Miðstjórn ASÍ fundar á Húsavík

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fundar á Húsavík í maí, nánar tiltekið dagana 18.-19. maí. Fundurinn verður í húsnæði stéttarfélaganna á Húsavík. Auk þess að funda um málefni sambandsins verður miðstjórnarmönnum boðið upp á kynnisferð um stór Húsavíkursvæðið með áherslu á að skoða framkvæmdirnar sem tengjast uppbyggingu PCC á Bakka.

Hvatningarverðlaun 2016

Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga var haldinn í dag í Skúlagarði. Auk venjulegra aðalfundarstarfa stóð Atvinnuþróunarfélagið fyrir málþingi um jarðhitaauðlindir við Öxarfjörð og fjölnýtingu jarðhita sem tókst með miklum ágætum. Frá árinu 2002 hefur verið hefð fyrir því að veita hvatningarverðlaun á aðalfundi félagsins. Markmiðið með verðlaununum er að hvetja einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir í héraðinu til nýsköpunar og árangurs í rekstri með því að verðlauna það sem vel er gert á þessu sviði. Í dag var komið að því að veita Sælusápum viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf og vandaða uppbyggingu framleiðslufyrirtækis sem eykur verðmæti hráefna af svæðinu. Fyrirtækið Sælusápur – Lón 2 ehf var stofnað á vordögum 2008 af Guðríði Baldvinsdóttur og eiginmanni hennar Einari Ófeigi Björnssyni. Guðríður hefur stundað sápugerð til heimanota um nokkurra ára skeið og langaði að kynna handgerðar sápur fyrir fleiri en vinum og ættingjum. Hún tók því þátt í Vaxtarsprotum á vegum Impru-nýsköpunarmiðstöðvar og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og stofnaði Sælusápur- Lón 2 ehf í kjölfarið. Það er staðsett við heimili hennar í Lóni í Kelduhverfi.

atfelag0416 032

Stofnandinn, Guðríður (Gugga ) er sauðfjárbóndi og skógfræðingur í Lóni í Kelduhverfi. Hún og eiginmaður hennar, Einar Ófeigur Björnsson, búa með á fimmta hundrað fjár í Lóni. Í Lóni er einnig æðarvarp, skóg- og skjólbeltarækt ásamt ýmiskonar verktakavinnu. Hér er hún með Reinhard framkvæmdastjóra og Sif stjórnarformanni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Viltu vera fulltrúi Framsýnar á ársfundi Lsj. Stapa?

Ársfundur Lsj. Stapa verður haldinn miðvikudaginn 4. maí nk. í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og hefst kl. 14:00. Framsýn, stéttarfélag á rétt á 11 fulltrúum á fundinn. Hafir þú áhuga fyrir því að vera fulltrúi félagsins á fundinum er þér velkomið að hafa samband við formann Framsýnar á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir 20. apríl. Skilyrði er að viðkomandi félagsmaður sé greiðandi til Lsj. Stapa.
Þá er rétt að taka fram að ársfundurinn er opinn öllum sjóðfélögum með málfrelsi og tillögurétti.

Stjórnarfundur Framsýnar

Þann 7. apríl var stjórnarfundur hjá Framsýn. 13 mál voru á dagskrá og eins og oftast áður talsverðar umræður á fundinum.
Meðal annars greindi Aðalsteinn Á. frá samskiptum við verktaka á svæðinu frá því að framkvæmdir hófust á Bakka og Þeistareykjum. Þau hafa að mestu gengið vel og ágæt bjartsýni á að áframhald verði á því, enda virkt eftirlit í gangi af hálfu stéttarfélaganna. Nýr starfsmaður, Aðalsteinn J. Halldórsson hefur hafið störf við vinnustaðaeftirlit og mun hann verða í miklum samskiptum við vertaka á svæðinu á komandi mánuðum.
Undirbúingur fyrir 1. maí hátíðarhöldin er í fullum gangi en reiknað er með því að hátíðin verði með svipuðu sniði og venjulega. Endanleg dagskrá er ekki fullmótuð en búist er við því að hún verði orðin ljós á næstu dögum.
Fram undan eru aðalfundir félaga sem Framsýn mun sækja. 11. apríl verður aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga í Skúlagarði og mun Framsýn senda fulltrúa þangað. Framsýn mun áfram eiga fulltrúar í stjórn Atvinnuþróunarfélagsins. Framundan er sömuleiðis aðalfundur Lífeyrissjóðsins Stapa, en hann verður haldin 4. maí. Framsýn á rétt á 11 fulltrúum á fundinn.
Aðalfundur Framsýnar er fyrirhugaður seinni hluta maí. Nánari tímasetning verður auglýst síðar.
Ennfremur kom fram að Framsýn hefði áhuga á að koma að lausn þess íbúðarvanda sem blasir við á Húsavík. Dæmi eru um að fólk sé að flytja burt af svæðinu vegna húsnæðisskorts sem er auðvitað óásættanlegt. Ýmsar leiðir eru ræddar af hálfu hins opinbera sem og einkaaðila til lausnar á vandamálinu og er Framsýn tilbúið til að koma að þeim viðræðum.

Stöðufundir með Jarðborunum og LNS Saga í dag

Það er mikið fundað á vegum stéttarfélaganna um þessar mundir, flestir fundirnir tengjast framkvæmdunum á stór Húsavíkursvæðinu. Í morgun kom fulltrúi frá LNS Saga til fundar við forsvarsmenn Framsýnar til að ræða stöðu framkvæmda á Bakka við byggingu verksmiðjunnar. Í kjölfarið kom síðan annar góður fulltrúi frá Jarðborunum til að ræða boranir fyrirtækisins á Þeistareykjum. Boraðar verða sjö til tíu holur á svæðinu á næstu tveimur árum og koma tveir öflugir borir að verkinu sem hefst eftir nokkrar vikur. Fyrirtækið reiknar með að um 30 starfsmenn komi að verkinu. Að sjálfsögðu fóru fundirnir vel fram enda mikil vilji hjá aðilum að eiga gott samstarf varðandi uppbygginguna á svæðinu.

Athyglisverð heimsókn á Fosshótel Húsavík

Fulltrúar stéttarfélaganna heimsóttu Fosshótel Húsavík á dögunum og skoðuðu framkvæmdir við viðbyggingu hótelsins. Framkvæmdir hafa staðið yfir í um eitt og hálft ár. Óhætt er að segja að um mikla breytingu sé að ræða. Framkvæmdin mun auk þess hafa í för með sér talsvert aukna þjónustu fyrir svæðið þar sem aðstaða til ráðstefnu- og fundarhalda verður fyrsta flokks eftir að breytingum er lokið. Ólafur Sæmundsson er byggingarstjóri verksins en hann kynnti framkvæmdirnar fyrir hönd verktakans. Ólafur segir að stefnt sé að opnun hótelsins um eða eftir miðjan maí.

Ekki er laust við að sérstakt hafi verið að labba um þessa byggingu, sérstaklega þann hluta hússins sem eldri er, svo sem gamla borðsalinn sem nú er gjörbreyttur og að sjálfsögðu „Rauða torgið″ sem fáir munu kannast við í núverandi mynd. Þá var hægt að upplifa útsýni frá sjónarhorni sem jafnvel rótgrónustu Húsavíkingar munu ekki kannast við.IMG_8565 IMG_8563 IMG_8558 IMG_8555 IMG_8551 IMG_8550 IMG_8548 IMG_8547 IMG_8545 IMG_8544

Starfsgreinasambandið yngir upp- viltu komast á áhugaverðan fund!

Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að boðar til fundar í byrjun sumars þar sem ungu fólki innan hreyfingarinnar verður gefið færi á að hittast, fræðast og skemmta sér saman í þeim tilgangi að efla ungt fólk félagslega.

Staðsetning: Fundurinn verður haldinn í húsnæði Verkalýðsfélags Grindavíkur að Víkurbraut 46. Búið er að panta gistingu fyrir hópinn að Geo Hotel Grindavík, Víkurbraut 58.
Tímasetning: Fundurinn er haldinn dagana 1. og 2. júní. Dagskráin hefst með hádegisverði kl. 12 miðvikudaginn 1. júní. Fundi unga fólksins lýkur formlega klukkan 12 fimmtudaginn 2. júní en þá verður boðið uppá hádegismat með formönnum og varaformönnum aðildarfélaga SGS og síðan er óskað eftir því að fulltrúar úr hópi unga fólksins kynni afrakstur fundarins í upphafi formannafundar SGS sem hefst kl. 13:30.
Fulltrúar á fundinum: Hvert aðildarfélag má senda tvo fulltrúa, einn af hvoru kyni, 30 ára eða yngri.
Kostnaður: Kostnaður við ferðir og uppihald er greitt af hverju félagi fyrir sig en Starfsgreinasambandið kostar fyrirlesara og kvöldmat.
Tilgangur og markmið: Tilgangurinn er að ungt fólk kynnist hvert öðru og hreyfingunni betur, njóti þess að vera saman og verði áhugasöm um áframhaldandi starf innan hreyfingarinnar. Ef vel gengur verður leikurinn endurtekinn.
Dagskrá: Dagskráin verður sambland af kynningu á hverjum þátttakanda, námskeið í samningatækni, fundasköpum, að koma sér á framfæri og hvernig hægt er að hafa áhrif innan hreyfingarinnar. Þá er gert ráð fyrir að fundurinn komi sér saman um skilaboð til forystu SGS um áherslur ungs fólks.
Fulltrúar Framsýnar: Framsýn mun senda tvo fullrúa á fundinn og greiða vinnutap og allan kostnað sem fulltrúar félagsins verða fyrir er tengist fundinum. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna hafi þeir áhuga fyrir því að vera fulltrúar Framsýnar á fundinum. Hægt er að senda skilaboð á kuti@framsyn.is

VIRK skilaði tæplega 14 milljarða ávinning árið 2015

Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðingur tók saman ávinning af starfsemi VIRK fyrir árið 2015. Í ljós kom að tæplega 14 milljarða ávinningur var af starfseminni árið 2015. Þetta er enn meiri ávinningur en var af starfseminni árin á undan. Nánar má lesa um úttekt Benedikts hér.

Ágúst Óskarsson starfar fyrir VIRK starfsendurhæfingarsjóð á Húsavík.

Hörkufundur með starfsfólki á Bakka

Aðalsteinn Á. og Aðalsteinn J. áttu fund með pólskum starfsmönnum LNS Saga á Bakka föstudaginn 1. apríl. Agnieszka Szczodrowska sá um að túlka fyrir hópinn. Margt var rætt á fundinum og almenn ánægja með þessa heimsókn.
Vinnubúðir, vinnuaðstaða og mötuneyti eru að taka á sig mynd og fyrr en varir verður uppbyggingin kominn á fullt skrið. Heimsóknir eins og þessar munu verða farnar reglulega á meðan á uppbyggingarferlinu stendur.

IMG_8523IMG_8522

Eðvarð afturhald

Eðvarð var búinn að vera í basli undanfarna daga á flestum vígstöðum. Heima fyrir var hann að klára páskana með tilheyrandi kjöt- og sykurneyslu. Jenever lagerinn hans var tómur en þetta niðurlenska undrameðal var stundum það eina sem hélt honum gangandi. Hvað reksturinn varðar gekk hótelið ekki sem skyldi. Spjátrungurinn sem hann réð til að sjá um tölvumálin sagði að það væri út af slæmum umsögnum á vef sem nefndist „Trip Advisor“. Eðvarð hafði margsagt honum að laga það hið snarasta, hann væri jú einu sinni tölvusérfræðingurinn, Eðvarð sæi um reksturinn og hann kæmi tölvumálum ekkert við. Eðvarð vissi að flestir útlendingar koma bara einu sinni á ævinni í hreppinn til hans og þá væri auðvitað lag að ná sem mestu úr þeim. En nú var internetið komið í stríð við hann. „Farið til fjandans, tölvunirðir þessa heims“, hugsaði Eðvarð á meðan hann setti hangikjötssalatið á mjólkurkexið. Vandamálin í félagslífinu voru þó stærst. Eðvarð var endanlega orðinn að athlægi í Rótarý. Stress-niðurgangurinn um páskana hafði að hluta skýrst af ótta Eðvarðs við lista sem einhverjir kommúnistar hótuðu nú að birta um eignir Íslendinga á breskum paradísareyjum karabíska hafsins. Jakkafataklæddi maðurinn, hjá ráðgjafarfyrirtækinu með erlendu skammstöfuninni, hafði lýst fyrir honum einhverri „hókus-pókus leið“ sem átti að þýða að Eðvarð þyrfti ekki að borga skatt af þessum litla hluta reksturs síns sem ekki tilheyri hinu dásamlega svarta hagkerfi. Miðað við það sem Eðvarð hafði borgað jakkafataklædda manninum dró hann þá ályktun að í þjónustunni hlyti að hafa falist a.m.k. þrjár hringferðir með peningana hans um hnöttinn. Annað
kom þó heldur betur á daginn! Á fyrsta fundi eftir páska var Eðvarð hafður að háði og spotti enda eini meðlimurinn í hreppnum sem var ekki á listanum. Félagar hans hlógu framan í hann og þökkuðu honum fyrir vegina, spítalana og ellilífeyrinn. Eðvarð bar að sjálfsögðu fyrir sig ráðgjöf jakkafatamannsins. Hann hafi öfugt við flesta aðra í raun talið að peningarnir væru í karabíska hafinu en nú vissi hann ekkert hvar þeir voru niðurkomnir. Og það sem verra var að jakkafataklæddi maðurinn hjá fyrirtækinu með erlendu skammstöfunina svaraði ekki í símann.

Skorað á heilbrigðisráðherra

Tuttugu og tvö stéttarfélög um allt land á almenna markaðnum og hjá hinu opinbera hafa skorað á heilbrigðisráðherra að löggilda starfsheitið félagsliði, þar á meðal stéttarfélagið Framsýn. Félagsliðar hafa barist fyrir því að verða löggilt heilbrigðisstétt um árabil en lítið hefur gengið. Löggilding félagsliða er ekki bara mikilvæg fyrir framgang stéttarinnar heldur ekki síst fyrir gæði þjónustu við þann vaxandi hóp sem þarf á aðstoð að halda. Fulltrúar félagsliða gengu á fund heilbrigðisráðherra í nóvember síðastliðnum til að tala fyrir löggildingu en engar fréttir hafa borist af framgangi málsins. Á fræðsludegi félagsliða sem haldinn var nýverið er ljóst að krafan um löggildingu er sterk innan stéttarinnar enda ólíðandi að félagsliðar sitji ekki við saman borð og sambærilegar stéttir. Framsýn átti tvo öfluga fulltrúa á fundinun, þær Ósk Helgadóttir og Kristbjörgu Sigurðardóttir.
Áskorunina má sjá hér.

Aprílgabb sem heppnaðist vel

Starfsfólk skrifstofu stéttarfélaganna tók þátt í 1. apríl eins og þorri þjóðarinnar. Eins og sjá má í fyrri frétt var ókeypis páskaeggjum lofað fyrir gesti skrifstofunnar í dag, vegna breyttra reglna um meðferð afgangs páskaeggja. Nokkrir féllu fyrir gabbinu en urðu að snúa tómhentir heim. Starfsfólk skrifstofunnar vilja koma á framfæri þökkum til þeirra sem tóku þátt.

Höfðingleg gjöf Samkaupa

Fulltrúar Samkaupa komu við á skrifstofu stéttarfélaganna á dögunum og færðu skrifstofunni 30 páskaegg sem seldust ekki fyrir páska. Nýjar reglur tóku gildi fyrr á þessu ári um að ekki megi bræða óseld páskaegg til endurvinnslu og því sitja verslanirnar uppi með þau egg sem ekki seljast. Starfsmenn Samkaupa hér á Húsavík töldu það góða lausn að færa stéttarfélögunum þau egg sem urðu afgangs til útdeilingar. Ákveðið hefur verið að gefa gestum skrifstu stéttarfélaganna eggin núna í dag. Fyrstir koma, fyrstir fá. Þeir sem ekki hafa tök á því að koma á skrifstofu stéttarfélaganna í dag geta þó engu að síður tryggt sér egg með því að senda tölvupóst á framsyn@framsyn.is og fá egg frátekið.

Búvörusamningar samþykktir

Niðurstaða atkvæðagreiðslu nýrra samninga um starfsskilyrði nautgripa- og sauðfjárbænda hefur verið gerð kunngjörð. Báðir samningarnir voru samþykktir nokkuð örugglega. Samningarnir voru undirritaðir þann 19. febrúar síðastliðinn af fulltrúum Bændasamtaka Íslands, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Nánar má lesa um atkvæðagreiðsluna hér.

Hvalaskoðun í snjókomu á Húsavík

Þrátt fyrir snjókomu í dag hafa ferðamenn sem lagt hafa leið sína til Húsavíkur ekki látið það aftra sér frá því að fara í hvalaskoðun á Skjálfanda með Norðursiglingu. Hér koma myndir sem teknar voru við höfnina í dag þegar Náttfari var að koma úr hvalaskoðun með yfir fimmtíu farþega.

batar0316 029batar0316 040batar0316 046batar0316 048

Gott viðtal við varaformann Framsýnar í blaði Kvenfélagasambands Íslands, Húsfreyjunni.

Kvenfélagasamband Íslands gefur út tímaritið Húsfreyjuna fjórum sinnum á ári. Það er í mars, júní, september og nóvember. Í mars blaðinu er að finna áhugavert viðtal við varaformann Framsýnar, Ósk Helgadóttir auk þess sem vitnað er í erindi sem hún flutti á opnum fundi Framsýnar þegar 100 ára kosningarétti kvenna var fagnað sérstaklega á Húsavík á síðasta ári.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
Framganga varaformanns Framsýnar hefur vakið töluverða athygli, sem þarf ekki að koma á óvart, enda mikil baráttumanneskja.

Mansal í vinnumarkaði – einkenni og viðbrögð

Starfsgreinasamband Íslands sem Framsýn á aðild að hefur gefið út handbók um mansal á vinnumarkaði, en handbókinni er ætlað að auðvelda starfsfólki stéttarfélaga að þekkja mansal, geta greint það og ekki síst að upplýsa um hvert á að snúa sér þegar grunsemdir um mansal vakna. Í bókinni er m.a. að finna skilgreiningar á mansali sem og upplýsingar um helstu einkenni og vísbendingar um mansal á vinnustöðum eða meðal starfsfólks. Þá eru settar fram gagnlegar spurningar fyrir starfsfólk stéttarfélaganna sem gott er að hafa í huga þegar einstaklingar leita til stéttarfélaganna vegna mansalsmála og jafnframt nokkrar meginreglur varðandi viðbrögð stéttarfélaga þegar upp koma mál þar sem grunur er um mansal.

Handbókin er aðgengileg öllum og hana má nálgast í heild sinni hér.

 

Ólaunuð vinna er skattskyld!

ASÍ stendur fyrir átaki sem nefnist Einn réttur – ekkert svindl. Stofnað var til þess til þess til að berjast gegn undirboðum á vinnumarkaði og svartri atvinnustarfsemi. Nú hefur ASÍ tekið saman ítarlega rökstutt álit og helstu rök sín í málinu.

Afstaða ASÍ er einföld: ,,Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög“. Nánar má lesa um málið hér.

 

 

Lífeyrissjóðirnir og áhrifin á ungt fólk

Athyglisverð greining á áhrifum hækkanna mótframlags atvinnurekanda í lífeyrissjóði og áhrif þeirra á afkomu og möguleika ungs fólks birtist á vef ASÍ á dögunum. Þessi má hafa verið mikið í umræðunni á undanförnum misserum. Í greininni eru ágætis rök fyrir því að hækkað framlag sé leið sem heppilegt sé að fara. Lesa má meira hér.

Leitað lausna á húsnæðisvandamálinu á Húsavík

Í grein á vefmiðli Dagskránnar á Akureyri fer Húsvíkingurinn Egill Páll Egilsson yfir þá stöðu sem komin er upp á húsnæðismarkaðnum á Húsavík. Ljóst er að vöntun er á markaðnum og dæmi er um að fólk hættir við að flytja til Húsavíkur vegna þess að heppilegt húsnæði finnst ekki eða jafnvel að fólk flytji úr bænum vegna þess að það missir leiguhúsnæði og finnur sér ekki annað í staðinn. Í greininni er rætt við Kristján Þ. Magnússon, sveitarstjóra Norðurþings, um hvernig hægt sé að bregðast við þessu vandamáli og hvað sveitarfélagið sé að gera í málinu. Einnig er rætt við formann Framsýnar, Aðalstein Á. Baldursson, en hann hefur lýst yfir vilja stéttarfélagsins til þess að koma að lausn málsins með einhverjum hætti, enda um afar brýnt mál að ræða. Lesa má grein Egils Páls hér.