Telja Húsavíkurflugvöll koma til greina sem millilandaflugvöllur

Í ályktun sem stjórn Framsýnar sendi frá sér í dag beinir félagið þeim tilmælum til stjórnvalda að fram fari faglegt mat á nýjum millilandaflugvelli á landsbyggðinni sem ætlað verði að vera til hliðar við Keflavíkurflugvöll. Félagið telur Húsavíkurflugvöll koma vel til greina sem millilandaflugvöllur. Hagkvæmnissjónarmið verði látin ráða, ekki vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir. Sjá ályktun:

 Ályktun
-Um millilandaflugvöll-

 „Framsýn stéttarfélag telur í ljósi stóraukinna jarðhræringa  og eldsumbrota á Reykjanesskaganum, að full ástæða sé til að taka upp til umræðu staðsetningu flugvalla á Íslandi með tilliti til millilandaflugs.

Komið hafa fram sjónarmið um mikilvægi þess að treysta í sessi öflugan millilandaflugvöll utan höfuðborgarsvæðisins svo hægt verði að bregðast við komi til þess að Keflavíkurflugvöllur lokist. Þannig væri einnig hægt að dreifa aukinni flugumferð og viðkomu erlendra ferðamanna um landið.

Að mati Framsýnar hentar Húsavíkurflugvöllur vel sem millilandaflugvöllur, með tilliti til aðflugs og veðurfars og þá er til staðar gott framboð af gistirými á Norðurlandi. Þessir þrír þættir skipta verulega miklu máli við val á millilandaflugvelli. Þá þarf ekki að tíunda allar þær náttúruperlur sem eru víðs vegar í Þingeyjarsýslum og draga að sér tugþúsundir ferðamanna árlega.

Framsýn stéttarfélag beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að fram fari faglegt mat á nýjum millilandaflugvelli á landsbyggðinni sem ætlað verði að vera til hliðar við Keflavíkurflugvöll. Hagkvæmnissjónarmið verði látin ráða, ekki vanhugsaðar pólitískar ákvarðanir.“  

 

Deila á