Rafræn kosning hafin – Notið kosningaréttinn / Electronic Voting has started – Use your voting rights

Við skorum á félagsmenn Framsýnar að greiða atkvæði um kjarasamninginn.  Verði samningurinn samþykktur gildir hann afturvirkt frá 1. nóvember 2022. Rafrænni atkvæðagreiðslu um samninginn lýkur mánudaginn 19. desember kl. 12:00. Rétt er að taka fram að einungis verður hægt að kjósa rafrænt um samninginn. Frekari upplýsingar um samninginn er hægt að nálgast inn á heimasíðu stéttarfélaganna eða á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um fyrirkomulag kosninganna og aðstoð við að greiða atkvæði. Þá verður félagsfundi Framsýnar um helstu atriði samningsins næstkomandi mánudag kl.17:00 í fundarsal félagsins streymt til félagsmanna, fundurinn er aðeins opinn félagsmönnum.

Félagsmenn fara inn á þessa síðu til að kjósa / Members go to this website to vote: https://kjosa.vottun.is/Home/Vote/379?lang=IS

Electronic Voting has started – Use your voting rights

We urge members of Framsýn to vote on the new collective agreement. If the agreement is accepted, it will become valid retroactively from November 1, 2022.

Electronic voting on the agreement ends Monday, December 19, at 12 o’clock. Please note that it will only be possible to vote electronically.

Further information can be found on Framsýn‘s website or at the union‘s office. Presentation on the agreement is on Monday, December 12, at 17:00 in the union‘s meeting hall. It will also be streamed live. The meeting is only open to members of Framsýn.

 

Þingiðn skrifar undir kjarasamning – helstu upplýsingar

Skrifað var undir kjarasamning í Karphúsinu í gær milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar sem Þingiðn á aðild að. Gildistími samningsins er til 31. janúar 2024 og hann kveður meðal annars á um 6,75% hækkun launa og hækkun desember- og orlofsuppbóta.

Þingiðn mun á næstu dögum kynna samninginn með ítarlegum hætti hér á heimasíðunni auk þess sem boðað hefur verið til kynningar fundar næsta mánudag, 19. Desember kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Atkvæðagreiðsla hefst á morgun, miðvikudag, kl. 12:00 og stendur yfir til miðvikudagsins 21. desember kl. 12:00. Stjórn Þingiðnar skorar á félagsmenn að kynna sér samninginn vel og greiða um hann atkvæði.

Hér má sjá kjarasamninginn

Hér má sjá yfirlýsingu stjórnvalda vegna kjarasamninga

 

Verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar athugið – Kynningarfundur á mánudaginn kl. 18:00

Kjarasamningur Landssambands íslenzkra verzlunarmanna (LÍV), við Samtök atvinnulífsins (SA) var undirritaður í gær, mánudaginn 12. desember 2022. Samningurinn er gerður í samfloti við tækni- og iðnaðarmenn og nær til tæplega 60.000 manns á vinnumarkaði.

Samningurinn nefnist Brú að bættum lífskjörum og er skammtímasamningur. Markmið samningsins er í megindráttum að styðja strax við kaupmátt launa, veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika og skapa forsendur fyrir langtímasamningi.

Gildistími samningsins er afturvirkur frá 1. nóvember 2022 og gildir til 31. janúar.

Almennar launahækkanir verða 6.75%, þó að hámarki 66.000,- kr, og taka gildi 1. nóvember 2022. Hækkunin felur í sér flýtingu og fullar efndir hagvaxtarauka sem koma átti til greiðslu þann 1. maí 2023. Nýjar launatöflur taka gildi strax með taxtabreytingum.

Samkvæmt samningum verður orlofsuppbót árið 2023  kr. 56.000,- og desemberuppbót fyrir sama ár kr. 103.000,-.

Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5,0% frá 1. nóvember 2022, nema um annað hafi verið samið.

Með framlengingu á lífskjarasamningnum er viðræðum um önnur atriði en launaliðinn frestað. Unnið verður markvisst að nýjum langtímasamningi á samningstímabilinu og er sú vinna þegar hafin sem miðar að því að næsti kjarasamningur taki við af Brú að bættum lífskjörum.

Hér má lesa samninginn í heild sinni í PDF

Félög og deildir innan LÍV munu kynna samninginn sínu félagsfólki og er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðslur hefjist á hádegi 14. desember 2022. Framsýn er aðili að þessum samningi fh. félagsmanna sem starfa við verslun og þjónustu. Félagsmönnum gefst kostur á að greiða rafrænt um samninginn. Atkvæðagreiðslan hefst á morgun, miðvikudag kl. 12:00 og klárast kl. 12: miðvikudaginn 21. desember. Nánari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þá hefur verið boðað til kynningarfundar um samninginn næstkomandi mánudag kl. 18:00 í fundarsal stéttarfélaganna.

Kjarasamningar undirritaðir hjá iðnaðar- og verslunarmönnum (Nær til félagsmanna Þingiðnar og verslunarmanna og skrifstofufólks innan Framsýnar)

Samflot iðn- og tæknifólks, VR og Landssamband íslenskra verslunarmanna hafa undirritað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins. Um er að ræða skammtímasamning sem gildir frá 1. nóvember 2022 og rennur út 31. janúar 2024.

Samningurinn felur í sér umtalsverðar kjarabætur. Frá og með 1. nóvember 2022 hækka mánaðarlaun um 6,75% en þó að hámarki um 66 þúsund krónur á mánuði. Hækkunin felur í sér flýtingu og fullar efndir hagvaxtarauka sem koma átti til greiðslu þann 1. maí 2023.

Samhliða almennum launahækkunum hækka kauptaxtar og nýjar launatöflur taka gildi. Desember- og orlofsuppbætur taka hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr.

Markmið samninganna er að styðja við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn byggir undir stöðugleika og skapar forsendur fyrir langtímasamningi. Með áherslu á að verja kaupmátt í samningi til skamms tíma er það ásetningur samningsaðila að skapa fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum – fjölskyldum og fyrirtækjum til hagsbóta.

Nú taka við kynningar og atkvæðagreiðslur um samninginn en eftirfarandi landssambönd og aðildarfélög þeirra eiga aðild að samningnum:

Landssamband íslenskra verslunarmanna, og Samiðn.

Frumvarp um félagafrelsi – árás og ólögmæt inngrip

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) telur framkomið frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði fela í sér ólögmætt inngrip og beina árás á grundvallarréttindi frjálsrar verkalýðshreyfingar. Alþýðusambandið lýsir því yfir að öllum tiltækum úrræðum verði beitt til að hrinda þessari viðleitni til að kollvarpa íslenska vinnumarkaðslíkaninu og skerða réttindi verkalýðshreyfingar launafólks.

Þetta kemur fram í ítarlegri umsögn ASÍ um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem Kristján Þórður Sveinbjarnarson, forseti ASÍ, undirritar. Umsögnin hefur verið birt á vef Alþingis.

Í umsögninni segir að frumvarpið varði sjálfan kjarna hins  íslenska vinnumarkaðslíkans, grundvallarréttindi launafólks og verkalýðshreyfingar á Íslandi. Frumvarpið, verði það að lögum, veiki samtakamátt og stöðu verkalýðsfélaga og verkfallsrétt þeirra en styrki stöðu atvinnurekenda og samtaka þeirra á kostnað launafólks. Þá feli frumvarpið í sér verulegt inngrip í gildandi kjarasamninga þvert á  stjórnarskrárvarinn rétt frjálsra stéttarfélaga og alþjóðlega mannréttindasáttmála sem Ísland hafi verið aðili að um áratugaskeið.

Furðuleg tímasetning

Segir í umsögninni að furðu veki að málinu sé hleypt á dagskrá Alþingis örfáum dögum áður en kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna út, eftir að viðræður eru hafnar um framlengingu þeirra og án samráðs, kynningar eða viðvörunar. Jafnframt sé það undrunarefni að þetta sé gert með fullu samþykki allra ríkisstjórnarflokkanna, hver svo sem afstaða einstakra þingmanna kunni að vera til efnis þess. Þingmál þetta geti því haft veruleg áhrif á viðræður samningsaðila og valdið þar miklum skaða.

Í umsögninni er gerð grein fyrir þróun íslenska vinnumarkaðslíkansins sem henti því litla samfélagi sem Ísland er, dreifðum byggðum þess og hagkerfi. Farsæl þróun þessa líkans hafi átt sér stað fyrir tilstuðlan löggjafarvaldsins og í þríhliða samstarfi þegar henta hafi þótt, með túlkunum Félagsdóms og Hæstaréttar og þeim hefðum og venjum sem mótast hafií samskiptum aðila vinnumarkaðarins við gerð kjarasamninga og í framkvæmd þeirra.

Ætlað að kollvarpa íslenska líkaninu

Frumvarpiðbeinist gegn öllum grundvallarþáttum hins íslenska vinnumarkaðslíkans í því skyni að kollvarpa því. Frumvarpið geri ráð fyrir að innleitt verði nýtt líkan sem hvergi þekkist á byggðu bóli og aldrei hafi komið til umfjöllunar hér á landi sem sé andstætt því verklagi sem tíðkast hafi hér á landi frá því að lögin nr. 80/1938 hafi verið undirbúin.

Í umsögninni er staðhæft að allt meginefni frumvarpsins þar sem fjallað er um aðildarskyldu og forgangsréttarákvæði sé byggt á röngum og villandi forsendum og bæði dómar og álitsgerðir alþjóðlegra aðila séu ranghermt og afbakað. Oft hafi reynt á gildi forgangsréttarákvæða kjarasamninga fyrir Félagsdómi og sé það sjónarmið viðtekið í íslenskri réttarframkvæmd að forgangsréttarákvæði í frjálsum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins standist að lögum og rúmist innan heimilda stjórnarskrár.

Grundvallað á misskilningi

Frumvarpsflytjendur geri ekki greinarmunmun á lögmætum forgangsréttarákvæðum og aðildarskylduákvæðum og valdi sá misskilningur eða þekkingarskortur því að grundvöllur frumvarpsins fái ekki staðist. Hið rétta sé að óski menn hér á landi þess að standa utan stéttarfélags hafi þeir almennt rétt til þess. Samkvæmt lögum ASÍ megi ekkert aðildarfélag sambandsins hafa ákvæði um félagsskyldu í samþykktum sínum. Þá er í umsögninni að finna ítarlega umfjöllun um afstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu til þessa málefnis.

Bein árás á verkfallsréttinn

Alþýðusambandið vekur athygli á að frumvarpinu sé ætlað að breyta gildandi verkfallsrétti stéttarfélaga hér á landi. Þetta feli í sér beina árás á lögmætar heimildir frjálsra verkalýðsfélaga til þess að sækja og verja réttindi í kjarasamningum sem taki til allra sem laun taki samkvæmt þeim samningum, óháð félagsaðild.Umsögnin geymir einnig viðauka sem er samantekt um íslenska vinnumarkaðslíkanið frá árinu 2021. Þar kemur m.a. fram að líkanið hafi tryggt fylgni á milli öflugrar stéttarfélagastarfsemi og skipulags vinnumarkaðar annars vegar og almenns jafnaðar, víðtæks jafnréttis og afkomuöryggis hins vegar. Það sé skylda stjórnvalda að huga að því með virkum hætti að skipulagður vinnumarkaður og sterk staða stéttarfélaga verði varin með öllum tiltækum ráðum þegar að þeim er vegið með ólögmætum hætti.

Umsögn ASÍ um frumvarp þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði má nálgast hér.  

 

Sjálfkrafa fyrning orlofs er ólögmæt

Evrópudómstóllinn hefur staðfest með óyggjandi hætti að sjálfkrafa fyrning áunnins orlofs sé ólögmæt hafi atvinnurekandi í raun ekki sett starfsmann sinn í aðstöðu til að nýta sér hið áunna orlof. Dómurinn staðfestir þannig þá túlkun lögfræðinga ASÍ á samningsákvæðum tiltekinna kjarasamninga, að atvinnurekendur bera þá frumskyldu að sjá til þess að starfsmenn sínir taki það launaða orlof sem þeir eiga rétt á og geti hvorki hirt af þeim frídaga né orlofsfé.

Stundum hefur borið á því að atvinnurekendur, þar með talið hið opinbera, telji að áunnið orlof, bæði áunnir frídagar og réttur til greiðslu orlofsfjár vegna þeirra sömu daga, fyrnist sjálfkrafa hafi orlof ekki verið tekið. Þetta hefur verið byggt á túlkun þeirra á 13. gr. orlofslaga nr. 30/1987 þar sem segir: „Framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára er óheimilt.“ ASÍ hefur ætíð verið ósammála þessari túlkun á þeirri einföldu forsendu á atvinnurendur bera þá óumdeildu skyldu að sjá til þess að starfsmenn þeirra taki lög- og kjarasamningsbundið orlof og hvíld frá störfum. Sjá hér um orlofsreglur á vinnuréttarvef ASÍ.

Evrópudómstóllinn hefur nú skorið úr öllum vafa hér um með dómi frá 22.9 2022 í málinu nr. C‑120/21. ( CURIA – Documents (europa.eu). Fyrir dómstólnum lá spurning frá áfrýjunarrétti í Þýskalandi þar sem óskað var álits á því hvort þýsk löggjöf sem mælti fyrir um sjálfkrafa fyrningu orlofs sem ekki hafði verið tekið, að liðnum þremur árum frá því réttur til þess stofnaðist, stæðist ákvæði tilskipunar ESB um orlof nr. 2003/88 og stofnsáttmála ESB, hefði atvinnurekandi ekki í reynd veitt starfsmanni sínum tækifæri til orlofstöku með því að upplýsa hann um rétt sinn og bjóða honum að taka orlof. Niðurstaðan var mjög skýr: „7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um tiltekna þætti í skipulagi vinnutíma og 2. mgr. 31. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi verður að túlka þannig að það standi í vegi fyrir innlendri löggjöf þar sem réttur til launaðs árlegs orlofs sem launamaður öðlast á tilteknu viðmiðunartímabili fyrnist eftir þriggja ára tímabil sem hefst í lok þess árs sem sá réttur stofnast, hafi atvinnurekandi ekki í raun ekki sett starfsmanninn í aðstöðu til að nýta sér þann rétt.

Í síðustu kjarasamningum við ríki, sveitarfélög og Reykjavíkurborg var sett inn samningsákvæði hér um þar sem efnislega segir að „Hafi starfsmaður sem átti gjaldfallið orlof þann 1. maí 2020, allt að 60 dögum, ekki nýtt þá daga fyrir 30. apríl 2023, falla þeir dagar niður sem eftir standa.“ ASÍ hefur þegar ritað þessum opinberu atvinnurekendum og tilkynnt þeim að ákvæði þetta sé ekki hægt að túlka þannig að launafólk verði sjálfkrafa svipt þessum réttindum sínum eins og mælt er fyrir um í ákvæðinu og gefið þeim tækifæri til þess að leiðrétta túlkun sína á samningsákvæðinu. Þeim tilmælum var hafnað en þau verða nú ítrekuð enda liggur fyrir skýr dómsniðurstaða um ólögmæti þeirrar túlkunar sem atvinnurekendur vilja hafa á ákvæðinu.

Rafræn atkvæðagreiðsla hefst á föstudaginn

Framsýn hefur ákveðið að viðhafa rafræna atkvæðagreiðslu um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Ekki verður hægt að kjósa með öðrum hætti. Atkvæðagreiðslan hefst kl. 12:00 föstudaginn 9. desember og klárast mánudaginn 19. desember kl. 12:00. Hvað þennan kjarasamning varðar eru 1.516 félagsmenn Framsýnar á kjörskrá. Skorað er á félagsmenn Framsýnar að greiða atkvæði um samninginn. Verði hann samþykktur tekur hann gildi frá 1. nóvember með launahækkunum, ef ekki, hefjast viðræður aftur við Samtök atvinnulífsins.

Unnið að breytingum á félagslögum STH

Stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur vinnur að því að gera verulegar breytingar á lögum félagsins, enda löngu tímabært. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna hefur unnið að verkefninu með stjórninni auk þess sem leitað hefur verið eftir aðstoð frá lögfræðingum félagsins og BSRB. Afurðin lofar góðu. Drögin eru hér meðfylgjandi. Einnig er hægt að fá þau á pappírsformi á Skrifstofu stéttarfélaganna. Til stendur að afgreiða þau formlega á aðalfundi félagsins í vor.

Lög Starfsmannafélags Húsavíkur

  1. gr. Heiti félagsins og varnarþing
    Félagið heitir Starfsmannafélag Húsavíkur (skammstafað STH). Heimili þess og varnarþing er á Húsavík.

 

  1. gr. Tilgangur og starfssvæði
    Félagið er stéttar- og hagsmunafélag starfsmanna ríkis og sveitarfélaga á félagssvæðinu, sem nær yfir sveitarfélög í Þingeyjarsýslum sveitarfélögin Norðurþing, Tjörneshrepp og Þingeyjarsveit. Einnig starfsmanna sjálfseignarstofnana á félagssvæðinu, sem eru að meirihluta í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og vinna í almannaþágu og taka laun eftir kjarasamningum félagsins.

 

Tilgangur félagsins er m.a.:

  1. a) Að fara með umboð félagsins við gerð kjarasamninga samkvæmt lögum og reglugerðum um kjarasamninga og við aðrar sameiginlegar ákvarðanir félagsmanna.
    b) Að gæta hagsmuna félaga sinna launalega, félagslega og faglega, t.d. um starfskjör, eftirlaun og önnur réttindi sem og skyldur. Að sinna hagsmunagæslu félagsmanna í öllu því er varðar laun, önnur kjör og starfsréttindi hvers konar.
    c) Að vinna að bættum samhug félaga sinna með aukinni fræðslu og menningarstarfsemi, svo og kynningu þeirra og samhjálp eftir því sem tök eru á.
    d
    ) Að skapa bætta félagslega aðstöðu og m.a. starfrækja orlofsíbúðir orlofsheimili. Félagið er óháð stjórnmálaflokkum.
    e) Að stuðla að samvinnu opinberra starfsmanna og samtaka launafólks.
    c) Koma fram opinberlega fyrir hönd félagsmanna.
    d) Að starfa að öðrum þeim málum sem að mati stjórnar mega verða félagsmönnum til heilla.
  2. gr. Félagsaðild
    Rétt til inngöngu í félagið eiga þeir starfsmenn, sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
    a) Þeir sem eru ráðnir starfsmenn Norðurþings eða stofnana, sem stjórnað er af Bæjarstjórn Norðurþings eða nefndum, sem Bæjarstjórn skipar að meirihluta enda séu þeir ráðnir af Bæjarstjórn eða  stjórnum þessara stofnana.
    b) Starfsmenn sjálfseignarstofnana, sem starfa í almannaþágu samkvæmt lögum eða fyrirmælum ríkisins eða sveitarfélaga á félagssvæðinu, enda semji félagið um launakjör þeirra.

 

Öllum þeim sem hafa gegnt starfi í þrjá mánuði eða lengur og taka reglulega mánaðarlaun hjá fyrrgreindum aðilum er heimilt að ganga í Starfsmannafélag Húsavíkur.

 

Rétt til inngöngu í félagið eiga:

 

  1. a) Einstaklingar sem starfa hjá sveitarfélögum á félagssvæðinu.
    b) Einstaklingar sem starfa hjá stofnunum ríkisins á félagssvæðinu.
    c) Einstaklingar, sem starfa hjá sjálfseignarstofnunum á félagssvæðinu, sbr. 2. gr. laga um
    kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.
    d) Einstaklingar sem starfa hjá fyrirtækjum og stofnunum á félagssvæðinu sem starfa í almannaþágu, enda hafi viðkomandi stofnun eða starfsemi áður verið á vegum sveitarfélags, ríkis eða sjálfseignarstofnunnar.
    e) Einstaklingar sem starfa hjá félagasamtökum sem starfa í almannaþágu eða á grundvelli
    almannafjár.
    f) Stjórninni er heimilt að samþykkja einstaklinga sem starfa utan almannaþjónustu og eiga ekki aðild að öðru stéttarfélagi að undangenginni umræðu innan stjórnar um lögmætar aðstæður þar að baki.
    g) Einstaklingur sem uppfyllir eitthvert af ofangreindum skilyrðum til þess að geta orðið
    félagsmaður og greiðir félagsgjald til félagsins, telst þar með félagsmaður.

4.gr. Félagsaðild við atvinnuleysi og starfslok
Félagsmaður, sem verður atvinnulaus skal halda þeim félagsréttindum sem hann hafði áunnið sér og er á færi félagsins að veita meðan hann er atvinnulaus. Stjórn félagsins er heimilt að fella niður félagsgjald þeirra sem eru atvinnulausir.

Félagsmaður, sem hverfur frá vinnu tímabundið og tekur ekki annað launað starf skal halda áunnum félagsréttindum sínum í allt að 2 ár. Félagsréttindin skulu þó háð því að hann standi skil á lágmarksgjaldi ár hvert, skv. ákvörðun stjórnar hverju sinni.

Félagsmaður, sem lætur af starfi á aldursmörkum eða vegna veikinda og hefur unnið sér rétt til eftirlauna eða örorkubóta, heldur öllum félagsréttindum, en skal vera gjaldfrjáls.

Félagar geta óskað þess að stjórn félagsins hafi afskipti af ráðningarkjörum, starfskjörum, eftirlaunum, brottvikningu og öðru því, sem máli skiptir í samræmi við tilgang félagsins.

 

Gangi félagsmaður úr þjónustu stofnanna ríkisins, sveitarfélaga, sjálfseignastofnanna eða félaga sem falla undir ákvæði 3. gr. eða hætti störfum hjá atvinnurekanda telst hann ekki lengur í félaginu.

Félagsmaður, sem verður atvinnulaus, á rétt til áframhaldandi félagsaðildar meðan hann er á skrá sem atvinnulaus, enda eigi hann ekki aðild að öðru stéttarfélagi. Atvinnulausir greiða félagsgjald en heimilt er stjórn félagsins að fella það niður að hluta eða öllu leyti, komi fram beiðni um það.

Félagsmaður sem lætur af starfi meðan hann er félagsmaður fyrir aldursakir, vegna veikinda eða hefur unnið sér rétt til eftirlauna eða örorkubóta, heldur réttindum skv. samþykktum í lífeyrisdeild ef hann kýs, en skal vera gjaldfrjáls.

Rísi deila um lögmæti uppsagnar félagsmanns úr starfi telst hann vera félagsmaður þar til hún er til lykta leidd.

Félagsmenn sem ráðnir eru til starfa hjá félaginu eða heildarsamtökum opinberra starfsmanna, halda enn fremur óskertum félagsréttindum meðan þeir gegna slíku starfi.

 

  1. gr. Virkir félagsmenn
    Þeir félagsmenn sem greiða félagsgjöld til STH teljast virkir félagsmenn. Einungis virkir félagsmenn geta boðið sig fram, verið skipaðir og tekið að sér trúnaðarstörf fyrir STH, sjóði, nefndir og ráð, ásamt nefndum BSRB.

Verði lengra en þriggja mánaða rof á greiðslu félagsgjalds félagsmanns til félagsins leiðir það sjálfkrafa til þess að félagsmaðurinn er leystur frá öllum trúnaðarstörfum fyrir STH, sjóði, nefndir og ráð ásamt nefndum BSRB.

Stjórn STH er þó heimilt að veita tímabundna undanþágu að hámarki 6 mánuði í senn til
áframhaldandi trúnaðarstarfa þrátt fyrir að félagsmaður sé ekki virkur félagsmaður. Grein þessi á ekki við um starfsmenn meðan ráðning varir.

5.gr. Skyldur félagsmanna
Allir félagar eru skyldir til að hlýða lögum og lögmætum samþykktum félagsins.

Þyki sannað að félagsmaður hafi framið alvarlegt brot á lögum þessum eða vísvitandi valdið félaginu tjóni, getur aðalfundur vikið honum úr félaginu, en til þess þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða.

 

5.gr. Úrsögn úr félaginu
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg tilkynning til stjórnar og öðlast hún gildi frá þeim tíma er hún berst félagsstjórn, enda sé félagsmaður þá skuldlaus við félagið. Úrsögn öðlast þó ekki gildi eftir að ákvörðun um verkfall hefur verið tekin og meðan á verkfalli stendur, heldur frestast gildistaka hennar þar til verkfalli lýkur.

Halda skal aukaskrá yfir þá sem ekki eru félagsmenn, en greiða gjald til félagsins skv. 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og hafa tilkynnt það skriflega, að þeir óski ekki eftir að vera félagsmenn.

 

Þeir sem á aukaskrá eru, njóta ekki atkvæðisréttar né annarra félagsréttinda svo sem aðildar að sjóðum félagsins, en taka laun eftir kjarasamningi félagsins og njóta þjónustu samkvæmt honum.

 

Ef sá sem á aukaskrá er óskar eftir að gerast félagsmaður skal hann tilkynna það stjórn félagsins skriflega og telst þá félagsmaður frá því tilkynningin berst stjórninni.

6.gr. Stjórnarkjör, undirnefndir og kjör skoðunarmanna
Stjórn félagsins skal skipuð 3 aðalmönnum og 2 varamönnum.

Skulu þeir kosnir annað hvert ár, til tveggja ára í senn, óhlutbundinni kosningu, á aðalfundi félagsins. Formaður, ritari og einn varamaður skal kosinn annað árið og hitt árið gjaldkeri og einn varamaður.

 

Aðalfundur kýs tvo endurskoðendur félagsreikninga skoðunarmenn reikninga og einn til vara til eins árs. Stjórn er heimilt að skipa undirnefndir vegna sérverkefna sem stjórn hefur á borði sínu.

7.gr. Störf stjórnar
Stjórn félagsins stýrir öllum málefnum félagsins milli aðalfunda.

 

Formaður kallar saman félagsfundi og stjórnarfundi og stjórnar þeim og er hann forsvarsmaður félagsins. Þó er formanni heimilt að skipa annan fundarstjóra.  Jafnframt veitir hann móttöku á erindum og bréfum til félagsins og annast samskipti fyrir þess hönd nema hann ákveði annað s.s. að fela skrifstofu félagsins að sjá um það.

 

Ritari heldur gerðabók og færir í hana ágrip af því, sem gerist á stjórnar- og félagsfundum. Hann undirritar gerðarbækur félagsins ásamt formanni eða fundarstjóra.

 

Heimilt er að skrá fundargerðir rafrænt í tölvu í stað þess að þær séu færðar í sérstakar fundargerðarbækur. Skulu fundargerðir stjórnarfunda sendar öllum sem fundinn sátu ekki síðar en fyrir næsta reglulegan fund.

 

Heimilt er að taka fundi félagsins upp á hljóð- og/eða mynd en fundargerðir skulu engu að síður skráðar. Þess skal gætt að lög um persónuvernd séu virt komi til þess að fundir séu hljóðritaðir, teknar upp á myndband eða sjónvarpað.

 

Hann heldur einnig spjaldskrá yfir alla félagsmenn.

Gjaldkeri varðveitir alla fjármuni félagsins. Allt handbært fé skal geymt í banka eða á annan hátt, sem stjórnin ákveður.

Gjaldkeri hefur eftirlit með innheimtu á félagsgjöldum og greiðir alla reikninga eftir að formaður hefur áritað þá.

Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða ársreikninga á aðalfundi.

 

Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum og eignum félagsins og tekur allar meiriháttar ákvarðanir er snúa að fjármálum. Stjórn skal sjá svo um að fjármál séu í góðu horfi svo sem bókhald og meðferð fjármuna.

 

Heimilt er að fela öðrum aðila að annast rekstur og skrifstofuhald fyrir félagið, þ.m.t. að sinna ofangreindum verkefnum gjaldkera, samkvæmt ákvörðun stjórnar á hverjum tíma.

 

8.gr. Kjör trúnaðarmanna
Á hverjum vinnustað, þar sem starfa fimm eða fleiri félagsmenn, skal í októbermánuði ár hvert fara fram val trúnaðarmanns, er sé síðan tilkynnt félagsstjórn. Velja má annan til vara.

Berist eigi tilkynning fyrir 10. nóvember skal félagsstjórn skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félögum á vinnustaðnum.

Félagsstjórn setur trúnaðarmönnum starfsreglur.

Stjórn félagsins skal sjá um að félagsmenn kjósi trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt 28. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og 9. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938. Val trúnaðarmanna skal tilkynna vinnuveitanda og stjórn STH þegar í stað.

 

9.gr. Atkvæðagreiðsla um málefni félagsins
Heimilt er stjórninni að leita skriflegrar atkvæðagreiðslu allra félagsmanna um þau mál sem þykja mikilsvarðandi fyrir félagið.

 

10.gr. Félagsfundir
Boða skal til félagsfundar svo oft sem stjórnin telur þörf á.

 

Þá geta félagsmenn, skriflega, krafist þess að fundur verði haldinn í félaginu og er stjórninni skylt að taka það til greina, ef 1/5 hluti félagsmanna krefst þess og tilgreinir fundarefni. Er þá formanni skylt að boða til fundar innan 7 daga frá því er honum barst krafan.

 

11.gr. Boðun félags- og aðalfunda
Félagsfundir skulu boðaðir bréflega eða með auglýsingum eða á annan viðurkenndan hátt, s.s. á heimasíðu félagsins á vinnustöðum eða í útvarpi, með minnst eins sólarhrings tveggja sólarhringa fyrirvara og aðalfundir með minnst tveggja sjö sólarhringa fyrirvara. Jafnan skal tilgreina fundarefni í fundarboði.

 

Allir félags- og aðalfundir eru lögmætir, ef boðaðir hafa verið samkvæmt fyrirmælum þessarar greinar.

 

12.gr. Félagsgjald
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Ákvörðun árgjalds skal fara fram á aðalfundi. Árstillög félagsmanna og greiðslufyrirkomulag þeirra skal ákveða á aðalfundi.

 

13.gr. Aðalfundur
Aðalfundur er æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert fyrir lok maí. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:

 

  1. Kjör á starfsmönnum fundarins
  2. Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár
  3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til afgreiðslu
  4. Ákvörðun félagsgjalds
  5. Kosning löggilts endurskoðanda eða endurskoðunarskrifstofu
  6. Lagabreytingar, ef þær liggja fyrir
  7. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna samkvæmt 6. grein
  8. Kosning fulltrúa í orlofs, ferðamála og starfskjaranefnd
  9. Kosning fulltrúa á þing BSRB
  10. Ákvörðun um laun stjórnar, annarra stjórna, ráða og nefnda
  11. Önnur mál

 

Aðalfundi skal stjórnað samkvæmt fundarsköpum BSRB. Afl atkvæða ræður, en mál fellur á jöfnum atkvæðum. Falli atkvæði jöfn í kosningu gildir hlutkestisreglan.

 

  1. a) Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár.
    b) Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár.
    c) Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna.
    d) Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund.
    e) Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein.
    f) Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein.
    g) Kosning fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar.
    h) Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
    i) Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd.
    j) Önnur mál, sem fram koma á fundinum.

 

  1. gr. Fundarsköp
    Fundum skal stjórnað eftir venjulegum fundarsköpum. Einfaldur meirihluti ræður útslitum mála nema við lagabreytingar þarf 3/5 hluta greiddra atkvæða fundarmanna til þess að breyting sé löglega samþykkt.

 

  1. gr. Samninganefnd

Samninganefnd félagsins skal skipuð af aðalfundi. Verði því ekki við komið, getur stjórnin á hverjum tíma skipað samninganefnd.

 

Samninganefndin hefur yfirumsjón með gerð einstakra kjarasamninga við fyrirtæki, ríkið, sveitarfélög, sjálfseignastofnanir auk stofnanasamninga.

 

Þegar kemur að samningum fyrir einstaka hópa skal samninganefndin skipta sér niður og fá til liðs við sig trúnaðarmenn eða félagsmenn sem starfa á þeim vettvangi sem um ræðir.

 

Ákvarðanir um kaup og kjör sem varða einn hópinn sérstaklega skulu einungis bornar undir hann.

 

  1. gr. Verkföll og aðrar vinnudeilur
    Stjórn, að höfðu samráði við viðkomandi samninganefnd tekur ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu um boðun verkfalls, og fer um boðunina skv. 15. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 eða II. kafla laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 eftir því sem við á.

Samkomulag um kjarasamning skal samninganefnd félagsins undirrita með fyrirvara. Samninganefndin getur þó falið öðrum umboð til þess f.h. félagsins.

Um endanlegt samþykki þeirra félagsmanna sem kjarasamningurinn tekur til, skal viðhafa
allsherjaratkvæðagreiðslu eins fljótt og kostur er.

Samninganefnd tekur ákvörðun um frestun eða afboðun verkfalls eftir undirritun kjarasamnings.

 

  1. gr. Laganefnd
    Stjórnin skipar þrjá félagsmenn í lagabreytinganefnd og einn til vara, til tveggja ára í senn. Nefndin skal sjá um endurskoðun á lögum félagsins.

 

  1. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar áður en aðalfundur er auglýstur og þeirra getið í fundarboði.

 

Tillögur til lagabreytinga skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins 7 sólarhringum fyrir aðalfund. Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga enda feli breytingartillögur ekki í sér óskyld efni við upprunalegu tillögurnar.

 

Til að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 3/5 greiddra atkvæða.

 

Um leið og samþykkt er breyting á lögum skal ákveðið með fundarsamþykkt hvenær breytingin tekur gildi.

 

15.gr. Slit félagsins
Félagið má ekki leysa upp nema með samþykkt 3/4 hluta greiddra atkvæða á aðalfundi félagsins enda hafi þess verið getið í fundarboði að fyrir liggi tillaga um félagsslit. Verði félagið leyst upp, ber aðalfundi að ráðstafa eignum þess.  Einnig að tryggja varðveislu á skjölum þess og gerðarbókum.

 

16.gr. Samþykktir félagsins
Með samþykkt þessara laga falla úr gildi lög S.T.H. frá 19. apríl 1994.

Þannig samþykkt á aðalfundi 25. nóvember 2011.

Með samþykkt þessara laga falla úr gildi eldri lög STH frá 19. apríl 1994 með breytingum sem samþykktar voru

Þannig samþykkt á aðalfundi 25. nóvember 2011. Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins ?. apríl 2022.

 

 

 

Helstu upplýsingar um nýgerðan kjarasamning á mannamáli – Tökum þátt í atkvæðagreiðslu um samninginn  

Mikilvægar upplýsingar:
Hér má lesa helstu upplýsingar um nýgerðan kjarasamning SGS og SA sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa á almenna vinnumarkaðinum.

Fyrir hverja er samningurinn?
Takið vel eftir, kjarasamningurinn nær ekki til starfsmanna við verslun og þjónustu sem starfa eftir kjarasamningi Verslunar- og skrifstofufólks. Hann nær heldur ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.

Tímamót í samningagerð
Alls skrifuðu 17 af 19 aðildarfélögum SGS undir samninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara laugardaginn 3. desember. Um er að ræða svokallaðan skammtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem kjarasamningur á almennum vinnumarkaði gildir frá sama tíma og sá eldri rennur út, í því eru fólgin mikil verðmæti fyrir launafólk.

Yfir 50.000 kr. hækkun
Kauptaxtar hækka frá 1. nóvember 2022 um að lágmarki 35.000 kr. Að auki felur samningurinn í sér lagfæringu á launatöflunni, sem gerir það að verkum að hækkun getur orðið allt að 52.000 kr. á mánuði. Dæmi um hækkun: Bílstjórar sem taka laun eftir 17. launaflokk hækka úr kr. 401.181,- í kr. 453.439,- frá 1. nóvember verði samningurinn samþykktur.

Hvað með hina sem ekki eru á töxtum?
Laun þeirra sem ekki taka laun eftir kauptöxtum, þ.e. eru á mánaðarlaunum, hækka um 33.000 kr. frá 1. nóvember.

Desemberuppbótin fer yfir kr. 100.000,-.
Desember- og orlofsuppbætur taka jafnframt hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr. á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023.

Góð hækkun á kaupauka
Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5% frá 1. nóvember og þá hækka kaupaukar í fiskvinnslu um 8% sem mun skila fiskvinnslufólki á bilinu 6.000 – 34.000 kr. hækkun á mánuði.

Hagvaxtaraukin kemur strax
Einnig náðist samkomulag um flýtingu hagvaxtarauka sem þýðir að hagvaxtaraukinn sem átti að koma til greiðslu 1. maí 2023 verður flýtt og verður hann að fullu efndur með hækkun 1. nóvember. Það mun skila ávinningi sem nemur 78.000 kr. eða tæpum 6.000 kr. á mánuði og er hann meðtalinn í áðurnefndum taxta- og mánaðalaunahækkunum. Jafnframt var gert samkomulag um að með þessari hækkun og flýtingu komi ekki til frekara endurmats á hagvaxtarauka skv. kjarasamningnum frá 2019.

Samningurinn styður við kaupmátt launa láglaunafólks
Kjarasamningurinn er framlenging á Lífskjarasamningnum sem gilti frá 2019-2022. Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn styðji við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn geti þannig byggt undir stöðugleika og skapað forsendur fyrir langtímasamningi. 

Atkvæðagreiðsla hafin
Nú tekur við kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn meðal félagsmanna Framsýnar. Niðurstaða afgreiðslu samningsins á að liggja fyrir ekki síðar en mánudaginn 19. desember næstkomandi. Atkvæðagreiðslan hefst föstudaginn 9. desember kl. 12:00 og klárast kl. 12:00 mánudaginn 19. desember. Framsýn mun standa fyrir félagsfundi mánudaginn 12. desember auk þess sem vinnustöðum stendur til boða að fá kynningu á samningnum. Eitt símtal og við komum á svæðið í einum grænum.

Hafðu endilega samband
Starfsfólk stéttarfélaganna er ávallt reiðubúið að svara fyrirspurnum um samninginn og fyrirkomulag atkvæðagreiðslunnar. Endilega hafið samband.

Launahækkanir eru bundnar því að menn greiði atkvæði um samninginn og samþykki hann. Að öðrum kosti koma þær ekki til framkvæmda 1. nóvember.

Framsýn – Union meeting

Framsýn trade union is calling for a meeting to introduce the newly concluded collective agreement between Confederation of Icelandic Enterprise (SA) and Federation of General and Special Workers in Iceland (SGS), which was signed on Saturday, December 3.

The collective agreement covers members of Framsyn who work in the general labor market.

The meeting will be held on Monday, December 12 at 17:00 in the meeting hall of the trade unions on Garðarsbraut 26. There will be an electronic vote on the agreement. More details on the arrangements for the voting can be found on the union’s website; framsyn.is.

Board of Framsýn

Félagsfundur mánudaginn 12. desember um nýgerðan kjarasamning

Framsýn stéttarfélag boðar til fundar um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins  og Starfsgreinasambands Íslands sem undirritaður var laugardaginn 3. desember.

Kjarasamningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa á almenna vinnumarkaðinum, ekki við verslun og þjónustu eða hjá ríkinu og sveitarfélögum.

Fundurinn verður haldinn mánudaginn 12. desember kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Rafræn kosning verður um samninginn. Sjá má nánara fyrirkomulag um kosninguna inn á heimasíðu félagsins framsyn.is. í vikunni þegar búið verður að forma hana.

Félagar, fjölmennið og hafið skoðanir á kjarasamningnum. Verði hann samþykktur í atkvæðagreiðslu gildir hann frá 1. nóvember að öðrum kosti verður viðræðum við Samtök atvinnulífsins haldið áfram.

Stjórn Framsýnar

„Ómaklega vegið að formanni SGS“

Aðal­steinn Á. Bald­urs­son formaður Fram­sýn­ar seg­ir fyr­ir neðan all­ar hell­ur hvernig for­ystu­menn í verka­lýðshreyf­ing­unni hafa vegið að Vil­hjálmi Birg­is­syni for­manni Starfs­greina­sam­band­ins (SGS) eft­ir und­ir­rit­un kjara­samn­inga SGS og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins á laug­ar­dag­inn.

„Mér finnst ómak­lega vegið að for­manni Starfs­greina­sam­bands­ins, og ekki bara hon­um held­ur líka að öll­um for­mönn­un­um sem að þessu komu og að þeim þúsund­um fé­lags­manna sem komu að því að móta kröfu­gerðina. Þetta er svo ósann­garnt að það hálfa væri nóg, enda er mörg­um mis­boðið yfir svona at­hygli sem menn eru að sækja sér með því að gera lítið úr öðrum,“ seg­ir Aðal­steinn.

Fram­sýn er eitt þeirra 17 SGS-fé­laga sem standa að kjara­samn­ingn­um. Aðal­steini líst vel á samn­ing­inn.

Um­fjöll­un­ina í heild sinni er hægt að nálg­ast í Morg­un­blaðinu í dag.

Mynd: Ragnar Árnason frá SA og Aðalsteinn Árni Baldursson eru á meðfylgjandi mynd sem tekin er þegar formaður Framsýnar skrifaði undir samninginn fh. félagsmanna á Húsavík í gær.

(Heimild mbl.is)

Skrifað undir kjarasamning

Formaður Framsýnar kom því ekki við að skrifa undir kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands fh. Framsýnar sem undirritaður var laugardaginn 3. desember hjá Ríkissáttasemjara í Reykjavík. Ástæðan var ljósmyndasýning á vegum Framsýnar og samstarfsaðila í Safnahúsinu á Húsavík á Fjölmenningardegi auk þess sem ekki er flogið frá Húsavík á laugardögum. Ragnar Árnason forstöðumaður vinnumarkaðssviðs SA átti leið til Húsavíkur í morgun til að hefja viðræður við Framsýn og Þingiðn um endurnýjun á sérkjarasamningi stéttarfélaganna við PCC. Við það tækifæri kom hann með kjarasamninginn norður svo formaður Framsýnar gæti skrifað formlega undir samninginn sem nær til félagsmanna Framsýnar á almenna vinnumarkaðinum. Rétt er að taka fram að hann nær ekki til sjómanna eða verslunar- og skrifstofufólks innan félagsins. Atkvæðagreiðsla um samninginn mun hefjast á næstu dögum, henni á að vera lokið 19. desember. Nánar verður fjallað um kynningu á samningnum og atkvæðagreiðsluna hér á heimasíðunni á næstu dögum.

 

Samningaviðræður hafnar milli PCC og Framsýnar/Þingiðnar

Viðræður eru hafnar milli stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar annars vegar og Samtaka atvinnulífsins hins vegar vegna PCC á Bakka um endurnýjun á sérkjarasamningi aðila sem rann út í lok nóvember. Fyrsti samningafundurinn var haldinn í morgun og verður viðræðum aðila fram haldið á næstu dögum. Fullur vilji er til þess að klára viðræðurnar fyrir áramótin. Um 150 manns starfa hjá PCC á Bakka. Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var rétt í þessu, í fundarsal stéttarfélaganna má sjá samninganefndir starfsmanna og PCC. Fundurinn fór vel fram enda fullur vilji til þess að ganga frá ásættanlegum kjarasamningi milli aðila sem fyrst.

 

 

Hlut­fall er­lends vinnu­afls aldrei hærra -Stéttarfélögin mæta stöðunni-

Ekki er ólíklegt að erlent starfsfólk gæti verið orðið allt að helmingi vinnuafls á Íslandi á komandi áratugum miðað við spár sem lagðar hafa verið fram. Frá 2010 hefur íslenskum ríkisborgurum fjölgað um 8,4% á meðan erlendum ríkisborgurum búsettum hér hefur fjölgað um 160%. Árið 2005 voru innflytjendur sjö prósent af starfandi fólki á vinnumarkaði á Íslandi. Þeim fjölgaði lítillega fram að hruni, þeim hætti þá að fjölga, en frá 2011 hefur þeim fjölgað nær stöðugt. Nú er talið að innflytjendur séu tæpur fjórðungur vinnuaflsins. Samtök atvinnulífsins hafa gefið út að flytja þurfi inn 12 þúsund starfsmenn á næstu fjórum árum. Störfum muni fjölga um 15 þúsund á árunum 2022 til 2025 en á sama tíma muni innlendum íbúum á starfsaldri einungis fjölga um 3 þúsund. Ef spá samtakanna rætist mun hlutfall innflytjenda af starfandi fólki vera komið yfir 27% á árinu 2025.

Varðandi félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hefur íbúum með erlent ríkisfang fjölgað jafnt og þétt frá árinu 2011 til dagsins í dag, með smá niðursveiflu á tímabilinu sem tengist stórframkvæmdum á svæðinu. Íbúum með erlent ríkisfang var um 190 árið 2011 en var komið í 673 árið 2021. Sem hlutfall af íbúum á svæðinu fór það úr 4,43% 2011 í 15,26% árið 2021. Í ljósi þessa og þar sem flest bendir til þess að fjölgunin á erlendu vinnuafli verði nokkuð ör á félagssvæði stéttarfélaganna á komandi árum hafa félögin samþykkt að efla enn frekar þjónustu við erlenda félagsmenn og stórauka vinnustaðaeftirlit. Hvað það varðar er í vinnslu að ráða starfsmann til starfa hjá stéttarfélögunum eftir áramótin sem hafi það hlutverk að vera „umboðsmaður“ erlendra félagsmanna á félagssvæði stéttarfélaganna. Félögin eiga í viðræðum við einn af þeim sem sótti um starf þjónustufulltrúa hjá stéttarfélögunum um að taka starfið að sér. Fyrir Covid voru stéttarfélögin með Aðalstein J. Halldórsson í vinnustaðaeftirliti en starf hans var lagt niður í Covid. Nú þegar árar betur er full þörf á því að auka vinnustaðaeftirlitið um leið og þjónusta við erlenda félagsmenn verður stóraukið. Þannig tryggjum við best heilbrigðan vinnumarkað.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum vinna að því að ráða starfsmann í hlutastarf til að sinna erlendum félagsmönnum á félagssvæðinu. Vilji félaganna er að stórauka þjónustu við þennan hóp félagsmanna sem fer fjölgandi þar sem veruleg vöntun er á vinnuafli á svæðinu.

Nýr kjarasamningur við Samtök atvinnulífsins undirritaður – Framsýn aðili að samningnum

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna starfa á hinum almenna vinnumarkaði. 17 af 19 aðildarfélögum SGS undirrituðu samninginn í húsakynnum ríkissáttasemjara á fimmta tímanum í dag. Um er að ræða svokallaðan skammtímasamning en gildistími samningsins er frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Þess má geta að þetta er í fyrsta sinn sem kjarasamningur á almennum vinnumarkaði gildir frá sama tíma og sá eldri rennur út og í því eru fólgin mikil verðmæti fyrir launafólk. 

Kauptaxtar hækka frá 1. nóvember 2022 um að lágmarki 35.000 kr. Að auki felur samningurinn í sér lagfæringu á launatöflunni, sem gerir það að verkum að hækkun getur orðið allt að 52.000 kr. á mánuði. Laun þeirra sem ekki taka laun eftir kauptöxtum, þ.e. eru á mánaðarlaunum, hækka um 33.000 kr. frá 1. nóvember. Desember- og orlofsuppbætur taka jafnframt hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr. á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023. Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5% frá 1. nóvember og þá hækka bónusar og akkorð í fiskvinnslu um 8% sem mun skila fiskvinnslufólki á bilinu 6.000 – 34.000 kr. hækkun á mánuði. 

Einnig náðist samkomulag um flýtingu hagvaxtarauka sem þýðir að hagvaxtaraukinn sem átti að koma til greiðslu 1. maí 2023 verður flýtt og verður hann að fullu efndur með hækkun 1. nóvember. Það mun skila ávinningi sem nemur 78.000 kr. eða tæpum 6.000 kr. á mánuði og er hann meðtalinn í áðurnefndum taxta- og mánaðalaunahækkunum. Jafnframt var gert samkomulag um að með þessari hækkun og flýtingu komi ekki til frekara endurmats á hagvaxtarauka skv. kjarasamningnum frá 2019. 

Kjarasamningurinn er framlenging á Lífskjarasamningnum sem gilti frá 2019-2022. Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn styðji við kaupmátt launa auk þess að veita heimilum og fyrirtækjum fyrirsjáanleika á miklum óvissutímum. Samningurinn geti þannig byggt undir stöðugleika og skapað forsendur fyrir langtímasamningi. 

Nú tekur við kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn meðal félagsmanna. Niðurstaða afgreiðslu samningsins á að liggja fyrir ekki síðar en mánudaginn 19. desember næstkomandi. 

Eftirfarandi félög eiga aðild að samningnum:
AFL Starfsgreinafélag, Aldan stéttarfélag, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Stéttarfélagið Samstaða, Verkalýðs- og sjómannafélag Bolungarvíkur, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Verkalýðsfélag Akraness, Verkalýðsfélag Snæfellinga, Verkalýðsfélag Suðurlands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga, Verkalýðsfélag Þórshafnar, Verkalýðsfélagið Hlíf og Stéttarfélag Vesturlands. 

Samninginn má nálgast hér.

Myndir frá undirritun samningsins.

Samningaviðræður hefjast í fyrramálið

Fulltrúar Framsýnar og PCC hafa verið í sambandi í dag til að ræða fyrirkomulag viðræðna um endurnýjun á sérkjarasamningi aðila sem rann út um síðustu mánaðamót. Ákveðið var að hefja formlegar viðræður í fyrramálið kl. 10:00. Formaður Framsýnar ásamt trúnaðarmönnum starfsmanna munu taka þátt í viðræðunum fh. starfsmanna.  Frá PCC verða forsvarsmenn fyrirtækisins auk fulltrúa frá Samtökum atvinnulífsins.