Samningaviðræður hafnar milli SA og SGS

Formlegar viðræður um kjarasamning Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna starfsmanna við ferðaþjónustu á Íslandi hófust í Reykjavík í gær. Frá SGS tóku þátt í fundinum Guðrún Elín, Rut, Guðbjörg og Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar. Auk þeirra komu þrír fulltrúar frá Samtökum atvinnulífsins. Fundurinn í gær fór í það að yfirfara bókanir og ræða framhaldið hvað það varðar áður en hafist verður handa við að ræða frekari efnisatriði kjarasamningsins. Umræður urðu jafnframt um 16. kafla samningsins sem fjallar um bensínafgreiðslustaði. Samningsaðilar eru sammála um mikilvægi þess að sameina ákvæði í bensinafgreiðslusamningum SGS og Flóabandalagsins og Samtaka atvinnulífsins. Það er ef vilji er til þess meðal aðildarfélaga SGS sem á eftir að koma í ljós.

Guðmunda Steina kjörin í stjórn ASÍ-UNG

8. Þing ASÍ-UNG var haldið á Hotel Natura í dag. Framsýn átti tvo fulltrúa á þinginu, Sunnu Torfa og Guðmundu Steinu sem hlaut kosningu í stjórn.

ASÍ-UNG eru samtök innan verkalýðshreyfingarinnar sem sjá til þess að hagsmunamál ungs fólks á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins.

Yfirskrift þingsins að þessu sinni var „Fyrirmyndir komandi kynslóða – Er verkalýðshreyfingin aðlaðandi starfsvettvangur?“ Sérstök áhersla var á heilbrigð og uppbyggileg samskipti auk þess sem sérstaklega var fjallað um nýliðun innan hreyfingarinnar.

Á þinginu var ný stjórn ASÍ-UNG kosin, en hana skipa:

  • Ásdís Helga Jóhannsdóttir, AFL
  • Ástþór Jón Ragnheiðarson, Verkalýðsfélag Suðurlands
  • Guðmunda Steina Jósefsdóttir, Framsýn
  • Inga Fanney Rúnarsdóttir, Verkalýðsfélag Grindavíkur
  • Jón Unnar Viktorsson, Verkalýðsfélag Grindavíkur
  • Ólöf Helga Adolfsdóttir, Efling
  • Sindri Már Smárason, AFL
  • Svanfríður Guðrún Bergvinsdóttir, Verkalýðsfélag Vestfirðinga
  • Þorvarður Bergmann Kjartansson, VR

Nýkjörin stjórn ASÍ-UNG

Í kjölfar þingsins hélt ný stjórn ASÍ-UNG fyrsta fund stjórnarinnar. Nýr formaður ASÍ-UNG var kosinn á fundinum, Ástþór Jón Ragnheiðarson, Verkalýðsfélagi Suðurlands og varaformaður ASÍ-UNG, Þorvarður Bergmann Kjartansson, VR.

Þorvarður Bergmann Kjartansson, varaformaður og Ástþór Jón Ragnheiðarson, formaður ASÍ-UNG.

Plott og pukur

Varaformaður Verkalýðsfélags Suðurlands, Tryggvi Ástþórsson og starfsmaður félagsins Ástþór Jón Ragnheiðarson gerðu sér ferð til Húsavíkur í vikunni til að heimsækja forystumenn Framsýnar. Aðalsteinn Árni formaður og Ósk Helgadóttir varaformaður tóku vel á móti gestunum og funduðu með þeim. Heimsóknin var ánægjuleg í alla staði og miklar umræður urðu um verkalýðsmál, vinnustaðaeftirlit og stöðuna í hreyfingunni. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er ekki mikill kærleikur innan hreyfingarinnar um þessar mundir þar sem kallað hefur verið eftir breytingum, það er að þeir sem setið hafa við völd innan Alþýðusambandsins allt of lengi gefi öðrum kost á því að komast til áhrifa innan hreyfingarinnar. Svo virðist sem þeir sem setið hafa við völd séu ekki beint hrifnir að því að stiga til hliðar þar sem þeim þykir afar vænt um stólana og rúmlega það.

 

Almenningur látinn gjalda fyrir verðbólgu og heimsfaraldur

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir harðlega fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra sem lagt var fram á þriðjudag. Með frumvarpinu er almenningur einn gerður ábyrgur fyrir vaxandi verðbólgu og látinn gjalda fyrir stöðu ríkissjóðs vegna heimsfaraldurs.

Stjórnvöld stefna að því að ná jafnvægi í ríkisfjármálum og auka aðhald til að mæta vaxandi verðbólgu. Með frumvarpinu er sú leið valin að auka skatta og álögur á almenning, með verulegri hækkun krónutölugjalda og skattlagningu bifreiða ásamt því að fresta nauðsynlegum innviðafjárfestingum og auka niðurskurð í velferð og tilfærslu til heimila. Þetta er gert þrátt fyrir að heimilin verði um þessar mundir fyrir þungum áhrifum af vaxandi verðbólgu og hækkandi húsnæðiskostnaði.

Ríkisstjórnin hefur val um að fara aðrar leiðir, leiðir sem hlífa heimilum og færa byrðar á breiðustu bök samfélagsins. Í því samhengi væri hægt að hækka veiðigjöld, taka upp komugjald í ferðaþjónustu og gera skattlagningu fjármagns réttlátari. Á það skal bent að almenningur er með frumvarpinu meðal annars að greiða fyrir þá lækkun fjármagnstekjuskatts og  bankaskatts sem ákveðin var í miðjum heimsfaraldri.

Miðstjórn gagnrýnir að ekki sé ráðist í úrræði til að styðja við heimilin. Barnabætur verða óbreyttar milli ára og vaxtabótakerfið hefur nánast verið lagt niður. Gert er ráð fyrir lækkun á framlögum til uppbyggingar óhagnaðardrifinna leiguíbúða og ekki stendur til að efla húsnæðisbótakerfið.  Þessar ákvarðanir eru þvert á þá stefnu sem stjórnvöld höfðu boðað til að bregðast við gríðarlegum húsnæðisskorti.

Þá bendir miðstjórn á að með gamaldags skattheimtu og auknum álögum á almenning verður fjárlagafrumvarpið beinlínis til þess að kynda undir verðbólgu með vísitöluhækkunum. Svo mótsagnakennd stefnumörkun vekur furðu um leið og það er undrunarefni að stjórnvöld kunni engin ráð önnur en að seilast eina ferðina enn í vasa almennings þegar ríkissjóð skortir fjármagn.

Jafnframt er vakin athygli á að hækkanir á krónutölugjöldum og skattlagningu bifreiða koma verst niður á þeim tekjulægstu, hópum sem geta ekki valið sig frá neyslu á húsaskjóli og nauðsynjavörum og hafa ekki ráð á að festa kaup á dýrum rafmagnsbifreiðum.

Verkalýðshreyfingin sættir sig aldrei við ríkisfjármálastefnu sem felst í að velferðarkerfið sé notað sem hagstjórnartæki. Slík fjármálastefna mun ekki stuðla að sátt og stöðugleika á vinnumarkaði.

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir þessa ályktun.

Rasandi yfir framkomnu fjárlagafrumvarpi

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í vikunni. Meðal mála sem þar bara á góma var framkomið fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2023. Það virðist trú ríkisvaldsins að þeir sem minnst hafa séu þeir sem viljugastir séu að standa undir auknum álögum, en það verða heimili landsins sem koma til með að finna mest fyrir aukinni skattheimtu nái frumvarpið fram að ganga.

Hækkanir eru boðaðar á áfengi, tóbaki, bensíni, olíu og  kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjald hækkar um 7,7% á næsta ári. Viðbúið er að auknar álögur á eldsneyti hækki flutnings- og dreifingarkostnað sem og vöruverð.

Lítið fer hins vegar fyrir því að þeir sem meira hafa, s.s. stóru fyrirtækjunum , bönkunum og sjávarútveginum sé gert að leggja meira til samfélagsins.

Greinilegt er að ríkisstjórnin hefur gleymt fögrum fyrirheitum um  að skapa þjóðfélag sem byggir á jöfnuði.

Verkalýðshreyfingunni ber skylda til og mun svara þessum skilaboðum með skýrum hætti í komandi kjaraviðræðum við atvinnurekendur og í samskiptum við stjórnvöld. Ábyrgðin liggur ekki bara hjá launafólkinu í landinu.

https://www.fib.is/is/um-fib/frettir/miklar-auknar-alogur-of-langt-gengid-eins-og-thetta-er-lagt-fram-nuna

https://www.ruv.is/frett/2022/09/12/auknir-skattar-a-bensin-geti-haekkad-voruverd

https://kjarninn.is/skyring/fjarlagafrumvarpid-a-mannamali2023/

Framsýn tekur við greiðslum í Félagsmannasjóð sveitarfélaga

Í síðustu kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga var samið um sérstakt framlag í Félagsmannasjóð. Launagreiðanda er ætlað að greiða mánaðarlega framlag í Félagsmannasjóð sem nemur 1,5% af heildarlaunum félagsmanna Framsýnar. Úthlutun úr sjóðnum fer fram 1. febrúar ár hvert, það er til þeirra sem greitt var af til sjóðsins.

Félagsmannasjóðurinn er stofnaður vegna kröfu Alþýðusambands Íslands um jöfnun lífeyrisréttinda milli starfsmanna á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Frá upphafi, það er frá síðustu kjarasamningum, hafa greiðslur af félagsmönnum Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum og stofnunum þess borist til Starfsgreinasambands Íslands sem séð hefur um að halda utan um starfsemi sjóðsins og útgreiðslur úr sjóðnum til félagsmanna aðildarfélaga sambandsins sem starfa hjá sveitarfélögum og stofnunum á þeirra vegum.

Frá og með 1. október hefur verið ákveðið að Starfsgreinasambandið hætti að sjá um að halda utan um Félagsmannasjóðinn, þess í stað taki aðildarfélögin við verkefninu að halda utan um sjóðinn fyrir sína félagsmenn. Þannig að, Framsýn, mun frá og með næstu mánaðamótum taka við greiðslum frá sveitarfélögum sem tilheyra félagsmönnum og greiða þær síðan til félagsmanna þann 1. febrúar 2023. Með þessari breytingu verður jafnframt auðveldara fyrir félagsmenn Framsýnar að nálgast sína peninga í gegnum félagið í stað þess að þeir séu hafðir hjá Starfsgreinasambandinu.

Vilt þú skreppa í sumarbústað

Sumarbústaður Framsýnar í Dranghólaskógi í Öxarfirði er laus til útleigu í september fyrir félagsmenn. Hægt er að fá vikuleigu, helgarleigu eða leigða einstaka daga í miðri viku. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Stjórn og trúnaðarráð fundar á morgun, þriðjudag

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar á morgun, þriðjudaginn 13. september kl. 17:00. Stjórn Framsýnar-ung er einnig boðuð á fundinn.  Tilgangur fundarins er m.a. að velja fulltrúa á þing á vegum verkalýðshreyfingarinnar í haust.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Samgöngumál í héraðinu/Afstaða þingmanna
  4. Fundur með fulltrúum Þingeyjarsveitar
  5. Lagfæringar á Skrifstofu stéttarfélaganna
  6. Orlofsíbúð á Húsavík
  7. Staða Fjallalambs
  8. Formannafundur SGS 1. september
  9. Kjör fulltrúa á þing ASÍ
  10. Kjör fulltrúa á þing ASÍ-UNG
  11. Kjör fulltrúa á þing AN
  12. Önnur mál

Snyrtistofan Bellitas opnar í dag á Húsavík

Bellitas snyrtistofa & naglastúdíó opnaði í dag, föstudaginn 9. september að Garðarsbraut 39 á Húsavík. Í tilefni dagsins verður opið hús frá kl. 14:00-18:00. Formaður Framsýnar leit við á stofunni rétt í þessu og færðu eigendum blóm frá félaginu. 

Á snyrtistofunni verður boðið upp á alla almenna snyrtingu; Litun og plokkun, handsnyrtingu, fótsnyrtingu, andlitsmeðferðir, vax og gelneglur. Einnig verður í boði að versla gjafabréf.

Það er Marín Rut Karlsdóttir snyrtifræðimeistari og naglafræðingur sem opnar stofuna.

Hún hefur undanfarin 6 ár starfað sem snyrtifræðingur á snyrtistofunni AquaSpa á Akureyri en ákvað að snúa aftur á heimaslóðir og opna stofu á Húsavík en hún er ættuð úr Aðaldal. Ástæða er til að fagna þessari opnun, þrátt fyrir að karlar og konur í Þingeyjarsýslum gerist ekki fallegri má alltaf gera betur með því að fara í meðferð hjá Marín Rut.

Hér eru gagnlegar upplýsingar:

Tímapantanir á noona.is/bellitas

Hægt er að senda fyrirspurnir á netfangið bellitas.snyrtistofa@gmail.com og í síma 846-4609. Instagram.com/bellitassnyrtistofa

Kalla eftir afstöðu þingmanna til vegamála í Þingeyjarsveit

 „Á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar stéttarfélags þann 22. ágúst var ástand malarvega í sveitarfélaginu Þingeyjarsveit til umræðu. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Það er reyndar óskiljanlegt með öllu að vegir sem þeir sem sérstaklega eru hér tilgreindir virðast algjörlega hafa gleymst hvað varðar mikilvægi þeirra fyrir vegfarendur. Vissulega hefur í gegnum tíðina skort verulega á að þingmenn hafi haft áhuga fyrir því að beita sér í málinu.“

Þetta kemur meðal annars fram í bréfi Framsýnar í dag til þingmanna kjördæmisins um leið og félagið óskar eftir skriflegri afstöðu þingmanna til málsins. Eru þeir tilbúnir að beita sér í málinu eða ekki, þess er vænst að erindinu verði svarað fyrir 15. september 2022.

Ályktun Framsýnar er hér meðfylgjandi:

-Ályktun um ástand malarvega í Þingeyjarsveit-

„Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi malarvega í Þingeyjarsveit.

Víða í Þingeyjarsýslum hefur verið unnið að endurbótum og slitlagsviðgerðum á þjóðvegum með bundnu slitlagi. Að sama skapi hefur ríkisvaldið ekki lagt nægjanlegt fjármagn í uppbyggingu malarvega á svæðinu sem margir hverjir bera töluverða umferð. Vegi sem teljast ekki lengur boðlegir, hvorki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem margir hverjir aka um þá daglega til að sækja vinnu og/eða aðra þjónustu, né heldur stóraukna umferð ferðamanna sem þekkja ekki til íslenskra malarvega.

Margir þessara vega eru slysagildrur og hreinlega tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af ástandi þeirra. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Þó endurbætur og viðhald vega með bundnu slitlagi séu af hinu góða má ekki gleymast að sinna viðhaldi malarvega meðan þeir eru til staðar, þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og tryggt öryggi vegfarenda.  Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja að þessir vegir sem aðrir séu boðlegir fólki sem um þá ekur. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir verulegt eignatjón sem vegfarendur hafa orðið fyrir og þurft að bera sjálfir.

Framsýn stéttarfélag skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá.“

Þessar þrjár!

Síðasta mánudag, 5. september, boðaði Starfsgreinasambandið til formannaundar á Hótel Reykjavík Natura. Um var að ræða útvíkkaðan fund, þ.e.a.s. til fundarins voru boðaðir formenn aðildarfélaga SGS auk eins fulltrúa til viðbótar frá hverju félagi. Mætingin var til fyrirmyndar og dagskráin þétt, en meðal þeirra mála sem voru á dagskrá fundarins má nefna stöðu efnahagsmála, innri mál hreyfingarinnar og undirbúningur vegna komandi kjarasamninga. Þá fengu fundargestir stutta kynningu frá nýráðnum framkvæmdastjóra SGS, Björgu Bjarnadóttur. Meðal þeirra sem voru á fundinum voru Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og  Aneta Potrykus formaður Verkalýðsfélags Þórshafnar. Þær eru allar miklar baráttukonur.

Kröfugerð SGS sem þegar hefur verið lögð fram við Samtök atvinnulífsins má sjá í heild sinni hér.

Þingeyjarsveit tekur heilshugar undir ályktun Framsýnar

Ályktun Framsýnar um vegamál var til umræðu í sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þann 17.08.2022. Sveitarstjórnin tók heilshugar undir hana sbr. eftirfarandi bókun:

  1. Ályktun Framsýnar um Vegamál – 2208036

Framsýn stéttarfélag hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun um vegamál í Þingeyjarsveit: ,,Framsýn stéttarfélag lýsir yfir þungum áhyggjum af slæmu ástandi malarvega í Þingeyjarsveit.

Víða í Þingeyjarsýslum hefur verið unnið að endurbótum og slitlagsviðgerðum á þjóðvegum með bundnu slitlagi. Að sama skapi hefur ríkisvaldið ekki lagt nægjanlegt fjármagn í uppbyggingu malarvega á svæðinu sem margir hverjir bera töluverða umferð. Vegi sem teljast ekki lengur boðlegir, hvorki fyrir íbúa sveitarfélagsins sem margir hverjir aka um þá daglega til að sækja vinnu og/eða aðra þjónustu, né heldur stóraukna umferð ferðamanna sem þekkja ekki til íslenskra malarvega.

Margir þessara vega eru slysagildrur og hreinlega tímaspursmál hvenær stórslys hlýst af ástandi þeirra. Má þar til dæmis nefna þjóðveginn um Bárðardal, en fram dalinn liggur fjölfarin leið um Sprengisand og þjóðveg 835, Fnjóskadalsveg eystri, sem er hluti Norðurstrandarleiðar (Arctic Coast Way) og opnaður var með viðhöfn og borðaklippingum árið 2019.

Þó endurbætur og viðhald vega með bundnu slitlagi séu af hinu góða má ekki gleymast að sinna viðhaldi malarvega meðan þeir eru til staðar, þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og tryggt öryggi vegfarenda. Markmið stjórnvalda á að vera að tryggja að þessir vegir sem aðrir séu boðlegir fólki sem um þá ekur. Þannig er jafnframt hægt að koma í veg fyrir verulegt eignatjón sem vegfarendur hafa orðið fyrir og þurft að bera sjálfir.

Framsýn stéttarfélag skorar á fjárveitingavaldið og yfirvöld samgöngumála að auka fjárveitingu til malarvega í Þingeyjarsveit og bæta þjónustu við þá“.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tekur heilshugar undir ályktun stjórnar Framsýnar og skorar á innviðaráðherra að beita sér fyrir löngu tímabærum úrbótum í vegahaldi í sveitarfélaginu. Samþykkt samhljóða.

 

Ritari Heimssambands verkafólks á Húsavík

Christina Milcher ritari Heimssambands verkafólks fundaði með formanni Framsýnar í morgun á Húsavík en hún óskaði eftir fundi með honum. Eðlilega snerist umræðan um stöðu verkafólks víða um heim og á Íslandi en fjöldi erlendra starfsmanna hafa leitað til Íslands í leit að vinnu og betra lífi. Þá fór Aðalsteinn Árni yfir áherslur Framsýnar hvað varðar að koma til móts við erlenda félagsmenn með aukinni fræðslu og aðgengi að þjónustu félagsins. Hvað það varðar hefur erlendum trúnaðarmönnum verið fjölgað á félagssvæði Framsýnar auk þess sem félagið hefur gefið út upplýsinga bæklinga á nokkrum tungumálum. Þá er heimasíða félagsins á mörgum tungumálum. Einn af þeim erlendu trúnaðarmönnum sem eru á félagssvæðinu tók þátt í fundinum í morgun, hann kemur frá Spáni og ber nafnið Alberto Delmalo. Alberto starfar hjá Norðursiglingu á Húsavík. Aðilar fundarins voru ánægðir með fundinn í morgun sem var að ljúka rétt í þessu.

Gestur nýr forstjóri PCC, sér fyrir sér gott samstarf við Framsýn

Gestur Pétursson nýr forstjóri PCC BakkiSilicon hefur þegar sett sig í samband við formann Framsýnar og óskað eftir góðu samstarfi við félagið um málefni fyrirtækisins og starfsmanna. Fundur aðila er fyrirhugaður á næstu vikum þar sem samstarfið verður þróað frekar. Gestur tekur við starfinu af Rúnari Sigurpálssyni sem mun halda áfram störfum fyrir PCC samstæðuna og einbeita sér að þróunarverkefnum á Íslandi. Um leið og  Framsýn býður Gest velkominn til starfa vill félagið nota tækifærið og þakka fráfarandi forstjóra fyrir samstarfið, Rúnar Sigurpálssyni.

Heiðurshjón á faraldsfæti

Heiðurshjónin, Jón Þórir Óskarsson og Hlíf Guðmundsdóttir sem séð hafa um orlofsbyggð stéttarfélaganna á Illugastöðum fyrir eigendur orlofshúsanna létu formlega af störfum í gær eftir tæplega 50 ára störf fyrir stéttarfélögin. Það er fyrir eigendur þeirra orlofshúsa sem stéttarfélögin víða um land eiga á Illugastöðum. Auk orlofshúsanna er meðal annars sundlaug og lítil verslun í þjónustumiðstöðinni auk leikvallar með skemmtilegum leiktækjum. Svæðið allt er vel búið og vel hugsað um þá sem heimsækja byggðina á hverjum tíma. Ekki  þarf að tíunda að hjónin hafa unnið mikið og farsælt starf fyrir stéttarfélögin og verið gestum og gangandi mikill styrkur. Þá hafa þau einnig verið mjög virk í félagsmálum í sveitinni en þau hafa búið á Illugastöðum en munu nú flytja af svæðinu á þessum tímamótum.

Orlofsbyggðin hefur ráðið nýjan umsjónarmann, það er Þórólf Egilsson sem hefur starfað  með Jóni og Hlíf síðastliðin ár. Hann mun flytja á Illugastaði ásamt konu sinni Sigrúnu Kristbjörnsdóttur sem verður í hálfu starfi hjá Orlofsbyggðinni. Einnig hefur stjórn byggðarinnar ráðið Sindra Heiðmann sem aðstoðarmann umsjónarmanns. Sindri hefur unnið á Illugastöðum undanfarin sumur og þekkir þar alla staðhætti mjög vel. Þrátt fyrir breytingar á mannahaldi verður öll starfsemi eins og verið hefur nema  ekki gert ráð fyrir að verslun verði opin á staðnum.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, gerði sér ferð á Illugastaði í gær til að kveðja Jón og Hlíf og þakka þeim jafnframt fyrir vel unninn störf og gott samstarf á liðnum áratugum. Meðfylgjandi mynd er tekin þegar þau Jón og Hlíf voru að ljúka formlegum störfum fyrir orlofsbyggðina í gær.

 

Framsýn styrkir Blakdeild Völsungs

Forsvarsmenn Framsýnar og Blakdeildar Völsungs hafa undirritað samning um stuðning félagsins við blakdeildina til tveggja ára. Blakdeildin hefur haldið úti öflugu íþróttastarfi fyrir fólk á öllum aldri. Deildin ætlar sér stóra hluti á komandi mánuðum og árum. Hvað það varðar hefur Tihomir Paunovski frá Norður Makedoníu verið ráðin sem þjálfari, hann mun sjá um þjálfun meistaraflokka félagsins auk þess að hafa yfirumsjón með þjálfun yngri flokka deildarinnar. Meistaraflokkur kvenna mun spila í úrvalsdeildinni í vetur. Þá munu karlarnir spila í fyrstu deild. Bæði liðin eru mjög ung og efnileg lið. Liðin munu einnig taka þátt í bikarkeppni. Yngri flokkar Völsungs í blaki taka þátt í Íslands og héraðsmótum. Í dag eru um 70 iðkendur í blaki en reiknað er með að þeim fari fjölgandi í vetur enda starfið mjög öflugt. Það er afar ánægjulegt fyrir Framsýn að koma að þessu frábæra starfi á vegum Blakdeildar Völsungs með fjárstuðningi.

Góðar samræður um byggða- og atvinnumál

Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar sem jafnframt er fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis ásamt Albertínu F. Elíasdóttir framkvæmdastjóra SSNE funduðu með formanni Framsýnar á dögunum. Ekki þarf að koma á óvart að byggða- og atvinnumál í Þingeyjarsýslum voru sérstaklega til umræðu. Þá var komið inn á komandi kjaraviðræður aðila vinnumarkaðarins.  Fram kom í máli Ingibjargar að hún óskar eftir góðu samstarfi við Framsýn er viðkemur öllum framfaramálum á svæðinu. Það á reyndar líka við um SSNE.

Fundað með forsvarsmönnum Samiðnar

Formaður og framkvæmdastjóri Samiðnar komu norður til Húsavíkur fyrir helgina og funduðu með stjórnarmönnum í Þingiðn. Jónas Kristjánsson, Þórður Aðalsteinsson og Jónas Hallgrímsson tóku þátt í fundinum frá Þingiðn og Hilmar Harðarson og Guðfinnur Þór Newman frá Samiðn. Framkvæmdastjóri Þingiðnar, Aðalsteinn Árni tók einnig þátt í fundinum.

Fulltrúar frá Samiðn hafa verið á ferðinni um landið og fundað með forsvarsmönnum aðildarfélaga Samiðnar. Formaður Samiðnar, Hilmar Harðarson fór nokkrum orðum yfir komandi kjaraviðræður, kröfugerð sambandsins sem er í mótun, væntanlegt þing ASÍ og deilurnar innan Alþýðusambandsins. Guðfinnur Þór framkvæmdastjóri sambandsins kom einnig inn í umræðuna og gerði grein fyrir viðhorfskönnun sem gerð var meðal þriggja aðildarfélaga Samiðnar vegna komandi kjaraviðræðna.

Því næst fóru stjórnarmenn innan Þingiðnar yfir áherslur félagsins í komandi kjaraviðræðum. Þessar eru helstar:

  • Gamla launataflan verði endurvakin með þreppa hækkunum m.v. starfsaldur
  • Kaupmáttur launa verði aukinn.
  • Yfirvinna I og II verði að einum taxta, yfirvinna I falli út.
  • Samningsbundin ávinnsla réttinda fylgi starfsmanni milli fyrirtækja.
  • Nýr kjarasamningur taki gildi um leið og sá gamli fellur út gildi.
  • Vinnutímastyttingin verði endurskoðuð, það er framkvæmdin.
  • Orlofsréttur iðnaðarmanna verði aukin.

Þá töldu stjórnarmenn Þingiðnar jafnframt mikilvægt að samið yrði um sérstakt framlag atvinnurekanda í fræðslusjóð með sambærilegum hætti og er hjá aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands. Þar geta einstaklingar sótt um einstaklingsstyrki stundi þeir nám á eigin forsendum.  Þeir gerðu einnig að umræðuefni þann mikla aðstöðumun sem íbúar á landsbyggðinni búa við varðandi heilbrigðisþjónustu og framhalds- og háskólanámi m.v. íbúa höfuðborgarsvæðisins. Töldu þeir mikilvægt að það yrði tekið upp við stjórnvöld í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins. Ekki væri að sjá að hægt yrði að ganga frá kjarasamningum nema með aðkomu stjórnvalda er varðaði þessi mál og húsnæðis- og vaxtamál.

Mjög góðar umræður urðu um áherslur Þingiðnar og sýn Samiðnar á komandi kjaraviðræður. Í máli formanns Samiðnar kom fram að Þingiðn verður boðið að koma sínum kröfum á framfæri við sambandið á næstu vikum. Samiðn hefur ekki gengið frá kröfugerð sambandsins, það verður gert í næsta mánuði.

Til viðbótar má geta þess að umræður urðu um löggildingu starfa í iðnaði, framboð á námi er tengist fagnámi í iðngreinum. Þá kom formaður Þingiðnar því á framfæri að Samiðn væri velkomið að halda formannafund, samningafund eða þing sambandsins á Húsavík. Hér væri öll aðstaða til þess með besta móti. Fulltrúar Samiðnar þökkuðu fyrir boðið og sögðust taka það til skoðunar.

 

Vinnustaðaeftirlitið gengið vel

Undanfarið hafa stéttarfélögin í samstarfi við Vinnueftirlitið staðið fyrir vinnustaðaeftirliti á félagssvæðinu. Því miður er það alltaf þannig að of margir atvinnurekendur fara ekki eftir lögum og reglum, sérstaklega í ferðaþjónustunni. Ástandið hefur reyndar lagast töluvert á síðustu árum, þar kemur án efa til vinnustaðaeftirlitið sem er greinilega að skila góðum árangri. Á meðfylgjandi mynd sem tekin var á Raufarhöfn á dögunum má sjá Aðalstein J. Halldórsson sem tók að sér að sjá um vinnustaðaeftirlitið fyrir stéttarfélögin í sumar. Hann var þar á ferð með fulltrúa frá Vinnueftirlitinu. Auk þess hafa þeir heimsótt fyrirtæki í Kelduhverfi, Öxarfirði, Húsavík og í suður sýslunni. Til greina kemur að ráða mann í verkefnið í haust með öðrum störfum fyrir stéttarfélögin.