Frumvarp um félagafrelsi – árás og ólögmæt inngrip

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur framkomið frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði fela í sér ólögmætt inngrip og beina árás á grundvallarréttindi frjálsrar verkalýðshreyfingar. Alþýðusambandið lýsir því yfir að öllum tiltækum úrræðum verði beitt til að hrinda þessari viðleitni til að kollvarpa íslenska vinnumarkaðslíkaninu og skerða réttindi verkalýðshreyfingar launafólks.

Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn ASÍ um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem Kristján Þórður Sveinbjarnarson, forseti ASÍ, undirritar. Umsögnin hefur verið birt á vef Alþingis.

Í umsögninni segir að frumvarpið varði sjálfan kjarna hins  íslenska vinnumarkaðslíkans, grundvallarréttindi launafólks og verkalýðshreyfingar á Íslandi. Frumvarpið, verði það að lögum, veiki samtakamátt og stöðu verkalýðsfélaga og verkfallsrétt þeirra en styrki stöðu atvinnurekenda og samtaka þeirra á kostnað launafólks. Þá feli frumvarpið í sér verulegt inngrip í gildandi kjarasamninga þvert á  stjórnarskrárvarinn rétt frjálsra stéttarfélaga og alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland hafi verið aðili að um áratugaskeið.

Furðuleg tímasetning

Segir í umsögninni að furðu veki að málinu sé hleypt á dagskrá Alþingis örfáum dögum áður en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út, eftir að viðræður eru hafnar um framlengingu þeirra og án samráðs, kynningar eða viðvörunar. Jafnframt sé það undrunarefni að þetta sé gert með fullu samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna, hver svo sem afstaða einstakra þingmanna kunni að vera til efnis þess. Þingmál þetta geti því haft veruleg áhrif á viðræður samningsaðila og valdið þar miklum skaða.

Í umsögninni er gerð grein fyrir þróun íslenska vinnumarkaðslíkansins sem henti því litla samfélagi sem Ísland er, dreifðum byggðum þess og hagkerfi. Farsæl þróun þessa líkans hafi átt sér stað fyrir tilstuðlan löggjafarvaldsins og í þríhliða samstarfi þegar henta hafi þótt, með túlkunum Félagsdóms og Hæstaréttar og þeim hefðum og venjum sem mótast hafií samskiptum aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga og í framkvæmd þeirra.

Ætlað að kollvarpa íslenska líkaninu

Frumvarpiðbeinist gegn öllum grundvallarþáttum hins íslenska vinnumarkaðslíkans í því skyni að kollvarpa því. Frumvarpið geri ráð fyrir að innleitt verði nýtt líkan sem hvergi þekkist á byggðu bóli og aldrei hafi komið til umfjöllunar hér á landi sem sé andstætt því verklagi sem tíðkast hafi hér á landi frá því að lögin nr. 80/1938 hafi verið undirbúin.

Í umsögninni er staðhæft að allt meginefni frumvarpsins þar sem fjallað er um aðildarskyldu og forgangsréttarákvæði sé byggt á röngum og villandi forsendum og bæði dómar og álitsgerðir alþjóðlegra aðila séu ranghermt og afbakað. Oft hafi reynt á gildi forgangsréttarákvæða kjarasamninga fyrir Félagsdómi og sé það sjónarmið viðtekið í íslenskri réttarframkvæmd að forgangsréttarákvæði í frjálsum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins standist að lögum og rúmist innan heimilda stjórnarskrár.

Grundvallað á misskilningi

Frumvarpsflytjendur geri ekki greinarmunmun á lögmætum forgangsréttarákvæðum og aðildarskylduákvæðum og valdi sá misskilningur eða þekkingarskortur því að grundvöllur frumvarpsins fái ekki staðist. Hið rétta sé að óski menn hér á landi þess að standa utan stéttarfélags hafi þeir almennt rétt til þess. Samkvæmt lögum ASÍ megi ekkert aðildarfélag sambandsins hafa ákvæði um félagsskyldu í samþykktum sínum. Þá er í umsögninni að finna ítarlega umfjöllun um afstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu til þessa málefnis.

Bein árás á verkfallsréttinn

Alþýðusambandið vekur athygli á að frumvarpinu sé ætlað að breyta gildandi verkfallsrétti stéttarfélaga hér á landi. Þetta feli í sér beina árás á lögmætar heimildir frjálsra verkalýðsfélaga til þess að sækja og verja réttindi í kjarasamningum sem taki til allra sem laun taki samkvæmt þeim samningum, óháð félagsaðild.Umsögnin geymir einnig viðauka sem er samantekt um íslenska vinnumarkaðslíkanið frá árinu 2021. Þar kemur m.a. fram að líkanið hafi tryggt fylgni á milli öflugrar stéttarfélagastarfsemi og skipulags vinnumarkaðar annars vegar og almenns jafnaðar, víðtæks jafnréttis og afkomuöryggis hins vegar. Það sé skylda stjórnvalda að huga að því með virkum hætti að skipulagður vinnumarkaður og sterk staða stéttarfélaga verði varin með öllum tiltækum ráðum þegar að þeim er vegið með ólögmætum hætti.

Umsögn ASÍ um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði má nálgast hér.  

 

Deila á