Félagar í Þingiðn samþykktu kjarasamninginn

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins lauk í hádeginu í dag. Þingiðn á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Alls voru 89 félagsmenn á kjörskrá, atkvæði greiddu 14 eða 15,7% félagsmanna. Já sögðu 71.43% þeirra félagsmanna sem greiddu atkvæði, nei sögðu 21,43% félagsmanna. 7,14% tóku ekki afstöðu til samningsins og skiluðu auðu. Samningurinn skoðast því samþykktur með miklum meirihluta.

Verslunarmenn innan Framsýnar samþykktu kjarasamninginn, 87,5% sögðu já við samningnum

Í hádeginu í dag lauk kosningu um kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Landssambands ísl, verslunarmanna sem Framsýn á aðild að fyrir tæplega 300 félagsmenn, það er verslunar- og skrifstofufólk. Kjarasamningurinn var samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu. Já sögðu 87,5%, nei sögðu 12,5%. Samningurinn skoðast því samþykktur. Samkvæmt þessari niðurstöðu ríkir mikil ánægja með kjarasamninginn sem gildir til 31. janúar 2024. Til hamingju félagar.

Spjallað fyrir félagsfundinn

Þessir tveir Aðaldælingar mættu tímanlega á félagsfund Þingiðnar í gær um nýgerðan kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem Þingiðn á aðild að fyrir sína félagsmenn. Þetta eru þeir Jónas og Kristján. Fundurinn var óvenju fjörugur. Ekki var annað að heyra en menn væru nokkuð ánægðir með samninginn. Hins vegar telja félagsmenn Þingiðnar að skýra þurfi betur út vinnutímastyttinguna sem frekar illa hefur gengið að innleiða hjá iðnaðarmönnum. Kosningu um samninginn, sem er rafræn, lýkur á morgun miðvikudag kl. 12:00. Skorað er á félagsmenn að greiða atkvæði um samninginn.

Gleði og hamingja meðal félagsmanna með kjarasamninginn – 85% samþykktu samninginn

Í hádeginu í dag lauk atkvæðagreiðslu um nýgerðan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa á almenna vinnumarkaðinum. Skrifað var undir samninginn 3. desember. Alls voru 1.521 félagsmenn Framsýnar á kjörskrá. Kjörsókn var 11,05%. Um 85%  félagsmanna  sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni samþykktu kjarasamninginn. Nei sögðu um 14% félagsmanna og innan við 1% skiluðu auðu. Þetta eru mikil gleðitíðindi enda endurspeglast ánægja félagsmanna í niðurstöðunni. Nýr kjarasamningur hefur því þegar tekið gildi með gildistíma frá 1. nóvember sl.

Lokað á Þorláksmessu

Skrifstofa stéttarfélaganna verður lokuð á Þorláksmessu, það er föstudaginn í þessari viku. Hefðbundinn opnunartími verður hins vegar í gildi frá þriðjudegi til föstudags í næstu viku, það er frá kl. 08:00-16:00.

 

Kæru félagsmenn Þingiðnar og Framsýnar, takið eftir

Klukkan 12:00 í dag klárast atkvæðagreiðsla um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn á almenna vinnumarkaðinum. Endilega kjósið.

Þingiðn stendur fyrir félagsfundi í dag kl. 17:00 um nýgerðan kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem Þingiðn á aðild að fyrir sína félagsmenn. Hægt verður að kjósa um samninginn rafrænt til næstkomandi miðvikudags kl. 12:00.

Framsýn stendur síðan fyrir félagsfundi um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Landssambands ísl. Verslunarmanna sem Framsýn á aðild að fyrir félagsmenn sem starfa við verslun og þjónustu. Fundurinn hefst kl. 18:00. Hægt verður að kjósa um samninginn rafrænt til næstkomandi miðvikudags kl. 12:00.

Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna hefur farið víða undanfarið til að kynna nýgerða kjarasamninga, hér eru þeir í heimsókn hjá starfsmönnum GPG á Raufarhöfn.

Hér má sjá starfsmenn GPG kjósa eftir kynninguna. Flestir notuðu tækifærið og kusu um samninginn.

Starfsmenn GPG voru ánægðir með að fá kynninguna á vinnustaðinn.

Félagsfundur um kjaramál fór vel fram

Góður andi var meðal félagsmanna Framsýnar á kynningarfundi sem félagið stóð fyrir í dag um nýgerðan kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Góð mæting var á fundinn. Eftir framsögu formanns urðu líflegar umræður um innihald samningsins. Ekki var annað að heyra en að menn væru almennt ánægðir með samninginn en rafræn atkvæðagreiðsla stendur nú yfir. Hægt er að kjósa með því að fara inn á heimasíðu Framsýnar. Óskir komu fram frá félagsmönnum fyrir fundinn að honum yrði streymt og var orðið við þeirri beiðni. Hér er slóðin: https://www.twitch.tv/videos/1677197533 vilji menn kynna sér innihald samningsins. Slóðin verður opin í viku.

 

 

Þingiðn boðar til félagsfundar um nýgerðan kjarasamning

Þingiðn stendur fyrir kynningarfundi um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar mánudaginn 19. desember kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Rafræn atkvæðagreiða um samninginn er hafin og stendur til kl. 12:00 þann 21. desember. Með því að fara inn á heimasíðu félagsins framsyn.is geta félagsmenn greitt atkvæði um samninginn.

Þingiðn

Verslunar- og skrifstofufólk ath. – kynningarfundur

Framsýn stendur fyrir kynningarfundi um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Landssambands ísl. verslunarmann mánudaginn 19. desember kl. 18:00 í fundarsal félagsins. Samningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa við verslun og þjónustu auk skrifstofustarfa. Rafræn atkvæðagreiða um samninginn er hafin og stendur til kl. 12:00 þann 21. desember. Með því að fara inn á heimasíðu félagsins framsyn.is geta félagsmenn greitt atkvæði um samninginn.

Framsýn

Verslunar og skrifstofufólk – rafræn atkvæðagreiðsla er hafin um  kjarasamninginn

Rafræn atkvæðagreiða um kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Landssambands ísl, verslunarmanna sem Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar á aðild að fyrir sína félagsmenn hófst kl. 12:00 í dag, 14. desember. Hægt er að kjósa hér á heimasíðunni. Atkvæðagreiðslan stendur yfir til kl.12:00 miðvikudaginn 21. desember. Afar mikilvægt er að félagsmenn greiði atkvæði um samninginn. Hér er slóðin inn á atkvæðagreiðsluna og kjarasamningurinn í heild sinni:

https://kjosa.vottun.is/Home/Vote/107?lang=IS

Hér má lesa samninginn í heild sinni í PDF

Iðnaðarmenn – rafræn atkvæðagreiðsla er hafin um  kjarasamninginn

Rafræn atkvæðagreiða um kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem Þingiðn á aðild að hófst kl. 12:00 í dag, 14. desember. Hægt er að kjósa hér á heimasíðunni. Atkvæðagreiðslan stendur yfir til kl.12:00 miðvikudaginn 21. desember. Afar mikilvægt er að félagsmenn greiði atkvæði um samninginn. Hér er slóðin inn á atkvæðagreiðsluna og kjarasamningurinn í heild sinni:

https://innskraning.island.is/?id=kannanir.is&path=?client=survey_kannanir_/kosning/index.php/survey/index

Hér má sjá kjarasamninginn

Hér má sjá yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga

 

Rafræn kosning hafin – Notið kosningaréttinn / Electronic Voting has started – Use your voting rights

Við skorum á félagsmenn Framsýnar að greiða atkvæði um kjarasamninginn.  Verði samningurinn samþykktur gildir hann afturvirkt frá 1. nóvember 2022. Rafrænni atkvæðagreiðslu um samninginn lýkur mánudaginn 19. desember kl. 12:00. Rétt er að taka fram að einungis verður hægt að kjósa rafrænt um samninginn. Frekari upplýsingar um samninginn er hægt að nálgast inn á heimasíðu stéttarfélaganna eða á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um fyrirkomulag kosninganna og aðstoð við að greiða atkvæði. Þá verður félagsfundi Framsýnar um helstu atriði samningsins næstkomandi mánudag kl.17:00 í fundarsal félagsins streymt til félagsmanna, fundurinn er aðeins opinn félagsmönnum.

Félagsmenn fara inn á þessa síðu til að kjósa / Members go to this website to vote: https://kjosa.vottun.is/Home/Vote/379?lang=IS

Electronic Voting has started – Use your voting rights

We urge members of Framsýn to vote on the new collective agreement. If the agreement is accepted, it will become valid retroactively from November 1, 2022.

Electronic voting on the agreement ends Monday, December 19, at 12 o’clock. Please note that it will only be possible to vote electronically.

Further information can be found on Framsýn‘s website or at the union‘s office. Presentation on the agreement is on Monday, December 12, at 17:00 in the union‘s meeting hall. It will also be streamed live. The meeting is only open to members of Framsýn.

 

Þingiðn skrifar undir kjarasamning – helstu upplýsingar

Skrifað var undir kjarasamning í Karphúsinu í gær milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem Þingiðn á aðild að. Gildistími samningsins er til 31. janúar 2024 og hann kveður meðal annars á um 6,75% hækkun launa og hækkun desember- og orlofsuppbóta.

Þingiðn mun á næstu dögum kynna samninginn með ítarlegum hætti hér á heimasíðunni auk þess sem boðað hefur verið til kynningar fundar næsta mánudag, 19. Desember kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Atkvæðagreiðsla hefst á morgun, miðvikudag, kl. 12:00 og stendur yfir til miðvikudagsins 21. desember kl. 12:00. Stjórn Þingiðnar skorar á félagsmenn að kynna sér samninginn vel og greiða um hann atkvæði.

Hér má sjá kjarasamninginn

Hér má sjá yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga

 

Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar athugið – Kynningarfundur á mánudaginn kl. 18:00

Kjarasamningur Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV), við Samtök atvinnulífsins (SA) var undirritaður í gær, mánudaginn 12. desember 2022. Samningurinn er gerður í samfloti við tækni- og iðnaðarmenn og nær til tæplega 60.000 manns á vinnumarkaði.

Samningurinn nefnist Brú að bættum lífskjörum og er skammtímasamningur. Markmið samningsins er í megindráttum að styðja strax við kaupmátt launa, veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika og skapa forsendur fyrir langtímasamningi.

Gildistími samningsins er afturvirkur frá 1. nóvember 2022 og gildir til 31. janúar.

Almennar launahækkanir verða 6.75%, þó að hámarki 66.000,- kr, og taka gildi 1. nóvember 2022. Hækkunin felur í sér flýtingu og fullar efndir hagvaxtarauka sem koma átti til greiðslu þann 1. maí 2023. Nýjar launatöflur taka gildi strax með taxtabreytingum.

Samkvæmt samningum verður orlofsuppbót árið 2023  kr. 56.000,- og desemberuppbót fyrir sama ár kr. 103.000,-.

Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5,0% frá 1. nóvember 2022, nema um annað hafi verið samið.

Með framlengingu á lífskjarasamningnum er viðræðum um önnur atriði en launaliðinn frestað. Unnið verður markvisst að nýjum langtímasamningi á samningstímabilinu og er sú vinna þegar hafin sem miðar að því að næsti kjarasamningur taki við af Brú að bættum lífskjörum.

Hér má lesa samninginn í heild sinni í PDF

Félög og deildir innan LÍV munu kynna samninginn sínu félagsfólki og er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðslur hefjist á hádegi 14. desember 2022. Framsýn er aðili að þessum samningi fh. félagsmanna sem starfa við verslun og þjónustu. Félagsmönnum gefst kostur á að greiða rafrænt um samninginn. Atkvæðagreiðslan hefst á morgun, miðvikudag kl. 12:00 og klárast kl. 12: miðvikudaginn 21. desember. Nánari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þá hefur verið boðað til kynningarfundar um samninginn næstkomandi mánudag kl. 18:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Kjarasamningar undirritaðir hjá iðnaðar- og verslunarmönnum (Nær til félagsmanna Þingiðnar og verslunarmanna og skrifstofufólks innan Framsýnar)

Samflot iðn- og tæknifólks, VR og Landssamband íslenskra verslunarmanna hafa undirritað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Um er að ræða skammtímasamning sem gildir frá 1. nóvember 2022 og rennur út 31. janúar 2024.

Samningurinn felur í sér umtalsverðar kjarabætur. Frá og með 1. nóvember 2022 hækka mánaðarlaun um 6,75% en þó að hámarki um 66 þúsund krónur á mánuði. Hækkunin felur í sér flýtingu og fullar efndir hagvaxtarauka sem koma átti til greiðslu þann 1. maí 2023.

Samhliða almennum launahækkunum hækka kauptaxtar og nýjar launatöflur taka gildi. Desember- og orlofsuppbætur taka hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr.

Markmið samninganna er að styðja við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn byggir undir stöðugleika og skapar forsendur fyrir langtímasamningi. Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta.

Nú taka við kynningar og atkvæðagreiðslur um samninginn en eftirfarandi landssambönd og aðildarfélög þeirra eiga aðild að samningnum:

Landssamband íslenskra verslunarmanna, og Samiðn.

Frumvarp um félagafrelsi – árás og ólögmæt inngrip

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur framkomið frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði fela í sér ólögmætt inngrip og beina árás á grundvallarréttindi frjálsrar verkalýðshreyfingar. Alþýðusambandið lýsir því yfir að öllum tiltækum úrræðum verði beitt til að hrinda þessari viðleitni til að kollvarpa íslenska vinnumarkaðslíkaninu og skerða réttindi verkalýðshreyfingar launafólks.

Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn ASÍ um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem Kristján Þórður Sveinbjarnarson, forseti ASÍ, undirritar. Umsögnin hefur verið birt á vef Alþingis.

Í umsögninni segir að frumvarpið varði sjálfan kjarna hins  íslenska vinnumarkaðslíkans, grundvallarréttindi launafólks og verkalýðshreyfingar á Íslandi. Frumvarpið, verði það að lögum, veiki samtakamátt og stöðu verkalýðsfélaga og verkfallsrétt þeirra en styrki stöðu atvinnurekenda og samtaka þeirra á kostnað launafólks. Þá feli frumvarpið í sér verulegt inngrip í gildandi kjarasamninga þvert á  stjórnarskrárvarinn rétt frjálsra stéttarfélaga og alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland hafi verið aðili að um áratugaskeið.

Furðuleg tímasetning

Segir í umsögninni að furðu veki að málinu sé hleypt á dagskrá Alþingis örfáum dögum áður en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út, eftir að viðræður eru hafnar um framlengingu þeirra og án samráðs, kynningar eða viðvörunar. Jafnframt sé það undrunarefni að þetta sé gert með fullu samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna, hver svo sem afstaða einstakra þingmanna kunni að vera til efnis þess. Þingmál þetta geti því haft veruleg áhrif á viðræður samningsaðila og valdið þar miklum skaða.

Í umsögninni er gerð grein fyrir þróun íslenska vinnumarkaðslíkansins sem henti því litla samfélagi sem Ísland er, dreifðum byggðum þess og hagkerfi. Farsæl þróun þessa líkans hafi átt sér stað fyrir tilstuðlan löggjafarvaldsins og í þríhliða samstarfi þegar henta hafi þótt, með túlkunum Félagsdóms og Hæstaréttar og þeim hefðum og venjum sem mótast hafií samskiptum aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga og í framkvæmd þeirra.

Ætlað að kollvarpa íslenska líkaninu

Frumvarpiðbeinist gegn öllum grundvallarþáttum hins íslenska vinnumarkaðslíkans í því skyni að kollvarpa því. Frumvarpið geri ráð fyrir að innleitt verði nýtt líkan sem hvergi þekkist á byggðu bóli og aldrei hafi komið til umfjöllunar hér á landi sem sé andstætt því verklagi sem tíðkast hafi hér á landi frá því að lögin nr. 80/1938 hafi verið undirbúin.

Í umsögninni er staðhæft að allt meginefni frumvarpsins þar sem fjallað er um aðildarskyldu og forgangsréttarákvæði sé byggt á röngum og villandi forsendum og bæði dómar og álitsgerðir alþjóðlegra aðila séu ranghermt og afbakað. Oft hafi reynt á gildi forgangsréttarákvæða kjarasamninga fyrir Félagsdómi og sé það sjónarmið viðtekið í íslenskri réttarframkvæmd að forgangsréttarákvæði í frjálsum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins standist að lögum og rúmist innan heimilda stjórnarskrár.

Grundvallað á misskilningi

Frumvarpsflytjendur geri ekki greinarmunmun á lögmætum forgangsréttarákvæðum og aðildarskylduákvæðum og valdi sá misskilningur eða þekkingarskortur því að grundvöllur frumvarpsins fái ekki staðist. Hið rétta sé að óski menn hér á landi þess að standa utan stéttarfélags hafi þeir almennt rétt til þess. Samkvæmt lögum ASÍ megi ekkert aðildarfélag sambandsins hafa ákvæði um félagsskyldu í samþykktum sínum. Þá er í umsögninni að finna ítarlega umfjöllun um afstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu til þessa málefnis.

Bein árás á verkfallsréttinn

Alþýðusambandið vekur athygli á að frumvarpinu sé ætlað að breyta gildandi verkfallsrétti stéttarfélaga hér á landi. Þetta feli í sér beina árás á lögmætar heimildir frjálsra verkalýðsfélaga til þess að sækja og verja réttindi í kjarasamningum sem taki til allra sem laun taki samkvæmt þeim samningum, óháð félagsaðild.Umsögnin geymir einnig viðauka sem er samantekt um íslenska vinnumarkaðslíkanið frá árinu 2021. Þar kemur m.a. fram að líkanið hafi tryggt fylgni á milli öflugrar stéttarfélagastarfsemi og skipulags vinnumarkaðar annars vegar og almenns jafnaðar, víðtæks jafnréttis og afkomuöryggis hins vegar. Það sé skylda stjórnvalda að huga að því með virkum hætti að skipulagður vinnumarkaður og sterk staða stéttarfélaga verði varin með öllum tiltækum ráðum þegar að þeim er vegið með ólögmætum hætti.

Umsögn ASÍ um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði má nálgast hér.  

 

Sjálfkrafa fyrning orlofs er ólögmæt

Evrópudómstóllinn hefur staðfest með óyggjandi hætti að sjálfkrafa fyrning áunnins orlofs sé ólögmæt hafi atvinnurekandi í raun ekki sett starfsmann sinn í aðstöðu til að nýta sér hið áunna orlof. Dómurinn staðfestir þannig þá túlkun lögfræðinga ASÍ á samningsákvæðum tiltekinna kjarasamninga, að atvinnurekendur bera þá frumskyldu að sjá til þess að starfsmenn sínir taki það launaða orlof sem þeir eiga rétt á og geti hvorki hirt af þeim frídaga né orlofsfé.

Stundum hefur borið á því að atvinnurekendur, þar með talið hið opinbera, telji að áunnið orlof, bæði áunnir frídagar og réttur til greiðslu orlofsfjár vegna þeirra sömu daga, fyrnist sjálfkrafa hafi orlof ekki verið tekið. Þetta hefur verið byggt á túlkun þeirra á 13. gr. orlofslaga nr. 30/1987 þar sem segir: „Framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára er óheimilt.“ ASÍ hefur ætíð verið ósammála þessari túlkun á þeirri einföldu forsendu á atvinnurendur bera þá óumdeildu skyldu að sjá til þess að starfsmenn þeirra taki lög- og kjarasamningsbundið orlof og hvíld frá störfum. Sjá hér um orlofsreglur á vinnuréttarvef ASÍ.

Evrópudómstóllinn hefur nú skorið úr öllum vafa hér um með dómi frá 22.9 2022 í málinu nr. C‑120/21. ( CURIA – Documents (europa.eu). Fyrir dómstólnum lá spurning frá áfrýjunarrétti í Þýskalandi þar sem óskað var álits á því hvort þýsk löggjöf sem mælti fyrir um sjálfkrafa fyrningu orlofs sem ekki hafði verið tekið, að liðnum þremur árum frá því réttur til þess stofnaðist, stæðist ákvæði tilskipunar ESB um orlof nr. 2003/88 og stofnsáttmála ESB, hefði atvinnurekandi ekki í reynd veitt starfsmanni sínum tækifæri til orlofstöku með því að upplýsa hann um rétt sinn og bjóða honum að taka orlof. Niðurstaðan var mjög skýr: „7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um tiltekna þætti í skipulagi vinnutíma og 2. mgr. 31. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi verður að túlka þannig að það standi í vegi fyrir innlendri löggjöf þar sem réttur til launaðs árlegs orlofs sem launamaður öðlast á tilteknu viðmiðunartímabili fyrnist eftir þriggja ára tímabil sem hefst í lok þess árs sem sá réttur stofnast, hafi atvinnurekandi ekki í raun ekki sett starfsmanninn í aðstöðu til að nýta sér þann rétt.

Í síðustu kjarasamningum við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg var sett inn samningsákvæði hér um þar sem efnislega segir að „Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.“ ASÍ hefur þegar ritað þessum opinberu atvinnurekendum og tilkynnt þeim að ákvæði þetta sé ekki hægt að túlka þannig að launafólk verði sjálfkrafa svipt þessum réttindum sínum eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu og gefið þeim tækifæri til þess að leiðrétta túlkun sína á samningsákvæðinu. Þeim tilmælum var hafnað en þau verða nú ítrekuð enda liggur fyrir skýr dómsniðurstaða um ólögmæti þeirrar túlkunar sem atvinnurekendur vilja hafa á ákvæðinu.

Rafræn atkvæðagreiðsla hefst á föstudaginn

Framsýn hefur ákveðið að viðhafa rafræna atkvæðagreiðslu um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Ekki verður hægt að kjósa með öðrum hætti. Atkvæðagreiðslan hefst kl. 12:00 föstudaginn 9. desember og klárast mánudaginn 19. desember kl. 12:00. Hvað þennan kjarasamning varðar eru 1.516 félagsmenn Framsýnar á kjörskrá. Skorað er á félagsmenn Framsýnar að greiða atkvæði um samninginn. Verði hann samþykktur tekur hann gildi frá 1. nóvember með launahækkunum, ef ekki, hefjast viðræður aftur við Samtök atvinnulífsins.