FRAMSÝN-UNG með stjórnarfund

Innan Framsýnar er starfandi Ungliðaráð Framsýnar sem skipað er til eins árs í senn af stjórn- og trúnaðarmannaráði félagsins. Ungliðaráðið skal skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum formanns, ritara og tveggja meðstjórnenda. Leitast skal við að kynjaskiptingin sé jöfn í ráðinu. Ungliðaráðið skal starfa á vettvangi Framsýnar undir heitinu FRAMSÝN-UNG. Hlutverk ungliðaráðsins er að starfa náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags.Þá skal ungliðaráðið vera tengiliður Framsýnar við starf ungliða á vettvangi ASÍ á hverjum tíma. Kristín Eva Benediktsdóttir, Sigurbjörg Stefánsdóttir, Aðalbjörn Jóhannsson og Eva Sól Pétursdóttir sitja í stjórn FRMASÝN-UNG. Þau komu saman til stjórnarfundar fyrir helgina þar sem þau fóru yfir verkefnin sem eru framundan á vegum ráðsins. Aðalbjörn er formaður og Eva Sól ritari. Á myndina vantar Kristínu Evu sem komst ekki á fundinn.

Deila á