Starfsmenn sveitarfélaga fengu glaðning í gær úr Félagsmannasjóði

Í síðustu kjarasamningum milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinsambands Íslands, sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn, var samið um sérstakt framlag frá sveitarfélögum og stofnunum þess í sérstakan Félagsmannasjóð starfsmanna. Framsýn er ætlað að taka við greiðslunum frá sveitarfélögunum og greiða þær áfram til starfsmanna, það er 1. febrúar ár hvert. Þetta fyrirkomulag hefur núna verið í þrjú ár. Fyrstu tvö árin hélt Starfsgreinasambandið utan um sjóðinn og sá um að greiða út til félagsmanna en á síðasta ári var tekin ákvörðun um að stéttarfélögin innan SGS myndu taka við sjóðnum og sjá um að greiða út úr honum til sinna félagsmanna.

Í gær var komið að því að greiða út úr sjóðnum til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Tjörneshrepp og stofnunum þeirra fyrir árið 2022. Samtals námu greiðslur úr sjóðnum 24 milljónum sem fóru til 497 félagsmanna. Forsenda þess að Framsýn geti greitt úr sjóðnum er að réttar upplýsingar liggi fyrir hjá félaginu, þannig ef einhver hefur ekki fengið greitt en telur sig eiga inni hjá sjóðnum þá þarf viðkomandi að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og við skoðum málið. Rétt er að geta að stéttarfélagið hefur ekki tekið staðgreiðslu af upphæðinni en greiðsla þessi fer inná skattaskýrslu næsta árs sem þá reiknar staðgreiðslu hjá hverjum og einum. Félagsmenn Framsýnar sem fengu greitt í gær eiga allir að hafa fengið kvittun í tölvupósti um greiðsluna.

Deila á