Magnaðir smiðir – vantar þig góða fagmenn?

Framsýn fékk þá Þorvald Inga Björnsson og  Bjarna Þór Björgvinsson sem eru fagmenn góðir til að fara og laga nokkur atriði í bústað félagsins á Illugastöðum í Fnjóskadal. Settar voru upp nýjar gardínur, þakrennur og gengið frá nýjum húsgögnum í bústaðinn.  Þorvaldur og Bjarni eru verkmenn góðir en þeir byrjuðu nýlega að starfa sjálfstætt sem smiðir. Að sjálfsögðu eru þeir félagsmenn í Þingiðn. Það er full ástæða til að mæla með þeim enda drengir góðir í alla staði. Á meðfylgjandi myndum má sjá ný húsgögn og gardínur. Bústaðurinn er óvenjulegur glæsilegur um þessar mundir enda félagsmenn duglegir að nota þennan glæsilega bústað.

Framsýn union – Important whale watching staff meeting

After the successful meeting last year, we present our new Know your rights workshop!

On Tuesday 4th of July, at 8pm, in the Framsýn headquarters at Húsavík there will be a workshop about basic working rights on the whale watching industry for North Sailing workers (together with Húsavík Adventures and Slippurinn). All the workers are wellcomed!

We will learn how to understand contracts and payslips, we will go over general and specific collective agreements for the different positions, and we will talk about our current situation and share our ideas for future improvements.

Happy crew, happy boat! See you next Tuesday!

Allir í vöfflukaffi

Þessar þrjár frábæru konur koma að Kaffi Kvíabekk í Skrúðgarðinum á Húsavík þar sem
boðið er upp á heimsins bestu vöfflur og kaffi á góðviðrisdögum.
Þetta eru þær, Valdís Birna Daníelsdóttir, Bryndís Edda
Benediktsdóttir og Anna María Bjarnadóttir. Skorað er á fólk að
líta við hjá þeim og njóta veitinga í fallegu umhverfi og í góðum
félagsskap.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – rekstur Skrifstofa stéttarfélaganna í góðum málum

Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Félagið er aðili að Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík ásamt Starfsmannafélagi Húsavíkur og Þingiðn. Þar starfa 6 starfsmenn í 5,4 stöðugildum. Að auki starfa 5 starfsmenn í hlutastörfum hjá Framsýn við að þjónusta orlofsíbúðir í Reykjavík, Kópavogi, Akureyri og í Öxarfirði. Starfshlutfall þeirra er um 30% að meðaltali. Þá er einn starfsmaður í 5% starfi á Raufarhöfn. Þess ber að geta að Linda M. Baldursdóttir hætti störfum hjá stéttarfélögunum í lok síðasta árs. Í hennar stað var Kristján Ingi Jónsson ráðinn. Hann var valinn úr hópi 21 umsækjenda um starfið. Þá var jafnframt ákveðið að ráða Agnieszku Szczodrowska í hlutastarf við almenn skrifstofustörf, þýðingar og vinnustaðaeftirlit frá og með 1. febrúar 2023. Agnieszka verður í 50% starfi. Hugmyndin með hennar ráðningu er ekki síst að bæta þjónustu við erlenda félagsmenn sem fjölgar ár frá ári á félagssvæðinu. Full ástæða er til að þakka Lindu fyrir vel unnin störf í þágu stéttarfélaganna, Linda var góður liðsmaður. Skrifstofan tók að sér að halda utan um Félagsmannasjóð fyrir starfsmenn sveitarfélaga sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshreppi. Sjóðurinn var áður í vörslu SGS en vegna óánægju aðildarfélaga sambandsins með rekstur sjóðsins var ákveðið að stéttarfélög starfsmanna tækju yfir starfsemi sjóðsins. Framsýn tók yfir sjóðinn fyrir sína félagsmenn 1. október 2022. Félagsmannasjóður varð til við undirritun kjarasamninga 16. janúar 2020. Sveitarfélög greiða 1,5% í sjóðinn til viðbótar launum starfsmanna á ársgrundvelli. Greitt er úr sjóðnum einu sinni á ári, það er 1. febrúar ár hvert. Félagið heldur úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta s.s. kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar. Auk þess er stórum hluta starfsins sinnt í gegnum síma, tölvur og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla.  Ekki eru fyrirsjáanlegar breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna.

Hér með er lokið umfjöllun um aðalfund Framsýnar sem fram fór í maí 2023.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – rekstur Hrunabúðar sf. gengur vel

Rekstur Hrunabúðar sf. hefur gengið mjög vel. Um þessar mundir eru öll skrifstofurými í notkun og rúmlega það þar sem fundarsalurinn er einnig í fastri útleigu. Hrunabúð sf. er félag í eigu Framsýnar og Þingiðnar. Eignarhluturinn á efri hæðinni skiptist þannig: Framsýn á 84% og Þingiðn 16%. Félagið var stofnað á árinu 2017 utan um sameiginlegt eignarhald og rekstur á efri hæð Garðarsbrautar 26 sem snýr að Árgötunni þar sem félögin töldu mikilvægt að eignast hæðina enda húsnæðið komið í töluverða niðurníðslu.  Árið 2021 fjárfesti Hrunabúð síðan í íbúð á efri hæð Garðarsbrautar 26. Íbúðin sem um ræðir er alls 232,2 fm. Búið er að innrétta um 180 fm. af íbúðinni. Hafin er vinna við að innrétta þann hluta sem er ófrágenginn. Íbúðin er í útleigu um þessar mundir.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – starfsemi félagsins eflist og eflist félagsmönnum til hagsbóta

Framsýn stéttarfélag hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra.

Framsýn sendi frá sér 5 ályktanir og yfirlýsingar milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni.

Þann 2. mars 2023 stóð Framsýn fyrir opnum fundi stjórnar og trúnaðarráðs um lífeyrismál í samstarfi við Lsj. Stapa.

Framsýn stóð fyrir opnum starfslokanámskeiðum með Þekkingarsetri Þingeyinga á Húsavík og í Breiðumýri í Þingeyjarsveit.

Framsýn hefur komið upp samstarfi við Íslandsbanka þar sem aðilar frá stéttarfélögunum og útibúi bankans á Húsavík hittast reglulega og fara yfir þróun vaxtamála á reikningum stéttarfélaganna á hverjum tíma. Afar mikilvægt er að fylgst sé reglulega með þróun vaxtamála enda hefur ávöxtun félaganna á bankainnistæðum bein áhrif á starfsemi þeirra og getu til að gera vel við félagsmenn.

Þó nokkuð er um að forsvarsmenn félagsins séu beðnir um að flytja erindi á fundum og ráðstefnum auk þess að taka þátt í umræðuþáttum um velferðar og verkalýðsmál enda greinilegt að starf félagsins nýtur mikillar virðingar í samfélaginu.

Framsýn hefur komið að því að styðja við bakið á ungmenna- og  íþróttafélögum á svæðinu. Þá hefur félagið einnig komið að því að niðurgreiða leikhúsmiða fyrir félagsmenn á sýningar hjá Leikfélagi Húsavíkur og Leikdeild Eflingar.

Töluverð ásókn er í félagið frá starfsfólki sem starfar ekki á félagssvæði Framsýnar. Stundum er hægt að verða við óskum viðkomandi aðila en almenna reglan er sú að menn greiði í þau félög sem eru starfandi á því svæði sem viðkomandi starfar á enda séu menn að vinna eftir kjarasamningum sem gilda fyrir félagsmenn Framsýnar.

Framsýn hefur í gegnum tíðina lagt mikið upp úr góðu samstarfi við stjórnmálamenn sem gefið hafa kost á sér til starfa á Alþingi eða í sveitarstjórnir á félagssvæðinu. Alþingismenn, ráðherrar og sveitarstjórnarmenn hafa átt það til að líta við á Skrifstofu stéttarfélaganna til að taka stöðuna um málefni líðandi stundar.

Landsfundur VG fór fram í mars 2023 á Akureyri. Formaður Framsýnar var fenginn til að flytja ræðu um stöðu verkalýðshreyfingarinnar á fundinum. Í ræðu sinni ræddi hann m.a. átökin innan hreyfingarinnar, sem ekki sér fyrir endann á og tók þar helst til framgöngu Eflingar í tengslum við nýyfirstaðna kjarasamningagerð. Hvatti hann jafnframt VG til að standa vörð um verkalýðshreyfinguna og beita sér fyrir því að fyrirhugað frumvarp Sjálfstæðismanna um félagafrelsi á vinnumarkaði nái ekki fram að ganga. Ræða formanns  fékk afar góð viðbrögð fundargesta og í fjölmiðlum.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – aðhald í rekstri skilar tilætluðum árangri í þágu félagsmanna

Fjárhagsleg afkoma félagsins var góð á árinu 2022. Greiðandi félagsmönnum fjölgaði milli ára úr 2.731 iðgjaldagreiðendum í 3.016 eða um 285 félagsmenn sem er ánægjulegt. Rekstrarafgangur var af öllum sjóðum félagsins nema fræðslusjóði. Þess ber að geta að Fræðslusjóður Framsýnar hefur ekki fastar tekjur en veitir félagsmönnum viðbótarstyrki til starfsmenntunar þegar rétti þeirra er lokið úr kjarasamningsbundnum fræðslusjóðum s.s. Landsmennt, Ríkismennt, Sveitamennt, Sjómennt og Fræðslusjóði verslunarmanna. Ekki er lagt upp með að Skrifstofa stéttarfélaganna skili hagnaði enda skal rekstur hennar skiptast á deildir Framsýnar, Þingiðnar og STH. Rekstrartekjur félagsins námu kr. 345,8 milljónum sem er hækkun um 20% milli ára.  Þessi hækkun skýrist fyrst og fremst af hærri iðgjaldatekjum. Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 295 milljónum 2022 á móti kr. 241 milljónum á árinu 2021 sem er hækkun upp á um 22%. Rekstrargjöld hækka um 34,5% á milli ára en þau námu kr. 248,2 milljónum 2022. Þessi hækkun er einkum tilkomin vegna greiðslna úr sjúkrasjóði sem eru stærsti einstaki útgjaldaliður Framsýnar fyrir utan laun og launatengd gjöld. Greiðslur úr sjúkrasjóði hækkuðu um 33 milljónir samanborið við 2021. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Framsýnar í rekstrarkostnaði nam kr. 55 milljónum. Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur greiddu saman rúmar kr. 6 milljónir til rekstursins. Fjármagnstekjur námu kr. 128 milljónum en voru 71 milljón á árinu 2021. Í lok árs 2020 var samið við Motus um að sjá um innheimtu gagnvart þeim sem ekki standa í skilum við félagið. Að auki hefur verið lögð áhersla á að koma sem flestum greiðendum í kröfur í stað millifærslna. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og innheimtumál Framsýnar því í góðum málum.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – allt upp á borðinu

Á síðasta ári samþykkti stjórn og trúnaðarráð félagsins Innkaupastefnu fyrir félagið, en þar er um að ræða ákveðið frumkvæði hjá félaginu þar sem ekki er vitað til þess að önnur stéttarfélög hafi komið sér upp slíkri stefnu. Lögfræðingar Framsýnar og ASÍ komu að því að móta stefnuna með forsvarsmönnum og starfsmönnum félagsins. Fram kom ánægja hjá þeim með frumkvæði Framsýnar að móta sér reglur varðandi það að tryggja hagkvæmni í kaupum á vörum og þjónustu fyrir stéttarfélögin, en ekki síður að stuðla með þessu að góðu viðskiptasiðferði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – félagsmenn ánægðir með flugfargjöld

Framsýn er með samkomulag við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Samkomulagið byggir m.a. á því að Framsýn gerir magnkaup á flugmiðum og endurselur til félagsmanna. Flugmiðarnir hafa verið seldir á kostnaðarverði og eru aðeins ætlaðir félagsmönnum. Þeir einir geta ferðast á þessum kjörum. Án efa er þetta ein besta kjarabót sem Framsýn hefur samið um fyrir félagsmenn þegar við horfum til þess að félagið hefur sparað félagsmönnum umtalsverðar upphæðir síðan félagið hóf að selja félagsmönnum flugmiða/kóða á þessum hagstæðu kjörum. Með nýlega endurnýjuðu samkomulagi við flugfélagið tókst Framsýn að tryggja félagsmönnum áframhaldandi afsláttarkjör út árið 2023. Verð til félagsmanna í dag er kr. 15.000,- per flugmiða/kóða.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – boðið upp á ljósmyndasýningu

Félagið opnaði ljósmyndasýningu í Safnahúsinu laugardaginn 3. desember undir yfirskriftinni „Samfélagið í hnotskurn“. Samhliða sýningunni var í boði fjölmenningardagskrá í samstarfi við Húsavíkurstofu og fjölmenningafulltrúa Norðurþings. Ljósmyndasýningin stóð fram í febrúar 2023. Sýningunni hefur nú verið komið fyrir í forstofu fundarsals stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Í lok árs 2019 var gengið frá samningi við Egil Bjarnason ljósmyndara um verkefni þar sem teknar voru myndir af erlendu verkafólki við störf. Samið var við Egil að taka myndir af 20 einstaklingum sem komið hafa til starfa hér á landi. Verkefnið kláraðist haustið 2022 og er félaginu til mikils sóma.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – launakjör félagsmanna í stjórnunarstörfum óbreytt milli ára

Launakjör aðalstjórnar, trúnaðarráðs og stjórna deilda innan félagsins verða óbreytt milli ára samkvæmt ákvörðun aðalfundarins. Það á einnig við um kjör fyrir aðrar stjórnir ráð og nefndir sem tilgreindar eru hér að neðan undir þessum lið.

Launakjör stjórnar og annarra félagsmanna í trúnaðarstörfum fyrir félagið starfsárið 2023-24:

Stjórn og varastjórn Framsýnar:

Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks.

Formaður + varaformaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar.

Trúnaðarráð Framsýnar:

Þrír tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks.

Stjórnir deilda Framsýnar, það er Sjómannadeildar og Deildar verslunar- og skrifstofufólks:

Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks.

Formaður 1,5 tími í undirbúning og frágang funda til viðbótar.

Aðrar fastar stjórnir og nefndir kjörnar á aðalfundi fyrir Kjörstjórn, Kjörnefnd, Sjúkrasjóð, Vinnudeilusjóð, Orlofssjóð, Fræðslusjóð, Ungliðaráð, Siðanefnd, Laganefnd, 1. maí nefnd og skoðunarmenn reikninga. Þessi regla gildir jafnframt fyrir þær nefndir/stjórnir sem stjórn og trúnaðarráð félagsins skipar á hverjum tíma:

Tveir tímar í yfirvinnu skv. 11 launaflokki fiskvinnslufólks.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – Framsýn ung í góðum málum

Framsýn leggur mikið upp úr því að halda uppi öflugu starfi innan félagsins er viðkemur ungum félagsmönnum. Innan félagsins er starfandi ungliðaráð. Ráðið skipa: Guðmunda Steina Jósefsdóttir, Elva Héðinsdóttir og  Sunna Torfadóttir.  Guðmunda Steina er núverandi formaður Framsýnar-ung. Ungliðarráðið hefur verið virkt og tekið þátt í fundum stjórnar og trúnaðarráðs félagsins auk þess að sitja ungliðafundi á vegum Starfsgreinasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – Sjálfstæðismenn á villigötum  

Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram lagafrumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði. Það  á að tryggja rétt launafólks til að velja sér stéttarfélag. Auk þess er lagt bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum, vernda á rétt launafólks til að standa utan verkfalla stéttarfélaga sem það tilheyrir ekki og afnema greiðsluskyldu félagsbundinna launamanna til stéttarfélaga þar sem þess er krafist í lögum eða kjarasamningum. Ljóst er að frumvarpið er alvarleg aðför að sjálfstæði stéttarfélaga og íslenskri verkalýðshreyfingu. Framsýn kom á framfæri alvarlegum athugasemdum við frumvarpið. Það er von félagsins að verkalýðshreyfingin og vel hugsandi alþingismenn muni gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að frumvarpið fari í gegn um þingið enda víðáttu vitlaust og rúmlega það. Þá hefur formaður Framsýnar skrifað greinar um alvarleika málsins og hafa þær fengið mjög góðar undirtektir lesenda.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – mikilvægt að byggja upp leiguhúsnæði fyrir tekjulága

Framsýn og sveitarfélagið Norðurþing stóðu fyrir fundi með Birni Traustasyni framkvæmdastjóra leigufélagsins Bjargs (sem er í eigu ASÍ og BSRB) um hugsanlegt samstarf um uppbyggingu á leiguhúsnæði í sveitarfélaginu. Mikil vöntun er á leiguhúsnæði á Húsavík fyrir tekjulágt fólk, en Bjarg íbúðafélag er sérsniðið að tekjulágum einstaklingum á vinnumarkaði sem eiga hvað erfiðast með að komast í leiguhúsnæði á almenna húsnæðismarkaðinum vegna lágra tekna. Stóð vilji fundarmanna til að þróa samtalið áfram. Framsýn mun fylgja málinu eftir enda mikilvægt að auka framboð á svæðinu fyrir þá sem þurfa á leiguhúsnæði að halda á viðráðanlegu verði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – Öflug þjónusta í boði hjá Virk

Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Með samvinnu Virk – starfsendurhæfingarsjóðs og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin þjónustu- og ráðgjafaskrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009. Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu. Gott samstarf er við stofnanir og meðferðaraðila á svæðinu, á sviði heilbrigðis-, félags- og menntunarmála. Virk hefur staðið fyrir kynningu og vitundavakningu um efni sem tengjast farsælli þátttöku og endurkomu á vinnumarkaði. Í þessu sambandi má t.d. nefna kynningarátök og rannsóknir Virk á kynbundnu ofbeldi á vinnumarkaði, kulnun og breytingarskeyði kvenna. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur. Formleg þjónusta við einstaklinga á vettvangi Virk hefst með tilvísun frá lækni (oftast heimilislækni/lækni heilsugæslu).

Framsýn og samstarfs stéttarfélög í Þingeyjarsýslum eiga virkt samstarf við Virk – starfsendurhæfingarsjóð um skipulag og stuðning við þjónustuna. Á síðustu misserum hefur byggst upp gott samstarf um miðlun verkefna, m.a. á Norðurlandi. Starfsmaður Virk á Húsavík hefur að hluta starfað sem atvinnulífstengill á því svæði. Á vettvangi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs, hlutu 10 fyrirtæki/stofnanir nýlega sérstaka viðurkenningu fyrir framlagt sitt til stuðnings einstaklinga sem stíga út á vinnumarkað eftir fjarveru vegna veikinda. Heilbrigðistofnun Norðurlands – Húsavík, hlaut þessa viðurkenningu, sem VIRKt fyrirtæki. Áralangt samstarf hefur verið verið stofnunina, jákvætt viðhorf stjórenda og samstarfsfólks hafa einkennt samstarf og samskipti við einstaklinga í endurkomu í starf eða í leit að starfi við hæfi og tækifæri á vinnumarkaði að nýju. Ráðgjafi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs í Þingeyjarsýslum er Ágúst Sigurður Óskarsson og er hann til staðar á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, sími 464-6600 og netfang virk@framsyn.is.

Kynningar fyrir skóla og vinnustaði

Töluvert hefur verið um að fulltrúar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafi verið beðnir um að koma með fræðslu inn á vinnustaði á félagssvæðinu. Það er fræðslu um starfsemi stéttarfélaga og ákvæði kjarasamninga. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar talsmaður Framsýnar var beðinn um að flytja erindi fyrir sumarstarfsmenn á Hvammi og HSN á Húsavík í byrjun sumars.  

Fjölmenni í sumarkaffi Framsýnar á Raufarhöfn

Framsýn stóð fyrir árlegu sumarkaffi í félagsheimilinu Hnitbjörgum á Raufarhöfn í byrjun júní eins og gert hefur verið í aðdraganda Sjómannadagsins mörg undanfarin ár. Íbúar staðarins ásamt nærsveitingum hafa verið mjög duglegir að mæta í sumarkaffið og svo var einnig nú, en um 70 til 80 gestir komu og þáðu veitingar og áttu góða stund með forsvarsmönnum félagsins.  Með kaffinu var boðið upp á konfekt og hnallþórur af allra bestu gerð, en það voru konur úr Kvenfélaginu Freyju á Raufarhöfn sem höfðu veg og vanda af tertubakstrinum. Framsýn þakkar rekstraraðilum Hnitbjarga, þeim Ingibjörgu Hönnu Sigurðardóttur og Gunnari Páli Baldurssyni  fyrir afnotin af húsnæðinu og öllum þeim sem lögðu leið sína í sumarkaffið hjartanlega fyrir komuna.

Meistari Jakob

Jakob Gunnar Hjaltalín kom að sjálfsögðu á aðalfund Framsýnar sem haldinn var í lok maí. Um þessar mundir eru ákveðin tímabót í hans lífi þar sem hann fagnar 70 ára afmæli. Að sjálfsögðu var Jakob hylltur á fundinum auk þess sem fundarmenn færðu honum smá glaðning á þessum merku tímamótum í hans lífi. Það gerði Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – árgjaldið áfram óbreytt milli ára

Félagsgjaldið hefur verið óbreytt til fjölda ára, það er 1% af launum félagsmanna. Til að öðlast full félagsréttindi þurfa félagsmenn að greiða mánaðarlegt félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar á hverjum tíma, nú 1% af heildarlaunum enda séu þeir á vinnumarkaði.

Aðalfundurinn samþykkti einnig að lágmarksfélagsgjaldið vegna ársins 2023 verði sem svarar til 0,3% byrjunarlaunum 18 ára afgreiðslufólks, samkvæmt launataxta LÍV-SA sem Framsýn á aðild að á hverjum tíma. Lágmarksgjaldið tekur breytingum í samræmi við umsamdar breytingar á launataxta LÍV-SA. Þegar rætt er um lágmarksfélagsgjald er miðað við gjald samtals í eitt ár, eða undangengna 12 mánuði. Félagsmenn sem ekki hafa náð lágmarksfélagsgjaldi eiga rétt á aðstoð við kjaramál og réttindi í sjóðum félagsins í hlutfalli við greiðslur. Til þess að viðhalda fullgildum félagsrétti í Framsýn þurfa félagsgjaldsgreiðslur að berast reglulega. Ef ekkert félagsgjald er greitt í sex mánuði samfellt fellur viðkomandi af félagsskrá. Hægt er að ná aftur fullgildingu frá þeim mánuði sem næsta félagsgjaldsgreiðsla berst, ef lágmarksfélagsgjaldi er náð undangengna 12 mánuði.

Fréttir af aðalfundi Framsýnar – félagið aðstoðaði flóttafólk frá Úkraínu

Því miður geisar stríð í Úkraínu þar sem stríðsglæpamaður frá Rússlandi heldur heilli þjóð í heljargreipum með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Reyndar fyrir heimsbyggðina alla. Hörmungarnar hafa ratað inn á borð Framsýnar. Alþjóðasamfélagið verður að gera allt til að stoppa þetta ömurlega stríð. Hvað það varðar getur enginn setið hjá. Almenningur verður að gera allt til að aðstoða flóttafólkið frá Úkraínu um leið og þjóðarleiðtogar heimsins eru hvattir til að stuðla að friði í heiminum með öllum tiltækum ráðum. Hvað Framsýn varðar hefur félagið ekki setið hjá. Félagið kom að því að leggja flóttafólki frá Úkraínu til íbúð í Asparfelli í Reykjavík í gegnum hjálparsamtök. Mæðgur með lítið barn frá Úkraínu fluttu inn í íbúðina 1. maí 2022 sem er táknrænt enda ber dagurinn upp á alþjóðlegan baráttudag verkafólks. Flóttafólkið var í íbúðinni til 1. mars 2023. Félaginu hafa borist kærar kveðjur frá flóttafólkinu sem þakkar kærlega fyrir hlýhug þess í þeirra garð á þessum erfiðu tímum.