Starfsemi deildarinnar og kjaramál til umræðu á aðalfundinum

Aðalfundur Deildar Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í gær. Fundurinn fór vel fram og var mætingin með ágætum. Töluverðar umræður urðu um ástandið í verkalýðshreyfingunni síðustu vikurnar þar sem harðar deilur eru í gangi milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Reyndar hefur mörgum verið blandað inn í deiluna sem er í hörðum hnút. Almenn ánægja er hins vegar með kjarasamninginn sem Framsýn stendur að ásamt öðrum aðildarfélögum LÍV með gildistíma frá 1. nóvember 2022 sé tekið mið af atkvæðagreiðslu um samninginn en tæplega 88% félagsmanna samþykktu kjarasamninginn í rafrænni atkvæðagreiðslu. Á fundinum var gengið frá kjöri á nýrri stjórn deildarinnar. Öll stjórnin var tilbúin að gefa kost á sér áfram nema Trausti Aðalsteinsson sem starfar ekki lengur á samningssviði deildarinnar. Í hans stað kemur Guðrún Þóra Hallgrímsdóttir inn sem varaformaður deildarinnar. Hún starfar hjá endurskoðunarfyrirtækinu Enor á Húsavík. Hún er boðin velkomin til starfa um leið og Trausti fær kærar þakkir fyrir hans störf í þágu deildarinnar. Forsíðumyndin er af stjórninni. Með þeim á myndinni er ungur leiðtogi, Arnhildur Héðinn Einarsson, sem hafði hægt um sig á fundinum. Hér má síðan lesa helstu upplýsingar úr skýrslu stjórnar sem formaðurinn, Elva Héðins, tók saman fyrir fundinn og fylgdi úr hlaði:

Ágætu félagsmenn!

Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fundarins.

Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2022, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma. 

Fjöldi félagsmanna:

Varðandi fjölda félagsmanna þá voru rúmlega 400 einstaklingar sem greiddu til deildarinnar á árinu 2022 en voru um 300 árið áður. Félagsmönnum fer því fjölgandi sem er ánægjulegt.  Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar um 450 talsins.

Kjaramál:

Landssamband íslenskra verslunarmanna og Samtök atvinnulífsins undirrituðu kjarasamning 12. desember 2022. Framsýn á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Um er að ræða skammtímasamning sem gildir frá 1. nóvember 2022 og rennur út 31. janúar 2024.

Samningurinn felur í sér umtalsverðar kjarabætur. Frá og með 1. nóvember 2022 hækka mánaðarlaun um 6,75% en þó að hámarki um 66 þúsund krónur á mánuði. Hækkunin felur í sér flýtingu og fullar efndir hagvaxtarauka sem koma átti til greiðslu þann 1. maí 2023.

Samhliða almennum launahækkunum hækka kauptaxtar og nýjar launatöflur taka gildi. Desember- og orlofsuppbætur taka sömuleiðis hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður kr. 103.000,- og orlofsuppbót verður kr. 56.000,-.

Markmið samninganna er að styðja við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn byggir undir stöðugleika og skapar forsendur fyrir langtímasamningi. Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta.

Framsýn stóð fyrir kynningum á samningnum með því að setja inn efni á heimasíðu félagsins. Þá var fjallað um samninginn í samninganefnd félagsins sem skipuð er aðalstjórn og trúnaðarráði félagsins á hverjum tíma. Til stóð að halda sérstakan kynningarfund um samninginn en því miður var hann felldur niður þar sem aðeins einn félagsmaður mæti á fundinn. Vonandi hafa félagsmenn samt sem áður verið duglegir að kynna sér samninginn. Vissulega voru mikil vonbrigði að aðeins 6,23% félagsmanna greiddu atkvæði um samninginn. 

Kjarasamningurinn var samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna innan deildarinnar. Já sögðu 87,5%, nei sögðu 12,5%. Samningurinn var því samþykktur af miklum meirihluta félagsmanna. Samkvæmt niðurstöðunni ríkir mikil ánægja með kjarasamninginn sem gildir til 31. janúar 2024.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári 2022-2023: Elva Héðinsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir.

Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem ritari sem fundar reglulega. Þá á formaður einnig sæti í stjórn Framsýnar-ung. Formaður hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins.

Þing LÍV:

Framhaldsþing LÍV var haldið á Hallormsstað 24. – 25. mars en fyrri hluti þingsins var haldinn 14. október 2021 með rafrænum hætti. Kjörinn fulltrúi Framsýnar á þinginu var Jónína Hermannsdóttir.

Fræðslumál:

Félagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum fræðslusjóði, Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Um 35 fræðslustyrkir voru veittir úr sjóðnum á árinu 2022 samtals kr. 2.436.147,- sem skiptist þannig milli kynja; Konur 30 styrkir og karlar 5 styrkir. Samkvæmt þessu eru konur mun duglegri að sækja um styrki en karlar. Til viðbótar má geta þess að félagsmenn sem eru í kostnaðarsömu námi geta jafnframt sótt um auka fræðslustyrki úr Fræðslusjóði Framsýnar.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Linda M. Baldursdóttir hætti störfum á vegum félagsins í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn í starf þjónustufulltrúa hjá stéttarfélögunum. Þá mun Agnieszka Szczodrowska hefja störf hjá stéttarfélögunum þann 1. febrúar. Þannig vilja félögin efla þjónustu við erlenda starfsmenn á svæðinu sem hefur fjölgað verulega á umliðnum árum auk þess að bæta vinnustaðaeftirlitið. Aðalsteinn J. Halldórsson gegndi því hlutverki en sagði starfinu lausu fyrir um tveimur árum. Agnieszka verður í hálfu starfi hjá félögunum.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árunum 2022, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum.

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma.

Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar félagsmönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.

Deila á