Brjálað að gera í Húsasmiðjunni

Það er ekki auðvelt að skilja ákvörðun Húsasmiðjunnar um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík. Síðasta föstudag átti starfsmaður Skrifstofu stéttarfélaganna leið í verslunina til að kaupa timbur. Til að gera langa sögu stutta var brjálað að gera í timburdeildinni og þó nokkuð löng bið eftir afgreiðslu eins og oft áður enda mikið að gera hjá starfsmönnum. Stórir sem smáir bílar komu og fóru með vörur. Sjá mátti bónda úr Mývatnssveit vera að kaupa timbur, staura og girðingarefni. Annar bóndi úr Aðaldalnum var sömuleiðis að kaupa timbur og járn fyrir sitt bú. Verktaki sem kemur að uppbyggingunni í Öxarfirði, er tengist fiskeldi upp á nokkra milljarða, var að versla rör og fleira. Þá voru þó nokkrir heimamenn að skoða kaup á ýmsum varningi og leita tilboða sem og verktakar.

Frá og með næstu áramótum verður þessi þjónusta ekki lengur í boði fyrir Þingeyinga og þá sem fram að þessu hafa getað verslað í Húsasmiðjunni. Eins og fram hefur komið á heimasíðunni hefur Framsýn gert alvarlegar athugasemdir við ákvörðun fyrirtækisins um að skella í lás á gamlársdag sem er glórulaus ákvörðun.

Framsýn fordæmir vinnubrögð SA og Bláfugls með yfirlýsingu

„Framsýn stéttarfélag gagnrýnir harðlega framgöngu Bláfugls og Samtaka atvinnulífsins vegna ólögmætra uppsagna félagsmanna FÍA. Um er að ræða algjört virðingarleysi gangvart starfsmönnum fyrirtækisins og grófa atlögu að grundvallarréttindum launafólks á Íslandi.

Framsýn lýsir yfir fullum stuðningi við baráttu starfsfólks Bláfugls og krefst þess að Bláfugl og Samtök atvinnulífsins standi við gildandi kjarasamning og niðurstöðu Félagsdóms sem dæmt hefur uppsagnir starfsfólks í kjaraviðræðum ólögmætar.

Samtökum atvinnulífsins ber að sjálfsögðu að fara eftir lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði í stað þess að verja gjörning sem þennan hjá fyrirtæki sem ekki virðir settar leikreglur.

Framsýn krefst þess að Samtök atvinnulífsins hætti þessu uppistandi þegar í stað og virði gildandi kjarasamninga og niðurstöður dómstóla með því að koma vitinu fyrir stjórnendur Bláfugls. Svona gera menn einfaldlega ekki í siðmenntuðu þjóðfélagi.“

Áhugavert námskeið í boði

Þú hefur áhrif hvort sem þú gerir þér grein fyrir því eður ei – og það oft jafnvel þó svo að þú ætlir þér það ekki. GLS er heimsklassa ráðstefna þar sem frábært tækifæri gefst til þess að fá aðgang að ríkulegu innsæi frá heimsklassa fyrirlesurum sem allir eiga það sameiginlegt að vera reiðubúnir til þess að byggja þig upp og hvetja þig áfram í leiðangri þínum að betri forystu – hvar sem þú hefur áhrif.

Þessari alþjóðlegu ráðstefnu, GLS, verður streymt með íslenskum texta föstudaginn 5. nóvember og allt sem þarf til að tengjast er sími eða tölva. Þau sem hafa tök á því geta líka mætt í sal Framsýnar/stéttarfélaganna við Garðarsbraut 26 á Húsavík og notið ráðstefnunnar með öðrum á stórum skjá með ilmandi kaffi við höndina í félagsskap annarra. – Það næsta sem hægt er að komast því að vera staddur á stórri heimsráðstefnu á faraldstímum.

Skráning á GLS ráðstefnuna fer fram á gls.is en meðlimir í Framsýn geta komið með greiðslukvittun á skrifstofu félagsins og sótt um allt að 90% endurgreiðslu ráðstefnugjalds. Á heimasíðu GLS á Íslandi má jafnframt finna frekari upplýsingar um dagskrá, fyrirlesarana og efni fyrirlestra þeirra. Af innslögum frá gestum af fyrri GLS ráðstefnum á Íslandi að dæma má gera ráð fyrir að efni og innihald hafi umtalsverð jákvæð áhrif. Þetta er því tækifæri sem enginn ætti að láta framhjá sér fara enda hver er ekki í þörf fyrir hvatningu og innblástur, fyrir ferskar hugmyndir og uppörvun.

Hvetja til aðhalds í gjaldskrárhækkunum

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar skorar á ríki, sveitarfélög og aðra þjónustuaðila að gæta aðhalds í gjaldskrárhækkunum og hækkunum á vöru og þjónustu. Þessi skilaboð koma fram í ályktun frá félaginu sem samþykkt var á fundi í vikunni.

Ályktun
-Um almennar  gjaldskrárhækkanir-

„Framsýn stéttarfélag hvetur til aðhalds á gjaldskrárhækkunum ríkis og sveitarfélaga, nú þegar flest sveitarfélögin eru að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

Verðbólga fer nú vaxandi í mörgum viðskiptalöndum Íslands. Sem dæmi mælist 4% verðbólga í Þýskalandi sem er sú hæsta í landinu eftir upptöku Evrunnar. Ástæðan er ekki síst hærra orkuverð og þá er útlit fyrir að truflanir á aðfangakeðjum og aðrar afleiðingar heimsfaraldursins muni  hafa  frekari áhrif á verðbólguna á næstu misserum.

Alþjóðlega hefur matvara og iðnaðarvara hækkað verulega í verði sem og aðrir þættir sem hafa áhrif á afkomu heimila í viðkomandi löndum. Þessi þróun erlendis mun hafa áhrif á Íslandi.

Það er því verulegt áhyggjuefni ef ríki og sveitarfélög ýta frekar undir verðbólgu með gjaldskrárbreytingum og hækkun á opinberri þjónustu á sama tíma og vextir hafa farið hækkandi á Íslandi.

Vöruverð, verðbólga og vaxtahækkanir geta haft afdrifaríkar afleiðingar á kjör almennings og gert það að verkum að komandi launahækkanir um áramótin haldi ekki í við kaupmátt launa.

Við það verður ekki unað og standa því spjótin á  stjórnvöldum og sveitarfélögum að draga úr áhrifum á almenning. Þá er ekki í boði að þjónustuaðilar og verslunareigendur standi hjá og axli ekki ábyrgð er kemur að hækkunum á vöru og þjónustugjöldum. Það verða allir að spila með eigi að vera hægt að halda verðbólgunni í lágmarki og tryggja kaupmátt launa.

Framsýn kallar eftir þjóðarátaki gegn verðbólgu, öllum til hagsbóta“

Pósturinn með fingurinn á lofti

Póst­ur­inn ohf. sendi nýlega frá sér tilkynningu um gríðarlegar hækk­an­ir á mörg­um liðum verðskrár sinn­ar frá og með 1. nóv­em­ber 2021. Fram til þessa dags hef­ur verðskrá hins op­in­bera fyr­ir­tæk­is miðast við að sama verð gildi um allt land, líkt og krafa löggjafans hef­ur verið, og hef­ur það jafnt átt við um pakka­send­ing­ar sem skilað er í póst­box og pakka­port eða heimsend­ing­ar og send­ing­ar sem skilað er á póst­hús. Ljóst er að þessar verðbreytingar koma sér afar illa fyrir landsbyggðina. Hækkanirnar voru til umræðu á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í vikunni. Reiði var meðal fundarmanna með þessar miklu hækkanir. Samþykkt var að álykta um málið.

Ályktun
-Um verðskrárhækkanir hjá Póstinum-

„Framsýn stéttarfélag gagnrýnir harðlega ákvarðanir Póstsins um að hækka verðskrár fyrirtækisins sem beinast eingöngu að landsbyggðinni. Póst­ur­inn ohf. hefur boðað verulegar hækk­an­ir á flestum liðum verðskrár sinn­ar frá og með 1. nóv­em­ber 2021 sem koma sér afar illa við íbúa og atvinnulífið á landsbyggðinni.

Fram til þessa dags hef­ur verðskrá hins op­in­bera fyr­ir­tæk­is miðast við að sama verð gildi um allt land, líkt og krafa lög­gjaf­ans hef­ur verið. Samkvæmt boðuðum verðskrárbreytingum nem­ur hækkunin í mörg­um til­vik­um tug­um pró­senta og jafnvel yfir 100%. 

Með þessum glórulausu hækkunum er Pósturinn að senda íbúum í hinum dreifðu byggðum fingurinn. Um er að ræða mikilvægt byggðamál sem hefur áhrif á útgjaldaliði heimilanna, ekki síst fjarri höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld geta ekki setið hjá og látið þetta óréttlæti  viðgangast. Fyrir liggur að það er vitlaust gefið sem er ólíðandi með öllu.

Framsýn stéttarfélag auglýsir eftir byggðastefnu stjórnvalda sem hafi það að leiðarljósi að koma í veg fyrir mismunun sem þessa.“

Okkar félagsmaður bestur

Sæþór Olgeirsson var nýlega valinn besti leikmaðurinn í 2. deild karla í fótbolta auk þess sem hann varð einnig markahæstur í deildinni. Að sjálfsögðu er Sæþór félagsmaður í Framsýn. Það var því við hæfi að færa honum bol og húfu frá félaginu. Við óskum Sæþóri til hamingju með frábæran árangur á knattspyrnuvellinum í sumar.

Framsýn mótmælir lokun Húsasmiðjunnar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar á þriðjudaginn. Miklar umræður urðu um ákvörðun Húsasmiðjunnar um að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík. Megn óánægja er meðal bæjarbúa, verktaka og samfélagsins í Þingeyjarsýslum með ákvörðun fyrirtækisins. Auk þess mun lokunin hafa áhrif á aðra verslun og þjónustu á svæðinu þar sem Húsasmiðjan hefur dregið að sér viðskiptavini úr nágrenninu sem um leið hefur nýtt sér aðra þjónustu á Húsavík. Ekki er annað vitað en að verslun Húsasmiðjunnar á Húsavík hafi gengið vel enda hefur mikið verið um framkvæmdir á stór Húsavíkursvæðinu á undanförnum árum og eru frekari framkvæmdir fyrirhugaðar á næstu árum sem kallar á öfluga byggingavöruverslun á svæðinu. Þess vegna ekki síst kemur ákvörðun Húsasmiðjunnar verulega á óvart. Vitað er að Húsasmiðjan hefur lagt í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir á Akureyri við byggingu á nýju verslunarhúsnæði um leið og verslunum fyrirtækisins á Húsavík og Dalvík verður lokað. Á fundi Framsýnar í vikunni kom skýrt fram að starfsmenn Húsasmiðjunnar á Húsavík væru til fyrirmyndar, en stæðu nú frammi fyrir því að verða hugsanlega atvinnulausir um áramótin sem væri miður. Einnig kom fram að formaður Framsýnar hefur fundað með starfsmönnum og boðið fram aðstoð félagsins sem þeir hafa tekið vel.

Forsvarsmenn Framsýnar hafa undanfarið fundað með stjórnendum Húsasmiðjunnar og komið á framfæri óánægju með lokuninna um leið og fyrirtækið hefur verið hvatt til að endurskoða ákvörðuninna. Fyrirtækið hefur ekki orðið við ósk félagsins.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar samþykkti því samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

Ályktun
-Lokun Húsasmiðjunnar hörmuð-

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags harmar þá ákvörðun Húsasmiðjunnar að loka verslun fyrirtækisins á Húsavík um næstu áramót.

Forsvarsmenn Framsýnar hafa í samtölum við stjórnendur Húsasmiðjunnar ítrekað mikilvægi þess að fyrirtækið haldi starfseminni áfram á Húsavík, ekki síst þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og fyrirsjáanlegt er að svo verði áfram á komandi árum.

Vissulega er eðlilegt að menn endurskoði rekstrarforsendur á hverjum tíma og bregðist við því með viðeigandi hætti s.s. með breyttu fyrirkomulagi á verslun og þjónustu. En að loka versluninni er reiðarslag þar sem vitað er að góður rekstrargrundvöllur er fyrir því að reka byggingavöruverslun á stað eins og Húsavík sem þjóni verktökum og öðrum viðskiptavinum í Þingeyjarsýslum.

Á sama tíma og Húsasmiðjan boðar lokanir á verslunum sínum á Dalvík og Húsavík fjárfestir fyrirtækið í dýru verslunarhúsnæði á Akureyri. Með lokun minni verslananna hyggst fyrirtækið ná fram hagræðingu á móti auknum útgjöldum við byggingu hins nýja verslunarhúsnæðisins. 

Full ástæða er til að hafa áhyggjur af neikvæðri  þróun verslunar í dreifbýlinu sem í auknum mæli hefur verið að flytjast til stærri þéttbýliskjarna með tilheyrandi viðbótar kostnaði fyrir íbúa á viðkomandi svæðum. Við þessari þróun þarf að bregðast þegar í stað enda brýnt byggðamál.“

Færðu Björgunarsveitinni Þingey gjöf

Fyrir helgina færðu fulltrúar Framsýnar Björgunarsveitinni Þingey kr. 250.000,- að gjöf til kaupa á björgunarbúnaði fyrir sveitina. Þannig vill Framsýn stuðla að öflugu starfi sveitarinnar á svæðinu, íbúum og öðrum vegfarendum til öryggis. Með gjöfinni vill félagið jafnframt þakka björgunarsveitinni fyrir óeigingjörn störf í þágu samfélagsins. Það voru forsvarsmenn Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir sem afhentu Steinari Karli Friðrikssyni formanni Þingeyjar gjöfina, en höfuðstöðvar Þingeyjar eru á Melgötu 9. Ljósavatnsskarði.

Ljósritunarvél í boði

Stéttarfélögin hafa endurnýjað ljósritunarvél á skrifstofu félaganna. Áhugasömum, ekki síst félagasamtökum stendur til boða að fá gömlu vélina gefins en hún er vel nothæf til prentunnar næstu árin. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna hjá forstöðumanni, Aðalsteini Árna Baldurssyni sem er með netfangið kuti@framsyn.is. Koma svo!

Meistari Tryggvi heilsaði upp á formann Framsýnar

Tryggvi Ástþórsson varaformaður Verkalýðsfélags Suðurlands var staddur á Húsavík um síðustu helgi. Að sjálfsögðu leit hann við hjá formanni Framsýnar sem bauð honum í heimsókn á skrifstofu félagsins þar sem hann fékk fræðslu um starfsemi Framsýnar auk þess sem félgarnir tóku stöðuna á verkalýðshreyfingunni.

Félagsliðar funda um sín mál

Fræðsludagur félagsliða verður haldinn laugardaginn 30. október í húsnæði Starfsgreinasambands Íslands að Guðrúnartúni 1 í Reykjavík. Fundartími 13:00-16:00.

Fræðsludagurinn er haldinn einu sinni á ári og tilgangur dagsins er að fá alla félagsliða í landinu til að koma saman og ræða sín mál. Dagskráin er byggð á kynningum og fræðslu fyrir félagsliða sem geta svo nýtt sér það í starfi og þekkingu. Fræðsludagurinn er í boði fyrir alla félagsliða á landinu óháð stéttarfélagi. Félagsliðar innan Framsýnar sem hafa áhuga á að fara á fundinn eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofu félagsins. Fjölmennum á daginn og sýnum samstöðu.

Vetrarstarfið að hefjast á vegum Framsýnar

Stjórn- og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar þriðjudaginn 26. október kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Stjórn Framsýnar- ung er einnig boðuð á fundinn. Með þessum fundi hefst öflugt vetrarstarf á vegum félagsins, framundan eru þing á vegum verkalýðshreyfingarinnar og þá mun Framsýn hefja vinnu á næstu vikum við mótun á kröfugerð félagsins vegna komandi viðræðna við Samtök atvinnulífsins. Annars er dagskrá fundarins eftirfarandi:

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar

2. Inntaka nýrra félaga

3. Málefni formanns félagsins

4. Kjaramál- undirbúningsvinna

5. Samkomulag við hvalaskoðunarfyrirtæki

6. Ríkissáttasemjari- heimsókn 16. nóv

7. Dagatöl/minnisbækur 2022

6. Jólafundur félagsins/kjör á undirbúningsnefnd

7. Jólaboð stéttarfélaganna

8. Þing

– Así ung

– Lív

– Sjómannasamband Íslands

– Þing SGS

– Þing AN

9. Lögfræðiþjónusta

10. Málefni Þorrasala

11. stjórn Framsýnar-ung

12. Önnur mál

Opnað fyrir umsóknir um jól og áramót

Stéttarfélögin hafa opnað fyrir umsóknir félagsmanna um dvöl í orlofsíbúðum félaganna um jól og áramót í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri. Uppsóknartíminn er til 12. nóvember. Í kjölfarið verða umsóknirnar teknar fyrir og  íbúðunum úthlutað. Hægt er að sækja um með því að senda skilaboð á netfangið linda@framsyn.is eða með því að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og sækja um. Sími 4646600.

Samherji stækkar við sig í Öxarfirði

Samherji fiskeldi hefur ákveðið að stækka landeldisstöð fyrirtækisins í Öxarfirði um helming, þannig að framleiðslan verði um þrjú þúsund tonn af laxi á ári. Kostnaður við framkvæmdina er um einn og hálfur milljarður króna og á þeim að vera lokið að mestu eftir eitt til tvö ár. Samherji hefur um tíma haft til skoðunar að stækka landeldisstöðina í Öxarfirði en það hefur komið fram á fundum sem forsvarsmenn Framsýnar hafa átt með yfirmönnum fyrirtækisins í Öxarfirði um starfsemi fyrirtækisins.

Uppbyggingu Samherja í Öxarfirði ber að fagna sérstaklega þar sem umfang fyrirtækisins á svæðinu er að aukast verulega og undirstrikar trú fyrirtækisins á landeldi enda aðstæður til fiskeldis í Öxarfirði með miklum ágætum. Störfum fjölgar, aðflutningar til og frá stöðinni munu aukast og þörf á aðkeyptri þjónustu til rekstrarins s.s. iðnaðarmanna og annarra þjónustuaðila verður meiri.

 

Bang: Allir á námskeið hjá NTV

NTV skólinn, í samstarfi við starfsmenntasjóði, býður félagsmönnum Framsýnar Skrifstofuskóla NTV í fjarnámi á ensku, pólsku og íslensku

Námskeiðin verða niðurgreidd um 90% með einstaklingsstyrkjum, sem eru að hámarki 130.000,- kr., af starfsmenntasjóðunum Landsmennt, Sjómennt, Sveitamennt og Ríkismennt sem Framsýn stéttarfélag á aðild að. Framsýn er svo tilbúið að koma með aukastyrk til félagsmanna fari þeir á þessi námskeið.  

Einnig verður námskeiðið „Grunnnám í bókhaldi boðið samhliða. 

Námskeiðunum verður skipt í tvo hluta, „Skrifstofuskóli NTV – Grunnur“, 9 vikna námskeið sem verður í boði á haustönn og „Skrifstofuskóli NTV – Framhald“, 6 vikna námskeið sem haldið verður í byrjun næsta árs. Aðilar sem taka grunnnámskeiðið, sem er með áherslu á tölvufærni og almenna skrifstofufærni, hafa val um að skrá sig á framhaldsnámskeið eftir áramótin, sem verður með áherslu á bókfærslu og reikningshald. 

NTV býður námskeiðin á sérstöku tilboðsverði og stefnt er að því að þau hefjist 18. október nk. 

Námskeið Tungumál Vikur Tilboðsverð Byrjar Lýkur  
Skrifstofuskóli NTV – Grunnur Íslenska 149.000 18.10.21 17.12.21  
Skrifstofuskóli NTV – Grunnur Enska 149.000 18.10.21 17.12.21  
Skrifstofuskóli NTV – Grunnur Pólska 149.000 18.10.21 17.12.21  
Bókhald grunnur Íslenska 149.000 18.10.21 03.12.21  

Nánari lýsingu á námskeiðunum  má finna með því að smella á myndirnar hér fyrir neðan.  

                                

Skráningar: 

Enska: Office and Computer skills – Online course | NTV – Nýi tölvu- og viðskiptaskólinn

Pólska: Szkoła biurowa NTV – Kurs Online | NTV – Nýi tölvu- og viðskiptaskólinn

Íslenska: Skrifstofuskóli Grunnur – Fjarnám | NTV – Nýi tölvu- og viðskiptaskólinn

Grunnám í bókhaldi: Grunnnám í bókhaldi og Excel | NTV – Nýi tölvu- og viðskiptaskólinn

Kallaður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var kallaður fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem vitni í síðustu viku. Tilefnið varðar samskipti tveggja fyrirtækja sem störfuðu á Þeistareykjum við byggingu á virkjuninni 2015 til 2016. Fyrirtækið  G&M sp. z.o.o. sem var undirverktaki hjá Munck höfðaði mál gegn fyrirtækinu til greiðslu meintra ógreiddra reikninga. Munck rifti á sínum tíma verksamningum sínum við félagið vegna vanefnda G&M á að greiða starfsmönnum sínum rétt laun o.fl. Þar sem Framsýn kom að málinu á sínum tíma var formaður félagsins kallaður til til að bera vitni og fara yfir málið frá sjónarhorni félagsins. Héraðsdómur Reykjavíkur mun væntanlega fella dóm í málinu eftir einhverjar vikur héðan í frá.

Jóhannes: „Þá á ég eftir tíuþúsundkall á mánuði“

Jóhannes Sigurjónsson blaðamaður segist hafa 10.000 krónur til umráða á mánuði eftir að hann var sviptur lífeyri frá TR vegna langdvalar á spítala. Þessa frétt er að finna í Fréttablaðinu. Myndina tók Aðalsteinn Árni Baldursson af Jóhannesi sem starfað hefur sem blaðamaður og ritstjóri á Húsavík í nokkra áratugi.

Tekjulágir ellilífeyrisþegar sem dvelja meira en 180 daga á sjúkrahúsi geta átt von á sviptingu lífeyris fyrir utan vasafé. Jóhannes Sigurjónsson, blaðamaður frá Húsavík sem hefur þurft að dvelja á Sjúkrahúsinu á Akureyri í meira en hálft ár vegna veikinda sinna, lenti í skerðingu lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Litið er á sem hann hafi með sjúkrahúsdvölinni misst rétt sinn til ellilífeyris.

„Mér finnst skrýtið að ef veikindaréttur er fyrir hendi og þú ert 66 ára gamall og lendir í langvarandi veikindum og færð að vera á spítala þá sé dvölin frí. Ef þú ert 67 ára með góðar tekjur þá er dvölin frí. En ef þú ert 67 ára eins og ég, með lífeyri, sem tekjulágur þá þarftu að borga fyrir sjúkrahúsvistina, því þá ertu sviptur þessum tekjum,“ segir Jóhannes.

Hann segir að áður en dvöl hans á spítalanum náði 180 dögum hafi hann fengið útborgað um 220.000 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði og frá Tyggingastofnun. Mest komi frá TR, því hann sé fátækur. „Sjúkrahúsið ætlar nú að taka af mér hundrað og sjötíu þúsund krónur. Það fara fjörutíu þúsund hjá mér í húsnæði úti í bæ. Þá á ég eftir tíuþúsundkall á mánuði.“

Jóhannes segist hafa lent í skerðingunni á sama tíma og hann horfði á fundi í sjónvarpi með öllum stjórnmálaforingjum landsins um að allir ættu rétt á ókeypis sjúkrahúsvist. Guðrún Sigurjónsdóttir, systir Jóhannesar, hefur barist fyrir bróður sinn ásamt fleirum í fjölskyldunni, enda á hann sjálfur erfitt um vik í þeim efnum vegna veikindanna. Guðrún segir að líta megi svo á sem tekjulágir ellilífeyrisþegar „borgi“ fyrir sjúkrahúsvist sína með tekjumissinum. Sjúkrahúsvistin sé þá ekki ókeypis fyrir alla sjúklinga. Hinir efnameiri sem ekki fái tekjur frá TR geti dvalið á sjúkrahúsi eftir 180 daga án tekjumissis, en hinir tekjulágu geti lent í að lítið verði eftir af þeirra tekjum eftir skerðingu til að standa undir eigin rekstrarskuldbindingum.

„Maður sér ákveðið misrétti. Við báðum um endurskoðun hjá Tryggingastofnun en fengum synjun. Ætli næsti áfangastaður verði ekki úrskurðarnefnd velferðarmála,“ segir Guðrún.

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði og sérfræðingur í lífeyrismálum, þekkir ekki þetta tiltekna mál, en bendir á að ef eldri borgari fari inn á hjúkrunarheimili sem varanlegur íbúi gangi lífeyrisgreiðslur hans til viðkomandi hjúkrunar­heimilis og hann fái naumt skammt­aða vasapeninga í staðinn.

„Það er skýrt í lögum að TR er heimilt að fella niður lífeyrisgreiðslur eftir sex mánaða dvöl á sjúkrahúsi, en þetta er mjög umdeilanlegt ákvæði og í raun óréttlátt. Sérstaklega af því að það rekst á sjúkratryggingaréttinn sem aðrir njóta en þeir sem stóla á greiðslur frá TR. Það er því full ástæða til að löggjafinn taki þetta til endurskoðunar,“ segir Stefán.

Samkvæmt símsvara hjá Tryggingastofnun var starfsdagur starfsmanna í gær og engin leið að ná tali af sérfræðingum vegna máls Jóhannesar.

Frétt: Fréttablaðið

Myndir: Aðalsteinn Árni Baldursson

Frábærar fréttir – Ernir fjölgar ferðum til Húsavíkur og bíður upp á hagstæð tilboð

Flugfélagið Ernir ákvað nýlega að fjölga ferðum til Húsavíkur úr 6 ferðum í 10 ferðir í viku. Breytingarnar tóku gildi frá og með 1. október. Mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga verða flognar tvær ferðir hvern dag, morgunferð og síðdegisferð. Föstudaga og sunnudaga verður áfram ein hverð hvorn daginn. Þetta er því mikil viðbót við núverandi áætlun og hefur fólk nú tækifæri á að fljúga fram og til baka samdægurs fjórum sinnum í viku.

Samhliða fjölgun ferða bjóðum við fleiri nettilboð í hverri ferð og lækkum einnig verð nettilboða og barnafargjalda. 

Lækkun nettilboða og barnafargjalda gildir fyrir þá sem fljúga með Erni á tímabilinu 1. október til og með 14. nóvember. Öll börn sem fljúga á þessu tímabili njóta afsláttar. Nettilboð eru í takmörkuðu mæli en þeim hefur verið fjölgað í hverri ferð á tímabilinu.

Ályktað um húsnæðismál

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir ályktun miðstjórnar ASÍ sem lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðunni á húsnæðismarkaði sem sé rót óstöðugleika í íslensku efnahagslífi. Seðlabankinn hefur tilkynnt að stýrivextir verði hækkaðir um 0,25 prósent. Meginvextir bankans eru nú 1,5%. Verðbólga mælist 4,4% um þessar mundir en sé horft framhjá áhrifum húsnæðisliðar liggur verðbólga nú nærri markmiði Seðlabankans. Vísbendingar eru einnig um að leiguverð fari hækkandi á ný.

Vaxtahækkanir munu hafa veruleg áhrif á fjárhag heimilanna og atvinnulífs á næstu misserum. Mánaðarleg greiðslubyrði lána getur hækkað um tugi þúsunda króna hjá fjölda fólks. Jafnframt hefur hátt húsnæðisverð gert það að verkum að stór hópur situr fastur á óstöðugum, hagnaðardrifnum leigumarkaði.

Nýrrar ríkisstjórnar bíða miklar áskoranir í húsnæðismálum. Þar kallar miðstjórn ASÍ eftir skýrum aðgerðum sem tryggja stöðugleika á húsnæðismarkaði og koma í veg fyrir að fólk lendi í fjárhagserfiðleikum vegna óstöðugleika sem á rætur að rekja til efnahags- og peningamálastjórnunar. Koma þarf í veg fyrir skort á íbúðarhúsnæði og tryggja stöðugt framboð nýbygginga. Jafnframt þarf að standa við gefin loforð um að stórauka framlög til almenna íbúðakerfisins og fyrirbyggja þannig frekari óstöðugleika á leigumarkaði. Setja þarf reglur um skammtímaútleigu húsnæðis til ferðamanna til að draga úr ásælni fjárfesta í almennt íbúðarhúsnæði auk þess að innleiða lög um aukna vernd leigjenda.

Miðstjórn ASÍ áréttar að húsnæðismál eru jafnframt eitt stærsta kjaramálið. Á stjórnvöldum hvílir sú ábyrgð að koma á stöðugleika á húsnæðismarkaði og tryggja að allir íbúar landsins hafi þak yfir höfuð á viðráðanlegum kjörum.

Bjartsýnustu spár Vinnumálastofnunar að rætast

Engar tilkynningar um hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í síðasta mánuði. Stóru viðskiptabankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, sögðu þó upp 39 starfsmönnum.

„Sá fjöldi var ekki nægilegur til þess að flokkast undir lögin um hópuppsagnir. Það þurfti ekki að tilkynna þessar uppsagnir til okkar,“ segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.

Hún segir að hópuppsögnum hafi fækkað undanfarið. „Við sjáum mikinn mun á því núna undanfarna mánuði hvað hefur fækkað hópuppsögnum enda er atvinnulífið að taka vel við sér,“ segir Unnur. „Atvinnuleysi hefur farið mjög hratt minnkandi síðastliðna fjóra til fimm mánuði þannig að við getum glaðst yfir því,“ segir Unnur.

Er staðan betri en þið höfðuð gert ráð fyrir?
„Já, ef eitthvað er. Þetta eru svona bjartsýnustu spár sem eru að ganga eftir sem er náttúrulega mjög ánægjulegt,“ segir Unnur. Hún segir uppgang ferðaþjónustunnar skipta miklu máli í því samhengi.

„Þetta fylgir algjörlega faraldrinum. Um leið og það er losað um allt og eftir að ferðalög fóru að fara í gang aftur þá gerðist þetta mjög hratt. Þessi viðspyrna var mjög hröð og góð,“ segir Unnur.

Heimild: ruv.is