Mótmæla slæmum malarvegum í Þingeyjarsveit

Stjórn Framsýnar samþykkti í dag að senda frá sér ályktun um vegamál í Þingeyjarsveit. Að mati félagsins er afar mikilvægt að þegar í stað verði ráðist í lagfæringar á malarvegum í sveitinni sem sumir hverjir eru beinlínis hættulegir að mati Framsýnar. Félagið skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá þegar í stað. Sjá ályktun:

Ályktun-um ástand malarvega í Þingeyjarsveit-

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi malarvega í Þingeyjarsveit.

Víða í Þingeyjarsýslum hefur verið unnið að endurbótum og slitlagsviðgerðum á þjóðvegum með bundnu slitlagi. Að sama skapi hefur ríkisvaldið ekki lagt nægjanlegt fjármagn í uppbyggingu malarvega á svæðinu sem margir hverjir bera töluverða umferð. Vegi sem teljast ekki lengur boðlegir, hvorki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem margir hverjir aka um þá daglega til að sækja vinnu og/eða aðra þjónustu, né heldur stóraukna umferð ferðamanna sem þekkja ekki til íslenskra malarvega.

Margir þessara vega eru slysagildrur og hreinlega tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af ástandi þeirra. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Þó endurbætur og viðhald vega með bundnu slitlagi séu af hinu góða má ekki gleymast að sinna viðhaldi malarvega meðan þeir eru til staðar, þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og tryggt öryggi vegfarenda.  Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja að þessir vegir sem aðrir séu boðlegir fólki sem um þá ekur. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir verulegt eignatjón sem vegfarendur hafa orðið fyrir og þurft að bera sjálfir.

Framsýn stéttarfélag skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá.“

 

Deila á