Styrkur til Hjálparsveitar skáta í Aðaldal

Undanfarnar vikur hafa forsvarsmenn Framsýnar heimsótt björgunarsveitirnar á félagssvæðinu og afhent þeim örlítinn þakklætisvott frá félaginu fyrir þeirra mikla og góða framlag í þágu samfélagsins, en á síðasta aðalfundi Framsýnar  var ákveðið að leggja tæpar tvær milljónir króna í það verkefni. Á dögunum heimsóttu formaður og varaformaður Framsýnar, þau Aðalsteinn Árni Baldursson og Ósk Helgadóttir Hjálparsveit skáta í Aðaldal . Formaður hjálparsveitarinnar Jóhann Ágúst Sigmundsson, ásamt nokkrum meðlimum sveitarinnar veittu gjöfinni viðtöku og gáfu sér tíma til að fræða gestina um starfsemi hjálparsveitarinnar.

Hjálparsveit skáta í Aðaldal hefur á að skipa öflugu fólki, sem líkt og þúsundir annar sjálfboðaliða  björgunarsveita  Landsbjargar eru til taks fyrir okkur hin þegar út af bregður, hvort heldur sem er á nóttu eða  degi, allt árið um kring. Félagar hjálparsveitarinnar eru um 30 talsins, er talsverður hluti þeirra virkur í starfinu og ávallt einhverjir klárir í þau verkefni sem upp koma.

Hjálparsveitin er nokkuð vel tækjum búin, en að sjálfsögðu þarfnast allur útkallsbúnaður björgunarsveita stöðugrar endurnýjunar við til að standast ýtrustu kröfur um öryggi. Fram kom í máli Jóhanns og félaga að skipulögð séu vinnukvöld í húsi sveitarinnar þar sem farið sé yfir tækjakost félagsins, dyttað að ýmsu smálegu og rædd þau verkefni sem vitað sé að fyrir muni liggja. Þau segja ánægjulega þróun vera í samstarfi björgunarsveitanna á almannavarnarsvæði 12, sem séu 8 talsins. Samstarf þeirra á milli hafi aukist verulega á síðustu árum og virðist almennur áhugi fyrir því að efla það starf enn frekar í framtíðinni. Það sé styrkur fyrir sveitirnar sem margar eru fámennar að vinna meira saman og þá ekki eingöngu að útköllum, heldur einnig námskeiðahaldi, þjálfun og æfingum. Almannavarnasvæði 12 nær frá Víkurskarði í vestri að Sandvíkurheiði við Vopnafjörð í austri og frá nyrsta odda landsins, Hraunhafnartanga á Melrakkasléttu, inn á Vatnajökul í suðri og spannar um 5% af flatarmáli landsins. „Það er okkar allra hagur að vinna saman“ segja þau, „aukin samvinna eflir sveitirnar og eykur fagmennsku og öryggi, auk þess sem það stuðlar að samstöðu sveitanna í heild“. Eðlilega hefur reynst erfitt að halda úti skipulegu félagsstarfi björgunarsveitanna síðustu misseri sökum sóttvarna- og samkomutakmarkana og af þeim sökum ekki verið eins mikið um æfingar og námskeiðahald eins og hefði verið undir eðlilegum kringumstæðum.

Það er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að Hjálparsveit skáta í Aðaldal hefur síðustu vetur verið samstarfsaðili Þingeyjarskóla, þar sem elstu nemendur grunnskólans eiga þess kost að taka valáfanga þar sem að þau fá tækifæri til að kynnast starfi  björgunarsveita. Það er félagi í hjálparsveitinni sem jafnframt er starfsmaður Þingeyjarskóla, sem hefur kennsluna með höndum.

Líkt og hjá öðrum hjálpar/björgunarsveitum er fjáröflun talsverður hluti starfsins. Sjóðir sveitanna eru ekki digrir og þurfa þær sífellt að reyna að leita leiða til að afla tekna til að halda starfseminni gangandi. Næstu daga stendur einmitt fyrir dyrum sala flugelda, sem er aðalfjármögnun  björgunarsveita landsins. Hjálparsveitarfólk í Aðaldal mun að sjálfsögðu standa vaktina við flugeldasöluna í húsnæði sínu að Iðjugerði 1.

Förum varlega á tímum Covid

Þar sem tilfellum Covid hefur fjölgað í þjóðfélaginu viljum við beina þeim tilmælum til félagsmanna og annarra  viðskiptavina Skrifstofu stéttarfélaganna að fara varlega. Liður í því er að takmarka heimsóknir á skrifstofuna. Þess í stað er mikilvægt að notast við síma eða tölvupósta þurfi menn á þjónustu stéttarfélaganna að halda. Beðist er velvirðingar á þessum takmörkunum.

Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna

Vilt þú taka þátt í starfi Þingiðnar?

Fljótlega upp úr áramótum mun Kjörnefnd Þingiðnar koma saman til að stilla upp í trúnaðarstöður á vegum Þingiðnar fyrir næsta kjörtímabil sem er 2022 til 2024. Stilla þarf upp í stjórn félagsins, varastjórn, trúnaðarmannaráð, varatrúnaðarmannaráð og í aðrar stjórnir og nefndir á vegum félagsins.

Félagsmenn sem verið hafa í trúnaðarstörfum fyrir félagið og vilja víkja eru vinsamlegast beðnir um að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is fyrir 10. janúar nk. Þann dag mun Kjörnefnd félagsins koma saman til að stilla upp félagsmönnum í trúnaðarstöður fyrir komandi kjörtímabil. Þá eru þeir félagsmenn sem vilja taka að sér trúnaðarstörf fyrir félagið sömuleiðis beðnir um að hafa samband með því að senda póst á uppgefið netfang í þessari frétt, það er fyrir 10. janúar.

Við minnum á aðalfund Sjómannadeildar Framsýnar

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar verður haldinn miðvikudaginn 29. desember 2021 kl. 17:00 í fundarsal félagsins.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kjaramál
  3. Lagabreytingar
  4. Önnur mál

Vegna Covid verður veitingum stillt í hóf í ár og jafnframt farið eftir ítrustu sóttvarnareglum á fundinum.

Stjórn Sjómannadeildar Framsýnar

Jólakveðja stéttarfélaganna

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum óska félagsmönnum og fjölskyldum þeirra sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Megi árið 2022 verða okkur öllum farsælt og gæfuríkt.

Svo er rétt að minna á jólasmellinn sem skrifstofan gaf út fyrir fáeinum árum. Sígilt efni.

Framsýn stéttarfélag

Þingiðn félag iðnaðarmanna

Starfsmannafélag Húsavíkur

Verslunarfólk á skilið virðingu

Önnur jólahátíð óvissu og takmarkana er að bresta á. Önnur hátíð sóttkvíar og einangrunar, á tímum sem hafa verið okkur öllum erfiðir. Covid – jól. Það er komin þreyta og pirringur í samfélagið, sem hefur reyndar einkennst af ótrúlegri þolinmæði og þrautseigju síðan ósköpin dundu yfir fyrir tæplega tveimur árum. Fréttir herma að afkoma verslunarinnar hér á landi hafi verið mikil undanfarið og hafi sjaldan verið meiri.

 Ég stend í biðröð í verslun með stútfulla innkaupakerru. Þar er margt um manninn, grímuklædd andlit þjóta hjá, það er áþreifanleg spenna í loftinu og líkt því að jólavertíðin sé að nálgast hámarkið. Starfslið verslunarinnar er fámennt. Það virðist flest ungt að árum og líklega fæst hver með margra ára reynslu á vinnumarkaði. Klárir krakkar skanna inn vörur öruggum höndum á hefðbundnum afgreiðslukössum, eða stökkva til með sprittbrúsana að þrífa á milli þeirra sem kjósa að nota sjálfsafgreiðslukassana. Allir virðast vera að flýta sér. Kliður háværra radda blandast skröltinu í tómum innkaupakerrum sem skella saman við útganginn og stöðugu gelti samskiptageldra sjálfsafgreiðslukassana: „Óvæntur hlutur á pokasvæði … ekki gleyma vörunum þínum … mundu eftir kvittunni“.

Ég þokast nær kassanum, miðaldra og meðvituð um síminnkandi streituþol mitt. Lamandi jólastressið seytlar um æðarnar. Er eina ferðina enn búin að glutra búðarmiðanum út úr höndunum. Mundi ég eftir öllu? Var ég búin að kaupa gjöfina handa mömmu? Hvað ætlaði ég aftur að gefa Kalla frænda? Ég þarf að ná á pósthúsið fyrir lokun og taka pakkann á Eimskip. Vantaði ekki perur í útiseríurnar? Er ég með rétta jólaölið? Ég hata biðraðir. Hugsanirnar geisa stjórnlaust um höfuðið og gamalkunnur seyðingur stingur sér undir hægra gagnaugað. Það er korter í mígrenikast og mér sýnist það besta í stöðunni vera að leita vars í dimmu skoti, hnipra mig saman og bíða þess að ósköpin gangi yfir. 

Loksins kemur röðin að mér. Ég herði mig upp og reyni að bera mig mannalega. Býð ungum dreng við kassann brosandi góðan dag. Við spjöllum á léttu nótunum meðan hann rennir vörunum í gegnum skannann og afgreiðir mig. Þakka síðan kurteislega fyrir mig og óska honum gleðilegra jóla. „Þakka þér fyrir að vera svona almennileg. Það eru ekki allir viðskiptavinir búnir að vera þannig í dag“  segir þessi ágæti drengur sendir mér sitt breiðasta bros. „Fólk eins og þú gerir daginn minn betri“. Það kom hálfgert á mig við þetta óvænta skjall, en ég áttaði mig fljótlega á hvað hann var að fara. Hversu oft hefur maður ekki heyrt af og jafnvel orðið vitni af slæmri framkomu fólks sem leyfir sér að taka pirring dagsins með sér í búðina og lætur það bitna á saklausu afgreiðslufólkinu.

Hlýleg framkoma unga mannsins fylgir mér út í skammdegismyrkrið og fyllir hjartað þakklæti. Hefur bein áhrif á birtumagnið í sálinni og mér líður betur. Það er engu logið þegar talað er um mikilvægi mannlegra samskipta. Þetta litla atvik vekur mig til umhugsunar um hversu þakklát við megum vera þeim fjölmenna hópi fólks sem vinnur við verslun og þjónustu. Hópi sem flokkast af einhverjum ástæðum ekki til framlínustarfsmanna, en gegnir þó mjög mikilvægu hlutverki í okkar daglega lífi. Það er þeim að þakka að við höfum haft nokkuð greiðan aðgang að nauðsynjavöru og þjónustu þann tíma sem heimsfaraldurinn hefur geisað. Þeirra störf munu seint teljast vel borguð og ekki allir sem sækja í þau.               Margir hafa skoðun á því að greiða eigi ákveðnum stéttum samfélagsins álagsgreiðslur vegna mikils álags og áhættu í þeirra daglegu störfum. Starfsfólk í verslun og þjónustu er í mikilli nálægð við viðskiptavini og er þar af leiðandi í mikilli smithættu alla daga. Þetta er hins vegar ekki fólkið sem kvartar yfir kjörum sínum og kannski er hluti skýringarinnar sá að stór hluti stéttarinnar er ungt fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og erlent verkafólk sem jafnvel er að stíga sinn fyrstu skref á íslenskum vinnumarkaði.  

Verum þakklát framlínustarfsmönnum okkar hvar sem að við þurfum á þjónustu að halda fyrir óeigingjörn störf í okkar þágu. Sýnum þeim þakklæti og virðingu og leyfum þeim að verða þess áskynja að við metum þau að verðleikum. Komum fram við fólk eins og við viljum láta koma fram við okkur.

Brosum mót hækkandi sól.

Gleðileg jól

Ósk Helgadóttir

Fjallalamb slær met í hangikjötssölu

Fulltrúar frá Framsýn stéttarfélagi og Virk endurhæfingarsjóði gerðu sér ferð á norðursvæðið í gær, það er í Kelduhverfi, Öxarfjörð og á Raufarhöfn.  Komið var við í Rifós, Fiskeldi Samherja, Leikskólanum í Lundi, Versluninni í Ásbyrgi, Skerjakollu, Fjallalambi, GPG- Fiskverkun og stjórnsýsluhúsinu á Raufarhöfn. Almennt var fólk ánægt með sig svona rétt fyrir jólin. Fulltrúar Framsýnar og Virk áttu gott spjall við starfsmenn auk þess að færa starfsmönnum konfekt, dagatöl og minnisbækur að gjöf frá Framsýn með ósk um gleðileg jól og farsæld á komandi ári.  

Björn Víkingur í Fjallalambi var mjög ánægður með söluna fyrir jólin. Hann sagði hangikjötssöluna í ár slá öll fyrri met. Salan skipti tugum tonna. Það er full ástæða til að gleðjast með framkvæmdastjóra Fjallalambs.

Ísak í Ásbyrgi var ánægður með verslunina í sumar, mikið hafi verið um íslenska ferðamenn sem hafi litið við og verslað í Ásbyrgi. Hann líkt og aðrir vonast til þess að Covid hafi vit á því að hverfa á braut sem fyrst svo eðlilegt ástand myndist í þjóðfélaginu sem og í heiminum. Hér er hann ásamt Ágústi starfsmanni Virk á Húsavík.

Mikil vinna hefur verið hjá GPG- Fiskverkun á Raufarhöfn undanfarna mánuði, reiknað er með að það þurfi að vinna fram á Aðfangadag til að hafa undan. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar heilsaði upp verkstjórana, þau Lindu og Þór.

Landsliðið, frábærir starfsmenn starfa í leikskólanum í Lundi. Að sjálfsögðu var spjallað við þær í góða  veðrinu í gær.

Gríðarlegur uppgangur er í fiskeldi Rifós og Samherja í Kelduhverfi og Öxarfirði. Víða má sjá vinnuvélar á lóðum fyrirtækjanna enda mikið í gangi og framundan.  

Öngþveiti við Húsavíkurhöfn í morgun

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir þeim miklu umsvifum sem tengjast starfsemi PCC á Bakka við Húsavík. Þar starfa um 130 til 150 manns að staðaldri og þá eru launakjör starfsmanna almennt betri en gerast á svæðinu. Fjöldi undirverktaka koma að því að þjónusta fyrirtækið sem og aðrir þjónustuaðilar sem reiða sig á þjónustu við fyrirtækið og starfsmenn þess. Fyrirtækið er því að skila miklum sköttum í gegnum aðstöðugjöld, almenna skatta og útsvarsgjöld starfsmanna. Ekki má heldur gleyma skipa umferðinni um höfnina með tilheyrandi tekjum fyrir Norðurþing í formi hafnargjalda. Sem dæmi má nefna að í morgun var eitt skip í höfninni sem var verið að landa úr meðan tvö önnur biðu eftir því að komast að bryggju með hráefni fyrir verksmiðjuna á Bakka. Já, verksmiðjan á Bakka skiptir verulega miklu máli fyrir samfélagið allt en framleiðslan hefur gengið afar vel undanfarna mánuði með tilheyrandi gjaldeyrissköpun sem okkur veitir ekki af um þessar mundir. Þrátt fyrir að það sé dimmt úti um þessar mundir er bjart yfir Húsavík.   

Framsýn gerir vel við félagsmenn -Endurgreiðsluhlutfall styrkja allt að 90% til 1. maí 2022

Vegna áhrifa frá Covid 19 settu fræðslusjóðirnir sem Framsýn á aðild að, af stað átak í fræðslu sem hófst 15. mars 2020. Hluti átaksins fólst í því að endurgreiðsluhlutfall styrkja hækkaði tímabundið úr 75% í 90% hjá bæði fyrirtækjum og til einstaklinga með lokadagsetningu 31. desember 2021. Stjórnir sjóðanna hafa ákveðið að halda áfram með allt að 90% endurgreiðsluhlutfall til 1. maí 2022 og verður það þá endurskoðað aftur.

Hægt er að sjá reglur vegna einstaklingsstyrkja hér: Landsmennt – Sveitamennt – Ríkismennt – Sjómennt

Hægt er að sjá reglur vegna fyrirtækjastyrkja og styrkja til stofnana sveitarfélaga og ríkisins hér: Landsmennt – Sveitamennt – Ríkismennt – Sjómennt

Stapi hækkar hámarkslán og útvíkkar lánsrétt

Lsj. Stapi hefur ákveðið að gera breytingar á lánareglum sjóðsins. Helstu breytingar eru:

  • Lánsréttur var rýmkaður. Allir sem greitt hafa til sjóðsins eiga lánsrétt.
  • Hámarkslánsfjárhæð hækkuð í 70 milljónir.

Breytingin hefur þegar tekið gildi. Nánari upplýsingar um lánareglur sjóðfélagalána Stapa er að finna á heimasíðu sjóðsins stapi.is.

Á vefsíðu sjóðsins er einfalt að sækja um lán og greiðslumat. Með því að sækja um lán með rafrænum skilríkjum auðvelda umsækjendur sér umsóknarferlið til muna þar sem nánast öll gögn fyrir greiðslumatið eru sótt rafrænt.

Frekari upplýsingar eru í boði á skrifstofu sjóðsins.

Rúgbrauð – síld og aðrar gjafir

Öll höfum við gaman að því að fá gjafir og heimsóknir sem gefa lífinu aukið gildi. Nú fyrir jólin hafa margir góðir gestir komið við á Skrifstofu stéttarfélaganna og kastað kveðju á starfsmenn, sumir hafa haft með sér veitingar og enn aðrir fært starfsmönnum konfekt og annan glaðning að gjöf. Varaformaður Framsýnar Ósk Helgadóttir, kom við á skrifstofunni í gær með nýtt rúgbrauð, kleinur og silung úr sveitinni sem hún gaf starfsmönnum með kaffinu. Solla og Kiddi á Þórshöfn komu með síld í fötu og fjármálastofnun kom færandi hendi með konfekt. Starfsmenn munu ána efa fara glaðir inn í jólafríið eftir morgundaginn og takk fyrir hlýhug í okkar garð með góðum jólakveðjum kæru félagar til sjávar og sveita.

Flugfargjöld stéttarfélaganna taka breytingum um áramótin

Félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar gefst kostur á að fljúga á stéttarfélagsfargjaldi á eigin vegum fyrir kr. 12.000 frá og með næstu áramótum. Það er á flugleiðinni Reykjavík-Húsavík. Nánari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin

Viltu vera félagi í Framsýn?

Á árinu 2021 greiddu fjölmargir launamenn til Framsýnar stéttarfélags iðgjöld skv. ákvæðum kjarasamninga. Félagið gætir hagsmuna þeirra allra gagnvart atvinnurekendum í héraði og fer með umboð þeirra í samstarfi við verkalýðshreyfinguna á landsvísu. Allir sem greitt er af til félagsins afla sér réttinda í sjóðum þess og njóta verndar þeirra kjarasamninga sem félagið gerir og allir sem greitt er af eru færðir á félagaskrá sem fullgildir félagsmenn nema þeir óski eftir því að vera ekki á henni. Það athugist að einungis fullgildir félagsmenn njóta kosningaréttar og kjörgengis í félaginu. Hér með er þeim tilmælum beint til þeirra launamanna sem greiddu iðgjöld til félagsins á árinu 2021  en vilja ekki vera á félagsskrá sem fullgildir félagsmenn að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík sem allra fyrst. Rétt er þó að taka fram að öruggast er fyrir greiðandi launamenn til Framsýnar að ganga formlega í félagið með því að undirrita inntökubeiðni þess efnis sem hægt er að nálgast á heimasíðu félagsins eða á Skrifstofu stéttarfélagana. Þannig gerast menn fullgildir félagsmenn.

Stjórn Framsýnar stéttarfélags

Við leitum af ungu efnilegu fólki

Innan Framsýnar er starfandi Ungliðaráð Framsýnar sem skipað er til eins árs í senn. Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið skal starfa á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG. Ungliðaráðið skal starfa náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar stéttarfélags. Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma. Þeir sem vilja taka þátt í þessu starfi og leggja sitt að mörkum til að bæta stöðu ungs fólks er vinsamlegast beðið um að hafa samband við formann Framsýnar, Aðalstein Árna Baldursson á netfangið kuti@framsyn.is

Uppstilling framundan -Alltaf pláss fyrir áhugasama

Eftir áramótin hefst vinna hjá Uppstillinganefnd Framsýnar að stilla upp fólki í trúnaðarstöður fyrir félagið til næstu tveggja ára, það er frá árinu 2022 til 2024 sem er komandi kjörtímabil. Stilla þarf upp í stjórn, varastjórn, trúnaðarráð, stjórnir sjóða og nefnda á vegum félagsins og leggja fyrir aðalfund félagsins sem haldinn verður fyrir vorið 2022. Samtals þarf að stilla upp um 80 félagsmönnum í þessi embætti sem getið er um á heimasíðu félagsins undir stjórn og nefndir. Skorað er á áhugasama félagsmenn, sem eru á vinnumarkaði, að gefa kost á sér í þessi gefandi embætti á vegum eins öflugasta stéttarfélags landsins. Áhugasamir sendi póst á netfangið kuti@framsyn.is fyrir 20. janúar 2022.

Framsýn styrkir björgunarsveitina Núpa

Kristján Ingi Jónsson formaður Björgunarsveitarinnar Núpa í Öxarfirði kom við á Skrifstofu stéttarfélaganna á aðventunni og tók við 250.000 króna gjöf frá Framsýn. Gjöfin er hluti af framlagi Framsýnar til björgunarsveita í Þingeyjarsýslum. Um 30 manns eru skráðir í sveitina sem er með aðstöðu á Kópaskeri. Að sögn Kristjáns Inga er unnið að því að efla sveitina með kaupum á tækjum og þá er mikill áhugi fyrir því að eignast nýtt og hentugt húsnæði undir starfsemina

Gleðitíðindi – samningur framlengdur

Fulltrúar frá Flugfélaginu Erni og stéttarfélögunum í Þingeyjarsýslum funduðu í síðustu viku. Tilgangur fundarins var að endurnýja samning aðila um flugfargjöld milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Viðræðurnar gengu vel enda hafa aðilar átt mjög gott samstarf á þessum vetfangi. Ákveðið var að framlengja samninginn með kaupum stéttarfélaganna á þúsund flugmiðum. Samningnum fylgir smá hækkun á flugfargjöldum sem hafa reyndar ekki hækkað í nokkur ár en flugfélagið þarf nú að bregðast við hækkun eldsneytisverðs, launahækkana og annarra verðhækkana sem tengjast flugstarfsemi. Samkvæmt samningnum verður verðið kr. 12.000,- per flugmiða frá 1. janúar 2022. Það er, stéttarfélögin munu áfram selja miðann á því verði sem samið er um milli flugfélagsins og stéttarfélaganna. Ásgeir Örn Þorsteinsson sölu- og markaðsstjóri flugfélagsins og Aðalsteinn Árni frá stéttarfélögunum handsöluðu samninginn sem þeir telja hagkvæman fyrir báða aðila. Aðilar munu halda áfram samstarfi um að efla flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur enda afar mikilvægt að fólki sé gefin kostur á að fljúga milli þessara landshluta.

Fréttabréfið komið í hús

Fréttabréf stéttarfélaganna er væntanlegt til lesenda um helgina en það er farið í dreifingu. Að venju er það uppfullt af fréttum úr öflugu starfi félaganna. Fréttabréfið er borið í flest hús á félagssvæðinu.