Vinsamlegur fundur með fulltrúum Norðurþings

Fulltrúar stéttarfélaganna, Þingiðnar og Framsýnar, áttu vinsamlegan fund með sveitarstjóra og fulltrúum Norðurþings í vikunni. Fundurinn var haldinn að frumkvæði félaganna. Tilefni fundarins var að fara yfir framvindu mála varðandi uppbygginguna á Bakka og samfélagsmál s.s. byggingu á íbúðarhúsnæði en verulegur húsnæðisskortur er á Húsavík. Stéttarfélögin hafa átt mjög gott samstarf við núverandi sveitarstjórn Norðurþings enda vilji beggja aðila að vinna sameiginlega að málefnum er varða þær miklu breytingar sem eru fyrirsjáanlegar á næstu árum í atvinnuuppbyggingu og styrkingu innviða samfélagsins.

SGS tekur heilshugar undir með Framsýn og gagnrýnir fiskvinnslufyrirtæki fyrir að halda ekki starfsfólki á launum í verkfalli sjómanna

Framsýn hefur með ályktunum gagnrýnt fyrirtæki í fiskvinnslu fyrir að vísa starfsfólki á atvinnuleysisbætur í stað þess að halda þeim á kauptryggingu í verkfalli sjómanna. Þetta á ekki við um öll fyrirtæki. Þau fyrirtæki sem eru til fyrirmyndar hafa haldið starfsfólki á kauptryggingu og nýtt sér síðan reglur sem kveða á um að þau geti fengið greiðslur frá Vinnumálstofnun í staðinn, það er upp í laun starfsmanna. Starfsgreinasambandið hefur nú sent frá sér ályktun þar sem tekið er undir málflutning Framsýnar og þeirra stéttarfélaga innan sambandsins sem hafa mótmælt vinnubrögðum fiskvinnslufyrirtækjanna sem eiga í hlut.  Hér má lesa ályktun Starfsgreinasambands Íslands:

„Þær vinnudeilur sem sjómenn og útgerðarmenn standa nú í hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir landverkafólk. Fiskvinnslufyrirtæki hafa nýtt sér ákvæði í landslögum sem gerir þeim kleift að senda fiskvinnslufólk á atvinnuleysisbætur vegna „ófyrirséðra áfalla“ í stað þess að njóta kauptryggingar vegna hráefnisskorts eins og hingað til hefur tíðkast. Með þessu spara fyrirtæki sér launakostnað í verkfallinu en að sama skapi geta fyrirtæki ekki vænst þess að fólk snúi aftur til vinnu eftir að deilan leysist. Með því að fara þessa leið eru fiskvinnslufyrirtæki að sýna starfsfólki sínu lítilsvirðingu og rjúfa þann gagnkvæma skilning sem felst í ráðningarsambandi. Þessar aðgerðir margra fiskvinnslufyrirtækja koma misjafnlega niður á afkomu fjölda einstaklinga þar sem atvinnuleysisbætur eru í mörgum tilvikum lægri en kauptrygging. Þá er ótalinn nokkur fjöldi fólks sem á alla jafna ekki rétt á atvinnuleysisbótum, fólk yngra en 18 ára, fólk nýflutt til landsins og fólk sem hefur áður fullnýtt bótarétt sinn. Starfsgreinasambandið mun freista þess að sækja réttindi þessa fólks enda um grófa mismunun að ræða gagnvart þessum hópi sem er sviptur uppsagnarfresti og afkomu í einni sviphendingu.

Það er skýr krafa Starfsgreinasambandsins að fiskvinnslufyrirtæki sýni starfsfólki sínu virðingu og traust og geri allt sem í þeirra valdi stendur til að viðhalda ráðningasambandi og tryggja framfærslu starfsfólks. Það ber líka að hafa í huga að mörg fiskvinnslufyrirtæki sem bera nú við ákvæði um „ófyrirséð áföll“ er einnig útgerðarfyrirtæki og sitja því við samningaborðið með sjómönnum.“

Atvinnuleysisbætur fylgja ekki eftir launaþróun í landinu

Eins og sjá má í meðfylgjandi útreikningum hefur hækkun atvinnuleysisbóta ekki haldið í við hækkun lágmarkstekjutryggingar á vinnumarkaði.  Í því sambandi má geta þess að árið 2009 voru atvinnuleysisbætur um 95,2% af lágmarkstekjutryggingu á vinnumarkaði en var í lok síðasta árs komin í 77,7% sem hlutfall af tekjutryggingunni. Um síðustu áramót var tekjutryggingin kr. 260.000 og fullar atvinnuleysisbætur kr. 202.054,-.

Vinnumálastofnun hefur nú gefið út að atvinnuleysisbætur hækki og verði kr. 217.208 frá 1. janúar 2017. Hlutfallið verður því tímabundið 83,5% þar sem tekjutryggingin hækkar í kr. 280.000 þann 1. maí nk. Frá þeim tíma verður munurinn 77,6%. Ráðamönnum er greinilega ekki eins umhugað um kjör atvinnuleitenda og sín eigin kjör samanber úrskurð Kjararáðs sem þeir tóku við með miklum þökkum. Að mati Framsýnar er mikilvægt að atvinnuleysibætur verði hækkaðir og fylgi annarri launaþróun í landinu.

Upplýsingar með þessari frétt eru fengnar frá skrifstofu ASÍ.

mynd-2 mynd-3

Hugleiðingar um áramót – bjartir tímar framundan

Almennt gekk starfsemi Framsýnar mjög vel á árinu 2016 en það var án efa eitt annasamasta árið í sögu stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna. Þau eru auk Framsýnar, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur. Þá er Verkalýðsfélag Þórshafnar með þjónustusamning við Skrifstofu stéttarfélaganna. Það sem kallað hefur á aukin umsvif stéttarfélaganna er ekki síst mikil uppbygging í ferðaþjónustunni og framkvæmdir sem tengjast uppbyggingunni á Bakka. Þá hefur aukið framboð varðandi orlofskosti, íbúðir, orlofshús, flug og hótel fyrir félagsmenn kallað á töluverða aukna vinnu starfsmanna. Markmiðið er að gera enn betur við félagsmenn á árinu 2017. Framsýn ætlar sér að vera í fremstu röð stéttarfélaga á Íslandi á hverjum tíma. Annað er ekki í boði.

Skrifstofa stéttarfélaganna
Rekstur Skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á árinu 2016. Þrátt fyrir að niðurstöðutölur úr rekstri liggi ekki enn fyrir er alveg ljóst að tekjur stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafa aldrei verið meiri en á ný liðnu ári.

Í mars var ráðinn nýr starfsmaður í vinnustaðaeftirlit, Aðalsteinn J. Halldórsson. Að öðru leiti urðu ekki breytingar á starfsmannahaldinu. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar í starfsmannahaldi á árinu 2017.

Mikið álag var á skrifstofunni enda kallar öflugt starf stéttarfélaganna á hátt þjónustustig. Það er ekki bara að félagsmenn leiti eftir aðstoð heldur eru stjórnendur fyrirtækja á félagsvæðinu ekki síður duglegir við að leita eftir upplýsingum er varðar kjör og réttindi starfsmanna enda mikill mannauður á Skrifstofu stéttarfélaganna þegar kemur að þekkingu á kjarasamningum. Almennt séð eiga starfsmenn stéttarfélaganna mjög gott samstarf við atvinnurekendur á svæðinu. Eðlilega koma upp smá núningar milli aðila sem er hið eðlilegasta mál.

Kynningarmál
Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu www.framsyn.is og Fréttabréfi stéttarfélaganna. Báðir þessir miðlar eru mikilvægir í starfi félaganna. Umferðin um heimasíðuna er ótrúleg en fjöldi fólks fer daglega inn á síðuna sem er virkasta heimasíðan meðal aðildarfélaga ASÍ. Til að mæta þörfum erlendra starfsmanna á svæðinu hafa stéttarfélögin látið útbúa bæklinga með helstu réttindum starfsmanna. Bæklingarnir hafa mælst vel fyrir.

Verulegur áhugi fyrir Framsýn
Verulega mikil ásókn er í Framsýn, það er bæði frá launþegum sem starfa eftir kjarasamningum Framsýnar og eins frá öðrum launþegum sem ekki eiga aðild að kjarasamningum Framsýnar svo ekki sé talað um alla þá sem búa og starfa utan félagssvæðis Framsýnar. Framsýn hefur það að leiðarljósi að virða samskiptareglur stéttarfélaga innan ASÍ en ákveðnar reglur gilda meðal félaganna um félagssvæði og félagsaðild. Hins vegar er greinilegt að það fyrirkomulag sem verið hefur varðandi félagsaðildina er hugsanlega að líða undir lok. Starfsfólk kallar eftir auknu frelsi til að velja sér stéttarfélag sem kæmi sér vel fyrir Framsýn. Reyndar hafa ákveðin félög, sérstaklega iðnaðarmannafélög, unnið að því að verða landsfélög sem skarast á við núverandi fyrirkomulag, það er að félögin séu með ákveðin félagssvæði eftir landshlutum líkt og Framsýn.

Fjölgun hefur orðið á félagsmönnum undanfarin ár. Á síðasta ári greiddu 2736 til félagsins og fjölgaði þeim um 300 milli ára sem er gríðarleg fjölgun. Félagsmenn Framsýnar hafa aldrei verið fleiri en um þessar mundir. Með gjaldfrjálsum félagsmönnum telur félagið um 3000 félagsmenn.

Greinlegt er að Framsýn nýtur mikillar virðingar meðal félagsmanna. Í þeim skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið hefur félagið alltaf komið mjög vel út. Þá hefur félagið netpósta undir höndum frá félagsmönnum þar sem starfsemi félagsins er rómuð og starfsmönnum hælt fyrir þjónustulund og góða þekkingu á málefnum vinnumarkaðarins.

Vinnustaðaeftirlit
Stéttarfélögin hafa haldið úti öflugu vinnustaðaeftirliti. Eins og fram hefur komið áður í þessum pistli var Aðalsteinn J. Halldórsson ráðinn í vinnustaðaeftirlit. Hvað varðar vinnustaðaeftirlitið þá hefur það verið unnið í góðu samstarfi við Ríkisskattstjóra, lögregluna, Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun. Til viðbótar gerði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, sem kemur að vinnustaðaeftirliti og mannsálsmálum, sér ferð til Húsavíkur og fór í skoðunarferð á Bakka með fulltrúum stéttarfélaganna á Húsavík. Vinnustaðaeftirlitið hefur helst beinst að ferðaþjónustunni og byggingarframkvæmum á svæðinu. Eftirlitinu verður framhaldið á árinu 2017. Nokkrir aðilar koma að því að fjármagna eftirlitið með stéttarfélögum, það er Landsvirkjun, Landsnet, Rafiðnarsambandið, VM og Samiðn. Samstarfið við þessa aðila kemur sér vel enda mjög kostnaðarsamt að halda úti öflugu eftirliti.

Efri hæðin að Garðarsbraut 26
Fyrir nokkrum árum eignuðust stéttarfélögin efri hæðina að Garðarsbraut 26 sem snýr að Árgötunni. Um er að ræða 300m2 húsnæði. Tilgangurinn með kaupunum var að eignast húsæðið og hafa áhrif á það hvernig það væri nýtt. Eins og gefur að skilja skiptir verulega miklu máli fyrir Skrifstofu stéttarfélaganna að starfsemin í húsnæðinu fari saman við skrifstofuhald. Í nýja húsnæðinu verða 8 skrifstofur sem flestar verða leigðar út. Verkinu verður lokið 1. mars n.k.

Framsýn-UNG
Innan Framsýnar er starfandi ungliðahreyfing er nefnist Framsýn-UNG. Aðalbjörn Jóhannsson fer fyrir starfinu sem formaður. Hann situr einnig í stjórn ASÍ-UNG. Ætlunin með Framsýn-UNG er að efla starfsemi ungs fólks innan félagsins enda afar mikilvægt að skoðanir stéttarfélaga taki á hverjum tíma mið af ólíkum hópum og fólks á öllum aldri. Þess er vænst að starfið hjá Framsýn-UNG verði kraftmikið á árinu sem er ný hafið. Eitt er víst að landslið ungmenna er í stjórn Framsýn UNG.

Deildir innan félagsins
Innan Framsýnar eru starfandi tvær deildir, það er Deild verslunar- og skrifstofufólks og Sjómannadeild. Jakob Gunnar Hjaltalín fer fyrir Sjómannadeildinni og Jóna Matthíasdóttir fyrir Deild verslunar- og skrifstofufólks. Deildirnar skiluðu góðu starfi á árinu 2016 en þær halda utan um starf sem fellur beint undir þessa starfshópa innan félagsins.

Áfram ódýrt að fljúga
Fyrir áramótin gengu stéttarfélögin frá áframhaldandi samningi við Flugfélagið Erni um sérstök kjör á flugmiðum fyrir félagsmenn milli Reykjavíkur og Húsavíkur. Samningurinn tryggir félagsmönnum flugmiðann á kr. 8.900,- út árið 2017. Um er að ræða mjög gleðileg tíðindi, aukin lífsgæði og sparnað fyrir félagsmenn upp á um 40 milljónir sé horft út árið. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa með samningi sínum við flugfélagið komið að því að efla flugsamgöngur um Húsavíkurflugvöll. Á árinu 2016 flugu rúmlega 20 þúsund farþegar um völlinn sem er veruleg fjölgun milli ára.

Orlofsmál
Stéttarfélögin kappkosta að bjóða félagsmönnum upp á orlofskosti, það er orlofsíbúðir og orlofshús víða um land sem og tjaldsvæðisstyrki. Auk þess hafa félögin samninga við hótel víða um land um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Á síðasta ári tóku félögin auk þess á leigu íbúð á Spáni sem félagsmenn hafa verið duglegir að nota. Þá eru miðar í Hvalfjarðargöngin alltaf til sölu á góðu verði fyrir félagsmenn svo ekki sé talað um ódýru flugmiðana.

Styrkir úr sjúkra- og starfsmenntasjóðum
Félagsmenn hafa gott aðgengi að starfsmenntasjóðum í gegnum Framsýn. Á hverju ári fá félagsmenn umtalsverðar endurgreiðslur stundi þeir nám eða sæki námskeið sem þeir þurfa að greiða fyrir. Þá býr Framsýn yfir öflugum sjúkrasjóði sem félagsmenn hafa aðgengi að s.s. í veikindum.

Velferðarmál
Að venju hafa stéttarfélögin komið að því að styðja við bakið á góðum málefnum með ýmsu móti. Ekki síst hefur verið horft á stuðning við æskulýðs- og íþróttastarf í héraðinu.

Starfið og samstarf við atvinnurekendur
Mikilli uppbyggingu fylgir álag. Algjör sprenging hefur orðið í ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Á árinu 2017 er búist við frekari aukningu á ferðamönnum sem kallar á aukin umsvif. Samhliða þessari aukningu mun uppbyggingin er tengist PCC á Bakka ná hámarki á árinu. Í dag eru framkvæmdir við verksmiðjuna á Bakka, línulögn frá Bakka að Kröflu, þrjú tengivirki eru í byggingu, boranir eru í gangi á Þeistareykjum og á þeim stað er einnig verið að byggja stórt og mikið stöðvarhús. Yfir þúsund manns hafa komið að uppbyggingunni. Stéttarfélögin hafa almennt átt gott samstarf við verkkaupa, verktaka og starfsmenn fyrirtækjanna. Strax í upphafi var ákveðið af hálfu stéttarfélaganna að taka á verkefninu með föstum tökum. Sú áætlun gekk upp og hefur skilað þeim góða árangri að flest mál hefur verið hægt að leysa innan húss, það er með viðkomandi aðilum. Því miður eru dæmi um ljót mál sem félögin hafa þurft að takast á við með hlutaðeigandi aðilum og lögmönnum félagsins. Þrátt fyrir þessi ljótu mál hafa starfsmenn stéttarfélaganna orðið varir við að verktakarnir sem hafa verið hér við störf, ekki síst þeir erlendu, bera almennt virðingu fyrir starfi félaganna. Það sést best á því að þeir hafa sóst eftir fundum með talsmönnum stéttarfélaganna til að tryggja að allt sé í lagi og bæta úr hafi þess þurft með.

Hvernig vinnustaður verður PCC
Um næstu áramót er stefnt að því að nýr fjölmennur vinnustaður hefji starfsemi á Bakka við Húsavík. Það er þegar þýska fyrirtækið PCC hefur starfsemi við kísilmálmvinnslu. Rúmlega hundrað manns koma til með að vinna í verksmiðju fyrirtækisins. Síðar á þessu ári munu hefjast viðræður milli stéttarfélaganna og forsvarsmanna fyrirtækisins um kaup og kjör starfsmanna. Það er alveg ljóst í huga Framsýnar að félagið vill sjá vellaunuð góð störf í verksmiðjunni. Það er von félagsins að forsvarsmenn fyrirtækisins hafi skilning á kröfum Framsýnar sem ætlað er að stuðla að því að gera störf hjá fyrirtækinu eftirsóknarverð og starfsmanavelta verði í lágmarki.

Eitt er víst að góð ímynd fyrirtækis eins og PCC verður ekki til nema með góðu samstarfi við stéttarfélögin á svæðinu, bæjaryfirvöld og fólkið sem hér býr. Fylgi menn þessari forskrift verða hlutirnir í lagi, annars ekki eins og dæmin sanna. Framsýn mun standa vörð um þessi gildi, það er að fyrirtækið starfi hér í sátt og samlyndi við samfélagið. Neikvæð umræða um nýju kísilmálmverksmiðjuna í Keflavík á að vera okkur hvatning til að tryggja að hér verði farið eftir öllum reglum er varðar réttindi starfsmanna og ekkert verði slakað á í umhverfismálum. Annað á ekki að koma til greina.

Grunnstoðirnar standa fyrir sínu
Sjávarútvegur og landbúnaður hafa lengi borið uppi atvinnulífið í Þingeyjarsýslum auk þjónustu á vegum ríkis og sveitarfélaga. Svo verður áfram en ferðaþjónusta og iðnaður munu fá stærra hlutverk en verið hefur í þróun atvinnulífsins. Þá eru væntingar uppi um að verslun og önnur þjónusta komi til með að eflast frekar á komandi árum. Til að mæta fjölgun íbúa á svæðinu og auknum ferðamannastraum er ljóst að töluvert verður byggt á næstu árum, það er bæði íbúðarhúsnæði og eins húsnæði tengt ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum.

Friður eða ófriður á vinnumarkaði
Um þessar mundir stendur yfir verkfall sjómanna innan Framsýnar. Deilan er í hnút og því óvíst að hún leysist á næstu dögum og jafnvel vikum þar sem mikið ber í milli. Sjómenn hafa verið samningslausir frá því í lok árs 2010. Þá er spurning hvað gert verður í febrúar á almenna vinnumarkaðinum, ekki síst í ljósi þess að við Austurvöll er sjálftökulið sem tók við gríðarlegum hækkunum á dögunum í gegnum úrskurð Kjararáðs. Þingið sá ekki ástæðu til að beina þeim tilmælum til Kjararáðs að úrskurður ráðsins yrði endurskoðaður. Ekki síst þess vegna eru kjarasamningar á almenna markaðinum í uppnámi þar sem endurskoðun á forsendum samningsins eiga að fara fram í febrúar. Það er ólga meðal launþega í landinu, ekki síst þeirra sem búa við lökust kjörin.

Virk – starfsendurhæfingarsjóður skiptir máli
Virk – starfsendurhæfingarsjóður er stofnaður af aðilum vinnumarkaðarins í kjarasamningum 2008, aðild eiga öll stéttarfélög og samtök launagreiðenda, s.s. Ríkið, Sveitarfélögin og Samtök atvinnulífsins.

Markmið aðila vinnumarkaðarins með starfsemi Virk er að draga markvisst úr líkum á því að einstaklingar með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda og slysa hverfi af vinnumarkaði.
Í Þingeyjarsýslum starfar Ágúst Sigurður Óskarsson ráðgjafi Virk á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík og annast þjónustu við alla í þjónustu Virk, bæði þá sem eru í Þingeysku stéttarfélögunum sem aðra. Helstu verkefni ráðgjafa eru:
 Persónuleg ráðgjöf og hvatningu sem tekur mið af aðstæðum hvers og eins.
 Samvinnu um gerð og eftirfylgni einstaklingsbundinnar áætlunar um eflingu starfshæfni eða endurkomu á vinnumarkað.
 Vali á hentugustu úrræðum til að bæta heilsu og styrkja starfshæfni (skv. ráðgjöf lækna, s.s. meðferð annarra heilbrigðisstétta, sjúkraþjálfara, náms- og starfsráðgjafa, endurmenntunar, mats á starfsaðstæðum og annarra endurhæfingaraðila).
 Leiðbeiningar um réttindi, greiðslur, framfærslu og aðra þjónustu á svæðinu.
 Samstarf við launagreiðendur og aðra lykilaðila í samfélaginu um málefni tengd starfsendurhæfingu.

Vel hefur tekist til með þróun og þjónustu Virk á landsvísu og í Þingeyjarsýslum. Þjónustu- og árangursmælikvarðar sýna að einstaklingar hafa náð góðum árangri í starfsendurhæfingu, eru mjög sáttir við stuðning og þjónustu Virk og góð samvinna er við aðra sem koma að starfsendurhæfingarferlinu. Einnig hefur vakið athygli að þáttur stjórnenda fyrirtækja og stofnana í Þingeyjarsýslum í stuðningi við starfsmenn sem kljást við afleiðingar veikinda og slysa og eru í starfsendurhæfingarferli er virkur og styðjandi og samstarf við Virk árangursríkt. Árið 2016 var árangursríkt í starfsendurhæfingu, í lok árs voru rúmlega tvö þúsund einstaklingar í virkri þjónustu. Jafnvægi hefur náðst í innstreymi í þjónustuna, eftir stöðuga aukningu fyrstu árin fækkaði nýjum í þjónustu um 7% árið 2016. Í árslok hafa 11.000 einstaklingar notið þjónustu Virk.

Stjórn, trúnaðarráð og starfsfólk
Innan Framsýnar er starfandi öflug stjórn og trúnaðarráð sem kemur reglulega saman og fundar um málefni félagsins á hverjum tíma. Þá eru starfandi innan félagsins aðrar stjórnir sjóða, ráð og nefndir. Full ástæða er til að þakka öllu því ágæta fólki sem starfar fyrir félagið fyrir þeirra frábæra starf. Það er gleðilegt til þess að vita að það er eftirsóknarvert að starfa fyrir félagið.

Á Skrifstofu stéttarfélaganna starfar metnaðarfullt starfsfólk sem hefur það að leiðarljósi að halda utan um kraftmikið starf félaganna. Hafi félagsmenn ábendingar um það sem betur má fara í starfi félaganna er mikilvægt að þeir komi skoðunum sínum á framfæri við félögin. Saman getum við gert starfið öflugra, öllum til hagsbóta.

Góðar stundir og megi árið 2017 verða okkur gjöfult í alla staði.

Aðalsteinn Árni Baldursson
Formaður Framsýnar, stéttarfélags

Breytingar á skattkerfinu

Nokkrar breytingar voru á skattkerfi landsins um nýliðin áramót. Hér verða reifaðir nokkrir af helstu þáttum skattkerfisins eins og það er í dag. Athugið að ekki allir þessir þættir hafa breyst frá fyrra ári.

Staðgreiðsla
Staðgreiðslan er reiknuð í tveimur þrepum sem eru eftirfarandi:
Af fyrstu 834.707 krónunum reiknast 36,94% skattur. Af öllum krónum umfram þessa upphæð reiknast 46,24% skattur.

Frádráttur vegna lífeyrisréttinda
Heimilt er að draga 4% af iðgjaldsstofni vegna greiðslu launþega til almennra lífeyrisréttinda. Vegna séreignarsparnaðar er heimill frádráttur upp í 4%.

Persónuafsláttur
52.907 krónur á mánuði.

Tryggingargjald
6,85%.

Fjármagnstekjuskattur
20%.

Gjald í framkvæmdarstjóð aldraðra
10.956 á hvern einstakling fæddan 1947 og síðar og hafa tekjur yfir 1.679.001 krónur á ári. Börn innan við 16 ára aldur greiða ekki þetta gjald.

Útvarpsgjald
16.800 á hvern einstakling fæddan 1947 og síðar og hafa tekjur yfir 1.679.001 krónur á ári. Börn innan við 16 ára aldur greiða ekki þetta gjald.

Barnabætur
Hjón með eitt barn fá 205.834 krónur í barnabætur með hverju barni umfram það, 245.087 krónur. Einstætt foreldri með eitt barn fá 342.939 krónur í barnabætur og með hverju barni umfram það 351.787 krónur.
Skerðingarmörk barnabóta hjá hjónum eru 5.400.000 krónur og 2.700.000 krónur hjá einstæðu foreldri. Umfram þessi mörk skerðast tekjur um 4%, 6% fyrir tvö börn og 8% fyrir þrjú börn eða fleiri.
Viðbótargreiðsla með hverju barni yngra en sjö ára er 122.879 krónur. Þessi greiðsla skerðist um 4% umfram ofangreind mörk.

Mikil umræða um málefni fiskvinnslunnar

Mikil umræða hefur verið um málefni fiskvinnslunnar undanfarnar vikur eftir að ljóst varð að sjómenn færu í verkfall. Umræðan hefur ekki síst verið mikil hér í Þingeyjarsýslum.

Formaður Framsýnar var í viðtali í Morgunblaðinu í dag þar sem farið var yfir málið.

Hluta viðtalsins má lesa á vef Morgunblaðsins eða með því að smella hér.

Slæm staða hjá ungu fólki í fiskvinnslu í verkfalli sjómanna- brotalöm í kerfinu, eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum

Stjórn Framsýnar-ung samþykkti í dag að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðu ungs fólks í fiskvinnslu í verkfalli sjómanna. Eins og fram kemur í ályktuninni er staða þessa hóps mjög slæm þar sem fólk innan við 18 ára aldur á ekki rétt á því að skrá sig  atvinnulaust og er því launalaust í verkfallinu, það er í þeim tilvikum þegar fyrirtækin hafa afskráð starfsmenn og bent þeim á að skrá sig atvinnulausa.

Ályktun um stöðu ungmenna í verkfalli sjómanna

„Framsýn-ung vill vekja athygli á ákvörðun margra fiskvinnslufyrirtækja að senda starfsmenn sína heim á atvinnuleysisbætur í stað þess að halda þeim á launaskrá, sem myndi tryggja þeim þeirra föstu mánaðarlaun í formi kauptryggingar.  Kauptryggingin virkar þannig að fyrirtækið skuldbindur sig til að greiða starfsmönnum sínum dagvinnulaun meðan á verkfalli stendur.

 Við fiskvinnslu starfar hópur ungmenna sem ekki hefur náð 18 ára aldri og á þar af leiðandi ekki rétt á atvinnuleysisbótum, en þær miðast við 18 ára aldur. Þessi hópur er því án framfærslu meðan á verkfalli stendur og þeirra bíður jafnvel að leita aðstoðar hjá félagsmála yfirvöldum. Er þetta virðing fyrir ungu fólki ?

Á sama tíma og sjávarútvegsfyrirtæki gorta sig af góðri afkomu, treysta þau sér ekki til að halda starfsmönnum á kauptryggingu.

Framsýn- ung hvetur þau fyrirtæki sem í hlut eiga til að endurskoða sínar ákvarðanir og taka starfsfólk sitt þegar inn á kauptryggingu. Sé það gert heldur ungt fólk fullum mánaðarlaunum fyrir utan kaupaukagreiðslur óháð aldri. Sé þessi leið valin eiga fyrirtækin rétt á endurgreiðslum frá Vinnumálastofnun fyrir mestum hluta af launum starfsmanna. Launakostnaður fyrirtækjanna er því umtalsvert minni en annars væri.

 Þá er athyglisvert að unglingar innan við 18 ára aldur skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum í verkfalli sjómanna. Séu þeir hins vegar á kauptryggingu í verkfallinu eiga fyrirtækin rétt á endurgreiðslum upp í laun viðkomandi aðila frá Vinnumálastofnun. Eins og sjá má er mikið misræmi í þessum reglum sem kallar á endurskoðun, þannig að báðir hóparnir sitji við sama borð. 

Framsýn- ung vill með þessari ályktun vekja athygli á þeirri mismunun og óréttlæti sem viðgengst í títtnefndu verkfalli og telur mikilvægt að verkalýðshreyfingin láti sig þessi mál varða.  Þess er krafist  að lögum og reglum þar um verði breytt svo koma megi í veg fyrir að aðstæður sem þessar komi aftur upp í framtíðinni.“

 

Þannig samþykkt af stjórn Framsýnar-ung fimmtudaginn 5. janúar 2017.

Til Fróðleiks:

Innan Framsýnar- stéttarfélags er starfandi öflugt ungliðaráð félagsins. Ungliðaráðið er skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Ungliðaráðið starfar á vettvangi Framsýnar undir heitinu Framsýn-ung. Ungliðaráðið starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags. Þá er ungliðaráðið tengiliður Framsýnar út á við er varðar fræðslu og málefni ungs fólks á vinnumarkaði.

 

 

 

Kraftmikið starf hjá Framsýn-ung

Stjórn Framsýnar-ung kom saman til fundar á Fosshótel Húsavík í gær. Fjórir sitja í stjórn, það eru þau Aðalbjörn Jóhannsson úr Reykjahverfi, Eva Sól Pétursdóttir úr Reykjadal, Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir úr Fnjóskadal og Kristín Eva Benediktsdóttir úr Öxarfirði.

Miklar og góðar umræður urðu um málefni ungs fólks á vinnumarkaði og starf stjórnarinnar á árinu 2017. Þá var í lok fundar samþykkt að álykta um stöðu ungs fólks við fiskvinnslustörf í verkfalli sjómanna. Unnið er að frágangi hennar og verður hún væntanlega birt síðar í dag hér á heimasíðunni.

Til fróðleiks má geta þess að innan Framsýnar- stéttarfélags er starfandi öflugt ungliðaráð félagsins. Ungliðaráðið er skipað fjórum félagsmönnum á aldrinum 16-35 ára. Ungliðaráðið starfar á vettvangi Framsýnar undir heitinu Framsýn-ung. Ungliðaráðið starfar náið með stjórn og trúnaðarráði Framsýnar að þeim málefnum sem aðilar ákveða að vinna að hverju sinni með sérstaka áherslu á málefni ungs fólks. Það er að tryggja að hugað sé að stöðu og hagsmunum ungs launafólks í stefnu verkalýðshreyfingarinnar og að rödd unga fólksins heyrist í starfi og stefnumótun Framsýnar- stéttarfélags. Þá er ungliðaráðið tengiliður Framsýnar út á við er varðar fræðslu og málefni ungs fólks á vinnumarkaði.

20170104_165510

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þær voru á svæðinu;  Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir, Eva Sól Pétursdóttir og Kristín Eva Benediktsdóttir. Aðalbjörn var í símasambandi frá Reykjavík.

20170104_183933

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Gamla settið var á kantinum og skiptist á skoðunum við kraftmikla stjórn Framsýnar-ung. Hér má sjá formann og varaformann Framsýnar þau Aðalstein og Ósk.

 

Heimsókn á Þórshöfn

Starfsmenn stéttarfélaganna brugðu undir sig betri fætinum og skruppu til Þórshafnar í gær, 4. janúar. Hús var tekið á Sigríði Jóhannesdóttur, starfsmanni Verkalýðsfélags Þórshafnar.

Á myndinni má sjá Sigríði og Ágúst Óskarsson sem virðist vera að segja henni til.

Hafið kærar þakkir fyrir samstarfið

Almennt er það þannig að starfsmenn stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf við verktaka og verkkaupa sem koma að framkvæmdunum er tengjast uppbyggingunni á Bakka. Slíkar framkvæmdir kalla eðlilega á mikil samskipti aðila þar sem taka þarf á mörgum málum á hverjum tíma, oft erfiðum málum. Nú fyrir áramótin kom einn öðlingur í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna til að kveðja formann Framsýnar og eftirlitsfulltrúa félagsins um leið og hann þakkaði félögunum fyrir gott samstarf varðandi uppbygginguna á Þeistareykjum. Þetta var hann Sveinn Fjeldsted sem starfað hefur á vegum verktakans LNS Saga að öryggismálum á Þeistareykjum.  Eftir áramótin mun hann snúa sér að öðrum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og er því ekki væntanlegur norður á nýju ári. Hans síðasta verk áður en hann yfirgaf Húsavík var að kveðja starfsmenn stéttarfélaganna sem notuðu tækifærið og þökkuðu honum fyrir samstarfið á liðnu ári.

Menn ganga brosandi inn í næsta ár á Húsavík

Fjölmenni var saman komið við áramótabrennuna á Húsavík í dag sem var afar glæsileg sem og flugeldasýningin. Veðrið var frábært og ekki annað að sjá og heyra en að menn væru jákvæðir fyrir nýju ári. Með þessum myndum sendum við góðar kveðjur til lesenda heimasíðu stéttarfélaganna.

aramot1016-001aramot1016-008aramot1016-015aramot1016-019aramot1016-010aramot1016-013aramot1016-021aramot1016-030aramot1016-038aramot1016-043aramot1016-045aramot1016-047aramot1016-057aramot1016-055aramot1016-053aramot1016-051aramot1016-052aramot1016-048
aramot1016-082
aramot1016-080aramot1016-086aramot1016-094aramot1016-073

5,7 milljónir til félagsmanna – Síðasti fundur stjórnar sjúkrasjóðs í morgun

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman til fundar í morgun til að úthluta til félagsmanna sjúkradagpeningum og öðrum greiðslum sem falla undir ákvæði reglugerðar sjóðsins fyrir desember. Stjórn sjóðsins kemur saman mánaðarlega og úthlutar til félagsmanna greiðslum s.s. sjúkradagpeningum, heilsueflingarstyrkjum, fæðingarstyrkjum, endurgreiðslum vegna sjúkraþjálfunar og útfararstyrkjum. Fyrir fundinum í morgun lágu fyrir um 100 umsóknir frá félagsmönnum um styrki samtals að upphæð um 5,7 milljónir. Eins og sjá má er mikilvægt fyrir launþega að vera í öflugu stéttarfélagi sem hefur burði til að gera vel við félagsmenn á flestum sviðum. Til hamingju með það ágætu félagar.

Telja fiskvinnslufólki trú um að það sé betra að vera á atvinnuleysisbótum en kauptryggingu

Töluvert hefur verið um að fiskvinnslufólk hafi haft samband við Framsýn varðandi réttindi þeirra og kjör í verfalli sjómanna. Fyrirspurnir hafa borist úr flestum landsfjórðungum. Um er að ræða starfsfólk fiskvinnslufyrirtækja sem valið hafa að senda fólk heim kauplaust á atvinnuleysisbætur í stað þess að halda því á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum. Einnig eru dæmi um að formenn stéttarfélaga, sem hafa fiskvinnslufólk innan sinna raða, hafi leitað eftir upplýsingum um málið hjá Framsýn. Skorað hefur verið á félagið að setja upplýsingar um málið inn á heimasíðuna til að auðvelda fiskvinnslufólki að meta sína stöðu. Að sjálfsögðu er eðlilegt að verða við þeirri beiðni enda varðar málið allt að 4000 starfsmenn í fiskvinnslu. Heimasíðan hefur heimildir fyrir því að fjallað verði um málið í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Því miður virðist sem þeim fullyrðingum sé haldið að fiskvinnslufólki að það sé hagstæðara að vera á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum. Framsýn er kunnugt um nokkur fyrirtæki sem hafa haldið þessu fram og í einhverjum tilfellum haft stéttarfélög starfsmanna með í ráðum ef marka má skýringar sem fyrirtækin hafa gefið.

Skoðum málið.

Þannig er að fullar atvinnuleysisbætur eru kr. 202.054 á mánuði. Kauptrygging fiskvinnslufólks er hins vegar mun hærri eða allt að kr. 266.409,- á mánuði hjá starfsmanni með yfir sjö ára starfsreynslu. Varðandi atvinnuleysisbæturnar, þá detta menn inn á tekjutengingu eftir 10 daga í allt að þrjá mánuði. Á þessu tímabili geta atvinnuleysisbæturnar orðið allt að kr. 318.532 á mánuði, það er 70% af meðallaunum síðustu 6 mánaða fyrir utan tvo síðustu mánuðina. Síðan er greitt með börnum kr. 8.082 á mánuði séu þau til staðar hjá viðkomandi aðila.

Starfsmaður sem heldur kauptryggingu hjá fyrirtæki fær auk dagvinnulauna orlofslaun í hlutfalli við áunninn rétt til viðbótar sínum föstu launum allt að 13,04%. Hann vinnur sér inn óskert sumarfrí á launum. Hann fær einnig 2% viðbótarframlag frá atvinnurekenda í séreign auk þess að ávinna sér inn frekari réttindi hjá fyrirtækinu samkvæmt ákvæðum kjarasamninga enda er hann á kauptryggingu en ekki skráður atvinnulaus í verkfallinu hjá Vinnumálastofnum.

Sá sem er með skertan bótarétt heldur kauptryggingu hjá sínu fyrirtæki sé þessi leið valin, það er fullum dagvinnulaunum. Hann fær hins vegar skertar/hlutfallslegar bætur sé hann á bótum hjá Vinnumálastofnun í verkfallinu. Auk þess sem réttur hans til atvinnuleysisbóta skerðist í stað þess að vera á launaskrá hjá fyrirtækinu í verkfallinu. Þá fylgja töluverð óþægindi því fyrir fólk að þurfa að skrá sig atvinnulaust meðan á verkfallinu stendur, ekki síst fyrir erlenda starfsmenn.

Þá þarf ekki að taka það fram að greitt er af starfsmönnum til stéttarfélaga, launatengd gjöld, séu þeir á kauptryggingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum en ekki þegar þeir eru á atvinnuleysisbótum. Komi til þess að verkfall sjómanna standi yfir í nokkrar vikur er um að ræða skert réttindi hjá stéttarfélögunum s.s. úr sjúkrasjóðum og starfsmenntasjóðum.

Hvernig fyrirtæki geta haldið því fram að það sé mun hagstæðara fyrir starfsfólk að skrá sig atvinnulaust verður ekki skilið. Segjum svo að verkfallið standi yfir í tvær vikur, hvernig er hægt að finna það út að það sé mun hagstæðara að vera á atvinnuleysisbótum með kr. 1.165 per. dagvinnustund í stað kr. 1.537 m.v. 11. launaflokk fyrir utan orlof verður ekki skilið. Hér má sjá frekari útreikninga hvernig menn koma út, það er annars vegar á kauptryggingu og hins vegar á atvinnuleysisbótum.  Niðurstaðan er reyndar skýr:

Meðfylgjandi útreikningar miðast við kauptryggingu fiskvinnslufólks í efsta flokki enda liggja sömu forsendur fyrir er varðar atvinnuleysisbætur sem eru reiknaðar í botn. Þá eru orlofsrétturinn reiknaður með kauptryggingunni svo og 2% í séreignasparnaður sem er miðaður við rétt launþega í kjarasamningum. Fyrstu 10 virku dagana eru launþegar reiknaðir á lágmarksbótum frá atvinnutryggingasjóði en eftir það 70% af meðallaunum síðustu 6 mánuði  frá tveggja mánaða reglunni. Þá er í töflunni einnig reiknað með viðbótarframlagi frá atvinnuleysistryggingum vegna fjölda barna.

Miðað við þessar forsendur kemur mun betur út fyrir launþega að fá kauptryggingu frá atvinnuveitenda frekar en að fara á atvinnuleysisbætur. Eins og sjá má á töflunni þá jafnast upphæðin út á mismunandi tíma og fjarlægist síðan aftur eftir 3 mánaða markið frá atvinnutryggingasjóði:

  1. Launþegi án barns reiknast alltaf hærri með kauptryggingu frekar en á atvinnuleysisbótum.
  2. Launþegi með eitt barn nær að jafna stöðuna eftir 58 vinnudaga á atvinnuleysisbótum, þ.e. eftir 11 vikur og 3 daga en eftir 79 vinnudaga 15 vikur og 4 daga þá er hann í sömu stöðunni sem versnar eftir þann tíma.
  3. Launþegi með tvö börn nær að jafna stöðuna eftir 42 vinnudaga á atvinnuleysisbótum, þ.e. eftir 8 vikur og 2 daga en eftir 86 vinnudaga 17 vikur og 1 dag þá er hann í sömu stöðunni  sem versnar eftir þann tíma.
  4. Launþegi með þrjú börn nær að jafna stöðuna eftir 33 vinnudaga á atvinnuleysisbótum, þ.e. eftir 6 vikur og 3 daga en eftir 95 vinnudaga , 19 vikur þá er hann í sömu stöðunni sem versnar eftir þann tíma.

Miðað við þessar forsendur er nokkuð ljóst að sanngjarnara er fyrir launþega að fara á kauptryggingarleiðina enda þeirra réttur. Hér er ekki tekið tillit til þess að réttindi í stéttarfélögum skerðast hjá fiskvinnslufólki í löngu verkfalli sé það á atvinnuleysisskrá.

fiskvinnslufolk-1fiskvinnslufolk-2

Verkfallsbætur til sjómanna innan Framsýnar samþykktar

Á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar var farið yfir reglur sem koma til með að gilda varðandi greiðslur úr vinnudeilusjóði til sjómanna innan félagsins. Fram kom að stjórn Vinnudeilusjóðs félagsins samþykkti að viðhafa eftirfarandi reglur um úthlutun úr sjóðnum í verkfalli sjómanna. Greiddar verða verkfallsbætur frá 1. janúar 2017 alla virka daga meðan á verkfallinu stendur til félagsmanna í Sjómannadeild Framsýnar. Miðað verður við kauptryggingu háseta á mánuði sem er kr. 234.026,-. Til viðbótar verður greitt 19% álag á kauptrygginguna sem samtals gerir kr. 278.371 á mánuði eða kr. 12.845 á dag virka daga.

Sjómenn sem hyggjast sækja um verkfallsbætur þurfa að ganga frá umsókn þess efnis á eyðublaði sem hægt er að nálgast á Skrifstofu stéttarfélaganna og/eða á heimasíðu félagsins. Jafnframt þurfa þeir að skila inn upplýsingum varðandi persónuafsláttinn á móti greiddum verkfallsbótum þar sem þær eru skattskyldar. Sjómenn sem stunda vinnu í landi, meðan á verkfallinu stendur,  eiga ekki rétt á greiðslum úr Vinnudeilusjóði fyrir þá daga sem þeir eru við störf. Það á einnig við ef þeir stunda sjálfboðavinnu sem almennt telst launuð vinna. Greitt verður út mánaðarlega nema annað verði ákveðið af stjórn Vinnudeilusjóðs.

 

 

Áherslur Sjómannadeildar Framsýnar til lausnar kjaradeilu sjómanna og útgerðarmanna

Á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar sem haldin var í gær var könnun lögð fyrir fundarmenn. Meðlimir voru beðnir að nefna þau atriði sem þeir teldu að þyrftu að koma til svo kjarasamningur Sjómannasambandsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi yrði samþykktur. Greinilegt er samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar að mikill meirihluti sjómanna vill sjá olíuverðviðmiðunina taka breytingum til hagsbóta fyrir sjómenn og að nýsmíðaálagið verði þrengt. Þessi tvö atriði vega hvað mest varðandi lausn á yfirstandandi kjaradeilu. Önnur atriði sem voru nefnd var netkostnaður sjómanna um borð í fiskiskipum, frí hlíðfarföt og skerðingar vegna niðurfellingar á sjómannaafslættinum verði bættar sjómönnum. Niðurstöðum könnunar sjómanna innan Sjómannadeildar Framsýnar hefur þegar verið komið á framfæri við Sjómannasamband Íslands. Sambandið mun funda með Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi eftir áramótin og leggja kröfur sjómanna innan aðildarfélaganna fram til lausnar kjaradeilunni.

sjomennadalfundur1216-110

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sjómenn á Húsavík telja mikilvægast að gerðar verði breytingar á nýsmíðaálaginu auk breytinga á olíuverðsviðmiðuninni.

Óskað eftir stofnun bændadeildar Framsýnar

Starfsmanni Framsýnar barst erindi á dögunum frá einum sinna félagsmanna um hvort ekki væri réttast að stofna sérstaka bændadeild innan Framsýnar. Umræddur félagsmaður er Benedikt Hrólfur Jónsson, Auðnum í Laxárdal. Eins og flestir vita er Benedikt einn af framtíðarbændum hér á starfssvæði Framsýnar.

Meðfylgjandi mynd fylgdi erindinu með þeim orðum að nokkurn vegin svona muni þeir deildarmeðlimir líta út í fullum skrúða.

Starfsmaður Framsýnar lofaði að vekja máls á erindinu.

Góður fundur sjómanna

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gær. Fundurinn sem hófst kl. 17:00 var vel sóttur og stóð vel fram eftir kvöldi. Á fundinum urðu miklar umræður um kjaramál enda sjómenn í verkfalli. Þá var gerð grein fyrir starfsemi deildarinnar á umliðnu starfsári sem og reglum Vinnudeilusjóðs félagsins um greiðslur til sjómanna í verkfallinu sem hefjast um næstu áramót. Varðandi kjaramálin og áherslur sjómanna innan Framsýnar til að leysa yfirstandandi kjaradeilu þá var gerð skoðanakönnun á fundinum um áherslurnar. Þessa stundina er verið að vinna úr gögnunum sem verða síðan birtar inn á heimasíðunni á morgun enda takist að klára að vinna úr könnuninni í tæka tíð. Fundurinn samþykkti að senda frá sér tvær ályktanir um kjaramál sem þegar hafa vakið töluverða athygli fjölmiðla. Meðfylgjandi þessari frétt er skýrsla stjórnar sem lögð var fram á fundinum um starfsemina á umliðnu starfsári.

sjomennadalfundur1216-114

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Tveir ungir menn voru kjörnir í stjórn deildarinnar sem hafa ekki setið áður í stjórn. Hér má sjá þá Heiðar Val Hafliðason varaformann og Reyni Hilmarsson meðstjórnanda. Með því í stjórn eru Jakob Gunnar Hjaltalín formaður, Björn Viðar ritari og Kristján Hjaltalín meðstjórnandi.

 

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar haldinn miðvikudaginn 28. desember 2016 kl. 17:00.

 

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Verkfall sjómanna/verkfallsbætur
    1. Verkfallsbætur: Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar
    2. Kjaramál: Jakob Gunnar Hjaltalín formaður Sjómannadeildar Framsýnar
    3. Kjarakönnun: Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar
  3. Önnur mál
    1. Ályktun um kjaramál
    2. Verkbann á vélstjóra

 

Tillaga að stjórn fyrir næsta starfsár:

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður

Heiðar Valur Hafliðason varaformaður

Björn Viðar ritari

Kristján Hjaltalín meðstjórnandi

Reynir Hilmarsson meðstjórnandi

 

Fylgigögn með skýrslu stjórnar:

  • Dagskrá aðalfundarins
  • Upplýsingar um verkbann
  • Reglugerð Vinnudeilusjóðs
  • Starfsreglur sjómannadeildar
  • Tillaga að stjórn deildarinnar
  • Kjarakönnun meðal sjómanna
  • Ályktun um kjaramál sjómanna
  • Ályktun um verkbann á vélstjóra
  • Felldur kjarasamningur SSÍ og SFS
  • Reglur um verkfallsbætur í verkfalli sjómanna

 

Upplýsingar um verkbann:

Um verkbann gilda sömu reglur og um verkfall og eiga þeir því ekki rétt á atvinnuleysisbótum þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir. Sjá lagaákvæðið:

50. gr. Verkfall eða verkbann.
Launamaður, sbr. a-lið 3. gr., sem leggur niður störf í verkfalli eða vegna verkbanns vinnuveitanda telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir.
Launamaður sem hefur misst starf sitt áður en til verkfalls eða verkbanns kom en tekur það fram í umsókn að hann sé að leita að starfi í þeirri starfsgrein sem verkfallið eða verkbannið tekur til telst ekki tryggður þann tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir á fyrstu fjórum vikunum frá því að Vinnumálastofnun tók við umsókn hans.
Ákvæði 2. mgr. á þó ekki við þegar verkfall eða verkbann tekur einungis til starfa í viðkomandi starfsgrein á afmörkuðu svæði.
Ársskýrsla stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar

 

Ágætu sjómenn!

Ég vil fyrir  hönd stjórnar Sjómannadeildar Framsýnar bjóða ykkur velkomna til fundarins um leið og ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.

 

Fjöldi sjómanna í deildinni:

Alls eru 90 sjómenn skráðir í deildina í árslok 2016, það eru starfandi sjómenn og þeir sjómenn sem hætt hafa sjómennsku vegna aldurs eða örorku.  Af þessum 90 sjómönnum greiddu 76 sjómenn félagsgjald til félagsins á árinu sem er að líða.

Stjórnarmenn og fundir:

Stjórn deildarinnar var þannig skipuð á síðasta starfsári: Jakob G. Hjaltalín formaður, Kristján Þorvarðarson varaformaður, Björn Viðar ritari, Snorri Gunnlaugsson og Kristján Hjaltalín meðstjórnendur.

Stjórnin hélt einn formlegan stjórnarfund á árinu auk þess sem stjórnarmenn voru í símasambandi þegar  á þurfti að halda. Formaður deildarinnar situr í stjórn Framsýnar sem fundar reglulega. Þar hefur hann fylgt eftir málefnum sjómanna og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn Framsýnar.

Sjómannadeild Framsýnar og reyndar aðalstjórn félagsins kom jafnframt að ýmsum málum er varða sjómenn á starfsárinu. Formaður deildarinnar hefur einnig sótt fundi á vegum Sjómannasambandsins á hverjum tíma, nú nýlega 30. þing Sjómannasambandsins sem haldið var dagana 24. og 25. nóvember  á Grand Hóteli Reykjavík. Þá er hann í vara sambandsstjórn Sjómannasambandsins sem fundar eftir þörfum.

Heiðrun sjómanna og sjómannadagurinn:

Sjómannadeildin heiðraði tvo sjómenn á Sjómannadaginn á Húsavík. Árið 2016 voru sjómennirnir Hermann Ragnarsson og Jónas Jónsson heiðraðir. Athöfnin fór fram í Húsavíkurkirkju og tókst í alla staði mjög vel.

Sjómannadeildin kom að því að styrkja hátíðarhöld sjómannadagsins á Húsavík og á Raufarhöfn með fjárstuðningi auk þess að standa fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn á föstudeginum fyrir sjómannadaginn. Deildin hefur gert það í nokkur ár, en kaffiboðið hefur notið mikilla vinsælda meðal bæjarbúa og gesta sem átt hafa leið um Raufarhöfn.

Kjaramál:

Kjarasamningar milli samtaka sjómanna og SFS (LÍÚ) hafa verið lausir frá 1. janúar 2011.

Nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi var undirritaður eftir viðræður aðila 24. júní með gildistíma til 31. desember 2018. Samningurinn fór í atkvæðagreiðslu og var felldur í sameiginlegri atkvæðagreiðslu innan aðildarfélaga sjómannasambandsins sem voru aðilar að samningnum.

Niðurstaðan atkvæðagreiðslunnar var þessi:

Já sögðu:                                 223 eða 33,3% af þeim sem kusu

Nei sögðu:                              445 eða 66,4% af þeim sem kusu

Auðir/ógildir seðlar voru:            2 eða   0,3% af þeim sem kusu

Aftur var sest að samningaborðinu og nýr kjarasamningur milli SSÍ og SFS var undirritaður þann 14. nóvember síðastliðinn og viðauki þann 18. nóvember þar sem 12. grein um veikinda- og slysarétt í skiptimannakerfi er felld brott og sett í bókun. Að kjarasamningnum stóðu öll aðildarfélög SSÍ að Verkalýðsfélagi Vestfirðinga og Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur undanskildum. Samhliða undirritun kjarasamningsins þann 14. nóvember síðastliðinn var verkfalli þeirra aðildarfélaga SSÍ sem að samningnum standa frestað frá kl. 20:00  þann 15. nóvember til kl. 20:00 þann 14. desember 2016.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um kjarasamninginn var eftirfarandi, það er meðal þeirra félaga sem stóðu saman innan Sjómannasambandsins:

Á kjörskrá voru 1.098 sjómenn og af þeim kusu 743 eða 67,7%.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var þessi:

Já sögðu                                  177 eða 23,82% af þeim sem kusu

Nei sögðu                               562 eða 75,64% af þeim sem kusu

Auðir/ógildir seðlar voru             4 eða   0,54% af  þeim sem kusu

Samkvæmt framansögðu var því samningurinn felldur með meirihluta greiddra atkvæða í annað skiptið á nokkrum vikum. Verkfall sjómanna hefur því staðið yfir frá kvöldi 14. desember og ekki er fyrir séð hvenær samningar takast milli aðila.

Fulltrúar frá Sjómannasambandinu þreifuðu á SFS fyrir jólin með nokkur atriði sem gætu orðið til þess að liðka fyrir nýjum kjarasamningi. Sérstaklega var horft á eftirfarandi þætti; bætur komi inn fyrir sjómannaafsláttinn, olíuverðsviðmiðið verði endurskoðað, nýsmíðaálagið verði þrengt, sjómönnum verði ekki gert að greiða fyrir fæði um borð og þá verði sjómönnum boðið upp á frían vinnufatnað. Þá hefur einnig verið nefnd að tekið verði á netkostnaði sjómanna um borð í fiskiskipum. Til stendur að ræða þessi atriði betur við SFS á samningafundi þann 6. janúar, það er þegar sjómannafélögunum innan SSÍ hefur gefist tími til að fara yfir þau með sjómönnum á fundum sínum um jól og áramót.

Við munum hér á eftir vera með skoðanakönnun meðal fundarmanna á þeirra skoðunum varðandi þessi atriði. Könnunin verður betur kynnt hér á eftir.

Eins og kunnugt er samþykktu skipstjórnarmenn sinn kjarasamning fyrr á árinu meðan vélstjórar felldu sinn samning í atkvæðagreiðslu í desember. VM hafði áður aflýst verkfalli og því þurfa vélstjórar að fara í aðra atkvæðagreiðslu um afstöðu þeirra til frekari verkfallsboðunar.  Sjómannasambandið notaði aðra aðferð, það var að fresta verkfalli meðan atkvæðagreiðslan um kjarasamninginn fór fram. Þess vegna hófst verkfall aftur hjá undirmönnum þann 14. desember.

SFS hefur ákveðið að setja verkbann á vélstjóra sem taka á gildi kl. 22:00 föstudaginn 20. janúar 2017. Bréf þess efnis barst Framsýn í gær og er í fundargögnunum. Það er athyglisvert í ljósi þess að vélstjórar hafa ekki boðað verkfall. Af hverju útgerðarmenn velja að setja verkbann á vélstjóra en ekki yfirmenn á fiskiskipum kallar á spurningar. Það skal tekið skýrt fram að stjórn Sjómannadeildar Framsýnar er alfarið á móti verkbönnum. Í því sambandi má geta þess að Framsýn hefur þegar gert athugasemdir við ákvörðun SFS að setja verkbann á vélstjóra og að fyrirtækin hafi rofið ráðningarsamband við fiskvinnslufólk með því að beina því á atvinnuleysisbætur í verkfallinu. Framsýn hefur skorað á sjávarútvegsfyrirtækin að draga verkbönnin til baka og að fiskvinnslufólkið verði tekið aftur inn á launaskrá hjá fyrirtækjunum í stað þess að það verði fyrir kjaraskerðingu á atvinnuleysisbótum.

Þá ber að geta þess að ósamið er við Landssamband smábátaeigenda vegna sjómanna á smábátum. Samningsaðilar hafa orðið sammála um að bíða með frekari viðræður þar til kjaradeilan milli SFS og SSÍ hefur verið leist.

Það hefur mikið gengið á í kjaramálum sjómanna á árinu sem er að líða. Til stóð að Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri Sjómannasambands Íslands yrði með okkur á fundinum hér í dag en vegna veðurs komst hann ekki norður. Hann er hins vegar tilbúinn að koma til okkar eftir áramótin til að ræða stöðuna í kjaramálum verði eftir því leitað.

Verkfallsbætur

Stjórn Framsýnar hefur í samráði við stjórn Vinnudeilusjóðs félagsins ákveðið að hefja greiðslur verkfallsbóta til sjómanna í verkfalli innan sjómannadeildar félagsins frá 1. janúar 2017. Svo virðist sem flest sjómannafélögin innan SSÍ ætli sér að miða við hásetatrygginguna sem er í dag á mánuði kr. 234.026,- og hefja greiðslur um áramótin. Stjórnir Framsýnar og Vinnudeilusjóðs hafa ákveðið að gera gott betur og greiða 19% álag á trygginguna. Áætlaður kostnaður fyrir félagið er um 8 milljónir á mánuði en að sjálfsögðu eru bundnar vonir við að takist að semja í janúar. Farið verður betur yfir verkfallsbæturnar hér á eftir undir öðrum lið.

Fræðslumál:

Sjómannadeildin minnir sjómenn reglulega á Sjómennt. Sjómennt er fræðslusjóður sjómanna og útgerðarfyrirtækja. Markmið sjóðsins er að treysta stöðu sjómanna á vinnumarkaði með því að gefa þeim kost á að efla og endurnýja þekkingu sína og gera þá hæfari til að takast á við ný og breytt verkefni. Helstu verkefni Sjómenntar eru m.a. að styrkja starfstengt nám og námskeið fyrir sjómenn. Það er von okkar að þessi sjóður verði vel nýttur jafnt af útgerðarfyrirtækjum sem og sjómönnum sjálfum. Þá er rétt að taka fram að Fræðslusjóður Framsýnar hefur auk þess komið að því að styðja við bakið á sjómönnum í kostnaðarsömu námi. Þeir sem vilja fræðast frekar um úthlutunarreglur sjóðina er bent á að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna sem veitir frekari upplýsingar.

Skrifstofa stéttarfélaganna:

Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 6 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi, reyndar er einn af þeim í 90% starfi  og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar. Til viðbótar eru þrír starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu félagsins og við þjónustu við félagsmenn Framsýnar á Raufarhöfn. Af þeim 6 starfsmönnum sem starfa á skrifstofunni er einn kostaður af VIRK starfsendurhæfingarsjóði og einn að hluta af öðrum stéttarfélögum/samböndum og verkkaupum er tengist framkvæmdunum á Bakka og Þeistareykjum. En eins og kunnugt er réð Framsýn sérstakan starfsmann í vinnustaðaeftirlit á árinu sem kostaður er að hluta af Landsvirkjun, Landsneti, Rafiðnarsambandi Íslands, VM og Samiðn þar sem þessir aðilar eiga mikið undir því að framkvæmdirnar gangi vel á svæðinu.

Framkvæmdir fyrirhugaðar:

Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdir á efri hæðinni að Garðarsbraut 26 sem vísar út á Árgötuna og er í eigu stéttarfélaganna. Innréttaðar verða 8 fullkomnar skrifstofur sem eiga að vera tilbúnar 1. mars 2017. Þær eru hugsaðar til útleigu þar sem stéttarfélögin hafa ekki þörf fyrir þær. Til greina kemur að selja efri hæðina fáist viðunandi verð í húsnæðið.

Öflugt starf og upplýsingamál:

Almennt hefur starfsemi Framsýnar gengið vel á árinu, starfið hefur verið öflugt á flestum sviðum enda mikið lagt upp úr því að tryggja félagsmönnum góða þjónustu og aðgengi að öflugum sjóðum s.s. sjúkra- og starfsmenntasjóðum. Þá undirritaði félagið á dögunum nýjan samning við Flugfélagið Erni sem tryggir félagsmönnum áframhalandi afsláttarkjör á flugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur á árinu 2017. Verðið verður áfram kr. 8.900,- per flugferð.

Hér  að framan hefur verið gerð grein fyrir helstu störfum deildarinnar á umliðnu starfsári. Það er von stjórnar að þið séuð nokkuð vísari um starfsemi hennar á því starfsári sem hér er til umræðu. Einnig er ástæða til að minna á heimasíðu stéttarfélaganna framsyn.is sem er mjög virk og flytur reglulega fréttir af starfsemi félagsins svo ekki sé talað um Fréttabréf stéttarfélaganna sem gefið er út á hverju ári.

Í lokin vil ég þakka sjómönnum, meðstjórnendum og starfsmönnum Framsýnar fyrir samstarfið á liðnu ári. Ekki síst vil ég þakka Kristjáni og Snorra fyrir störf þeirra í þágu sjómanna en þeir hverfa nú úr stjórn og inn koma tveir öflugir sjómenn verði tillaga þess efnis samþykkt hér á eftir.

Jakob Gunnar Hjaltalín formaður

 Ályktun um kjaramál sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á samtök sjómanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að ganga nú þegar frá nýjum kjarasamningi sem byggir á framlögðum kröfum sjómanna.

 Fyrir liggur að sjómenn telja útgerðarmenn ekki hafa komið til móts við helstu kröfur sjómanna og því hafa nýlegir kjarasamningar verið felldir í tvígang með yfirgnæfandi meirihluta.

 Að mati fundarins er ólíðandi með öllu að útgerðarfyrirtækin í landinu skuli ekki sjá sóma sinn í því að undirrita kjarasamning sem byggir á kröfugerð sjómannasamtakanna.

 Það að sjómenn séu búnir að vera samningslausir frá árslokum 2010 lýsir best framkomu útgerðarmanna í garð sjómanna, framkomu sem sjómenn munu ekki líða lengur.

 Um leið og Sjómannadeild Framsýnar sendir sjómönnum og fjölskyldum þeirra hugheilar jóla- og áramótakveðjur skorar deildin á sjómenn um land allt að standa vörð um kjör og réttindi sjómanna“

 Ályktun um stöðu vélstjóra og fiskvinnslufólks í verkfalli sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar átelur Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi harðlega fyrir ákvörðun þeirra um að setja verkbann á vélstjóra frá 20. janúar nk. verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Það þýðir að vélstjórar verða tekjulausir frá þeim tíma þar sem þeir missa launtekjur auk þess að eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Framkoma sem þessi er óafsakanleg og SFS til skammar enda vélstjórar ekki í verkfalli.

 Þá vekur jafnframt athygli að fyrirtæki í sjávarútvegi beini fiskvinnslufólki á atvinnuleysisbætur í verkfalli sjómanna og beri því við að fiskvinnslufólk hafi það mun betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum. Um er að ræða mjög alvarlegan áróður sem á ekki við rök að styðjast.  Væri svo að verkafólk hefði það betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu, væri það mikill áfellisdómur yfir Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni. Það borgi sig að vera á atvinnuleysisbótum í stað þess að vera á launaskrá samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.“

 Reglur um verkfallsbætur til sjómanna innan Framsýnar

Samþykkt um verkfallsbætur í verkfalli sjómanna

„Í samráði við stjórn Framsýnar hefur stjórn Vinnudeilusjóðs félagsins samþykkt að viðhafa eftirfarandi reglur um úthlutun úr sjóðnum í verkfalli sjómanna. Greiddar verða verkfallsbætur frá 1. janúar 2017 alla virka daga meðan á verkfallinu stendur til félagsmanna í Sjómannadeild Framsýnar. Miðað verður við kauptryggingu háseta á mánuði sem er kr. 234.026,-. Til viðbótar verður greitt 19% álag á kauptrygginguna sem samtals gerir kr. 278.371 á mánuði eða kr. 12.845 á dag virka daga.

Sjómenn sem hyggjast sækja um verkfallsbætur þurfa að ganga frá umsókn þess efnis á eyðublaði sem hægt er að nálgast á Skrifstofu stéttarfélaganna og/eða á heimasíðu félagsins. Jafnframt þarf að skila inn skattaupplýsingum á móti greiddum verkfallsbótum þar sem þær eru skattskyldar. Sjómenn sem stunda vinnu í landi, meðan á verkfallinu stendur,  eiga ekki rétt á greiðslum úr Vinnudeilusjóði fyrir þá daga sem þeir eru við störf. Það á einnig við ef þeir stunda sjálfboðavinnu sem almennt telst launuð vinna. Greitt verður út mánaðarlega nema annað verði ákveðið af stjórn Vinnudeilusjóðs.“

sjomennadalfundur1216-107

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einar Örn er hér mjög hugsi yfir skýrslu stjórnar um leið og hann fær sér kaffi og tertu sem var í boði á fundinum í gær.

 

 

Samstaða og baráttuhugur meðal sjómanna á aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar

 

Aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar var að ljúka. Fundurinn var fjölmennur og heitar umræður urðu um kjaramál enda hluti sjómanna innan deildarinnar í verkfalli. Eftir góðar umræður samþykkti fundurinn að senda frá sér tvær ályktanir, annars vegar um kjaramál og hins vegar varðandi ofbeldið sem vélstjórum og fiskvinnslufólki er sýnt. Það er að boða verkbann á vélstjóra og þá eru allt of mörg dæmi um að sjávarútvegsfyrirtæki hafi tekið fiskvinnslufólk af kauptryggingu og sagt því að skrá sig á atvinnuleysisbætur í verkfalli sjómanna. Fyrirtækin hafa jafnvel borið því við að það komi betur út fyrir fiskvinnslufólk sem er beinlínis rangt. Hér má sjá ályktanirnar sem samþykktar voru rétt í þessu. Nánar verður fjallað um fundinn inn á heimasíðu félagsins framsyn.is á morgun.

Ályktun um kjaramál sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á samtök sjómanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að ganga nú þegar frá nýjum kjarasamningi sem byggir á framlögðum kröfum sjómanna. 

Fyrir liggur að sjómenn telja útgerðarmenn ekki hafa komið til móts við helstu kröfur sjómanna og því hafa nýlegir kjarasamningar verið felldir í tvígang með yfirgnæfandi meirihluta. 

Að mati fundarins er ólíðandi með öllu að útgerðarfyrirtækin í landinu skuli ekki sjá sóma sinn í því að undirrita kjarasamning sem byggir á kröfugerð sjómannasamtakanna. 

Það að sjómenn séu búnir að vera samningslausir frá árslokum 2010 lýsir best framkomu útgerðarmanna í garð sjómanna, framkomu sem sjómenn munu ekki líða lengur. 

Um leið og Sjómannadeild Framsýnar sendir sjómönnum og fjölskyldum þeirra hugheilar jóla- og áramótakveðjur skorar deildin á sjómenn um land allt að standa vörð um kjör og réttindi sjómanna“

 Ályktun um stöðu vélstjóra og fiskvinnslufólks í verkfalli sjómanna

„Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar átelur Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi harðlega fyrir ákvörðun þeirra um að setja verkbann á vélstjóra frá 20. janúar nk. verði ekki búið að semja fyrir þann tíma. Það þýðir að vélstjórar verða tekjulausir frá þeim tíma þar sem þeir missa launtekjur auk þess að eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Framkoma sem þessi er óafsakanleg og SFS til skammar enda vélstjórar ekki í verkfalli. 

Þá vekur jafnframt athygli að fyrirtæki í sjávarútvegi beini fiskvinnslufólki á atvinnuleysisbætur í verkfalli sjómanna og beri því við að fiskvinnslufólk hafi það mun betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu hjá fyrirtækjunum. Um er að ræða mjög alvarlegan áróður sem á ekki við rök að styðjast.  Væri svo að verkafólk hefði það betra á atvinnuleysisbótum en á kauptryggingu, væri það mikill áfellisdómur yfir Samtökum atvinnulífsins og verkalýðshreyfingunni. Það borgi sig að vera á atvinnuleysisbótum í stað þess að vera á launaskrá samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.“

sjomennadalfundur1216-109

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nánar verður fjallað um málefni fundarins á morgun á heimasíðu félagsins.