Kjaraviðræður í hnút

Slitnað hefur upp úr kjaraviðræðum Starfsmannafélags Húsavíkur sem er í samfloti við tíu önnur aðildarfélög BSRB, og Sambands íslenskra sveitarfélaga. 

Deilan snýr að sameiginlegri kröfu félaganna um að starfsfólk sveitarfélaga, sem vinna m.a. á leikskólum, grunnskólum, sundlaugum, íþróttamiðstöðvum og þjónustu við fatlað fólk fái sömu laun fyrir sömu eða sambærileg störf innan sömu stofnunar eða sveitarfélags og aðrir hafa þegar fengið frá 1. janúar.

Kjaradeilunni hefur verið vísað til ríkissáttasemjara en fundir undir hans stjórn hafa engu skilað. Því hefur ekki verið boðað til frekari fundarhalda. Félögin eru um þessar mundir að ræða næstu skref við trúnaðarmenn og félagsfólk til að knýja megi fram nauðsynlegar og sanngjarnar kjarabætur fyrir starfsfólk sveitarfélaga.

Sömu laun fyrir sömu störf frá 1. janúar!

Lagabreytingar til umræðu hjá STH

Starfsmannafélag Húsavíkur stóð fyrir félagsfundi í gær um drög að breytingum á félagslögum. Stjórn félagsins hafði áður komið að málinu með aðstoð starfsmanna félagsins og lögmanna. Búið er að gera verulegar breytingar á lögunum sem verða til umræðu og endanlegrar afgreiðslu á aðalfundi félagsins sem væntanlega verður haldinn 24. maí nk. Fundurinn verður nánar auglýstur um helgina.

Félagar í STH samþykktu kjarasamninginn við ríkið

Kjörstjórn Starfsmannafélags Húsavíkur kom saman til fundar í morgun. Tilgangurinn var að telja í atkvæðagreiðslu um kjarasamning félagsins við ríkið. Starfsmannafélagið ásamt 14 öðrum aðildarfélögum BSRB skrifuðu undir samkomulag við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs 31. mars um framlengingu og breytingar á kjarasamningi aðila. Um skammtímasamning er að ræða með gildistíma frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024. Atkvæðagreiðsla um samninginn hófst miðvikudaginn 5. apríl og lauk í morgun kl. 09:00. Á kjörskrá voru 26 félagsmenn. Alls greiddu 15,4% félagsmanna atkvæði um samninginn sem var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Fróðleiksfúsir nemendur á Stórutjörnum

Fulltrúar frá Framsýn voru beðnir um að vera með kynningu um vinnumarkaðinn og starfsemi stéttarfélaga fyrir nemendur í elstu árgöngunum í Stórutjarnaskóla. Stórutjarnaskóli er í Ljósavatnsskarði og er samrekinn leik- grunn- og tónlistarskóli með um 40 nemendur frá eins árs til 16 ára aldurs. Skólinn er Grænfánaskóli og Heilsueflandiskóli. Kynningin gekk vel og voru nemendur fróðleiksfúsir um réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði en þau verða fljótlega fullgild á vinnumarkaði. Það var Kristján Ingi Jónsson starfsmaður stéttarfélaganna sem fór fyrir fræðslunni og svaraði spurningum nemenda.  

Ársfundur Stapa 2023 – vilt þú vera fulltrúi Framsýnar?

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs verður haldinn miðvikudaginn 3. maí nk. í Menningarhúsinu Hofi kl. 14:00. Á fundinum verða tekin fyrir venjuleg ársfundarstörf.

Framsýn á rétt á 10 fulltrúum á ársfundinn. Hér með er skorað á félagsmenn að gefa kost á sér á ársfundinn fh. félagsins. Áhugasamir sjóðfélagar eru beðnir um að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is vilji þeir gefa kost á sér á ársfundinn, það er fyrir 18. apríl nk.

Verði fulltrúar Framsýnar sem sækja fundinn fyrir vinnutapi mun Framsýn greiða viðkomandi vinnutapið og ferðakostnað.

Rétt er að taka fram að ársfundurinn er opinn öllum sjóðfélögum og vonast stjórn sjóðsins eftir að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Stjórn Framsýnar

Niceair – Upplýsingar varðandi ónotaða flugmiða

Eins og kunnugt er hefur Niceair aflýst flugi og gert hlé á allri sinni starfsemi um óákveðinn tíma. Í tilkynningu frá Niceair í byrjun mánaðarins kemur fram:

„Vegna óviðráðanlegra aðstæðna neyðumst við til að fella niður öll flug Niceair frá og með 6. apríl nk.

Við hörmum þau óþægindi sem af þessu hljótast. 

Endurgreiðslur farmiða sem greiddir voru með debet- og kreditkortum munu skila sér á næstu dögum.

Öðrum farþegum er vinsamlegast bent á að senda erindi með upplýsingum um bókunarnúmer á niceair@niceair.is

Chairman of Framsýn trade union visits Raufarhöfn

Chairman of Framsýn trade union, Aðalsteinn Árni Baldursson will be answering questions at the Stjórnsýsluhús in Raufarhöfn on Wednesday 19 April from 15:00 to 17:00. Everyone welcome.

                                                                      Framsýn trade union

Przewodniczący związków zawodowych Framsýn z wizytą w Raufarhöfn

Przewodniczący związków zawodowych Framsýn, Aðalsteinn Árni Baldursson będzie odpowiadał na pytania w Stjórnsýsluhús w Raufarhöfn w środę, 19 kwietnia, w godzinach 15:00- 17:00. Wszystkich serdecznie zapraszamy do rozmowy.

                                                         Związki zawodowe Framsýn

Raufarhöfn

Formaður Framsýnar með viðtalstíma

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, verður til viðtals í stjórnsýsluhúsinu á Raufarhöfn fyrir félagsmenn miðvikudaginn 19. apríl. Hann verður á staðnum kl. 15:00 til 17:00. Allir velkomnir.

Framsýn stéttarfélag

Afmælisgjöf til félagsmanna STH – 60 ára afmæli

Starfsmannafélag Húsavíkur var stofnað 26. október 1963. Fyrsti forsvarsmaður félagsins var Páll Kristjánsson. Um 100 félagsmenn eru í félaginu. Félagið er stéttarfélag starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem nær yfir sveitarfélög í Þingeyjarsýslum. Í tilefni af afmælinu hefur verið ákveðið að færa félagsmönnum að gjöf veglega tösku sem þeir geta nálgast á Skrifstofu stéttarfélaganna. Síðan er til skoðunar að fara í afmælisferð í haust. Ferðin verður nánar auglýst síðar.

Samkomulag um frestun niðurfellingar orlofsdaga

Í síðustu kjarasamningum aðildarfélaga BSRB var samið um breytingar á orlofskafla kjarasamninga. Þar var öllum tryggður 30 daga orlofsréttur, óháð aldri og starfsaldri. Meðal þeirra markmiða sem bjuggu að baki breytingunni var að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt en safni orlofsdögum ekki upp. Samkvæmt lögum er flutningur orlofs milli ára óheimill en með breytingunum var því starfsfólki sem átti uppsafnað orlof gefinn þriggja ára aðlögunartími til að nýta sína uppsöfnuðu orlofsdaga, að hámarki 60 talsins, þrátt fyrir bann við flutningi milli ára.

Fljótlega eftir gerð síðustu kjarasamninga breyttust aðstæður á vinnumarkaði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og ein af birtingarmyndum þess var óhóflegt álag á starfsfólk, undirmönnun stofnana og mun minna svigrúm fyrir fólk til þess að fara í orlof og vinna á uppsöfnuðu orlofi. Af þeim sökum hafa mörg ekki náð að vinna upp sitt uppsafnaða orlof á sl. þremur árum og einhver hafa jafnvel safnað upp enn fleiri orlofsdögum.

Með hliðsjón af framangreindu hefur verið tekin ákvörðun, í samráði við opinbera atvinnurekendur, að fresta niðurfellingu orlofsdaga. Í tilfelli starfsfólks ríkis og Reykjavíkurborgar hefur niðurfellingu verið frestað til 30. apríl 2024 en Samband íslenskra sveitarfélaga hefur frestað niðurfellingu um ótilgreindan tíma og munu stjórnendur innan sveitarfélaga gera skriflegt samkomulag við starfsfólk sitt um töku uppsafnaðs orlofs. Þetta ákvæði nær til félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur.

Bætt þjónusta við félagsmenn – hleðsla í boði

Þingiðn og Framsýn hafa komið sér upp hleðslustöðvum í Þorrasölum fyrir félagsmenn, það er í tveimur bílastæðum í bílakjallaranum. Bæði verður hægt að hlaða í bílakjallaranum í hleðslustöðvum stéttarfélaganna og í sameiginlegum hleðslustöðvum á bílaplaninu sem íbúar og gestir hafa aðgengi að. Tveimur stöðvum hefur verið komið fyrir á bílaplaninu. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna, þar er einnig hægt að fá sérstök kort sem menn þurfa að nálgast til að geta hlaðið bílana. Í skoðun er að virkja stöðvarnar þannig að menn geti hlaðið bílana með sínum greiðslukortum. Þá er reiknað með að menn noti sína eigin kapla við hleðsluna þar sem þeir fylgja ekki með hleðslustöðvunum.  

Allt í himnalagi

Aðalfundur Húsfélagsins í Þorrasölum 1-3 var haldinn í gær í Kópavogi. Á fundinum kom fram mikil ánægja með rekstur húsfélagsins og starfsemina á umliðnu starfsári. Stjórn félagsins kom að ýmsum málum sem fylgir rekstri húsfélaga.  Sem dæmi má nefna að nýlega var komið upp hleðslukerfi fyrir rafbíla og í sumar verður fjölbýlishúsið málað. Áætlað er að það kosti um 16 milljónir. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, hefur verið stjórnarformaður og var hann endurkjörinn í gær. Með honum í stjórn er öndvegisfólk sem býr í Þorrasölum. Stéttarfélögin, Þingiðn og Framsýn eiga 5 íbúðir í húsinu. Í heildina eru 32 íbúðir í fjölbýlishúsinu.

Gengið frá kjarasamningi við Landsvirkjun

Starfsgreinasamband Íslands fh. aðildarfélaga sambandsins hefur gengið frá skammtímasamningi við Landsvirkjun. Framsýn kom að þessari vinnu enda með þrjár virkjanir á félagssvæðinu sem falla undir samninginn, Þeistareykjavirkjun, Kröflu og Laxárvirkjun. Samningurinn gildir til 31. janúar 2024 enda verði hann samþykktur í atkvæðagreiðslu sem hefst á næstu dögum sem skal lokið eigi síðar en 20. apríl 2023. Kjarasamningurinn er sambærilegur samningi SGS og SA sem var undirritaður 3. desember 2022. Starfsmenn Landsvirkjunnar sem falla undir samninginn munu fá frekari upplýsingar um atkvæðagreiðsluna og samninginn á næstu dögum.

Atkvæðagreiðsla hafin um kjarasamning STH við ríkið

Þann 31. mars síðastliðinn skrifaði Starfsmannafélag Húsavíkur undir samkomulag við fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs um framlengingu og breytingar á kjarasamningi milli aðila. 

Um skammtímasamning er að ræða sem er með gildistíma frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024 þar sem aðal áherslan er lögð á launahækkanir og kjarabætur. Einnig fylgir samningunum verkáætlun um þætti eins og vinnutíma í dagvinnu og vaktavinnu, fræðslumál, slysatryggingar o.fl. Að auki fylgir samkomulaginu viðauki, þar sem fjallað er um ákveðnar breytingar á vaktaálagi og vaktahvata.

Það var lögð á það mikil áhersla að tryggja kaupmátt félagsfólks og að samningur tæki við af samningi launahækkanir sem koma til útborgunar þann 1. maí næstkomandi. 

Atkvæðagreiðsla um samninginn er hafin og  stendur til kl. 09:00 föstudaginn 14. apríl. Kosning um samninginn fer fram á Skrifstofu stéttarfélaganna. Hægt verður að kjósa frá kl. 08:00 til 16:00 alla virka daga. Þar er einnig hægt að fá nánari upplýsingar um samkomulagið við ríkið.

Það er von stjórnar STH að félagsmenn greiði atkvæði um samninginn.

      Kosningu lýkur föstudaginn 14. apríl kl. 09:00.

Með félagskveðju!

Stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur

Kjörstjórn Starfsmannafélags Húsavíkur

Félagsfundur STH

Starfsmannafélag Húsavíkur boðar til félagsfundar mánudaginn 17. apríl kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26.

Dagskrá:

1. Kynning á lagabreytingum

2. Önnur mál

Undanfarið hefur verið unnið að því að endurskoða félagslög STH, enda löngu tímabært. Á fundinum verður gerð grein fyrir tillögum að breytingum. Lögin verða síðan tekin til afgreiðslu á aðalfundi félagsins í maí. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á félagsfundinn.

Stjórn STH   

Skrifað undir sérkjarasamning

Fyrir helgina skrifuðu fulltrúar Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins undir sérkjarasamning fyrir starfsmenn við störf á farþegabátum í ferðaþjónustu frá Húsavík. Um er að ræða framlengingu á gildandi samningi fyrir starfsmenn við fugla og hvalaskoðun. Samningurinn sem tekur mið af hækkunum í kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins er afturvirkur og gildir frá 1. nóvember 2022 til 31. janúar 2024. Samningurinn ber með sér að launaliður samningsins hækkar en aðrir liðir úr kröfugerð Framsýnar verða teknir til umræðu eigi síðar en í október nk.

Páskaegg í boði í dag

Í dag eru liðin 100 ár frá stofnun Verkamannafélags Húsavíkur. Í tilefni af því verður opið hús á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag, laugardag,  frá kl. 14:00 til 16:00.  Öllum gestum stendur til boða að fá gefins páskaegg nr. 10 frá Nóa Síríus. Um er að ræða besta páskaeggið á markaðinum með Baileys trufflum og saltkaramellufyllingu í sívalningi. Reyndar er eggið uppselt þar sem stéttarfélögin komust yfir síðustu 100 eggin sem komu með Flytjanda til Húsavíkur í morgun. Að sjálfsögðu verður líka boðið upp á tertu frá Bakarameistaranum og kaffi í boði Merrild. Starfsfólk stéttarfélaganna getur ekki beðið eftir því að fá heimsins bestu gesti í heimsókn í dag. Allir velkomnir.

Aðildarfélög BSRB undirrita kjarasamninga – STH aðili að samningnum

Aðildarfélög BSRB, þar á meðal Starfsmannafélag Húsavíkur hafa náð samkomulagi um launahækkanir og kjarabætur fyrir starfsfólk í almannaþjónustu við ríki og Reykjavíkurborg. Um skammtímasamninga er að ræða sem gilda í tólf mánuði frá 1. apríl 2023.

Forsvarsfólk fjórtán aðildarfélaga BSRB undirrita í kjölfarið kjarasamningana í húsi Ríkissáttasemjara en undir þau falla um 14 þúsund félagsmenn. Samningarnir fara nú í kynningu og í kjölfarið í atkvæðagreiðslu í félögunum sem lýkur 14. apríl. „Leiðarljós okkar í þessum viðræðum var að verja kaupmátt starfsfólks í almannaþjónustu, enda er verðbólgan farin að bíta almenning verulega og langt síðan fólk á almennum vinnumarkaði fékk sínar kjarabætur. Við fögnum því að kjarasamningur taki við af kjarasamningi svo launafólk fái ávinninginn af samningunum strax í vasann 1. maí. Rétt eins og á almenna markaðinum er um skammtímasamninga að ræða og svo hefst fljótlega undirbúningur fyrir gerð langtímakjarasamninga hjá aðildarfélögum BSRB. Kröfur okkar munu ekki eingöngu beinast að launagreiðendum heldur einnig stjórnvöldum. – sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Stéttafélögin sem hafa undirritað samninga eru:

Félag flugmálastarfsmanna ríkisins

Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi

FOSS – stéttafélag í almannaþjónustu

Félag starfsmanna stjórnarráðsins

Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu

Landssamband lögreglumanna

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna

Sameyki – stéttarfélag í almannaþjónustu

Sjúkraliðafélag Íslands

Starfsmannafélag Garðabæjar

Starfsmannafélag Kópavogs

Starfsmannafélag Húsavíkur

Starfsmannafélag Suðurnesja

Starfsmannafélag Vestmanneyja

Á næstu dögum verður atkvæðagreiðslan um kjarasamninginn auglýst betur hér á heimasíðunni.

Starfslok til umræðu á námskeiði

Framsýn í samvinnu við Þekkingarnet Þingeyinga stóð fyrir starfslokanámskeiði í gær sem var öllum opið. Námskeiðið fór fram í fundarsal stéttarfélaganna. Eins og kunnugt er þurfa menn að undirbúa sig vel við starfslok á vinnumarkaði. Breytingin hefur mikil áhrif á líf fólks. Á námskeiðinu var boðið upp á fróðleg erindi og fræðslu. Fjallað var um lífeyrisréttindi, heilsu og andlega vellíðan. Fyrirlesarar komu víða að. Dögg Stefánsdóttir, Hrefna Regína Gunnarsdóttir fjölluðu um heilsu og andlega vellíðan. Lilja Skarphéðinsdóttir og Egill Olgeirsson sögðu frá kraftmiklu starfi Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni og Jóna Finndís Jónsdóttir og Kristín Hilmarsdóttir starfsmenn Lsj. Sapa fjölluðu um lífeyrismál.  Þátttakaendur voru mjög ánægðir með námskeiðið.

Skráningu að ljúka – Áhugavert starfslokanámskeið í boði

Framsýn í samvinnu við Þekkingarnet Þingeyinga standa fyrir starfslokanámskeiði. Til stendur að halda tvö námskeið, annað á Húsavík og hitt í Breiðumýri. Tímasetning er komin á námskeiðið á Húsavík, 29. mars í fundarsal stéttarfélaganna, sjá meðfylgjandi auglýsingu. Námskeiðið er öllum opið og er í boði Framsýnar stéttarfélags. Skráning er hafin inn á hac.is. Þekkingarnet Þingeyinga sér um að halda utan um skráningarnar. Nánari upplýsingar um námskeiðið eru í boði hjá Þekkingarnetinu og Skrifstofu stéttarfélaganna.  (Áríðandi er að þeir sem ætla að koma á námskeiðið skrái sig í dag á hac.is)