Meðan lítið gengur í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eru mörg önnur aðildarfélög Alþýðusambandsins í viðræðum við sína viðsemjendur. Sem dæmi má nefna, þá hafa samtök sjómanna verið í viðræðum við SFS en sjómenn hafa verið samningslausir frá ársbyrjun 2020. Þá eru viðræður hafnar við Samtök atvinnulífsins um þau atriði/kröfur sem ákveðið var að bíða með þegar aðildarfélög ASÍ gengu frá skammtímasamningi við Samtök atvinnulífsins í desember. Marmiðið er að klára þessar viðræður á næstu mánuðum, það er áður en kjarasamningarnir losna í ársbyrjun 2024. Á morgun verða viðræður í Reykjavík um menntamál í kjarasamningi SA og SGS. Vitað er að LÍV/VR hafa einnig tekið umræðu um þessi mál og munu gera það áfram. Síðan á föstudaginn verða haldnir undirbúningsfundir vegna kröfugerðar aðildarfélaga SGS sem hafa ákveðið að fara saman í kjaraviðræður við ríkið og sveitarfélögin, það er fyrir utan Eflingu sem ætlar að halda utan um sín mál er varðar þessa kjarasamninga. Viðræðum samningsaðila verður síðan haldið áfram næstu vikurnar og mánuðina. Formaður Framsýnar hefur verið virkur í þessum viðræðum sem fulltrúi félagsins og verður í Reykjavík næstu dagana vegna þessa.