Seðlabankinn svarar Framsýn

Framsýn gerði á dögunum athugasemdir við  framkvæmd hæfismats fjármálaeftirlitsins á stjórnarmönnum lífeyrissjóða m.a. hvað varðar munnleg hæfismöt og hertar kröfur til hæfis stjórnarmanna. Fjallað var um málið á heimasíðu Framsýnar og í framhaldi af því fjölluðu fjölmiðlar um málið, sem vakti töluverða athygli. Gerðar voru alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð eftirlitsins, sem virðist gera allt til að útiloka almenna sjóðfélaga til að taka þátt í stjórnum lífeyrissjóða. Hvað það varðar er orðið mjög erfitt að fá fólk til að taka að sér stjónarstörf fyrir lífeyrissjóði. Fjölmargir hafa séð ástæðu til að þakka Framsýn fyrir að taka málið  upp til umræðu s.s. stjórnarmenn í lífeyrissjóðum, lögfræðingar og atvinnurekendur. Þá hefur framkvæmdarstjórn Starfsgreinasambandsins ályktað um málið, auk þess sem forseti ASÍ hefur látið sig málið varða.  Fjármálaeftirlitið hefur nú svarað bréfi Framsýnar og ber þar af sér allar sakir og segja eingöngu um eðlileg vinnubrögð að ræða við hæfismat á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóða.

 

Hvernig gefa á ríku fólki meiri peninga

Einu sinni var sagt að það væri erfitt að eiga peninga á Íslandi. Tilefni ummælanna var að upp komst að þáverandi forsætisráðherra átti sér eitt aflandsfélag til að geyma auð sinn, einhvers staðar verða aurarnir jú að vera. Fleiri eru í þessum vandræðum með peningana sína, koma þeim fyrir í skíðakofum sem kosta milljarða, nýta þá til að arðræna fátækar þjóðir, geyma þá í pósthólfum með fyrirtækjanöfnum á eyjum í karabíska hafinu eða kaupa sér banka.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika sem fylgja því að eiga peninga (nokkuð sem flest vinnandi fólk á erfitt með að skilja að fullu) þá skal aldrei vanmeta hugmyndaauðgina við að gefa þeim sem eiga pening meiri peninga. Lykillinn að því er að komast til pólitískra valda, eiga pólitíska fulltrúa sem geta tekið ákvarðanir fyrir ríki og sveitarfélög og gera sem flesta í stjórnmálum samseka með gjörningum.  Þegar komist er til valda þá er mikilvægt að vinna grunnvinnuna. Ef ætlunin er til dæmis að gefa ríku fólki meiri peninga í gegnum einkavæðingu á velferðarkerfinu er mikilvægt að fjársvelta það kerfi í nokkur ár fyrst þannig að fólk sem reiðir sig á kerfið kalli sjálft eftir breytingum sem gætu hugsanlega orðið til að bæta kerfið og auka þar með lífsgæði. Breytingar fela síðan í sér að  velviljaður kapítalisti býðst til að reka sjoppuna fyrir miklu minni pening en bara á miklu betri hátt, með skilvirknina í fyrirrúmi. Fórnarkostnaðinn ber starfsfólk í gegnum kjararýrnun, skattgreiðendur þar sem kostnaðurinn við milliliðina fer alltaf á endanum upp úr öllu valdi og að lokum notendur þjónustunnar sem þurfa að sætta sig við lakari þjónustu og meiri gjaldtöku.

Ef ætlunin er að gefa ríku fólki meiri peninga í gegnum sölu á bönkum eða öðrum arðbærum einingum þarf að byrja á því að koma þeirri hugmynd í kollinn á sem flestum að það sé óheppilegt að almenningur eigi fjármálastofnanir. Næsta skref er svo að bjóða öllum sem geta að kaupa eitthvert smotterí í bankanum og tryggja að þau kaup skili sér í gróða strax næsta dag. Þessi millileikur að gefa almenningi kost á að kaupa hlutabréf er auðvitað sýndarmennska því þessi hlutabréf rata fyrr eða síðar í „réttar hendur“. Þetta þekkjum við mjög vel á undanförnum áratugum. Það þarf því engan að reka í rogastans við að sjá listann yfir kaupendur í Íslandsbanka. Þetta er fólkið sem á að eiga banka á Íslandi, hér eftir alveg eins og áður. Þetta er hluti af því að gera ríkt fólk ríkara. Því þótt það sé „erfitt að eiga peninga á Íslandi“ er hópur fólks sem er alltaf  til í að leggja það á sig.

 

Góða helgi,

Drífa

 

Tvær góðar

Þegar komið er inn í menningarhúsið Hof á Akureyri ætti ekki fram hjá neinum skúlptúr úr timbri eftir listakonuna Aðalheiði Eysteinsdóttur, af glæsilegri konu á íslenskum búning. Konan, sem er í  fullri líkamsstærð tyllir sér á bekk og við hlið hennar er eins konar kjörkassi. Listaverk Aðalheiðar er af Vilhelmínu Lever (1802-1879), en hún var fyrst íslenskra kvenna til að kjósa í bæjarstjórnarkosningum árið 1863. Vilhelmína rak verslun og veitingasölu á Akureyri og var sögð afbragðskona, velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra og dugleg til ýmiss konar framkvæmda og athafna. Hún var fylgin sér og lét ekki hlut sinn svo glatt.

Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi árið 1862 og samkvæmt nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Í þýðingu reglugerðarinnar sem var þýdd og staðfærð úr  dönsku, kom fram að allir fullmyndugir menn, („alle fuldmyndige Mænd“) sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borgað tvo ríkisdali í gjöld, hefðu kosningarétt. Vilhelmína taldi sig réttilega falla undir öll þessi ákvæði, dreif sig á kjörstað og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Í danska textanum átti orðið „Mænd“ örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð „menn“ en ekki „karlar“ fékk Vilhelmína að kjósa. Það hefur því líklega verið þýðingarvilla sem varð til þess að hún fékk sínu framgengt, en málið er enn hin mesta ráðgáta. Nítján árum síðar samþykkti Alþingi Íslendinga að veita takmörkuðum hópi kvenna kosningarétt.

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti að færa bæjarbúum listaverk Aðalheiðar að gjöf, til að heiðra minningu Madame Vilhelmínu Lever, í  tilefni af 100 ára kosningarafmæli kvenna til Alþingis árið 2015.

Kjörkassinn við hlið Vilhelmíu er í senn tákrænn og notaður sem hugmyndabanki. Geta gestir sett í hann skrifuð skilaboð með hugmyndum um skapandi verkefni sem gætu orðið konum til hagsbóta eða framdráttar með einhverjum hætti. Með henni á myndinni er María Jónsdóttir sem tók nýlega þátt í þingi Starfsgreinasambands Íslands sem fram fór í Hofi.

 

 

FÍA fordæmir viðskipti ríkisstjórnarinnar við Bláfugl

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) fordæmir að íslenska utanríkisráðuneytið hafi ráðið flugfélagið Bláfugl, Bluebird Nordic, til þess að annast flutning á varningi, þ.á.m. hergögnum, vegna stríðsins í Úkraínu.

FÍA hefur ítrekað bent á það hvernig Bláfugl, sem starfar á grundvelli íslensks flugrekstrarleyfis og lýtur þannig íslenskum lögum, hefur brotið gegn íslenskri vinnulöggjöf með félagslegum undirboðum og gerviverktöku, og sniðgengið kjarasamning sinn við FÍA.

Bláfugl hefur auk þess alfarið hundsað niðurstöðu Félagsdóms sem féll þann 16. september síðastliðinn og með því gert alvarlega atlögu að stjórnarskrárvörðum rétti stéttarfélaga og réttindum íslensks launafólks sem vinnur samkvæmt kjarasamningi.

Það hlýtur að vera krafa okkar allra að íslensk fyrirtæki virði gildandi lög, kjarasamninga og niðurstöður dómstóla.

Það er því með öllu óásættanlegt að það fái að viðgangast að íslenska ríkið, í umboði skattgreiðenda, eigi viðskipti við félag á borð við Bláfugl.

FÍA hefur áður skorað á viðeigandi eftirlitsaðila, yfirvöld og ráðherra að láta sig málið varða og tryggja að Bláfugl fylgi íslenskum lögum og fari eftir niðurstöðum dómstóla.

Sjá hér: https://www.fia.is/frettir-fundagerdir/frettir/aetla-sa-og-blafugl-ad-snidganga-kjarasamninga-og-doma/

Mikilvægt að skoða yfirlit og launaseðla

Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar í gær urðu m.a. umræður um launaseðla sem í flestum tilvikum eru orðnir rafrænir og yfirlit um séreignasparnað félagsmanna sömuleiðis. Því miður hefur borið á því að launaseðlar séu rangir, atvinnurekendur gleymi t.d. að nýta persónuafslátt viðkomandi starfsmanna og launin séu jafnvel ekki reiknuð rétt út samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Þá hefur einnig borið á því að kjarasamningsbundinn séreignasparnaður sé ekki að skila sér til vörsluaðila sem í flestum tilfellum eru lífeyrissjóðir og/eða fjármálastofnanir. Því var ákveðið á fundinum að minna félagsmenn á mikilvægi þess að þeir fylgist vel með sínum málum er varðar kjör þeirra og önnur réttindi.

Félagsmenn í leikhús á sérkjörum stéttarfélaganna

Stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa ákveðið að bjóða félagsmönnum upp á afsláttarkjör fari þeir á leikritið BAR-PAR sem verður í Eurovision safninu á Húsavík miðvikudaginn 20. apríl. Miðarnir verða til sölu á tix.is. Stéttarfélögin endurgreiða félagsmönnum kr. 1.000 af miðanum framvísi þeir kvittun á Skrifstofu stéttarfélaganna. Fullt verð er kr. 3.300,-.

Um Bar-par:
Sambönd para eru allskonar: Samrýmd, einmana, ástrík, þrautseig, kómísk og dramatísk. Öll birtast þau annað slagið á barnum. Gaman drama þar sem við fáum að skyggnast inn í líf fólks á pöbbnum eina kvöld stund. Um er að ræða frábært leikrit.

Um Leikfjelagið:
Halldóra & Arnfinnur hafa bæði lengi verið virk í Leikfélagi Kópavogs. Þau tóku bæði U-beygju í lífinu og fóru í nám í leiklist og stofnuðu Leikfjelagið sf, að námi loknu. Bar-par er fyrsta verkið sem Leikfjelagið setur upp. Það var alltaf markmið að leyfa sem flestum að njóta og því kom ekkert annað til greina en að gera farandsýningu. Lifi leiklistin!

 

Samningur undirritaður vegna starfsmanna við hvalaskoðun

Í gær var skrifað undir nýjan sérkjarasamning milli Framsýnar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins vegna fyrirtækja sem starfa við hvalaskoðun frá Húsavík. Viðræðurnar fóru fram í Reykjavík og hafa staðið yfir nokkuð lengi með hléum. Það voru þeir Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar og Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins sem skrifuðu undir samninginn. Í samningnum er tekið á öllum helstu atriðum sem viðkoma hvala- og fuglaskoðun á vegum fyrirtækjanna á Húsavík. Þá er einnig kveðið skýrt á um að þeir sem starfa í landi við miðasölu taki mið af kjörum Landssambands íslenskra verslunarmanna  og Samtaka atvinnulífsins sem Framsýn á aðild að. Samningurinn um hvalaskoðun er þegar kominn inn á heimasíðu Framsýnar, undir sérkjarasamningar.

Forkastanleg ummæli seðlabankastjóra

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands furðar sig á ummælum seðlabankastjóra á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í morgun, um að Hagvaxtaraukinn muni ekki koma sér vel. Launafólk um land allt sem fær, í samræmi við taxtahækkun kjarasamninga, 10.500 króna hækkun útborgaða 1. maí, á ekki skilið slíka sendingu frá seðlabankastjóra. Hækkunin endurspeglar þann hagvöxt sem er í efnahagskerfinu og auðvitað á launafólk að njóta þess.

Það hefur minna heyrst frá Seðlabankanum um ofurhækkanir efstu laga samfélagsins, sem koma eins og köld vatnsgusa framan í launafólk. seðlabankastjóri ætti ef til vil að hugsa um hvort þær hækkanir ,,komi sér vel“ núna í aðdraganda kjarasamninga.

 

 

 

 

 

 

Þessir völdust í framkvæmdastjórn SGS

Vilhjálmur Birgisson var kjörinn formaður Starfsgreinasambands Íslands á þingi sambandsins sem fram fór á Akureyri í síðustu viku. Þá hlaut Guðbjörg Kristmundsdóttir kosningu sem varaformaður.

Tíu buðu sig fram í framkvæmdastjórn sambandsins en sjö fulltrúar náðu kjöri sem aðalmenn.

Eftirtaldir voru kosnir í framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins:

Aðalmenn:

Aðalsteinn Árni Baldursson, Framsýn stéttarfélag

Anna Júlíusdóttir, Eining-Iðja

Eyþór Þ. Árnason, Verkalýðsfélagið Hlíf

Guðrún Elín Pálsdóttir, Verkalýðsfélag Suðurlands

Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, AFL Starfsgreinafélag

Ragnar Ólason, Efling stéttarfélag

Þórarinn Sverrisson, Aldan stéttarfélag

Varamenn í framkvæmdarstjórn eru eftirfarandi:

  1. Varamaður: Guðný Óskarsdóttir, Drífandi stéttarfélag

    2. Varamaður: Vignir Maríasson, Verkalýðsfélag Snæfellinga

    3. Varamaður: Hörður Guðbrandsson, Verkalýðsfélag Grindavíkur

    4. Varamaður: Ástþór Jón Ragnheiðarson, Verkalýðsfélag Suðurlands

    5. Varamaður: Fabio Ronti, Efling stéttarfélag

 

Kosningar í VMSÍ – Söguskoðun

Meðfylgjandi frétt er úr Morgunblaðinu frá 26. október 1996 en þá fór fram þing Verkamannasambands Íslands í Reykjavík, nú Starfsgreinasambands Íslands. Á þinginu var m.a tekist á um formann í Fiskvinnsludeild sambandsins en skorað var á Aðalstein Árna formann Verkalýðsfélags Húsavíkur á þeim tíma að fara á móti tillögu stjórnar sambandsins sem hann samþykkti enda fann hann fyrir miklum stuðningi fiskvinnslufólks víða um land og frá fulltrúum þeirra þinginu. Þessi frétt rifjast upp, nú þegar fréttir hafa verið í fjölmiðlum um blóðug átök innan Starfsgreinasambands Íslands um völd og áhrif en þing sambandsins var haldið á Akureyri í síðustu viku þar sem skipt var um forystu í sambandinu.

Fiskvinnsludeild VMS
Aðalsteinn Á. Baldursson Formaður
Tekist var á í kosningum formanns og stjórnar fiskvinnsludeildar Verkamannasambands Íslands á aðalfundi deildarinnar sem haldinn var í upphafi þings VMSÍ. Karitas Pálsdóttir, fráfarandi formaður, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og gerði fráfarandi stjórn tillögu um að Elsa Valgeirsdóttir, formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum, yrði kjörin formaður í hennar stað. Á þinginu var hins vegar skorað á Aðalstein Á. Baldursson, formann Verkalýðsfélags Húsavíkur, að bjóða sig fram gegn Elsu og varð hann við því. Var þá gengið til kosninga sem lyktaði með því að Aðalsteinn var kjörinn formaður fiskvinnsludeildarinnar með 52 atkvæðum en Elsa hlaut 18 atkvæði. Einnig urðu nokkrar breytingar á stjórn fiskvinnsludeildarinnar.

Á meðfylgjandi mynd er Aðalsteinn Árni með samstarfsfélögum sínum hjá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur á þeim tíma sem hann var kjörinn formaður fiskvinnslufólks á Íslandi, þá trúnaðarmaður starfsmanna hjá FH. Aðalsteinn hóf snemma afskipti  af verkalýðsmálum. Hann var kjörinn trúnaðarmaður starfsmanna í Aðgerðinni 1981 sem var undirdeild innan Fiskiðjusamlags Húsavíkur. Aðalsteinn hefur því verið viðloðandi verkalýðsmál lengur en margir aðrir eða í um 40 ár.

 

Þrjár góðar á þingi BSRB

Framhaldsþing BSRB fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í síðustu viku, það er dagana 24.-25. mars. Um var að ræða framhald á 46. þingi bandalagsins sem var sett í lok september á síðasta ári en vegna sóttvarnartakmarkana var hluta þingsins frestað. Á þinginu í haust var meðal annars fjallað um skýrslu stjórnar, lagabreytingar samþykktar auk þess sem ný stjórn var kjörin.

Sá dagskrárhluti sem stóð eftir snýr að stefnumótunarvinnu bandalagsins en allt starf BSRB grundvallast á þeirri stefnu sem mótuð er á þingum bandalagsins. Stefnumótunarvinnan fór fram í fimm málefnahópum sem meira en 200 þingfulltrúar komu að. Nánari upplýsingar um þingið má nálgast inn á heimasíðu BSRB. Þrír fulltrúar voru frá Húsavík á þinginu. Það voru þær Fanney Hreinsdóttir og Hermína Hreiðarsdóttir frá Starfsmannafélagi Húsavíkur og Jóna Matthíasdóttir frá Sameyki.

 

Þrepin þrjú til framtíðar

Áttunda þingi Starfsgreinasambands Íslands lauk fyrir helgina en það var haldið á Akureyri og stóð í þrjá daga. Eins og búast mátti við voru forystumál sambandsins fyrirferðarmikil á þinginu enda fyrirliggjandi að formaður sambandsins, Björn Snæbjörnsson, yrði ekki áfram í kjöri.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness gaf snemma út að hann gæfi kost á sér til formennsku í sambandinu, en hann tilheyrir þeim armi hreyfingarinnar sem kallað hefur eftir róttækari og markvissari verkalýðsbaráttu líkt og Framsýn stéttarfélag, Efling og Verkalýðsfélag Grindavíkur.

Eins og búast mátti við leitaði hógværari armur Starfsgreinsambandsins að mótframbjóðanda gegn Vilhjálmi enda Vilhjálmur Birgisson ekki hátt skrifaður hjá þeim. Úr varð að Þórarinn Sverrisson formaður Öldunnar stéttarfélags á Sauðárkróki gaf kost á sér á móti Vilhjálmi. Svo fór að Vilhjálmur sigraði kosninguna glæsilega en fyrir fram var vitað að kosningin yrði jöfn í ljósi þess að fylkingarnar eru nánast jafnar.

Í aðdraganda kosninganna á þinginu var andstæðingum Vilhjálms mjög tíðrætt um ólguna sem væri innan hreyfingarinnar. Ekki var annað að heyra en ástandið væri alfarið honum og „órólegu deildinni“ að kenna. Eðlilegra hefði verið að þau hin sömu litu í eigin barm, enda hafa þau ekki setið hjá í þessum deilum með yfirlýsingum, auk þess sem þeim hefði verið hollt að skoða söguna. Eru þau t.d. búin að gleyma Flóabandalaginu sem var á sínum tíma klofningur út úr Starfsgreinasambandinu?

Ég hef lengi komið að verkalýðsmálum og gengt margskonar trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna. Allt frá mínu fyrsta þingi sem ég sat í Vestmannaeyjum haustið 1983, þá ungur að árum,  til þingsins á Akureyri í síðustu viku hafa verið átök innan hreyfingarnar um völd, áhrif og áherslur í málefnum verkafólks. Oft á tíðum hef ég gengið með hnífasett af dýrari gerðinni í bakinu frá svokölluðum „félögum“ mínum í hreyfingunni þar sem skoðanir okkar hafa ekki alltaf farið saman.

Tími breytinga er runninn upp í verkalýðshreyfingunni. Ég hef valið að kalla þetta þrepin þrjú. Það fyrsta var að Sólveig Anna næði endurkjöri í Eflingu stéttarfélagi, sem gekk eftir. Þrep númer tvö var að Vilhjálmur Birgisson yrði kjörinn formaður Starfsgreinasambands Íslands á þingi sambandsins á Akureyri, það gekk einnig eftir. Þrep númer þrjú er að það takist að umbylta forystusveit Alþýðusambands Íslands á þingi sambandsins í haust. Þá er ég að tala um forsetateymið og miðstjórn sambandsins. Hvað það varðar er afar mikilvægt að kjörnir fulltrúar í þessum mikilvægu embættum endurspegli ólíkar skoðanir aðildarfélaga sambandsins og hagsmuni landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Það á t.d. ekki að viðgangast að allir fjórir forsetar sambandsins komi úr 101 Reykjavík, þrátt fyrir heiðursmannasamkomulag um að forsetakjörið eigi að endurspegla sjónarmið landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins á hverjum tíma. Heiðursmannasamkomulagið var því miður brotið.

Ég bind vonir við að ársins 2022 verði minnst í framtíðinni sem ári breytinga og sátta í íslenskri verkalýðshreyfingu. Höfum samt í huga að það er afar eðlilegt að í fjöldahreyfingu eins og Alþýðusambandi Íslands þrífist ólíkar skoðanir. Róm var ekki byggð á einni nóttu. Traust innan verkalýðshreyfingarinnar verður heldur ekki til á einni nóttu. Til þess þarf lengri tíma, en með samstöðuna og umburðarlyndið að vopni eru okkur allir vegir færir. Vissulega verða alltaf til aðilar sem velja utanvegaakstur í stað þess að aka beinu brautina en það er okkar hinna að draga þá upp á meðalveginn, veg sóknar, jafnréttis og jöfnuðar í þjóðfélagi þar sem misskipting hefur þrifist allt of lengi.

Höfundur er formaður Framsýnar stéttarfélags

 

Þingi verslunarmanna lokið

32. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna telur að meginviðfangsefni komandi kjarasamninga verði að viðhalda þeim kaupmætti sem náðist í Lífskjarasamningnum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ályktun um kjaramál sem samþykkt var á þingi sambandsins sem fram fór á Hótel Hallormsstað fyrir helgina. Helstu málefni þingsins voru komandi kjaraviðræður og húsnæðismál. Jónína Hermannsdóttir var fulltrúi Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar á þinginu auk þess sem hún var ritari þingsins ásamt öðrum fulltrúa frá verslunarmönnum í Skagafirði.

Hér má finna allar ályktanir þingsins.

Vinnumiðlun í boði – hefur þú skoðað Starfatorg?

Fyrirtækjum og stofnunum stendur til boða að auglýsa á heimasíðu stéttarfélaganna eftir starfsfólki til starfa undir Starfatorg. Með því að senda auglýsingu á netfangið framsyn@framsyn.is mun auglýsingin birtast undir Starfatorg.

Jafnframt geta almennir félagsmenn stéttarfélaganna sem eru í atvinnuleit sent inn skilaboð á framsyn@framsyn.is um að þeir séu að leita sér að tilteknu starfi eða störfum. Auglýsingin frá þeim mun birtast á Starfatorg.

Með þessu framtaki vilja stéttarfélögin aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að miðla lausum störfum út í samfélagið. Félagsmenn stéttarfélaganna geta jafnframt komið því á framfæri að þeir séu í atvinnuleit með því að senda inn skilaboð á framsyn@framsyn.is.

Hagvaxtarauki og húsnæðisstuðningur

Það var staðfest í vikunni að hagvaxtaraukinn sem samið var um 2019 komi til framkvæmda frá 1. apríl og verði greiddur út í fyrsta sinn þann fyrsta maí. Launataxtar munu hækka um 10.500 kr. og almenn laun um 7.875 kr. þar sem hagvöxtur mældist á síðasta ári. Það er mikilvægt að þessar hækkanir komi núna ekki síst vegna hækkandi verðlags og dýrtíðar í kjölfar heimsfaraldurs og stríðsins í Úkraínu. Atvinnurekendur fóru fram á að þetta ákvæði myndi ekki virkjast en samninganefnd ASÍ tók þá ákvörðun sem fyrr að verja samningana alla leið. Það hefur reynst farsælt.

Í vikunni kom út mánaðaryfirlit Alþýðusambandsins þar sem kemur í fyrsta sinn skýrt fram að húsnæðisstuðningur hins opinbera hefur færst frá því að vera í formi vaxtabóta til fólks úr öllum tekjuhópum yfir í að vera helst stuðningur til þeirra tekjuhæstu í gegnum skattafrádrátt lífeyrissparnaðar. Ójöfnuður getur leynst víða og úrræði sem ætluð eru til að létta fólki lífið geta haft þveröfug áhrif. Í þessu tilviki má gefa sér að þetta úrræði hafi hækkað húsnæðisverð og á sama tíma dregið úr stuðningi við þá sem mest þurfa. Nú er því nánast ógerningur fyrir tekjulágt fólk að komast inn á eignamarkaðinn. Einmitt þess vegna skipta tilfærslukerfin svona miklu máli. Barnabætur, húsaleigubætur og vaxtabætur, ásamt skattkerfinu eru  öflugustu kerfin sem við eigum til að búa til jöfnuð og  veita liðsinni þar sem þess er þörf. Þannig skapast jafnvægi. Ég fagna ályktun ASÍ-UNG sem var samþykkt í fyrradag þar sem þess er krafist að húsnæðisstuðningur stjórnvalda beinist að ungu og tekjulágu fólki og ég tek undir þessa kröfu.

Samfélög þar sem jöfnuður ríkir eru farsælustu samfélögin, fyrir einstaklinga og fyrir heildina. Framleiðnin er meiri, nýsköpun, listir blómstra og velmegun er almennt meiri. Forsenda jöfnuðar er sterk verkalýðshreyfing sem vinnur fyrir launafólk og beitir sér fyrir bæði sanngjörnu endurgjaldi fyrir vinnu en ekki síður fyrir því að stjórnvöld nýti sín tæki til jöfnuðar og almennrar velmegunar. Það er skýr fylgni á milli sterkra verkalýðshreyfinga á vesturlöndum og jöfnuðar og farsældar.

Við skulum aldrei gleyma því.

Góða helgi,

Drífa forseti ASÍ

Aðalsteinn með glæsilega kosningu

Þingi Starfsgreinasambands Íslands er að ljúka eftir þriggja daga þing. Nú standa yfir kosningar. Fyrr í morgun var Vilhjálmur Birgisson kosinn formaður sanbandsins og rétt í þessu var Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar endurkjörinn í framkvæmdastjórn sambandsins.