Nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var undirritaður rétt fyrir miðnætti þann 9. febrúar 2023. Formaður Framsýnar var á staðnum og skrifaði undir kjarasamninginn. Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst þann 17. febrúar næstkomandi og lýkur kl. 15:00 þann 10. mars næstkomandi. Mikilvægt er að sjómenn kynni sér vel innihald samningsins áður en atkvæði um hann eru greidd. Framsýn á aðild að samningum og tóku Jakob G. Hjaltalín formaður Sjómannadeildar félagsins og Aðalsteinn Árni formaður félagsins þátt í viðræðunum. Hér að neðan er hægt að nálgast kjarasamninginn og kynningu á honum.
Stjórn Framsýnar hefur verið boðuð til fundar næsta þriðjudag ásamt stjórn Framsýnar-ung. Til umræðu á fundinum verða orlofsmál, viðhald á orlofseignum, kjaramál, atkvæðagreiðsla um kjarasamning sjómanna og endalausar árásir Eflingar á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands.
„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands harmar neikvæða og ofstækiskennda orðræðu í tengslum við kjaraviðræður, nú síðast í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Mikilvægt er að álitamál fái viðhlítandi meðferð og ótækt er að ágreiningur sé nýttur til að hafa í frammi haturskennd og viðurstyggileg ummæli í garð tiltekinna einstaklinga, hópa og samtaka. Eðlilegt er að tekist sé á um hin ýmsu álitaefni og að fram komi ólík sýn til margra grunnþátta samfélagsins. Þetta á augljóslega við um þær reglubundnu kjaraviðræður sem fram fara í landinu og þá hagsmuni sem þar eru í húfi.
Miðstjórn Alþýðusambandsins hvetur til stillingar og varar við því að kjaradeila, eðlilegur og viðtekinn framgangsmáti á vinnumarkaði, sé túlkuð á þann veg að réttmætt sé að ausa fúkyrðum og hatri yfir þau sem að þessum verkefnum koma.
Alþýðusamband Íslands mun ávallt fordæma slíka framgöngu og hér eftir sem hingað til standa vörð um þau gildi lýðræðis og mannvirðingar sem liggja hreyfingu launafólks til grundvallar.“
Meðan lítið gengur í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins eru mörg önnur aðildarfélög Alþýðusambandsins í viðræðum við sína viðsemjendur. Sem dæmi má nefna, þá hafa samtök sjómanna verið í viðræðum við SFS en sjómenn hafa verið samningslausir frá ársbyrjun 2020. Þá eru viðræður hafnar við Samtök atvinnulífsins um þau atriði/kröfur sem ákveðið var að bíða með þegar aðildarfélög ASÍ gengu frá skammtímasamningi við Samtök atvinnulífsins í desember. Marmiðið er að klára þessar viðræður á næstu mánuðum, það er áður en kjarasamningarnir losna í ársbyrjun 2024. Á morgun verða viðræður í Reykjavík um menntamál í kjarasamningi SA og SGS. Vitað er að LÍV/VR hafa einnig tekið umræðu um þessi mál og munu gera það áfram. Síðan á föstudaginn verða haldnir undirbúningsfundir vegna kröfugerðar aðildarfélaga SGS sem hafa ákveðið að fara saman í kjaraviðræður við ríkið og sveitarfélögin, það er fyrir utan Eflingu sem ætlar að halda utan um sín mál er varðar þessa kjarasamninga. Viðræðum samningsaðila verður síðan haldið áfram næstu vikurnar og mánuðina. Formaður Framsýnar hefur verið virkur í þessum viðræðum sem fulltrúi félagsins og verður í Reykjavík næstu dagana vegna þessa.
Samkvæmt kjarasamningum á að vera trúnaðarmaður á öllum vinnustöðum sem hafa fimm eða fleiri starfsmenn. Starfsfólk á hverjum vinnustað kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við viðkomandi stéttarfélag, Framsýn, Þingiðn eða Starfsmannafélag Húsavíkur. Eftir kosningu fær trúnaðarmaður og atvinnurekandi senda staðfestingu á kjöri.
Ef enginn trúnaðarmaður er á þínum vinnustað, viljum við biðja þig um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna 4646600 eða með því að senda tölvupóst á kuti@framsyn.is varðandi frekari upplýsingar og aðstoð við kjör á trúnaðarmanni.
Til viðbótar má geta þess að stéttarfélögin standa reglulega fyrir trúnaðarmannanámskeiðum. Næsta námskeið verður haldið á Húsavík 16.- 17. mars nk. Skráning á námskeiðið er hafin. Námskeiðið er trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu auk þess sem þeir halda launum meðan á trúnaðarmannanámskeiðinu stendur.
Á meðfylgjandi mynd er Sigurður Erlingsson sem nýlega var kjörinn trúnaðarmaður meðal starfsmanna Vatnajökulsþjóðgarðs. Með honum á myndinni er Linda Ársælsdóttir samstarfsmaður hjá þjóðgarðinum.
Rétt í þessu var undirritaður nýr kjarasamningur milli Framsýnar/Þingiðnar og PCC á Bakka. Samningurinn gildir frá 1. nóvember sl. til 31. janúar 2024. Kjarasamningurinn er sambærilegur kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands/Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem um 86% félagsmanna Framsýnar samþykktu í atkvæðagreiðslu. Samningurinn var einnig samþykktur af félagsmönnum Þingiðnar í rafrænni atkvæðagreiðslu. Ánægja er með samninginn meðal starfsmanna og stjórnenda fyrirtækisins. Þá var ákveðið að taka önnur atriði en laun til umræðu í haust, það er fyrir utan bónuskerfið sem þegar er hafin endurskoðun á. Trúnaðarmenn starfsmanna og stjórnendur PCC munu þróa kerfið áfram í samráði við Samtök atvinnulífsins og stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn. Alls koma starfsmenn frá 16 þjóðlöndum, Íslendingar og Pólverjar eru fjölmennastir. Meðfylgjandi myndir voru teknar í dag þegar sérkjarasamningurinn var undirritaður í höfuðstöðvum PCC á Bakka.
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun verðbólgunnar. Miðstjórn telur gagnrýnivert að stjórnvöld hafi kosið að leiða hjá sér ábendingar og varnaðarorð um að hækkun ýmissa skatta og gjalda um áramót myndu koma af fullum þunga niður á almenningi í formi minni kaupmáttar, verðbólgu og vaxtahækkana. Sú spurning gerist sífellt áleitnari hvort íslenskir ráðamenn hafi með öllu glatað sambandi við líf almennings í landinu.
Verðbólga mælist nú 9,9% og hefur aftur náð því hámarki sem mældist í júlímánuði. Greiningar leiða í ljós að stærstur hluti hækkunar janúarmánaðar má rekja til ákvarðana ríkisstjórnar um að auka álögur, gjöld og skatta. Þær ákvarðanir geta síðar kallað fram stýrivaxtahækkun af hálfu Seðlabanka Íslands og myndu skila sér af fullum þunga heim til almennings í formi aukinnar greiðslubyrði lána.
Miðstjórn Alþýðusambandsins lýsir furðu á þeim málflutningi stjórnvalda að hækkanir þessar séu með öllu eðlilegar. Það eru þær ekki. Þær auka allan framfærslu- og rekstrarkostnað almennings sem var óheyrilegur fyrir. Þessar aðgerðir bitna af mestum þunga á láglaunafólki og um leið og hinum fátæku er refsað er efnafólki og völdum atvinnugreinum hlíft.
Miðstjórn minnir launafólk á að þær aðgerðir stjórnvalda sem nú rýra kjör þess og lífsgæði eru mannanna verk. Engin lögmál mæla fyrir um að almenningur skuli jafnan bera byrðarnar þegar á móti blæs. Ólíkt því sem á við víðast hvar í nágrannaríkjum fer verðbólga á Íslandi enn vaxandi. Erlendis hafa ráðamenn markvisst unnið að því að kynda ekki verðbólgubálið. Þar vinna stjórnvöld að því að lina áhrif „afkomukreppunnar” svonefndu á almenning. Slíkar aðgerðir skortir mjög á Íslandi nú um stundir.
Oddviti Tjörneshrepps, Aðalsteinn J. Halldórsson og formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, gengu frá nýjum kjarasamningi í morgun. Um er að ræða skammtímasamning með gildistíma frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Hækkanirnar í samningnum eru þær sömu og Starfsgreinasamband Íslands samdi um við Samband ísl. sveitarfélaga á dögunum. Í kjarasamningunum 2019 samþykkti Tjörneshreppur að veita Sambandi ísl. sveitarfélaga ekki samningsumboð fyrir hreppinn. Þess í stað samþykkti sveitarstjórnin á þeim tíma að ganga til viðræðna við Framsýn um gerð á nýjum kjarasamningi fyrir starfsmenn sem gekk eftir. Kjarasamningurinn frá árinu 2019 var í morgun framlengdur til 31. janúar 2024 eins og fram kemur í fréttinni.
Fjölmennur hópur nemenda úr 10. bekk Borgarhólsskóla kom í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í morgun til að fræðast um starfsemi stéttarfélaga, það er um þrjátíu nemendur ásamt kennurum. Þrátt fyrir leiðindaveður tóku þau sér göngutúr úr skólanum á Skrifstofu stéttarfélaganna. Fulltrúi stéttarfélaganna fór yfir tilgang og markmið stéttarfélaga á vinnumarkaði auk þess að fara yfir innihald kjarasamninga. Nemendurnir meðtóku fræðsluna og spurðu út í hitt og þetta er tengis tilgangi stéttarfélaga og réttindum þeirra á vinnumarkaði. Það er ánægjulegt til þess að vita að grunn- og framhaldsskólar á svæðinu hafa lagt mikið upp úr því að fá forystumenn stéttarfélaga inn í skólana með fræðslu.
Nú er unnið hörðum höndum að því að klára framlengingu á sérkjarasamningi Framsýnar/Þingiðnar og PCC á Bakka. Viðræður hafa gengið nokkuð vel. Vilji er til þess að framlengja núverandi samning aðila til 31. janúar 2024. Reiknað er með að skrifað verði undir nýjan samning í næstu viku. Á myndinni má sjá trúnaðarmenn starfsmanna, þau Ingimar og Sigrúnu, sem setið hafa á fundi í morgun með formanni Framsýnar og yfirfarið tilboð PCC. Til stendur að svara tilboðinu síðar í dag og halda vinnunni áfram næstu daga.
Þá er komið að því, páskarnir framundan með tilheyrandi gleði og hamingju. Að venju verðum við með sérstaka páskaúthlutun á íbúðum stéttarfélaganna. Það er á íbúðum félaganna í Reykjavík, Kópavogi og Akureyri. Frestur til að skila inn umsóknum um dvöl í íbúðunum um páskana er til 1. mars. Þá verða umsóknirnar teknar fyrir og íbúðunum úthlutað. Þeir sem sækja um fyrir þann tíma sitja fyrir við úthlutun á íbúðunum. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna eða með því að senda skilaboð á netfangið kristjan@framsyn.is
Í síðustu kjarasamningum milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinsambands Íslands, sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn, var samið um sérstakt framlag frá sveitarfélögum og stofnunum þess í sérstakan Félagsmannasjóð starfsmanna. Framsýn er ætlað að taka við greiðslunum frá sveitarfélögunum og greiða þær áfram til starfsmanna, það er 1. febrúar ár hvert. Þetta fyrirkomulag hefur núna verið í þrjú ár. Fyrstu tvö árin hélt Starfsgreinasambandið utan um sjóðinn og sá um að greiða út til félagsmanna en á síðasta ári var tekin ákvörðun um að stéttarfélögin innan SGS myndu taka við sjóðnum og sjá um að greiða út úr honum til sinna félagsmanna.
Í gær var komið að því að greiða út úr sjóðnum til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá sveitarfélögum, Norðurþingi, Þingeyjarsveit, Tjörneshrepp og stofnunum þeirra fyrir árið 2022. Samtals námu greiðslur úr sjóðnum 24 milljónum sem fóru til 497 félagsmanna. Forsenda þess að Framsýn geti greitt úr sjóðnum er að réttar upplýsingar liggi fyrir hjá félaginu, þannig ef einhver hefur ekki fengið greitt en telur sig eiga inni hjá sjóðnum þá þarf viðkomandi að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og við skoðum málið. Rétt er að geta að stéttarfélagið hefur ekki tekið staðgreiðslu af upphæðinni en greiðsla þessi fer inná skattaskýrslu næsta árs sem þá reiknar staðgreiðslu hjá hverjum og einum. Félagsmenn Framsýnar sem fengu greitt í gær eiga allir að hafa fengið kvittun í tölvupósti um greiðsluna.
Jak wiadomo, liczba osób pracujących na Islandii zwiększyła się w ostatnich latach z czym związana równie różnorodność członków Framsýn oraz innych związków zawodowych. Dlatego zauważyliśmy potrzebę dodatkowej działalności związanej z tą duża grupą członków. Wychodząc naprzeciw potrzebom obcokrajowców zatrudniliśmy Agnieszkę Szczodrowską, która zaczęła u nas dzisiaj pracę na pół etatu. Aga została wybrana z grupy 21 osób ubiegających się o stanowisko w związkach zawodowych . Jej zadaniem będzie pośredniczyć miedzy zagranicznymi członkami a związkami zawodowymi oraz ochrona obcokrajowców na rynku pracy. Rolą Agi bedzię również odwiedzanie zakładów pracy. Tym zadaniem zajmował się nasz były pracownik Aðalsteinn J. Halldórsson. Po zakończeniu pracy przez Aðalsteina nasze wizyty w miejscach pracy były rzadkie, więc dzięki zatrudnieniem Agi będziemy mogli wznowić tą pracę. Dni, które Aga bedzie pracowała w naszym biurze to poniedziałki, środy i piątki. Bardzo chcielibyśmy przywitać Agę naszym gronie.
Aga bardzo dobrze zna pracę zwiazków zawodowych w Þingeyjarsýsla, ponieważ współpracowaliśmy z nią w sprawach tłumaczeń, w wydarzeniach promujących związki zawodowe oraz w sprawach zwiazanych z zagranicznymi pracownikami. Na powyzszym zdjęciu widać Agę tłumaczącą odczyt na wystawie przedstawiajacej obcokrajowców w swoich zawodach.
Eins og kunnugt er hefur erlendum starfsmönnum sem koma til Íslands fjölgað verulega á síðustu árum, það á við um félagssvæði Framsýnar og annarra stéttarfélaga á Íslandi. Kallað hefur verið eftir því að stéttarfélögin gerðu sitt besta til að bæta þjónustuna við þennan stóra hóp verkafólks. Til að mæta þörfinni hafa stéttarfélögin ráðið Agnieszku Szczodrowsku í 50% starf hjá stéttarfélögunum og hóf hún störf í morgun. Aga var valin úr hópi 21 umsækjanda um starfið. Henni er ætlað að þjóna m.a. erlendum starfsmönnum er varðar þeirra réttindi á vinnumarkaði sem og öllum þeim öðrum sem leita til skrifstofunnar eftir upplýsingum. Þá mun hún einnig koma að vinnustaðaeftirliti fyrir stéttarfélöginn. Aðalsteinn J. Halldórsson var áður í því starfi, það er áður en hann hætti hjá stéttarfélögunum. Frá þeim tíma hefur vinnustaðaeftirlitið að mestu legið niðri en með ráðningu á Ögu verður tekið myndarlega á þeim málum. Við bjóðum Ögu velkomna til starfa en hún verður til staðar á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum.
Aga þekkir vel til starfa stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hún hefur komið að því að túlka fyrir félögin þegar þess hefur þurft með auk þess að vera til staðar á viðburðum sem félögin hafa staðið fyrir og tengjast erlendu vinnuafli á svæðinu. Á meðfylgjandi mynd er Aga að túlka á ljósmyndasýningu sem Framsýn stóð nýlega fyrir í Safnahúsinu af erlendu verkafólki við störf.
Aðalfundur Deildar Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar var haldinn í gær. Fundurinn fór vel fram og var mætingin með ágætum. Töluverðar umræður urðu um ástandið í verkalýðshreyfingunni síðustu vikurnar þar sem harðar deilur eru í gangi milli Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Reyndar hefur mörgum verið blandað inn í deiluna sem er í hörðum hnút. Almenn ánægja er hins vegar með kjarasamninginn sem Framsýn stendur að ásamt öðrum aðildarfélögum LÍV með gildistíma frá 1. nóvember 2022 sé tekið mið af atkvæðagreiðslu um samninginn en tæplega 88% félagsmanna samþykktu kjarasamninginn í rafrænni atkvæðagreiðslu. Á fundinum var gengið frá kjöri á nýrri stjórn deildarinnar. Öll stjórnin var tilbúin að gefa kost á sér áfram nema Trausti Aðalsteinsson sem starfar ekki lengur á samningssviði deildarinnar. Í hans stað kemur Guðrún Þóra Hallgrímsdóttir inn sem varaformaður deildarinnar. Hún starfar hjá endurskoðunarfyrirtækinu Enor á Húsavík. Hún er boðin velkomin til starfa um leið og Trausti fær kærar þakkir fyrir hans störf í þágu deildarinnar. Forsíðumyndin er af stjórninni. Með þeim á myndinni er ungur leiðtogi, Arnhildur Héðinn Einarsson, sem hafði hægt um sig á fundinum. Hér má síðan lesa helstu upplýsingar úr skýrslu stjórnar sem formaðurinn, Elva Héðins, tók saman fyrir fundinn og fylgdi úr hlaði:
Ágætu félagsmenn!
Ég vil fyrir hönd stjórnar Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar bjóða ykkur öll hjartanlega velkomin til fundarins.
Skýrslunni er ætlað að miðla upplýsingum til félagsmanna varðandi starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári 2022, jafnframt því að svara spurningum fundarmanna um allt það sem viðkemur starfseminni á hverjum tíma.
Fjöldi félagsmanna:
Varðandi fjölda félagsmanna þá voru rúmlega 400 einstaklingar sem greiddu til deildarinnar á árinu 2022 en voru um 300 árið áður. Félagsmönnum fer því fjölgandi sem er ánægjulegt. Með gjaldfrjálsum eru félagsmenn deildarinnar um 450 talsins.
Kjaramál:
Landssamband íslenskra verslunarmanna og Samtök atvinnulífsins undirrituðu kjarasamning 12. desember 2022. Framsýn á aðild að samningnum fyrir sína félagsmenn. Um er að ræða skammtímasamning sem gildir frá 1. nóvember 2022 og rennur út 31. janúar 2024.
Samningurinn felur í sér umtalsverðar kjarabætur. Frá og með 1. nóvember 2022 hækka mánaðarlaun um 6,75% en þó að hámarki um 66 þúsund krónur á mánuði. Hækkunin felur í sér flýtingu og fullar efndir hagvaxtarauka sem koma átti til greiðslu þann 1. maí 2023.
Samhliða almennum launahækkunum hækka kauptaxtar og nýjar launatöflur taka gildi. Desember- og orlofsuppbætur taka sömuleiðis hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður kr. 103.000,- og orlofsuppbót verður kr. 56.000,-.
Markmið samninganna er að styðja við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn byggir undir stöðugleika og skapar forsendur fyrir langtímasamningi. Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta.
Framsýn stóð fyrir kynningum á samningnum með því að setja inn efni á heimasíðu félagsins. Þá var fjallað um samninginn í samninganefnd félagsins sem skipuð er aðalstjórn og trúnaðarráði félagsins á hverjum tíma. Til stóð að halda sérstakan kynningarfund um samninginn en því miður var hann felldur niður þar sem aðeins einn félagsmaður mæti á fundinn. Vonandi hafa félagsmenn samt sem áður verið duglegir að kynna sér samninginn. Vissulega voru mikil vonbrigði að aðeins 6,23% félagsmanna greiddu atkvæði um samninginn.
Kjarasamningurinn var samþykktur í rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna innan deildarinnar. Já sögðu 87,5%, nei sögðu 12,5%. Samningurinn var því samþykktur af miklum meirihluta félagsmanna. Samkvæmt niðurstöðunni ríkir mikil ánægja með kjarasamninginn sem gildir til 31. janúar 2024.
Stjórnarmenn og fundir:
Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári 2022-2023: Elva Héðinsdóttir formaður, Trausti Aðalsteinsson varaformaður, Karl Hreiðarsson ritari og meðstjórnendur Anna Brynjarsdóttir og Kristbjörg Vala Kristjánsdóttir.
Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund milli aðalfunda. Formaður deildarinnar situr í aðalstjórn Framsýnar sem ritari sem fundar reglulega. Þá á formaður einnig sæti í stjórn Framsýnar-ung. Formaður hefur því sterka stöðu til að koma skoðunum verslunar- og skrifstofufólks á framfæri við aðalstjórn félagsins.
Þing LÍV:
Framhaldsþing LÍV var haldið á Hallormsstað 24. – 25. mars en fyrri hluti þingsins var haldinn 14. október 2021 með rafrænum hætti. Kjörinn fulltrúi Framsýnar á þinginu var Jónína Hermannsdóttir.
Fræðslumál:
Félagar í Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar eiga aðild að öflugum fræðslusjóði, Fræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks. Um 35 fræðslustyrkir voru veittir úr sjóðnum á árinu 2022 samtals kr. 2.436.147,- sem skiptist þannig milli kynja; Konur 30 styrkir og karlar 5 styrkir. Samkvæmt þessu eru konur mun duglegri að sækja um styrki en karlar. Til viðbótar má geta þess að félagsmenn sem eru í kostnaðarsömu námi geta jafnframt sótt um auka fræðslustyrki úr Fræðslusjóði Framsýnar.
Skrifstofa stéttarfélaganna:
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa fimm starfsmenn á skrifstofunni. Til viðbótar er einn starfsmaður í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru sex starfsmenn í 0,25% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim fimm starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði. Linda M. Baldursdóttir hætti störfum á vegum félagsins í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn í starf þjónustufulltrúa hjá stéttarfélögunum. Þá mun Agnieszka Szczodrowska hefja störf hjá stéttarfélögunum þann 1. febrúar. Þannig vilja félögin efla þjónustu við erlenda starfsmenn á svæðinu sem hefur fjölgað verulega á umliðnum árum auk þess að bæta vinnustaðaeftirlitið. Aðalsteinn J. Halldórsson gegndi því hlutverki en sagði starfinu lausu fyrir um tveimur árum. Agnieszka verður í hálfu starfi hjá félögunum.
Öflugt starf og upplýsingamál:
Almennt gekk starfsemi Framsýnar vel á árunum 2022, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra, orlofs- og starfsmenntasjóðum.
Hér að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að félagsmenn séu nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is og Fréttabréf stéttarfélaganna sem ætlað er að miðla upplýsingum til félagsmanna á hverjum tíma.
Í lokin vil ég þakka sem formaður deildarinnar félagsmönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári sem verið hefur með miklum ágætum.
Í síðasta kjarasamningi aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samband ísl. sveitarfélaga árið 2019 var samið um að sveitarfélögin greiddu 1,5% af heildarlaunum starfsmanna inn í svokallaðan Félagsmannasjóð. Framsýn á aðild að sjóðnum fyrir sína félagsmenn. Kveðið er á um að stéttarfélögunum beri að standa skil á þessum greiðslum til félagsmanna 1. febrúar ár hvert fyrir árið á undan. Greitt er úr sjóðnum árlega, það er 1. febrúar. Rétt er að geta þess að ekki hefur verið tekin staðgreiðsla af upphæðinni sem mun berast félagsmönnum á næstu vikum. Því þarf að greiða skatta af þessum greiðslum eftir á.
Starfsgreinasambandi Íslands var falið að sjá um umsýslu sjóðsins í upphafi fyrir flest aðildarfélögin. Því miður sáu stéttarfélögin ástæðu til að taka sjóðinn yfir til sín, það fyrir sína félagsmenn, þar sem umfangið var of mikið fyrir Starfsgreinasambandið þar sem sambandinu tókst ekki að leysa verkefnið með viðunandi hætti. Framsýn yfirtók því sjóðinn er viðkemur félagsmönnum þann 1. október 2022. Frá þeim tíma hafa greiður í sjóðinn frá sveitarfélögum og tengdum stofnunum borist Framsýn. Greiðslur þessar, frá 1. október, verða greiddar inn á bankareikninga félagsmanna um mánaðamótin.
Hvað varðar greiðslur til starfsmanna sveitarfélaga sem bárust Félagsmannasjóðnum fyrir yfirtöku Framsýnar er töluverð vinna framundan hjá félaginu að gera upp við viðkomandi félagsmenn. Beðist er velvirðingar á því. Yfirfara þarf skilagreinar síðustu þriggja ára er tilheyra greiðslum í Félagsmannasjóðinn meðan hann var í umsjón Starfsgreinasambands Íslands. Það er til að tryggja að allir fái það sem þeir eiga í sjóðnum. Þegar þeirri vinnu er lokið verður endanlega gert upp við félagsmenn. Vinsamlegast hafið samband við Skrifstofu stéttarfélaganna vanti félagsmönnum frekari upplýsingar um inneign þeirra í Félagsmannasjóðnum.
Aðalfundur Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar stéttarfélags verður haldinn mánudaginn 30. janúar kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna.
Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf
Skýrsla stjórnar
Kjör formanns og stjórnar
Kjaramál
Önnur mál
Skorað er á félagsmenn sem starfa eftir kjarasamningi verslunar- og skrifstofufólks að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og meðlæti á fundinum.
Boðað hefur verið til fundar í stjórn og trúnaðarráði Framsýnar næstkomandi mánudag. Að venju er Framsýn-ung boðið að sitja fundinn. Kjaramál verða umfangsmikil á fundinum enda mikið að gerast á þeim vettvangi. Fundurinn verður væntanlega langur og strangur.
Fulltrúar frá Starfsgreinasambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins hittust í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær á fyrsta fundi til undirbúnings langtímakjarasamnings. Viðræðurnar eru í samræmi við verkáætlun sem fylgdi framlengingu Lífskjarasamningsins til 31. janúar 2024 þar sem viðræðum um önnur atriði en launalið í kröfugerð aðila var frestað. Í samræmi við verkáætlun var á þessum fyrsta fundi fjallað um menntun, fræðslu og fagbréf, vinna hópsins skipulögð og umfang verkefnisins metin. Gengið var frá fundaáætlun sem miðast við það að verkefni vinnuhópanna verði lokið í samræmi við þá tímasetningu sem kemur fram í verkáætlun. Fundað verður nokkuð stíft næstu vikurnar. Góður gangur var í viðræðunum í gær.
Á meðfylgjandi mynd eru Maj-Britt Hjördís Briem og Sólveig B. Gunnarsdóttir, lögfræðingar á vinnumarkaðssviði SA ásamt fulltrúum SGS, þeim Aðalsteini Árna, Björgu, Guðbjörgu og Finnboga Sveinbjörnssyni.
Á árinu 2023 losna kjarasamningar Starfsgreinasambands Íslands og Sambands ísl. sveitarfélaga annars vegar(30.sept) og Starfsgreinasambands Íslands og fjármálaráðherra fh. ríkissjóðs hins vegar(31.mars). Þessar vikurnar vinnur Framsýn að því að setja saman kröfugerð fyrir félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum. Afar mikilvægt er að félagsmenn sem starfa eftir þessum kjarasamningum komi sínum kröfum á framfæri við félagið. Það gera menn best með því að senda sínar kröfur á netfangið kuti@framsyn.is eða þá eru félagsmenn ávallt velkomnir í heimsókn á skrifstofuna vilji þeir fylgja eftir sínum kröfum. Tekið verður á móti kröfum til 22. janúar. Síðan verða tillögur félagsmanna teknar fyrir og mótuð kröfugerð. Koma svo kæru félagar, það er ykkar að hafa áhrif á kröfugerðina.