Tillaga kjörnefndar Þingiðnar fyrir aðalfund 2016.

Tillaga Kjörnefndar Þingiðnar er að eftirtaldir félagsmenn skipi aðalstjórn, aðrar stjórnir, trúnaðarmannaráð, nefndir og ráð á vegum félagsins til næstu tveggja ára frá aðalfundi sem haldinn verður þriðjudaginn 31. maí 2016:

Aðalstjórn (jafnframt stjórn sjúkra-, orlofs- og vinnudeilusjóðs):
Jónas Kristjánsson Formaður Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Vigfús Leifsson Varaformaður H-3 ehf.
Kristinn Gunnlaugsson Ritari Trésmiðjan Rein ehf.
Þórður Aðalsteinsson Gjaldkeri Trésmiðjan Rein ehf.
Hólmgeir Rúnar Hreinsson Meðstjórnandi Trésmiðjan Rein ehf.

Varastjórn: Vinnustaður:
Gunnólfur Sveinsson Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Eydís Kristjánsdóttir Trésmiðjan Rein ehf.
Daníel Jónsson Gullmolar ehf.
Atli Jespersen Sögin ehf.

Trúnaðarmannaráð:
Sigurjón Sigurðsson H-3 ehf
Karl Sigurðsson Hermann Sigurðsson ehf.
Kristján G. Þorsteinsson Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Andri Rúnarsson Fjallasýn ehf.
Kristinn Jóhann Lund Trésmiðjan Rein ehf.
Sigurður Helgi Ólafsson G.P.G-Fiskverkun ehf.

Varatrúnaðarmannaráð:
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson Norðurpóll ehf.
Kristján Gíslason Norðlenska ehf.
Erlingur S. Bergvinsson Bifreiðaskoðun Íslands ehf.
Jóel Mar Hólmfríðarson H-3 ehf.

Skoðunarmenn ársreikninga: Kjörstjórn:
Jón Friðrik Einarsson Andri Rúnarsson
Arnþór Haukur Birgisson Gunnólfur Sveinsson
Varamaður: Varamenn:
Steingrímur Hallur Lund Jónas Gestsson
Kristján Gíslason

Kjörnefnd:
Davíð Þórólfsson
Eydís Kristjánsdóttir
Kristján Gíslason

  1. maí nefnd (fulltrúi félagsins í 1.maí nefnd stéttarfélaganna) 

Arnþór Haukur Birgisson

Löggiltur endurskoðandi:
PricewaterhouseCoopers ehf.
Heimilt er hverjum fullgildum félaga að koma með breytingartillögur um félagsmenn í einstakar trúnaðarstöður eða koma fram með nýja heildartillögu um skipan í trúnaðarstöður næsta starfsár. Breytingartillögu skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á og meðmæli a.m.k. 10% fullgildra félagsmanna. Nýjum heildartillögum þurfa að fylgja skrifleg meðmæli a.m.k. 20% félagsmanna. Skila þarf tillögunni fyrir kl. 16:00, mánudaginn 30. maí 2016.

Eðvarð afturhald VI „Ertu ölvaður Eðvarð?“

Eðvarð var uppfullur af orku og gleði eftir að hafa gert sér ferð í bæinn. Það var ekki oft sem hann kom núorðið til Reykjavíkur. Stóri ameríski drekinn fór ekki vel innan um allar þessar þrengingar sem voru á ábyrgð spjátrunganna í ráðhúsinu sem ýmist skálduðu eigin eftirnöfn eða kenndu sig við móður sína. Hann var einnig óöruggur að keyra innan um fávitana á reiðhjólunum og sama hvað hann gerði virtist hann fá stöðumælasekt. Og það sem verra var að í þetta sinn var það einn af þessum nýju bindislausu anarkistum á þingi sem sektaði hann! Eðvarð lét þingmanninn að sjálfsögðu vita að hann væri þungavigtarmaður í sínu kjördæmi og hann myndi leggja inn gott orð fyrir anarkistana ef að sektin fengi að hverfa. Fyrirlitningin í háværum hlátri anarkistans sem yfirgaf Eðvarð án þess að virða tilboð hans með efnislegu svari sat ennþá í Eðvarði þegar hann komst loksins á fundinn um „Inngrip stjórnvalda á mörkuðum“. hjá gamla góða Verzlunarráði Loksins voru áherslurnar á réttum stað. Eðvarð hafði reyndar boðist til að taka þátt í pallborðsumræðum enda höfðu ítrekuð ríkisafskipti skattsins, stéttarfélaganna og lífeyrissjóðanna kostað hann stórfé í gegnum tíðina. Því var hafnað en
Eðvarði var þó boðið að koma í smá móttöku fyrir fundinn enda að eigin mati einn af dáðustu sonum íslensks viðskiptalífs. Hann hafi átt tugi ef ekki hundruð félaga í gegnum tíðina sem voru ýmist lifandi, sofandi eða dáin. Í móttökunni hjá verslunarráði hitti Eðvarð marga þjáningarbræður sína sem tóku fljótt við, líklegast of fljótt, að blanda sjeneverinu og kveikja í vindlunum.
Þegar félagarnir komu trallandi út nokkrum tímum síðar með nokkur prómill í blóðinu og vígreifir eftir fundinn um hið hræðilega ríkisvald og glæpi þess gagnvart atvinnulífinu, mætti honum blaðasnápur sem hann hafði eitt sinn þurft að reka af eigninni sinni eftir að hann gerðist full ágengur í spurningum sínum um mál slóvakískra ungmennanna sem að mati Eðvarðs náðu ekki að temja sér íslenskt vinnusiðferði og vanvirtu í leiðinni íslenskar fornbókmenntir. Blaðasnápurinn þekkti Eðvarð um leið og stökk á hann með spurningar um stöðuna í máli slóvakísku ungmennanna. Spurningarnar runnu einhvern veginn saman í eyrum Eðvarðs og honum varð um leið hugsað til samtals við almannatengil sem hann hafði hitt á Rótarí fundi er hann var var í því kunnuglegu ástandi sem hann var nú í. „Það eina sem ég hef um málið“, sagði Eðvarð „er eftirfarandi:. Þetta var rosalega skemmtilegur dagur og flottur fundur. Ég heyrði í formanninum fyrir kvöldmat og þá var hann keikur og hress. Ég veit að hann er bara með sinni konu í kvöld að tjilla, eins og unga fólkið segir. Hann var mjög hress. Það er búið að girða niður um verkalýðsforingjann og bókasafnsvörðinn – pjattrófuna með síða hárið. Þeir standa eins og álfar út úr hól og vita ekkert hvað er að gerast!“
„Ertu ölvaður Eðvarð?“, spurði blaðasnápurinn steinrunninn af undran eftir yfirlýsingu Eðvarðs. Daginn eftir þegar Eðvarð var að reyna að komast út úr borginni en sat fastur í einhverri helvítis þrengingunni heyrði hann í þvoglumæltum sjálfum sér í útvarpinu og svo einhverja spjátrunga hlægja í kjölfarið. Eðvarð teygði sig í sprengitöflurnar og skolaði þeim niður með gúlp-sopa af Canada-Dry. Eins gott að það var ekki fundur í Rótarí fyrr en í næstu viku og guð sé lof hvað landinn er fljótur að gleyma, hugsaði Eðvarð og slökkti á útvarpinu.

Aðalsteinn í stjórn Fiskifélags Íslands

Aðalfundur Fiskifélags Íslands fór fram síðasta föstudag í Reykjavík. Fiskifélagið er sameiginlegur samstarfsvettvangur samtaka í sjávarútvegi með það að markmiði að auka veg og virðingu íslensks sjávarútvegs, efla hag greinarinnar og stuðla að framförum í íslenskum sjávarútvegi. Höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjavík. Alls eru níu fulltrúar í stjórn Fiskifélagsins frá samtökum sjómanna, landverkafólks og SFS, samstökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Auk þess er einn áheyrnarfulltrúi frá samtökum sjómanna.

_DSC0073
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar var í stóru hlutverki á Fiskiþinginu, hann var fundarstjóri þingsins, hlaut kjör í stjórn sambandsins auk þess að flytja erindi um starfsmenntun í fiskvinnslu sem fékk mjög góð viðbrögð.

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur verður haldinn miðvikudaginn 1. júní 2016 kl. 20:00, í sal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 Húsavík.

Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf.
2. Önnur mál.

Ársreikningar félagsins liggja frammi á skrifstofu félagsins.

Til félagsmanna STH: Í því skini að auka upplýsingagjöf til félagsmanna er óskað eftir upplýsingum um netföng. Vinsamlega sendið netföng ykkar til formanns félagsins á netfangið thuraigardi@simnet.is

Miðstjórn ASÍ fundar á Húsavík

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fundaði 18. maí s.l. í húsnæði stéttarfélaganna á Húsavík. Á fundinum var m.a. fjallað um stöðu frumvarps um almennar íbúðir á Alþingi. Málið er mikið hagsmunamál fyrir allt launafólks, þar sem ásættanleg löggjöf um það efni er forsanda fyrir því að hægt verði að ráðast í stórátak bygginga leiguíbúða á ásættanlegu verði. Þá fjallaði miðstjórn um ríkisfjármálaáætlun 2017 – 2021 sem fjármálaráðherra kynnti nýlega. Á fundinum var áætlunin gagnrýnd harðlega, enda ljóst að hún gengur í veigamiklum atriðum gegn hagsmunum almenns launafólks og markmiðum um öflugt velferðarkerfi og aukin jöfnuð í samfélaginu. Loks varð mikil umræða á fundinum um stöðuna á vinnumarkaði og stöðugt vaxandi tilraunir atvinnurekenda, einkum í landbúnaði og ferðatengdri þjónustu til að komast undan skyldum sínum samkvæmt kjarasamningum og lögum með svokölluðum sjálfboðaliðum. Þessi framganga var gagnrýnd harðlega og lögð áhersla á að spornað verði við þessari þróun með öllum tiltækum ráðum í samstarfi við samtök atvinnurekenda. Þá voru á fundinum nokkur mál til afgreiðslu.
Að loknum fundinum buðu stéttarfélögin á Húsavík miðstjórnarmönnum að skoða framkvæmdirnar á Þeistareykjum, framkvæmdirnar við höfnina í Húsavík og jarðgangnagerðina og uppbygginguna á Bakka. Í upphafi ferðar gerði Aðalsteinn Baldursson miðstjórnarmönnum grein fyrir stöðu atvinnumála í Þingeyjasýslum og gaf góða yfirsýn yfir framkvæmdirnar sem nú eru í gangi og áhrif þeirra í bráð og lengd. Hann hafði síðan með höndum leiðsögn í ferðinni, auk þess sem fulltrúar LNS Sögu á Þeistareykjum og við gangnaframkvæmdirnar gerðu frekari grein fyrir þeim verkefnum. Þá fylgdi öryggisstjóri vegna framkvæmdanna á Bakka hópnum um svæðið og útlistaði þær.
Miðstjórnarmenn eru á einu málið um að fundurinn og ferðin öll hafi heppnast einkar vel. Fróðlegt hafi verið að fá innsýn í framkvæmdirnar og áhrif þeirra á atvinnulíf og samfélag á Húsavík og næsta nágrenni. Þá megi margt læra af framgöngu stéttarfélaganna á svæðinu sem hafa sýnt mikið frumkvæði og fylgt fast eftir að kjarasamningar og réttindi þeirra sem vinna við framkvæmdirnar, ekki sést útlendinganna, séu virt og náð árangri sem er öðrum til eftirbreytni. Þá þakkar miðstjórn stéttarfélögunum á Húsavík kærlega fyrir aðstoð við undirbúning ferðarinnar og höfðinglegar móttökur. Sjá myndir frá heimsókninni:asiheimsokn0516 084asiheimsokn0516 087asiheimsokn0516 092asiheimsokn0516 118asiheimsokn0516 145asiheimsokn0516 117asiheimsokn0516 138

RSK á svæðinu – virkt eftirlit í gangi

Fyrir skemmstu fóru fulltrúar frá Ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun í eftirlitsferðir á vinnustaði í byggingariðnaði á félagssvæði Framsýnar og Þingiðnar. Tilgangur heimsóknanna var að kanna hvort fyrirtækin væru með sín mál í lagi gagnvart skattinum og réttindum starfsmanna. Á næstu dögum verður unnið úr þeim gögnum sem söfnuðust í ferðinni. Aðilar munu halda þessum ferðum áfram í sumar. Hvað það varðar verður farið í reglulegar heimsóknir í ferðaþjónustufyrirtæki í byrjun sumars og áfram í sumar. Það á einnig við um aðrar atvinnugreinar. Eftirfarandi myndir voru teknar þegar samstarfsaðilar sem nefndir eru í þessari frétt fóru í vinnustaðaheimsóknir fyrir helgina.

eftirlitrsk0516 009

Aðilar byrjuðu á fundi áður en haldið var í tveggja daga eftirlitsferðir um félagssvæðið.

eftirlitrsk0516 021

Fulltrúar stéttarfélaganna og Vinnumálastofnunar skrá niður upplýsingar um starfsmenn í byggingariðnaði á svæðinu.

eftirlitrsk0516 015

Starfsmenn RSK ræða við fulltrúa frá verktaka á svæðinu. Með þeim er túlkur frá stéttarfélögunum.

 

Aðalfundur Þingiðnar þriðjudaginn 31. maí 2016

Aðalfundur Þingiðnar verður haldinn þriðjudaginn 31. maí kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Ársreikningar félagsins liggja frammi á Skrifstofu stéttarfélaganna.
1. Venjuleg aðalfundarstörf
Skýrsla stjórnar
Ársreikningar
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Lagabreytingar
Ákvörðun árgjalda
Laun stjórnar
Kosning löggilts endurskoðanda

2. Atvinnumál

3. Önnur mál

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn og taka þátt í líflegu starfi félagsins. Að sjálfsögðu verða viðeigandi veitingar í boði.

Stjórn Þingiðnar

Fulltrúar Framsýnar með lögreglunni í eftirlitsferð um framkvæmdasvæðið á Bakka

Lögreglan á Norðurlandi eystra með aðstoð Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Lögregluskóla ríkisins og formanns Framsýnar, stéttarfélags fóru á vinnusvæðið við Bakka sl. föstudag. Tilefnið var fyrirvaralaus heimsókn á vinnusvæðið til að kanna með ýmis mál er varða erlent vinnuafl, réttindamál, aðbúnað og hollustuhætti sem og launakjör verkafólks. Frá þessu segir á Fésbókarsíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
„Lögreglumenn höfðu þá daginn áður setið námskeið í málefnum útlendinga með áherslu m.a. á slíkar vinnustaðaheimsóknir. Námskeiðið var haldið á Akureyri en opið með fjarfundarbúnaði á útstöðvar embættisins.
Nokkuð hefur verið um á landsvísu að fyrirtæki hafi ekki verið með allt sitt á hreinu hvað varðar aðbúnað, launakjör og ýmis réttindamál innflutts vinnuafls og hefur slík umræða verið nokkuð fyrirferðarmikil í fjölmiðlum. Ákveðið var í þetta skiptið að hafa eftirlit með framkvæmdum á svæðinu við Bakka norðan Húsavíkur.
Skemmst er frá því að segja að við fengum góðar móttökur öryggisfulltrúa SMS, EFLU og LNS SAGA og starfsfólks á svæðinu og fundum við ánægju með heimsókn lögreglunnar og fáar athugasemdir gerðar af okkar hálfu og virtist aðbúnaður starfsfólks og öryggismál með ágætum. Kannað var með réttindi ökumanna á vinnuvélum, aðbúnað starfsfólks og hvort vinnuafl væri skráð í landið,með íslenska kennitölu og slíkt. Leitað var eftir framvísun vinnustaðaskírteina ofl.
Starfsmenn eiga að bera á sér auðkenni í formi vinnustaðaskírteinis og er slíkt er krafa og sektir við vöntun á skírteinum. Lögreglumönnum var fylgt um svæðið í af öryggisfulltrúa frá EFLU, verkfræðistofu og einnig frá öryggisfulltrúa LNS SAGA. Lögreglan á Norðurlandi eystra þakkar móttökurnar, aðstoð LRH og LSR sem og Framsýnar og væntir góðs samstarfs við hlutaðeigandi fyrirtæki á svæðinu um frekara eftirlit með þessum málum.
Lögreglan hyggst halda áfram eftirliti með fyrirtækjum á svæðinu sem halda erlent vinnuafl og geta þau átt von á heimsókn lögreglu þar sem kannað verður með aðbúnað og réttindamál“. Segir í fréttinni á Fésbókarsíðunni.

Ósk um úrbætur á matvöruverslun í Mývatnssveit

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum á svæðinu að mikil breyting hefur orðið á matvöruverslununum á Húsavík á undanförnum vikum. Óhætt er að segja að verslunarstig bæjarins hafi hækkað við þessa breytingu enda vöruúrval orðið meira og aðgengi að verslunum orðið betra en áður. Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna hefur orðið vart við einstaklinga að versla á Húsavík sem óvanalegt er að sjá hér að versla. Þetta er tímabær breyting sem almenn ánægja er með hér í samfélaginu.

Það er þó ekki svo að ekki sé svigrúm fyrir bætingu. Mikil þreyta er í íbúum Mývatnssveitar með Samkaup Strax verslunina í Reykjahlíð. Búðin var opnuð ný sumarið 2002 og var það mikil breyting til batnaðar frá því sem áður var. Núna þykir hún hinsvegar orðin of lítil eftir þá ótrúlegu fjölgun ferðamanna sem hefur orðið síðan 2002. Auk þess er í umræðunni að verðið í versluninni sé of hátt og í engum takti við það sem þekkist á Húsavík þar sem Samkaup rekur verslanir.

Framsýn stéttarfélag hefur óskað eftir fundi með fulltrúum Samkaupa til að ræða málefni verslunarinnar í Reykjahlíð.

Afnám tolla af fatnaði og skóm skilar sér ekki, hvað með landbúnaðarvörurnar?

Í ársbyrjun 2016 voru felldir niður tollar af fatnaði og skóm. Mældust þessar aðgerðir vel fyrir meðal almennings enda átti þessi lagabreyting að skila 13% lægra verði til neytenda að meðaltali af þeim vörum sem báru tolla áður.

Samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ þá hafa þessar aðgerðir ekki skilað því sem til var ætlast. Verslanir hafa greinilega hækkað verð eftir útsölur og er hækkunin meiri en gera mátti ráð fyrir. Fyrir utan niðurfellingu tolla hefur gengi krónunnar styrkst töluvert á undanförnum mánuðum sem hefði átt að hjálpa til við lækkun verðs á fatnaði og skóm. Raunin er að verslanirnar eru einfaldlega að taka stærri hluta af kökunni. Niðurstöður verðlagsnefndar ASÍ má lesa í lengra máli hér.

Í ljósi þessa má velta fyrir sé hvað gerist ef tollar á landbúnaðarvöru verða felldir niður eins og mikið er talað fyrir víða í samfélaginu? Er við því að búast að eitthvað annað gerist með landbúnaðarvörur en að verslunin fái stærri hluta kökunnar í sinn hlut eins og raunin er með fatnað og skó?

Flugfélagið Ernir kynnir nýtt bókunarkerfi

Eins og margir vita þá hafa viðtökurnar við sölu flugmiða á Skrifstofu stéttarfélaganna verið með eindæmum góðar. Hingað á skrifstofuna er stöðugur straumur fólks með það erindi að kaupa flugmiða. Dæmi eru um að heildarsala á degi hverjum sé í kringum hálfa milljón króna.

Nú hefur Flugfélagið Ernir kynnt til sögunnar nýtt bókunarkerfi sem félagsmenn munu hér eftir nota í kaupum sínum á flugi á vegum stéttarfélaganna. Í stað þess að hringja í flugfélagið og panta flug fyrirfram og kaupa svo miða á Skrifstofu stéttarfélaganna, á fólk að koma beint til okkar á skrifstofuna, kaupa farið og fá í hendur kóða. Næst fer fólk inn á heimasíðu flugfélagsins og velur „stéttarfélagsmiði” í „tegund flugmiða”og slær inn kóðann sem það fékk á Skrifstofu stéttarfélaganna og borgar því fyrir farið með kóðanum.

Bókanir munu því fara í gegnum vefsíðu félagsins í stað þess að hringja eins og gert var áður. Þetta mun skila hagræði fyrir alla aðila.

Rétt er að taka frá 1. júní þarf að greiða 2500 krónur í bókunargjald ef fólk bókar í gegnum flugfélagið Erni og 3500 krónur ef fólk þarf að breyta flugi. Þessar 2500 krónur þarf ekki að greiða bóki fólk sjálft með kóða frá Skrifstofu stéttarfélaganna.

Mikilvægi trúnaðarmanna á vinnustöðum

Það felast miklir möguleikir í því fyrir stéttarfélög að vera í góðu sambandi við félagsmenn sína, enda ræður innra starf félaganna miklu um árangur af starfi þeirra. Ástandið á vinnumarkaði á Íslandi dag gerir það að verkum að afar mikilvægt er að launþegar séu meðvitaðir um réttindi sín, eigi greiða leið að upplýsingum um kjarasamninga og þá aðstoð sem í boði er ef upp kemur ágreiningur um kaup og kjör.
Trúnaðarmenn gera stéttarfélögin og starf þeirra sýnilegra á vinnustaðnum, þeir gegna lykilhlutverki við móttöku nýrra starfsmanna þar sem þeir sjá um að mynda tengsl milli félagsmanna og stéttarfélagsins. Ekki eru allir starfsmenn meðvitaðir um rétt sinn og mikilvægi þess að hafa starfandi trúnaðarmann/menn á sínum vinnustað. Þar sem eru 5 starfsmenn eða fleiri á samkvæmt lögum að vera trúnaðarmaður sem kjörinn er af starfsmönnum. Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nýtur trúnaðarmaður verndar og er því óheimilt að segja honum upp vegna starfa sinna. Oft koma upp spurningar og mál sem þarfnast úrlausnar og þá er trúnaðarmaðurinn mikilvægur hlekkur.
Innan Framsýnar er starfandi öflugur hópur trúnaðarmanna, enda markmið félagsins að efla starf trúnaðarmanna sinna og fjölga í þeirra hóp. Félagið stendur af og til fyrir gagnlegum námskeiðum, og byggja þau á að auka þekkingu trúnaðarmanna og styrkja störf þeirra. Námskeiðin eru einnig hugsuð sem hópefli, þar sem félagssvæði Framsýnar nær yfir stórt svæði og því gefst í leiðini gott tækifæri til að hrista hópinn saman. Eitt slikt námskeið var haldið á Húsavík fyrr á árinu og var það afar vel heppnað. Í framhaldi að því stofnuðu trúnaðarmenn og Framsýn facebooksíðu þar sem hægt er að miðlað fróðleik og bæta tengingu á milli aðila.
Öflugt og virkt trúnaðarmannakerfi mikilvæg brú á milli launþega og stéttarfélaganna, sem með bættri fræðslu og aukinni áherslu hafa elft starf trúnaðarmannsins frá því sem áður var.

Einblöðungur fyrir atvinnurekendur

ASÍ hefur gefið út einblöðung sem ætlaður er atvinnurekendum sem hafa hug á ráðningu erlends starfsfólks. Þar er farið yfir ýmiss atriði sem verður að hafa í huga eins og skráningu erlends starfsfólks, sjúkratryggingar þess og rétt til þeirra, hvernig ráðningarsamning skal háttað, skyldur starfsmannaleigna, vikurkenningu á erlendri starfsmenntun og fleira í þessum dúr.

Einblöðungurinn er greinagott yfirlit fyrir fyrirtæki sem hafa áhuga á erlendu starfsfólki og ætti að nýtast vel. Hann má nálgast hér.

Ársskýrsla Þekkingarnets Þingeyinga

Ársskýrsla Þekkingarnets Þingeyinga fyrir árið 2015 er komin út. Í skýrslunni er farið yfir starfsár Þekkingarnetsins, svo sem verkefni sem unnin voru, starfsmannahald og útgefið efni á árinu. Skýrsluna má lesa hér.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, er stjórnarformaður Þekkingarnets Þingeyinga.

Verkalýðsfélag Þórshafnar 90 ára

Verkalýðsfélag Þórshafnar hélt upp á 90 ára afmæli sitt þann 1. maí síðastliðinn. Karlakór Akureyrar kom fram við þetta tækifæri og var vel tekið. Eftir þeirra innlegg var boðið upp á kaffiveitingar í Þórsveri í boði Kvenfélagsins Hvatar. Hundur í óskilum sló loks botninn í dagskrána með uppistandi. Nánar má lesa um hátíðarhöldin hér.

Fræða formanns Framsýnar vekur athygli

Ræðan sem Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, hélt á hátíðarhöldunum 1. maí hefur vakið athygli á netheimum síðan hún var flutt. Til dæmis fjallaði fréttavefurinn Eyjan.is um ræðuna og birti valda kafla úr henni. Umfjöllun Eyjunnar má lesa hér.

Myndband frá hátíðarhöldunum 1. maí

Hér að neðan má sjá myndband með brot af því besta sem fór fram á 1. maí hátíðarhöldunum. Þar má til dæmis heyra Stefán Jakobsson syngja og Gísla Einarsson fara með gamanmál.

Við minnum á youtube rásina okkar en þar má sjá öll þau myndbönd sem við höfum unnið í gegnum tíðina. Hana má sjá með því að smella hér.

„Hvernig Ísland viljum við búa okkur sjálfum, foreldrum og börnum okkar?“

Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands var með magnaða ræðu á hátíðarhöldunum á Húsavík í gær. Hér má lesa hana:

Góðir félagar. Gleðilega hátíð
Ég vil byrja á að óska ykkur til hamingju með þessa glæsilegu 1. maí hátíð stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.
Á 1. maí lítum við yfir farinn veg og metum hvernig til hefur tekist. Við drögum lærdóm af reynslu liðinna ára og áratuga um leið og við setjum okkur ný verkefni og markmið til framtíðar.
Yfirskrift 1. maí í ár „Samstaða í 100 ár – sókn til nýrra sigra“ vísar til sögu verkalýðshreyfingarinnar og ávinninga baráttunnar, mikilvægis þess að verja það sem áunnist hefur og sækja fram til nýrra sigra. Við höfum enn mikið verk að vinna.
Í dag minnumst við þess að starf verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað miklum árangri. Það er fátt líkt með þeim kjörum og réttindum sem launafólk býr við hér á landi í dag og bara fyrir nokkrum áratugum. Hvað þá ef við horfum heila öld aftur í tímann.
Kjarasamningar og löggjöf sem tryggja launafólki föst laun, hvíldartíma og frídaga, veikinda- og slysarétt, uppsagnarrétt, orlof, fæðingar- og foreldraorlof, reglur um mannsæmandi aðbúnað á vinnustað eru allt nútímafyrirbæri. Öll þessi réttindi, og fjölmörg önnur, eru ávöxtur samstöðu og baráttu. Sama gildir um almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og réttinn til heilbrigðisþjónustu og menntunar. Okkur er hollt að minnast þess að sú velferð og öryggi sem launafólk hér á landi býr almennt við í dag er árangur af baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Ekkert af þessu féll af himnum ofan.

Ágætu félagar.
Síðustu ár hafa um margt verið íslensku launafólki gjöful. Eftir áfallið og erfiðleikana í kjölfar Hrunsins er að birta yfir íslensku efnahagslífi, þótt enn séu margir félagar okkar að glíma við afleiðingarnar. Kaupmáttur launa hefur aukist og atvinnuleysi fer hratt minnkandi.
Það er sannarlega mikil uppsveifla í atvinnulífinu. Störfum fjölgað svo þúsundum skiptir og því er spáð að þessi þróun haldi áfram næstu ár. Verklegar framkvæmdir eru á fullu og ferðaþjónustan vex sem aldrei fyrr. Þetta blasir hvarvetna við, ekki síst hér í Þingeyjarsýslum, og er það vel. Við fögnum vextinum í atvinnulífinu og þeim verðmætum sem hann á að skila launafólki og samfélaginu öllu. Til að vinna störfin treystum við á framlag erlends launafólks svo þúsundum skiptir.
En vöxturinn hefur sínar skuggahliðar. Það er sótt að sjálfum grundvelli þess vinnumarkaðar sem hér hefur verið byggður upp með baráttu verkalýðshreyfingarinnar – kjörum og réttindum launafólks. Við glímum við ört vaxandi vanda vegna fyrirtæka, erlendra og íslenskra, sem stunda undirboð á vinnumarkaði og ólöglega atvinnustarfsemi. Vandinn er stærstu þar sem vöxturinn er mestur, í byggingariðnaði og mannvirkjagerð og ferðaþjónustunni. Og brotastarfsemin beinist að þeim sem „eru veikastir fyrir“. Þekkja minnst þau kjör og réttindi sem hér gilda og hafa síst þrek og áræði til að sækja sinn rétt. Við erum að tala um:
Útlendingana sem hingað koma til starfa og eru sóttir til fátækustu ríka Evrópu og 3ja heimsins þar sem kjör og öll réttindi eru allt önnur og lakari en hér þekkist. Og, unga fólkið sem er að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.
Við sjáum jafnframt að aðferðirnar sem er beitt eru „þróaðri“ og brotastarfsemin ósvífnari en áður.
Verst eru brotin gagnvart erlenda verkafólkinu sem borgað eru laun langt undir því sem kjarasamningar segja til um. Þar sem starfsreynsla og starfsréttindi eru einskis virt. Yfirvinnu- eða vaktavinnulaun ekki greidd. Þar sem öryggi og aðbúnaður á vinnustað er með öllu óásættanlegt. Og þeim er gert að gista á verkstæðisloftum og iðnaðarhúsnæði. Eða í hálfgerðum gettóum þar sem þeim er troðið, mörgum saman, í litlar herbergiskytrur og látnir borga fyrir okurleigu.
Og atvinnurekendurnir gera allt til að koma í veg fyrir að þetta erlenda verkafólk fái upplýsingar um rétt sinn og halda því markvisst frá stéttarfélögunum. Reyni það engu að síður að sækja sinn rétt er því hótað atvinnumissi og að það verði sent úr landi. Í atvinnuleysið og örbyrðina heima fyrir. Þannig er spilað á varnarleysi, hræðslu og ótta. Verstu tilfellin eru mansal, þar sem erlenda launafólkið er hneppt í hreinan þrældóm og haldið föngnu, eins og nýleg dæm sanna.
Við fáum nú innsýn í skuggahliðar hnattvæðingar, skipulagðrar brotastarfsemi og óbilgirni erlendra og íslenskra fyrirtækja, sem ekki víla fyrir sér að misnota og brjóta á erlendu verkafólk til að skapa sér samkeppnisforskot á markaði og auka gróða sinn.
Nýjasta dæmið er síðan svokölluð „sjálfboðaliðastarfsemi“ og „starfsþjálfun“. Þar sem ungt fólk erlendis frá er látið vinna launalaust við framleiðslu- og þjónustustörf einkum í ferðaþjónustu, í samkeppni við fyrirtæki sem virða kjarasamninga og lög og greiða sínu starfsfólki laun.
Það er sammerkt með allri þessari brotastarfsemi að reynt er með öllum tiltækum ráðum að komast undan því að greiða skatta og skyldur til samfélagsins.
Á þessari brotastarfsemi tapa allir nema svindlararnir.
Í fyrsta lagi tapar útlenda launafólkið og ungmennin sem brotið er á.
Í öðru lagi tapar allt íslenskt launafólk, því með undirboðum á vinnumarkaði er grafið undan kjörum og réttindum sem hér gilda. Árangri af áratuga starfi og baráttu verkalýðshreyfingarinnar og íslensks launafólks er stefnt í hættu.
Í þriðja lagi tapa öll heiðarleg fyrirtæki sem jafnframt eru kjölfestan í íslensku atvinnulífi og koma fram af virðingu við sitt starfsfólk og greiða sín gjöld til samfélagsins. Með undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi er grafið undan samkeppnisstöðu þeirra.
Í fjórða lagi tapar samfélagið allt. Fyrirtæki sem stunda félagsleg undirboð og svarta atvinnustarfsemi eru jafnframt að koma sér undan því að greiða skatta og leggja sitt til samfélagsins. Þau grafa undan heilbrigðis-, velferðar-, menntakerfinu, því velferðarsamfélagi sem við viljum hafa.
Ágætu félagar.
Þessa brotastarfsemi verður að uppræta með öllum ráðum. Hún má ekki ná fótfestu á íslenskum vinnumarkaði. Þess vegna hefur verkalýðshreyfingin sameinast um verkefnið ”Einn réttur – ekkert svindl!”
Einn réttur vísar til þess að allir á íslenskum vinnumarkaði, útlendingar jafnt og íslendingar, eigi að njóta sömu kjara og sama réttar samkvæmt kjarasamningum og lögum.
Ekkert svindl vísar til þess að ekkert fyrirtæki á að komast upp með að svindla á erlendu launafólki og ungmennum.
Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að við höfum að undanförnu náð mikilvægum árangri í baráttunni gegn svindlurunum og brotafyrirtækjunum. Stéttarfélögunum hefur með starfi sínu tekist að fá kjör og réttindi þúsunda erlendra launamanna leiðrétt og starfsemi svikafyrirtækja hefur verið lömuð eða upprætt. Frumkvæði Framsýnar og stéttarfélaganna hér í Þingeyjarsýslum, markvisst starf, eftirfylgni og þrautseigja, fyrst á Þeystareykjum og nú í tengslum við framkvæmdirnar hér við Húsavík er til fyrirmyndar. Það á að vera öðrum til eftirbreytni.
Að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar er nú unnið að því að bæta löggjöf og samninga sem beinast gegn brotastarfseminni. Krafan er löggjöf sem gerir verkkaupa og aðalverktaka ábyrga fyrir undirverktökum sínum, hvort heldur vegna launa og annarra starfskjara starfsmanna þeirra eða skila til sameiginlegra sjóða okkar. Löggjöf og framkvæmd sem tryggir að hægt sé að stöðva brotastarfsemina. Þar á engan afslátt að gefa.

Ágætu félagar.
Í dag horfum við til framtíðar – til nýrra sigra.
Hvernig Ísland viljum við búa okkur sjálfum, foreldrum og börnum okkar?
Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum sem samfélag næstu árin:
Það þarf að tryggja öldruðum mannsæmandi þjónustu og aðbúnað. Markmiðið er að eldra fólk sem lokið hefur starfsævinni eigi öruggt ævikvöldinu.
Það þarf að tryggja góða heilbrigðisþjónustu sem allir geta notið án tillits til efnahags eða búsetu.
Það þarf að tryggja öllum gott og öruggt húsnæði á sanngjörnu verði. Ekki síst ungum fjölskyldum sem eru að hefja búskap.
Í öllum þessum málum hefur verkalýðshreyfingin tekið frumkvæði og krefst aðgerða.
Og verkefnin eru fleiri.
Launafólk á Íslandi í dag, einkum unga fólkið, gerir kröfur til þess að við endurmetum hugmyndir okkar um lífsgæði. Áfram er baráttan fyrir lífvænlegum launum og efnalegri velferð grundvallaratriði. En margt fleira þarf að koma til.
Launajafnrétti kynjanna er brýnt úrlausnarefni. Við eigum ekki og megum ekki láta það líðast lengur að konum sé kerfisbundið mismunað í launum.
Við gerum kröfur til þess að hér verði rekin atvinnu- og byggðastefna sem tryggi launafólki, hvar sem er á landinu, möguleika til starfa og mennta og almennra lífsgæða.
Góð menntun, ekki síst verk- og tæknimenntun, er helsta forsenda bættra lífskjara og samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið.
Það er baráttumál okkar að stytta vinnutíma hér á landi þannig að hann verði sambærilegur við það sem gerist í löndunum í kringum okkur.
Óhóflegur vinnutími er heilsuspillandi.
Óhóflegur vinnutími skilar engum verðmætum. Hann er sóun.
Óhóflegur vinnutími sviptir launafólki og börnum þess mikilvægum rétti til samvista og skapar fjölmörg félagsleg vandamál.
Það er svo sannarlega verk að vinna.

Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur og alls staðar í heiminum er verkafólk að vekja athygli á kjörum sínum og baráttumálum.
Með hnattvæðingunni hafa völd og áhrif fjölþjóðlegra stórfyrirtækja og fjármagnseigenda aukist til muna. Samhliða hafa tök þessarar aðila á fátækum þjóðum heimsins verið hert.
Þess vegna skiptir alþjóðastarf verkalýðshreyfingarinnar stöðugt meira máli. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir lýðræði og krefst sömu grundvallarréttinda fyrir launafólk alls staðar í heiminum. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir mannsæmandi lífi fyrir alla. Það gildir líka um þær milljónir, ekki síst barna, sem flúið hefur stríðsátök og ofbeldi og er nú á vergangi víða um heim. Það er siðferðileg skylda okkar að leggja þessari baráttu lið.

Ágætu félagar. Að lokum þetta.
Við höfum svo sannarlega verk að vinna. Verjum þann mikilvæga árangur sem náðst hefur um leið og við sækjum fram til nýrra sigra. Við skulum áfram vinna að því að byggja upp réttlátt samfélag gegn misrétti og fátækt, þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu. Þar sem launafólk, jafnt erlent sem íslenskt, nýtur ávaxtanna af erfiði sínu. Þar sem allir búa við fjárhagslegt öryggi og lifa með reisn. Í þeirri baráttu er mikilvægt að við stöndum saman sem órofa heild.
Til hamingju með baráttudag launafólks.

Glæsileg hátíð á Húsavík

Fjölmenni var á hátíðarhöldunum á Húsavík í dag en tæplega 700 manns tóku þátt í hátíðinni sem fór fram í Íþróttahöllinni á Húsavík. Frekari uppfjöllun kemur inn á síðuna á morgun. Takk fyrir okkur. Hér má sjá myndir frá deginum góða.hatid0106 197hatid0106 013hatid0106 022hatid0106 047hatid0106 054hatid0106 082hatid0106 008hatid0106 089hatid0106 139hatid0106 120hatid0106 129hatid0106 176hatid0106 259hatid0106 336hatid0106 396hatid0106 400 hatid0106 216hatid0106 185hatid0106 219hatid0106 198hatid0106 150hatid0106 217hatid0106 215hatid0106 227hatid0106 223