Bæjarstjóri Norðurþings, Kristján Þór Magnússon ásamt Snæbirni Sigurðarsyni starfsmanni sveitarfélagsins voru gestir á fundi stjórnar Framsýnar í vikunni þar sem húsnæðismál voru m.a. til umræðu en mikil vöntun er á íbúðarhúsnæði á Húsavík. Álitið er að vanti um 100 nýjar íbúðir inn á markaðinn til að mæta þörfinni sem skapast við uppbygginguna á svæðinu, ekki síst er tengist framkvæmdunum á Bakka.
Framsýn og Norðurþing hafa átt með sér mjög gott samstarf um að leita leiða til að bæta úr fyrirliggjandi vanda. Á stjórnarfundi Framsýnar var samþykkt að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands um hugmyndir þeirra um sérstakt íbúðafélag. Eins og kunnugt er hefur Alþýðusamband Íslands beitt sér í húsnæðismálum félagsmanna innan aðildarfélaga sambandsins. Nægir þar að nefna viljayfirlýsingu um uppbyggingu 150 leiguíbúða í Hafnarfirði sem undirrituð var af forsvarsmönnum Alþýðusambandsins og Hafnafjarðarbæjar. Verkefnið verður unnið á grundvelli laga um almennar leiguíbúðir sem samþykkt voru á Alþingi 2. júní síðastliðinn. Þá er vitað að Alþýðusambandið og Reykjarvíkur¬borg hafa sömuleiðis undirritað samkomulag sem gengur í sömu átt og viljayfirlýsingin sem undirrituð var við Hafnafjarðarbæ.
Í máli forsesta ASÍ, svo vitnað sé í ummæli hans í Morgunblaðinu er ætlunin með þessu og stofnun íbúðafélags að koma til móts við þá tekjulægstu „Mark¬hóp¬ur¬inn eru þeir í hópi hinna tekju¬lægstu, sem eru að nota upp und¬ir helm¬ing tekna sinna til að borga leigu,“
Eins og fram kemur í þessari frétt á heimasíðunni er áhugi fyrir því innan Framsýnar að bjóða forsvarsmönnum ASÍ til fundar við félagið og stjórnendur Norðurþings um markmið þeirra viljayfirlýsinga sem þegar hafa verið gerðar við sveitarfélög og möguleikana á því að ganga frá sambærilegri yfirlýsingu við Norðurþing og þau önnur sveitarfélög á svæðinu sem telja ávinning að því. Fulltrúum annarra sveitarstjórna á félagssvæðinu verður boðið að taka þátt í fundinum. Stefnt er að því að halda fundinn í ágúst.
Framsýn stefnir að fundi með forsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands og sveitarfélaga á félagssvæðinu til að ræða hugsanlegt samstarf um uppbyggingu á leiguhúsnæði í Þingeyjarsýslum. Reiknað er með að fundurinn verði haldinn í ágúst. Á myndinni má sjá fulltrúa Norðurþings og stjórnarmenn í Framsýn ræða húsnæðismál í sveitarfélaginu og í héraðinu öllu.