Framsýn óskar félögum sínum og verslunarfólki um land allt til hamingju með frídag verslunarmanna. Við minnum á að þetta er stórhátíðardagur og ber að greiða fyrir vinnu samkvæmt því.

Framsýn óskar félögum sínum og verslunarfólki um land allt til hamingju með frídag verslunarmanna. Við minnum á að þetta er stórhátíðardagur og ber að greiða fyrir vinnu samkvæmt því.
Þegar Samtök atvinnulífsins og Starfsgreinasamband Íslands gerðu síðustu kjarasamninga var gengið frá bókun um leigu húsnæðis í tengslum við ráðningarsamninga starfsfólks í ferðaþjónustu. Með ákvæðinu átti að tryggja betur öryggi starfsmanna við þessar aðstæður. Fjallað er um málið á dv.is og vitnað í formann Framsýnar.
Samkvæmt frétt Vikublaðsins fjölgaði flugfarþegum mest um Húsavíkurflugvöll milli ára sé miðað við flugvelli á Norðurlandi. Fram kemur að í júní hafi flugfarþegum um Húsavíkurflugvöll fjölgað um 48%, um Akureyri 44%, um Grímseyjarflugvöll um 43% og að endingu hafi aukningin um Þórshafnarflugvöll verið 39%. Að sjálfsögðu eru þetta ánægjulegar fréttir fyrir Norðurland, ekki síst Húsavík. Framsýn kemur að því að bjóða félagsmönnum upp á ódýr flugfargjöld milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Mikil ánægja er með þetta framtak Framsýnar og kunna félagsmenn vel að meta aðkomu félagsins að því að tryggja flug um Húsavíkurflugvöll.
„Ég þoli ekki lygi, þetta er ekki satt,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar, um skrif Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), þar sem hún segir laun í fiskvinnslu á Íslandi vera hærri en meðallaun í landinu.
„Það sem ég geri athugasemdir við er það þegar samtök eins og SFS falla í þá gryfju að láta áróðurinn bera sig ofurliði og ljúga, því þessar tölur liggja allar fyrir.
Þau fullyrða það að laun í fiskvinnslu séu þau hæstu í öllum heiminum sem og að þau séu hærri en meðallaun hér á landi, sem er bara lygi,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir við: „Þetta er allt saman lygi.“ Nánar má lesa um málið inn á https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/07/28/thetta_er_allt_saman_lygi/
Við gerð síðustu kjarasamninga milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands var gengið frá bókun um leigu húsnæðis í tengslum við ráðningarsamning starfsfólks í ferðaþjónustu. Ákvæðinu er ætlað að tryggja betur öryggi starfsmanna við þessar aðstæður, enda aðkallandi þörf.
Vissulega er það þannig að það er sjaldan heppilegt að tengja húsnæði ráðningarsamningi starfsmanna. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina og oft aftrað fólki frá því að gera athugasemdir við kjör sín og önnur réttindi þar sem það hefur óttast að missa leiguhúsnæðið.
Kveðið er á um það í kjarasamningum að þegar vinnuveitandi útvegar starfsmanni húsnæði gegn endurgjaldi í tengslum við ráðningu gildi ákvæði húsaleigulaga nr. 36/1994 um gerð og efni leigusamninga. Samningurinn skal vera skriflegur og uppfylla kröfur II. kafla húsaleigulaga þ.m.t. fjárhæð húsaleigu. Þá þarf húsnæðið að standast aðbúnað og hollustuhætti. Jafnframt skal leigan ekki vera hærri en almennt gerist og sanngjörn í garð beggja aðila sé tekið mið af þinglýstum húsaleigusamningum á sama svæði.
Það sem af er sumri hafa aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands fengið fjölmargar fyrirspurnir frá félagsmönnum þar sem þeim hefur verið gert að hætta störfum, þrátt fyrir að ráðningartímabilinu hafi ekki verið lokið samkvæmt ráðningarsamningi. Þar er ekki síst um að ræða starfsmenn sem hafa verið í íbúðarhúsnæði á vegum ferðaþjónustuaðila. Hefur fólki í mörgum tilfellum verið gert að yfirgefa húsnæðið, stundum samdægurs þrátt fyrir að uppsagnarfrestinum sé ekki lokið samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Slíkt er óheimilt svo vitnað sé í gildandi kjarasamning.
Alltof mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu koma sér hjá því að gera skriflega leigusamninga við starfsmenn, sem ekki fá greiddar húsaleigubætur nema þeir geti framvísað löglegum húsaleigusamningi. Samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands er þetta brot á samkomulagi aðila. Svo vitnað sé í bókun í fyrrgreindum kjarasamningi sem nær til starfsmanna í ferðaþjónustu ber að gera leigusamninga við starfsmenn sem hafa herbergi/íbúðarhúsnæði á vegum fyrirtækjanna til afnota gegn greiðslu. Þá er jafnframt tekið fram að um slíka leigu gildi Húsaleigulögin.
Geri fyrirtæki ekki leigusamninga við starfsmenn gilda ákvæði Húsaleigulaga. Í 10. grein laganna er tiltekið að; „Hafi aðilar vanrækt að gera skriflegan leigusamning teljast þeir hafa gert tímabundinn leigusamning og gilda öll ákvæði laganna um réttarsamband þeirra.“
Í títtnefndum Húsaleigulögum er jafnframt tekið fram að uppsögn húsaleigusamninga skuli vera skriflegar. Í flestum tilfellum er uppsagnarfresturinn þrír til sex mánuðir. Í ákveðnum tilfellum er hann lengri. Sé ekki um annað samið ber atvinnurekendum að virða réttindi starfsmanna við starfslok er varðar aðgengi að íbúðarhúsnæði á þeirra vegum hvort heldur sem starfsmenn greiða fyrir afnotin eða hafa haft aðgengi að því endurgjaldslaust.
Þessari umfjöllun er ætlað að minna atvinnurekendur á skyldur þeirra og ábyrgð gagnvart starfsmönnum sem þeir leggja til húsnæði gegn endurgjaldi. Það er hvort heldur starfsmenn eru í ótímabundnu eða tímabundnu ráðningarsambandi. Það er ekki í boði að kasta starfsfólki á dyr við ráðningaslit, sem ekki eru í samræmi við ákvæði kjarasamninga, nema fyrir því liggi ríkar og rökstuddar ástæður.
Höfundur er formaður Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson
Á vordögum náðist samkomulag milli ESB ríkjana um að færa skildi í regluverk sambandsins ákvæði um lágmarkslaun og stuðning við starf samtaka launafólks. Samkomulagið er talin sigur fyrir bæði Frakka og ekki síður fyrir samtök launafólks í Evrópu sem hafa barist fyrir samkomulaginu. Í því felst að lágmarkslaun skuli aldrei vera lægri en 60% miðgildi launa, eða 50% af meðallaunum. Samkvæmt tölfræði Hagstofu Íslands voru regluleg laun að meðaltali 711 þúsund og miðgildi 637 þúsund fyrir fólk í fullu starfi. Það þýðir að væru reglur ESB teknar upp hér á landi, væru lágmarkslaun 382 þúsund ef miðgildi er notað en 355 þúsund ef meðaltalið væri notað.
Norræna verkalýðshreyfingin hafði verulegar áhyggjur af því að þetta myndi hafa neikvæð áhrif á Norrænan vinnumarkað þar sem stéttarfélög hafa samið um lágmarkskjör fyrir sitt félagsfólk sem síðan hefur verið nýtt sem grunnur hjá flestum sem starfa á vinnumarkaði þó hlutfall þeirra sem eru í stéttarfélögum sé mun lægra en hér á landi. Raunar er það svo að ESB lítur til Norðurlanda sem fyrirmyndar varðandi vinnumarkað og sér ESB lönd eigi að stefna á að 80% vinnumarkaðar sé bundin af samningum samtaka launafólks í hverju landi. ESB gerir því ráð fyrir því að þar sem samtök launafólks, líkt og á við hér á landi, semji um lágmarkslaun fyrir meirihluta þeirra sem starfa á vinnumarkaði og ekki séu í gildi formleg lágmarkslaun, sé ekki tilefni til þess að taka upp lögbundin lágmarkslaun. Það má þó leiða að því líkur að þessi viðmið ESB muni verða hluti af kjaraviðræðum hér á landi um leið og þessar reglur verða samþykktar, en gert er ráð fyrir að það gerist síðar á þessu ári.
Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um orðaskipti formanns Framsýnar og framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um launakjör fiskvinnslufólks. https://www.frettabladid.is/frettir/sakar-sfs-um-arodur-og-lygar/ Því miður eins og oft áður er sannleikurinn ekki alltaf hafður með í skríninu þegar forsvarsmenn sjávarútvegsins ryðjast fram á ritvöllinn með sinn gegndarlausa áróður. Nú fullyrða samtök þeirra SFS að laun í fiskvinnslu á Íslandi séu hærri en meðallaun í landinu og þau hæstu í heiminum. Formaður Framsýnar hefur óskað eftir upplýsingum frá samtökunum varðandi forsendurnar sem útreikningarnir byggja á. Upplýsingarnar hafa ekki borist.
Framsýn fékk sérfræðing á þessu sviði sem jafnframt er hagfræðingur til að taka saman þessar upplýsingar. Í svari hans kemur fram að þegar rýnt er í tölfræði Hagstofunnar, sem heldur utan um þessar upplýsingar, megi sjá það rétta í málinu. Laun í fiskvinnslu séu ekki hærri en meðallaun á Íslandi. Á árinu 2021, voru meðallaun fullvinnandi í fiskvinnslu kr. 611.000,- ef miðað er við heildarlaun. Meðal heildarlaun á vinnumarkaði voru á sama tímabili kr. 823.000,-. Fyrir almenna vinnumarkaðinn er meðaltalið kr. 808.000,- á mánuði en hæst hjá ríkisstarfsmönnum þar sem það er kr. 903.000,-. Með heildarlaunum er átt við öll laun einstaklinga, þ.m.t. regluleg laun, auk álags, bónusa og yfirvinnu ásamt óreglulegum greiðslum s.s. orlofs- og desemberuppbót, eingreiðslur, ákvæðisgreiður og uppgjörs vegna uppmælinga. Hafa ber í huga að á bak við laun fiskvinnslufólks eru fleiri vinnustundir en gengur og gerist á vinnumarkaði. Greiddar stundir voru þannig 195 að meðaltali á mánuði hjá fiskvinnslufólki borið saman við 177 stundir að jafnaði á vinnumarkaði. Munurinn er því meiri ef skoðað er meðaltímakaup.
Í grein framkvæmdastjóra SFS er því líka haldið fram að laun í fiski séu hærri á Íslandi en í heiminum. Ótrúleg fullyrðing, þau ættu að skoða t.d. launakjör fiskvinnslufólks í Færeyjum og í Noregi í stað þess að fullyrða að allt sé betra á Íslandi.
Það verður áhugavert fyrir talsmenn fiskvinnslufólks að eiga samtal við talsmenn sjávarútvegsins í komandi kjaraviðræðum í haust. Væntanlega vilja þeir standa við stóru orðin og hækka launakjör fiskvinnslufólks verulega. Það er borð fyrir báru í íslenskum sjávarútvegi enda sá arðsamasti í heimi að þeirra sögn. Látum verkin tala og tryggjum fiskvinnslufólki mannsæmandi laun. Til fróðleiks má geta þess að föst mánaðarlaun hjá fiskvinnslufólki á Íslandi eru á bilinu kr. 370.000 upp í kr. 387.000,- samkvæmt gildandi launatöflum aðila vinnumarkaðarins. Launatöflurnar eru aðgengilegar á netinu. Skyldu reiknimeistarar SFS vita af því?
Hið vinsæla Fréttabréf stéttarfélaganna er komið út. Búið er að bera það út í flest hús á félagssvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá póstinum mun dreifingin klárast á morgun. Að venju er bréfið fullt af fréttum og upplýsingum úr starfi stéttarfélaganna. Meðal annars er auglýst sumarferð á vegum félaganna í Bárðardal. Skráning í ferðina stendur yfir.
Atvinnurekandi skal útbúa eða láta útbúa vinnustaðaskírteini fyrir starfsmenn sína sem hefur að geyma þær upplýsingar sem tilgreindar eru í lögum og samkomulagi ASÍ og SA. Hér að neðan má fá frekari upplýsingar um gerð og efni vinnustaðaskírteinanna. Þar má einnig nálgast form fyrir vinnustaðaskírteini og upplýsingar um aðila sem bjóða upp á prentun plastkorta. Fulltrúar frá stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum munu á næstu vikum fara í eftirlitsferðir til að athuga hvort atvinnurekendur á svæðinu séu ekki með þessi mál í lagi.
Form fyrir plastkort má nálgast hér.
Hverjir falla undir?
Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, rekstur gististaða, söluturnar og veitingarekstur, húsgagna- og innréttingaiðnaður, gleriðnaður og skyld starfsemi, kjötiðnaður, bakstur, bílgreinar, rafiðnaður, ýmsar málm- og véltæknigreinar, veitustarfsemi, fjarskipti og upplýsingastarfsemi og öryggisþjónusta, ræktun nytjajurta, svína- og alifuglarækt, eggjaframleiðsla, farþegaflutningar á landi og ferðaþjónusta, skrúðgarðyrkja og ýmis þjónustustarfsemi eins og framangreind starfsemi er afmörkuð í fylgiskjölum sem falla nú undir gildissvið samkomulags ASÍ og SA og er miðað við ÍSAT2008 flokkun atvinnurekanda í fyrirtækjaskrá RSK. Samkomulag ASÍ og SA afmarkar einnig hvaða starfsmenn innan þessara atvinnugreina falla undir eftirlitið.
Gengið hefur verið frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra fyrir Starfsgreinasamband Íslands. Alls sóttu 13 einstaklingar um starfið. Björg mun hefja störf hjá sambandinu 1. október nk.
Björg Bjarnadóttir starfaði sem skrifstofustjóri hjá Verkalýðsfélagi Akraness frá janúar 2006 til ágúst 2018 eða í um 13 ár og þekkir því innviði í starfsemi stéttarfélaga gríðarlega vel. Frá 2018 hefur Björg starfað við kennslu í Fjölbrautarskóla Vesturlands ásamt því að gegna stöðu forstöðumanns bókasafns og sjá um skjalavörslu fyrir fjölbrautarskólann. Hún hefur einnig starfað sem VIRK-ráðgjafi fyrir öll stéttarfélögin á Akranesi og var einn af fyrstu ráðgjöfum sjóðsins og tók þátt í þróun og uppbyggingu þjónustunnar frá upphafi. Hún sat sem aðalmaður í stjórn Festu lífeyrissjóðs frá 2013-2015 og sem varamaður frá 2015-2019. Hún var skipuð í verðlagsnefnd búvara af velferðaráðherra frá árinu 2015 til 2017. Þá hefur Björg haft umsjón með vikulegu barnastarfi hjá Rauða krossinum.
Björg er með meistaranám í upplýsingarfræði (MIS-gráða). Björg er einnig með viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu, kennsluréttindi á meistarastigi sem og starfsréttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari. Hún er auk þess með BA-próf í íslensku og stúdentspróf af félagsfræðibraut.
Framsýn stéttarfélag býður Björgu velkomna til starfa fyrir verkalýðshreyfinguna en félagið er aðili að Starfsgreinasambandi Íslands.
Formaður Framsýnar gerði sér ferð í Gljúfrastofu í gær til að funda með starfsmönnum þjóðgarðsins. Um þessar mundir standa yfir viðræður milli Starfsgreinasambands Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs, Umhverfisstofnunar og Þingvalla um gerð stofnanasamnings. Unnið hefur verið að því að endurnýja samninginn. Samningurinn nær til yfirlandvarða, landvaraða, þjónustufulltrúa og verkamanna. Næsti fundur aðila hefur verið boðaður í september. Á meðfylgjandi mynd er trúnaðarmaður starfsmanna, Kolbrún Matthíasdóttir með Einari Inga Einarssyni sem er einn af starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs. Hópur starfsmanna starfar í þjóðgarðinum yfir sumarið.
Mærudagar fóru vel fram um helgina og fjöldi fólks lagði leið sína til Húsavíkur til að skemmta sér fallega með heimamönnum. Það er við hæfi að birta þessa mynd af fallegustu Mývetningunum, þeim Jónasi Hallgríms, Ottó Páll, Stebba Jak, Garðari Finns og Baldri Sig sem tóku þátt í gleðinni eins og fjölmargir aðrir heimamenn og gestir.
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður stéttarfélagsins Framsýnar, segir að ítök stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna og samband þeirra við ráðandi öfl í stjórnmálalífinu fylli hann vonleysi. Hann sjái ekki betur en að kerfið hafi sigrað fólkið í landinu.
Uppkaup Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík hafa valdið miklum kurr. Óttast Suðurnesjamenn nú að störf í héraði tengd veiðum og vinnslu hverfi burt. Aðalsteinn minnir á að fyrir tuttugu árum hafi Vísir keypt 45 prósenta hlut í sjávarútvegsgeiranum á Húsavík. Öllu fögru hafi verið lofað um að störfum á Húsavík yrði fjölgað fremur en hitt. Á annað hundrað manns hafi þá starfað við landvinnslu.
Margir vongóðir í Grindavík en sumir reikna nú með því versta
Tíu árum síðar hafi fiskvinnslufólki á Húsavík verið tilkynnt að það gæti annað hvort tekið pokann sinn eða flust nauðungarflutningum með strætó suður með sjó. Sjávarútvegur á Húsavík hafi ekki borið sitt barr eftir yfirráð Vísis, enda hafi almenningur sífellt minna og minna um það að segja hvernig störfum í sjávarútvegi sé háttað.
„Kerfið er ónýtt. Maður fyllist eiginlega vonleysi,“ segir Aðalsteinn.
Þá gagnrýnir Aðalsteinn að sami stjórnmálamaður og áður hafi gagnrýnt tilfærslu á aflaheimildum frá Suðurnesjum selji nú sjálfur sinn hlut í Vísi og hagnist um marga milljarða. Á hann þar við Pál Jóhann Pálsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins og bæjarfulltrúa. Páll og eiginkona hans, Guðmunda Kristjánsdóttir, fá á fjórða milljarð króna í eigin vasa fyrir söluna til Síldarvinnslunnar sem er að hluta í eigu Samherja.
Rætt var við Aðalstein á Húsavík á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld.
n að sami stjórnmálamaður og áður hafi gagnrýnt tilfærslu á aflaheimildum frá Suðurnesjum selji nú sjálfur sinn hlut í Vísi og hagnist um marga milljarða. Á hann þar við Pál Jóhann Pálsson, fyrrverandi þingmann Framsóknarflokksins og bæjarfulltrúa. Páll og eiginkona hans, Guðmunda Kristjánsdóttir, fá á fjórða milljarð króna í eigin vasa fyrir söluna til Síldarvinnslunnar sem er að hluta í eigu Samherja.
Rætt var við Aðalstein á Húsavík á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi.
Íbúar landsins urðu í fyrsta sinn rúmlega 380 þúsund í sumarbyrjun. Þeim hefur fjölgað um ríflega 4.700 frá áramótum, eða á við íbúafjölda Seltjarnarness, og eru íbúar landsins nú um 381 þúsund.
Þörf er á aðfluttu vinnuafli og gæti það, ásamt náttúrulegri íbúafjölgun, haft í för með sér að íbúafjöldinn verði kominn í 385 þúsund um áramótin.
Gangi það eftir yrði það fjölgun um 29 þúsund íbúa frá desemberbyrjun 2018 sem jafnast næstum á við íbúafjölda Hafnarfjarðar.
Flestir innflytjendur á Íslandi koma frá Evrópu. Hagþróun í Evrópu, ekki síst á evrusvæðinu, gæti því haft áhrif á aðflutninginn.
Það gæti því ýtt undir aðflutning til landsins að horfur á evrusvæðinu á síðari hluta árs hafa versnað og að staða efnahagsmála er betri hér.
Christine Lagarde, bankastjóri evrópska seðlabankans, ræddi efnahagshorfurnar er hún gerði grein fyrir 0,5% vaxtahækkun bankans, þeirri fyrstu í ellefu ár, í gær.
Lagarde gaf til kynna að vextir hækki meira í haust en hún sagði hækkandi orkuverð, í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, hafa ásamt öðru ýtt undir verðbólgu í álfunni.
Þá boðaði hún stuðningsaðgerðir til handa þeim ríkjum evrusvæðisins sem höllustum fæti standa en Ítalía, eitt stærsta hagkerfi álfunnar, glímir nú við stjórnarkreppu og íþyngjandi ríkisskuldir.
(Þessi áhugaverða frétt er tekin af mbl.is, nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu)
Hér eru þrír stórmeistarar að taka stöðuna í veðurblíðunni á Húsavík. Þetta eru þeir Stefán Bjarni Sigtryggsson, Aðalsteinn Guðmundsson og Óðinn Sigurðsson sem stóðu fyrir utan N1 á Húsavík þegar myndin var tekin. Væntanlega eru þeir ekki að tala um Mærudagana sem eru um helgina heldur eitthvað miklu gáfulegra.
Góður og reglulegur göngutúr er býsna gott markmið, en það má segja að göngutúr með það að markmiði að tína upp það rusl sem á vegi manns verður sé jafnvel enn betri. Það er góð leið til að sameina áhuga á útiveru og umhverfismeðvitund, ánægjan af því að fara út og hreyfa sig verður margfalt meiri með því að gera það með þessum hætti.
Birna Friðriksdóttir býr og starfar í Stórtjarnaskóla.Hún setti sér það markmið fyrr í sumar að ganga í áföngum frá Stórutjarnaskóla til Grenivíkur og tína rusl meðfram þjóðveginum. Birna hefur nú lokið verkinu. Gönguferðirnar í kringum ruslatínsluna urðu 11 talsins og magnið sem hún safnaði af rusli umtalstalsvert.
Það eru 40 km. frá Stórutjarnaskóla til Grenivíkur. Birna segir mesta ruslið hafa verið meðfram þjóðvegi 1 um Ljósavatnsskarð. Þar hafi hún tínt mikið magn af alls konar dóti í vegköntunum, aðallega þó flöskur og dósir. Hún hafi hins vegar ekki haft mikið upp úr krafsinu eftir að hún beygði inn á veg 835, Fnjóskadalsveg eystri og til Grenivíkur, annað en burtfoknar vegstikur, sem margar hefðu tapað upprunalegu gildi sínu, beyglaðar og brotnar úti í móum eftir sjóþyngsli síðustu vetra. Stikunum safnaði Birna saman og hyggst færa hluteigandi aðila, þ.e.a.s Vegagerðinni á Akureyri.
Það er full ástæða til þess að hrósa fyrir það sem vel er gert og framtaksemi Birnu er til mikillar fyrirmyndar. Alltof víða safnast upp rusl á víðavangi, það er augljóst lýti á umhverfinu, en það liggur ekki endilega í augum uppi í hvers verkahring það er að fjarlægja það. En víst er að varla er til betri leið til að sameina útiveru og hreyfingu, sem og sýna umhverfinu og samfélaginu kærleik í verki.
Full ástæða er til að hvetja launafólk til að skoða launaseðlana sína vel sem í flestum tilvikum eru orðnir rafrænir sem og yfirlit um séreignasparnað. Því miður hefur borið á því að launaseðlar séu rangir, atvinnurekendur gleymi t.d. að nýta persónuafslátt viðkomandi starfsmanna, gleymi að hækka orlofsprósentuna og starfsmenn séu á vitlausum launum. Þá hefur einnig borið á því að kjarasamningsbundnum séreignasparnaði sé ekki að skilað til vörsluaðila sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir og/eða fjármálastofnanir. Því er full ástæða til að hvetja félagsmenn stéttarfélaganna til að yfirfara sína launaseðla reglulega enda ekki síður á þeirra ábyrgð að tryggja að hlutirnir séu í lagi þar sem oftast er um að ræða mistök hjá viðkomandi fyrirtækjum.
Rétt er að ítreka að flugmiðar á sérkjörum stéttarfélaganna; Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur með flugfélaginu Erni eru einungis til einkanota fyrir félagsmenn. Flugmiðarnir eru ekki fyrir aðra fjölskyldumeðlimi sem ekki eru í stéttarfélögunum. Sama á við um, þurfi menn að ferðast á vegum fyrirtækja eða stofnana. Verði félagsmenn uppvísir af því að misnota flugmiðana fellur réttur þeirra niður til frekari kaupa á flugmiðum á sérkjörum stéttarfélaganna.
Oftar en ekki berast ábendingar nafnlaust. Starfsfólkið óttast að missa vinnuna ef það leitar réttar síns.
Flosi segist hafa heyrt afar vondar sögur um mannsal, vinnuþrælkun og aðra hluti. Starfsgreinasambandið, auk Alþýðusambandsins og fleiri aðila, hafa verið að safnaþeim saman á undanförnum árum.
„Okkur finnst ganga of hægt að útrýma slíku á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Flosi.
Hann segir að það sé meira um brot gagnvart starfsfólki hjá smáum fyrirtækjum en stórum.
„Það eru náttúrulega alls konar Lukku-riddarar í þessu eins og öllu öðru en það er ótrúlegt virðingarleysi sem vinnandi fólki er oft sýnt og það er eins og mönnum finnist að þeir megi koma fram við fólk sem fætt er annars staðar en hér með alveg ótrúlegum hætti og mann setur hljóðan eiginlega,“ segir Flosi.
„Við erum að glíma við núna menn sem eru fluttir hingað og borgaður fyrir þá flugmiðinn og svo vinnurðu á einhverju hóteli og þú færð ekkert borgað svo, vikum og mánuðum saman. Við höfum verið að vinna með fólk sem hefur kannski verið á vakt 23 tíma á sólarhring. Ég hef séð fólk á hóteli sem hefur unnið yfir 300 tíma í mánuði. Sögurnar eru endalausar.“
Hann segist sakna þess að „hinir atvinnurekendurnir“ sem standa sig vel í þessum málum og koma vel fram við starfsfólk leggi Starfsgreinasambandinu lið.
„Að þeir skuli ekki standa með okkur og benda á þá sem borga ekki eftir kjarasamningum og koma illa fram við starfsfólk og verja þannig sína hagsmuni,“ segir Flosi Eiríksson. (ruv.is)