Félagsmannasjóður starfsmanna sveitarfélaga innan Framsýnar – Hvenær berast greiðslur til félagsmanna?

Í síðasta kjarasamningi aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samband ísl. sveitarfélaga árið 2019 var samið um að sveitarfélögin greiddu 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í svokallaðan Félagsmannasjóð. Framsýn á aðild að sjóðnum fyrir sína félagsmenn. Kveðið er á um að stéttarfélögunum beri að standa skil á þessum greiðslum til félagsmanna 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Greitt er úr sjóðnum árlega, það er 1. febrúar. Rétt er að geta þess að ekki hefur verið tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem mun berast félagsmönnum á næstu vikum. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.

Starfsgreinasambandi Íslands var falið að sjá um umsýslu sjóðsins í upphafi fyrir flest aðildarfélögin. Því miður sáu stéttarfélögin ástæðu til að taka sjóðinn yfir til sín, það fyrir sína félagsmenn, þar sem umfangið var of mikið fyrir Starfsgreinasambandið þar sem sambandinu tókst ekki að leysa verkefnið með viðunandi hætti. Framsýn yfirtók því sjóðinn er viðkemur félagsmönnum þann 1. október 2022. Frá þeim tíma hafa greiður í sjóðinn frá sveitarfélögum og tengdum stofnunum borist Framsýn. Greiðslur þessar, frá 1. október, verða greiddar inn á bankareikninga félagsmanna um mánaðamótin.

Hvað varðar greiðslur til starfsmanna sveitarfélaga sem bárust Félagsmannasjóðnum fyrir yfirtöku Framsýnar er töluverð vinna framundan hjá félaginu að gera upp við viðkomandi félagsmenn. Beðist er velvirðingar á því. Yfirfara þarf skilagreinar síðustu þriggja ára er tilheyra greiðslum í Félagsmannasjóðinn meðan hann var í umsjón Starfsgreinasambands Íslands. Það er til að tryggja að allir fái það sem þeir eiga í sjóðnum. Þegar þeirri vinnu er lokið verður endanlega gert upp við félagsmenn. Vinsamlegast hafið samband við Skrifstofu stéttarfélaganna vanti félagsmönnum frekari upplýsingar um inneign þeirra í Félagsmannasjóðnum.

Deila á