Sjómannasamtökin hafa gengið frá nýjum kjarasamningi við Samstök fyrirtækja í sjávarútvegi með gildistíma til 31. desember 2018. Verði samningurinn samþykktur gildir hann frá 1. júní 2016. Sjómannadeild Framsýnar á aðild að samningnum. Á næstu dögum munu sjómenn innan deildarinnar fá kjörgögn í hendur. Væntanlega strax eftir helgina en unnið er að því að ganga frá gögnunum í póst.
Þar með hefst atkvæðagreiðsla um samninginn. Félagsmenn Sjómannadeildar Framsýnar geta kosið á Skrifstofu stéttarfélaganna til kl. 16:00, mánudaginn 8. ágúst. Opið verður alla virka daga frá kl. 08:00 til 16:00.
Rétt er að taka fram að atkvæði verða talin sameiginlega hjá öllum aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands sem að samningnum standa.
Félagsmenn Sjómannadeildar Framsýnar sem búa utan Húsavíkur geta fengið kjörgögn í pósti komist þeir ekki til Húsavíkur að kjósa. Í þeim tilfellum eru félagsmenn beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.
Vakni upp spurningar við lesturinn er velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna. Skorað er á sjómenn sem samningurinn nær til að greiða atkvæði um kjarasamninginn.