Hallgrímsson tóku þátt í fundinum frá Þingiðn og Hilmar Harðarson og Guðfinnur Þór Newman frá Samiðn. Framkvæmdastjóri Þingiðnar, Aðalsteinn Árni tók einnig þátt í fundinum.

Fulltrúar frá Samiðn hafa verið á ferðinni um landið og fundað með forsvarsmönnum aðildarfélaga Samiðnar. Formaður Samiðnar, Hilmar Harðarson fór nokkrum orðum yfir komandi kjaraviðræður, kröfugerð sambandsins sem er í mótun, væntanlegt þing ASÍ og deilurnar innan Alþýðusambandsins. Guðfinnur Þór framkvæmdastjóri sambandsins kom einnig inn í umræðuna og gerði grein fyrir viðhorfskönnun sem gerð var meðal þriggja aðildarfélaga Samiðnar vegna komandi kjaraviðræðna.

Því næst fóru stjórnarmenn innan Þingiðnar yfir áherslur félagsins í komandi kjaraviðræðum. Þessar eru helstar:

  • Gamla launataflan verði endurvakin með þreppa hækkunum m.v. starfsaldur
  • Kaupmáttur launa verði aukinn.
  • Yfirvinna I og II verði að einum taxta, yfirvinna I falli út.
  • Samningsbundin ávinnsla réttinda fylgi starfsmanni milli fyrirtækja.
  • Nýr kjarasamningur taki gildi um leið og sá gamli fellur út gildi.
  • Vinnutímastyttingin verði endurskoðuð, það er framkvæmdin.
  • Orlofsréttur iðnaðarmanna verði aukin.

Þá töldu stjórnarmenn Þingiðnar jafnframt mikilvægt að samið yrði um sérstakt framlag atvinnurekanda í fræðslusjóð með sambærilegum hætti og er hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands. Þar geta einstaklingar sótt um einstaklingsstyrki stundi þeir nám á eigin forsendum.  Þeir gerðu einnig að umræðuefni þann mikla aðstöðumun sem íbúar á landsbyggðinni búa við varðandi heilbrigðisþjónustu og framhalds- og háskólanámi m.v. íbúa höfuðborgarsvæðisins. Töldu þeir mikilvægt að það yrði tekið upp við stjórnvöld í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Ekki væri að sjá að hægt yrði að ganga frá kjarasamningum nema með aðkomu stjórnvalda er varðaði þessi mál og húsnæðis- og vaxtamál.

Mjög góðar umræður urðu um áherslur Þingiðnar og sýn Samiðnar á komandi kjaraviðræður. Í máli formanns Samiðnar kom fram að Þingiðn verður boðið að koma sínum kröfum á framfæri við sambandið á næstu vikum. Samiðn hefur ekki gengið frá kröfugerð sambandsins, það verður gert í næsta mánuði.

Til viðbótar má geta þess að umræður urðu um löggildingu starfa í iðnaði, framboð á námi er tengist fagnámi í iðngreinum. Þá kom formaður Þingiðnar því á framfæri að Samiðn væri velkomið að halda formannafund, samningafund eða þing sambandsins á Húsavík. Hér væri öll aðstaða til þess með besta móti. Fulltrúar Samiðnar þökkuðu fyrir boðið og sögðust taka það til skoðunar.

 

Deila á